Orðin sumarleyfinleg

Kæru lesendur.

Allir starfsmenn bloggsíðu Einars Haf hafa verið í sumarfríi upp á síðkastið og þar af leiðandi hefur ekki tekist að senda út neinar nýjar bloggfærslur í lengri tíma. Þessi sumarleyfi hafa vakið mikla kátínu og lukku meðal veraldarvefsnotenda og annarra hagsmunaaðila en nú horfir til verri vegar hvað þetta varðar. Ég er vaknaður af svefninum langa og ætla að halda áfram að endurvinna gamla brandara og níða skóinn af sjálfum mér – því ekki vil ég fá hælsæri…eða hallæri.

Ísland er besta land í heimi. Þetta hefur margoft komið fram í ræðu og riti. Við erum sterkust, fallegust, feitust, gáfuðust og með mest mikilmennskubrjálæði allra vestrænna þjóða. Nýjasta rósin í hnappagatið er sárasótt. Íslendingar eiga Evrópumet þegar kemur að fjölda sárasóttar- og klamydíusjúklinga sé horft til hinnar alræmdu höfðatölu. Þetta þykir nokkuð vel af sér vikið en skýringin er sú að einum of margir hjakka í sama farinu hugsunarlaust. Allir eru að gera það gott nema ég…án þess að verjur séu hafðar með í spilinu. Öryggið er hvorki á oddinum né broddinum og því fer sem fer. Landlæknir hefur áhyggjur af áhyggjuleysi landans og leggur til að smokkum verði dreift í grunnskólum. Þar með fær heimanámið alveg nýja og spennandi merkingu. Þó svo að þjóðfélagið verði smokkavætt er ekki þar með sagt að það leysi vandann. Það er ekkert víst að smokkarnir verði notaðir á réttan hátt. Ég fór til dæmis í minn úthverfan í morgun og það býður væntanlega hættunni heim. Engar áhyggjur samt, ég er með fingravettlinga meðan ég skrifa þessa bloggfærslu svo að lestur hennar ætti ekki að smita neinn.

Um þessar mundir eru liðin 50 ár frá því að mennirnir stigu fyrst fæti á tunglið. Þetta er auðvitað stórmerkilegt og enn einn bautasteinninn á vegferð mannkyns í átt til drottnunar yfir sólkerfinu. Alls hafa 12 manns stigið fæti á tunglið svo vitað sé. Ég ætla nú ekki að fara að þylja upp nöfn þeirra allra hér og nú þó vissulega væri það við hæfi en fljótt frá sagt þá er bara Kertasníkir eftir. Hmm…nei kannski ekki. Er ást í tunglinu? Nei bara ostur. Jú og smá grjót. Iss piss.

Nýverið tók ég þátt í Pollamótinu sem haldið var á Akureyri, æsispennandi og bjórangandi fótboltamóti. Aðalatriðið er að vera með og með þau einkunnarorð í farteskinu lék ég með Umf. Óþokka í hverjum spennuleiknum á fætur öðrum. Það hefur nokkuð verið rætt um myndbandsdómgæslu undanfarið og sitt sýnist hverjum. Það voru eflaust nokkrir leikir á Pollamótinu sem hefðu farið öðruvísi hefði VAR notið við. Skiptar skoðanir eru um hvort myndbandsdómgæslan sé til hins betra eða til hins verra fyrir knattspyrnuna og flæði leiksins. Ég skal ekkert um það segja en einu verð ég þó að vera sammála og það er að mjög hægar endursýningar á umdeildum atvikum á Pollamótinu hefðu ekki verið til góða fyrir neinn, hvorki leikmenn, dómara né áhorfendur. Raunar er það einn af mínum helstu kostum sem knattspyrnumaður, að allar mínar hreyfingar á vellinum eru sýndar hægt í rauntíma og því afar auðvelt fyrir dómara og áhorfendur að fylgjast með því sem fram fer og mynda sér skoðun á því jafnóðum.  Hápunktur helgarinnar að mínu mati var þó í lokahófi Óþokka á laugardagskvöldinu þegar Svarfdælingarnir Sigurvin frá Skeiði og Einar á Urðum fóru með erindi og erindisleysur fyrir gesti. Eins og við var að búast sló þetta gjörsamlega í gegn (hlutlaust mat). Á þeim tíma þegar lokahófið fór fram naut ég enn góðs af því að hafa komið fram í 10 fréttum Ríkissjónvarpsins fyrr í sumar en eins og allir vita er komið öðruvísi fram við þekkta og fræga einstaklinga með kunnugleg andlit heldur en hinn almenna almúgamann. Í dag er hins vegar allt dottið í sama gamla farið aftur (hjakka í sama farinu, sjá útskýringu hér fyrr í bloggfærslunni) og ég er á ný fallinn í gleymskunnar dá – og fæ ekki lengur boð um að troða upp á skemmtunum sem þessum.

Sumarfrí landsmanna eru í algleymingi þessa dagana. Stórir jeppar með skuldahala aka um sveitir landsins í leit að ákjósanlegum næturstað. Þetta er í senn fallegt og ljóðrænt – en jafnframt afar kostnaðarsamt. Samkvæmt könnunum eyða mun fleiri Íslendingar sumarfríinu sínu innanlands en áður og ferðir erlendis eru færri. Hvað geri ég? Ég fer helst ekki út fyrir túngarðinn heldur býð átekta á hlaðinu reiðbúinn að taka á móti ferðamönnum sem vilja ólmir skoða Urðakirkju og starfsmann kirkjunnar. Móttökurnar sem ferðamennirnir fá eru blendnar af þeirri einföldu ástæðu að heimilishundurinn fer í manngreinarálit; urrar á suma og sýnir tennurnar en leggur niður skottið við önnur tækifæri og grjótheldur kjafti. Ef ég tæki upp á því að sýna ferðamönnum tennurnar myndi reyndar vandamálið verða úr sögunni, það hættu allir að koma. Það er önnur saga og mun átakanlegri. Gert er ráð fyrir um 17 ferðamönnum í Urðakirkju í sumar en þeir voru 19 á síðasta ári. Samdráttur ferðaþjónustunnar er sem sagt verulegur.

Undanfarið hef ég verið vinnumaður og bóndi og ekki slegið slöku við heldur slegið tún og barist um á hæl og hnakka í heyskapnum með höktandi dráttarvélar, bilaða sláttuvél, sár á sálinni og takmarkaða tæknikunnáttu. Með því að ráða verktaka í öll helstu verk þá tókst að sigla skipinu heim og ljúka fyrri slætti áður en vætutíðin hófst. Fyrirslætti er hins vegar ekki lokið. Heyfengur var þokkalegur og heygæði vonandi ágæt – vonandi bara að rúlluplastið haldi. Rúllunum saman safnað var sumarkvöldin fögur, svona ef þið voruð að velta því fyrir ykkur. Það er önnur saga en þó ekki eins átakanleg og sú sem ég minntist á áðan.

Ég reyndi að fá verktaka til að skrifa þessa bloggfærslu og bauð verkið út en öll tilboð sem bárust voru langt yfir kostnaðaráætlun, svo ég neyddist til að gera þetta sjálfur. Talandi um átakanlegar sögur.

Auglýsendur nota nekt svo seljist meira
natnir græða í þessum geira,
um það sagt ég gæti fleira.

Instagram ég villtist á
grandalausum illa brá
er áhrifavaldinn sá ég þar
með olíubornar rasskinnar.

Finnst þér þetta í lagi? En að blogga eftir að hafa fengið sér einn; finnst þér það í lagi? Þetta er einum of. Samgöngustofa.

Rústir Einar.

Tilvitnun dagsins:

Allir: LEYFI!!!

Orðin ný jú enda júní

Sælu lesendur.

Samkvæmt nýjustu rannsóknum þjáist mikill meirihluti fólks af svefnleysi. Ástæður þessa svefnleysis eru af ýmsum toga. Stress, óhófleg skjánotkun, firring nútímamannsins og lífsgæðakapphlaupið eru líklegar skýringar en trúlegasta skýringin er þó væntanlega næturfundirnir á Alþingi sem haldið hafa vöku fyrir þingmönnum, starfsmönnum þingsins og þjóðinni allri undanfarið. Og enn er þingað. Eitt gott ráð við svefnleysi er að lesa bloggfærslur Einars Haf, enda þykja þær afar svæfandi aflestrar. Vissulega væri betra að hitta Einar Haf í eigin persónu þar sem það eitt og sér þykir verulega þreytandi en það er víst hægara sagt en gert. Þessi bloggfærsla er skrifuð að áeggjan Landlæknisembættisins – til að sporna við svefnleysi þjóðarinnar. Þið munið aldrei ná að halda ykkur vakandi yfir þessu, það er nokkuð ljóst. Hvað á þessi inngangur eiginlega að vera langur? Innlangur gangur innganglangur. Næsta atriði takk.

Vá, þetta var jafn frumlegt og Víkinglottó auglýsingarnar. Sælir Íslendingar, þetta er íslenska glíman og ég vil að þið vinnið í Víkinglottóinu. Geisp.

Þessa dagana er nóg að gera í sveitinni. Sveitinni með stóru S-i. Sveitinni fögru þar sem loftið er svo tært og ljósblikið skært. Svarfaðardalur þykir fegurstur dala hér á landi, það er bæði mat heimamanna og eins hlutlaust mat lesenda bloggsíðu Einars Haf samkvæmt verulega áreiðanlegri en afar óformlegri könnun. Á þessum árstíma þarf að sinna hinum ýmsu verkum. Það þarf að koma fénu á fjall. Það þarf að setja út kálfana, nudda kálfana og teygja á kálfunum. Það þarf að fara út um þúfur. Það þarf að hlaupa undir bagga, þó það sé reyndar ekki gott fyrir bakið ef um stórbagga er að ræða. Það þarf að setja út kýrnar en ekki setja út á kýrnar, gefa hænunum en ekki selja hænunum, hæna köttinn að hundinum, flengja apann og brynna músunum. Svo þarf að slá grasið, standsetja heyvinnutækin, brýna ljáinn, smyrja koppana, tæma koppinn, setja upp stýri, pússa stýrið, staga í sokkana, stagast á veðurspánni og gera við girðingarnar sem kálfarnir hlupu niður þegar þeir voru settir út. Hafi mig einhvern tímann langað í nýtt og ferskt kálfakjöt steikt á teini þá var það einmitt við þær aðfarir.

Síðan ég lét Ríkissjónvarpið taka við mig persónulegt einkaviðtal í Sundskála Svarfdæla um bágborið ástand skálans (sjá síðustu bloggfærslu) hefur nákvæmlega ekkert gerst í skálanum, hvorki til hins betra né verra. Hins vegar virðist viðtalið hafa bjargað ferli mínum sem álitsgjafi og áhrifavalds þegar kemur að hinum ýmsu málum, að minnsta kosti um stundarsakir. Margir sem höfðu gleymt mér létu í ljós hrifningu sína á mér og þeirri staðreynd að ég væri spurður álits í fjölmiðlum, þessi frambærilegi og huggulegi maður (sé horft úr fjarska). Það er þó hætt við því að fljótt fjari undan fimmtán mínútna frægðinni og að brátt verði allt komið í sama farið aftur. Fylgjendum mínum á samfélagsmiðlum hefur ekki fjölgað og þeir hafa ekki fjölgað sér, aðdáendaklúbburinn er enn óstofnaður og skúffan með aðdáendabréfunum er farin að rykfalla verulega. Ég myndi gera næstum því hvað sem er fyrir frægðina, nema kannski að koma nakinn fram í Sundskálanum…eða í sundskýlu. Það fer svo svakalega illa með húðina og húðfellingarnar að velta sér um í köldu og tómu sundlaugarkarinu. Ég skil vel að það atriði hafi verið klippt út úr 10 fréttum Ríkissjónvarpsins.

Sumarið er tími ástar og hamingju. Sumarið getur reyndar líka verið tími haturs og hjónaskilnaða en ég vil frekar einblína á hið fyrrnefnda. Ást landsmanna í garð hvers annars blómstrar sem aldrei fyrr, þar sem það á við. Fjöldi giftinga er fyrirhugaður á næstunni í Svarfaðardal og næsta nágrenni og auðvitað er Urðakirkja vel í stakk búin að annast slíkar athafnir án verulegra vandkvæða. Í samtali undirritaðs við starfsmann kirkjunnar kom fram að heilagur andi hafi sjaldan verið heilagari, orgelið komi vel undan vetri og grassprettan á lóðinni sé með ágætum. Vissulega sé nokkuð af fíflum á lóðinni og í hlaðvarpanum en það verður bara að hafa það – ég get ekkert gert að því þó ég sé svona. Á staðnum er allt sem til þarf ætli fólk sér að halda vel heppnað brúðkaup….eða giftingu. Í júní býður Urðakirkja upp á sértilboð af þess konar kirkjulegum athöfnum; brúðarslör, ljóðræn giftingarheit, Magnús prest og fjórar hrísgrjónalúkur á aðeins 96.990 kr. Hægt að greiða með Netgíró. Athugið, ekki verður gefinn kostur á endurgreiðslum þó svo að viðkomandi hjónaband endi með skilnaði. Vegir Guðs eru órannsakanlegir, meira að segja samkvæmt Google maps.

Gríðarlegt bensínstríð skall á í Reykjavík nú fyrir skemmstu. Mannfall var óverulegt en verðfall töluvert. Atlantsolía hefur undanfarið auglýst bensínsprengju en slíkar sprengjur hafa reyndar ekki verið notaðar hér á landi síðan varnarliðið yfirgaf Keflavíkurflugvöll. Dælan auglýsir lægsta verðið sé tekið vegið meðaltal á hvern dældan lítra á höfuðborgarsvæðinu , Orkan er með ódýrasta heildarverð oktans ef notaðir eru lyklar, kort og afsláttarmiðar en Atlantsolía er með hæsta lægsta verðið á hvern ekinn kílómetra sé tekið meðaltal af bensín- og dísellítra ef viðkomandi á Skoda Octaviu og býr í Grafarvogi. Hvað með íbúa landsbyggðarinnar? Þeir fá að kaupa sitt eldsneyti á gamla góða svimandi háa lítraverðinu án afskipta þessara vitleysinga á höfuðborgarsvæðinu. Sjálfur þarf ég ekki á svona löguðu að halda mikið lengur þar sem ég er þessa dagana að þróa og hanna metantank á Súbbann. Ég sé fyrir mér að geta mokað nýskitnum kúaskít beint í tankinn og með smávægilegum efnahvörfum og prumpulykt keyrt á svokölluðu túrbó-metani vilt og galið um Svarfaðardal og nágrenni, áhyggjulaus og á nánast löglegum hraða. Engar áhyggjur, ef þetta tekst hjá mér læt ég taka annað viðtal við mig í Ríkissjónvarpinu og þá verður það sennilega birt í aðalfréttatímanum en ekki bara í 10 fréttunum.

Tómur skálinn fuss og svei
svekktur kjökr'í kvöldsólinni.
Fylgjendunum fjölgar ei -
fölur græt í annað sinni.

Þess má til gamans geta að í miðju bloggfærslunnar mældist loftþrýstingurinn 989 millibör. Í samtali við veðurfræðing kom fram að þetta væri hvorki merki um lægðir né hæðir heldur eitthvað þar mitt á milli, trúlega hægðir. Annars væri óþarfi að gera veður út af því.

Einar kappinn út um kvippinn og kvappinn.

Tilvitnun dagsins:

Allir: SÓLIN!!!

Orðin fræg…ur

Góðlátlegu lesendur.

Það eru erfiðir tímar, það er atvinnuþref. Ellefti var Gáttaþefur, aldrei fékk sá kvef. Í pontunni á Alþingi ég vaki bæði og sef. Orðin hér í innganginum eru stolin stef. Ofan í holu staddur er en áfram þó ég gref. Klakadröngla af framrúðu með kreditkorti skef. Innganginum lýk ég brátt og frásögn mína hef.

Vá, þetta var rosalega flott. Ertu að tala um innganginn þá? Nei ég er að tala um veðurhorfur næstu daga. Um mann fer kaldur (s)æluhrollur. Svæsin veðurkort fyrir norðurhluta landsins og þrýstnar línur á skjánum. Talandi um bláar myndir. Maður fær bara beinstíft grýlukerti af tilhugsuninni. Samkvæmt veðurkortunum virðast Sjómannadagshretið, Hvítasunnuhretið og 17. júní hretið ætla að ná að renna saman í eitt samfellt hret en það er örugglega met. Jafnvel fret. Við fylgjumst spennt með og veðurklúbburinn á Dalbæ líka.

Eitt af því sem fylgir því að vera gjaldkeri í fornfrægu ungmennafélagi á borð við Umf. Þorstein Svörfuð er að ræða við fjölmiðla um helstu mál og ályktanir sem frá félaginu koma. Hvað er ég að meina? Við sjáum mynd.

Þetta er ekki útbúið í myndvinnsluforriti. Þetta gerðist. Í alvörunni. Áhugasamir geta flakkað aftur í tímann á sjónvarpinu sínu og horft á 10 fréttir Ríkissjónvarpsins að kveldi 23. maí síðastliðinn. Þar tjái ég mig í löngu og ítarlegu drottningarviðtali um þriðja orkupakkann, ástandið á Vesturbakkanum, leðurólar Hatara, Sundskála Svarfdæla, norðanáttina og kolefnisspor Íslendinga svo fátt eitt sé nefnt. Það var svo sem löngu orðið tímabært að hinn Svarfdælski Ragnar Reykás fengi sinn skerf af fjölmiðlaathyglinni. Hvað gerist svo næst? Það væri æskilegt að láta renna vatn í sundskálann og jafnvel að brydda upp á einhverri starfsemi þar í stað þess að láta skálann drabbast niður í ró og næði. Mörgum brá í brún þegar þeir sáu mig á flatskjánum – og ef ungmennafélagið ætlar að þvinga mál í gegn er allt eins víst að ég geri þetta aftur. Og ekki vilja sjónvarpsáhorfendur það, er það nokkuð?

Það leið hjá að Íslendingar þyrftu að stressa sig á því hvar ætti að halda næstu Júróvísíjón keppni. Grallaraspóarnir leðurklæddu sem fluttu framlag Íslands sáu til þess að 10. sætið varð niðurstaðan með því að fara út af laginu, út af sporinu og vera ekki með á nótunum. Þá bökuðu Íslendingar sér heldur engar vinsældir í Ísrael með framferði sínu en þeim mun meiri urðu vinsældirnar reyndar á herteknu svæðunum – þar sem allt er bókstaflega í hers höndum. Upphaflega héldu Íslendingar að þeir hefðu sent hljómsveitina Hatara til Ísrael en í auglýsingum í aðdraganda Júróvísíjónkeppninnar var talað um að gjörningalistahópurinn Hatari myndi flytja framlag Íslands. Í þessu fólust mistökin. Aldrei í sögunni hefur gjörningalistahópur unnið Júróvísíjón og það var ekki að fara að breytast núna. Á næsta ári gætum við kannski prófað að senda til keppni hljómsveit, jafnvel spilandi tónlistarmenn til að bera saman hvort sé vænlegra til árangurs í keppni sem þessari; gjörningalistahópur eða tónlistarmenn. Ég held nú varla vatni yfir þessu öllu, hvað þá að ég haldi lagi. Enda er þetta ekki alveg í lagi.

Vegagerðin hefur nú drullast til að drulla á vegina fram í Svarfaðardal og Skíðadal. Þetta er hið árlega góðverk sem íbúar svæðisins mega eiga von á í sumarbyrjun frá Vegagerðinni og eru þeir flestir afar þakklátir fyrir. Það er jú gott til þess að vita að einhver muni eftir manni. Í næstu rigningartíð mun hið splunkunýja drullulag setjast óumbeðið á þau farartæki sem leið eiga um vegina og þannig verja hin sömu farartæki fyrir grjótkasti og skemmdum. Varnarhjúpurinn mun haldast á farartækjunum þrátt fyrir þvott – enda um að ræða sterkt og endingargott efni. Ég segi bara takk. Holurnar í malarvegunum eru komnar í frí í bili en engar áhyggjur – þær koma alltaf aftur. Svona eins og bloggarinn ég. Og déskotans mávarnir í Urðaenginu.

Eldhúsdagsumræður fóru fram á Alþingi nú fyrr í kvöld, eldhúskvöldsumræður sem sagt. Þingmenn eru hættir að sofa á nóttunni vegna stanslausra umræðna um þriðja orkupakkann og bar umræða kvöldsins þess nokkurt merki að þorri þingmanna er bæði orðinn svefnvana og kulnaður í starfi. Ég fylgdist spenntur með því sem fram fór. Það sem helst stóð upp úr að mínu mati voru hinir sígeispandi þingmenn sem sátu lúpulegir í salnum með bauga undir augunum og starandi ofan í klofið á sér eða snjallsímann meðan sá þingmaður er stóð í pontu hverju sinni babblaði upp úr svefni með eða á móti ríkisstjórninni. Forseti þingsins sat sem steinrunninn undir herlegheitunum og starfsmenn þingsins sátu álengdar ýmist með störu eða svefngalsa. Spennandi verður að sjá hversu lengi menn geta vakað samfleytt á næsta þingfundi – í þágu lands og þjóðar.

Sofðu unga ástin mín
úti regnið grætur.
Miðflokkurinn gætir þín
enda málið ekkert grín
við skulum vaka á þingi daga og nætur.

Þingmenn athugið. Gegn framvísun skilríkja og flokksskírteina fást lítið notaðir vökustaurar nú með 25% afslætti. Tilboðið gildir aðeins um helgina. Munið næturopnunina. Alþingisbúðin.

Einar frammi fyrir alþjóð.

Tilvitnun dagsins:

Allir: MÁLÞÓF!!

Orðið mun sigra

Leðurklæddu lesendur.

Svallið var hömlulaust og þynnkan er endalaus. Ágætlega lýsandi fyrir þær tilfinningar sem lesendur þessarar bloggsíðu upplifa núna. Er þetta allt eitt stórt samsæri? Svarið er já.

Nýverið fór 74. íþróttaþing ÍSÍ fram í Reykjavík. Ungmennasamband Eyjafjarðar átti þar einn þingfulltrúa og að þessu sinni var það gjaldkeri stjórnar, Einar Haf, sem var svo heppinn að fá að flugviskubitast suður yfir heiðar til að sitja sveittur undir umræðum, ályktunum og tillögum um framtíðarskipan íþróttamála hérlendis með helstu forkólfum íþróttahreyfingarinnar. Persónulega þótti mér skautað létt yfir nokkur mál, sérstaklega af hálfu Skautasambandsins. Aðrir létu kylfu ráða kasti, þá einkum og sér í lagi fulltrúar Golfsambandsins en málflutningur Knattspyrnusambandsins missti marks. Hvar var ég á meðan? Nú ég var bara úti að aka með fulltrúum Akstursíþróttasambandsins. Ekki var það nú úr háum söðli að detta, ekki frekar en hjá fulltrúum Landssambands hestamanna. Þinginu lauk með kosningum og pinnamat seinni part laugardags. Ég beið hins vegar ekki boðanna, kom mér burt úr umferðaröngþveitinu og stressinu og hélt aftur heim í Svarfaðardal – dal þann er þykir fegurstur dala á Íslandi.

Þessa dagana standa yfir framkvæmdir við nýjan upphitaðan gervigrasvöll á Dalvík. Fyrirhugað er að völlurinn verði tilbúinn síðar í sumar og mun hann kosta einhvers staðar á bilinu 200-300 milljónir króna þegar allt er talið. Þess er þá væntanlega ekki langt að bíða að nýr upphitaður og yfirbyggður knattspyrnuvöllur rísi við Rima í Svarfaðardal, á heimavelli hins fornfræga og glæsta félags Umf. Þorsteins Svörfuðar. Núverandi heimavöllur félagsins, hinn snarrótarskotni Glæsivöllur eða Field of Glory, er vissulega erfiður heim að sækja en hann er reyndar afar erfiður bæði fyrir heimaliðið og gestaliðið. Stjórn félagsins telur að hægt sé að koma upp nýjum velli sem standist allar nútíma kröfur á mun ódýrari hátt en fyrirhugað er á Dalvík. Notaður verður dúkur sem strengdur verður frá þakskeggi félagsheimilisins og hann festur í trén hinum megin vallarins – þar með er yfirbyggingin komin. Flóðlýsing verður í formi ljósastauranna sem standa við heimkeyrsluna í Húsabakka – þurfum bara aðeins öflugri perur. Grasið verður sennilega bara grænn sólpalladúkur úr Húsasmiðjunni. Kostnaðaráætlun gerir ráð fyrir að framkvæmdin kosti um 157 þúsund krónur og verður hún að fullu fjármögnuð með sjoppusölu á næstu dansleikjum auk smávægilegrar blómasölu um Hvítasunnuhelgina. Þó svo að vallaraðstæður verði bættar frá hinni gegnblautu og harðsnúnu snarrót sem nú prýðir völlinn er ólíklegt að keppnisleikjum á vellinum fjölgi enda er jú aðalmálið að vera með og vera með æfingar – en keppa ekki. Svona eins og við höfum gert í Júróvísíjón söngvakeppninni undanfarin ár. Það er hins vegar önnur og mun dýrari saga.

Duldar auglýsingar njóta sívaxandi vinsælda, bæði hjá fyrirtækjum, neytendum og ekki síst hjá þeim áhrifavöldum sem verða þeirrar gæfu aðnjótandi að fá gefins hinar duldu vörur og hina duldu þjónustu sem þeir greina frá á samfélagsmiðlum. #ad #samstarf. Ríkisskattstjóri hefur sérstaklega gaman af þessu enda er þarna kominn möguleiki á nýrri tekjuauðlind fyrir hinn sísvanga ríkiskassa. Skattleggja þessar gjafir og þennan dulda ágóða í drasl, það ætti að lækka rostann í þessu liði sem glennir sig berrassað framan í mann á Instagram drekkandi orkudrykki, keyrandi á nýjum bílum eða sólandi sig í útlöndum. Svei þessu öllu saman. Er ég öfundsjúkur? Kannski, en það er líka allt í lagi. Heiftin og öfundsýkin knýja mig áfram til góðra verka hér á bloggsíðunni. Það er ekki skattskylt.

Eitt umfangsmesta samsæri seinni tíma er vafalaust tilraun öryrkjans undirförla Báru Halldórsdóttur til að klekkja á þingmönnum Miðflokksins og raunar fleiri opinberum persónum. Ekki nóg með að hún hleraði samtal þeirra á Klausturbar án leyfis heldur eitraði hún fyrir Gunnari Braga þannig að hann týndi fötunum sínum og fór í 36 klukkustunda algleymi. Þá réði hún þrautþjálfaðan rússneskan njósnamjaldur til að leka upplýsingunum til óvina okkar í Evrópu. Trúlega tengist það umræðum um þriðja orkupakkann. Hversu lágt er hægt að leggjast eiginlega? Bára ætti bara að skammast sín fyrir að reyna að koma óorði á þingmennina okkar með þessum hætti, þeir sem vart mega vamm sitt vita. Bára var auðvitað ekki ein að verki, grunsamleg kona með skopparakringlu og ljóðabók kemur líka við sögu í þessu máli – bara spurning nákvæmlega með hvaða hætti og þá hvers vegna?

Yfir öli Bára við barinn lengi sat
upp tók klúrt og rotið drykkjuskvaldur.
Atburðirnir allir víst voru bara plat,
öllu stýrði norskur njósnamjaldur.

Þess má til gamans geta að búningar Hatara í Júróvísijón eru búnir til úr 100% íslensku höfuðleðri.

Einar keðjaður.

Tilvitnun dagsins:

Allir: SAMSÆRI!!!

Orðin við gráturnar

Kristilegu lesendur.

Þetta er vissulega mjög sorglegt en sorglegasta degi ársins getur þó varla lokið (þó svo að tæknilega sé honum lokið) án þess að bloggarinn Einar Haf auki enn á þjáningar sínar og lesenda sinna og negli í eins og eina bloggfærslu – að þessu sinni í samvinnu við Biskupsstofu. Meðan áhrifavaldar Íslands fara til útlanda í boði ferðaskrifstofa og auglýsa hinn ýmsa bráðnauðsynlega varning sem varðar leiðina til betra lífs mun áhrifavaldurinn Einar Haf auglýsa Þjóðkirkjuna og kristin gildi. Blóð Krists, bikar lífsins, oblátur og með því hér rétt á eftir en fyrst þetta.

Páskahátíðin er mesta hátíð í kristnum sið, þegar við minnumst síðustu kvöldmáltíðarinnar, krossfestingarinnar, upprisunnar og sigurs lífsins yfir dauðanum. Hvernig fer þetta svo allt fram? Með stanslausum gleðskap, partístandi, sumarbústaðaferðum, tónleikum, bingóspilum og páskaeggjum. Ekki má þó gleyma kirkjuferðum, bænastundum og Passíusálmum. Sem vilja reyndar stundum gleymast – svona í neysluóðu samfélagi nútímans. Skammist ykkar bara heiðingjarnir ykkar. Upp upp mín sál og allt mitt geð – en ekki er víst að þið komið öll með.

Við sannkristnir menn stöndum oft frammi fyrir erfiðu vali í hinu daglega lífi; milli hins æskilega og hins óæskilega. Í gærkvöldi stóð ég til dæmis frammi fyrir erfiðu vali. Annað hvort að fara í messu í Tjarnarkirkju eða í Barsvar spurningakeppni í Menningarhúsinu Bergi. Á öðrum staðnum var ég með tryggingu fyrir oblátum og áfengu blóði Krists en á hinum staðnum var eftir meira áfengi að slægjast án tryggingar þó. Ég er bara mannlegur og fór því á óæskilegri staðinn – gegn betri kristilegri vitund. Samviskubitið beit þó ekki meira á mig en svo að fyrir rest urðum við Björn Snær frændi ásamt tveimur öðrum liðum í efsta sæti spurningakeppninnar og þökk sé óheppni minni í ástum var ég heppinn þegar kom að spilunum, dró hjartakónginn og viti menn….við unnum bjór, rauðvín og páskaegg. Hvernig held ég upp á þennan árangur? Nú auðvitað með því að loka mig inni og skrifa þessa bloggfærslu þar sem ég fordæmi hömlulausa skemmtun og stóðlífi annarra um páskahátíðina. Skammist ykkar bara heiðingjarnir ykkar. Upp upp mín sál og allt mitt geð – er þetta ekki lína sem ég var kominn með?

Fjölmargir létu krossfesta sig í dag til að minnast þjáninga Jesú Krists á Golgatahæð á sínum tíma. Þetta kemst alltaf í fréttirnar og fyrir vikið þjáist ég þegar ég sé þetta í sjónvarpinu. Ekki veit ég hvernig naglar eru notaðir við þetta í dag en mér skilst að á tímum Jesú hafi menn verið að vinna með fírtommu galvaníserað. Það minnir mig á það, hefur einhver séð naglaklippurnar mínar?

Pílagrímsferðir, passíur og píslargöngur eru partur af páskunum, hvað eru mörg pé í því? Vert er að halda í gamlar hefðir sem annars myndu glatast fyrir fullt og allt. Passíusálmar Hallgríms Péturssonar eru afar gott dæmi um þetta. Stórbrotinn kveðskapur í 50 hlutum um síðustu daga Jesú og þá dramatísku atburði sem áttu sér stað á þeim umbrotatímum sem þá ríktu. Hvers vegna var Jesú krossfestur? Grimm örlög besta töframanns allra tíma – og fyrsta áhrifavaldsins. Ég held að fólk hafi einfaldlega ekki verið tilbúið fyrir boðskap hans og fagnaðarerindi í þá daga – auðvitað allra síst ráðamenn eins og sagan sýnir. Hvernig yrði Kristi tekið í dag væri hann hér á meðal vor? Sennilega myndi hann því miður falla í skuggann af einhverjum flennifleygnum sólbrúnum varabólgnum rassafylltum áhrifavaldinum en þó hef ég trú á að hann næði yfir 100 þúsund lækum á instagram ef hann myndi setja inn mynd af sér gangandi á vatni. Það þykir alveg jafn flott í dag og það þótti í gamla daga.

Fyrir skemmstu fór ég í sauðfjárræktarferð ásamt fleiri kindarlegum Svarfdælingum og áhangendum þeirra sem flestir voru sauðir. Viðeigandi. Ferðin var hin ágætasta og menn bókstaflega drukku í sig fróðleikinn. Fyrst í litlum skömmtum en undir það síðasta úr hálfs líters glösum. Farið var í Fljótin og Skagafjörð og á heimleiðinni var komið við í bruggsmiðju Kalda á Árskógsströnd. Endapunkturinn var Göngustaðakot í Svarfaðardal. Hvað lærði ég svo í þessari ferð? Jú ég lærði það helst að áfengisneysla og gítarleikur fara ekki alltaf saman, allra síst þegar gítarleikarinn er drukknasti maðurinn í partíinu. Hvernig kemur það sauðfénu við? Æi ekki vera með þetta jarm alltaf hreint.

Vantar ykkur meiri heilagan anda og kristilega fyllingu í líf ykkar og vitið þið ekki hvað þið eigið að gera um páskahátíðina? Sækið þá Urðakirkju heim, fræðist um trúarleg gildi, svarfdælska kirkjubyggingarlist og úðið í ykkur piparhúðuðum oblátum. Varahringjarinn tekur slagara á borð við Ring my bell, Clocks og Klukknahljóm og þá verður hægt að leika á nýtískulegt rafmagnsorgel gegn vægu gjaldi. Þið leikið hins vegar ekki á mig; það sleppur enginn út án þess að borga. Trúin flytur fjöll en aðeins gegn sanngjarnri þóknun. Þetta hljóta allir að geta skilið.

Í dag var keppt í hinni árlegu kristilegu krossfit keppni á Golgata hæð – í boði Colgate. Keppt var í nokkrum greinum, þar á meðal krossfestingum, hreystigreip, píslargöngu og upphýfingu…….upprisu. Annie Mist vann keppnina, að launum fékk hún syndaaflausn og páskaegg sem mörgum fannst reyndar algjör synd. Sem betur fer er Annie synd og því verða engir frekari eftirmálar af þessari keppni.

Neysluóð er okkar þjóð
ei fær flúið háska.
Nammiflóð fær krakkastóð
verpi ég eggjum páska.

Þess má til gamans geta að Hallgrímur Pétursson hefði aldrei samið Passíusálmana hefði hann ekki verið á fullum listamannalaunum.

Einar trúaður trúmaður.

Tilvitnun dagsins:

Allir: DÍSES KRÆST!!!

Orðin sjaldséðari en hvítir hrafnar

Fráhverfu lesendur.

Það er svo sannarlega óhætt að segja að ég, sem geng undir nafninu bloggarinn Einar, Einar Haf(sjór) af fróðleik, Einar einstaklega einstaki, Einar út í horni eða það sem konur vilja ekki vera hafi uppfyllt heitustu óskir margra síðasta mánuðinn eða svo og grjóthaldið kjafti hér á öldum ljósvakans. Þetta þykir mörgum hafa verið ágætis tilbreyting en ekkert varir að eilífu og ekki þessi þögn heldur. Engar áhyggjur, þessi inngangur varir heldur ekki að eilífu. Held ég.

Ársþing Ungmennasambands Eyjafjarðar var haldið í gærkvöldi. Samkvæmt skýrslu stjórnar var þetta 98. ársþingið sem haldið er frá upphafi vega – sem þýðir annars vegar að upphaf vega var fyrir ansi löngu síðan og hins vegar að ég hef setið sem gjaldkeri stjórnar UMSE á yfir 10% allra ársþinga sem haldin hafa verið. Einhverjir myndu segja að nú væri mál að linni og komið nóg. Ég var kominn á þá skoðun sjálfur en þegar ég hafði klárað að gera ársreikning ársins og séð neikvæða rekstrarniðurstöðu í fyrsta sinn í lengri tíma ákvað ég að axla ábyrgð og neita að segja af mér – heldur láta kjósa mig sem gjaldkera í tvö ár til viðbótar. Aukinheldur höfðu margir komið að máli við mig í aðdraganda þingsins og ég fann afar mikinn meðbyr. Ársþingið gekk með ágætum, nokkuð var um ræður og umræður og þá var kjötsúpan hreint afbragð. Nú þegar ég hef endurnýjað umboð mitt geri ég ráð fyrir að spreða með fjármuni sambandsins líkt og verið hefur og bera svo í bætifláka fyrir óráðsíuna þegar það er borið undir mig. Ég bý mig að vísu undir það að nú harðni á dalnum og sultarólin herðist, áður en að eyða þarf peningum á ný til að halda upp á 100 ára afmæli UMSE sem er yfirvofandi. Næsta verkefni mitt verður að leggja fram ársreikning Umf. Þorsteins Svörfuðar. Þar er myljandi gróði og bullandi hagnaður og ef að líkum lætur mun ég axla ábyrgð á því einnig með því að sitja áfram sem gjaldkeri. Hvað með samkomuhúsið Höfða? Jú ég setti saman ársreikning þar og yppti svo öxlum án ábyrgðar. Þess má geta að gerviaxlirnar frá Össuri eru allar með 7 ára ábyrgð.

Ríkissáttasemjari stendur í ströngu þessa dagana þar sem leitað er lausna á hinum fjölmörgu kjaradeilum sem tröllríða þjóðfélaginu. Illa hefur gengið að ná aðilum málsins að samningaborðinu. Það var fyrirséð fyrir lifandi löngu að semja þyrfti um kaup og kjör en svo virðist sem það sé fyrst núna að eitthvað sé farið að ræða þau mál af alvöru. Engin augljós lausn virðist í sjónmáli. Verkföll og vinnudeilur virðast vera veruleg vá og voðalegt væl og ég má víst ekki vamm mitt vita. Hve mörg vöff eru í því? Samkvæmt heimildum bloggsíðunnar gera VR og Efling kröfu um að Hatrið muni sigra en Samtök Atvinnulífsins geta ekki elskað neinn. Ríkissáttasemjari er All out of luck og þjóðin spyr; Is it true? Margir vildu Nínu kveðið hafa. Málið fer þó fyrst í hund og kött ef dýralæknar fara í verkfall, af augljósum ástæðum.

Nú á enn einu sinni að reyna að fá það samþykkt á Alþingi að koma bjór og léttvíni í matvörubúðir. Vitleysan ríður ekki við einteyming á þeim bænum og ekki reiða þeir vitið í þverpokum þingmennirnir sem heillast svona af þessum vafasama málstað. Veit þetta lið ekki að það á að þurfa að hafa fyrir því að kaupa áfengi? Það á að þurfa að fara í sérstakan verslunarleiðangur í þar til gerða vínbúð til þess og það á að vera vandlega undirbúin aðgerð að versla áfengi. Fólki á ekki bara að detta það sí svona í hug þegar það er statt í einhverju búðarrápi að kaupa í matinn að nú sé rétt að kaupa áfengi. Verði aðgengi að áfengi aukið verður það upphafið af endinum. Vitið þið til. Þjóðfélagsskipanin fer öll á skjön. Þið hélduð að þetta væri slæmt nú þegar en ekki mun það batna. Einkaneysla mun aukast, skuldir heimilanna vaxa og verðbólgan fara af stað. Mælirinn verður bókstaflega fullur. Bara að hugsa um þetta gerir mig sótsvartan….af bræði. Svona fyrst ég er byrjaður þá mætti líka koma öllum svona líkamsræktarvörum á borð við próteinduft, orkustykki og gagnslausa vítamínbelgi í sérstakar verslanir og burt úr matvörubúðunum. Þá er þetta ræktarlið ekki alltaf að þvælast fyrir manni þegar maður er að reyna að komast í sælgætisrekkann.

Verði vín leyft í matvörubúðum er það sjálfsögð krafa okkar stuðningsmanna vínbúðanna að matvara verði seld í vínbúðunum til að vega upp á móti þessu. Skór eiga að vera í skóbúðum, sumar í sumarbúðum og fangar í fangabúðum. Röð og regla á öllu. Það er draumurinn.

Um síðustu mánaðarmót vantaði mig far úr vinnunni á Akureyri og heim í Svarfaðardal. Ég reddaði mér með því að taka rútuna frá menningarhúsinu Hofi og áleiðis til Dalvíkur seinni part föstudags. Á leiðinni var að vísu stoppað í rúma sex klukkutíma í bruggsmiðju Kalda á Árskógsströnd og smakkað á öllum mögulegum tegundum bjórs en síðan var ferðinni haldið áfram eins og nánast ekkert hefði í skorist. Ef þið trúið mér ekki þá getið þið bara skoðað alla helstu fréttatíma og sjónvarpsþætti frá þessum degi en ég kom fyrir í þeim öllum. Minnir mig. Í kvöldfréttum Stöðvar 2 var ég edrú, í kvöldfréttum RÚV var ég orðinn mildur en í föstudagsþættinum á N4 var ég farinn að drafa. Við komuna til Dalvíkur hitti ég fyrir nokkra af helstu dag-, kvöld- og næturdrykkjumönnum byggðarlagsins og voru það fagnaðarfundir á vissan hátt. Þeir voru alveg sammála mér um það að skerða þyrfti aðgengi að áfengi en það varð reyndar ekki niðurstaðan fyrr en komið var á flöskubotn eða þar um bil.

Um síðustu helgi var messað í Urðakirkju. Fyrirfram var það sérstaklega auglýst að negrasálmar yrðu sungnir í messunni og dró það að nokkra guðhrædda Svarfdælinga og nærsveitamenn. Preis þe lord. Einhver sóknarbörnin komu gagngert til að komast í messukaffi húsfrúnna á Urðum en fleiri komu þó til að hlýða á hringingu varahringjara Urðakirkju, þ.e. þess er þetta ritar. Innhringingin í messuna þótti takast vel en um klassískan innhringitón var að ræða. Úthringingin var svona lala en með æfingunni þá kemur þetta allt saman. Þökk sé símafyrirtækinu mínu þá hringdi ég frítt á sunnudaginn var og þetta kom þar af leiðandi ágætlega út fyrir mig fjárhagslega.

Kræfur ég ákaft klukkum hringdi
kyrrð í dalnum engin var
prestur ótt og títt sig signdi
kórinn söng við gráturnar
sveif svo heim í terturnar.

Þess má til gamans geta að þegar loðnu sjómennirnir fóru í klippingu breyttust þeir í venjulega sjómenn.

Einar á kirkjuloftinu.

Tilvitnun dagsins:

Allir: VERKFALLL!!!

Orðin á fallanda fæti

Fágætu lesendur.

Nú er Snorrabúð stekkur. Og engum stekkur bros. Horfið er nú sumarið og sólin, í sálu minni hefur gríma völd. Hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum glatað? Þetta er alveg glatað. Eitt eilífðarsmáblóm með titrandi tár, sem tilbiður Guð sinn og deyr. Ég get ekki meir. Angistin holdi klædd heilsar lesendum sínum á ljóðrænum nótum þennan biksvarta vetrardag, tilbúin að opna hjarta sitt þeim sem það vilja skilja. Ég hlýt að fara að hætta þessu er það ekki? Jú örugglega. Bloggið lifir ekki að eilífu. Eitt sinn verða allir menn að þegja.

Æi góði besti. Hættu þessu svartagalsrausi og segðu frekar frá einhverju skemmtilegu. Jú jú ég get svo sem látið slag standa og kýlt á það. Tja…þegar ég hugsa um það er kannski best að segja sem minnst. Einn hlekkur á vefslóð getur dimmu í dagsljós breytt, þó stefnuljós gefi ég ekki neitt. Mér þykir það leitt.

Ein pæling. Mun hatrið sigra Sigurjón digra?

Stjórnendur fyrirtækja, bókhaldarar og endurskoðendur standa í ströngu og stórræðum þessa dagana við að gera upp gamla árið í tugum og þúsundum króna. Tilvonandi lesendur reikningsskilanna bíða spenntir eftir því að geta sökkt sér ofan í afkomu og framlegð þess liðna og með því móti komist að því hvaða fyrirtækjarekstur eigi sér viðreisnar von og hvaða fyrirtækjarekstur sé á vonarvöl. Nú þegar hafa nokkur fyrirtæki gefið upp sínar tölur frá liðnu ári og orka margar þeirra afar tvímælis. Innan íþróttahreyfingarinnar er þess beðið í ofvæni að Ungmennasamband Eyjafjarðar og Ungmennafélagið Þorsteinn Svörfuður geri ársreikninga sína opinbera. Beinast þar öll spjót að gjaldkeranum sem hefur alla þræði í hendi sér og öll kort í veski sér…hmm eitthvað var nú bogið við þetta. Þá verður spennandi að sjá afkomu hinna rótgrónu skúffufélaga Ríkisferða ehf. og Bændaferða ehf. en þessi tvö félög hafa sinnt akstri með nauðsynjar og óþarfa fyrir bændur – og jafnvel akstri með bændurna sjálfa, í mörg herrans ár. Fáir botna í tekjumódeli þessara félaga enda er sjaldnast greitt fyrir þennan akstur í formi reiðufjár. Á móti kemur að bæði Toyota Corolla Touring Deluxe 1991 árgerð með rafdrifnum rúðum og götóttu púströri og arftakinn Subaru Impreza Sedan RoadRage 2003 árgerð með ískrandi öryggisbeltum og steinbörðum stuðara framleiða eldsneyti meðan þau eru í gangi og því er hægt að leyfa sér töluvert margar bílferðir. Ekki náðist í forvígismann félaganna, Einar Haf, þar sem hann var úti að aka – einu sinni sem oftar.

Gríðarlega mörg samsæri hafa verið upprætt undanfarið en betur má ef duga skal. Búið er að fletta ofan af atvinnuuppljóstraranum Báru sem situr fyrir alþingismönnum á Klaustri dulbúin sem erlendur ferðamaður. Búið er að afhjúpa yfirgengileg svik bílaleigunnar Procar þar sem búið var að eiga við kílómetramæla bílaleigubíla í miklum mæli og núlla hvern mæli sem var orðinn fullur. Þá þótti einhverjum mælirinn fullur, það er að segja þegar hann var tómur. Varla er þess langt að bíða að fólkið á bak við samsærið gegn afmælisriti Jóns Baldvins verði dregið fram í dagsljósið, sem betur fer, og það látið svara til saka. Jón Baldvin hefur varist fimlega og tjáð sig ítrekað um það í fjölmörgum blaðagreinum og sjónvarpsviðtölum að hann muni ekkert tjá sig um þetta mál. Ég bíð spenntur eftir því að næsta samsæri verði opinberað en ég get mér þess til að það muni tengjast framlagi Íslendinga í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva.

Íslenska þjóðin fylgist í ofvæni með gangi mála í hinni afar umfangsmiklu sjónvarpsþáttaröð Ófærð. Hvert sunnudagskvöld situr þorri landsmanna stjarfur við sjónvarpsskjáinn og reynir að henda reiður á öllum þeim vofeiflegu atburðum sem eiga sér stað á Siglufirði viku eftir viku. Sem betur fer fyrir lögregluna í Fjallabyggð eru bara tveir þættir eftir en það er að vísu nægur tími fyrir allra handa hörmungar að eiga sér stað. Margir velta vöngum yfir því hver sé morðinginn og standi á bak við öll þessi ósköp. Ég er fyrir löngu búinn að átta mig á því og skil raunar ekkert í því að fleiri hafi ekki fattað þetta. Ég fór einfaldlega og las dagbók lögreglunnar á Siglufirði og sá þá hverjar málalyktirnar urðu. Sniðugt. Gárungarnir segja að það hafi verið einhver ilmur á lögreglustöðinni. Hvernig ilmur? Nú auðvitað Ilmur Kristjánsdóttir leikkona. Nei ég segi svona. Hvar eru trommurnar þegar maður þarf á þeim að halda?

Bankastjóri blóðbankans hefur legið undir ámæli undanfarið fyrir að misnota vald sitt, blóðmjólka viðskiptavini bankans í krafti stöðu sinnar og skammta sér ofurlaun, hvort sem um ræðir launaflokk 1, 2 eða 3 eða blóðflokk A, B, AB eða O. Bankastjóranum til varnar er afkoma bankans góð og því er ósköp eðlilegt að hans eigin afkoma sé líka góð. Nokkur blóð-þrýstingur hefur verið settur á bankastjórann að bregðast við þessu og lækka launin en honum hefur ekki runnið blóðið til skyldunnar enn sem komið er. Við fylgjumst spennt með.

Undir háu hamrabelti
hundurinn minn meig og gelti
eldra fólk og börn hann hrellti
sem og menn með magabelti.

Heyrðu þetta var nú kannski ekki alveg nógu gott. Það vantar einhvern brodd í þetta vísnahorn er það ekki?

Mörg er konan þrjósk og þver
þurr á manninn, hörð sem gler,
stöku dólgur þrífst þó hér -
Jón er bald(v)in(n) þykir mér.

Æi þetta skánar trúlega ekkert, það verður bara að hafa það.

Þess má til gamans geta að þessi bloggfærsla er með öllu sýklalyfjaónæm.

Einar baldinn.

Tilvitnun dagsins:

Allir: Samsæri!!!

Orðin næstum æst og kæst

Þorralegu lesendur.

Velkomnir í þessa gallsúru og kæstu bloggfærslu, beint upp úr troginu. Hvort sem þið engist af rengi, svíður af sviðum eða bindið ykkar lundabagga ekki sömu hnútum og aðrir þá ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi hér. Ekki vera svona súr á svipinn, súrmaturinn er bara svona eins og hann er.

Þorrablót Svarfdælinga fór fram á Rimum síðastliðið laugardagskvöld. Blótið fór að mestu vel fram og náðu Svarfdælingar að hlæja, syngja og dansa saman án vandkvæða langt fram á nótt. Þorrablótsnefndin tók sundfataklædd á móti blótsgestum en þema kvöldsins var Sundskáli Svarfdæla. Sú sögulega bygging verður 90 ára í ár. Hver veit nema haldið verði upp á afmælið með því að setja vatn í skálann svo hægt verði að stinga sér þar til sunds á ný? Það er önnur saga. Skemmtiatriði þorrablótsins voru í nokkuð föstum skorðum – og bar annállinn þar hæst. Einar Haf náði að troða sér inn á skemmtidagskránna með lymskulegum hætti en það er svo sem ekkert sem þarf að koma á óvart. Athyglissýkin og framapotið ríður ekki við einteyming á þeim bænum. Upptökur af herlegheitunum hafa nú verið gerðar aðgengilegar á youtube myndbandaveitunni og er það vel, enda um ómetanleg menningarverðmæti að ræða. Ólíkt því sem tíðkast í dag var þessi upptaka ekki leynileg heldur gerð með vilja og vitund þorrablótsnefndarinnar. Takk fyrir mig.

Þau eru æði mörg samsærin. Nýjasta samsærið ku beinast gegn Jóni Baldvini Hannibalssyni en svo virðist sem stór hópur fólks hafi tekið sig saman gegn honum og ætli sér að knésetja bæði hann og fyrirhugað afmælisrit hans – sem hefði eflaust orðið að metsölubók ef ekki væri fyrir allt þetta vesen sem er á manninum. Þetta samsæri er næst í röðinni á eftir samsærinu gegn Klausturþingmönnunum, samsærinu gegn Íslendingum í Júróvísíjón keppninni, samsærinu gegn íslensku sauðkindinni og samsæri lífstílsbloggara og áhrifavalda gegn bloggaranum Einari Haf. Svo er bara spurning hvert er ykkar uppáhalds samsæri? Maður er bara kominn með hælsamsæri af þessu öllu saman.

Það er nokkuð fyrirsjáanlegt að nú byrji ég að tala um innflutt pálmatré í plasthólkum úti á torgi í Reykjavík. Sum mál eru bara of augljós til að hægt sé að taka þau fyrir. Dagur Braggi Eggertsson borgarstjóri mun þó varla falla í sömu gildru og síðast og ekki eyða morðfjár í höfundarréttarvarinn erlendan garðagróður. Það er miklu skynsamlegra fyrir Reykjavíkurborg og borgarsjóð að smygla þessu inn í landið framhjá tollayfirvöldum, til dæmis í einni ferðinni heim frá Kanaríeyjum – það eru jú alltaf að falla til ferðir þangað suðureftir. Þökk sé Jóni Baldvin, innfluttu pálmatrjánum, óminnishegra Gunnars Braga og Hatara allt í platara í Júróvísíonkeppninni þá eru allir fyrir löngu búnir að steingleyma þessum bragga. Ég tala nú ekki um stráin.

Nú er til umræðu á Alþingi og jafnvel víðar að taka upp vegtolla vítt og breitt um landið svo hægt verði að fjármagna lífsnauðsynlegar framkvæmdir í vegakerfinu. Skiptar skoðanir eru um þessar hugmyndir innan þings sem utan. Sumir telja að það sé í hæsta máta ósanngjarnt að þeir sem keyra ákveðnar vinsælar og stórhættulega umferðarþungar leiðir borgi toll en þeir sem kjósi að fara aðrar leiðir og ótroðnar slóðir þurfi ekki að borga neitt. Gott og vel. Það verður aldrei hægt að gera öllum til geðs. Samkvæmt nefndaráliti samgöngunefndar munu þeir sem keyra á Guðs vegum þurfa að borga tíund í toll en þeir sem ferðast á eigin vegum þurfa ekki að borga neitt. Það hefur oft verið dýrt spaug að vera úti að aka en þó sjaldan eins dýrt og núna…rétt bráðum. Vegtollarnir munu ekki ná út um allt land og sums staðar verða útfærslurnar öðruvísi gangi hugmyndir samgöngunefndar eftir. Til að mynda mun enginn borga vegtoll ætli hann sér fram í Svarfaðardal eða Skíðadal. Aftur á móti mun Vegagerðin þurfa að borga hverjum og einum ökumanni fyrir að leggja það á sig að keyra þessa vegi þegar þeir eru upp á sitt besta síðsumars og á haustin. Það á eftir að útfæra nákvæmlega hvernig þetta muni gagnast við tekjuöflun ríkissjóðs.

Eins og áður segir tókst mér að komast inn á skemmtidagskrá þorrablótsins á Rimum. Hér koma nefndarvísur 2019.

Nefndarvísur 2019, samdar við lagið 
"Bráðum koma blessuð jólin".

Kynningunni fer að kvíða
kárna tekur gamanið.
Drekkjum sorgum, dettum íða,
þegar drattast nefnd á svið.


Nefndarkjörið hræddist Kalli
kveið að Erla færi burt -
Hennar bað er kom að balli,
bljúg hún varð að vera um kjurt.


Didda og Gummi dalinn byggja
dunda sínar skepnur við.
Lyf með fölskum tönnum tyggja,
tvísýnt finnst mér ástandið.

Hygg að undir uggum velgi
ástin heita fyrst í stað.
Á Ytra-Hvarfi er alltaf Helgi
Þórhildur hún elskar það.

Næturbrölt á nóttu einni
nefndarbarnið sett'af stað.
Kannski fáum burð í beinni
Björk og Rúnar sjá um það.

Jón og Björk til blótsins hlakka
bæði gerast æst og ör.
Hippar tveir á Húsabakka
hokra þar við kröppust kjör.

Dátt að eigin fyndni flissa
fráleitt er að heyra um.
Ásrún hlær sem öldruð hryssa
Addi lokar eyrunum.

Sigurhjört á sviðið kynni
svei mér hvort ég treyst'onum,
arkar um í afréttinni
allt á sokkaleistunum.

Klár er nefndin komin saman,
kæst er hennar gamanmál.
Ekki vera fýld í framan,
fögnum, syngjum, segjum skál!

Hægt er að horfa á skemmtatriði þorrablótsins á youtube. Góðar stundir.

Þess má til gamans geta að ég skrifaði þessa bloggfærslu dulbúinn sem erlendur ferðamaður. Þess vegna er þetta allt svona ill skiljanlegt.

Einar á hleri.

Tilvitnun dagsins: Allir: SKÁL!!!

Orðin 2019

Æru lesendur.

Já, þá er enn eitt árið hafið og enn einn bloggpistillinn hafinn hjá Einari Haf…inn. Nýtt ár færir nýtt upphaf og Einar Haf og nýjar væntingar en því miður bara sama gamla bloggarann sem virðist lítið ætla að bæta ráð sitt. Hvaða bloggari er það? Auðvitað er ég að tala um sjálfan mig en fyrir þá sem ekki vita þá er ég sjálfur eitt helsta umfjöllunarefni mitt hér á bloggsíðunni minni. Ég um mig frá mér til mín. Fór ég í buxurnar úthverfar í morgun? Nei þær voru sjálfhverfar. Eins og ég.

Í lok jóla hélt Ungmennafélagið Þorsteinn Svörfuður sína árlegu þrettándabrennu við Tungurétt í Svarfaðardal. Aðstæður á brennustað voru nokkuð óhefðbundnar. Snjóleysið var algjört en jörð afar blaut og spáð roki. Veður var hins vegar með skásta móti um kvöldið þegar kom að íkveikju. Vindur var hægur á Tungunum í samanburði við hvernig hann var fram í Svarfaðardal en þar er suðvestanátt reyndar sú alversta vindátt þegar hvassviðrisgangur er annars vegar. Ég og aðrir vaskir ungmennafélagar kveiktum í bálkestinum á slaginu 20:30 og gerðum við okkur að leik að skvetta olíu á eldinn trekk í trekk með þeim afleiðingum að kösturinn varð alelda á skömmum tíma. Ekki nóg með að við kveiktum í bálkestinum heldur reyndum við að brenna eldgamla sinu og lyng í leiðinni og þá gældu einhverjir við að gera kvenfélaginu Tilraun greiða og brenna úr sér genginn kaffiskúr til kaldra kola en það var horfið frá því á síðustu stundu. Áhorfendur þusti að og stóðu þeir gáttaðir meðan þessu fór fram. Björgunarsveitin á Dalvík kom sér fyrir ofan við þjóðveginn og stóð fyrir flugeldasýningu sem heppnaðist vel, vindur var ennþá hægur þegar þarna var komið við sögu og aðstæður til skothríðar hinar ákjósanlegustu. Það sýndi sig þó að skjótt skipast veður í lofti og um leið og flugeldasýningunni lauk snérist vindurinn á einu augabragði úr suðvestan og vestanátt og yfir í norðanátt í svona 30 sekúndur eða svo. Á þeim tíma stóð reykjarstrókurinn frá brennunni beint yfir áhorfendaskarann sem átti fótum sínum fjör að launa. Eldglæringarnar fuku yfir trylltan múginn og mátti hver bjarga sjálfum sér. Það tókst til að mynda með naumindum að bjarga Hiluxinum á Hóli, brennubíl ungmennafélagsins og miðasöluaðstöðu gangnaballsins á Höfða til fjölda ára. Eftir að þessi tímabundna norðanátt hafði fælt brennugesti í burtu tók vind að blása ákveðið af vestri. Raunar svo ákveðið að um nóttina þurfti að kalla út slökkviliðið þar sem brennan var komin áleiðis til Dalvíkur, en allt fór þó vel að lokum.

Nú í upphafi nýs árs hefur fjöldi fólks strengt sér þess heit að gerast betri manneskjur, hætta að drekka og reykja og borða óhollt og hætta að safna skuldum og spiki og öðru óæskilegu og hætta að stressa sig á hlutunum og lifa þess í stað í núinu. Svona gæti ég haldið áfram lengi en ég ætla ekki að gera ykkur það til geðs. Óþarfi er að taka það fram að flest þessara loforða eru á bak og burt þegar kemur að næstu mánaðarmótum en sumir eru þó staðfastir og ná að halda lengur út. Ég hef ekki strengt neitt áramótaheit að þessu sinni annað en það að ég ætla að byrja á þorrakúrnum þegar bóndadagurinn gengur í garð en þá verð ég reyndar nýhættur á Quality Street kúrnum og jólaölskúrnum.

Íslenska karlahandboltalandsliðið stendur í ströngu þessa dagana þar sem Heimsmeistaramótið í handknattleik stendur yfir í Danmörku og Þýskalandi. Íslendingar hafa spilað þrjá leiki þegar þetta er ritað, unnið einn af því við erum svo góð í handbolta og tapað tveimur sökum óheppni, dómara og fámennis. Liðsmenn íslenska liðsins eru í yngri kantinum og þykja afar efnilegir í faginu en sökum ungæðislegs yfirbragðs er ekki gert ráð fyrir umtalsverðum árangri á þessu móti. Aðalatriðið er sem sagt að vera með, eins og ég hef reyndar alltaf sagt. Halló, er einhver á línunni? Þorgils Óttar? Nei greinilega ekki. Næsta atriði takk.

Íþróttamaður UMSE 2018 var útnefndur með viðhöfn um síðustu helgi í safnaðarheimilinu á Dalvík. Þar var margt um manninn og margar fokdýrar viðurkenningar veittar ásamt vel útilátnum veitingum, allt greitt upp í topp af gjaldkera UMSE – sem var auðvitað á staðnum og hélt fast um veskið. Talsvert góður árangur náðist á íþróttasviðinu á síðasta ári og náðu keppendur innan vébanda UMSE í fjölmarga Íslandsmeistaratitla og landsmótstitla af ýmsu tagi. Þessu ber að fagna og eiga hinir þróttmiklu íþróttamenn allt gott skilið. Hægt er að lesa allt um málið á www.umse.is. Að lokinni verðlaunaafhendingunni héldu flestir til síns heima nema reyndar ég, gjaldkeri UMSE, sem varð eftir og hélt áfram að éta súpuna og borða marengsterturnar. Allt fyrir hag ungmennasambandsins.

Hin óborganlegu Vaðlaheiðargöng hafa nú loksins verið tekin formlega í notkun, nokkrum árum og 8 milljörðum á eftir áætlun. Gjaldtaka í göngin hefur valdið nokkrum heilabrotum enda er ekki ætlast til þess að þú notir þér göngin ef þú átt ekki snjallsíma eða kannt ekki á tölvu. Þá getur þú alveg eins bara verið heima hjá þér eða setið fastur uppi á Víkurskarðinu. Skellur, það verður ekki mokað fyrr en í vor. Kannski. Spæling.

Önnur sería af sjónvarpsþáttunum Ófærð er sýnd um þessar mundir í Ríkissjónvarpinu. Sitt sýnist hverjum en þó virðist vera almenn ánægja með þættina og hið ógnvænlega ástand sem ríkir á Siglufirði og í nærsveitum samkvæmt því sem þar kemur fram. Hver er vondi karlinn í þessari þáttaröð? Jón Baldvin? Nei við skulum róa okkur aðeins, þetta er bara bannað innan 12 ára sko.

Áður en ég fer yfir strikið og byrja að móðga einhverja með ógætilegu orðavali er best að skipta yfir í vísnahornið….og móðga einhvern þar í staðinn.

Í enda jóla brenndum bál
brunnu á fólki ýmis mál
blés af krafti kári.
Og áður en að yfir lauk
brennan niður á Dalvík fauk
sjáumst svo að ári.

Þess má til gamans geta að ég skrifaði þessa bloggfærslu með þrívíddargleraugum en ég hefði eflaust verið mun fljótari að því hefði ég notað lyklaborðið.

Einar útbrunninn.

Tilvitnun dagsins Allir: Gjaldtaka!!!

Mót við árin orða

Góðir landsmenn.

Það er til siðs að hefja allar áramótahugvekjur Einars Haf á orðunum ‘það er til siðs’. Þetta er ósköp sjálfsagt og eðlilegt. Nú við áramót er rétt að staldra aðeins við og líta til baka yfir farinn veg, hvort sem það er nú beinn og breiður malbikaður vegur eða grýttur og holóttur malarvegur. Þetta vegur maður og metur. Það er ekki nóg að líta bara til baka heldur verður maður líka að líta í eigin barm og jafnvel stara í eigin barm ef barmurinn er þess virði að starað sé á hann. Við erum jú líka á barmi nýs árs, ársins 2019, sem sumir segja að verði ár Einars. Ég kannaði málið betur og komst að því að næsta ár er ár svínsins samkvæmt Kínverjum þannig að sennilega kemur það allt heim og saman. Árinu 2018 getur ekki lokið án þess að ég sletti í eins og eina áramótahugvekju, mér og öðrum til upplyftingar og andlegs innblásturs. Raunar var það krafa stjórnvalda, biskups og Siðmenntar að vegna bágborins og stöðugt hrakandi andlegs heilsufars þjóðarinnar skyldi ég færa landsmönnum glaðlega áramótahugvekju og blása þeim vonir í brjóst um nýtt og betra ár. Og hvað sagði ég við þessari kröfu? Sénsinn bensinn. Þessi áramótahugvekja var að megninu til unnin upp úr skrifum virkra í athugasemdum á árinu auk þess sem ég hleraði nokkur einkasamtöl, símskeyti og smáskilaboð í heimildavinnunni.

Íslendingar eru þrautseig þjóð. Raunar svo þrautseig að sama hvað á dynur þá stendur þjóðin það af sér þvert á spár greiningardeilda, spámanna og erlendra sérfræðinga. Hvers konar plágur, hörmungar og hallæri sem ríða hér yfir trekk í trekk fá þjóðinni ekki grandað og nú hefur þjóðin náð að þrauka eitt ár til viðbótar þó það hafi verið tvísýnt á köflum. Hvernig stendur á þessu? Margir erlendir útlendingar furða sig á því hvernig í ósköpunum sé hægt að lifa af hér á norðurhjara í svartamyrkri og nístandi kulda ár eftir ár eftir ár. Það þarf auðvitað ekki að leita lengi til að átta sig á þessu. Svarið liggur vitaskuld í sagnaarfinum og menningararfleifð okkar. Þegar sultur og hor ætluðu allt að drepa hér á landi í gamla daga þá greip fólk oft á tíðum til þess ráðs að ýmist kveikja í sagnaarfinum til að halda á sér hita eða þá að borða menningararfleifðina sem oftar en ekki var skrifuð á gómsætt kálfskinn. Með þessari sjálfsbjargarviðleitni komst þjóðin í gegnum það versta og stóð sterkari á eftir. Við hugsum hlýlega til forfeðra okkar og genginna kynslóða nú á þessum tímamótum og munum að líf okkar hér norður við ysta sæ er ekki sjálfgefin staðreynd. Ekki frekar en að það sé sjálfgefin staðreynd að það sé einhver vitglóra í þessari áramótahugvekju.

Góðir landsmenn. Nú á árinu sem er við það að renna sitt skeið höfum við haldið upp á 100 ára fullveldisafmæli Íslands. Íslendingar hafa sem sagt fengið að stjórna sér sjálfir í heila öld með umdeilanlega misgóðum árangri. Skemmst er að minnast þess þegar við sjálf ákváðum að halda fullveldishátíðarfund Alþingis á Þingvöllum nú í sumar og eyða til þess tugum milljóna. Góð ákvörðun hjá okkur. Munum þó að sjálfsákvörðunarréttur okkar örþjóðarinnar hér norður við ysta sæ er ekki sjálfgefin staðreynd. Ekki frekar en að það sé sjálfgefin staðreynd að það sé einhver vitglóra í þessari áramótahugvekju.

Fæstir vita hvað þetta svokallaða fullveldi þýðir í raun og veru en hafa engu að síður tekið virkan þátt í hátíðarhöldum ársins. Ég er þar á meðal. Margrét Danadrottning kom hingað til okkar í desember og samfagnaði okkur á þessum merkilegu tímamótum. Það er vissulega ákveðin upphefð fólgin í því þegar erlendir þjóðhöfðingjar sýna okkur heiður sem þennan. Af þessu tilefni var líka sýnt beint í sjónvarpi allra landsmanna frá Hörpu þar sem sprenglærðir leikarar, hippsterar, góða fólkið, besservisserar, spíssbúbb, himpigimpi og sinfónían fluttu einhvers konar gjörning í beinni útsendingu. Allt var þetta langt fyrir ofan minn skilning og gott ef Margrét Danadrottning dottaði ekki ofan í sígarettupakkann sinn meðan grænlensk inúítapönkhljómsveit lék á slagverk. Hvernig tengist þetta fullveldinu? Það gerir það alls ekki, nema hvað að þökk sé fullveldinu gátum við sjálf tekið þá ákvörðun að reisa tónlistarhúsið Hörpu undir viðburði eins og þennan sem enginn botnar í. Munum að sjálfsákvörðunarréttur örþjóðarinnar hér norður við ysta sæ er….æi skiptir ekki.

Góðir landsmenn. Fjölmörg hneykslismál hafa komið upp á árinu sem er næstum því alveg að verða búið. Klausturshneykslið, Braggahneykslið, þuklhneykslið, Orku náttúrunnar hneykslið, Strokufangahneykslið, Stóra stafræna þjónustufyrirtækishneykslið, Mótmælamótmælahneykslið og svo mætti áfram telja. Það er óþarfi fyrir mig að fara sérstaklega yfir þessi hneykslismál hér enda hafa virkir í athugasemdum nú þegar afgreitt flest þeirra eftir málefnalegar og vel upplýstar umræður á opinberum jafnréttisgrundvelli veraldarvefsins. Munum að svona safarík hneykslismál örþjóðarinnar hér norður við ysta sæ er ekki sjálfgefin staðreynd. Ekki frekar en að það sé sjálfgefin staðreynd að það sé einhver vitglóra í þessari áramótahugvekju.

Þetta væri auðvitað ekki alvöru áramótahugvekja eftir Einar Haf ef ekkert væri minnst á landsins einu von, íslensku sauðkindina. Í gegnum árhundruðin súr og sæt hefur þessi kyngimagnaða og glæsilega skepna haldið lífi í hnípinni þjóð (ásamt sagnaarfinum og menningararfleifðinni) með því að halda henni félagsskap, gefa af sér ull og kynstrin öll af kjöti og innmat. Enn þann dag í dag spilar sauðkindin stóra rullu þegar kemur að lífsafkomu hluta þjóðarinnar. Þá er ég auðvitað að tala um þann hluta þjóðarinnar sem kallast milliliðir í smásölu lambakjöts en þessir milliliðir ná til sín þeirri framlegð sem felst í framleiðslu og sölu á lambakjöti. Bændur halda áfram sínu streði kauplaust en af því að þetta er íslenska sauðkindin gera þeir það með bros á vör. Við erum kindarleg þjóð og margir ráðamenn eru sauðir sem jarma framan í þjóðina ár eftir ár. Munum að sauðkind örþjóðarinnar hér norður við ysta sæ er ekki sjálfgefin staðreynd. Ekki frekar en að það sé sjálfgefin staðreynd að það sé einhver vitglóra í þessari áramótahugvekju. Hmm, mér finnst ég aðeins vera farinn að endurtaka mig en þetta er að vísu endurtekið efni eins og það leggur sig áramót eftir áramót.

Góðir landsmenn, síðustu misseri hafa verið miklir uppgangs- og velmegunartímar hér á landi. Vesæld og depurð hrunáranna er löngu horfin okkur sjónum og þjóðin tók hinu nýja góðæri opnum örmum líkt og gömlum vin. Nýir bílar, utanlandsferðir í tonnatali, neyslulán, matarsóun af því við höfum efni á því og einbýlishús eins og hver gat í sig látið. Allt þetta og meira til gaf árið 2018 okkur. Ljóst er að það þarf að halda vel á spöðunum á árinu 2019 ef það á að vera hægt að toppa þennan árangur. Útlit er fyrir stöðugan óstöðugleika, harðar deilur og átök um skiptingu þjóðarkökunnar nú eftir áramót þegar kjarasamningar losna. Það má öllum vera það ljóst að illdeilur og argaþras skilar okkur engu en samt sem áður verður sú leið væntanlega farin í komandi samningaviðræðum. Spennandi. Munum að ósætti og innbyrðis átök örþjóðarinnar hér norður við ysta sæ eru sjálfgefin staðreynd. Hmm, var ekki eitthvað bogið við þetta?

Þrátt fyrir smæðina og fámennið hafa Íslendingar skipað sér í fremstu röð á ótrúlega mörgum sviðum víðsvegar um heiminn. Við eigum hugvitsfólk, íþróttafólk, lífstílsbloggara og listamenn í fremstu röð. Við eigum áhrifavalda sem tugir og hundruðir þúsunda elta á röndum á samfélagsmiðlum. Við eigum fallegt fólk, sterkt fólk, gáfað fólk, réttsýnt fólk og gott fólk. Síðan eigum við reyndar fullt af einhverju afgangsfólki sem fær bætur langt undir framfærsluviðmiðum en það verður víst ekki við allt ráðið. Munum að misskipting lífsgæða örþjóðarinnar hér norður við ysta sæ eru ekki sjálfgefin staðreynd. Ekki frekar en að það sé sjálfgefin staðreynd að það sé einhver vitglóra í þessari áramótahugvekju.

Góðir landsmenn. Land okkar liggur fjarri heimsins vígaslóð. Það gæti þó breyst með áframhaldandi hnattvæðingu og firringu nútímamannsins í stafrænu snjalltækjaneyslusamfélagi 21. aldarinnar. Mikilvægt er að við sem þjóð höldum í þau gildi sem sameina okkur. Það er þá einna helst tungumálið okkar, gersemin sem okkur ber skylda til að standa vörð um. Þið sem ætlið í skrúfusleik nú um áramótin ættuð að hafa þetta í huga og gæta tungu ykkar. Munum að tungumál örþjóðarinnar hér norður við ysta sæ er ekki sjálfgefin staðreynd. Ekki frekar en að það sé sjálfgefin staðreynd að það sé einhver vitglóra í þessari áramótahugvekju.

Það er réttast að gleyma áhyggjum, sorgum og sút og horfa björtum augum til komandi tíma. Bloggarinn Einar Haf mun halda áfram fyrri iðju og atferli ef að líkum lætur, láta misgáfuleg ummæli falla og biðjast svo afsökunar á þeim jafn harðan. Lífstílsbloggarasamfélagið mun halda áfram útskúfun sinni og það mun fylla mig öfund og heift líkt og síðustu ár. Dæmigert. Einhver ekki sjálfgefin staðreynd sem ég ætti að nefna hér? Æi nei best að sleppa því, nóg er það nú samt.

Aftur koma áramót,
ástandið er snúið.
Brennum bálið, skjótum rót
bölið fáum flúið
því þetta ár er búið.

Góðir landsmenn. Að síðustu þakka ég ykkur fyrir árið sem nú er senn á enda. Farið varlega og gætið þess vel að ganga hægt um gleðinnar dyr, þeir sem ætla að ganga um þær dyr yfir höfuð. Lesendum þakka ég fyrir lesturinn og vona að árið 2019 lendi ekki í ólestri.

Fatahengið á Bessastöðum, 31. desember 2018.

Einar Okkar Hafliðason.