Orðin í ótrúlegu banastuði

Sumarbjörtu lesendur.

Auðvitað gæti ég hafið þessa bloggfærslu á einhverskonar sjálfsvorkunn, vonleysi og angist sem vissulega er full innistæða fyrir – en þess í stað ætla ég að láta sem ekkert sé og tala fjálglega um að allt sé í stakasta himnalagi og með þvílíkum ágætum. Vinsamlegast takið viljann fyrir verkið. Þeim sem hafa meiri áhuga á sjálfsvorkunn, vonleysi og angist er bent á nýútkomna skýrslu starfshóps heilbrigðisráðherra um tilvistarvanda hjúkrunarheimilanna. Þess má geta að margir minna heitustu aðdáenda eru vistmenn á hjúkrunarheimilum. Guð blessi þá alla.

Sjaldan greinist smitið langt frá sóttkvínni. Og þó… Því miður virðist veiran skæða enn leika lausum hala óbeisluð úti í samfélaginu og á meðan svo er heldur hún hræddri þjóð sem og mannkyninu öllu í heljargreipum. Síðan síðasta bloggfærsla fór í loftið hafa verið gerðar sjö tilslakanir og átta herðingar á hinum ýmsu lögum og reglum er snúa að sóttvörnum innanlands og fyrirkomulagi á landamærunum. Landamærin já..hún getur verið harðsnúin mærin sú. Ha? Já, það hefur nefnilega margoft komið fram í máli sóttvarnarlæknis að hann sé áhyggjufullur vegna þess að landamærin leki. Ég skil vel að það valdi honum áhyggjum – aumingja mærin. Það er huggun harmi gegn að mær með lekanda og lek vandamál fær oftar en ekki bót meina sinna innan heilbrigðiskerfisins. Vonum það besta. Ekki er kyn þó landamærin leki, botninn er dottinn úr sóttkvínni. Já einmitt…ég fann málsháttabókina! Betri er krókur en covid því sá hlær best sem síðast fær ekki covid.

Og þá að íþróttafréttum. Forseti Real Madrid var nýverið lagður inn á nýstofnaða ofurdeild borgarsjúkrahússins í Madríd með mjög alvarlegan siðferðisbrest og fjórða stigs fjárkláða. Af hverju var hann lagður inn á ofurdeildina? Almenna deildin, skurðdeildin, göngudeildin, geðdeildin og lyflækningadeildin höfðu bara ekki efni á honum. LOL.

Ungmennafélagið Þorsteinn Svörfuður, Ungmennafélagið Atli, Ungmennafélagið Skíði, Búnaðarfélag Svarfdæla, Umf. Narfi og Kvenfélagið Tilraun munu hafa uppi áform um að taka sig út úr hinni hefðbundnu deildar- og meistarakeppni og stofna nýja ofurdeild að evrópskri fyrirmynd. Viðræður um sjónvarpsrétt að hinni nýju ofurdeild standa yfir en jafnvel er talið að félögin geti haft tugi eða hundruði króna upp úr krafsinu. Það sem helst kemur í veg fyrir að fjárhæðirnar sem um ræðir eru ekki hærri er sú staðreynd að ekkert þessara félaga leggur stund á keppni heldur er aðalatriðið að vera með.

Já og hvað er eiginlega málið með þessa tveggja metra reglu? Ég er bara 1,76. LOL LMAO.

Nú er sumarið komið og veturinn horfinn á braut. Fari hann í friði. Sumar og vetur frusu ekki saman hér í Svarfaðardal eftir því sem ég kemst næst. Það að sumar og vetur skuli ekki hafa frosið saman mun vita á vont og er það nokkur nýbreytni og þar af leiðandi skellur, því það hefur jú allt verið í lukkunnar velstandi hjá okkur hingað til. Í þessu samhengi velti ég fyrir mér…ef að Phizer og AstraZeneca frjósa saman, boðar það gott kannski? Nú er bólusett sem aldrei fyrr og er þar öllu til tjaldað og engu til sparað – sem er ekki ný bóla hér á landi. Hérlend yfirvöld sópa að sér þeim bóluefnum sem bjóðast og þiggja alla ölmusu sem berst að handan yfir hafið og hingað heim. Við tökum Guðs lifandi fegin við öllum efnum sem eitthvað bólar á því betra er að vera bólusettur en illa settur. Tala nú ekki um að vera framsettur. Já eða veðsettur. Sama hvað hver segir, allt snýst þetta um það að ná sér í nægjanlega mikið mótefni í tæka tíð til að geta djammað og djúsað af sér rassgatið um verslunarmannahelgina með góðri samvisku. Já og sennilega allar helgar upp frá því. Þetta djamm djammar sig ekki sjálft. Kannski tekst okkur þetta með því að kreista sjöunda skammtinn út úr hverju bóluefnisglasi sem rekur á fjörur okkar. Já við Íslendingar höfum alltaf verið nýtnir og stundum ýtnir en í öllu falli skrýtnir. Skringilegheit eru landlæg á Íslandi, ekkert bóluefni er nothæft gegn slíku. Sem er skringilegt út af fyrir sig, já og sprenghlægilegt.

Yfirvöld hafa nú birt svokallaða afléttingaráætlun í fjórum liðum sem sögð er eiga að varða leiðina aftur til hins eðlilega lífs. Þó má deila um hversu eðlilegt það líf hafi verið. Í mínu tilfelli var það til dæmis ekki mjög eðlilegt enda ekkert eðlilegt við það að vera kynþokkafullur áhrifavaldur fastur í líkama örventrar feitabollu. Skítt með það. Gangi áætlanir stjórnvalda eftir verður búið að sprauta faraldurinn og stærstan hluta landsmanna niður í lok júní og mun þjóðlífið þá verða hömlulaust á ný með tilheyrandi hópknúsum og kynsvalli – rétt eins og allt var fyrir covid. Skemmst er að minnast þess þegar útrásarvíkingarnir fengu að ganga hömlulaust um fjárhirslur þjóðarinnar skömmu fyrir bankahrunið og skilja eftir sig sviðna jörð – öll munum við hvernig það fór. Spennandi verður að sjá hvaða ósköp munu dynja yfir næst þegar ég og öll íslenska þjóðin förum fram úr okkur. Sem mun vonandi gerast fyrr en síðar.

Eldgosið í Geldingadölum…eða Merardölum….eða Fagradalsfjalli heldur áfram að spúa baneitruðu gjalli og eiturgufum út í andrúmsloftið – á sama tíma og umhverfisráðherra hrósar happi yfir 2% samdrætti í koltvísýringsútblæstri Íslendinga milli áranna 2018 og 2019. Karlgreyið. Ekki nóg með að Íslendingar þurfi að kolefnisjafna bílaflotann, skipaflotann, flugvélaflotann og iðrakveisur Einars Haf heldur þurfum við nú líka að kolefnisjafna eldgosið í Geldingadölum….eða Merardölum…..eða Fagradalsfjalli. O jæja, líklega best að hætta þá þessu blaðri og halda áfram að moka ofan í skurðina. Já meðan ég man; Einar á Urðum, hoppar á hurðum og skítur í skurðum. Jafn fyndið núna og það var í 2. bekk.

Lög um sóttkví spila á flautu
svíður mér undan spritti blautu
niður mig gref í grænni lautu
grafkyrr bíð ég eftir sprautu. 

Þess má til gamans geta að þeir sem telja sig vera of létta ættu hiklaust að skella sér í afléttingu og aflétta sig hið snarasta.

Algjörlega Einar

Tilvitnun dagsins:

Allir: Aflétting!!!

Orðin föstudagurinn langdregnasti

Langeygðu lesendur.

Eldglæringarnar og djöfulgangurinn skjóta manni skelk í bringu. Geldingurinn í dalnum er með læti…já og svo ekki sé minnst á baneitraða gasið sem fyllir vitin. Nei ég er ekki að tala um eldgosið heldur er ég að tala um nýjustu bloggfærslu Einars Haf sem er nú loksins komin í loftið að beiðni sóttvarnaryfirvalda og biskupsstofu. Með þessum skrifum mínum vil ég undirstrika að dagurinn í dag er sorglegasti og leiðinlegasti dagur ársins. Vonandi hefur engum stokkið bros. Það mun allavega ekki gerast núna.

Eldgosið er í beinu streymi allan sólarhringinn. Beinu streymi? Já, mörg þúsund ára gömul kvika er í beinu streymi eftir kvikuganginum og upp á yfirborðið. Úr verður stórfenglegt sjónarspil sem vekur athygli og aðdáun fólks. Misvel búnir, illa búnir og alveg búnir ferðalangar hafa verið duglegir við að þramma fram og aftur óbyggðir Reykjanesskagans í þeirri von að ramba á eldgosið og hafa björgunarsveitarmenn, neyðarkallar, gangnamenn og smalar verið ræstir út ítrekað til að koma hinum villuráfandi sauðum aftur til byggða. Eins konar útihátíðarstemmning hefur ríkt við eldstöðina þar sem fólk hefur svipt sig klæðum, stjórnað fjöldasöng, borið upp bónorð og kveikt sér í sígarettu svo dæmi séu tekin. Munum að fara varlega. Eldgosið er auðvitað ekkert annað en birtingarmynd reiði guðanna vegna ógætilegrar hegðunar mannkynsins og því er betra að gá að sér. Rétt er einnig að hafa í huga að of mikið gos er slæmt fyrir heilsuna.

Alveg síðan lög um helgidagafrið voru afnumin af athyglissjúklingunum á Alþingi hefur COVID-farsóttin komið í veg fyrir að trúleysingjar, heiðingjar og Píratar geti spilað bingó á föstudaginn langa, helgifriðlaust. Æ æ ekkert bingó á föstudaginn langa. Sá hlær best sem síðast hlær segi ég nú bara. Hinum óforskömmuðu og óskammfeilnu bingósjúklingum hefði verið nær að halda sig heima í eigin guðhræðslu og skammast sín – svona eins og ég er vanur að gera á föstudaginn langa. Farsóttin er auðvitað ekkert annað en birtingarmynd reiði guðanna vegna ógætilegrar hegðunar mannkynsins og því er betra að gá að sér. Bingó! Loksins. Næst spilum við svo allt spjaldið. Í vinning eru ársbirgðir af Golgata tannkremi, naglapakki frá Límtré vírnet og pakki af Júdasarkossum.

Það má ekkert messa þessa dagana fyrir hressa fressa. Má þá lessa blessa? Nei ekki heldur. Það má bara hreinlega ekki neitt gera nema í tveggja metra fjarlægð, með grímu og sótthreinsivökva í æð. Til stóð að halda aðalfund Ungmennafélagsins Þorsteins Svörfuðar á Rimum nú fyrir páska en það reyndist ekki unnt vegna sóttvarnarreglna. Að vísu hefði mögulega verið hægt að halda fundinn í Geldingadal þar sem fjöldatakmarkanir virðast afstæðar en ferðakostnaður stjórnar óx gjaldkera í augum og því var fundi frestað um óákveðinn tíma. Þá er einnig búið að fresta ársþingi Ungmennasambands Eyjafjarðar af sömu ástæðu og vegna sama gjaldkera. Aðalfundi Umf. Atla hefur líka verið frestað um afar óákveðinn tíma, enda ekki haldinn aðalfundur nema á um tíu ára fresti. Kannski. Einar, þetta er nú frekar slöpp efnisgrein er það ekki? Jú heldur betur. Andleysi bloggarans er auðvitað ekkert nema birtingarmynd reiði guðanna vegna ógætilegrar hegðunar mannkynsins og því er betra að gá að sér.

Samkvæmt nýjustu boðum og bönnum heilbrigðisyfirvalda þurfa þeir ferðalangar sem ferðast til Íslands frá stórhættulegum hááhættusvæðum farsóttarinnar skæðu að dúsa innilokaðir á fimm stjörnu hóteli í miðbæ Reykjavíkur í fimm nætur eftir komuna til landsins, með fæði og þráðlausu neti, algjörlega án þess að hafa neitt um það að segja. Grimm geta þau verið örlög heimsins. Lögspekingar og fólk með ríka réttlætiskennd nær vart upp á nef sér fyrir bræði enda sé þetta algjörlega forkastanleg meðferð á saklausum borgurum og í hrópandi ósamræmi við stjórnarskránna. Lögfræðingar hafa umvörpum boðist til að fara með mál ferðalanganna frelsisskertu fyrir dómstóla án þess að taka svo mikið sem krónu fyrir, enda lögfræðingar af góðu kunnir fyrir fórnfýsi og sjálfboðastarf í þágu varnarlauss almennings. Fjöldi fólks hefur tekið að sér að móðgast fyrir hönd þeirra sem þurfa að kúldrast inni á Fosshótel Reykjavík og raunar hafa borist samúðarskeyti og stuðningskveðjur víða að. Nú síðast fordæmdi Kim Yong-Un leiðtogi Norður Kóreu þessa frelsisskerðingu og lýsti óánægju sinni með harðneskjulega og ómannúðlega málsmeðferð íslenskra stjórnvalda. Þá hafa eftirlifandi fangar úr Sovéska gúlaginu sent ferðalöngunum baráttukveðjur enda tengi þeir vel við ástandið. Fangelsun ferðalanganna er auðvitað ekkert annað en birtingarmynd reiði guðanna vegna ógætilegrar hegðunar mannkynsins og því er betra að gá að sér. Ég hef sjálfur neyðst til að gista í herbergi á Hótel Cabin með glugga sem snéri fram á gang og ég veit því vel um hvað málið snýst. Je suis ferðamenn.

Nokkur þúsund manns, áhrifavaldar og svo aðrir lægra settir, hafa undanfarna daga lagt það á sig að klöngrast yfir urð og grjót, örævi og auðn til þess að berja augum eldgosið í Geldingadal. Það hélt ég að minnsta kosti. Nú hefur komið í ljós að píslargangan kemur eldgosinu sára lítið við. Aðalmálið er að labba að vefmyndavél Ríkissjónvarpsins efst á Fagradalsfjalli og gretta sig og geifla framan í grandarlausa áhorfendur í beinu streymi á RÚV 2. Ástandið minnir nokkuð á það þegar Jesús Kristur var dæmdur af Pontíusi Pílatusi og leiddur á Golgatahæð og múgur manna mætti á svæðið. Ekki til að fylgjast með krossfestingunni, enda voru þær daglegt brauð á dögum Rómverja, heldur til að gretta sig og geifla framan í grandarlausa áhorfendur í beinu streymi á RÚV 2. Brún sjónvarpsáhorfenda léttist lítið þó svo að Kristur hefði risið upp frá dauðum þremur dögum síðar, enda höfðu mótmælendur sett skilti fyrir myndavélina sem sýndi beint streymi á RÚV 2 og þar af leiðandi sást ekkert nema „hvar er nýja stjórnarskráin?“ Allar Golgötur síðan hafa kristnir menn verið óánægðir með sjónvarpsdagskránna á páskunum. Ódýr innlend dagskrárgerð er auðvitað ekkert annað en birtingarmynd reiði guðanna vegna ógætilegrar hegðunar mannkynsins og því er betra að gá að sér. Talandi um það, hvaða mynd ætli sé í sjónvarpinu núna? Kannski birtingarmynd reiði guðanna? Úff vonandi ekki, hún er pottþétt bönnuð börnum.

Hinir trúþyrstu geta mætt í Urðakirkju nú um páskana og haldið sína eigin kyrrðarstund, samhliða því sem viðkomandi geta játað syndir sínar við gráturnar og iðrast. Ef þið eruð heppin getur vel verið að pabbi minn taki sig til og hringi klukkunum, enda hringir hann frítt um helgar í boði Símans, Vodafone og Nova. Hvaða hringitón er verið að vinna með? Bara þennan klassíska. Stutt, löng, löng, stutt. Hvað með birtingarmynd reiði guðanna? Ég veit ekki, æðri máttarvöld hljóta að hafa samband gegnum innhringibúnaðinn í kirkjunni ef þeim mislíkar þetta eitthvað.

Vá, þessi bloggfærsla er svo löng að það er að koma laugardagur. Má þá hafa gaman aftur? Nei alls ekki. Skammist ykkar bara, verið heima og borðið lambakjöt, hlustið á Passíusálmana og passið ykkur. Kristur tók á sig syndir mannanna. Ekki viljum við að hann þurfi að gera það aftur er það? Hmm nei. Lambakjöt segir þú…var ekki Jesús Kristur hið upprunalega og sanna páskalamb? Jú sennilega. Hvað með hina villuráfandi sauði? Veit ekki. Ég veit bara að sumir sauðir verða hryggir, allavega á jólunum og páskunum.

Frelsissviptur ferðamaður grætur
á Fosshóteli dúsir daga og nætur
ó hve örlög geta verið grimm
að gista hér og stjörnur bara fimm. 

Þess má til gamans geta að Veðurstofa Íslands hefur ákveðið að gefa út páskagula viðvörun um allt land, enda búist við málsháttum á köflum og súkkulaðiofáti í innsveitum.

Einar á krossinum.

Allir: KRÆST!!!

Orðin óþreyjufull

Mótefnasnauðu lesendur.

Í þrítugasta og sjötta sinn hættir Einar Haf að blogga til þess eins að geta snúið aftur á ritvöllinn, ráðvilltari og óskiljanlegri en nokkru sinni fyrr. Líkt og í öll hin skiptin þegar ég hætti finn ég mig knúinn til að snúa aftur á öldur ljósvakans vegna ástandsins í þjóðfélaginu. Oft hefur ástandið verið ógnvænlegt en þó sjaldan eins rosalega ógnvænlegt og nú. Jarðskjálftar, kvikuinnskot og kórónuveira svo ekki sé minnst á dularfullt símtal dómsmálaráðherra við lögreglustjóra síðdegis á aðfangadag. Hvað var svona dularfullt við símtalið? Ég veit það ekki. Í þau skipti sem ég fæ dularfull símtöl veit ég ekki einu sinni hver það er sem er að hringja, ég heyri bara þungan andardrátt á hinum enda línunnar og svo ekki meira. Lengi vel hringdi enginn í mig en það var trúlega vegna þess að ég var ekki með síma. Eða var því kannski öfugt farið?

Stjórnvöld og almenningur bíða nú þess sem verða vill varðandi bólusetningar hér á landi en líkt og með mjög mörg önnur mál veit enginn hvað gerist. Leikskipulagið, hin svokallaða „íslenska aðferð“, gengur út á að bíða af sér leiðindin og vona það besta. Upphafleg bólusetningaráætlun stjórnvalda og sóttvarnaryfirvalda gerði ráð fyrir því að bóluefnið kæmi með vorskipunum en nú er jafnvel talið að það komi ekki fyrr en með haustskipunum. Samkvæmt sömu áætlun stóð til að bólusetja Þorra þjóðarinnar fyrir sumarið en ekki hefur enn fengist uppgefið hvaða Þorri það er sem verður svo heppinn. Ég hef legið yfir bólusetningardagatalinu sem stjórnvöld gáfu út fyrir nokkru og hef orðið margs vísari. Samkvæmt dagatalinu eru nú að baki Píningsvetur, Sultarvor, Skítasumar og Nístingshaust síðan faraldurinn hófst. Nú stendur yfir svokallaður Vonleysisvetur og ljóst að áfram þurfa hinir dansleikjaþyrstu að þreyja Þorrann, Góuna og Lóuna en síðan þegar sumri hallar verður vonandi hægt að fara að knúsa fast, kasta grímunni og dansa vangadans í hverjum krók og kima. Þórólfur sóttvarnarlæknir og leiðtogi lífs okkar og ljós í kóviddrunganum hefur látið í ljós þá bjargföstu skoðun sína að óskynsamlegt sé að aflétta hömlum nú í miðjum jarðhræringum á Reykjanesi. Þetta er trúlega alveg rétt hjá honum, enda hrærður en ekki hristur. Ein þeirra fjölmörgu sviðsmynda sem búið er að teikna upp hjá samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð sýnir að ef hömlum yrði aflétt eru allar líkur á að þúsund gáfuðustu Íslendingarnir, þ.e. áhrifavaldarnir og samfélagsmiðlastjörnurnar, myndu hópast saman með símana sína hringinn í kringum Keili og Fagradalsfjall. Þar myndu þeir bíða þess í ofvæni, óaðfinnanlega klæddir og farðaðir, að jörðin opnaðist undir fótum þeirra og upp myndu stíga sótsvartir vítislogar og rauðglóandi hraunkvika sem gætu skilað allt að þúsund lækum á dag, þ.e. ef næst að taka mynd á réttu augnabliki. Þetta vilja yfirvöld skiljanlega ekki hætta á að gerist, því sé betra að bíða bara heima í einrúmi við tölvuna og bíða nýrra frétta af óróapúlsvaktinni. Nema auðvitað ef þú ert staddur í Grindavík, þá máttu bara dúsa heima við kertaljós og klæðin rauð í heimatilbúnu rafmagnsleysi.

Nú þegar atvinnuleysi er í hæstu hæðum og óvissa og kvíði ráða ríkjum í þjóðfélaginu hafa margir þingmenn þungar áhyggur af því að vita ekki hvaða orðaskipti áttu sér stað í símtali dómsmálaráðherra við lögreglustjóra síðdegis á aðfangadag. Stóru málin, mikið rétt. Ég veit það fyrir víst að flestir þingmenn lesa þessa bloggsíðu og því get ég róað taugar ykkar og birt hér nokkurn veginn orðrétt hvað átti sér stað í þessu umrædda símtali. Ég tek það fram að það var ekki ég sem var að hlera fyrir 10 þúsund króna fréttaskot í DV heldur var það Gáttaþefur, sem er þekktur fyrir að þefa uppi alls kyns óþef, sem var með nefið í nágrenninu og hleraði símtalið. Ring ring. Hæ. Halló, lögreglustjórinn hér. Hver er þetta? Þetta er Áslaug dómsmálaráðherra. Já komdu sæl. Sæl vertu. Ert þú ekki býsna góð í eldhúsinu? Ég er í smá vandræðum með sósuna, það vilja alltaf koma kekkir í hana hjá mér og allt fer í einn graut. Hvað ætti ég að gera? Þegar allt hleypur í kekki og allt fer í graut? Já akkúrat. Einmitt…og salta það? Aha. Meðan ég man svona í algjöru framhjáhlaupi, hvaða verklagsreglur er lögreglan með þegar ráðherrar láta góma sig á of fjölmennum samkomum sem brjóta sóttvarnarreglur? Ha, hræra vel upp í þessu og sjóða meira? Já hræra upp í sósunni en ekki fjölmiðlum? Já ég er að tala um sósuna, ekki ráðherrann. Sjóða meira? Já einmitt, já ég prófa það. Gleðileg jól sömuleiðis. Bæ.

Fyrir nokkrum vikum var mér falið það verkefni að skrifa þorrablótsannál fyrir rafrænt þorrablót í Svarfaðardal sem sett var á netið 20. febrúar. Auðvitað axlaði ég ábyrgð og tók verkið að mér, enda tilbúinn að deyja fyrir klúbbinn og rúmlega það þegar kemur að Umf. Þorsteini Svörfuði, sem heldur jú þorrablótið að nafninu til. Í ljósi þessa þarf varla að koma á óvart að ég hafi látið lítið fyrir mér fara síðustu vikur, enda mjög auðvelt að kalla yfir sig skít og skammir ef maður stígur feilspor við annálsskrifin. Sölvi á Hreiðarsstöðum las annálinn í ró og næði inn á myndband heima í stofu svona eins og verið væri að fara með húslestur eða lesa brot úr Passíusálmunum og engum dósahlátri var bætt inn í myndbandið þannig að erfitt var að greina hvaða skrif hefðu þótt fyndin og sniðug og hvaða skrif hefðu þótt ófyndin og ósniðug. Ekki hef ég þó orðið fyrir neinu aðkasti síðan blótið var sett inn á jútjúb og því lít ég svo á að verkefnið hafi heppnast. Vonandi þarf þessi viðburður aldrei aftur að fara fram gegnum netið enda frekar erfitt að hala niður hákarli og hrútspungum gegnum tölvuna þó vissulega megi vel streyma brennivíninu.

Þessa dagana telur þjóðin fram til skatts eins og hún eigi lífið að leysa. Allar krónur eru vel þegnar í tóman ríkiskassann því margt smátt gerir lítið eitt. Þeir sem eru með svokallaðar svartar tekjur eru sérstaklega hvattir til að telja þær fram á gráa svæðinu á framtalinu. Sjá nánar á skattur.is. Taka skal fram að hafi menn keypt málverk á sölusýningu í Ásmundarsal á Þorláksmessu er það frádráttarbært frá skatti gegn framvísun kvittunar en sekt vegna brota á sóttvarnarlögum sem óhjákvæmilega fylgir er það að vísu ekki.

Samkvæmt bóluefnadagatalinu er frekar illt í efni en frekar langt í bóluefni. Eftirspurn eftir bóluefni er gríðarleg á heimsvísu og sprautufíklum hefur fjölgað, þ.e. þeim hefur fjölgað sem eru fíklar í hvers kyns sprautur sem innihalda bóluefni. Sjálfur var ég mikið að vinna með bóluefni þegar ég var unglingur en það var þá aðallega gröftur sem á fagmáli kallast unglingabóluefni. Er hægt að láta bólusetja sig við leiðindum? Þá hljóta lesendur bloggsíðu Einars Haf að vera í forgangshóp.

Eins og staðan er í dag mega 50 manns koma saman hér á landi. Ekki er vitað hversu margir mega koma í sitt hvoru lagi. Enn er hin svokallaða tveggja metra regla við lýði hjá Víði sem er slæmt fyrir mig enda er ég bara 1,76 metrar samkvæmt vegabréfinu. Þá ríkir enn grímuskylda þar sem æskilegri fjarlægð verður ekki við komið. Auðvitað fer það eftir því hver á í hlut hverju sinni hvaða fjarlægð er æskileg. Ef ég er nýbúinn að keyra skít á völl og það hefur kannski slest á mig ein volg lensa er æskileg fjarlægð um 4-5 metrar en ef ég er nýbúinn í sturtu og búinn að setja á mig svitalyktareyði má vel sætta sig við 1,5 – 2 metra. Spennandi verður að sjá hvaða tilslakanir verða settar fram næst, gefið að jarðhræringum, kvikuinnskotum, óvissuástandi og dularfullum símtölum linni einhvern tímann.

Kýrin mín hún Skrauta kunni á skauta
fagmannlega á fauta heyrðist flauta
grösin át með Gauta sem át grauta
bóluefni Pfizers naut að sprauta. 

Þess má til gamans geta að samkvæmt þeim sviðsmyndum sem við höfum teiknað upp eru nokkrar líkur á að það gjósi áður en yfir lýkur eða jafnvel fyrr en síðar en ekki mikið síðar en það nema síðar sé eða síður.

Einar á Fagradal.

Tilvitnun dagsins:

Allir: Sprauta takk!!

Mót við áraorð

Góðir landsmenn.

Nú við áramót er það eina rétta í stöðunni að líta aðeins um öxl, líta aðeins á öxl, gá hvort öxlin sé í ábyrgð og axla síðan ábyrgð, líta til baka yfir farinn veg, líta í mörg horn enda í mörg horn að líta og líta á staðreyndir málsins. Hinu ólýsanlega fordæmalausa ári 2020 er rétt í þann mund að ljúka en því getur varla lokið alveg án þess að ég, Einar Haf sameiningartákn og sjálfskipaður áhrifavaldur, setji punkt aftan við það og kveðji árans árið með viðhöfn. Svona áramótahugvekjur eru einmitt kjörinn vettvangur til þess en það gátu þið svo sem sagt ykkur sjálf. Líkt og jafnan áður er hugvekjan að mestu unnin upp úr áramótahugvekjum forsætisráðherra, biskups og forseta; orðalagi og uppröðun texta er aðeins lítillega breytt.

Einar Haf áhrifavaldur segir þú? Já heldur betur, við sjáum mynd því til staðfestingar.

Róhóhólegur kúreki. Ég er kannski áhrifavaldur á svarfdælska bloggmarkaðnum en annars trúlega alls ekki. Ég uppfylli þó flest skilyrði til að geta talist áhrifavaldur á landsvísu. Ég held úti bloggsíðu, er með Instagram reikning, tala fallega um ákveðnar neysluvörur, er ljós yfirlitum og hef með mér góðan kjörþokka, er með þrýstnar línur, stóran rass og stór brjóst. Þetta tékkar í öll boxin en virðist því miður ekki duga til. Það gengur kannski bara betur næst. Mjög svo viðeigandi frasi þegar árið 2020 er annars vegar.

Góðir landsmenn. Íslendingar eru þrautseig þjóð, eins og komið hefur fram í öllum áramótahugvekjum mínum fram til þessa. Hér í harðbýlu landi elds og íss hefur þjóðin þraukað við kröpp kjör og þrengingar alveg frá því land byggðist. Hallæri, stórviðri, gengisfall, plágur, farsóttir og fjölbreytilegar hörmungar hafa dunið yfir með reglubundnum hætti og oft á tíðum valdið gríðarlegum skaða. Af ótrúlegri hörku og með íslensku geðveikina að vopni hefur okkur ævinlega tekist að ná okkur á strik að nýju. Þegar rætt er um íslensku geðveikina er að sjálfsögðu átt við afar heiftarlega persónuleikaröskun og alvarlegar ranghugmyndir Íslendinga um stöðu sína í samfélagi þjóðanna. Mikilmennskubrjálæðið hefur komið okkur í gegnum allar kreppur hingað til og ekki er útlit fyrir að nein breyting verði á því í bráð. Höfum þetta hugfast þegar öll sund virðast lokuð og allar bjargir bannaðar. Höfum einnig hugfast að það þarf töluvert mikla þrautseigju til að komast klakklaust í gegnum þessa áramótahugvekju. Þrautseigja, mjög svo viðeigandi hugtak þegar árið 2020 er annars vegar.

Samstaða hefur verið mjög áberandi á því fjárans ári sem senn mun springa í loft upp á svörtum næturhimninum. Þá er að sjálfsögðu átt við óeiginlega samstöðu því það er ekki í anda gildandi sóttvarnarreglna að standa mikið saman þessa dagana. Heil þjóð hefur í fleiri mánuði hlýtt þríeykinu svokallaða í einu og öllu og farið með gát þegar hin skæða kórónuveira og reiðisköst Kára Stefánssonar eru annars vegar. Ferðumst innanhúss, hlýðum Víði, við erum öll Alma-nnavarnir og göngum um gólf fyrir Þórólf. Mjög svo kunnuglegt allt saman. Að vísu eru nokkrir frjálslyndir ráðamenn undanþegnir hinni almennu samstöðu og hafa einhverjir þeirra meira að segja lagt sig fram um að fara á svig við gildandi sóttvarnarlög. Ekki er þó rétt að benda á einhverja sökudólga í þessu samhengi því þessar vinkonur knúsa sig víst ekki sjálfar og þessar sölusýningar á Þorláksmessu sækja sig ekki sjálfar. Allavega ekki edrú. Það er veiran sem er óvinurinn, munum það. Já og svo auðvitað gaurinn í Wuhan sem át leðurblökuna. Það var nú aldeilis góð hugmynd. Leðurblökuát, mjög svo í anda viðurstyggilegheitanna sem koma upp í huga manns þegar árið 2020 er annars vegar.

Góðir landsmenn. Engan gat grunað fyrir ári síðan að árið 2020 myndi einkennast af hömlum, höftum, boðum og bönnum. Í dag er bannað að fara í líkamsræktina, bannað að fara í messu og bannað að halda fjölmennar veislur. Engin kaffihlaðborð, ekkert gangnaball og engin verslunarmannahelgi….eða svona næstum því. Engan gat grunað að nú um þessi áramót, hvar við erum stödd einmitt núna, yrði aðal umfjöllunarefni þjóðlífsins bóluefni frá góðhjörtuðum bandarískum lyfjarisa og hversu snögglega sé hægt að sprauta heila þjóð með efninu. Ég get varla beðið eftir því að fylgjast með því í ofvæni árið 2021 hvernig margbreytileg bóluefni munu hríslast um æðar þjóðarinnar svo unaðshrollur hljótist af í beinni útsendingu á öldum ljósvakans. Engan gat grunað að Ísland myndi vinna Eurovision keppnina sem fór þó ekki fram. Engan gat grunað að fjarfundir myndu slá í gegn. Engan gat heldur grunað að farþegaflug milli landa myndi svo gott sem leggjast af. Mesti skellurinn er þó auðvitað að völva Vikunnar skyldi ekki sjá neinn þessara atburða fyrir. Ófyrirsjáanleiki, mjög svo einkennandi orð þegar árið 2020 er annars vegar.

Góðir Íslendingar. Ég get ekki lagt mat á það hvernig til hefur tekist við að koma okkur í gegnum árið 2020. Það er ljóst að margt hefur verið vel gert en einnig að mistök hafa látið á sér kræla. Átti að herða, slaka, herða, slaka, herða, herða, slaka eða herða, slaka, slaka, herða, slaka, slaka, herða, slaka? Þessu velta menn fyrir sér. Vitaskuld er auðvelt að vera vitur eftir á en jafnvel ég á erfitt með það á stundum sem þessari. Hvað mun gerast á komandi ári? Hvað boðar nýárs blessuð sól? Hún boðar efni kennt við ból. Ha? Munu Íslendingar ná að semja við góðhjartaða lyfjarisann Pfizer um meira og örara bóluefni í stærri skömmtum?

Verður hópknús á Austurvelli 17. júní? Verða þrjú gangnaböll á Höfða? Verður fólk heima með Helga fram á jólaföstu 2021? Hversu margir ráðherrar munu fara á svig við eigin tilmæli og sóttvarnarlög? Spennan er vissulega óbærileg, þó ekki jafn óbærileg og framsetning þessara sundurleitu hugsana hér í áramótahugvekju allra landsmanna. Óbærilegt er einmitt mjög svo einkennandi ástand þegar árið 2020 er annars vegar.

Íslendingar geta státað sig af svo ótal mörgu eins og komið hefur í ljós á þessu makalausa ári. Hér er loftið tært og ljósblikið skært. Hér er fífilbrekka gróin grund og grösug hlíð með berjalautum. Hér er öflugt heilbrigðiskerfi, gott flæði upplýsinga og traustir innviðir. Hér eru sóttvarnarreglurnar svo góðar að ekki einu sinni ráðherrum sem setja þær tekst að fara eftir þeim. Ísland er í svo öfundsverðri stöðu að mörgu leyti. Mikilvægt er að við höldum því vel til haga og bendum öðrum þjóðum á það ef svo ólíklega vill til að við þyrftum að upphefja okkur á þeirra kostnað. Grunnreglan er að upphefja sig á kostnað annarra. Þjóðrembingur og heimóttarskapur er einmitt eitt af því fáa jákvæða sem mér dettur í hug þegar árið 2020 er annars vegar.

Góðir landsmenn. Líkt og með öll fyrri hallæri er það íslenska sauðkindin sem mun koma okkur í gegnum núverandi hörmungarástand, þrátt fyrir landlæga riðuveiki og þrátt fyrir að nánast ekkert sé greitt til bænda fyrir að stunda sauðfjárbúskap. Hvað sem öllu líður er þetta krúnudjásnið í flóru landsins, verndardýrlingur þjóðar vorrar og ljúfmeti á veisluborðum um jól og áramót. Alltaf er sauðkindin til staðar fyrir okkur hvort sem um ræðir dýrindis steikur, lopa eða bara félagsskap þegar einmanaleikinn sækir að á köldum vetrarkvöldum. Hvergi á byggðu bóli er fjárdráttur jafn algengur og hér á landi miðað við höfðatölu og auðvitað væri það aldrei mögulegt nema vegna hinnar íslensku sauðkindar. Lýsingarorðið kindarlegur er mjög viðeigandi þegar árið 2020 er annars vegar.

Góðir Íslendingar. Tímarnir breytast og mennirnir þreytast. Árið sem nú er rétt í þann mund að líða undir lok hefur á köflum verið óútreiknanlegt, hlægilegt, grátlegt, leiðinlegt, einmanalegt, fordæmalaust, heimilislegt og bráðsmitandi. Líkamsrækt breyttist í heimaleikfimi. Megrunarkúr breyttist í sófakúr. Sóttvarnarlæknir breyttist í rokkstjörnu. Þakið á fjóshlöðunni á Urðum breyttist í brak úti á túni. Sýnatökupinnar urðu þyngdar sinnar virði í gulli. Denni dæmalausi heitir núna Denni fordæmalausi. Hafi árið kennt okkur eitthvað er það einmitt það að allt getur gerst, allt er breytingum háð og engu er hægt að taka sem gefnum hlut. Hverfulleikinn er yfirþyrmandi þegar árið 2020 er annars vegar.

Bóluefni berst frá Pfizer 
frábært, töff og frekar næs er
Skjótum burtu leiða og sorg
svifrykskæfum bæ og borg. 

Þegar allt kemur til alls er það eina sem hægt er að gera að þakka fyrir það sem maður hefur, gleyma því sem maður hefur glatað og gráta í hljóði það sem maður hefur ekki. Sprengjum burtu leiðindin og setjum heimsmet í svifryksmengun. Skjótum á okkur, skjótum okkur í fótinn og látum árið líða í aldanna skaut því vonandi kemur það aldrei til baka. Horfum jákvæð og bjartsýn fram á veginn, annars vegar og hins vegar, enda árið 2020 um það bil að fara veg allrar veraldar.

Ég þakka lesendum fyrir samfylgdina á árinu sem er senn á enda og óska ykkur öllum fjarsældar á komandi ári.

Heimasmitgátarherbergið á Bessastöðum 31. desember 2020.

Einar Okkar Hafliðason

Tilvitnun dagsins:

Allir: BOMBA!!

Orðin í jóla-DB blaðinu

Ein(ar) um jólin 2020    

Ágætu lesendur.

Nú stendur yfir fordæmalaus aðventa og framundan er fordæmalaus jólahátíð. Ef að líkum lætur munu fordæmalaus áramót fylgja með í pakkanum. Árið 2020 hefur mörgum þótt vera dæmalaust, fordæmalaust og ekki síður átakanlega langt ár. Ég fletti þessu upp rétt áðan og komst að því að þetta mun vera lengsta ár sem sögur fara af…síðan 2016. Þá var líka hlaupár. Það munar greinilega mikið um þennan eina aukadag. Fyrir þér er einn dagur sem þúsund ár. Lesendur fella þúsund tár yfir þessum skringilegu inngangsorðum. Heppilegt að jólablað DB blaðsins er prentað á vatnsheldan pappír.

Fólki leyfist æði margt nú á dæmalaust fordæmalausum tímum sem í venjulegu árferði þætti stórundarlegt og jafnvel óæskilegt. Nú fer enginn í banka án þess að setja upp grímu. Engum líðst að vera með grímulausan áróður. Það fer enginn á tónleika, þeim er streymt.  Það fer enginn í íþróttir, þeim er streymt. Það fer enginn á djammið, víninu er streymt. Beint heim gegnum leiðslu. Það fer enginn í sjóinn, það er stórstreymt. Það þykir viðurkennt að loka sig af og forðast utanaðkomandi félagsskap. Má ég fara út að leika með vinum mínum? Nei drengur, lokaðu þig af inni í herberginu þínu og haltu áfram í tölvunni. Skammastu þín svo.  

Jólin eru sá tími árs þegar fjölskyldan á góðar stundir saman við söng, leik og spil. Og át. Ofát. Á því verður engin breyting í ár. Raunar er ekkert annað í boði samkvæmt sóttvarnarlögum, hvort sem við verðum á gráa svæðinu, gula svæðinu, appelsínugula svæðinu eða rauða svæðinu. Öll dreymir okkur auðvitað um að komast á gráa svæðið, sem er svo sem ekkert nýtt. Það er ekki í boði að fara í fjölmenn jólaboð nema að undangenginni smitgát, úrvinnslusóttkví, seinni skimun og gerildeyðingu. Sem sagt, ekki bara jólaboð heldur jólaboð og bönn að þessu sinni. Eins og áður kom fram er yfirstandandi ár með öllu fordæmalaust. Fjölskyldan er búin að ferðast um öll herbergi innanhúss og eiga góðar stundir saman um páskana, um Hvítasunnuna, um þjóðhátíðina, um verslunarmannahelgina og nú á aðventunni. Þessar góðu stundir eru orðnar svo margar og endurteknar að sumir hverjir eru komnir með algjörlega upp í kok. Flestir hlakka til að eiga mun færri góðar stundir með fjölskyldunni árið 2021 heldur en á því verrans…afsakið, herrans ári sem nú er farið að sjá fyrir endann á.

Heimabakstur hefur stóraukist nú í farsóttarfárinu. Gríðarlega margar sortir hafa litið dagsins ljós, hver annarri girnilegri. Lögreglan hefur fylgst sérstaklega vel með óhóflegum bakstri síðustu vikur enda hafa borist af því óstaðfestar fregnir að heimabakaðar sörur úr óvottuðum eldhúsum gangi kaupum og sölum á svarta markaðnum á facebook, utan laga, reglna og virðisaukaskatts. Þvílík ósvífni. Viðbúnaður lögreglu er svipaður og þegar spurðist til nokkurra prjónandi gamalmenna freista þess að komast yfir fátæktarmörk með því að selja lopaleista og vettlinga í nótulausum og kolsvörtum viðskiptum skömmu eftir bankahrunið. Er þessu fólki ekkert heilagt? Þess má til gamans geta að sjaldan eða aldrei hafa verið stunduð jafn umfangsmikil svört viðskipti og nú á nýliðnum svörtum föstudegi. Hvernig veit ég það? Ég las um það á netinu á netmánudeginum sem fylgdi í kjölfarið.

Nú stendur til að herða mjög lög og reglur sem gilda um flugeldaskothríð kringum áramótin – enda ekkert vit í því að leyfa eitthvað sem gæti talist skemmtilegt á árinu 2020. Undir því yfirskyni að draga úr mengun er lagt til að aðeins megi selja flugelda milli klukkan 02:40 og 04:50 aðfaranótt 31. desember og að aðeins megi reyna að skjóta þeim upp meðan útvarpsstjóri segir „Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það liðna“ um klukkan 00:02 á gamlárskvöld/nýársnótt. Til að draga úr mengun munu björgunarsveitir aðeins fá að selja flugelda með skertum kveikjuþræði því samkvæmt nýlegri rannsókn menga flugeldar mun minna ef ekki tekst að kveikja í þeim og skjóta þeim upp. Ágóða flugeldasölu ársins munu björgunarsveitirnar láta renna óskiptan til flugvirkja Landhelgisgæslunnar í þeirri von að hægt verði að klára að gera við þyrlur gæslunnar fljótlega eftir áramót og minnka þannig álag á björgunarsveitirnar.

Hvað með jólasveinana þrettán? Það mega bara tíu koma saman. Mega þeir þá ekki allir koma saman til byggða? Jú jú, þeir koma hvort sem er bara einn og einn en aldrei tveir og tveir eða fleiri. Og þó. Þetta er flókið mál. Jólasveinarnir geta að minnsta kosti komið einn og átta, það uppfyllir samkomutakmarkanir. Væntanlega mun málið skýrast eitthvað þegar Stekkjastaur mætir á upplýsingafund hjá Almannavörnum á næstunni og fer yfir stöðuna.

Á stundum hef ég þótt frekar fjarlægur persónuleiki. Hingað til hefur það verið talinn löstur en tímarnir eru breyttir. Nú í heimsfaraldrinum er beinlínis ætlast til þess að maður sé fjarlægur. Engin knús, engir kossar, ekkert þukl og engar þreifingar. Heppinn ég. Ég hef líka gætt þess sérstaklega vel síðustu mánuði að taka hluti ekki of nærri mér enda gætu viðkomandi hlutir verið smitandi og ekki við hæfi að koma við viðkomandi þó því sé við komið. Eru þið einhverju nær? Vonandi ekki en ef svo er, færið ykkur þá endilega fjær. Gleðileg jól fjær og ekki nær. Ykkur var nær. Takk.

Ástandið enginn fær flúið
og flest‘ er á rönguna snúið.
Fólkið er ferlega lúið
en fárið er samt ekki búið.

En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Þórólfi sóttvarnarlækni um að bólusetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta bólusetningin og var gjörð þá er Svandís var heilbrigðisráðherra á Íslandi. Fóru þá allir að láta bólusetja sig, hver til sinnar heilsugæslustöðvar….afsakið, hér hefur slæðst með kafli úr netstreymisjólaprédikun Dalvíkurséranna. Biðst velvirðingar á því.

Að lokum bið ég ykkur vel að lifa og óska ykkur öllum gleðilegra jóla og fjarsæls komandi árs.

Við gráturnar í Urðakirkju á aðventu 2020.

Einar Haf.

ps. ég veit að það er stutt síðan síðast en ég á afmæli í dag og þess vegna má ég þetta.

Orðin úr jólakúlunni

Einangruðu lesendur.

Já það er ég, Einar Haf, gjarnan kallaður fjórtándi jólasveinninn, sem heilsar ykkur héðan úr útsprittuðu jólakúlunni sem mér var sagt að ég ætti að búa til. Hvaða jólakúlu er verið að meina? Væntanlega þessa sem er framan á mér. Og þér. Ha? Jú sjáiði til…þökk sé langvarandi íþróttabanni og lögbundnum kósýkvöldum fyrir framan tölvuna og sjónvarpið hafa jólakúlur landsmanna stækkað ört upp á síðkastið. Fita og sykur jólanna munu hjálpa til við að stækka þær kúlur enn frekar. Auðfitað…..auðvitað.

Umhverfisráðherra hefur lagt til að stærsti þjóðgarður norðan Alpafjalla skuli drifinn upp og afgirtur hér á víðfemu og hrjóstugu hálendi Íslands. Hvers vegna? Til að skapa sérstöðu og laða að ferðamenn. Gott og vel. Andstæðingar frumvarpsins telja að betur fari á því að girða ráðherrann af uppi á hálendinu, þ.e.a.s. að reisa girðingu umhverfis ráðherrann. Umhverfisráðherrann. Það væri nú kannski ekki fallega gert. Hvar stend ég í þessu máli? Örugglega bara í túnfætinum heima, langt utan girðingar. Ég velti því fyrir mér hvernig þetta sé framkvæmt. Að búa til svona þjóðgarð. Er reist gaddavírsgirðing sem afmarkar þjóðgarðinn eða er grafinn skurður eða hvernig er þetta gert? Fer þetta allt á flot þegar Vatnajökull bráðnar af mannavöldum? Hvað mega Grýla, Leppalúði og jólasveinarnir segja? Lenda þau þá öll inni í þjóðgarðinum án þess að hafa neitt um það að segja? Fuss og svei. Ekki kæmi það mér á óvart að einhver óþekkur ráðherra fái kartöflur í skóinn á næstunni.

Undanfarið hefur verið afar mikið álag á alls konar hjálparsímum og neyðarþjónustum hér á landi, enda neyð margra mjög mikil nú á þeim furðulegu og fordæmalausu tímum sem við lifum. Neyðarlegt í meira lagi. Hjálparstarf kirkjunnar, Rauði krossinn og fjölskylduhjálpin hafa vart haft undan við að aðstoða fjölskyldur og einstaklinga í neyð og veita sáluhjálp. Margir eiga bágt nú í aðdraganda jólanna og kvíðinn stigmagnast. Líkt og fram hefur komið í fréttum er neyðin trúlega mest hjá eigendum líkamsræktarstöðva. Símkerfið hjá 113 vælubílnum hreinlega sprakk þegar forsvarsmenn líkamsræktarstöðvanna í félagi við kráareigendur og fótboltamenn í neðri deildum upphófu mikinn vælukór þegar nýjustu sóttvarnarhömlur voru kynntar almenningi. Sóttvarnarlæknir hefur átt í vök að verjast vegna þessa enda hefur verið hart að honum sótt. Varnarlækninum. Sem sagt sóttvarnarlækninum. Til varnar lækninum, sko sóttvarnarlækninum, verður þó að segjast eins og er að það er líklega mun meiri smithætta í líkamsræktinni heldur en ofan í sundlauginni. Svitinn, lóðarefsingarnar og pexaflexið gera það að verkum. Lausn vandans væri helst sú að koma líkamsræktartækjunum fyrir í grunnu lauginni með tveggja metra millibili þar sem allir geta unað glaðir við sitt, umvafðir klórblönduðu ímignu sundlaugarvatninu, samtímis því að svitna á hlaupabrettinu og í róðravélinni. Bara hugmynd.

Jólasveinarnir eru byrjaðir að streyma til byggða. Það er nefnilega í tísku þessa dagana að streyma öllu og öllum og raunar er hver ljósleiðarastrengur rækilega nýttur til að streyma áfram allrahanda menningar- og afþreyingarefni. Og ekki bara það. Jólagjafakaup landsmanna fara að stórum hluta fram gegnum veraldarvefinn í beinu streymi. Jólamessan mun streyma til okkar gegnum sjónvarpið og sömuleiðis jólaguðspjallið sem er alla jafna vistað miðlægt í skýinu – í svokölluðum sjöunda himni. Jólamaturinn og jólaölið koma einnig heim að dyrum í beinu streymi og það gera Sigga Beinteins, JólaBó og Bubbi Morthens líka. Þá má láta þess getið að nú rétt áðan streymdi ég vatninu beint úr krananum og í glasið mitt. Svona eru þetta nú fordæmalausir tímar.

Streymið heldur áfram. Áður en langt um líður fer COVID-19 bóluefnið langþráða að streyma til landsins og í beinu framhaldi fer það að streyma um æðar landsmanna með tilheyrandi lostafullum unaðshrolli. Málið er þó ekki alveg svona einfalt. Í ljós hefur komið að ekki eru til nógu margar bólur til að búa til allt það bóluefni sem til þarf handa allri heimsbyggðinni. Samkvæmt því sem mér skilst af lestri gervifrétta á netinu er bóluefni að mestu búið til úr bólum sem finnast hér og þar í náttúrunni. Þetta geta verið graftarbólur, unglingabólur og tombólur en það er reyndar engin ný bóla. Ég þarf að halda áfram að gúggla og læt vita síðar um vísindalegar niðurstöður sem koma út úr því.

Varað er við hættu á miklu streymi og jafnvel skyndiflóðum í helstu stórmörkuðum og bókabúðum landsins næstu sólarhringana, þetta mun vera jólabókaflóðið. Reiknað er með óverulegu manntjóni en ljóst er að einhverjar bækur munu lenda í ólestri, að minnsta kosti þar til þær verða teknar úr plastinu.

Sóttvarnarlæknir telur ólíklegt að bólusetningar geti hafist hérlendis fyrr en bóluefnið kemur til landsins. Þetta eru nokkur vonbrigði enda höfðu einhverjir vonast til þess að hægt yrði að byrja fyrr en síðar og jafnvel fyrr en það. Sjáum hvað setur. Setur? Já….bólusetur.

Lyftæknir sá tólfti, kunni á ýmsu lag, 
hann bóluefnið samþykkti á Þorláksmessudag.
Hann krækti sér í skammtinn, þegar kostur var á.
En stundum reyndist of stutt sprautunál hans þá. 

Á þessari stundu er engin leið að vita hvenær heimsfaraldurinn skæði verður genginn yfir og hægt verður að byrja að knúsa mann og annan. Raunar er ómögulegt að segja nokkuð til um hvað gerist í framtíðinni svona yfir höfuð. Það eitt veit ég að það árans ár sem senn er á enda verður gert upp með ítarlegum hætti á næstunni í ræðu og riti í fjölmiðlum. Bloggsíða Einars Haf mun ekki láta sitt eftir liggja í þeim efnum. Áramótahugvekja? Heldur betur. Ég myndi byrja að kvíða fyrir strax í ykkar sporum.

Gleðileg jól……og þó?

Einar á kúlunni.

Tilvitnun dagsins:

Skrámur: Heyrðu mig nú feitabollan þín…..

Orðin gerildeydd

Sprittblautu lesendur.

Já það hreinlega svífur á mann og ekki annað hægt. Sprittkeimurinn fyllir vitin og fyllir mann í kjölfarið. Fá einn tvöfaldan gin í gerildeyði takk, sleppa latex hönskunum. Nú þegar það er stranglega bannað að hafa gaman nema á netinu (með grímu og mjög góða vírusvörn) er það eiginlega alveg dæmigert að ég skuli eyðileggja það litla gaman sem þó er enn til staðar með því að fara á netið og standa þar fyrir birtingu útjaskaðrar og úreltrar bloggfærslu eins og ekkert væri sjálfsagðara. Svo vitnað sé í Víði yfirlögregluþjón; „Þetta er svo mikið kjaftæði.“ Ég biðst afsökunar en svona er þetta nú bara. Þetta ástand bloggar sig ekki sjálft.

Jólagerildeyðirinn, eða öllu heldur bragðgóður sótthreinsir dulbúinn sem jólabjór, er nú loks kominn í allar betri ÁTVR verslanir. Hann er fáanlegur bæði með karamellu-, kanil-, súkkulaði og maltkeim en einnig er hægt að kaupa þennan gamla góða með sápubragðinu. Áfengiskaup landsmanna hafa aukist töluvert upp á síðkastið og skyldi engan undra – því ef einhvern tímann var ástæða til að drekkja leiðindum og hversdagsgráma hins daglega lífs í litskrúðugum jólabjór, jólaspírítús og öðrum guðaveigum þá er það einmitt núna. Í byrjun janúar verður hægt að kaupa afvötnun á Vogi með þorraafslætti en það er að vísu algjörlega óskylt mál og önnur saga.

Dagur einfaldra var haldinn hátíðlegur í dag (gær), þann 11.11. Þá narra verslunarmenn sauðsvartan almúgann til að kaupa einhvern óþarfa gegnum veraldarvefinn af þeirri einu ástæðu að nú sé dagur einfaldra og þar af leiðandi 22% afsláttur eða þar um bil. Það að halda að sér höndum og kaupa ekki neitt þýðir að þú ert að tapa, að minnsta kosti samkvæmt auglýsingunum. Þessir andskotar gabba mig ekki svona auðveldlega, ég sé nú í gegnum svona auglýsingaskrum og afsláttartal. Þess vegna keypti ég allar mínar nauðsynjavörur í gær (fyrradag) á fullu verði, bara til að sýna fram á að ég láti ekki platast af einhverjum gylliboðum. Varast ber að rugla degi einfaldra saman við svartan föstudag og netmánudag. Þeir dagar eru algjörlega frábrugðnir þar sem þeir ganga út á, öfugt við dag einfaldra, að verslunarmenn narra sauðsvartan almúgann til að kaupa einhvern óþarfa gegnum veraldarvefinn af þeirri einu ástæðu að nú sé svartur föstudagur eða net mánudagur og þar af leiðandi 22% afsláttur eða þar um bil. Fól alla daga söng Fátækur (Eiríkur) Hauksson um árið. Var hann að syngja um markaðsöflin? Hver veit.

Auglýsingar skipa ansi stóran sess í daglegu lífi okkar nútímafólks og láta margir glepjast, jafnvel slag í slag. Oft hef ég staðið mig að því heilu og hálfu kvöldin að horfa með andakt á sjónvarpsskerminn eða tölvuskjáinn þar sem birtast dulbúnar og ódulbúnar auglýsingar í tuga tali og ákveða að nú sé komið að því að kaupa hitt og þetta sem mér er talin trú um að mig vanti sárlega. Skilaboðin smeygja sér inn í undirmeðvitundina og neyslan magnast ósjálfrátt. Raunar eru ansi margir komnir í frekar harða neyslu á þessum árstíma og ná ekki að jafna sig fyrr en langt er liðið á febrúar. Hugsum til fólks sem er í neyslu. Hjálpum þeim og kaupum jólakort Siðblindrafélagsins.

Sko vissi ég ekki – illa dulbúin auglýsing. Alla jafna er auglýsingagláp hin besta skemmtun og flótti frá daunillum og grautfúlum hversdagsleikanum. Ég saup því skiljanlega hveljur eitt kvöldið þegar á skjánum birtust óritskoðaðar fitufellingar, appelsínuhúð, rassaskorur, getnaðarlimir, geirvörtur og skapahár. Allt á besta sjónvarpstíma. Þarna var mér gróflega misboðið enda vil ég fá að sjá sykurhúðaða og myndvinnsluforritaða útgáfu af raunveruleikanum þegar ég horfi á auglýsingar. Ég kæri mig ekki um að fá blákaldan berstrípaðan raunveruleikann beint í æð með þessum hætti. Þarna sat ég í makindum og át hafragraut með súru slátri. Birtist þá ekki bara súrt slátur á skjánum. Er ekki búið að ganga nógu mikið fram af þjóðinni nú þegar? Er ekki auglýsingatíminn heilagur lengur? Maður er ekki einu sinni varaður við. Hvað með börnin? Hver á að hugsa um börnin? 8 mánaða gamall frændi minn var jafn gáttaður á þessu og ég og fór hann vitaskuld að hágráta. Grallaspóarnir í Nova komu þarna aftan að þjóðinni með því að láta athyglissjúkt allsbert fólk auglýsa snjallúr. Ég myndi gera næstum því hvað sem er fyrir frægðina….nema kannski að kaupa mér snjallúr.

Já komið þið sæl, Björn Ingi frá Viljanum hér. Spurning til Þórólfs. Hefðu strípalingarnir í Nova auglýsingunni ekki þurft að bera grímur fyrst þeir voru að bera sig svo nálægt hverjum öðrum? Jú eins og við höfum alltaf sagt þá verður fólk að huga vel að einstaklingsbundnum sóttvörnum og það gildir líka um auglýsingar utan velsæmismarka.

Ég man ekki hvort það var í tengslum við dag einfaldra, svartan föstudag eða net mánudag en allavega þá sá ég það einhvers staðar auglýst að jólin kæmu óvanalega snemma í ár og því full ástæða til að lífga upp á kolsvart COVID-19 ástandið með því að stinga jólaseríunum í samband nú þegar. Ég fór samstundis og fletti upp í almannaki Háskóla Íslands og komst að raun um að þetta var haugalygi. Jólin koma bara alveg jafn seint og alltaf. Dæmigert. Ég er hissa á að ekki hafi verið flett ofan af þessum blekkingarvef auglýsenda nú þegar og þeir dregnir til ábyrgðar. Hvað ef að jólasveinarnir heyra þetta og drífa sig til mannabyggða strax, mörgum vikum á undan áætlun? Hver á að bera ábyrgð á því? Og hver á að kveikja í bévítans geitinni? Á ég að gera það? Engar áhyggjur, þetta mun líta út eins og slys. Jólagerildeyðirinn er jú mjög eldfimur.

Knúsa og kossa ég þrái
og knattspyrnu sakna ég mjög.
Þjóðlífið liggur í dái
leik ég á ryðgaða sög
raunaleg sóttvarnarlög. 

Þess má til gamans geta að bloggarar verða meðal þeirra fyrstu sem verða bólusettir við COVID-19, rétt á eftir heilbrigðisstarfsfólki, eldri borgurum og áhrifavöldum.

Einar með spritt í sprite.

Tilvitnun dagsins:

Allir: EKKI KOMA NÁLÆGT MÉR!!!

Orðin með grímu, hanska, gleraugu, belti, axlabönd, brynju, svuntu og hjálm

Sárgrætilegu lesendur.

Velkomin á þennan upplýsingafund bloggsíðu Einars Haf. Ég heiti Einar og með mér í anda í dag eru þau Þórólfur og Alma. Það fékkst því miður enginn táknmálstúlkur til að túlka fyrir okkur að þessu sinni og ég veit ekki hvernig ég á að túlka það. Fyrst eru það tölur dagsins og að þessu sinni byrjum við á úrtölum, gjörið svo vel.

Sé ég tár á hvarmi? Já ekki bara eitt tár heldur heilt táraflóð sem streymir niður kinnarnar. Er það út af ástandinu i heiminum? Nei bara út af nýju bloggfærslunni hans Einars Haf. Ég held vart vatni yfir þessu. Volæðið nær nýjum hæðum og lægðum og ég vil alveg endilega draga ykkur lesendur niður á mitt plan og bjóða ykkur að engjast um í eymdinni með mér. Biden gegn Trump, nema bara á bloggformi. Aldnir hafa orðið…ennþá eldri.

Fiskidagurinn mikli, Gleðigangan, Reykjavíkurmaraþonið, Icelandic Airwaves, Menningarnótt í Reykjavík, Akureyrarvaka, 9 líf Bubba, Ólympíuleikarnir, gangnaballið, stóðréttarballið, kaffihlaðborð kvenfélagsins, hópknús, fyndnar bloggfærslur Einars Haf og Klaustursbarkvöld Miðflokksins. COVID-19 hefur þurrkað þetta allt saman út og mun meira til. Maður er ekki lengur manns gaman nema kannski af margra metra færi, vel sprittaður, með grímu og bak við glervegg. Mannamót eru í besta falli vafasöm og raunar stórhættuleg í meira lagi ef um er að ræða ótengda aðila. Jú það er kannski í lagi en bara svo lengi sem ekki eru teknar neinar myndir. Ferðamála- og nýsköpunarráðherra komst að því fullkeyptu í sumar þegar hún lét taka myndir af sér í þéttum hópi vinkvenna. Hún baðst afsökunar á því eftir á. Ekki á því að hafa verið of nálægt ótengdum og óskyldum aðilum heldur baðst hún afsökunar á því að það hefði verið tekin mynd og sett á samfélagsmiðla. Eðlilega. Engir atburðir eiga sér stað í raun og veru nema þeim séu gerð myndræn skil á samfélagsmiðlum. Þetta vitum við áhrifavaldarnir. Skömmu eftir vinkonuhitting ráðherrans var tveggja metra reglan færð niður í einn metra og hugtakið „tengdir aðilar“ gert enn loðnaðar og teygjanlegra. Einmitt það sem við þurftum alls ekki. Þegar værð færðist yfir mannskapinn og Þórólfur leyfði sér að glotta út í annað svo sást í hvítar veirufríar tennurnar fór allt til andskotans. Veiruskrattinn náði sér á strik, höfuðborgarsvæðið breyttist í rauðglóandi stórsýkt hættusvæði, Kári Stefánsson dró augað enn meira í pung en áður og Þorgerður Katrín fór í golf í Hveragerði, enda gilda almenn lög og tilmæli sóttvarnaryfirvalda ekki um alla svona almennt. Fuss og svei. Það eina sem við getum gert til að vinna bug á heimsfaraldrinum er að sýna samstöðu. Það gildir að vísu ekki um alla því þessi forgjöf lækkar sig jú ekki sjálf, burtséð frá því hvort það geysi einhver bévítans heimsfaraldur eða ekki.

Góðir landsmenn. Við erum öll á sama báti. Eða í sama báti. Eða kannski í sömu skútunni. Þjóðarskútunni. Skútunni sem siglir í covid-hafróti Atlantshafsins gegnum bárur, brim og voðasker. Skútunni þar sem seglum er yfirleitt hagað eftir vindi, að minnsta kosti þegar það hentar. Skútunni þar sem allar ferðir eru án fyrirheits. Farþegar á almennu farrými eru vel flestir orðnir sjóveikir og langþreyttir á veltingnum en nokkrir þeirra efnameiri voru séðir og komu sér frá borði með þyrlu fyrir nokkru síðan. Skipstjórinn sér lítið sem ekkert hvað er framundan enda bæði með grímu, skjöld og hlífðargleraugu auk þess sem að vera orðinn vel hífaður af öllu sprittinu. Allt mun þetta þó reddast, þó svo að skútan muni velkjast um stefnulaust úti á rúmsjó í marga mánuði í viðbót munum við ná til lands á endanum. Jafnvel þó hinn almenni farþegi hafi fyrir löngu lagt árar í bát….þetta er reyndar ekki árabátur svo það kemur ekki að sök. Einhverjir vilja meina að við séum alls ekki öll á sama báti eða í sömu skútunni heldur sigli sumir lygnan sjó á fyrsta farrými á skemmtiferðaskipi meðan aðrir berjast um í margra metra ölduhæð á þræla galeiðu úti á rúmsjó. Hvað sem því líður ætla ég að sigla minn sjó eftir sem áður, enda ekki kallaður Einar Haf út í bláinn.

Svokallaðir sófasérfræðingar hafa verið nokkuð áberandi í tengslum við fréttaumfjöllun undanfarið. Ég hefði einmitt þurft á góðum sófasérfræðingi að halda því sófinn hjá mér er farinn að gliðna í sundur og það þarf sérfræðing til að laga það. Annars er í þessu samhengi trúlega ekki átt við hina bókstaflegu sófasérfræðinga heldur frekar þá sem fylgjast með þjóðmálaumræðunni álengdar og vita allt betur en aðrir. Þessa dagana á þetta einna helst við um ráðstafanir í sóttvarnarmálum. Auðvitað átti ekki að gera þetta svona og hins veginn – það átti að gera þetta hins veginn og svo svona. Auðvitað átti ekki að herða, slaka, herða, slaka, herða, slaka og herða á sóttvarnaraðgerðum heldur átti að herða, herða, herða, herða, slaka, herða, slaka, herða, herða á sóttvarnaraðgerðum. Ég þykist nú vita að í þessu máli eins og fleirum gildi hið fornkveðna að auðveldara sé um að tala en í að komast. Hvað gerir svo sóttvarnarlæknir næst? Hverjir þurfa að loka og hverjir mega hafa opið? Hve lengi þarf að vera í sóttkví? Verður Íslandsmótið í knattspyrnu klárað á Dalvíkurvelli? Þessum spurningum og fleirum er afar erfitt að svara eins og sakir standa. Öllum má þó vera það ljóst að hér eftir sem hingað til mun sóttvarnarlæknir hafa alla þræði í hendi sér og mun hann koma til með að dæma lifendur og dauða. Hmm…nei ég meinti að hann mun koma til með að vera með sálarlíf heillar þjóðar í lúkunum eitthvað áfram.

Þríeykið svokallaða stendur í ströngu og skyldi engan undra að farið sé að gæta þreytumerkja í lund þess og fasi. Öll erum við mannleg og öll gerum við mistök. Víðir yfirlögregluþjónn gerði mistök þegar hann leyfði Eiríki frá Hamri landsliðseinvaldi og Frey Alexanderssyni aðstoðarþjálfara að horfa á leik Íslands og Belgíu úr vígbúnu glerbúri á Laugardalsvelli. Það voru líka mistök hjá Þorgrími Þráinssyni að knúsa strákana okkar eftir sigurinn á Rúmeníu, líkt og síðar kom í ljós. Það voru sennilega bara mistök að leyfa allt þetta tuðruspark yfirhöfuð því þó menn slyppu við Covid gætu þeir marist, tognað, brotnað eða hreinlega örkumlast á losaralegum Laugardalsvelli. Ekki er útlit fyrir neina íþróttaiðkun á næstunni meðan þriðja bylgja leiðinda og ömurlegheita gengur yfir landið og miðin. Ég stalst þó til þess áðan að tefla gegnum veraldarvefinn og biðst ég afsökunar á því.

Nú stendur til að herða mjög lög og reglur sem gilda um flugeldaskothríð kringum áramótin – enda ekkert vit í því að leyfa eitthvað sem gæti talist skemmtilegt á árinu 2020. Undir því yfirskyni að draga úr mengun er lagt til að aðeins megi selja flugelda milli klukkan 02:40 og 04:50 aðfaranótt 31. desember og að aðeins megi skjóta þeim upp meðan útvarpsstjóri segir „Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það liðna“ um klukkan 00:02 á gamlárskvöld/nýársnótt. Gott og blessað…eða hvað? Hvað með fjárhag björgunarsveitanna sem við megum ekki vera án? Þarna tel ég að dómsmálaráðherra hafi ekki alveg hugsað málið til enda og sé í ákveðinni þversögn við sjálfa sig. Hvers vegna? Jú, á meðan hún leggur til að skerða aðgengi að flugeldum og skerða þannig fjárhag björgunarsveitanna er lagt til að auðvelda aðgang að áfengi sem aftur þýðir auknar tekjur í ríkissjóð. Ættu ekki þessar tvær meginstoðir skemmtanahalds um áramót; skoteldar og áfengi að sitja við sama borð? Er í lagi að selja áfengi í matvöruverslunum en ekki flugelda? Hver er munurinn? Rjómatertur eða skottertur – allt eru þetta tertur og tertur fást jú út í búð. Mun Björgunarsveitin á Dalvík selja Víking Gylltan í fjáröflunarskyni um áramótin? Þarna þurfa menn að hugsa málin til enda áður en allt fer úr böndunum.

Brátt mun batna ennþá frekar tíðin
bleikir verða akrar, fögur hlíðin.
Lokum okkur af og leysum vanda,
látum sprittið vinna á þessum fjanda.

Sameinuð við stöndum er á reynir
í stríðinu menn berjast ekki einir.
Hvenær má ég knúsa næsta mann?
Hvenær má ég rembingskyssa hann? 

Þess má til gamans geta að þessi bloggfærsla var tilnefnd til Grímuverðlauna en tapaði fyrir Grími Grímssyni.

Einar grímulaus.

Tilvitnun dagsins:

Allir: GRÍMUR!!!

Orðin með grímu, belti, axlabönd og einnota hanska

Útilegulegu lesendur.

Gaman er að geta komið orði fyrir sig. Skíðakappinn norski stundar bæði brun og svig. Í Ameríku kóvid komið er á hættustig. Helvíti er Kópasker að fara vel með þig. Inngangsorð sem ríma eru ekkert fyrir mig.

Grímur í Herjólfi? Nei ég hringdi í Herjólf og spurði og þar var enginn Grímur. Við fylgjumst spennt með áfram.

Nú er aftur komið á faðmlaga-, knúsa- og kossabann á Íslandi, það er að segja milli ótengdra og óskyldra aðila. Tveggja metra viðmiðið er aftur orðið að reglu og ekki fleiri en 100 manns mega koma saman og kemur það heim og saman við það að ótengdir og óskyldir aðilar mega ekki koma heim saman. Kórónaveirufaraldurinn tók sér smá frí á Íslandi en er nú mættur aftur með tilheyrandi gráti og gnístran tanna. Það eru að vísu ekki algeng einkenni hinna sýktu en mun algengari einkenni meðal listamanna, ferðaþjónustuaðila og annarra sem tjá sig opinberlega um að hafa misst spón úr eigin aski. Vissulega er allt á leiðinni til fjandans, fjöldi fólks hefur misst lífsviðurværi sitt og vanlíðanin magnast. Eflaust myndi ég mála skrattann á vegginn ef ég hefði vegg, málningu og pensil. Það ætla ég hins vegar ekki að gera. Hins vegar ætla ég að halda áfram minni félagslegu einangrun, sem í dag nefnist sjálfskipuð sóttkví – og spritta mig inn að skinni. Byggjum múra, lokum okkur af, óttumst annað fólk, förum á kojufyllerí og skömmumst okkar.

Grímur í strætó? Nei ég athugaði málið áðan og það var enginn Grímur í strætó. Við fylgjumst spennt með áfram.

Líkt og um páskana er aftur komin upp sú staða að fólki er ráðlagt að vera sem mest heima hjá sér. Þeirri reglu hef ég að vísu fylgt samviskusamlega sjálfur…svona að mestu – í fjölda ára og þið sjáið nú hvernig komið er fyrir mér. Það má því öllum vera það ljóst að ef þetta ástand dregst verulega á langinn verða afleiðingarnar hrikalegar og jafnvel óafturkræfar. Ég veit að þið trúið því ekki endilega en ég átti einu sinni framtíðina fyrir mér. Ég var efnilegur á ýmsum sviðum og útlitið var nokkuð bjart. Síðan gerðist eitthvað sem ég get ekki útskýrt en hefur valdið því að ég hef setið eftir á flestum sviðum og er í dag aðhlátursefni þeirra sem hafa komið ár sinni vel fyrir borð. Aðhlátursefninu hef ég stundum reynt að koma í orð og þegar það tekst hef ég hamrað þau á lyklaborðið þannig að lesendur bloggsíðu þessarar fái notið þess að lesa um eymdina og volæðið. Mitt markmið er að láta öðrum líða vel og þá er einna best að gera það á eigin kostnað. Það má jú ekki gera grín að neinu í dag – segja þeir sem eitthvað þykjast vita. Ég ætlaði til dæmis að úthúða Kópaskeri, Raufarhöfn og fleiri vel völdum krummaskuðum hér næst og síðan ætlaði ég að drulla yfir transfólk og útlendinga síðar í pistlinum. Eitthvað sem tíðkast hefur hér á landi lengi og fylgt hefur íslenskri menningu en nú má þetta víst ekki lengur. Við lifum svo sannarlega á fordæmalausum tímum. Byggjum aðeins meiri múra, lokum okkur ögn meira af, óttumst annað fólk pínu meira, förum á aðeins lengra kojufyllerí og skömmumst okkar smá í viðbót.

Grímur í flugvélinni? Nei enginn Grímur hér. Það er svo sem ekki eins og það séu margir í flugvélinni, hvað þá Margeir. Við fylgjumst spennt með áfram.

Undanfarið hefur það sýnt sig að það eitt að vera til og lifa er stórhættulegt. Jafnvel lífshættulegt. Það eitt að knúsa næsta mann getur verið banvænt ef næsti maður er með bráðsmitandi sjúkdóm. Það eitt að fara í fjallgöngu getur verið banvænt ef fjallið sem þú gengur á ákveður að gjósa. Það eitt að lesa bloggið hans Einars Haf getur verið banvænt fyrir hvern sem er því ef ég vanda mig ekki er mjög hætt við að lesendur deyi úr leiðindum. Það eitt að fara í sund í Sundskála Svarfdæla getur verið banvænt ef viðkomandi stingur sér til sunds og fattar í miðri stungu að sundlaugarkarið er vatnslaust. Það eitt að fara í útilegu á Húsabakka getur verið banvænt ef viðkomandi villist í puntinum og illgresinu sem þar veður uppi og finnur ekki leiðina út. Það eitt að leika sér í excel getur valdið löngum og illvígum dauðdaga ef ekki eru notaðar réttar formúlur og dregnar réttar ályktanir. Það eitt að fara í veislu getur orðið manni að aldurtilla, til dæmis ef bakkelsið stendur í manni eða þá ef maður fattar í miðju Snickers nammi að maður sé með bráða hnetuofnæmi. Hætturnar leynast við hvert fótmál. Gerið eins og ég, lokið ykkur af heima hjá ykkur og einangrið ykkur félagslega. Byggjum sterkari múra, lokum okkur þéttar af, óttumst annað fólk heldur meira, förum á tveggja daga kojufyllerí og skömmumst okkar í drasl. Hmm, mér finnst ég vera aðeins farinn að endurtaka mig.

Grímur í lestinni? Það veit ég ekki. Það eru engar lestar á Íslandi. Þess má reyndar geta svona til gamans að ef það væri lest á Íslandi myndi ég reka hana.

Eftir að önnur bylgja COVID-19 skall á hér á landi hefur alveg gleymst að hrauna hressilega yfir leikhópinn Lottu. Leikhópurinn á það svo sannarlega skilið enda varð einum meðlima hópsins það á að segja lélegan brandara um Kópasker og Raufarhöfn. Guði sé lof fyrir að mér hefur enn ekki verið refsað fyrir alla lélegu brandarana sem ég hef látið frá mér fara gegnum árin – því þá væri ég ekki hér til frásagnar. Annars hefur leikhópurinn Lotta ferðast um landið í sumar og sýnt leikrit sem byggir á sögunum um Bakkabræður en eins og flestir vita bjuggu þeir í Svarfaðardal. Líkt og hjá leikhópnum gekk ekki allt upp í lífi þeirra bræðra en þó voru þeir ákveðnir brautryðjendur á sínum tíma þegar þeir fóru í sóttkví fyrstir manna. Að vísu var það ekki vegna farsóttar heldur vegna tungls í fyllingu sem kom upp úr hafinu og þeir töldu vera herskip. Af ótta við það lokuðu þeir sig af inni í fjósi, byrgðu bæði dyr og glugga og sultu loks í hel. Hræðileg og grimm örlög, jújú – en þeir urðu frægir fyrir vikið og er þá ekki markmiðinu náð? Byggjum þykkari múra, lokum okkur meira af, óttumst annað fólk enn meira, förum á enn meira kojufyllerí og skömmumst okkar mest.

Grímur í búðinni? Já það er hægt að kaupa grímur í búðinni. Verðið var að vísu hækkað um 763% þegar farið var að mæla með grímunotkun í þröngum rýmum þar sem tveggja metra reglunni yrði ekki viðkomið. Það er samt óþarfi að hneyklast á því, enda bara venjulegar íslenskir viðskiptahættir.

Stefna stjórnvalda hér á landi er að herða og slaka á sóttvarnarreglum á víxl til að bæði rugla fólk í ríminu og eins til að stemma stigu við útbreiðslu COVID-19 en njóta þó lífsins þess á milli. Herða og slaka. Slaka, eins og þeir myndu segja á Dalvík. Eins og staðan er í dag er engin leið um það að segja hvenær næst verður hert á og slakað á en lífið er jú óútreiknanlegt og við það þurfum við að búa. Enginn veit hvenær hægt verður að fara í leikhús, á ball eða á barinn en þó er vitað að þetta er allt saman stórhættulegt hvort sem það er bráðsmitandi drepsótt á ferðinni eða ekki. Enginn veit heldur hversu margir ferðaþjónustuaðilar fara á hausinn en þó er það huggun harmi gegn að aldrei hefur útlitið verið það dökkt að ekki birti aftur til. Það hélt til dæmis enginn að ferðaþjónustan næði sér á strik eftir berklana, móðuharðindin og svarta dauðann en annað kom þó á daginn. Verum bjartsýn. Byggjum sverari múra, lokum okkur algjörlega af, óttumst annað fólk eins og pestina, förum á sótthreinsivökvakojufyllerí og skömmumst okkar meira en í öllum fyrri efnisgreinum til samans.

Veirulitað lífið mitt
losna ei við þennan fjanda
af stút er best að þamba spritt
og spræna svo burtu þessum vanda. 

Þess má til gamans geta að þessi ljóðagerð var með öllu grímulaus og mun ég því ekki koma til með að eiga möguleika á Grímuverðlaununum næst þegar þeim verður úthlutað. Það gengur bara betur næst.

Einar Grímur Hafliðason.

Tilvitnun dagsins:

Allir: SPRITT!!!

Orðin jafnvel ennþá fordæmalausari en fordæmi voru fyrir

Heimkomusmitgátlegu lesendur.

Loksins erum við laus við pláguna. Laus við vágestinn sem valdið hefur okkur óbætanlegu tjóni, heilsubresti, fjárhagstjóni, fjörtjóni, fjöldauppsögnum og almennum leiðindum. Nei ég er auðvitað ekki að tala um COVID-19 heldur er ég að tala um bloggarann Einar Haf. Hann er sem betur fer horfinn af sjónarsviðinu. Er það ekki annars örugglega? Hmm…ég er ekki alveg viss. Best að lesa aðeins lengra og reyna að átta sig á þessu. Lesa lengra í þessari nýju bloggfærslu frá Einari Haf meinar þú? Já….heyrðu bíddu við….Ó NEI!!!!!!!!!

Þessi ótímabæra, óskammfeilna, ósvífna og óumbeðna endurkoma Einars Haf var alls ekki í kortunum. Ekki frekar en slydda í júlí, endurkoma Guðjóns Þórðarsonar í fótboltann eða flugfreyjulaust flugfélag. Beðist er velvirðingar á öllum fyrrgreindum atburðum, þetta kemur vonandi ekki fyrir aftur.

Þegar gerði góða þurrkatíð nú í lok júní ruku Svarfdælingar til, brýndu ljáinn og hófust handa við að slá tún og engi sem mest þeir máttu í þeim tilgangi að koma vetrarforðanum í plast. Gekk það að mestu vel fyrir sig og náðu bændur góðu fóðri en í mismiklu magni þó. Á sumum stöðum komu tún kalin og hvít undan vetri en það var sem betur fer lítið um það á Urðum enda túnin gömul, grýtt, harðgerð og hallandi. Ég tók að mér það hlutverk að vera maðurinn með ljáinn hér á bæ. Eftir að hafa tekið aukaskammt af sjóveikipillum og farið eina ferð í ríkið tókst mér að klára að slá mest krefjandi túnin – og þegar upp var staðið raunar öll túnin sem slá átti. Fyrri slætti lauk á merkilega skömmum tíma en fyrirslætti er langt því frá lokið. Eftir að hey var hirt af túnum hefur nokkuð borið á áburði sem borinn var á og hefur alla burði til að auka sprettu og almenna velsæld þegar fram líða stundir.

Nú fyrir skömmu tók ég ásamt fleirum þátt í hinu árlega Pollamóti á Akureyri. Var það hin besta skemmtun og raunar jókst skemmtunin eftir því sem sprittnotkun útvortis og sprittnotkun innvortis jókst – í þágu sóttvarna. Pollaliðinu sem ég spilaði með var úthýst með tilheyrandi hreinu lofti og sólbrúnku en allir aðrir flokkar spiluðu að mestu innandyra í Boganum. Væntingar um árangur hjá mínu liði voru undir meðallagi og árangurinn var í meðallagi undir væntingum sem voru undir meðallagi. Voru þær væntingar undir væntingum. Leikkerfið sem við spiluðum var svokölluð 3-2-1 sóttvörn. Kerfið gekk út á það að fyrst var sótt og svo var farið í vörn. Þetta virkaði ekki sem skyldi en það gengur bara betur næst. Mín besta frammistaða kom tvímælalaust á lokahófi Umf. Óþokka þar sem ég steig á stokk og dró sjálfan mig sundur og saman í háði við gríðarlega góðar undirtektir viðstaddra. Skyldi engan undra þegar haft er í huga hver ég er.

Nýverið komst kærunefnd jafnréttismála að þeirri niðurstöðu að biskup Íslands hefði brotið jafnréttislög þegar karlkyns sóknarpresti var úthlutað brauði í Garða- og Hvalfjarðarstrandarprestakalli en kvenkyns sóknarprestur sat eftir með sárt ennið. Þarna klikkaði biskup illilega á því að gá ekki undir hempur umsækjenda og þreifa fyrir sér til að tryggja jafnrétti en ég áfellist hana reyndar ekki fyrir þessi mistök. Þetta var jú einu sinni skipan sóknarprests í Hvalfjarðarstrandarprestakalli en ekki Hvalfjarðarstrandarprestakonu. Rétt er að hafa í huga að það eru allir jafnir frammi fyrir Guði en sumir eru að vísu jafnari en aðrir. Það er ekki víst að ég jafni mig á þessu alveg strax, jafn heimskulega og það kann að hljóma.

Nýverið var svokölluð hestamessa sungin hér í Urðakirkju. Þar sem ég sit einmitt núna með fartölvuna og notast við svokallaða skýjalausn þar sem gögnin mín vistast sjálfkrafa í skýinu einhvers staðar uppi í sjöunda himni. Nettengingin er líka alveg himnesk. Það er þó önnur saga. Um var að ræða venjulega messu nema með hestaívafi. Segir sig kannski sjálft. Líkt og ávallt var heilmikið tilstand af hálfu heimilisfólskins á Urðum sem rýkur ævinlega upp til handa, fóta og kökukefla þegar sóknarprestum Dalvíkur- og Möðruvallaprestakalls (en ekki konu) dettur í hug að messa í kirkjunni. Slett var í nokkrar tertur, eplaköku og kruðerí, hellt upp á kaffi og þeyttur rjómi og veitingarnar bornar út á þar til gert veisluborð sem við höfðum stillt upp á hlaðinu. Það varð til þess að loksins tók að rigna sem var gott fyrir túnin sem aftur er svo gott fyrir hestana. Nú er ég hins vegar kominn langt út fyrir efnið. Hestamessan já. Þetta var fyrirtaks messa og hin ánægjulegasta kvöldstund, tileinkuð hestamönnum. Hestunum sjálfum var ekki hleypt inn í kirkjuna en þeir fengu að vera í girtu hólfi skammt frá og gera sín stykki þar meðan þeir heyrðu óminn úr guðshúsinu. Þeir vösku hestamenn sem komu ríðandi á fákum sínum til kirkju hlustuðu í andakt á séra Magnús hrossabrest…eða öllu heldur hrossaprest slá í klárinn og ríða á vaðið með hverju guðsorðinu á fætur öðru. Mætingin var vel viðunandi en þess má til gamans geta að messuboðið var ekki sent út símleiðis eða með pósti heldur var það sent út með faxi. Drottinn, miskunna þú hross. Að endingu fór hver til síns heima saddur og sæll. Endir.

Í fleiri vikur setið hef og svitnað
sopið kók og étið feitt og fitnað
það er ansi mikið að
ég COVID-19 kenni um það.

Afar fáir kæra sig um kallinn
hjá kunningjum í gleymsku og dá er fallinn
einkalífið allt í spað
ég COVID-19 kenni um það.

Ólyktin hér ætlar flest að kæfa
og ælubragðið allt að yfirgnæfa
í mánuð hef ei farið í bað
ég COVID-19 kenni um það.

Í fjöllum hríð því júlí boðar haustið
hroll og vosbúð fólk er ekki laust við
kulnun jarðar á sér stað
ég COVID-19 kenni um það. 

Þetta ljóð er frekar falskt og lúið
frábært þætti ef það væri búið
sem skáld hef ég ekkert afrekað
ég COVID-19 kenni um það.

Þess má til gamans geta að engum flugfreyjum var hótað við gerð þessarar bloggfærslu, nema ef átt er við blíðuhót.

Einar á skeiði.

Tilvitnun dagsins:

Allir: COVID-19!!!