Kæru lesendur.
Allir starfsmenn bloggsíðu Einars Haf hafa verið í sumarfríi upp á síðkastið og þar af leiðandi hefur ekki tekist að senda út neinar nýjar bloggfærslur í lengri tíma. Þessi sumarleyfi hafa vakið mikla kátínu og lukku meðal veraldarvefsnotenda og annarra hagsmunaaðila en nú horfir til verri vegar hvað þetta varðar. Ég er vaknaður af svefninum langa og ætla að halda áfram að endurvinna gamla brandara og níða skóinn af sjálfum mér – því ekki vil ég fá hælsæri…eða hallæri.
Ísland er besta land í heimi. Þetta hefur margoft komið fram í ræðu og riti. Við erum sterkust, fallegust, feitust, gáfuðust og með mest mikilmennskubrjálæði allra vestrænna þjóða. Nýjasta rósin í hnappagatið er sárasótt. Íslendingar eiga Evrópumet þegar kemur að fjölda sárasóttar- og klamydíusjúklinga sé horft til hinnar alræmdu höfðatölu. Þetta þykir nokkuð vel af sér vikið en skýringin er sú að einum of margir hjakka í sama farinu hugsunarlaust. Allir eru að gera það gott nema ég…án þess að verjur séu hafðar með í spilinu. Öryggið er hvorki á oddinum né broddinum og því fer sem fer. Landlæknir hefur áhyggjur af áhyggjuleysi landans og leggur til að smokkum verði dreift í grunnskólum. Þar með fær heimanámið alveg nýja og spennandi merkingu. Þó svo að þjóðfélagið verði smokkavætt er ekki þar með sagt að það leysi vandann. Það er ekkert víst að smokkarnir verði notaðir á réttan hátt. Ég fór til dæmis í minn úthverfan í morgun og það býður væntanlega hættunni heim. Engar áhyggjur samt, ég er með fingravettlinga meðan ég skrifa þessa bloggfærslu svo að lestur hennar ætti ekki að smita neinn.
Um þessar mundir eru liðin 50 ár frá því að mennirnir stigu fyrst fæti á tunglið. Þetta er auðvitað stórmerkilegt og enn einn bautasteinninn á vegferð mannkyns í átt til drottnunar yfir sólkerfinu. Alls hafa 12 manns stigið fæti á tunglið svo vitað sé. Ég ætla nú ekki að fara að þylja upp nöfn þeirra allra hér og nú þó vissulega væri það við hæfi en fljótt frá sagt þá er bara Kertasníkir eftir. Hmm…nei kannski ekki. Er ást í tunglinu? Nei bara ostur. Jú og smá grjót. Iss piss.
Nýverið tók ég þátt í Pollamótinu sem haldið var á Akureyri, æsispennandi og bjórangandi fótboltamóti. Aðalatriðið er að vera með og með þau einkunnarorð í farteskinu lék ég með Umf. Óþokka í hverjum spennuleiknum á fætur öðrum. Það hefur nokkuð verið rætt um myndbandsdómgæslu undanfarið og sitt sýnist hverjum. Það voru eflaust nokkrir leikir á Pollamótinu sem hefðu farið öðruvísi hefði VAR notið við. Skiptar skoðanir eru um hvort myndbandsdómgæslan sé til hins betra eða til hins verra fyrir knattspyrnuna og flæði leiksins. Ég skal ekkert um það segja en einu verð ég þó að vera sammála og það er að mjög hægar endursýningar á umdeildum atvikum á Pollamótinu hefðu ekki verið til góða fyrir neinn, hvorki leikmenn, dómara né áhorfendur. Raunar er það einn af mínum helstu kostum sem knattspyrnumaður, að allar mínar hreyfingar á vellinum eru sýndar hægt í rauntíma og því afar auðvelt fyrir dómara og áhorfendur að fylgjast með því sem fram fer og mynda sér skoðun á því jafnóðum. Hápunktur helgarinnar að mínu mati var þó í lokahófi Óþokka á laugardagskvöldinu þegar Svarfdælingarnir Sigurvin frá Skeiði og Einar á Urðum fóru með erindi og erindisleysur fyrir gesti. Eins og við var að búast sló þetta gjörsamlega í gegn (hlutlaust mat). Á þeim tíma þegar lokahófið fór fram naut ég enn góðs af því að hafa komið fram í 10 fréttum Ríkissjónvarpsins fyrr í sumar en eins og allir vita er komið öðruvísi fram við þekkta og fræga einstaklinga með kunnugleg andlit heldur en hinn almenna almúgamann. Í dag er hins vegar allt dottið í sama gamla farið aftur (hjakka í sama farinu, sjá útskýringu hér fyrr í bloggfærslunni) og ég er á ný fallinn í gleymskunnar dá – og fæ ekki lengur boð um að troða upp á skemmtunum sem þessum.
Sumarfrí landsmanna eru í algleymingi þessa dagana. Stórir jeppar með skuldahala aka um sveitir landsins í leit að ákjósanlegum næturstað. Þetta er í senn fallegt og ljóðrænt – en jafnframt afar kostnaðarsamt. Samkvæmt könnunum eyða mun fleiri Íslendingar sumarfríinu sínu innanlands en áður og ferðir erlendis eru færri. Hvað geri ég? Ég fer helst ekki út fyrir túngarðinn heldur býð átekta á hlaðinu reiðbúinn að taka á móti ferðamönnum sem vilja ólmir skoða Urðakirkju og starfsmann kirkjunnar. Móttökurnar sem ferðamennirnir fá eru blendnar af þeirri einföldu ástæðu að heimilishundurinn fer í manngreinarálit; urrar á suma og sýnir tennurnar en leggur niður skottið við önnur tækifæri og grjótheldur kjafti. Ef ég tæki upp á því að sýna ferðamönnum tennurnar myndi reyndar vandamálið verða úr sögunni, það hættu allir að koma. Það er önnur saga og mun átakanlegri. Gert er ráð fyrir um 17 ferðamönnum í Urðakirkju í sumar en þeir voru 19 á síðasta ári. Samdráttur ferðaþjónustunnar er sem sagt verulegur.
Undanfarið hef ég verið vinnumaður og bóndi og ekki slegið slöku við heldur slegið tún og barist um á hæl og hnakka í heyskapnum með höktandi dráttarvélar, bilaða sláttuvél, sár á sálinni og takmarkaða tæknikunnáttu. Með því að ráða verktaka í öll helstu verk þá tókst að sigla skipinu heim og ljúka fyrri slætti áður en vætutíðin hófst. Fyrirslætti er hins vegar ekki lokið. Heyfengur var þokkalegur og heygæði vonandi ágæt – vonandi bara að rúlluplastið haldi. Rúllunum saman safnað var sumarkvöldin fögur, svona ef þið voruð að velta því fyrir ykkur. Það er önnur saga en þó ekki eins átakanleg og sú sem ég minntist á áðan.
Ég reyndi að fá verktaka til að skrifa þessa bloggfærslu og bauð verkið út en öll tilboð sem bárust voru langt yfir kostnaðaráætlun, svo ég neyddist til að gera þetta sjálfur. Talandi um átakanlegar sögur.
Auglýsendur nota nekt svo seljist meira
natnir græða í þessum geira,
um það sagt ég gæti fleira.
Instagram ég villtist á
grandalausum illa brá
er áhrifavaldinn sá ég þar
með olíubornar rasskinnar.
Finnst þér þetta í lagi? En að blogga eftir að hafa fengið sér einn; finnst þér það í lagi? Þetta er einum of. Samgöngustofa.
Rústir Einar.
Tilvitnun dagsins:
Allir: LEYFI!!!