Orðin dæmalaust fordæmalaus

Tilslökuðu lesendur.

Árið 2020 hefur það sem af er boðið upp á endalaust glens, grín og kaldhæðni á háu stigi. Því er það trúlega að bera í bakkafullan lækinn að ætla að fara að spauga eitthvað með ástandið hér á opinberum vettvangi veraldarvefsins. Ég get hins vegar ekki setið lengur þegjandi undir þessu öllu og í ofanálag er sjálf Hvítasunnan ný afstaðin. Þá er heilags anda minnst en það er einmitt þessi heilagi andi sem knýr mig áfram í skrifunum að þessu sinni. Samkvæmt loftgæðamælinum í Urðakirkju á hádegi í dag voru 0,2 míkrógrömm af heilögum anda á hvern rúmmetra en 1,7 míkrógrömm af kirkjuflugum og 2,2 míkrógrömm af postulegri blessun. Því má segja að loft hafi verið lævi blandið og skyldi engan undra.

Nú í byrjun maí gerði staðbundið suðvestan fárviðri í Svarfaðardal með þeim afleiðingum að þak og þakkantur fuku af aldraðri fjóshlöðu sem hér stendur og lenti brakið niðri á túni eftir að hafa haft viðkomu á nokkrum útihúsaþökum til viðbótar og skemmt þau. Til mikillar mildi slasaðist enginn en nokkrum blöskraði. Sem dæmi um hvassviðrið þá fauk þornaður skítur sem borinn hafði verið á heimatúnið og sú mykja sem lenti ekki á íbúðarhúsinu og heimilisfólkinu lenti á öðrum túnum hér utar í landareigninni. Að mínu mati var þetta táknrænt fyrir þá mánuði sem liðnir eru af árinu 2020. Hlaðan sem skemmdist er byggð rétt fyrir miðja síðustu öld og þoldi greinilega ekki þá 50 metra á sekúndu sem boðið var upp á þennan daginn þegar verst lét. Björgunarsveitin á Dalvík bjargaði því að ekki fór enn verr þennan dag og kann ég þeim bestu þakkir fyrir. Síðustu daga hafa smiðir unnið að viðgerðum og endurbótum og er meðal annars búið að stækka hurð sem var sunnan á hlöðustafninum sem skemmdist, þannig að nú er hægt að keyra þar inn og út á liðléttingi. Framkvæmdirnar verða að nokkrum hluta fjármagnaðar af vátryggingafélaginu en einnig hef ég í hyggju að ná niður kostnaðinum með því að bjóða styrktaraðilum að setja vörumerki sitt á nýju hlöðudyrnar gegn sanngjarnri greiðslu. Vonandi fá þær hugmyndir betri hljómgrunn en þegar ég freistaði þess að fá ÁTVR til að styrkja altarisgönguna í Urðakirkju forðum.

Vorverk standa nú yfir í Svarfaðardal og raunar víðar. Sauðburði er víða lokið, jarðvinnsla og áburðardreifing er langt komin en girðingarvinna á nokkuð í land ennþá. Allavega hér á þessari landareign þar sem fjallgirðingin er ekki „nema“ einhverjir fimm kílómetrar og fremur illa farin eftir átök vetrarins. Ég myndi sennilega slá á létta strengi af þessu tilefni ef ekki vildi svo illa til að strengirnir eru allir meira og minna slitnir. Leiðindi.

Talandi um leiðindi. Nú virðist vera yfirvofandi borgarastyrjöld í Bandaríkjunum, ástand heimsmálanna er voveiflegt og örbirgð og hungursneyð blasir við milljónum manna, kvenna og barna. Alda mótmæla hefur skollið á flestum ríkjum Bandaríkjanna eftir nýlegt lögregluofbeldi og útlitið er svart. Ekki náðist í Öldu mótmæla vegna þessarar umfjöllunar.

Heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur verið á nokkru undanhaldi hér á Íslandi síðustu vikur og þykjast einhverjir sjá út úr kófinu eins og það er kallað. Þetta má þakka fumlausum og fáguðum viðbrögðum viðbragðsaðila og Þórólfs sóttvarnarlæknis sem sótt var að á tímabili. Hlýðni almennings hefur spilað stóra rullu í baráttunni við veiruna og hafa allir lagst á eitt þegar kemur að félagslegum fjarlægðarmörkum, þrotlausum handþvotti og því að halda sínum vandamálum innan veggja heimilanna en bera tilfinningar sínar ekki á torg. Auðvitað, það er mun meiri smithætta á torgum heldur en inni á heimilum. Lykillinn að árangri í baráttunni við pláguna er sá að gera líf sitt markvisst leiðinlegra en áður og sneiða hjá öllum bráðsmitandi og stórhættulegum skemmtilegheitum. Þetta hefur haft veruleg áhrif á mig og mína tómstundaiðju enda var ég vanur því mér til skemmtunar að leggja leið mína inn á hjúkrunarheimili og sjúkrastofnanir hér áður fyrr til þess eins að hnerra duglega út í loftið og knúsa svo varnarlausa og bláókunnuga langlegusjúklinga. Þá þótti mér fátt ánægjulegra en að fara í ræktina til að nudda svitanum á æfingatækin og strjúka rökum þjóhnöppunum eftir bekkjunum í búningsklefanum. Þetta þurfti ég að gefa upp á bátinn í þágu sóttvarna ásamt einhverju öðru sem mig minnir að hafi verið kallað félagslíf en er nú löngu gleymt. Þema ársins 2020 = Leiðindi = Öruggt og áhyggjulaust líf. Segir sig sjálft. Góða „skemmtun“ áfram.

Yfirvöld eru þessa dagana að telja í sig kjark til að geta opnað landið að nýju fyrir ferðamönnum án þess að ferðamennirnir þurfi í sóttkví við komuna til landsins. Ekki eru allir á eitt sáttir varðandi þetta mál, enda hefur það margoft sýnt sig að flest hið illa sem plagar Íslendinga kemur að utan. Hver man ekki eftir riðuveika hrútnum sem var fluttur hingað frá Bretlandseyjum á 19. öld? Við erum enn að súpa seyðið af því. Hver man ekki eftir Tyrkjaráninu, móðuharðindunum og spænsku veikinni? Hver man ekki eftir iðnaðarsaltinu, pönkinu, Bobby Fischer og Keikó? Ég held að við ættum að passa okkur áður en við förum að hleypa hverjum sem er hingað á eyjuna okkar hreinu og fögru aftur. Við erum nefnilega fullfær um að klúðra málunum sjálf og þurfum engin útlend áhrif til þess. Til dæmis hefur umgengni við sumar náttúruperlur versnað til muna eftir að ferðamennirnir fóru og Íslendingar sátu einir að óspilltri náttúru. Það er ekki svo mikill munur á spilltri náttúru og óspilltri náttúru. Bara eitt ó…eða Ó! – og þá er búið að spilla öllu.

Covid-19 hefur ekki greinst í Svarfaðardal enn sem komið er svo vitað sé og er það vel. Hér áðan var minnst á riðuveikan hrút frá Bretlandseyjum og raunar er það mín tilgáta að veira á borð við þá sem veldur Covid-19 þrífist ekki hér á svarfdælskri grund þar sem veiran þarf að lúta í lægri haldi fyrir riðu, gin- og klaufaveiki og öðrum búfjársjúkdómum sem hafa þrifist hér mun lengur og erfitt er að gera burtræka. Meira að segja fyrir útlenska drepsótt.

Nú er hin svokallaða tveggja metra regla orðin valkvæð. Þetta þýðir að einstaklingar geta verið nær hvorum öðrum en sem nemur tveimur metrum en þeir geta líka verið fjær. Annar tveggja getur ákveðið að vera nær en hinn fjær og er það undir hverjum og einum komið þegar svo er komið. Ef upp kemur smit hefði viðkomandi einstaklingi verið nær að vera fjær en vonandi nær hann sér samt fljótt aftur. Vegna tveggja metra reglunnar hefur skemmtanahald verið með fremur óhefðbundnu sniði undanfarið, það er að segja það skemmtanahald sem á annað borð hefur ekki verið slegið af. Aðeins má hafa bari og skemmtistaði opna til kl. 23:00 og því hefur fólk þurft að grípa til þess ráðs að sturta í sig mun fyrr og á mun skemmri tíma en venjulega – í þágu sóttvarna. Ef þú þarft að æla eftir stífa seinniparts hraðdrykkju er gott að viðhalda tveggja metra reglunni þannig að gumsið lendi ekki á næsta manni. Þrátt fyrir allra handa hörmungar og hömlur er gert ráð fyrir að gangnaball Svarfdælinga í samkomuhúsinu Höfða fari fram án hafta sunnudagskvöldið 13. september. Á teikniborðinu er að bjóða upp á sérstakt úrræði fyrir þá sem vilja halda tveggja metra reglunni á ballinu með því að girða af lítil tveggja metra svæði úti á túninu norðan við húsið með öflugri rafmagnsgirðingu – svokölluð VIP stæði. Þar getur fólk hólfað sig af og heyrt óminn af ballinu um leið, að því gefnu að það hafi greitt aðgangseyrinn. Leitað verður ráða hjá almannavörnum, sóttvarnarlækni, fjallskilastjóra, biskupsstofu og héraðsdýralækni þegar nær dregur varðandi nánari útfærslu.

Eftir langan og grimman vetur eiga ýmsir um sárt að binda. Þar á meðal hinar svarfdælsku vegstikur sem liggja margar hverjar í valnum. Fyrir skemmstu tók ég mig til og samdi ljóð hinni svarfdælsku vegstiku til heiðurs.

Í vegkantinum stóð hún hrein og fögur
húðin gul með gráleitt endurskin.
Hávaxin og fríð en frekar mögur
framhjá henni æddi umferðin.

Að vísa veginn gerði hún með sóma
villtir gátu rambað rétta leið,
svo laus við allan hroka og hleypidóma
hjálpað gat hún bílstjórum í neyð.

Svo ríkti dimmur vetur yfir dalnum
drifhvít mjöllin færði allt á kaf.
Vegvísirinn liggur nú í valnum
vetrarríkið lifði ekki af.

Snjóblásarinn sundur hana tætti
sendi burt á feðra sinna fund.
Mærin gul sem eitt sinn vegar gætti
götótt liggur nú á kaldri grund.

Er ég að gleyma einhverju? Nei ég hef engu gleymt. Eða jú kannski. Man það ekki alveg. Það kemur þá bara í ljós í næstu bloggfærslu.

Þess má til gamans geta að grasið er ekki endilega grænna hinum megin. Það veltur á því hversu grænt það er þeim megin sem þú ert.

Einar í tvo metra.

Tilvitnun dagsins:

Allir: LEIÐINDI!!!

Orð í verulegum páska

Uggandi lesendur.

Í ljósi stöðunnar sem uppi er í þjóðfélaginu og vegna skorts á andlegri næringu um páskana hef ég ákveðið, að höfðu samráði við Biskupsstofu, prestaráð, almannavarnir og ríkisráð að ráðast í gerð eins og einnar páskahugvekju til opinberrar birtingar. Á efnisskránni er meðal annars útdráttur úr passíusálmunum, opinskátt viðtal við páskahérann, páskaeggjafeluleikur, biblíulegar tilvísanir og beitt umfjöllun um krossfestingar að fornu og nýju. Rúsínan í pylsuendanum er svo hið árlega kraftaverk. Ekki reyndist unnt að fá Jesús til að breyta vatni í vín að þessu sinni en þess í stað mun Áslaug Arna dómsmálaráðherra breyta ÁTVR í vefverslun í lok bloggfærslunnar, sem telst nokkurt kraftaverk. Við fylgjumst spennt með. Eða ekki.

Rétt er að halda því til haga að í dag er föstudagurinn langi, sorglegasti dagur ársins samkvæmt kristnu tímatali. Það er því auðvitað engin tilviljun að hugvekjan sé birt á þessum degi.

Jesús Kristur var fyrsti áhrifavaldurinn sem eitthvað kvað að. Fræðimenn eru ekki sammála um hversu marga fylgjendur hann átti enda hefur Instagram reikningur hans ekki varðveist en þó er vitað að þeir skiptu hundruðum þúsunda. Líkt og gamla testamentið greinir frá fékk Jesús flest læk þegar hann gekk á vatni, enda hafði þá lítið sem ekkert vatn runnið til sjávar. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Lækin voru litlu færri þegar Jesús brauðfæddi þúsundir fylgjenda sinna með fimm brauðum og tveimur fiskum en önnur kraftaverk féllu nokkuð í skuggann af þessu. Nú þegar allt er í kalda koli, ruglað og öfugsnúið í veröldinni er rétt að minnast lífshlaups frelsarans og þeirra ótrúlegu þjáninga sem hann upplifði í þágu mannanna. Lesendur tengja hugsanlega eitthvað við þetta þegar þeir pína sig gegnum þessa hugvekju.

Jesús Kristur er enn þann dag í dag í fremstu röð meðal áhrifavalda. Þetta sést ágætlega á því að nú safnar almenningur hári án afláts og gengur um í þægilegum klæðnaði, ekki ósvipað og frelsarinn gerði undir það síðasta. Von er á afar neikvæðum hagvexti en mjög jákvæðum hárvexti hér á landi næstu vikurnar, eða þar til óhætt verður að opna hársnyrtistofur að nýju. Spennan er óbærileg. Allavega sú sem er í hárinu.

Eins og einhverjir muna var helgidagafriður hér á landi afnuminn með lagasetningu á Alþingi síðasta sumar, í boði nýfrjálshyggju og algjörlega í minni óþökk. Höfðu margir léttþenkjandi píratar, lattélepjandi 101 himpigimpi og auðtrúa trúleysingjar hugsað sér gott til glóðarinnar og sáu fyrir sér hömlulaust fjör, drykkju, dans og bingóspil á föstudaginn langa. Þvílík flón. Æðri máttarvöld (almannavarnir í samstarfi við almættið) gripu sem betur fer í taumana og lögðu blátt bann við öllum mannamótum og skemmtanahaldi næstu vikurnar, þannig að helgidagafriðurinn er rækilega tryggður. Mátulegt á þessa bingósjúku vitleysinga sem þurfa nú annað hvort að sitja heima hjá sér og skammast sín eða fela sig í sumarbústaðnum í óþökk Víðis Reynissonar. Verði þeim það að góðu.

Yfirstandandi samkomubann hefur haft gríðarleg áhrif á allt þjóðlífið. Þó eru undantekningar þar á. Ég verð til dæmis lítið var við þetta persónulega enda alvanur því að loka mig af og bíða af mér allskonar hörmungar og leiðindi. Þá gengur lífið nokkurn veginn sinn vanagang í Svarfaðardal og til sveita almennt – enda auðveldara að eiga við óværur eins og þá sem nú gengur yfir í dreifbýlinu. Ýmsar ytri aðstæður hafa hægt á dreifingu kórónaveirunnar í Svarfaðardal, svo sem viðvarandi ófærð og holóttir malarvegir. Það eru því engir á ferð nema þeir nauðsynlega þurfi þess. Bændur halda sínu striki og gera allt eins og venjulega nema hvað að það má ekki flaðra upp um sæðarann, kjassa sorphirðumennina, knúsa mjólkurbílsstjórann, sleikja upp olíubílstjórann eða þreifa á fóðurblöndubílstjóranum sem stendur. Von er á risastóru hópknúsi þegar sóttvarnarlæknir gefur grænt ljós á slíkt.

Síðustu vikur hefur það komið bersýnilega í ljós að margir hverjir þola engan veginn við heima hjá sér og stefnir víða í óefni. Dæmin eru mýmörg. Makinn nöldrandi, krakkarnir gargandi, kötturinn hvæsandi, hundurinn organdi, sjónvarpsfréttirnar hræðandi og taugatitringurinn undir niðri kraumandi. Þeir sem lifa tvöföldu lífi hafa orðið sérstaklega illa úti við þær aðstæður sem nú ríkja og hafa sumir neyðst til að sinna viðhaldi heima hjá sér í staðinn. Tilboð byggingavöruverslana eru dæmi um það. Þá eru innbrotsþjófar margir hverjir komnir á atvinnuleysisbætur enda ekki nokkur lifandi leið að brjótast einhvers staðar inn þegar allir eru heima hjá sér.

Nú á dögum er hver búðarferð verulega áhættusöm. Engin leið er að vita hver hefur hnerrað hvar, hver hefur slefað yfir hvaða súkkulaðibréf og hver hefur nuddað sér upp við hvaða Cherios pakka. Hver snerting er varasöm, jafnvel baneitruð – og því eru skipulag og leikkerfi mikilvægari en nokkru sinni fyrr. Ég fór í Nettó á Glerártorgi nú í aðdraganda páskanna til að fylla á forðabúr Urðabænda. Mætti ég afar vel undirbúinn til leiks, vopnaður mílulöngum innkaupalista. Í aðdragandanum hafði ég tekið þrjá myndbandsfundi með sjálfum mér þar sem ég skoðaði upplegg andstæðinganna og þá hafði ég rissað upp hvernig leikkerfi ég myndi spila þegar á hólminn væri komið. Aðalmálið var að skapa sér pláss á vellinum og viðhalda tveimur metrunum. Kerfið sem ég lagði upp með var kairó hægri með júggafærslu-spritt-grænmeti-brauð-mjólkurkælir-nammi-brauð-kex-súpur-álegg-kjötmeti-nammi-frystir-nammi-frystir-nammi (gabbhreyfing)-lífrænt (stutt stopp)-súpur-sósur-niðursuða-nammi-klósettpappír-nammi og drykkjarföng en auðvitað riðlaðist leikskipulagið eitthvað þegar í búðina var komið. Það spilar jú enginn betur en andstæðingurinn leyfir og enginn kaupir meira en innkaupalistinn og inneignin á kortinu leyfir. Dómarar og línuverðir voru á hverju strái og dæmdu umsvifalaust skref aftur á bak og tvo metra ef ástæða þótti til. Fólkið á moppunum var mjög virkt og sprittkeimurinn sveif yfir rekkunum. Vel gekk að komast að afgreiðslukassanum þar sem ég sveif inn af tveggja metra línunni eftir gott gegnumbrot. Eftir sprittaða kortastraujun forðaði ég mér á hlaupum með allt góssið.

Samkvæmt því sem ég hef í heimóttarskap mínum látið frá mér fara í páskahugvekjum fyrri ára eru algjörir draumapáskar í uppsiglingu. Fólk er ekki erlendis á skíðum að góðæra sig í drasl eða sleikjandi sólina við Miðjarðarhafið. Ó nei. Fólk er þess í stað guðhrætt heima hjá sér að hugsa um krossfestingu Krists á meðan það snæðir kindabjúgu. Getur þetta verið eitthvað dásamlegra? Ég held ekki. Óttist eigi kæru landar. Sauðkindin mun koma okkur í gegnum þetta hallæri líkt og öll hin fyrri. Sannið þið bara til.

Þjóðin núna þjökuð er
þjáist líkt og frelsarinn.
Líf mun lagast, trúið mér
ljósgeislinn er upprisinn.

Ef einhverjir vilja negla mig fyrir þetta þá verð ég að taka þann skell. Annars vona ég að þið eigið ánægjulega páskahátíð og gleðilega upprisu.

Þessi krossfesting var í boði Límtré vírnets og Golgate, tannkrem fyrir lengra komna.

Friður sé með yður. Amen.

Bak við predikunarstólinn í Urðakirkju, föstudaginn lengsta 2020.

Séra Einar Hafliðason

Tilvitnun dagsins:

Allir: ÞAÐ ER BARA EIN F***ING REGLA…OG ÞAÐ ER AÐ NEGLA!

Orðin afturgengin

Einangruðu lesendur.

Eins og glöggir lesendur tóku mögulega eftir hafði ég fyrir nokkru látið af störfum sem bloggari. Ég strengdi áramótaheit þar sem ég sór þess dýran eið og lagði við drengskap minn að ég gæti ekki gert lesendum og sjálfsvirðingu minni það mikið lengur að halda uppteknum hætti frá því sem verið hafði og blogga án afláts og án ábyrgðar um menn og málefni. Í ljósi þeirra voveiflegu atburða sem orðið hafa frá því að þessi ákvörðun mín var tekin síðasta gamlársdag hef ég þó neyðst til að íhuga stöðu mína að nýju. Að beiðni almannavarna hef ég því ákveðið að sitja ekki lengur þegjandi undir ósköpunum, nú þurfum við á öllum okkar leynivopnum að halda.

Síðan ég bloggaði síðast hefur sá gleðilegi merkisatburður gerst að ég er orðinn móðurbróðir. Systur minni, manni og barni heilsast vel í Kaupmannahöfn og raunar held ég að þetta sé ágætis tími til að vera í fæðingarorlofi heima hjá sér. Heima er best, það er að segja ef það er ekki pest. Gaman verður að hitta litla frændann þegar holskefla slæmra tíðinda og landamæralokana verður um garð gengin.

Síðan ég bloggaði síðast hefur brotist út skæður veirufaraldur á heimsvísu. Mun þarna vera á ferðinni ein þeirra tíu plága sem greint er frá í Biblíunni en hinar níu eru íslenskar kjaradeilur og verkföll, veðrið í vetur, jarðskjálftar, horfellir, fjárkláði, svínaflensa, svarti dauði, skráning raunverulegra eigenda og engisprettufaraldur. Ástandið gerist fordæmalausara og fordæmalausara með hverjum deginum sem líður og eru engin fordæmi um slíkt sé litið í sögubækurnar. Að gefnu tilefni er rétt að benda lesendum á að það er stranglega bannað að koma við sögu með berum höndum, vinsamlegast notið hanska og veiruþolinn hlífðarfatnað.

Þessi bloggfærsla er partur af þeirri stefnu yfirvalda að auka framboð á afþreyingu sem farlama, sjúkir, aldraðir og öryrkjar geta notið heima hjá sér, þar sem allar samvistir og félagsstarf þessara hópa er bannað sem stendur. Eldri borgarar og fólk með sjóntruflanir hefur í gegnum tíðina verið minn helsti aðdáendahópur og það mun væntanlega ekki breytast núna. Allir þurfa þó að fara að settum reglum yfirvalda. Ég bið ykkur því um að sitja í tveggja metra fjarlægð frá tölvunni og hvert frá öðru og snerta alls ekki bloggsíðuna með berum höndum. Munum handsprittið og sterku gleraugun, annars rennur þetta bara allt saman í eitt.

Síðan ég bloggaði síðast hefur umræða um samkomubann stigmagnast. Nú hafa hérlend yfirvöld boðað samkomubann í næstu viku. Það felur í sér að blátt bann verður lagt við því að 100 manns eða fleiri komi saman á sömu samkomunni á sama tímanum. Það mega ekki vera nema 99 manns inni í versluninni að kaupa klósettpappír á sama tíma, það mega ekki vera nema 99 manns í sömu jarðarförinni á sama tíma og það mega ekki vera nema 99 lesendur inni á bloggsíðu Einars Haf á sama tíma. Vissulega er ekki gert ráð fyrir að það reyni mikið á það en þó veit maður aldrei. Messu sem fara átti fram í Urðakirkju sunnudaginn 15. mars hefur verið frestað um óákveðinn tíma. Ástæðan er ekki hið fordæmalausa ástand sem nú ríkir í þjóðfélaginu heldur miklu frekar það að presturinn og sóknarnefndin sáu ekki fram á að geta mokað sér leið heim að kirkjunni í tæka tíð fyrir athöfnina. Þá hefði messukaffið einnig farið fyrir lítið og þá er nú alveg eins gott að sleppa þessu.

Síðan ég bloggaði síðast hafa hlutabréfavísitölur hríðfallið, ferðamannabransinn er lentur í kreppu, flugfélög stefna í þrot, stór ríki loka landamærum sínum fyrir útlendingum og Reynir Traustason er snúinn aftur í blaðamennsku. Handabönd og faðmlög eru illa séð en hvasst augnaráð og baknag án snertingar eru í góðu lagi. Heimsmynd okkar er gjörbreytt en þó er þetta allt tímabundið ástand. Ekki óttast. Vísitölurnar munu ná sér á strik, ferðamannabransinn mun rétta úr kútnum, flugfélögin munu ná vopnum sínum á ný, landamæri munu opnast aftur og Reynir Traustason mun missa vinnuna vegna skipulagsbreytinga eða fjárhagsvandræða prentmiðla á nútíma fjölmiðlamarkaði.

Síðan ég bloggaði síðast hefur það komist í tísku að hitta helst ekki annað fólk augliti til auglitis. Nú kemur það sér vel fyrir mig að hafa haft lítið sem ekkert samneyti við annað fólk svo heitið getur í fleiri ár. Það þýðir að ég mun væntanlega ekki finna mikið fyrir knús- og kossabanni stjórnvalda né heldur yfirvofandi samkomubanni. Þá mun tveggja metra fjarlægðarreglan ekki skipta mig neinu máli enda hending ef einhver hefur hætt sér svo nærri mér síðustu misseri. Loksins virðist þessi félagslega einangrun ætla að borga sig. Jibbí! Jafnframt geri ég ráð fyrir því að dvelja langtímum saman í Svarfaðardal á næstunni sem virkar eins og náttúruleg sóttkví, enda engar líkur á því að vegir haldist opnir nema nokkrar klukkustundir í senn í þessu tíðarfari. Ófærðin kemur því að góðum notum nú. Gríðarlegt fannfergi hefur sett svip sinn á samfélagið hér í dreifbýlinu og fásinninu og hafa mokstursmenn unnið þrekvirki við það eitt að komast sjálfir á milli staða til að geta tekið olíu og vistir. Svarfdælsk yfirvöld hafa rætt það í fullri alvöru að sett verði á snjókomubann samhliða samkomubanni en ekkert meira er vitað um það á þessum tímapunkti. Aftur kemur vor í dal, bara spurning hvort það verður í júlí, ágúst eða september.

Þegar allt verður um garð gengið og veiran, verkföllin og veturinn á bak og burt getur fólk vonandi tekið til við að lifa hinu svokallaða lífi sínu aftur en nú er allt slíkt komið í pásu um óákveðinn tíma. Tökum höndum saman um að taka ekki höndum saman heldur halda sig hver í sínu horni þar til mesta hættan er liðin hjá. Sjáumst eftir mánuð. Góðar stundir.

Ekki ferðast, ekki hittast
ekki hósta á næsta mann
Ekki knúast, ekki kyssast
ekki sleikja náungann -
sprittum burtu ósómann.

Þess má til gamans geta að það fer allt einhvern veginn þó sumir efist um það á tímabili.

Einar með vírusvörn.

Tilvitnun dagsins:

Allir: SPRITT!!!

Ár við orðin móta

Góðir Íslendingar.

Við áramót er það hverjum manni hollt og nauðsynlegt að staldra aðeins við og líta yfir farinn veg, horfa í eigin barm og annarra, barma sér, horfa um öxl, yppa öxlum og fyllast heift og reiði yfir öllu því sem miður fór á árinu sem er alveg við það að renna sitt skeið. Áramót eru kjörinn tími til að gráta það liðna, sýta það sem ekki varð og tárast yfir því sem ekki verður. Núna til dæmis eru einhverjir lesendur þessarar síðu gnístandi tönnum yfir því að þessi áramótahugvekja skuli hafa farið í loftið. Þessi áramótahugvekja er að mestu unnin upp úr áramótaávarpi forsætisráðherra sem lekið var á netið, nýársprédikun biskups sem einnig var lekið á netið og nýútkominni bók Jóns Baldvins sem enginn vildi leka á netið. Lesendur mega því eiga von á farsakenndri og ótrúverðugri hugvekju með trúarlegu ívafi en það er engin breyting frá fyrri árum.

Hvað hefur áunnist og hvers er að vænta á ári komanda? Það er ekki nema von að spurt sé. Þó nokkuð hefur áunnist á árinu í eilífri kjarabaráttu hinna vinnandi stétta. Það sem bar hæst í kjarabótum ársins sem er hér um bil alveg að líða undir lok voru tvímælalaust launahækkanir og stytting vinnuvikunnar. Vinnuveitendur náðu þar að gabba saklaust launafólk og verkalýðsforystuna upp úr skónum einu sinni enn þar sem árið 2020 er hlaupár og þar af leiðandi lengra en hin fyrri ár – og því verður þessi stytting vinnuvikunnar að engu þegar árið 2020 verður tekið saman þar sem unnar klukkustundir verða alveg jafn margar og áður. Spæling.

Ísland er harðbýlt land og hér býr þar af leiðandi harðgert fólk. Óblíð náttúruöfl og margháttuð hallæri hafa mótað íslenska þjóðarsál í aldaraðir og gert okkur Íslendinga að því sem við erum í dag. Hér hefur þjóðin þraukað gegnum drepsóttir, plágur, stórviðri og hörmungar af ýmsu tagi og þrátt fyrir mikið mannfall oft á tíðum rísum við alltaf upp sterkari og einbeittari á eftir (það er að segja þeir sem lifa af drepsóttirnar, plágurnar, stórviðrin og hörmungarnar), staðráðin í að þrauka áfram hér norður við ysta sæ afskipt frá hinum stóra umheimi. Þetta kemur ágætlega fram í kvæðinu Fóbó eftir hinn geðþekka gyllitannarappara Herra Hnetusmjör:

Spilaði aldrei fóbó, spila showin (Já)
Ég seldi ekki kókó, seldi tónlist (Já)
Lærði ekki fyrir tíur, lærði á leikinn (Já)
Og ég pældi ekki í píum, pældi í pening (Já)
Spilaði aldrei fóbó, spila showin (Já)
Ég seldi ekki kókó, seldi tónlist (Já)
Lærði ekki fyrir tíur, lærði á leikinn (Já)
Og ég pældi ekki í píum, pældi í pening (Já)

Já hér hefði ég kannski átt að vitna í skáld á borð við Jónas Hallgrímsson, Davíð Stefánsson eða Kristján frá Djúpalæk en ég vildi prófa að poppa þetta aðeins upp og vera hipp og kúl. Það voru mistök. Sú kynslóð sem erfa mun landið hefur nú þegar slegið tóninn eins og þetta dæmi sýnir og raunar ekki bara slegið tóninn heldur rappað falska engilsaxneskublandaða tóna svo mjög að mörgum hrýs hugur. Ég er einn þeirra enda tel ég mig hvorki tilheyra gömlu eða nýju kynslóðinni. Ég er einhvers staðar á óræðu svæði þarna á milli og brúa kynslóðabilið; hneykslaður á öllu sem hristir í stoðum gamalla og góðra gilda en samt í leit að viðurkenningu yngri kynslóða og þrái fátt heitar en að þykja móðins.

Fátt þykir einmitt meira móðins en að vera áhrifavaldur á samfélagsmiðlum. Áhrifavaldar eru margir hverjir í guðatölu og hafa skipað sér sess meðal þeirra sem helst sjá þjóð vorri farboða, ásamt sjómönnum, bændum, ferðaþjónustuaðilum og fasteignasölum. Enginn hefur þó enn fattað nákvæmlega hvernig þessir áhrifavaldar gagnast okkur en þeir gera það nú samt. Lýtalæknar fagna til að mynda mjög þessum vinsældum enda er það áhrifavöldum að þakka að ungmenni greiða lýtalæknum himinháar fjárhæðir í skiptum fyrir fallegri kjálkalínur, þrýstnari varir og útblásnari þjóhnappa svo eitthvað sé nefnt. Útlitið er svo sannarlega gott og verður trúlega enn betra á næsta ári þökk sé lýtalæknunum. Hún hefur nú aldeilis með sér útlitið hún Fríður. Já hún hefur það frá föður sínum, hann er lýtalæknir (Kaffibrúsakarlarnir, mæli með – þetta er ekki auglýsing samt #ad). Eini gallinn er að áhrifavaldar hafa hrifsað til sín stóran hluta þess fjár sem fyrirtæki hér á landi eyða í auglýsingar og styrki og eftir sitja afreksíþróttamennirnir okkar fjársveltir og árangurssnauðir – og ná ekki að tryggja sér sæti á næstu ólympíuleikum, hvað þá að fjármagna ferðina. Rétt væri að senda áhrifavaldana á ólympíuleikana í Tókýó á næsta ári þar sem væri til dæmis hægt að láta þá keppa í fyrirhuguðum sýningargreinum á borð við pósur, 100 metra lífsgæðakapphlaup og sjálfshygli án atrennu. Nei ég segi svona bara.

Krúttupúttulegu landsmenn. Íslensk þjóð er þjóð meðal þjóða en þá er ég bara að vísa til svona meðalþjóða. Hér á Íslandi er loftið tært, náttúran einstök, vatnið ferskt, íbúarnir gáfaðir og áramótahugvekjurnar óskiljanlegar. Hér er siðgæði mest, spilling minnst og sakleysið alltumlykjandi. Við erum sterkust, heilsusamlegust, sjálfbærust, jafnréttust, jafnlaunavottuðust, lyfjuðust og fallegust miðað við höfðatölu. Já við höfum náð ótrúlega miklum árangri á ótrúlega stuttum tíma í sögulegu samhengi miðað við höfðatölu. Og jafnvel þó við miðum ekki við höfðatölu erum við samt best. Rétt er að hafa þetta í huga þegar gefur á bátinn og við þurfum á hughreystingu að halda. Höfin súrna, heimurinn hlýnar og öfgarnar aukast en það er ekki við okkur að sakast enda erum við svo fá og svo saklaus og í þörf fyrir grimmt kolefnisfótspor til að lifa af samanber það sem áður var nefnt.

Góðir landsmenn. Hinn kyngimagnaði sagna- og menningararfur okkar Íslendinga er óþrjótandi uppspretta nýrrar hugsunar og nýrra tækifæra fyrir karlmenn. Jónas Hallgrímsson, Hallgrímur Pétursson, Þórbergur Þórðarson, Egill Skallagrímsson, Halldór Laxnes, Sjón, Megas og Matthías Jochumsson eru aðeins nokkrir þeirra karla sem náð hafa að kafsigla konur í áramótahugvekjum á borð við þessa gegnum árin og áratugina. Sagnaarfurinn er körlum í hag enda er sagan skrifuð af körlum og fjallar um karla í öllum meginatriðum. Konum hefur sem betur fer fjölgað á seinni árum og eru þær nú nokkuð áberandi en betur má ef duga skal. Hér á bloggsíðu Einars Haf er unnið samkvæmt jafnréttisáætlun og byggt á kynrænu sjálfræði, kynjasamþættingu og samþættum jafnréttissjónarmiðum. Það sem hefur helst staðið þessari stefnu fyrir þrifum er sú staðreynd að það vinnur engin kona hér við bloggsíðuna og raunar má þakka fyrir ef ég vinn sjálfur hér.

Líkt og hér hefur verið nefnt hefur ótal margt orðið til þess að við höfum getað lifað af kynslóð eftir kynslóð hér í þessu norðlæga harðbýla landi. Aðalatriðið er þó ónefnt og það er íslenska sauðkindin. Sauðkindin, þessi tignarlega og ærlega skepna sem skipar fastan sess í öllum áramótahugvekjum Einars Haf. Sauðkindin sem með gæsku sinni og gjafmildi hefur haldið lífinu í okkur Íslendingum með kjöti, ull og innmat að ótöldum félagsskapnum. Göngur og réttir eru ein fjögurra stórhátíða í Svarfaðardal (ásamt jólum, páskum og þorrablóti) og þar fer sauðkindin fremst í flokki. Já, hún er fremst og smalarnir koma í humátt á eftir. Þið skiljið. Sauðkindin spilar stóra rullu í félagslífi hinna dreifðu byggða en það skilja borgarbúar auðvitað ekki. Í landinu búa tvær þjóðir; þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og hinir kindarlegu og oft á tíðum rafmagns- og hitavatnslausu dreifbýlingar hins vegar.

Góðir landsmenn. Hvað svo sem nýárs blessuð sól boðar okkur er ljóst að það er full ástæða til bjartsýni og svartsýni nú um áramót. Við skulum gleðjast en ganga þó afar hljóðlega um gleðinnar dyr. Við skulum gera vel við okkur í mat og drykk án þess þó að ofgera okkur. Við skulum stunda heilsusamlegt líferni en þó ekki gleyma að lifa og njóta. Við skulum horfa á áramótaskaupið og hlæja en gráta samt pínu líka. Við skulum sprengja tívolíbombur en samt hugsa hlýlega til umhverfisins og mengunarinnar sem er allt að drepa. Við skulum halda áfram að lifa hálft í hvoru á góðan og slæman hátt því það er jú það sem gefur lífinu gildi. Umfram allt skulum við hugsa fallega til sauðkindarinnar meðan við borðum lambakjötið.

Í upphafi skyldi endinn skoða. Þess vegna skil ég það ósköp vel ef þið hafið byrjað að lesa hugvekjuna hér. Þið ráðið svo sem hvort þið byrjið á byrjuninni eða ekki. Nú um áramót er ný byrjun, nýtt upphaf og Einar Haf. Tækifærin bíða okkar. Það er bara spurning hvernig við bregðumst við. Verður heppnin á okkar bandi? Munum við verða Evrópumeistarar í handbolta? Mun Ástþór Magnússon fara í forsetaframboð? Fer nýtt flugfélag í loftið? Verður malarvegurinn í Svarfaðardal friðaður? Hættir Einar Haf ekki örugglega að blogga? Enginn veit hvað verður en þó er vitað að allt fer einhvern veginn sama hversu tvísýnt það kann að vera.

Tappinn brátt úr flösku fer,
fögnum nýju ári.
Gleðjumst eins og kostur er
engu störtum fári,
þó togni stöku nári.

Þegar öllu er á botninn hvolft og þegar allt kemur til alls er ekkert annað hægt að gera um áramótin en að slá öllu upp í kæruleysi, láta allt reka á reiðanum og láta gamla árið lönd og leið. Að því sögðu óska ég ykkur öllum gleðilegs árs með þakklæti fyrir dyggan stuðning og auðsýnt vinarþel á árinu sem er að líða. Megi nýja árið færa ykkur öllum gleði, frið og færri vandræðalegar bloggfærslur.

Ræstikompan á Bessastöðum 31. desember 2019

Einar Okkar Hafliðason

Tilvitnun dagsins

Allir: FYLLERÍ!!!

Orðin verulega jólaleg

Erindi í tilefni yfirvofandi jólahátíðar, birt í jólablaði DB blaðsins 2019. Birt hér á netinu í dag í tilefni afmælis Einars Haf, ábyrgðarmanns og eiganda einarhaf.is. Einarhaf.is – lögheimili hins raunverulega sannleika á veraldarvefnum síðan árið 2015. Góðar stundir.

Jólalegu lesendur.

Ritstjóri þessa ágæta blaðs sem þið eruð nú að lesa vildi tjalda öllu til þegar kæmi að jólaútgáfunni. Það er vel skiljanlegt, fólk lætur ekki bjóða sér hvað sem er og allra síst nú þegar hátíð ljóss, friðar og fullkomnunaráráttu er á næsta leyti. Í ljósi þessa kann það sem hér fer á eftir að koma spánskt…eða svarfdælskt fyrir sjónir. JólaEinar Haf…gjörið þið svo vel. 

Hvað er málið með jólasveinana? Förum aðeins yfir þetta. Stekkjarstaur kom fyrstur, hann spilaði á hristur og gerðist síðan þyrstur. Giljagaur var annar, í amstri jólaannar hann sagði sögur sannar. Stúfur hét sá þriðji og ég á í vandræðum með að ríma við það.  Já nú streyma þeir heldur betur til byggða, úfnir og uppivöðslusamir með afar undarlegan ásetning í huga. Þessir góðlegu sveinar sem gefa þægum börnum gott í skóinn, syngja jólalög óumbeðið og blaðalaust og borða mandarínur í öll mál. Sagnfræðingar hafa löngum velt fyrir sér uppruna sveinanna og hvað þeim gengur til en ekki komist að neinni niðurstöðu ennþá. Talið er að jólasveinar hafi borist hingað með fyrstu landnámsmönnunum og fljótlega náð að hreiðra um sig í íslenskri náttúru í félagi við kindur, kýr og annan búfénað. Þeir hafi hins vegar ekki náð sér almennilega á strik fyrr en eftir siðaskipti, af augljósum ástæðum. Um leið og jólin komu til sögunnar komust jólasveinarnir í tísku og hafa þeir náð að viðhalda almennum vinsældum sínum fram á þennan dag þrátt fyrir að hafa hvorki tileinkað sér nútímatækni eða siðmenntaða lifnaðarhætti. Jólasveinarnir gætu þó þurft að fara að hugsa sinn gang í náinni framtíð og stofna instagram reikning ef þeir ætla ekki að láta brúnlitaða og bikiníklædda áhrifavalda hrekja sig burt af vinsældamarkaðnum. Það er önnur og sorglegri saga.

Nú standa yfir tilhleypingar, öðru nafni fjárdráttur, í fjárhúsum landsmanna – sem segja má að sé nokkuð kindarlegt. Gjálíf kindanna er fyrirboði stórhátíðanna sem framundan eru og jólin byrja svo sannarlega ekki í IKEA heldur í fjárhúsinu (undantekningin á því er ef að geitin brennur). Þó er vissulega frekar lágt risið á þeim hrútum sem hefur verið skipt út fyrir aðkeypt og kynbætt ofurmódel í stráum sæðingamanna. Ráðunautar hafa nefnilega heilaþvegið marga sauðfjárbændur og talið þeim trú um að fyrir rétt verð fái þeir að vori lömb til undaneldis sem sverja sig í ætt við þær glansmyndir sem sjást í hinni árlegu hrútaskrá ef viðkomandi bændur láta sæða með sæði umræddra hrúta-ofurmódela. Í hrútaskránni er hins vegar búið að teygja og toga ýmislegt til á myndunum sem þar birtast af hrútunum; þykkja bakvöðva, breikka bil milli framfóta og setja fyllingu í brjóst og varir svo eitthvað sé nefnt. Eins og tæknin er í dag er ekkert mál að blekkja grunlausa lesendur. Líkt og á áðurnefndu instagrammi er ekki allt eins og það sýnist í þessari hrútaskrá. Hinir óheppnu og afskiptu hrútar sem spilaðir eru af meðan sæðingamaðurinn athafnar sig farast úr vonbrigðum og greddu en sumir bændur hafa leyst þetta skemmtilega vandamál með því að láta hrútana horfa á beina útsendingu frá Alþingi. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að stíft áhorf á umræður frá Alþingi drepur alla kynhvöt og hefur svæfandi og sljóvgandi áhrif bæði á menn og skepnur.

Fjárhús koma einmitt mikið við sögu í jólaguðspjallinu þar sem greint er frá fæðingu frelsarans. Þau María og Jósep enduðu í fjárhúsinu á Betlehemsvöllum á sínum tíma þar sem allt var uppbókað í gistihúsum bæjarins. Samtímaheimildum ber saman um að þar hafi verið á ferðinni asískir ferðamenn í norðurljósaskoðun sem uppbókuðu öll gistipláss á svæðinu hvort sem það voru hótel, gistiheimili eða AirBnB heimagistingar. María og Jósep enduðu því í fjárhúsinu á miðjum fengitímanum eftir að hafa klofað skaflana og hríðarbylinn í skammdegisgaddi eyðimerkurinnar. Ætla má að í fjárhúsinu hafi verið mikið líf og fjör eins og yfirleitt er í fjárhúsum á þessum árstíma. Raunar voru það mjög líklega ekki bara vitringar sem komu í heimsókn þetta kvöld heldur einnig bændur og sæðingamenn sem voru að líta til með gangi mála hjá kindunum. Engum sögum fer af sauðburðinum í Betlehem vorið eftir en að öllum líkindum var hann alveg himneskur.

Kaupmenn hafa nú í aðdraganda jólanna gert allt sem í þeirra valdi stendur til að pranga inn á neytendur alls kyns dóti og gúmmelaði sem neytendur höfðu ekki hugmynd um að þeir þyrftu á að halda fyrr en kaupmennirnir seldu þeim þá hugmynd. Allt byrjaði þetta á hinum svokallaða svarta föstudegi og ekki tók betra við á stafrænum mánudegi sem stóð jafnvel í marga daga eins undarlega og það kann að hljóma. Síðan þá hefur neyslan stigvaxið og sér enn ekki fyrir endann á nú þegar skammt er til jóla. Þökk sé góðhjörtuðum lánastofnunum og aðilum á borð við Netgíró þarf ekki að borga neitt fyrr en í febrúar, sem betur fer. Ef neyslukapphlaupið heldur fram sem horfir mun febrúar ekki færa okkur neina svarta föstudaga eða stafræna mánudaga heldur miklu frekar fátæka föstudaga, lögheimtu laugardaga og skuldafangelsis sunnudaga. Gætum hófs og eyðum ekki í óþarfa. Við skulum heldur ekki eyða okkar dýrmæta tíma á aðventunni í lestur misgáfulegra pistla sem skilja ekkert eftir sig. Eða hvað? Haha…þarna plataði ég ykkur laglega.

Hvað er svo best að fá í skóinn? Nú auðvitað innlegg. Eða þá táfýlusprey í einhverjum tilfellum.

Mastercard eða vísa? Vísa skal það vera. Hún hljómar svona:

Í fjárhúsi frelsarans boðskapur skýr
þulinn er upp fyrir stóra og smáa;
fagnið þið lífinu fallegu dýr
friður á jörð milli hrúta og áa.

Að endingu óska ég ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Einar Hafliðason

Orðin þokkafull og fyllri

Fullu lesendur.

Máninn veður í skýjum. Ég veð elginn og lesendur vaða reykinn. Íslenska þjóðin veður í villu og svima og sama hvaða veður er, þá gerum við ekki veður út af því. Ég læt aldeilis vaða á súðum hér í inngangi en stundum verður bara að láta vaða.

Áður en lengra er haldið er rétt að taka það fram að engir kvótaeigendur voru krossfestir við gerð þessarar bloggfærslu. Hins vegar ætla ég að vera með kvót í lok bloggfærslunnar. Kvót er það sem að á íslensku heitir tilvitnun (e. quote) . Þarna var ég aðeins að gera að gamni mínu svona í tilefni af nýliðnum degi íslenskrar tungu. Tungan sú er kannski með svartan blett á sér – það fer eftir því við hvern er átt hverju sinni. Það er önnur saga.

Í gær var sem sagt haldið upp á dag íslenskrar tungu. Dagurinn er tileinkaður hinum tungulipru og þeim sem ganga um með lafandi tungu dagana langa. Það er vel við hæfi að fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar 16. nóvember skuli hafa orðið fyrir valinu enda á íslensk tunga honum mikið að þakka. Ástarstjörnu yfir hraundranga skýla næturský – í Kaupmannahöfn orti og fór á kenderí. Vinsældir Jónasar hafa aukist verulega hin síðari ár í kjölfar þess að 10.000 króna seðillinn var búinn til og gefinn út honum til heiðurs. Síðan þá hefur Jónas verið auðfúsugestur í hverju veski.

Það kostar einmitt bara nokkra Jónasa að láta hressa upp á eigið útlit. Nú færist það sífellt meira í vöxt að fólk fari í fegrunaraðgerðir sem eru jafnvel framkvæmdar af viðvaningum í heimahúsum, baksundum og bílskúrum. Þá er alls konar hættulegum eiturefnum á borð við kítti, frauð og sílikon sprautað í líkama fólks og skinnbútar færðir til með frumstæðum verkfærum utan alls regluverks og án eftirlits heilbrigðisyfirvalda. Sérstaklega hafa saklausar og varnarlausar ungar stúlkur og aðþrengdar ráðvilltar eiginkonur orðið fyrir barðinu á fegrunaraðgerðaplágunni enda hafa vitfirrtir samfélagsmiðlar og klæðalitlir brúngljáandi áhrifavaldar brenglað gildismat þeirra svo mjög að allri skynsemi er kastað fyrir róða. Allar konurnar vilja jú fá fylltar varir, lögulega líkamsbyggingu og fullkomna kjálkalínu. Útlitið hefur oft verið slæmt en aldrei sem nú. Þá er ég ekki að tala um útlit umræddra kvenna heldur mitt eigið útlit. Annars er fólk yfirleitt mun fallegra fyrir fegrunaraðgerðirnar heldur en að þeim loknum. Í skrifum mínum gegnum árin hef ég lagt mikla áherslu á innri fegurð þar sem það er marg sannað að flagð er undir fögru skinni. Tal mitt um innri fegurð tengist því ekki á nokkurn hátt að ég sé stórbeinóttur, með skakkt nef og í yfirþyngd. Alls ekki. Ef og þegar ég ákveð að fara í fegrunaraðgerð verður það gert að mjög ígrunduðu máli, eftir mikla yfirlegu og að undangengnu útboði meðal iðnaðarmanna og verktaka á evrópska efnahagssvæðinu sbr. lög um opinber útboð þegar um stórframkvæmdir er að ræða.

Það hefur valdið mér miklum vonbrigðum að málefni Sundskála Svarfdæla skuli ekki hafa komist á dagskrá í þjóðmálaumræðunni í kjölfar hins eftirminnilega viðtals sem tekið var við mig í skálanum í maí síðastliðnum. Einhvern tímann hefði tímamótasjónvarpsviðtal á borð við það sem hér um ræðir dugað til sýnilegs árangurs en sú hefur ekki verið raunin. Ástæðan er sennilega sú að gríðarlegt magn skandala og hneykslismála hefur dunið yfir ráðamenn, fréttastofur og athugasemdakerfi með afar reglulegu millibili allt þetta ár og sér ekki fyrir endann á – enginn má vera að því að koma sundskálanum í nothæft standa á ný. Eftir sit ég einn og yfirgefinn klæddur sundskýlu og froskalöppum á botni sundskálans og bíð næsta flóðs. Tárin stirðna á köldum (rass)kinnunum þar sem ég ligg klesstur við þurran og kaldan bakkann, strandaður eins og búrhvalur á Böggvisstaðasandi.

Í gær var kveikt á jólakettinum við Lækjartorg við mikinn fögnuð og skrílslæti viðstaddra. Grýla og Leppalúði mættu á svæðið og sungu fyrir börnin og látið var í veðri vaka að jólin væru rétt handan við hornið – sem er vafasöm fullyrðing um miðjan nóvember. Ég er hins vegar mun meira hugsi yfir því að það megi kveikja á jólakettinum en það má ekki kveikja í jólageitinni. Dæmigert. Það kann að hljóma undarlega að Grýla og Leppalúði skuli hafa verið á svæðinu þar sem enn eru rúmar 5 vikur til jóla. Þau voru hins vegar bara að nýta ferðina þar sem þau þurftu í kaupstaðinn hvort sem er. Grýla átti pantaðan tíma í litun, plokkun, klippingu, vax og varafyllingu og Leppalúði var beðinn um að mæta á fund hjá stéttarfélagi trölla til að gefa sitt álit á fyrirhugaðri styttingu vinnuvikunnar. Hvað jólageitina varðar þá er ekki öll von úti enn því lengi lifir í gömlum geitum…hmm ég meinti glæðum.

Allt er fyrir pening falt
fegurð jafnvel kaupa má
Sveini frænda þótti snjallt
sílikon í sig að fá.

Þrýstnar varir hefur hann
hárið liðað niðrá þjó
brúnkan toppar blökkumann
af bótoxi á meira en nóg.

Brjóstin eru stór og stinn
stæltir eru kálfar hans
kjálkalínan, kroppurinn
kynþokki og elegans.

- - - - - - - -
Aldur sigra skrokkinn kann
skorpnar húðin eins og tré
brátt mun ellin brjóta mann
brjóstin lafa niður á hné.

Þess má til gamans geta að fáir staðir eru betur til þess fallnir að frysta eignir heldur en frystihús, sem eru beinlínis hönnuð til þess.

Einar forkunnarfagur.

Tilvitnun dagsins:

Allir: SÍLIKON!!!

Orðin úrbeinuð

Kjötuðu lesendur.

Loksins loksins loksins loksins er ég kominn á nagladekk. Sumarið er liðið og sláturtíðin búin. Já lömbin hafa þagnað og sláturleyfishafar ragnað. Smalar fá góðu verki fagnað og það er alveg magnað. Hmm, þetta var nú ekki alveg nógu gott. Hvað sem því líður þá líður þessi inngangur áfram eins og blóðtaumar á sláturhúsgólfi og að endingu fer allt í svelginn.

Nú eru frystikistur landsmanna óðum að fyllast af góðmeti sem sláturtíðin skilaði af sér. Góður vetrarforði þar. Innmatur, læri, hryggir, hakk og sperðlar – eitthvað sem stendur með manni í norðan hríðinni. Í reykingakofanum hangir jólahangikjötið og fær á sig jólalegt yfirbragð gegnum dökkgráan reykinn sem leggur frá brennandi taðinu. Sveitarómantíkin er allsráðandi. Miðað við hversu langt er liðið frá síðustu bloggfærslu hefði það ekki komið á óvart að heyra að ég hefði lokast af inni í reykingakofanum og kæmist ekki í tölvu til að blogga en ég get fullvissað ykkur um að það er ekki rétt. Hefðu lesendur orðið hryggir við að missa bloggarann Einar Haf? Nei varla, enda mun betri hryggir í reykingakofanum.

Það hefur löngum þótt ástæða til að messa yfir bændum og búaliði á Urðum og reyndar á nágrannabæjum einnig. Kirkja mun hafa staðið á Urðum frá því snemma á 14. öld, ef ekki lengur, guðhræddu heimilisfólkinu ýmist til armæðu eða ábata. Ýmislegt hefur gengið á í trúmálum Urðamanna og framdælinga gegnum tíðina. Til að mynda fauk Urðakirkja og brotnaði í spón í september árið 1900 í kirkjurokinu svokallaða. Hermt er að þáverandi bóndi á Urðum hafi legið flatur ofan á laskaðri altaristöflunni úti í Urðaenginu til að varna henni frekari skemmdum og til að varna því að suðvestan rokið feykti töflunni í næstu kirkjusóknir með tilheyrandi eftirmálum. Trúarofstækið var mikið á þessum tíma og guðhræðslan í hæstu hæðum. Því var kirkjan endurreist nánast um leið og lægði og tekin í gagnið á ný árið 1902. Síðan þá og ef til vill frá árdögum kirkjunnar hefur það ævinlega orsakað mikið tilstand og jafnvel uppþot þegar prestinum á hverjum tíma dettur það í hug að nú sé kominn tími á að messa á Urðum. Boð eru látin út ganga með landpósti og á netinu að nú skuli messa og ævinlega hrekkur heimilisfólkið á Urðum jafn mikið í kút við að heyra þessi tíðindi. Það er nefnilega þannig að samkvæmt aldagamalli hefð eru lagðar þær kvaðir á heimilisfólk að þrífa kirkjuna hátt og lágt fyrir hverja messu, skófla út kirkjuflugunum og köngulónum og þurrka af sakramentinu án þess að láta það verulega eftir sér. Heimilisfólk skal sitja stjarft undir predikun prests og iðrast hinna fjölmörgu synda sinna. Síðan skal heimilisfólk bjóða heim í bæ með bros á vör að athöfn lokinni og bjóða þar upp á kaffi og meðlæti handa presti, kór, organista og kirkjugestum og gæta þess ávallt að nóg sé til þannig að enginn líði skort, hvorki andlega né líkamlega. Þetta er mátulegt á heimilisfólkið fyrir að láta sér detta í hug að hafa kirkju á bæjarhlaðinu. Reyndar voru það forfeðurnir (eða forforforforforforforforfeðurnir) sem ákváðu það en það skiptir engu máli. Þeir sem helst sækja messur nú til dags eru tilneydd fermingarbörn sem þurfa ákveðinn lágmarksfjölda messa til að geta fermst til fjár að vori. Ég persónulega hef alltaf gaman af því að fara í messu, enda starfsmaður kirkjunnar til fjölda ára og guðhræddur mjög, sláttumaður, varahringjari og leiðsögumaður – auk þess sem ég hef selt saklausum sóknarbörnum heilagar altaristöflur með góðum árangri í nokkur ár. Það eru allir jafnir frammi fyrir Guði…en sumir eru reyndar jafnari en aðrir.

Það eru ekki bara reykingakofi og kirkja á Urðum. Það er líka heimilisdraugur á bænum, sem er reyndar alvanalegt til sveita. Draugurinn hefur látið reglulega á sér kræla í gegnum tíðina. Stundum er hann í fjósinu og veldur undarlegu bauli og halaslettum þar, stundum í dráttarvélunum sem gerir þær óstarfhæfar og stundum í íbúðarhúsinu sem lýsir sér í ýmiskonar vandræðagangi og vandræðalegum draugagangi. Hann hefur jafnvel brugðið sér í sláttuorf og heyvinnutæki ef sá gállinn er á honum. Þetta er nú enginn ærsladraugur heldur meira svona fúllyndur íslenskur skammdegisdraugur – eða ég ímynda mér það. Nýverið voru báðar stærri dráttarvélarnar á bænum bilaðar. í Jóni Dýra sem ber nafn með rentu (John Deere) er stöðugur ljósagangur í mælaborðinu, með öðrum orðum draugagangur sem sér enn ekki fyrir endann á. Félagi hans Ferguson steindrap á sér við reykingakofann (kannski fékk hann reykeitrun) og harðneitaði að fara í gang aftur fyrr en Þór allsherjarviðgerðarmaður á Bakka hafði skipt um dælu í honum. Þar laut véladraugurinn í minnipokann, að minnsta kosti um stundar sakir. Það er ef til vill ekkert skrýtið að ósýnileg öfl séu á ferðinni í landareigninni enda kirkja og tveir kirkjugarðar á staðnum. Ég hef gert mitt besta til að halda öllum góðum ofan- og neðanjarðar með því að slá kirkjugarðana og kirkjulóðina samviskusamlega og hreinsa burt illgresi og óværu. Ef einhver er ósáttur við umhirðuna fæ ég örugglega að vita af því fyrstur manna.

Nú hefur það komið upp úr dúrnum að orkudrykkir eru stórhættulegir og alls ekki eins orkuríkir og efni stóðu til í upphafi. Bíðið aðeins meðan ég tek hökuna upp af gólfinu. Eða ekki. Fólk er þambandi koffíndrykki daginn út og daginn inn þökk sé góðri markaðssetningu og fáklæddum áhrifavöldum. Auðvitað eiga þessir áhrifavaldar miklu frekar að drekka mjólk og neyta íslenskra landbúnaðarafurða sem gefa hraustlegt og gott útlit en það þykir greinilega ekki nógu móðins. Bændasamtökin gætu nú alveg laumað að mér nokkrum mjólkurfernum og eins og einu krydduðu lambalæri í staðinn fyrir jákvætt umtal um íslenskar landbúnaðarafurðir árum og áratugum saman en ég er greinilega ekki nógu áhrifamikill áhrifavaldur til þess. Skellur.

Ætli sé ekki gott að reykja jólahangikjötið við brennandi IKEA geitina? Þá fær maður fram þennan skemmtilega sænska hálmkeim. Nei maður veltir því fyrir sér. Jólin þín byrja ekki í IKEA heldur í reykingakofanum.

Kirkjan opnast, koma sóknarbörnin
klerkur hlýjan faðm út breiðir.
Í neyð er bænin besta vörnin
allir brosa, engir reiðir,
Halla húsfrú tertu sneiðir.

Engir fjárfestingasjóðir fóru á hausinn við gerð þessarar bloggfærslu en það munaði litlu.

Einar á nöglum. Ekki nálum.

Tilvitnun dagsins:

Allir: GAMMA!

Orðin septemberuð

Drýgindalegu lesendur.

Það rignir úti og það rignir inni og það rignir í sálu minni. Ég heilsa ykkur vel blautur og rakur en það tengist veðrinu að vísu ekki neitt. Votviðrið veldur kvöl og angist og heilinn er svampkenndur og deigur eins og niðurrignt moldarsvað á útskitnum túnbleðli. Vonandi er það bót í máli að þessi bloggfærsla er afar rakadræg.

Vorrigningar og haustrigningar hafa undanfarið sameinað krafta sína og himnarnir bókstaflega grátið. Tárin streyma niður kinnar móður náttúrunnar og umkomulausir menn og málleysingjar á jörðu niðri geta lítið annað en forðað sér í skjól. Góðu fréttirnar eru þó þær að samkvæmt Veðurstofu Íslands hefur aldrei rignt svo mikið að ekki stytti upp aftur. Fastlega má búast við því að slíkt hið sama verði uppi á teningnum núna.

Nokkur styr hefur staðið um ríkislögreglustjóra undanfarið. Ég hef ekki hugmynd um hvers vegna. Ég veit bara að hann ýjaði að því í viðtali að víða væri pottur brotinn innan raða lögreglunnar og að jafnvel liðist þar spilling. Eitthvað talaði hann um hjaðningavíg og illdeilur og raunar leitaði hann víða fanga í efnistökum sínum. Lögreglumaður leitar fanga, væntanlega er það bara partur af starfslýsingunni. Og þó. Eitthvað hefur það komið til tals að lögreglumenn landsins gangi ekki í takt þegar kemur að klæðaburði. Nú á að bæta úr því og koma öllu lögregluliðinu í samstæðan klæðnað. Það verða sem sagt engar tískulöggur að störfum í framtíðinni heldur verða allir skikkaðir í sama búninginn. Mönnum verður þó áfram frjálst að vera með eigin handjárn með eða án loðfóðringa.

Ærslabelgirnir og grallaraspóarnir í hljómsveitinni Hatara urðu landi og þjóð til sóma síðasta vor þegar þeir barkasungu sig inn í hugi, hjörtu og hljóðhimnur Evrópubúa með hinu melódramatíska popplagi Hatrið mun sigra. Þetta muna allir. Það muna líka allir að uppi varð fótur og fit þegar sprelligosarnir drógu upp fána Palestínu í miðri atkvæðagreiðslunni og flögguðu upp í opið geðið á Ísraelsmönnum sem vissu vart hvaðan á sig stóð leðrið. ….ég meinti veðrið. Snarlega var klippt á fánaveifu Hatara og myndavélarnar stilltar á eitthvað miklu saklausara og barnvænna eins og t.d. Albanska fúlskeggjaða transmenn eða brjóstaskoru frá Norður Makedóníu. Stjórnarmönnum samtaka Evrópskra sjónvarpsstöðva var ekki skemmt þó vissulega hafi þeim þótt framlag okkar afar listrænt og flutt af alúð. Nú hefur það sem sagt komið á daginn að við Íslendingar höfðum ekki aðeins 10. sætið upp úr krafsinu heldur einnig 5.000 evru sekt. Hatarar eru vitaskuld engir borgunarmenn fyrir slíku en íslenska ríkið og Ríkissjónvarpið eru aflögufær og því er gert ráð fyrir því að ósköpin verði gerð upp á allra næstu dögum. Væntanlega mun Felix Bergsson sjálfur fljúga með seðlana í lokuðu umslagi til höfðustöðva Eurovision og afhenda þá í eigin persónu. Að vísu mun þetta sektaruppgjör þýða að það verða ekki til neinir peningar til að borga Guðjóni Skarphéðinssyni miskabætur fyrir að hafa þurft að sitja saklaus í fangelsi og einangrun svo vikum og mánuðum skipti út af Geirfinnsmálinu en það geta jú ekki allir fengið það sem þeir eiga skilið . Raunar komst ríkislögmaður að því að þetta væri Guðjóni bara sjálfum að kenna enda hafi hann mátt vita betur en að láta loka sig inni saklausan allan þennan tíma.

Göngur og réttir og afturgöngur og afturréttir fóru fram í Svarfaðardal nýverið með tilheyrandi þrammi, hói, gelti og surgi í talstöðvum. Fátt var um fé og færra um fína drætti en stemmning var góð og mannskapurinn kindarlegur heilt á litið. Eins og áratuga hefð er fyrir náði gleðin hámarki á réttarballi í samkomuhúsinu Höfða að kveldi sunnudags. Margt var um manninn og léku þeir Stulli, Danni og Guðmann listavel á hljóðfærin auk þess sem þeir léku á alls oddi. Dansinn dunaði og hinar ríflega sjötíu ára gömlu gólffjalir fengu að finna fyrir því. Velunnarar Höfða sáu um miðasölu og siðgæðisvörslu og fórst það afar vel úr hendi. Eins og flest annað um gangnahelgina er haldið fast í gamlar hefðir og því var það afar viðeigandi að ég, Einar Haf, lyki sjoppuvaktinni og sendi sveitta ballgesti brosandi út í nóttina eða brosandi upp í bíla til Sissa og Bergs dyravarða. Sjálfur fór ég brosandi upp í bíl til Stulla, fór yfir One Way Ticket syrpuna með honum á leiðinni heim og sofnaði loks sáttur – enda ekki annað hægt.

Nú á enn einu sinni að freista þess að auðvelda fólki hér á landi að kaupa áfengi. Í þetta skiptið er þó ekki verið að tala um vín í matvöruverslanir heldur er verið að tala um vín í netverslanir. Þvílík og önnur eins þvæla. Auðvitað á bara að halda sig við að hafa þetta allt í röð og reglu. Mat í matvöruverslunum, net í netverslunum og áfengi í áfengisverslunum. Annars fer þetta allt bara út í tóma vitleysu. Kannski er ég eitthvað að misskilja þetta mál en mér er alveg sama. Einstrengingsháttur og þvermóðska eru hvort eð er þau vopn sem ég gríp helst til þegar kemur að umræðu um óheftari aðgang að áfengi.

Eins og flestir vita er skítur afar verðmætur áburður (e. good shit). Bændum þykir vænt um skítinn sinn og kappkosta að dreifa honum af natni á tún og engi í von um mikla og góða grassprettu á vorin og sumrin. Mikill skítmokstur hefur staðið yfir undanfarið eins og alvanalegt er á haustin. Hér í Svarfaðardal hafa mörg tún fengið dökkleitt yfirbragð síðustu vikur og angan í samræmi við það; lykt sem margir elska (e. I love it!). Þetta er ekki ósvipað ástandinu og anganinni í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis þessa dagana þar sem ýldulyktin og stækjan hefur fyllt vit nefndarmanna og fundir einkennst af skítlegu eðli. Hvað mun spretta af þeim skít þegar fram í sækir? Væntanlega bara illgresi og njóli.

Sumir iðrast gjörða sinna
aðrir iðrakveisu fá,
sumir ilm af túnum finna
aðrir drullað fá sig á.

Þessi bloggfærsla var svo langdregin að það hætti að rigna áður en gerð hennar lauk.

Einar á haugsugunni.

Tilvitnun dagsins:

Allir: DRULLA!!!

Orðin undir framfærsluviðmiðum

(G)öfugu lesendur.

Það er ekki um að villast, þið hafið náð að villast inn á slóð nýjustu bloggafurðar Einars Haf, þekkts ofstopamanns og skoðanaböðuls – þar sem hann lætur móðan mása og blása. Engin pása? Neibb.

Nú rekur hver stórhátíðin aðra. Fiskidagurinn mikli, Gleðigangan, Hundadagar, Tvímánuður, nýtt tungl og Menningarnótt í Reykjavík. Endapunktur verður rekinn á öll þessi gengdarlausu hátíðarhöld með stærstu hátíðinni af þeim öllum; göngum og réttum í Svarfaðardal og réttarballi í samkomuhúsinu Höfða að kveldi sunnudagsins 8. september. Þetta vita auðvitað allir. Meðan ég man; sjoppunefnd auglýsir eftir ábyrgum og siðferðislega réttþenkjandi starfsmanni til að sinna sælgætissölu og siðgæðisvörslu í samkomuhúsinu Höfða sunnudagskvöldið 8. september frá kl. 21:00-01:20. Ríkrar þjónustulundar krafist og verulegs viðskiptavits. Meira um það síðar.

Auðvitað hefði átt að slá nokkrar flugur í einu og sama högginu og sameina eitthvað af þessum hátíðum, til að spara fólki ómakið við að þræla sér út helgi eftir helgi með tilheyrandi ferðakostnaði, rándýru uppihaldi og hausverk á sunnudögum.
Fiskidagurinn mikli sameinaðist til að mynda hinsegin dögum í ár enda var allt frekar öfugsnúið á Dalvík og í næsta nágrenni. Það rigndi meira að segja pínu á Fiskidaginn. Það hefði aldrei gerst hefði ekki verið um hinsegin Fiskidag að ræða. Eftir á að hyggja hefði mátt sameina Gleðigönguna og Reykjavíkurmaraþonið í eina stóra hraðgöngukeppni þar sem fljótasti og hýrasti þátttakandinn myndi standa uppi sem sigurvegari, gefið að hann kæmi öfugur yfir endalínuna. Eða afturábak. Hendum bara hinu tilgangslausa Color run í þetta líka og þá ertu kominn með litagleði, svita og hýrlegheit í einum og sama rándýra viðburðinum – fyrir gott málefni. Betra gerist það varla.

Samfélagsmiðlar eru þessa dagana uppfullir af fólki sem skráð hefur sig til leiks í Reykjavíkurmaraþoninu til styrktar góðum málefnum og krefst þess að fá læk út á það. Raunar er einn helsti tilgangur hlaupsins að safna lækum handa hinum bágstöddu og þurfandi. Ég fell nú ekki fyrir þessu svo auðveldlega. Komið ykkur í mark fyrst og ég skal taka mark…á þessu og skoða þetta með að læka. Í ár verður keppt í nokkrum flokkum venju samkvæmt. 10 kílómetra hlaup, maraþon og hált maraþon….hmm ég meinti hálft maraþon. Þá verður hægt að hlaupa af sér hornin, hlaupa á sig og hlaupa út undan sér á afmörkuðu svæði. Ég kann miklu fleiri svona; hlaupa undir bagga, hlaupa í þvotti og hlaupa í spik (sjá Einar Haf). Væri ég ekki svona merkilegur myndi ég hlaupast undan merkjum en því verður víst ekki við komið.

Talandi um að læka. Það voru ekki upplífgandi fréttirnar sem bárust nýverið af okkar fremsta, fallegasta, gáfaðasta og besta fólki; sjálfum áhrifavöldunum. Ýmsa setti hljóða og tóku tíðindin afar nærri sér og var ég þar á meðal því ég má jú ekkert aumt sjá og vissulega ber ég hag þessa fólks fyrir brjósti. Jafnvel brjóstum. Hvað er málið? Ég skal segja ykkur það. Samkvæmt tekjublaði DV lifa margir okkar ástsælustu áhrifavalda á lúsarlaunum og eiga hvorki til hnífs né skeiðar. Sem betur fer fyrir þá suma að minnsta kosti fengu þeir hnífa, skeiðar og fleiri eldhúsáhöld að gjöf í skiptum fyrir gott umtal og auglýsingu á samfélagsmiðlum. Einhverjir fengu meira að segja salt í grautinn sem betur fer. Glögglega má sjá af fjölmörgum myndum sem birst hafa af áhrifavöldunum á Instagram og fleiri samfélagsmiðlum og ég hef skoðað ofan í kjölinn að skóinn kreppir víða. Oftar en ekki eru þessar myndir teknar á ódýrum sólarströndum eða í heitum löndum þar sem framfærslukostnaður er mun lægri en hér á landi. Viljum við að þessar vonarstjörnur okkar flýi land vegna bágra kjara? Ég er ekki svo viss. Af myndunum að dæma eru margir áhrifavaldanna skringilega brúnleitir á lit, grindhoraðir og augljóslega vannærðir og þá eru fjárráðin greinilega víða með þeim hætti að í stað venjulegs fatnaðar þurfa áhrifavaldarnir að klæðast skjóllitlum og jafnvel götóttum fatapjötlum og í einhverjum tilfellum gegnsæjum. Eitthvað hefði nú heyrst ef þetta væru alþingismennirnir okkar sem hér væru til umræðu, ég segi nú ekki meira en það. Þögn verkalýðsforystunnar og annarra launþegasamtaka er æpandi í þessu máli. Það má öllum vera það ljóst að áhrifavaldar eru dæmi um starfstétt sem ekki fær borið hönd fyrir höfuð sér og á sér hvergi málsvara þegar kemur að því að gæta hagsmuna og berjast fyrir mannsæmandi kjörum. Ekki er þó öll von úti hvað þetta varðar. Til stendur að hrinda af stað söfnun á Karolína-fund til styrktar illa stöddum áhrifavöldum. Hægt verður að gefa annað hvort 1.000 kr. með millifærslu eða 15 læk á verði 10. Stefnan er að koma öllum áhrifavöldum yfir fátæktarmörk og yfir 1.000 læk en með samhentu átaki mun okkur takast það.

Eins og áður sagði verða göngur í Svarfaðardal helgina 6.-8. september næstkomandi. Aðrar göngur eru áætlaðar viku síðar. Fyrst fara menn sem sagt og ganga og svo ganga menn aftur viku síðar. Eins gott að maður er ekki hræddur við afturgöngur. Ef þið viljið að ég útskýri þetta orðagrín eitthvað betur megið þið koma í samkomuhúsið Höfða sunnudagskvöldið 8. september eftir klukkan 21:00 og ræða þetta við mig. Ég verð á staðnum og mun bæði rukka ykkur inn og mögulega stíga við ykkur dans þegar leikar standa sem hæst.

Bæjarstjórinn í Garðabæ hefur nú opinberlega beðist afsökunar á því og hálfpartinn skammast sín fyrir að vera með eins há laun og raun ber vitni – tvær og hálfa kúlu á mánuði um það bil. Auðveldur peningur, eða hvað? Laun bæjarstjórans ólukkulega jafngilda því að hann fái um það bil 150 krónur frá hverjum íbúa í Garðabæ mánaðarlega. Frábært. Miðað við samskonar aðferðafræði yrði Kata sveitarstjóri á Dalvík að gera sér að góðu 285.000 kr. á mánuði og sveitarstjóri Árneshrepps væri með um það bil 5.000 kr. Skellur. Það gengur bara betur næst.

Ljóð dagsins heitir "Angist áhrifavaldsins" 

Út við ystu sjónarrönd
sit ég einn á sólarströnd
og fáklæddur ég felli tár
fátæktin er býsna sár.

Ó sú pína ó sú raun
að vera með slík lúsarlaun.
Einn í hljóði harm minn ber
hugurinn er sem hálað gler.

Ein er leið úr krísu út
afklæðast og setja upp stút
ungur sexý pósur nam
og hala inn lækum á Instagram.

Þess má til gamans geta að þegar talað er um síðustu hálmstráin er átt við stráin sem gróðursett voru við braggann í Nauthólsvík.

Einar lækandi.

Tilvitnun dagsins

Allir: HLAUP!!!

Orðin verslunarmannahelgarleg

Veisluglöðu lesendur.

Jæja, þá er að koma að þessu. Spenningurinn er svo mikill að ég hem mig varla. Landsmenn pakka útilegudótinu og leggja land undir fót. Þjóðin fer á útihátíð og fer í fríið og fer á límingunum en ég fer frekar ofan við garð og neðan og fer undan í flæmingi og fer svo inn í mig og forherðist í afstöðu minni gagnvart öðru fólki og skemmtanagleði þess. Þetta leiðir til þess að ég mun hafa allt á hornum mér, grautfúll og mökkpirraður yfir ósanngirni lífsins og ógæfu heimsins. Það er annað hvort uppskrift að stórslysi eða verulega vafasamri bloggfærslu. Ég veit ekki hvor niðurstaðan er skárri.

Nú væri við hæfi að þylja upp hinar fjölmörgu hátíðir sem haldnar verða um allar koppagrundir og í hverju krummaskuði um komandi helgi. Það þarf víst svo mikið að halda upp á þessa blessuðu verslunarmenn og votta þeim virðingu með ærlegri drykkju, samsöng og skyndikynnum þar sem því verður við komið. Þeir verslunarmenn sem selja útilegudót og áfengi brosa út að eyrum fyrir vikið….munnvikið á ég við. Verður eitthvað um að vera í Ölskyldu- og búsdýragarðinum? Nei held ekki. Aðal fjörið verður væntanlega á Þjórhátíð í Eyjum venju samkvæmt en Neskaupsstaður, Akureyri, Höfn og Flúðir koma einnig sterk inn. Krakkar, ekki drekka undir lögaldri. Drekkið frekar bara áfengi.

Veðurfræðingar neita að tjá sig um það hvar besta veðrið verður en þó er talið næsta öruggt að það verði þungskýjað á mánudagsmorgun og bömmer á stöku stað. Starfsfólk Samgöngustofu mun fylgjast spennt með umferðinni, reiknað er með að umferð taki að þyngjast frá höfuðborgarsvæðinu einhvern tímann á föstudag, síðan taki við rólegheit í góða tvo daga en umferð taki að þyngjast að nýju seinni part mánudags. Ég fylgist spenntur með. Þá er ég auðvitað að tala um bílbeltið sem ég var að spenna mig í rétt áðan. Það má kannski ekki drekka áfengi undir stýri en enginn talaði um að það mætti ekki blogga undir stýri.

Nú hefur forsætisnefnd Alþingis ákveðið að siða til tvo Miðflokksþingmenn í samræmi við niðurstöðu siðanefndar. Kannski full seint í rassinn gripið en hvað með það. Siðanefnd komst að þeirri niðurstöðu að það væri allt í lagi og raunar bara fyndið að framkalla selahljóð á bar ef um væri að ræða pönslæn í góðum brandara en hins vegar væri það full langt gengið að tala um samstarfskonu sína sem húrrandi klikkaða kerlingarkuntu. Mér þykir ákveðin fró í því að vita hvar þessi svokölluðu velsæmismörk liggja en úr því hefur nú sem sagt verið skorið. Óminnishegrinn verður án efa víða á sveimi um komandi helgi en ef lesendur ætla sér í 36 klukkustunda algleymi eins og þingmaðurinn siðprúði þá er einmitt kjörið tækifæri að nýta þessa löngu helgi til þess. Ég tala nú ekki um ef þið hafið einhverju til að gleyma á annað borð.

Samtök verslunar og þjónustu hafa nú komist að raun um það að á hverju lambi sem slátrað er hér á landi er aðeins einn hryggur en hins vegar eru tvö læri (að minnsta kosti), bógur, haus, lappir, hinn fjölbreytilegasti innmatur og ótal margt fleira. Lambahryggir hafa selst grimmt grillsumarið mikla 2019 og komst því á kreik orðrómur um yfirvofandi skort á hryggjum. Góðhjartaðir áður nefndir verslunarmenn eru vissulega engir sauðir nema síður sé og brugðust við þessu. Gerðu þeir sér lítið fyrir og pöntuðu hryggir 50 tonn af hryggjum frá útlandinu með það sama, til að anna eftirspurn. Landbúnaðarráðherra kom af fjöllum án þess þó að hafa verið í smalamennsku og bað sérfróða nefnd að taka eins og eina góða birgðatalningu hjá sláturleyfishöfum til að komast að því hversu mikið væri til af innlendum lambahryggjum í raun og veru. Þá kom í ljós að það er til slatti hér og gomma þar og í raun væri alveg óþarfi að fella niður tolla á innfluttum hryggjum til að mæta þörf markaðarins, þvert á það sem þessi sérfróða nefnd hafði lagt til nokkrum dögum áður. Málið stendur því þannig að nú eru á leið til landsins 50 tonn af innfluttu lambakjöti á fullu tollverði en á meðan er til nóg af íslensku lambakjöti fyrir sísvangan almenning, alveg fram að komandi sláturtíð. Sláturleyfishafar ætla sér reyndar að hefja sláturtíðina rétt fyrir miðjan ágúst til að tryggja birgðastöðuna, mörgum vikum áður en auglýstar göngur fara fram og fé kemur af fjalli. Eitthvað í þessu gengur ekki alveg upp en ljóst er að vandi sauðfjárræktarinnar er ærin(n).

Ég legg til að þið lesendur góðir fáið ykkur lambakjöt um helgina, slátrið eins og einum Víking léttöl eða Pepsí Max og fáið ykkur jafnvel Ristorante pítsu sem bragðast víst eins og á ítölsku veitingahúsi samkvæmt auglýsingunni. Ég efast reyndar ekkert um það. Ristorante pítsan er eins á bragðið hvort sem ég borða hana heima hjá mér eða á ítölsku veitingahúsi. Hins vegar væri það mjög heimskulegt að fá sér Ristorante, frosna örbylgjupítsu, ef maður er á annað borð staddur á ítölsku veitingahúsi.

Á ekkert að fjalla um Inníkúkinn í Reykjavík eða Æludaga í Hörgársveit? Nei ég er vaxinn upp úr svoleiðis löguðu. Tja, reyndar er ég ekki vaxinn upp úr brandaranum sem ég ætlaði að segja um hátíðina Ein með pjöllu á Akureyri en ég verð víst bara að eiga það við mig.

Ætli Fiskikóngurinn Höfðabakka 1 sjóði sinn fisk í heitu pottunum frá heitirpottar.is Höfðabakka 1? Nei maður spyr sig.

Þessi helgi er stíf og ströng
um stuð mig fer að dreyma.
Sumir drekka dægrin löng
og dægrum síðan gleyma.

Nú er horfið Norðurland
nú á ég hvergi heima.

Þess má til gamans geta að nýi Herjólfur er ekki skírður í höfuðið á gamla Herjólfi því þá héti hann auðvitað ekki nýi Herjólfur heldur gamli Herjólfur. Hmm, ég þarf aðeins að hugsa þetta. Heyrumst.

Ein(n)ar helgar gaman.

Tilvitnun dagsins:

Allir: DJAAAAAMMMMM!!!!