Nei nei og aftur nei. Neikvæðnin svífur nú aftur yfir vötnum, loksins loksins. Eftir að örlað hafði á jákvæðni hjá undirrituðum snemma í apríl tók neikvæðnin sem betur fer öll völd á ný – og hafa gjörðir mínar allar götur síðan borið þess glöggt merki. Já nei nei.
Nei ertu ekki að grínast? Nei.
Ýmiskonar blikur eru á lofti í ýmiskonar málum þessa dagana og full ástæða til að vera neikvæður. Enn sem komið er greinist ég neikvæður gagnvart apabólunni enda hef ég ekki tekið þátt í neinu villtu kynsvalli með ókunnugum upp á síðkastið. Eitthvað sem var reyndar daglegt brauð hjá mér áður en COVID-19 og Þórólfur Guðnason komu til skjalanna en það er önnur og mun dónalegri saga. Allar líkur eru á því að vergjarnir vandræðagemlingar, hjólgraðir hnattkönnuðir í heimsreisu og frjálslyndir og fjálglegir ferðamenn beri hina nýju alheimspesti með sér hingað til lands með ófyrirséðum afleiðingum. Bólar þá ekkert á öpunum? Nei.
Íslendingar tóku auðvitað þátt í júróvísíjón söngvakeppninni nýverið og báru auðvitað skarðan hlut frá borði. Voru það vonbrigði? Nei ekkert meira en venjulega. Aðalatriðið er að vera með í keppninni, það er að segja að vera með atriði í keppninni. Árangurinn er aukaatriði, aðalatriðið er aðalatriðið en söngurinn er söngatriði og trúlega aukaatriði að auki. Æi voðalega er þetta slappt, næsta atriði takk.
Það er ekki bara bullandi neikvæðni heldur eru hreinlega blikur á lofti hvað varðar kjarasamningagerð síðar á árinu. Helstu baráttumál verkalýðshreyfingarinnar og stéttarfélaga snúast um það að starfsfólk verkalýðshreyfingarinnar og stéttarfélaga haldi vinnu sinni hjá verkalýðshreyfingunni og stéttarfélögunum. Búið er að segja upp með hópuppsögn hjá Eflingu öllum sérfræðingum í réttindum starfsfólks sem lendir í hópuppsögn. Þar af leiðandi getur það fólk sem lenti í hópuppsögn hjá stéttarfélaginu ekki leitað til stéttarfélagsins þar sem allt starfsfólk stéttarfélagsins lenti í hópuppsögn. Ég er auðvitað ekki að búa þetta til, svona er staðan í raun og veru.
Og þá skiptum við yfir í hörðu efnin. Loksins. Erum við að tala um spilliefni? Nei, fylliefni. Þið spyrjið eflaust, hvað eru fylliefni? Fylliefni eru efni sem notuð eru til þess að fylla upp í hrukkur, móta andlitsdrætti og blása út varir fyrr en varir, svo dæmi séu tekin. Þar til fyrir nokkrum vikum hafði ég aldrei heyrt minnst á fylliefni, bara spilliefni. Ég þekki ekki muninn á fylliefnum og spilliefnum – og kannski skýrir það að einhverju leyti vafasamt útlit mitt. Engar reglur gilda um notkun fylliefna hér á landi, ólíkt því sem tíðkast í nágrannalöndum okkar. Það eru því hæg heimatökin fyrir áhugasama að panta sér fylliefni erlendis frá og sprauta þeim jöfnum höndum í sig og aðra villt og galið án utanaðkomandi eftirlits. Útkoman er oft sláandi, því ef ekki er varlega farið er ákveðin hætta á afmyndun og óeðlilegum uppblæstri, jafnvel útblæstri. Ég fór í ríkið um daginn og keypti fylliefni, fór svo heim og innbyrti og endaði auðvitað á því að verða blindfullur. Ég skil því vel að sérfræðingar hafi miklar áhyggjur af stöðu mála á hinum íslenska fylliefnamarkaði.
Vorverk standa nú yfir og er af nægu að taka. Til dæmis þarf að gera við girðingarnar. Hvað þarf að gera við girðingarnar? Ég veit það ekki. Auðvitað er vel við hæfi að slá á létta strengi þegar gert er við fjallgirðingu, enda aö stórum hluta um að ræða fjögurra til sex strengja gaddavírsgirðingu. Sums staðar eru fjórir strengir ofanjarðar, sums staðar eru þeir fimm og á stöku stað eru þeir sex. Eins og margoft hefur komið fram hér á þessari bloggsíðu er allt á hægfara leið til helvítis – og er sjötti strengurinn einmitt kominn vel áleiðis þangað á löngum köflum.
Hvað með heimsmálin? Stríð og hörmungar? Flóttamannavandann? Brottvísun flóttafólks? Vöru- og matarskort? Fjöldamorð á óbreyttum borgurum? Æi nei ég vil ekki tala um þetta, fyrr má nú vera neikvæður. Eigum við ekki frekar að taka upp léttara hjal og spjalla við bændur. Fyrir skömmu var eyfirskur bóndi í fréttunum og lét sá hafa eftir sér að eins og staðan væri í dag þyrfti hann að greiða með hverjum nautgrip. Betra væri fyrir bóndann að skipta út nautgrip og ná sér í uppgrip í staðinn, enda mun arðbærara. Hvað með öryggisnetið? Styrkjakerfið? Tja, ég veit ekki með nautið en samkvæmt mínum heimildum naut bóndinn styrkja. Naut ég þess að fjalla um þetta mál? Nei alls ekki (neikvæður þið munið).
Nei eða já, af eða á? Erfitt er oft að finna svarið. Nei…alls ekki. Svarið er augljóslega nei.
Neikvæði
Að setja upp skeifu og hrista haus
hentar fyrir svein og mey,
við vonbrigðin þú verður laus
já víst er gott að segja nei.
Það var ekki spurning um það hvort heldur hvenær. Algjörlega úr tengslum við raunveruleikann og gjörsamlega úti á túni í öllum meginatriðum. Og nú, loks smitaður af hinni vinsælu kórónuveiru. Oft var þörf á að fá algjörlega óþarfa bloggfærslu úr fórum Einars Haf en þó aldrei sem nú.
Varúð, eftirfarandi texti er ritaður af manni með heilaþoku, sýnið aðgát.
Búið er að einkavinavæða hluta Íslandsbanka (aftur) í skjóli nætur – nú með sérstökum vinaafslætti. Það var seint um kvöld á skrifstofu Harrý Rögnvalds einkaspæjara og hins hundtrygga aðstoðarmanns hans Heimis Snitsel að síminn hringdi. Í símanum var dularfull rödd sem hvíslaði að nú væri að hefjast lokuð og leynileg sala til lokaðs og leynilegs hóps á lokuðum og leynilegum eignarhlutum í Íslandsbanka sem væri lokaður (en ekki leynilegur) enda afar seint um kvöld og bankar lokaðir seint á kvöldin. Harrý Rögnvalds þóttist heyra að þarna væri á ferðinni Bjarni Ben sem hefði greinilega ætlað að hringja í Benedikt pabba en í ógáti hringt á skrifstofu einkaspæjarans. Það er jú alltaf hægt að ruglast í ríminu. Bjarni baðst afsökunar og skellti á. Harrý var hugsi, Heimir spegúleraði en svo gerðist ekkert meira í málinu fyrr en listi yfir hina lokuðu kaupendur var gerður opinber. Þá komu í ljós ýmis ný sannindi eins og til dæmis þau að Bananalýðveldið ehf. er fagfjárfestir í augum Bankasýslu Ríkisins. Alþingismenn og almenningur, jafnvel Bjarni Ben sjálfur, tala um að hér sé á ferðinni algjört klúður á öllum stigum málsins. Til dæmis hafi Bjarni margsinnis bannað pabba sínum að kaupa hlut í Íslandsbanka á afslætti en pabbi hafi því miður óhlýðnast enda sprelligosi og grallaraspói mikill. Það gengur í ættir. Þá hafi Bankasýsla Ríksisins ekki verið með réttar símanúmeraupplýsingar þegar kom að því að hringja í fagfjárfesta til að láta þá vita um lokuðu og leynilegu söluna. Fyrir mistök hafi verið slegið inn „þvagfjárfestir“ í staðinn fyrir „fagfjárfestir“ á já.is og því fór sem fór. Eftir mikið fjaðrafok og gnístran tanna í þingsölum og úti um torg var niðurstaðan sú að Harrý Rögnvalds og Heimir Snitsel eiga að framkvæma hlutlausa rannsókn á lokuðu og leynilegu sölunni. Ég sjálfur er með öllu hlutlaus – enda fékk ég ekki að kaupa hlut í bankanum. Til stendur að stofna hagsmunasamtök hlutlausra, þ.e. þeirra sem eru lausir við að eiga hlut í bankanum og bankasölunni.
Búið er að slaufa og afskrifa langt niður fyrir hrakvirði nokkra kviknakta forstjóra í heitum potti, fjölþreifna og falska tónlistarmenn og nándarsækna leikara sem fóru yfir mörk kvenna og gerðust sekir um ofbeldi og ósæmileg athæfi af ýmsu tagi. Ég sjálfur hef ekki farið yfir nein mörk, enda eru mörkin á hinum rennislétta Glæsivelli við Rima enn undir snjó. Sem gjaldkera hjá hinu 100 ára gamla félagi Umf. Þorsteini Svörfuði ber mér vissulega skylda til að fara yfir mörkin reglulega en næsta reglulega markaskoðun fer fram í byrjun júní samkvæmt gildandi markaskrá.
Í öðrum fréttum má nefna að:
Búið er að slaufa kóvid og öllum kóvid tengdum fréttaflutningi.
Búið er að halda á hörundsdökkum og hörundssárum framkvæmdastjóra Bændasamtakanna eins og nýveiddum silungi.
Búið er að fresta því að byggja bráðnauðsynlegan þjóðarleikvang en eyða peningunum þess í stað í það að strá möl ofan í hyldjúpar holurnar á malarveginum við Hreiðarsstaði.
Búið er að taka niður raflínustaura og nokkra girðingarstaura í leiðinni.
Það er ekki alveg búið að þylja upp Passíusálmana (komnir 46 af 50).
Búið er að endurskoða nokkur félög og skila skattframtölum.
Búið er að ryksuga tvöþúsund áttahundruð og sjötíu flugur í Urðakirkju frá áramótum.
Kári Stefánsson er hættur að raðgreina og hraðgreina en þetta tvennt þarf að aðgreina. Ef ég þekkti nú ekki muninn á kúki og skít, væri þá ekki ráðlegt að taðgreina? Nei bara pæling.
Búið? Nei ekki alveg. Ég verð að láta þess getið að ég skrifaði eitt stykki þorrablótsannál í hjáverkum í samstarfi við þorrablótsnefnd Svarfdælinga en annað árið í röð var blótið í dalnum sent út gegnum netið. Ég hef þar af leiðandi ekki hugmynd um hvort þeir sem á horfðu höfðu gaman af skemmtuninni eða ekki – en ég er svo sem vanur því eftir að hafa bloggað í fimmtán ár eða þar um bil að tala fyrir tómum sal og fá engin viðbrögð. Vonir standa til þess að framvegis verði hægt að halda fjölmennar skemmtanir á borð við þorrablót og dansiböll án þess að sóttvarnaryfirvöld skipti sér af því en þó veit maður aldrei. Sýklalyfjaónæmi, gin- og klaufaveiki, inflúensa, ebóla og þursabit gætu hæglega haft af okkur næstu skemmtanir sem eru fyrirhugaðar. Það er því best að stilla væntingum um að komast í hóf í hóf.
Það þótti tíðindum sæta þegar Will Smith gaf Chris Rock kinnhest á Óskarsverðlaunahátíðinni. Ástæða kinnhestsins sem skók heimsbyggðina mun hafa verið ósmekklegur og lélegur brandari Chris Rock um eiginkonu Will Smith. Ef ósmekklegir og lélegir brandarar réttlæta kinnhest með flötum lófa sé ég sæng mína uppreidda en bið um leið heimsbyggðina afsökunar og lofa að koma með skárri brandara næst.
Eftir verulega mikla neikvæðni síðustu tvö ár eða svo hef ég nú loks greinst jákvæður. Það er frekar dæmigert fyrir mig að loksins þegar sá fyrir endann á kóvid fárinu skyldi ég taka mig til og ná mér í veiruna umtöluðu. Eftir að hafa haldið markinu hreinu svona lengi er það sárt að fá á sig skyndisókn og mark gegnum klofið í uppbótartíma leiksins en þannig er tilfinningin. Þessi nýgreinda jákvæðni mun trúlega ekki hafa nein áhrif til hins betra á bloggsíðuna en þó veit maður aldrei. Sumir sem smitast hafa af kórónuveirunni hafa lýst miklu máttleysi, andleysi og afar skertu bragð- og lyktarskyni. Ég sjálfur hef haldið mig við kvefeinkenni en látið þar við sitja. Bragð- og lyktarskyn eru í lagi en skopskynið er nokkuð brenglað. Á því sviði gekk ég að vísu ekki alveg heill til skógar hvort eð er.
Sverrir og svilkonan Lene
smituðust bæði á Tene
það gaman var grátt
nú ferðabann blátt
þar ríkir í ár, nóta bene.
Nú í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga hef ég fundið fyrir umtalsverðum stuðningi úr ýmsum áttum. Það hefur verið komið að máli við mig og ég hef fundið mikinn meðbyr með mínum málflutningi. Sem er skrýtið þar sem ég hef meira og minna haldið kjafti frá áramótum. Það hefur verið komið að máli við mig og raunar hefur verið skorað á mig að taka sæti á lista eða listum, enda geti ég tekið samtalið við grasrótina, unnið á breiðum grundvelli og sameinað ólík sjónarmið. Þetta er allt gott og blessað en ég hef hins vegar ekki viljað taka slaginn – enda getur það ekki talist heillavænlegt fyrir atkvæðalítinn og hlédrægan einstakling með ákvarðanafælni á háu stigi að taka virkan þátt á hinum pólitíska vettvangi. Betur fer á því að slíkur maður bloggi – eða taki sæti í kjörstjórn. Eða hvað?
Samkvæmt nýrri kosningalöggjöf er það orðið nánast útilokað fyrir venjulegt fólk að taka sæti í kjörstjórn. Nýja löggjöfin boðar að fulltúi í kjörstjórn megi ekki eiga maka, fyrrverandi maka, núverandi eða fyrrverandi sambýlismann eða -konu, foreldri, barn, systkin, mág eða mágkonu sem eru í framboði. Þá ná nýju reglurnar líka yfir systkinabörn, barnabörn, barnabarnabörn, tengdabörn, barnaleg börn, Björn Bjarna, börn Bjarna, afa, ömmu, föðurömmu, systkini foreldra, nágranna, gamlar æskuástir, saumaklúbbsvinkonur og kviðmága. Í nýju lögunum er það tekið skýrt fram að ekki verður á allt kosið. Hins vegar er ekki farið fram á það í nýju lögunum að þeir sem taka sæti í kjörstjórn kunni að telja en það mun vera algjört aukaatriði eins og komið hefur á daginn.
Hér úti um allt er krökkt af frænkum, frændum,
fjórmenningum, góðvinum og bændum.
Einar, sonur Hafliða og Höllu
er skyldur þeim og vanhæfur með öllu.
Samkvæmt nýjustu Gallup könnun verður V-listi, listi vanhæfra og venslaðra, ótvíræður sigurvegari sveitarstjórnarkosninganna. Við fylgjumst spennt með áfram.
Við áramót er gott að staldra aðeins við og líta til baka yfir farinn veg, horfa um öxl, reisa sér hurðarás um öxl, dytta að öxlinum og öxlunum, líta í eigin barm, líta á aðra barma, barma sér, naga sig í handarbökin og draga saman spekingsleg hugðarefni í áramótahugvekju eins og þeirri sem þú hefur nú hafið lestur á. Að öðrum kosti eru líkur á að árinu ljúki aldrei og það kærum við okkur ekki um. Ekki í þessu tilfelli að minnsta kosti. Áramótahugvekjan að þessu sinni byggir á öllum helstu minnisblöðum sóttvarnarlæknis frá árinu sem er að líða, enda endurspegla minnisblöð sóttvarnarlæknis breytingar á sálarástandi heillar þjóðar frá einum tíma til annars. Þess má til gamans geta að sé hugvekjan flutt á táknmáli er nóg fyrir þann sem flytur að baða út öllum öngum, gretta sig og hrista hausinn á víxl – það dekkar að fullu innihald hugvekjunnar.
Móðir landsmenn. Íslensk þjóð er þrautseig þjóð. Landsmenn eru fullir….af langlundargeði og þolinmæði. Það sannast best á því að ár eftir ár kemst þjóðin í gegnum áramótahugvekjur Einars Haf og það án þess að blikna. Hér á eyjunni bláu við ysta haf hafa plágur og hallæri dunið yfir frá því Ingólfur nam land og oft á tíðum stráfellt heilu fjölskyldurnar og frændgarðana en samt berjumst við áfram, þreyjum þorrann og þraukum í þeirri von að brátt komi betri tíð með blómi í haga og bollu í maga. Vonbrigðin verða alltaf jafn mikil þegar sannleikurinn kemur í ljós en samt höldum við áfram, með þá óbilandi trú í brjósti að vont geti ekki versnað út í hið óendanlega og að þess í stað fari okkur að ganga allt í haginn. Nú þegar heimurinn er endanlega á heljarþröminni og heimsendastemmning svífur yfir vötnum er um að gera að kveikja ljós og biðja til Guðs um að allt fari vel að lokum, þó svo að innst inni vitum við auðvitað betur.
Bíddu við, átti þessi hugvekja ekki að blása fólki bjartsýni og baráttuanda í brjóst? Jú auðvitað. Hver nennir svo sem að lesa raunsæjar áramótahugvekjur. Íslendingar eru í fremstu röð á svo mörgum sviðum mannlífsins að það er með ólíkindum. Við erum fegurst, sterkust, gáfuðust, efnuðust og fyndnust, með örfáum undantekningum. Við erum með hæsta nýgengi smita, hæsta viðbúnaðarstig á sjúkrahúsinu og hæsta slaufunarstuðul á byggðu bóli. Við erum í raun langfremst meðal jafningja þegar tekið er tillit til höfðatölu en sé það ekki gert erum við eins og sandkorn í eyðimörkinni, dropi í hafinu, krækiber í helvíti og smit í heimsfaraldri. Höfðatalan hefur oft bjargað okkur þegar kemur að alþjóðlegum samanburði og eflaust mun hún gera það áfram á árinu 2022.
Fróðir landsmenn. Nú um áramót er hugur okkar gjarnan hjá þeim sem eiga um sárt að binda. Það getur verið af ýmsum ástæðum. Lasleiki, ástvinamissir, félagsleg einangrun, veiruleg einangrun, sóttkvíarsorg, hraðprófshræðsla og útskúfunarótti. Fólk með óhreint mjöl í pokahorninu hefur átt erfitt uppdráttar á árinu en þó er líklegt að súrir karlapungar nái vopnum sínum að nýju á næsta ári og að þolendur verði aftur þolendur og gerendur gerendur. Mögulega verður SÍS endurvakið á næsta ári í breyttri mynd – og nú sem Samtök Íslenskra Slaufara. Ég ætlaði að spyrja Völvu bloggsíðu Einars Haf álits á þessu áðan en það var því miður ekki hægt vegna völvubilunar. Er þá nokkuð annað að gera í kvöld en að verða ölvaður? Eða mölvaður? Bölvaður! Nei ætli ég hafi mig ekki bara hægan og gerist kannski pínu völvaður – en alls ekkert meira en það.
Hlaðvörp spruttu upp eins og njólar á árinu sem er að líða. Varla máttu tveir spjallarar koma saman án þess að upptökutækið væri sett í gang og útkoman, einnar til sex klukkustunda langt blaður, sett á allar helstu streymisveitur, kerfisveitur, hitaveitur og akveitur…eða feitur strax að spjallinu loknu. Engin leið er að komast yfir allt spjallið og óhjákvæmilegt að maður missi af einhverjum perlum sem standa upp úr moðhaugnum. Besta hlaðvarp ársins var klárlega hlaðvarpið hjá hænunum á Urðum sem víluðu ekki fyrir sér að verpa hér og þar um hlaðið og það meira að segja án þess að láta húsbændur sína vita. Næst besta hlaðvarpið var trúlega hlaðvarpið Einar konur sem fjallaði að mestu um það sem konur vilja ekki vera…..Einar.
Yfirstandandi heimsfaraldur, yfirstandandi jarðhræringar og yfirvofandi vöruskortur, hallæri, áburðarverðshækkanir og almennar hörmungar hafa og munu án efa halda áfram að þjappa þjóðinni saman og bæta liðsheildina þegar fram líða stundir. Ástandið sem ríkt hefur síðustu misseri hefur kennt okkur að standa saman sem einn maður, ein kona eða einn kvár. Þá á ég við að standa saman sem einn maður, ein kona eða einn kvár með eins til tveggja metra millibili. Annað væri bara galið. Þegar heimsfaraldrinum loks lýkur, sirka árið 2027, hver verður lexían sem situr eftir? Að oft sé betur heima setið en af stað farið? Að það geti verið gáfulegt að afgreiða stutta fundi gegnum netið? Að kojufyllerí geti verið góð skemmtun? Eða mun faraldurinn kenna okkur að meta betur gæðastundir með öðru fólki? Ef ég væri forseti eða forsætisráðherra að flytja áramótaávarp myndi ég koma með svarið við spurningunni en þar sem þetta er áramótahugvekja Einars Haf er engin von til þess að svör fáist.
Glóðir landsmenn. Á árinu tókst okkur í sameiningu að fjölga ráðherrum og ráðuneytum og mun það án efa koma okkur til góða síðar þegar skera þarf niður í ríkisrekstri og fækka ráðherrum og ráðuneytum. Ég meina, það er ekki hægt að spara nema eyða fyrst, er það? Það er sama hvort þú spyrð vísinda-, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, mennta-, menningar-, viðskipta- og barnamálaráðherra eða umhverfis-, loftslags-, grænorku-, grasasna- og grænkeraráðherra. Allir eru sammála um ágæti þess að fjölga ráðuneytum og straumlínulaga ráðherratitla.
Sjóðir landsmenn. Það er ekki góðæri í landinu. Hins vegar eru góðar ær í landinu, sem er mun betra. Hvar værum við ef ekki væri til staðar íslenska sauðkindin? Þjóðargersemin, bjargvætturinn og bjartsýnisvaldurinn sem veitt hefur svo mörgum sólargeislum inn í líf okkar sem landið byggjum. Ég get alveg sagt ykkur það. Við værum í bráðum háska, svöng og skjálfandi af kulda. Þegar hættur steðja að og tregi og sorg fylla hjörtu og hugi er það yfirleitt íslenska sauðkindin sem kemur til bjargar, með brosi sínu og blíðu. Landlæg riðuveiki, fjárkláði og ný reglugerðardrög um að engar kindur megi bíta gras í yfir 700 metra hæð og í meira en 30 gráðu halla eru dæmi um atriði sem myndu hafa neikvæð áhrif á flestar dýrategundir en ekki íslensku sauðkindina. Hún stendur þetta allt af sér og eflist við hverja raun – og er þannig fyrirmynd fyrir okkur sauðina. Nei ég meina mannfólkið.
Framlínustarfsfólk í heilbrigðisþjónustu hefur unnið ótrúlegt þrekvirki síðustu misseri og það er fórnfýsi, gæsku og þanþoli þessa fólks að þakka að heilbrigðiskerfið og þar með heilsufar heillar þjóðar er ekki gjörsamlega sprungið í tætlur. Eflaust mun það gerast árið 2022 ef fram heldur sem horfir. Það má þó alltaf vona að staða mála skáni með aukinni inntöku koffíndrykkja, bætiefna, bótóx og áhrifavaldavarafyllinga sem láta okkur líða betur. Hmm…nei er þá ekki betra að taka lýsi, borða lambakjöt og drekka mysu með? Það tel ég að muni vera. Gott fyrir bragðlaukana, meltinguna og útlitið. Íslenskt lambakjöt á diskinn minn. Rétt er að taka fram að þessi umfjöllun er ekki kostuð af Bændasamtökum Íslands en ef þið hins vegar viljið að ég veki athygli á málstað ykkar hafið þá endilega samband á smahrifavaldur@hotmail.com – ég er alveg til gegn vægri þóknun og smávegis af unnum kjötvörum. Já ég er að tala við ykkur Bændasamtök.
Rjóðir landsmenn. FÍS, félag íslenskra smáhrifavalda, var ekki stofnað á árinu en hins vegar hefði mátt stofna slíkt félag. Ört stækkandi hópur fólks sem hefur þann eina tilgang og markmið að hafa áhrif á annað fólk, ýmist til góðs eða ills, á skilið að því sé hampað í hugvekju sem þessari. Hvernig hafa áhrifavaldar og smáhrifavaldar hjálpað okkur gegnum hrakningarnar á árinu sem er að líða? Nú auðvitað með því að birta af sér athyglisverðar og ögrandi myndir í alls konar stellingum og deila með okkur almúganum, með því að kynna fyrir okkur vörur og þjónustu sem okkur væru annars ókunn og með því að sýna svart á hvítu að lífið þurfi ekki alltaf að vera erfitt og leiðinlegt heldur geti það verið glansmynd, freyðivín og utanlandsferðir á öllum tímum árs. Gæti ég tilheyrt þessum hópi? Já klárlega, samanber þegar ég fór og naut með mínum bestu gegnum Instagram, Facebook, Tik Tok og Snapchat – svona eins og fólk gerir.
Já og munið, ef þið takið ekki mynd af atburðinum og setjið á samfélagsmiðla þá átti viðkomandi atburður sér aldrei stað. Fór ég á klósettið áðan og kastaði af mér þvagi? Bíddu aðeins, ég ætla að gá inn á Instagram – það ætti þá að detta inn þar.
Hljóðir landsmenn. Þegar öllu er á botnin hvolft og þegar allt kemur til alls er ekki um að villast að sama hvernig okkur farnaðist á árinu og sama hversu sár og svekkt við erum með niðurstöðuna þá er árið vissulega að líða og á miðnætti tekur við nýtt ár. Ár með fleiri væntingum og enn fleiri vonbrigðum. Eins og alltaf. Það er rétt svona í lokin að vitna í eitt fremsta skáld Íslendinga fyrr og síðar, Hallgrím Pétursson, en hann hefði orðið 407 ára gamall í ár hefði hann lifað.
Upp upp mín sál og allt mitt geð
upp mín terta og ragetta með
með hugvekju árinu geri skil
lesandans pínu ég minnast vil.
Hmm, eitthvað fór nú úrskeiðis þarna en það er hvort sem er ekkert að marka þetta, enda var Passíusálmabókin mín ekki innsigluð og því gæti hver sem er hafa átt við ljóðlínurnar.
Að endingu óska ég ykkur farsældar á komandi ári og þakka um leið fyrir samfylgdina, lesturinn og samskiptin á fjárans árans fárinu og árinu sem er sem betur fer við það að springa í loft upp. Njótið áramótanna sem best þið getið en gangið þó hægt um gleðinnar dyr, hægar en nokkru sinni fyrr.
Inngangsorðin þurfa ekki að ríma – og alls ekki að meika nokkurn sens. Í Perú flestir leggja sig í Líma, lausir við allt orðagrín og glens.
Já komið þið sæl og blessuð og velkomin hingað á síður jólaútgáfu DB blaðsins árið 2021. Ég sór og sárt við lagði að ég skyldi taka frí frá skrifum í jólablaðið þetta árið en nú í aðdraganda jóla hef ég hins vegar fundið mikinn meðbyr og hvatningarorð úr baklandinu. Þá hef ég tekið samtalið við grasrótina og auðvitað get ég vel starfað á breiðum grundvelli, enda með breiðan grundvöll sjálfur. Já og svo í ofanálag talaði ritstjórinn líka við mig og bað mig vinsamlegast um að skrifa eitthvað í blaðið, það gerði sennilega útslagið. Enn á ný legg ég því á djúpið og reyni að stytta ykkur lesendum stundirnar fram til jóla.
Á djúpið segir þú? Flestir hefðu kosið að sjá Einar sigla sinn sjó fyrir lifandi löngu síðan og jafnvel hverfa ofan í djúpið en því miður hefur það ekki raungerst ennþá. Hafið býr yfir hundrað hættum og það sama gildir um Einar Haf sem kastar allri skynsemi fyrir róða og kýs þess í stað að haga seglum alls ekki eftir vindum. Árinni kennir illur ræðari og pistilinn skrifar villtur bloggari. Þegar bókhaldið lendir í sjónum, er þá hægt að tala um sokkinn kostnað? Já örugglega en það kemur þessu máli ekkert við.
Nú á aðventunni hefur örvunarskömmtum verið dælt í landsmenn í stórum stíl. Nánar til tekið er hér á ferðinni þriðja sprauta svokallaðra jólabóluefna sem ætlað er að forða landsmönnum frá fjörtjóni, verja gegn veiru og vá og stuðla að voðalega gleðilegum jólum og verulega farsælu veirulausu komandi ári. Örvunin hefur enn sem komið er ekki leitt af sér fækkun smita en hins vegar hefur jólaverslunin glæðst og sýnilegt að örvunin hefur skilað sér vel inn á greiðslukortin. Hætt er við heiftarlegum aukaverkunum í byrjun febrúar þegar skuldadagar renna upp en spurning hvort góður yfirdráttur geti ekki linað verstu þjáningarnar.
Þessa dagana koma þeir af fjöllum hver á fætur öðrum, úfnir og ófrýnilegir. Hverjir, jólasveinarnir? Já en líka villuráfandi sauðirnir og eftirlegukindurnar sem ekki rötuðu heim í haust. Svo má heldur ekki gleyma þingmönnunum okkar. Nú er búið að smala þeim saman í samkunduna á Alþingi, svona vel flestum að minnsta kosti. Einhverjir sauðir og eftirlegukindur urðu að vísu viðskila þegar safnið tvístraðist í Norðvesturkjördæmi þarna í haust og hafa ekki skilað sér til byggða, þrátt fyrir ítarlega skoðun markaskrár og vafaatkvæða og endurtekna leit á Hótel Borgarnesi. Hvort ertu að meina sauðirnir eða þingmennirnir? Eða kannski jólasveinarnir? Erfitt að segja. Ég rugla þessu öllu saman. Hvað sem því líður þá dúsa þingmennirnir okkar nú hver í sínu spili í þinghúsinu niðri við Austurvöll með rúman metra á milli sín; æstir í að fá að komast að í pontunni til að tala um fjárlagafrumvarpið. Og fengitíminn að bresta á. Það er að segja hjá eftirlegukindunum. Eða jólasveinunum? Ég er ekki viss. Til gamans má geta að þessar heimildir sem ég byggi umfjöllun mína á voru ekki í innsigluðum kassa og því er sennilega búið að eiga eitthvað við gögnin. Birgir Ármannsson kom af fjöllum þegar hann var spurður álits á málinu sem og Leppalúði en hann hefur síðustu mánuði gegnt embætti yfirkjörstjóra í Norðvesturkjördæmi við góðan orðstír.
Það er fátt jólalegra en að ræða og rausa um fjárlagafrumvarpið. Það voru jú einmitt fjárhirðarnir, sem í dag kallast reyndar gjaldkerar, sem spiluðu stóra rullu þegar fæðing frelsarans átti sér stað á sínum tíma. Spurning hvort þeir hafi verið á fjárlögum eða ekki en fjári gerðu þeir það gott, svo mikið er víst. Eins og flestum ætti að vera kunnugt urðu sauðkindur, spólgraðir hrútar á fengitíma og annar búpeningur vitni að því þegar frelsarinn fæddist í jötunni. Það má því öllum vera það ljóst að sauðkindin hefur frá örófi alda skipað stóran sess þegar kemur að jólahaldinu. Þessu hef ég klifað á í hátíðarpistlum mínum um langt árabil og mun trúlega halda því áfram þar til yfir lýkur. Ef ykkur þótti þessi umfjöllun eitthvað loðin er það trúlega vegna þess að hér sit ég kófsveittur og kindarlegur, íklæddur sauðagæru.
En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Þórólfi sóttvarnarlækni um að bólusetja skyldi alla þjóðina, aftur. Var þetta þriðja bólusetningin er gerð var, þá er Willum var heilbrigðisráðherra á Íslandi. Með tvo skammta af Phizer frá því fyrr á árinu voru þau María og Jósep ekkert að kippa sér sérstaklega upp við þessi tíðindi. María var þunguð líkt og í síðasta jólapistli en þáði sprautuna eftir mikla yfirlegu og samkvæmt ráðleggingum landlæknis. Jósep var á ónæmisbælandi lyfjum og því þáði hann ekki örvunarskammtinn. Heyrðu mig nú, kom þetta ekki líka fram í síðasta jólapistli? Jú, en þá var örvunin ekki orðin svona mikil.
Hinir trúþyrstu geta mætt í Urðakirkju nú um jólin og haldið sína eigin hátíðarstund, samhliða því sem viðkomandi geta játað syndir sínar við gráturnar og iðrast sem eflaust er engin vanþörf á. Ef þið eruð heppin getur vel verið að ég eða pabbi hringjum klukkunum á meðan, enda hringjum við frítt um helgar í boði Símans, Vodafone og Nova. Hvaða hátíðarhringitón er verið að vinna með? Bara þennan klassíska. Stutt, löng, löng, stutt.
Herðast reglur, húmar að
á hörðum veiruvetri
þyngist róður, þrengir að
þjökuðu sálartetri.
Kæru lesendur. Njótið hátíðanna sem best þið getið, með eða án örvunar. Við sjáumst svo í fjarska bak við maska á nýju ári.
Inngangsorð í moll og dúr, máski helst til snúin. Jón og Gunna fá sér lúr, gigtveik, föl og lúin. Stemmningin er frekar súr, Arnfríður er fúin. Þórkatla á tölvuúr, í tækni harð er snúin. Sveinn á lærið fékk sér flúr, ósamþykk var frúin. Sigríður fór inn í búr, frá bloggi burt er flúin. Hafsteinn karlinn elskar kúr, hans kona er rafmagnsknúin. Signý blóðheit fer á túr, brælutíð er búin. Einar Haf er í kolli klúr, þar hvergi heil finnst brúin.
Já þið giskuðuð rétt. Þetta er ekki niðurstaða kjörbréfanefndar, þetta er ekki uppkast nýs stjórnarsáttmála og þetta er heldur ekki örvunarskammtur af COVID-19 bóluefni. Hvað er þetta þá? Auðvitað eru þetta ekkert annað en vonbrigði, dulbúin sem nýjasta bloggfærslan frá smáhrifavaldinum Einari Haf. Rangfærslur, útúrsnúningar og þvergirðingsháttur í sinni tærustu mynd, jafnvel á grárra svæði en talning atkvæða í Norðvesturkjördæmi. Er þá töluvert mikið sagt. Ýmsir hafa talið í Norðvesturkjördæmi en sennilega mun það ekki duga til.
Nú hefur verið hert á samkomutakmörkunum vegna COVID-19 faraldursins. Kemur sú herðing í kjölfarið á því að hert var á reglum en þar áður hafði verið slakað á takmörkunum og þar áður hafði verið slakað á, hert, hert, slakað á, slakað á, hert, slakað á, hert, slakað á, hert, slakað á, slakað á, hert, hert, hert, forhert, slakað á og hert. Á sama tíma hefur Landsspítalinn verið á óvissustigi, hættustigi, neyðarstigi, hættustigi, hættustigi, óvissustigi, hættustigi, neyðarstigi og hættustigi. Starfsfólk spítalans hefur staðið sig með ólíkindum vel að halda öllu gangandi þó allt sé á heljarþröm. Fyrst var starfsfólkið lúið, svo þreytt, þreyttara, ögn þreyttara, örþreytt, örþreyttara, útkeyrt og loks úrvinda en sem betur fer er enn eitthvað eftir á tanknum. Samkvæmt spálíkani stjórnenda spítalans verður starfsfólkið ekki að þrotum komið og endanlega uppgefið fyrr en búið verður að herða, slaka, herða og slaka meira á samkomutakmörkunum og setja spítalann á óvissustig, hættustig og neyðarstig vegna útbreiðslu COVID-19.
Hey, slaka!
Afsakið, smá Dalvíska að detta í hús. Daufi. Mun ástandið lagast eitthvað þegar allir fá örvunarskammt? Hvað með eins og einn góðan ölvunarskammt, bjargar það ekki einhverju? Nægt framboð af jólabjór. Bara pæling. Hvernig hefur þessi faraldur verið annars? Ég man það ekki en kannski get ég rifjað eitthvað upp, lesendum til glöggvunar. Við skulum sjá hvort þetta rifjist ekki upp þegar ég verð búinn að fá mér einn ölvunarskammt. Augnablik.
2. janúar 2020. Kínverji nokkur telur það góða hugmynd að borða sjálfdauða og hráa leðurblöku. Í kjölfarið fær hann hor í nös og niðurgang en ákveður þó að heimsækja ömmu sína og faðma hana ásamt sjö öðrum. Enginn veit hver Þórólfur Guðnason er.
15. janúar 2020. Dularfull veikindi herja á tugi Kínverja í borginni Wuhan. Amman sem var föðmuð 2. janúar liggur banaleguna. Kínverjinn sem át sjálfdauðu hráu leðurblökuna missir bragðskynið, sem var reyndar örugglega af skornum skammti fyrst hann át leðurblöku. Þessir sjö sem föðmuðu ömmuna fóru allir hóstandi í heimsreisu, meðal annars heimsótti einn þeirra skíðasvæðið í Ischgl í Austurríki.
1. febrúar 2020. Íslenskir ríkisbubbar hópast umvörpum til Evrópu í sjálfskipuðu vetrarfríi, fæstir þeirra kunna á skíði en flestir geta dottið í það í skíðaskálunum án vandkvæða. Hugtakið „smitvarnir“ er með öllu óþekkt. Þórólfi Guðnasyni svelgist á morgunkaffinu þegar hann les um bráðsmitandi drepsótt í Kína.
28. febrúar 2020. Millistjórnandi nýkominn til landsins úr skíðaferðalagi greinist smitaður af COVID-19 og er settur graður einangraður í gám við Landsspítalann. Almannavarnir lýsa yfir óvissustigi og íhuga að virkja að nýju einangrunarstöðina í Hrísey. Þórólfur er hugsi en Símon er lasinn, með gólftusku um hálsinn. Þríeykið sækir um einkaréttarleyfi á hugtakinu þríeyki. Upplýsingafundir almannavarna hefja göngu sína og slá áhorfsmet.
13. mars 2020. Fyrstu samkomutakmarkanirnar í lýðveldissögunni eru settar á. 100 manns mega koma saman en mun fleiri mega koma í sitt hvoru lagi.
24. mars 2020. Sett var á 20 manna samkomubann, ræktinni og pöbbunum lokað, ferðabann sett á og fólk vinsamlegast beðið um að hundskast til að vera heima hjá sér og skammast sín. Faðmlög og sleikir við ókunnuga liðu undir lok. Erlendir ferðamenn komast á lista yfir tegundir í útrýmingarhættu.
31. mars 2020. Sjúklingar veikjast og deyja úr COVID-19. Þjóðlífið er í lamasessi, tími örbirgðar og atvinnuleysis rennur upp. Allir sem fara til útlanda á skíði eiga, með réttu, yfir höfði sér ævarandi þjóðarskömm og útskúfun. Kínverski leðurblökumaðurinn gefur út matreiðslubók með 50 djörfustu leðurblökuuppskriftunum.
12. apríl 2020. Algjörir draumapáskar. Fólk hvatt til að ferðast innanhúss. Flestir sitja því heima hjá sér, horfa á Helga Björns og borða kindabjúgu með jafningi eftir að hafa fengið jafningafræðslu. COVID-19 smitum fjölgar, tilveran er grá og tóm en kojufyllerí njóta hylli.
4. maí 2020. Landsmenn höfðu ekki séð út úr augum í margar vikur en þökk sé Þórólfi komust þeir aftur í klippingu þegar slakað var á samkomutakmörkunum.
20. júní 2020. Fjölmörg fyrirtæki nýta sér hlutabótaleiðina, korteri eftir að eigendur þessara sömu fyrirtækja höfðu greitt sér út arð. Veiran virðist á undanhaldi, 500 mega koma saman og djammið er ekki dauðasök lengur. Þórólfur hefur það þokkalegt en Eyjólfur hressist. Kínverski leðurblökumaðurinn ber leðurblak af leðurblökuáti samlanda sinna.
29. júlí 2020. Hætt var við verslunarmannahelgina þegar innfluttum smitum tók að fjölga á ný. Fólk ferðaðist um eigið hús með bús og flestir voru á hálfgerðum blús. Ekkert smit hefur enn greinst í Svarfaðardal, enda eiga COVID-19 og landlæg riðuveiki ekki samleið. Lyfjarisinn Phizer fattar að það geti verið sniðugt að finna upp bóluefni við COVID-19.
13. ágúst 2020. Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hittir vinkonur sínar og knúsar þær en biðst síðar afsökunar á því að hafa látið taka mynd af sér við athæfið. Tveggja metra reglan breytist í túlkunaratriði.
20. ágúst 2020. Ríkisstjórnin fer í skimun eftir að smit kom upp kringum kaffivélina á Hótel Rangá. Reglur á landamærunum æra óstöðugan og enginn veit lengur muninn á fyrri skimun, seinni skimun, úrvinnslusóttkví og smitgát. Þórólfur herðist.
10. september 2020. Slakað á slökununum með fyrirvara um herðingar. Slakað var á samkomutakmörkunum trekk í trekk en það dugði þó ekki til að halda gangnaball. Nú máttu sviðslistamenn koma hver við annan og komust margir við í kjölfarið.
20. september 2020. Í kjölfar þess að djammið var leyft á ný smituðust margir á djamminu, hnerrandi, hóstandi og frussandi hver í kapp við annan. Þórólfur forherðist.
3. október 2020. Hert á herðingunum. Hert verulega á reglum og sett á 20 manna samkomubann eftir að djammarar á höfuðborgarsvæðinu og ósvífnir erlendir ferðamenn dreifðu smitum vítt og breitt um landið. Kínverski leðurblökumaðurinn svífur vængjum þöndum. Almannavarnir færa viðbúnaðarstig sitt frá því að vera frekar hvimleitt ástand og yfir í að vera ógeðslega drepleiðinlegt ófremdarástand.
1. nóvember 2020. Hert á herðingunum. Hertar reglur og herptar rasskinnar. Hópsmit á Landakoti, Víðir Reynisson með COVID og allt á leið til andskotans. Íþróttaiðkun bönnuð en ungmenni hvött til að hanga heima í tölvunni.
21. desember 2020. Einar Haf fær það í gegn að bóluefni Phizer við kórónuveirunni er samþykkt af Lyfjastofnun og gert klárt til notkunar. Þarna nýtti Einar Haf sér það að afmælisbarnið ræður alltaf.
23. desember 2020. Fólk kúrir heima í eigin jólakúlu og strýkur á sér jólakúluna og klórar sér í jólakúlunum. Háttvirtur ráðherra fer á sölusýningu í Ásmundarsal og kaupir ekkert en þambar þess í stað ókeypis hvítvín.
24. desember 2020. Dómsmálaráðherra hringir í lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu kl. 17:00 og spyr um daginn og veginn og ósköp hversdagsleg brot ráðherra á sóttvarnarlögum. Jólasteikin brennur við.
31. desember 2020. Landsmenn sprengja Kínverja, þar á meðal kínverska leðurblökumanninn. Bannað er að halda upp á nýtt ár með djammi og drykkjulátum, enda kom það í ljós síðar að það var nákvæmlega engin ástæða til að fagna komu ársins 2021 svo hressilega.
20. febrúar 2021. Kojufyllerí nær nýjum hæðum þegar þorrablót Svarfdælinga er sent út gegnum netið. Þórólfur er þreytulegur, starfsfólk Landsspítala örmagna og landsmenn komnir með upp í kok af ástandinu og hverjum öðrum. Það tengist þó ekki þorrablótinu.
10. apríl 2021. Bóluefni af ýmsum gerðum flæðir um æðar landans. Bjartsýni eykst, eitthvað sem hafði ekki gerst í marga mánuði. Greina má brosviprur hjá þríeykinu.
26. júní 2021. Slakað á slöku slökununum. Öllum hömlum aflétt, hömluleysi tekur við. Lögreglan kemst að því að hún saknaði óhefts opnunartíma skemmtistaða nákvæmlega ekki neitt. Nokkuð ber á barsmíðum og einhverjir eru slegnir. Í andlitið.
1. júlí 2021. Jói Pé og Króli halda hömlulausa tónleika í samkomuhúsinu Höfða í Svarfaðardal. Húsnefnd býður upp á kleinur. Kemur COVID-19 faraldrinum ekki við en samt gaman að segja frá þessu.
25. júlí 2021. Hömluleysi afnumið, enda margsannað að Íslendingar geta ekki hamið sig þó svo að líf og limir séu í húfi. Hætt við flest allar útihátíðir um verslunarmannahelgina….aftur. Einar Haf fór ekki yfir mörk neinna kvenna en hann fór hins vegar vel yfir mörk ungmennafélagsins Þorsteins Svörfuðar á fótboltavellinum við Rima, enda voru þau orðin nokkuð götótt.
30. ágúst 2021. Bóluefnið flæðir og ríkissjóður blæðir en staðan á spítalanum hræðir. Þríeykið fræðir en fækkun smita vonir glæðir. Gat þessi upprifjun ekki verið öll í bundnu máli? Nei, ekki þegar hausinn er fullur af káli.
13. september 2021. Samkomutakmarkanir banna gangnaballið á Höfða en enginn gat bannað opið hús, DJ Húlíó og 30 ára afmælisfagnað Urðaréttar. Íslendingar kaupa sér farmiða til Tenerife, að minnsta kosti aðra leiðina.
15. október 2021. Grímuskylda í búðum, gínuskylda í fatabúðum og vímuskylda á skemmtistöðum. Rímuskylda á bloggsíðum afnumin. Þórólfur er áhyggjufullur. Víðir er leyndardómsfullur. Einar Haf er fullur….áhuga.
12. nóvember 2021. Hert á slöknuðum herðingum. 50 manns mega koma saman en ekki hafa of mikið gaman, þar sem slíkt er bráðsmitandi. Smitfjöldi nær hæstu hæðum. Þórólfur leggur til að allir fái sér örvunarskammt af bóluefni. Einar Haf misskilur stöðuna og fær sér ölvunarskammt.
15. nóvember 2021. Einari Haf finnst það góð hugmynd að rifja upp þróun heimsfaraldurs á óritrýndri bloggsíðu án þess að kanna helstu staðreyndir eða ráðfæra sig við sérfræðinga. Lesendur taka hraðpróf og biðja í kjölfarið um örvunarskammt til að komast í gegnum bloggfærsluna.
Klökkur ég krýp einn við gráturnar
komast vil ástand í ölvunar
bljúgur ég ört bryð obláturnar
bið ég um góðan skammt örvunar.
Loftslagsráðstefnunni í Glasgow er nú lokið. Samþykkt var að stefna að því að halda hlýnun jarðar í skefjum með því að minnka eða jafnvel draga úr losun gróðurhúsalofttegunda kannski. Þannig eiga komandi kynslóðir sér mögulega viðreisnar von á plánetunni Jörð en þó er það ekkert öruggt. Um leið og ályktunin var samþykkt og ráðstefnunni lauk hækkaði hitinn í Svarfaðardal úr -4 gráðum í +11 gráður. Ekki er vitað hvort þessir tveir atburðir tengjast.
Þess má geta að frá því að bloggfærslan hófst hefur meðalhitinn á veraldarvefnum hækkað um 0,7 gráður.
Þar sem gríðarleg óvissa ríkir enn um endanleg úrslit Alþingiskosninga, gríðarleg óvissa ríkir enn um hið pólitíska landslag að loknum kosningum, gríðarleg óvissa ríkir enn um hinar langdregnu jarðhræringar á Reykjanesskaga, gríðarleg óvissa ríkir enn um afléttingar samkomutakmarkana og gríðarleg óvissa ríkir enn um hversu margar bloggfærslur með óskiljanlegum inngangsorðum Einar Haf á eftir óritaðar, hef ég ákveðið að auka enn á þessa óvissu með því að draga fram í dagsljósið afar óvissa og loðna bloggfærslu sem mun ekkert gera annað en að auka á hina gríðarlegu óvissu sem enn ríkir. Spæling.
Sláturtíð er nú nokkuð langt á veg komin. Er nokkuð fyndið við það? Nei alls ekki, enda er mér ekki hlátur í hug, heldur slátur. Þetta vitið þið auðvitað, lömbin mín góð. Það munar um hvern dilk á þessum viðsjárverðu tímum sem við lifum á, hvort heldur sem er lífs eða liðinn. Við þurfum klárlega á sauðkindinni að halda til að þrauka hina dimmu og drungalegu vetrarmánuði sem nú fara í hönd, eins og margsinnis hefur komið fram á þessari bloggsíðu. Við þurfum ullina til að halda á okkur hita í vetrarkuldunum, við þurfum lærin, hrygginn og innmatinn í frystikistuna til að lifa af Þorrann og seðja sárasta hungrið og við þurfum hrútaskránna og kindakynlíf í fjárhúsunum á aðventunni til að drepast ekki úr leiðindum á tímum heimsfaraldurs og samkomutakmarkana. Til vara er gott að eiga Hrútinn Hrein á DVD og VHS.
Í sláturhúsum landsins eru dilkarnir flokkaðir af þar til gerðum kjötmatsmönnum. Auðvitað er best að lenda í E flokki (E fyrir Einar) en U sleppur líka alveg til. Það getur alltaf gerst að skrokkarnir séu ranglega flokkaðir og er þá um að ræða mannleg mistök. Svo eru einnig dæmi um einstaka úlf í sauðagæru en þannig svik koma yfirleitt fljótlega í ljós á sláturhúsinu og leiða þá til verðfellingar. Það verða ekki bara mistök í sláturhúsinu. Eftir kosningarnar í Suðurkjördæmi kom í ljós að fullorðinn Framsóknarlitaður frambjóðandi í sauðalitunum sem upphaflega hafði verið flokkaður í M flokk vegna afar sterks hrútabragðs reyndist við nánari athugun vera villtur forystusauður og eineltisfórnar-lamb sem tilheyra ætti D flokki. Það sem kom mest á óvart við þetta var sú staðreynd að það voru hvorki kjötmatsmenn né kjósendur sem uppgötvuðu mistökin heldur var það sauðurinn sjálfur. Þykir málið nokkuð neyðarlegt, enda sjaldgæft að kjósendur séu svo grátt leiknir.
Hér áður fyrr voru Miðflokksmenn ábyrgir og einnig vel birgir en það hefur nú breyst, samanber hið afar torskilda líkingamál sem sett var fram í efnisgreininni hér á undan. Ef Birgir veikist og Erna varaþingmaður tekur sæti hans á þingi fjölgar í þingflokki Miðflokksins en að sama skapi fækkar í þingflokki Sjálfstæðisflokksins þar sem þingmaðurinn og varaþingmaðurinn eru ekki lengur í sama flokknum. Sjálfstæðismenn eru ágætlega birgir en samt eiga þeir nokkuð undir því að Birgir haldist heill og sneiði hjá öllum helstu plágum og umgangspestum til að þurfa ekki að taka veikindaleyfi. Það skýtur því skökku við að Sjálfstæðismenn eru þessa dagana margir hverjir afar óvægnir í gagnrýni á Þórólf sóttvarnarkóng og krefjast þess að öllum sóttvarnartakmörkunum innanlands verði aflétt hið snarasta. Aumingja Birgir, vonandi verður hann áfram duglegur að taka lýsi, spritta sig og forðast margmenni þegar inflúensan, RS veiran og COVID-19 fá að nýju lausan tauminn á hinum fjölmörgu sameiginlegu snertiflötum þjóðlífsins. Hvernig er best að forðast þessa snertifleti? Kannski er bara best að vera í byrgi….eða birgi.
Óhætt er að segja að lagning rafstrengs í jörð í Svarfaðardal hafi fallið í mjög grýttan jarðveg hér í landi (grjót)Urða. Við sjáum mynd.
Haka í gólf, ég er svo hissa. Ekki nóg með það. Bæjarhlaðið var tætt í sundur og mokuð hola til að tengja rafmagn inn í íbúðarhús og önnur hola til að tengja Guðshúsið við nýja rafstrenginn, enda ekkert sjálfgefið að vera í stuði með Guði án rafstrengs. Holurnar, sem eflaust voru búnar til í góðri trú, voru grafnar í láréttri slyddu, svo kom meiri slydda og loks snjókoma og meiri snjókoma. Vinnuflokkurinn glaðbeitti flúði af hólmi þegar bleytuhríðin og slyddan bundu endi á Svarfdælska sumarævintýrið. Snjórinn er farinn þegar þetta er ritað, rétt eins og RARIK, en eftir sitja heimilismenn á Urðum með sárt ennið og bæjarhlað sem búið er að leggja í rúst. Og ekkert bólar á verktökunum sem sóru þess dýran eið að laga til eftir sig. Þetta þarf ekki að koma á óvart þegar slagorð RARIK er skoðað en það er: Þegar þú ert kominn ofan í holu….hættu þá að moka.
Ég hef tekið eftir því að áhrifavaldarnir og smáhrifavaldarnir, kollegar mínir, eru duglegir að nota svokallaða filtera þegar þeir láta taka af sér myndir til að setja á samfélagsmiðla. Myndir með filter skila að jafnaði fleiri lækum, koma betur út hvað varðar kynþokka og stíl og bæta á allan hátt viðfangsefnið til muna, að sögn þeirra sem til þekkja. Það sé heldur ekkert verra að setja smá stút á varirnar, slíkt eykur á þokkann. Ég ákvað um daginn að ég hefði engu að tapa og prófaði því að fara að fordæmi félaga minna. Útkomuna má sjá hér.
Hér notaðist ég við hefðbundinn lagskiptan olíufilter en eflaust er hægt að finna betri filtera. Lesendur geta vitaskuld dæmt um það sjálfir en ég er nú ekki frá því að ég sé mun myndarlegri þegar ég nota filterinn.
Stjórnarmyndunarviðræður standa nú yfir en ekki er vitað hvort notaður verði filter þegar stjórnin verður mynduð. Þrætueplin eru mörg og viðfangsefnin risastór og flókin en það sem helst tefur viðræður þeirra Katrínar, Bjarna og Sigurðar er trúlega sú óvissa sem fylgir því að vita ekki hversu margir þingmenn eru í hvaða flokki frá degi til dags. Við fylgjumst spennt með. Það minnir mig á það já, best að blettahreinsa spennitreyjuna þannig að hún sé klár þegar mennirnir í hvítu sloppunum koma að sækja mig.
Íþróttaspriklið á Rimum hefur nú hafið göngu sína að nýju eftir að hafa legið niðri í rúma 19 mánuði vegna heimsfaraldurs. Gjaldkeri Umf. Þorsteins Svörfuðar tekur þessu fagnandi enda vonir bundnar við að sjoppusala glæðist að nýju en að sama skapi ríkir nokkur óvissa um holdarfar gjaldkerans til framtíðar þar sem þeim kaloríum sem hann brennir í spriklinu er samstundis bætt við aftur með inntöku á ýmsu góðgæti úr sjoppunni. Við munum fylgjast afar vel með þessu máli áfram, það er að segja mittismáli gjaldkera. Ekki veitir af.
Það rignir stöðugt, rök er sál
rennvot verða engi og tún
þyngist lundin þvöl og hál
og þruman rauða er orðin brún
Þess má til gamans geta að Landspítalinn væri í miklu betri málum ef ekki væri fyrir allt þetta veika fólk.
Já þetta er í alvörunni að gerast. Einar Haf rekur loks af sér slyðruorðið, snýr upp á sig, snýr sér í hringi, snýr út úr og snýr aftur á veraldarvefinn, sprittaðri en nokkru sinni fyrr. Það útskýrir hvers vegna hann (ég sem sagt) er svona þvoglumæltur. Sem sést reyndar ekki gegnum netið. Hjúkk.
Áður en lengra er haldið eru hér nýjar tölur úr Norðvesturkjördæmi. Sjálfhælisflokkurinn 570 atkvæði, Framstæðiflokkurinn 380 atkvæði, Sósulistaflokkurinn 150 atkvæði, Samhyglingin 270 atkvæði, Vinstri alveg grænir 330 atkvæði, Auðir og ógildir 100 atkvæði og þá má geta þess að í orðinu Norðvesturkjördæmi eru 6 atkvæði. Við fylgjumst spennt með áfram.
Ég hef ekkert getað bloggað síðustu vikur þar sem ég hef verið í tilfinningalegu ójafnvægi og þjakaður af sálarangist og andlegum innantökum vegna viðskilnaðar við fararskjóta minn og einkavin til 11 ára, Subaru Impreza Sedan árg. 2003 með rifnu sætisáklæði, brotinni undirhlíf og bjór í skottinu. Höfum við félagarnir ekið saman gegnum þykkt og þunnt, í skini og skúrum, um rennislétt malbik og holótta malarvegi, dýpstu jarðgöng og hæstu fjallaskörð. Þegar kílómetramælirinn var að detta í 296 þúsund kílómetra missti Súbbi vatnið. Oftast er það jákvæður fyrirboði þegar einhver missir vatnið en ekki í þessu tilfelli þar sem þetta þýddi að hitinn rauk upp úr öllu valdi og óþægilega stutt var í að syði upp úr. Sem betur fer tókst að forða því en vatnskassinn var ónýtur og góð ráð afar dýr. Eftir nokkurra vikna afneitun beit ég loks á jaxlinn og ákvað einhliða að komið væri að kveðjustund. Reyndar ekki alveg einhliða því ég fékk tilboð í Súbba sem ég taldi mig ekki geta hafnað. 1 milljón? Hálf milljón? Nei, 50 þúsund kall. Hver getur hafnað því?
Það kom sér svo sem ágætlega að selja Súbbann rétt fyrir göngur og réttir. Það var jú ekki eins og ég væri að fara að keyra mikið, því þá myndi þetta heita keyrslur – ekki göngur. Og að göngum loknum var miklu betra að verða slompaður og fá far heldur en að þurfa að keyra sjálfur, bláedrú og þurrpumpulegur. Göngurnar gengu ágætlega, veður var að mestu gott, kindurnar fallegar og félagsskapurinn frábær. Ekki fékkst leyfi frá Þórólfi sóttvarnarlækni til að halda hefðbundið gangnaball en hins vegar hafði Þórólfur ekkert um það að segja að haldið var upp á 30 ára afmæli Urðaréttar á Höfðanum að kvöldi sunnudags. Plötusnúðurinn DJ Húlíó þeytti skífum og glaðir gangnamenn og áhangendur þeirra hristu úr sér mestu strengina eftir erfiði helgarinnar og fögnuðu um leið afmæli réttarinnar. Aldrei hefur afmæli skilaréttar verið fagnað jafn ákaft. Að vísu voru ekki allir afmælisgestir meðvitaðir um hverju væri verið að fagna þetta kvöld en það er algjört aukaatriði. #openthegates
Og hér voru að koma nýjar tölur úr Norðvesturkjördæmi. Prímatar 300 atkvæði, Flokkur fólsins 440 atkvæði, Viðreisnarvon 220 atkvæði, Auður og Ógildur 50 atkvæði, tónlistarmaðurinn Auður 1 atkvæði og Söngvakeppni Sjónvarpsins 139 krónur hvert atkvæði. Við fylgjumst mjög spennt með áfram.
Þó svo að heima sé best þá hentar bíllaus lífstíll mér illa til lengdar. Ég meina, ég væri ekki með þessa bloggsíðu ef ég væri ekki reglulega úti að aka. Það þurfti því ekki endilega að koma á óvart þegar spurðist til mín þræðandi bílasölur í Reykjavík leitandi að álitlegri sjálfrennireið, gónandi á gljáfægðar glæsibifreiðar og rennandi hýru auga til aksturseiginleika, aukabúnaðar og auðþrifinna aftursætisáklæða. Reykjavík hafði lítið breyst á þeim tveimur árum sem voru liðin frá síðustu heimsókn minni þangað. Götur í miðbænum lokaðar vegna framkvæmda (trúlega sömu götur og síðast meira að segja), umferðarteppur og öngþveiti á helstu gatnamótum og það var auðvitað úrhellis rigning.
Viti menn, eftir nokkra umhugsun og ráðgjöf frá Dodda (greifanum af Klaufabrekknakoti) tók ég þá ákvörðun að festa kaup á Nissan Qashqai beinskiptri bifreið árgerð 2016 með dökkrauðu lakki, óslitnu sætisáklæði og innbyggðum leiðarvísi. Ekki veitti af, annars væri ég trúlega enn villtur í einhverju skuggalegu iðnaðarhverfi í Reykjavík. Ég rataði heim og hef haldið kyrru fyrir þar að mestu síðan, svona meðan Nissan er að venjast aðstæðum. Svarfdælingar, hafið varann á ykkur. Rauða þruman er mætt á malarveginn. Vonum það besta.
Nýrra fregna úr Norðvesturkjördæmi er að vænta eftir um það bil tvær efnisgreinar. Spennan er óbærileg.
Nú stendur til að innleiða svokölluð hraðpróf sem eiga á fljótlegan hátt að skera úr um hvort sá er þreytir prófið sé smitaður af COVID-19 eður ei. Eru miklar vonir bundnar við að hraðprófin varði leiðina til varanlegs hömluleysis áður en langt um líður. Nýjasta útspil stjórnvalda er að leyfa fjölmenna viðburði að undangengnu hraðprófi. Þá eiga viðburðargestir sem sagt að greinast neikvæðir á hraðprófi áður en þeir mæta á viðburðinn. Hafi einhverjir gaman af hraðprófinu er auðvitað hægt að sleppa viðburðinum og dunda sér bara við prófið. Og ef þú meiðir þig má taka sjúkrapróf.
Ofurgraðir, ofurlaunaðir og ofmetnaðir knattspyrnumenn hafa verið milli tannanna á fólki upp á síðkastið og kemur það alls ekki til af góðu. Staða mála innan Knattspyrnusambands Íslands er afar alvarleg um þessar mundir þar sem kynferðisofbeldi nafntogaðra landsliðsmanna virðist hafa verið þaggað skipulega niður. Hver vissi hvað og hver vissi ekki hvað er ekki vitað með vissu. Það eina sem vitað er með vissu er að einhverjir eru með óhreint mjöl í pokahorninu, einhverjir eru með skituna upp á bak og einhverjir hefðu átt að vera farnir út af í kalda sturtu fyrir mörgum fótboltaleikjum síðan. Fuss og svei. Hvernig er hægt að snúa blaðinu við og gera betur? Í framtíðinni sjá menn fyrir sér að notast verði við svokölluð graðpróf áður en valið er hverjir komast í landsliðshópinn, til að koma í veg fyrir að skandalar og ofbeldismál eigi sér stað síðar meir.
Það er helst að frétta úr Norðvesturkjördæmi að nú hafa nánast öll atkvæði verið talin hér í Borgarnesi og því stutt í að talning vandkvæða hefjist. Mun sú talning þó vera nokkrum vandkvæðum bundin þar sem fulltrúar yfirkjörstjórnar gleymdu innsiglunum heima hjá sér og því verður ekki hægt að innsigla neinn kosningasigur að sinni – og afar líklegt að framkvæmd kosninganna verði kærð til lögreglu. Við fylgjumst óstjórnlega spennt með áfram.
Nýverið fékk ég tilboð um að sinna veislustjórn í lokahófi meistaraflokks knattspyrnuliðs Dalvíkur/Reynis. Tilboðið hljóðaði upp á veislustjórn í skiptum fyrir frían mat, drykk og far heim. Ég tók tilboðinu, steig á stokk, át og drakk. Ég uppskar nokkur fagnaðarlæti, bæði þegar ég steig á stokk, át og drakk – og því get ég með sanni sagt að þetta hafi gengið ágætlega. Ég stóð mig raunar það vel á þessu lokahófi að skömmu síðar hringdi yfirmaður kjörstjórnar Dalvíkurbyggðar í mig og réð mig til að vinna í kjördeildinni í Dalvíkurskóla á kjördag – enda væri það greinilegt að þarna væri á ferðinni ábyrgur, trúverðugur og alvörugefinn maður sem væri alls ekkert að grínast. Pínu skellur fyrir mig persónulega, en gott og vel. Tilboð kjörstjórans hljóðaði upp á að vinna í kjördeildinni, taka á móti atkvæðum íbúanna og merkja við þá í kjörskrá í skiptum fyrir frían mat og drykk og ríflegt tímakaup – en farinu heim yrði ég að redda sjálfur. Ég tók tilboðinu, tók á móti atkvæðum og tók svo til við að borða rúnstykki, prins póló, súkkulaðiköku og lambakjöt. Kjörfundur stóð frá klukkan 10-22 en neysla matar og drykkjar stóð yfir frá klukkan 08:30-22:30. Það má öllum vera það ljóst að það er ekkert grín að vinna við svona kosningar. „Ekkert grín“ er einmitt eitt helsta slagorð þessarar bloggsíðu en það er önnur saga.
At-kvæði
Úr kjördeild heyrast hróp og köll
kátt er þar á hjalla
kjörseðlabunkar eins og fjöll -
er búið að telja þá alla?
Síðustu fregnir úr Norðvesturkjördæmi herma að talningu sé að mestu lokið og að talningarmönnum sé öllum lokið. Nokkrir framboðslistar hafa verið taldir af en sú niðurstaða verður að öllum líkindum kærð og farið fram á endurtalningu. Yfirkjörstjórn vill þó árétta að ekki verður á allt kosið, enda myndi slíkt ekki samræmast kosningalögum. Það gengur bara betur næst.
Sóttvarnaryfirvöld fóru þess á leit við mig að ég kæmi með uppbyggjandi og bjartsýna bloggfærslu til að bæta úr því voveiflega ástandi sem nú ríkir í þjóðfélaginu. Ég hafnaði því auðvitað alfarið enda engar líkur á því að skrif mín geti talist uppbyggjandi eða bjartsýn. Ég ætla þess í stað að koma með raunsætt sjónarhorn á stöðuna sem uppi er, mála skrattann á vegginn og tala umbúðalaust, enda búið að banna flest allar tegundir umbúða vegna umhverfissjónarmiða. Veiruskrattinn er kominn til baka úr sumarfríi, meira smitandi en nokkru sinni fyrr. Og þar af leiðandi er ég ekki lengur hömlulaus yfir ástandinu heldur er ég orðinn hamlaður og hamslaus yfir ástandinu.
Já loksins gerðist það. Hömluleysið og hamsleysið skall á. Veislur og samkvæmi liðins ár haldin kvöld eftir kvöld með tilheyrandi djammi og drykkjulátum. Sjúkraflutningamenn, slökkviliðsmenn og lögreglumenn unnu baki brotnu við að halda þjóðfélaginu á floti og miðbær Reykjavíkur breyttist í vígvöll skemmtanalífsins. Og hvað svo? Jú viti menn, COVID-19 mætti aftur og er nú enn á ný á allra vörum, í allra eyrum og í sumra nösum. Bólusetningar draga vonandi úr mestu hörmungunum og alvarlegustu veikindunum en það virðist þó ekki ætla að duga til. Herða, slaka, herða, slaka, herða, slaka aðferðin verður því viðhöfð áfram. Nú á einmitt að fara að herða skrúfuna á ný og skrúfa fyrir skrúfusleiki og aðra óæskilega nánd en skrúfan hefur verið laus síðustu vikur – og þess vegna er ástandið kannski eins og það er. Ég er búinn að vera með lausa skrúfu lengi og þess vegna er þessi bloggsíða eins og hún er. Afsakið.
Hið svokallaða Delta afbrigði, sem virðist samkvæmt fréttum vera bráðsmitandi andskoti, hefur nú hreiðrað um sig hér á landi og skyldi engan undra. Ég er reyndar mjög hissa að enginn hafi séð þetta fyrir enda hefur Delta flugfélagið flogið með fullar vélar hingað til lands í allt sumar. Og hvað skyldi Delta flugfélagið svo koma með til landsins? Tja, það skyldi þó ekki vera Delta afbrigðið? Það væri afbrigðilegt ef svo væri ekki. Til stendur að herða að nýju aðgerðir á landamærum. Ég er alveg hættur að fylgjast með því í hverju þær aðgerðir eru fólgnar, enda hef ég ekki farið út fyrir Norðurlandsfjórðung síðan COVID-19 farsóttin skall á. Það er fyndið af því það er satt. Sennilega á að taka upp úrvinnslusóttkví, áttfalda skimun, þukl og þreifingar á óbólusettum, tvöfalda vinnusóttkví, speglun og þrefalda skimun á illa settum og einfalda sóttkví, tvöfalda skrúfu, fjórfalda skimun og nettar strokur á hálf bólusettum og full bólusettum, sem sumir eru kannski full bólusettir fyrir minn smekk. Því miður mun þetta sennilega ekki duga til. Það mun örugglega einhverjum takast að smygla veirunni inn í landið með handfarangrinum. Bévítans apakettirnir. Og á meðan smitast hnípin, ómenguð og varnarlaus þjóð á norðurhjara, með eða án bóluefnis.
Hlátur getur verið smitandi. Djammið getur verið smitandi. Ferðir til útlanda geta verið smitandi. Hætturnar leynast víða. Hömluleysið getur líka verið smitandi. Síðan hömluleysi var líst yfir í lok júní hefur dagbók lögreglunnar boðið upp á hópslagsmál, flöskukast, eignaspjöll, hlandspreng á almannafæri og ofurölvun svo eitthvað sé nefnt. Kaflinn í dagbók lögreglunnar um rafskútuslys drukkinna hefur verið sérlega svæsinn. Engir háttvirtir, hvítvínsþambandi ráðherrar í Ásmundarsal hafa komið við sögu í dagbók lögreglunnar upp á síðkastið en kannski mun það breytast nú þegar næturlífið í miðbænum verður höftunum og hömlunum að bráð á nýjan leik og hasarinn færist annað.
Í fótbolta er manni refsað grimmilega fyrir öll mistök. Það kom greinilega í ljós á Pollamótinu sem ég tók þátt í fyrir skömmu með liði Umf. Óþokka. Ég gerði þau mistök að fá mér ekki bjór fyrir fyrsta leik sem varð til þess að sá leikur tapaðist. Annars gekk mótið ágætlega. Ég spilaði sem framstæður varnarmaður…nei ég meina framsækinn varnarmaður og skoraði meira að segja mark í síðasta leiknum og gulltryggði sigur. Algjört „haka í gólf“ augnablik. Liðið sem við spiluðum við þá hafði að vísu gert þau mistök að drekka kassa af bjór fyrir leikinn en það skyggir þó ekkert á sigurinn. Lokahóf Óþokka fór vel fram, enda að mestu hömlulaust. Hömlulausastur var án efa bloggarinn Einar Haf sem tróð sér inn á skemmtidagskránna til þess eins að gæta eigin hagsmuna og auglýsa bloggsíðuna einarhaf.is. Hóf Þórólfur sóttvarnarlæknir að skrifa nýtt minnisblað þá þegar, enda ljóst að hömluleysi sem þetta gengi einfaldlega ekki upp.
Fullur sjálfstrausts eftir markið og ekki lengur fullur af alkóhóli eftir harkið hélt ég rakleitt heim eftir Pollamótið og tók til við að slá tún og engi í Urðalandi eins og ég gat. Ýmsir takmarkandi þættir valda því að sláttur hér í landareigninni er frekar hæggengur, enda heitir jörðin ekki Urðir út í bláinn. Grjót hér og grjót þar og grjóturðir alls staðar. Afar lítið hefur rignt það sem af er sumri sem veldur því að grjóthörð tún brenna og taka á sig gulbrúnan lit í stað þess hefðbundna græna sem flestir bændur vilja hafa á túnunum. Það breytti því þó ekki að ég sló til og sló frá mér og sló allt sem ég gat slegið og fékk svo verktaka til að klára dæmið. Gunnar múgaði og Kalli rúllaði. Eftir það sló ég á létta strengi en svo sló að mér þannig að ég ákvað að láta þar við sitja.
Áður en þessir atburðir urðu héldu þeir Jói Pé og Króli ásamt hljómsveit tónleika í samkomuhúsinu Höfða í Svarfaðardal. Já einmitt. Það gerðist. Rúmlega 120 manns mættu og hlýddu á í afar góðri stemmningu og óaðfinnanlegum aðstæðum. Þegar fréttist að Einar Haf hefði sótt um tækifærisleyfi mætti lögreglan reykspólandi á staðinn og gekk úr skugga um að ekkert misjafnt ætti sér stað á svæðinu. Sem það gerði auðvitað ekki. Það eina misjafna var þegar Einar Haf hellti upp á lapþunnt kaffi en það lagaðist þegar kleinur voru drifnar fram og boðnar til sölu til ágóða fyrir samkomuhúsið. Tilboðið Kleina og Króli mæltist ágætlega fyrir. Að vísu héldu einhverjir að hér væri grín á ferðinni sem það var auðvitað ekki. Höfðust 16.500 kr. upp úr krafsinu sem kemur sér vel í því harða árferði sem samkomuhúsavelunnarar búa við þessa dagana. Jói Pé og Króli fengu sér hvorki kaffi né kleinu heldur héldu þeir uppi rífandi stuði allt þar til yfir lauk. Mun hróður hins aldna samkomuhúss hafa aukist nokkuð eftir þessa vel heppnuðu tónleika og var hann þó all verulegur fyrir. Hlutlaust mat.
Nú er hverju æskugoðinu á fætur öðru slaufað (e. cancelled) og hver afhjúpunin og hvert hneykslismálið rekur annað. Maður er eiginlega orðinn verulega hneykslaður á því hversu mörg hneykslismál þetta eru og mér er misboðið vegna þess hve mörgum er misboðið. Gestalistinn er orðinn auður en kannski væri ráð að pakka í töskurnar og flytja til Bahama með það sama. Af ótta við lögbann og himinháar fjárkröfur verður ítarlegri umfjöllun um mannlega eymd og persónulega harmleiki nafntogaðra einstaklinga að bíða betri tíma. Spennandi.
Það er ekki nóg með að COVID-19, hraunrennsli, nefrennsli, lúsmý og uppstillingarnefnd Miðflokksins leiki þjóðina grátt. Til að bæta gráu ofan á svart skeði sá leiði atburður nýverið að óprúttnir tölvuþrjótar brutu sér leið inn á Instagram reikninga allra helstu lífstílsbloggara og áhrifavalda Íslands með þeim afleiðingum að reikningarnir lokuðust. Fyrir vikið setti marga hljóða og heyra mátti grátur og ekkasog víða, a.m.k. frá mér. Sem betur fer hefur nú ræst úr þessu og lífstílsbloggararnir og áhrifavaldarnir limafögru, þrýstnu og ástsælu hafa endurheimt reikninga sína. Þess má geta að ég bauð nokkrum tölvuþrjótum að hakka sig inn á Instagram reikninginn minn en þeir höfnuðu því allir. Töluverður persónulegur skellur en það gengur bara betur næst.
Hvað er annars að frétta af Ólympíuleikunum?
Í Tókýó keppt er í skvassi og sundi
samhæfðum dýfingum og tækvondó
Í skylmingakeppninni hátt stundi Mundi
og sagði að nú væri komið nóg.
Hann þoldi ekki lengur að þvælast á sjó.
COVID-19 hefur auðvitað veruleg áhrif á Ólympíuleikana eins og flest annað. Engir áhorfendur fá að mæta á svæðið, keppendur mega ekki taka höndum saman og sóttvarnarreglur eru afar harðar. COVID hefur líka haft áhrif á íþróttakeppnina sjálfa. Sem dæmi um það má nefna nýjar keppnisgreinar á borð við 200 metra grímuburð, 100 metra spritthlaup og samhæfða sóttkví. Ég ræð mér varla fyrir spennu. Búist er við afar góðu gengi íslensku keppendanna miðað við höfðatölu. Áfram Ísland.
Já nú lyftist brúnin á sífellt fleirum. Fólk fikrar sig sífellt nær hvort öðru og smám saman lifnar hagi og hýrnar brá. Drungi plágunnar dofnar fyrir hugskotssjónum bóluefnissprautaðra landsmanna og draumurinn um hömlulaust líferni raungerist smám saman. Hins vegar er allt við sama heygarðshornið á bloggsíðu Einars Haf, hvar eymdin og volæðið drýpur af hverju strái og fýlan lekur úr hverju munnviki. Og þó. Gott ef það grillir ekki í stöku viprur og eitt og eitt glott út í annað, svei mér þá. Nei bíddu, þessi óvænta kátína virðist nú ekki tengjast blogginu heldur eru þetta bara alþingismenn sem eru komnir í sumarfrí. Það hlaut að vera.
Félagar mínir góðhjörtuðu og fórnfúsu í Phizer samsteypunni sáu aumur á mér nýverið og létu verða af því að bólusetja mig. Þegar ég fékk smáskilaboð í símann um að nú væri komið að mér að fara undir nálina….eða vera nýr af nálinni…..eða vera í námunda við nálina, upplifði ég mig algjörlega einstakan og merkilegan og fannst þetta voða mikil upphefð að yfirvöld sæu ástæðu til að boða mig sérstaklega í bólusetningu. Ég meina, það er upphefð að vera í skilgreindum forgangsflokki örvhentra lífstílsbloggara í yfirþyngd, sem landlæknir kallaði reyndar handahófsaldursárgang nr. 32 í Dalvíkurbyggð. En ég sá í gegnum það. Þegar ég mætti í Menningarhúsið Berg til að láta sprauta mig var þar margt um manninn og sprittið fyllti vitin. Sumir voru eitthvað stressaðir yfir þessu og Lilja hjúkrunarfræðingur var alveg á nálum. Það reyndust vera sprautunálar og þar af leiðandi ekkert til að hafa áhyggjur af. Eftir að hafa fengið Phizerinn beint í æð…eða upphandlegg, var ég ásamt öðrum viðstöddum látinn staldra við í korter meðan sannleikurinn og bóluefnið fengu að síast inn. Að svo búnu gekk ég glaðbeittur út í vorið, nánast alveg laus við horið. Síðan greikkaði ég sporið. Þið afsakið, en þarna lagði ég mig í líma við að ríma en hafði bara ekki meiri tíma.
Ég hef lítinn sem engan mun fundið á mér síðan bólusetningin fór fram – og engar aukaverkanir fengið ennþá. Haldið að það sé munur að finna engan mun. Ég og aðrir bólusettir einstaklingar getum huggað okkur við það að samkvæmt þeim sem hafa nú þegar séð í gegnum hið mikla samsæri sem hér er á ferðinni verða þau örfáu ár sem eftir eru af lífinu eins og við þekkjum það eflaust mjög skemmtileg. Ég meina….er það tilviljun að í sömu viku og ég fæ bólusetningu kemur Kári Stefánsson í fréttirnar og segir að nú geti Íslensk erfðagreining spáð fyrir um hversu langt fólk á eftir ólifað? Einhvern veginn tengist þetta allt saman, ég fatta bara ekki hvernig.
Erfiðlega hefur gengið að hemja náttúruöflin sem láta sér ekki segjast og því allsendis óvíst um hvað gerist næst á Reykjanesi. Eldgosið í Geldingadal, Merardal, Fagradal og Nátthaga heldur áfram að koma vísindamönnum í opna skjöldu og opna gossprungu hvar eldrauðir logar vítis blasa við. Nú stefnir allt í að hraunbreiðan komi að Suðurstrandarvegi í afar náinni framtíð. Vísindamenn og sérfræðingar vegagerðarinnar vonast til þess að hraunið komi niður á veginn þar sem er heil lína milli akgreina en ekki brotalína. Sé heil lína má hraunið ekki fara yfir á hinn vegakantinn og gæti þetta því tafið hraunstrauminn nokkuð. Þar sem varnargarðarnir klikkuðu leggja menn nú allt traust sitt á að eldgosið kunni umferðarreglurnar.
Hér næst getur að líta nýjasta minnisblað sóttvarnarlæknis, sem bloggsíða Einars Haf komst yfir:
Muna að láta smyrja bílinn.
Kaupa mjólk, brauð, smjör, gúrku, mýkingarefni og handspritt.
Fara með föt í hreinsun.
Afnema grímuskyldu.
Heyra í Ölmu og Vídda.
Fara í ríkið.
Samkvæmt fréttum mun ríkisstjórnin funda um minnisblaðið og taka afstöðu til þess. Ég vona bara að Þórólfur fái minnisblaðið aftur, svo hann muni hvað hann á að gera.
Flugfélagið Play er nú farið í loftið undir slagorðinu ,,borga minna, leika meira“. Alþýðusambandið túlkar þessi orð þannig að stjórnendur ætli sér að borga starfsfólkinu minna og leika meira á það til að geta rekið flugfélagið réttum megin við núllið en forsvarsmenn félagsins hafa hafnað því alfarið og segjast raunar vera orðnir alveg flugleiðir á þessum ásökunum. Svo er bara að sjá hversu hátt flugið verður. 10 þúsund fet? Veit ekki. Fjöldi flugferða til og frá landinu bláa eykst stöðugt eftir því sem ferðaþráin verður óstjórnlegri og mótefnið vex. Hvað finnst mér um þetta allt saman? Bara gott og blessað en þó ber að hafa í huga að ekki eru allar ferðir til fjár og stundum er betur heima setið en af stað farið. Kannski það verði nýtt slagorð frú Ballarin og Wow air hins nýja, hver veit. Ferðamennirnir eru mættir aftur, flestir smitlausir og með troðfullt rassgat af peningum. Það er nú ekki ónýtt fyrir ferðaþjónustuna. Verst hvað það gengur illa að fá fólk aftur til starfa í ferðaþjónustunni þessa dagana, trúlega eru bara allir á einhverju ferðalagi. Á hvaða vegferð er Einar Haf? Það veit enginn, allra síst hann sjálfur.
Samkvæmt áður birtri afléttingaráætlun stjórnvalda er nú stutt í algjört hömluleysi – og mun það taka við af algjöru fordæmaleysi sem einkennt hefur síðustu mánuði og misseri. Gert er ráð fyrir að í næstu afléttingu stjórnvalda verði handfæraveiðar, faðmlög og skemmtanalíf gefið frjálst að nýju en þó verði kynsvall á almannafæri bannað eftir klukkan 22 á kvöldin. Þá verði heimilt á ný að kasta af sér þvagi í miðbænum og láta taka það upp á myndband – en það gildir reyndar ekki um starfsfólk í þjálfarateymum knattspyrnulandsliðanna. Heimilt verður að hleypa fólki inn á veitingahús og bari eftir að búið er að opna viðkomandi staði á daginn en stranglega bannað verður að hleypa fólki inn á þessa staði eftir lokun.
Fimmtudagurinn 1. júlí verður trúlega sögulegur dagur í samkomuhúsinu Höfða í Svarfaðardal þegar heimsfrægir Íslendingar munu koma þar fram á tónleikum. Um ræðir þá Jóa Pé og Króla sem einhverjir lesenda þessarar síðu gætu kannast við en þeir ætla að mæta á svæðið ásamt hljómsveit og skemmta gestum. Allt veltur þetta þó vissulega á því að þeir þori út af malbikinu og inn á malarveginn. Vonir standa til að með þessum tónleikum muni hróður hússins berast enn víðar en áður, sé það á annað borð mögulegt. Persónulega býst ég við góðri stemmningu og að jafnvel muni þakið rifna af kofanum í látunum. Þá þarf ég reyndar að rukka þá um hærri leigu. Mér þykir líka trúlegt að svona frægir tónlistarmenn hreinlega steli senunni. Ef þeir gera það þarf ég reyndar líka að rukka þá um hærri leigu. Svo er spurning hvort þessir fordæmalausu tónleikar sprengi ekki alla skala. Ef þeir sprengja skalana þarf ég alveg pottþétt líka að rukka þá um hærri leigu. Eins gott að fara að draga fram reikningaheftið.
Nú á Jónsmessunni er tilvalið að fara út undir bert loft, virða fyrir sér miðnætursólina og velta sér upp úr dögginni. Svo er líka hægt að halda sig innandyra, virða fyrir sér fréttamiðlana og velta sér upp úr öllum sóðamálunum sem dúkka upp dag eftir dag. Þið ráðið.
Kveðja vil ég sorg og sút
og setja á rauðar varir stút.
Fyrr en varir verð ég kjút
og faraldurinn kveð í kút.
Þess má geta að ég rakst á minjasafnara nýverið og þreifaði á honum yst sem innst í leit að einhverjum merkum munum en því miður fann ég engan mun á honum. Það gengur bara betur næst.
Ég hef ákveðið í ljósi nýgengi á hverja hundrað þúsund íbúa og að höfðu samráði við sóttvarnarlækni að tilslaka mér aðeins, eftir að hafa verið afar takmarkaður síðustu vikur. Vonandi tekst mér að halda afléttingarferlinu áfram. Hvað með lesendur, verður létt einhverju af þeim? Nei því miður ekki, þeir fá í fangið nýja og afar samkomutakmarkandi bloggfærslu frá Einari Haf sem skammast sín lítið sem ekkert fyrir þennan ótuktarskap. Takist lesendum að líta glaðan dag á ný verður það svo sannarlega ekki Einari að þakka heldur frekar þeim félögum Þórólfi, Astra, Phizer og Spútnik.
Verktakar vinna nú nótt sem nýtan dag við að útbúa varnargarða í kringum hraunið úr eldgosinu í Geldingadal….eða Merardal…..eða hvar sem þetta eldgos er niður komið. Er þetta gert með það að markmiði að verja vegi og önnur mannvirki á svæðinu sem hugsanlega gætu verið í hættu ef eldgosið heldur áfram næstu mánuði og misseri. Sniðugt, ég vissi ekki að þú gætir hamið eldgos með jarðýtum. Það er greinilega hægt. Af hverju í ósköpunum er ekki búið að fá Landhelgisgæsluna til að fljúga yfir svæðið með vatnsskjóðuna sína góðu og slökkva í gosinu til að spara okkur þetta ómak? Æi já alveg rétt, skjóðan er víst biluð eftir sinueldana miklu í Heiðmörk um daginn. Það gengur bara betur næst.
Langvarandi þurrkatíð og kuldi undanfarið hafa hægt mjög á sprettu á grýttum túnum hér á Urðum. Grjóturðum. Þurrkatíðin hefur líka valdið því að nú má ekki lengur fara út um þúfur eða út í móa að grilla, reykja njóla eða kveikja sér í vindlingi. Almannavarnir hreinlega banna það, sökum eldhættu. Það er reyndar ekkert nýtt í þessu, það hefur alltaf verið eldhætta ef einhver er með eld og vill ekki hætta. Íkveikjubann almannavarna er nýjasta bannið í langri röð boða og banna sem sett hafa verið síðasta árið – og við erum löngu hætt að kippa okkur upp við. Áður höfðu almannavarnir bannað allt skemmtanahald, mannfagnaði, hópknús, ónauðsynlegar utanlandsferðir, nálægð við annað fólk og óvarin hóstaköst í almannarýmum. Aldrei má maður neitt.
Nú keppast sóttvarnaryfirvöld við að láta bólusetja landsmenn sama hvað það kostar. Hefur mátt sjá hjúkrunarfræðingum bregða fyrir vítt og breitt um landið í íþróttahöllum, menningarhúsum, slökkvistöðvum og safnaðarheimilum, mundandi nálar og stingandi í upphandleggi hingað og þangað tvist og bast. Gengið hefur verið á röðina og bólusett samkvæmt forgangslistum heilbrigðisyfirvalda. Aldurhnignir og ellihrumir voru settir í fyrsta forgang, grálit gamalmenni, hornkerlingar og hrukkóttir heldriborgarar í annan forgang, síðmiðaldra, síðskeggjaðir og fullorðnir framlínustarfsmenn í þriðja forgang og miðaldra merkikerti í fjórða forgang. Þegar ákveðið var að setja í forgang alla þá sem væru með undirliggjandi sjúkdóma kom í ljós að stór hluti landsmanna er með ýmiskonar undirliggjandi sjúkdóma. Það er bara misjafnt hversu langt undirliggjandi sjúkdómarnir eru og undir hverju þeir eru liggjandi. Þar af leiðandi er annar og þriðji hver maður í bólusetningarforgangi. Lífstílsbloggarar virðast ekki vera þar á meðal, sem er auðvitað með ólíkindum sé litið til þjóðhagslegs mikilvægis þeirrar stéttar.
Mörgum manninum er það mikið hjartans mál að komast til útlanda eftir hömlur og helsi síðustu missera – í þeirri trú að bólusetningarnar bjargi málunum. Langeygðir, langþreyttir og D-vítamínsnauðir eyjaskeggjarnir róa í gráðið þar sem þeir bíða fölir og forpokaðir eftir sprautunni og réttlæta kaup á utanlandsferð fyrir sjálfum sér og öðrum með þeim rökum að grasið sé miklu grænna hinum megin. Aukinheldur hafi þeir fengið upp í kok af íslenska grasinu eftir rúmt ár á beit í túnfætinum heima á hinum dimmu og drungalegu veirutímum. Sólarstrendurnar, stórborgirnar og stuðið á meginlandinu heilla hina auðtrúa og ginkeyptu og ekki vantar gylliboðin og afslættina. Gömul og endurunnin flugfélög vakna af dvala auk þess sem ný spretta fram og landflutningar á suðrænar slóðir eru í farvatninu. Ferðamannaiðnaðurinn býður þess að rísa bráðlega úr öskustónni og hefja hér efnahagslífið úr öldudal kóvidkrísunnar og upp í hæstu hæðir að nýju. Sjálfur horfi ég agndofa á aðfarirnar og barnslega eftirvæntingu ferðaþyrstra, blöskrast á því hvernig allt er í heiminum hverfult og held áfram að jórtra svarfdælska grasið múlbundinn og blár af kulda í vindþurrkuðum túnfætinum heima. Heima er best því þar er engin pest. Það er að segja ef riðuveiki, þunglyndi, flasa, vélindabakflæði, liðagigt og garnaveiki eru ekki talin með.
Ég hef ekki alltaf verið uppfullur af heimóttarskap, ótrúlegt en satt. Í eina tíð var ég heimsborgari sem lét sig ekki muna um ferðalög yfir hnöttinn þveran og endilangan til að auka víðsýni og þekkingu á veröldinni, komast á hömlulaust kvennafar og til að sukka, djamma og djúsa á erlendri grund. Skemmst er að minnast þess þegar ég fór ásamt góðum félögum og vinum í dagsferð á Stade de France í París til að horfa á íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu etja kappi við það franska. Þá skrapp ég ásamt bekkjarfélögunum til Mexíkó og Bandaríkjanna skömmu fyrir bankahrunið og einnig hef ég étið skerpikjöt og drukkið Færeyjabjór í Færeyjum að hætti heimsborgara. Rosalega flott allt saman en frekar tímafrekt. Þökk sé heimsfaraldri kórónuveiru hef ég komist að því að það er hægt að framkvæma alla þessa hluti gegnum sjónvarpið, tölvuna og smáforrit í snjallsíma án þess að hreyfa sig spönn frá rassi. Nema kannski ekki hvað varðar skerpikjötið. Félagsleg einangrun er mun skemmtilegri þegar hún er kölluð sjálfskipuð sóttkví. Kannski ekki gott fyrir geðheilsuna en það var reyndar ekki úr háum söðli að detta þar.
Bíddu bíddu, hvað með nýjustu #metoo bylgjuna, stríðsástandið á Gazasvæðinu og yfirvofandi sigur Íslands í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva? Já ég vissi ekki alveg hvað ég gæti lagt til málanna þar þannig að ég ákvað bara að fjalla um þetta í bundnu máli.
Heimurinn er uppfullur af eymd
og auðmýktin er fyrir löngu gleymd.
Einar búa konur kúgun við -
en kannski vinnur Ísland júróið?
Já ég veit, þetta var kannski ekki alveg nógu gott. Ekki frekar en ástandið í heiminum almennt. Hvað ætla ég að gera í því? Nú auðvitað að hringja í 113 og væla pínu. Ekki veitir af.
Þess má til gamans geta að samkvæmt rannsóknum getur um fjórðungur drengja ekki lesið sér til gagns. Í ljós kom að allir drengirnir sem töldust til þess hóps voru að lesa bloggsíðu Einars Haf. Þar les aldrei neinn neitt af gagni og því komu niðurstöður rannsóknarinnar nákvæmlega ekkert á óvart.