Orðin lang langdregnust

Verkföllnu lesendur.

Ég gæti eflaust þreytt ykkur lesendur með vanhugsuðum og illa samsoðnum inngangsorðum en það ætla ég ekki að gera að þessu sinni. Bara grín. Auðvitað ætla ég að þreyta ykkur lesendur með vanhugsuðum og illa samsoðnum inngangsorðum. Í inngangi ég slæ á létta strengi, skælbrosandi línur saman tengi. Í fatabúð ég fer og kaupi þvengi og starfsfólkið með bolluvendi flengi.

Vá, þessi inngangur klúðraðist gjörsamlega. Já sennilega…en bíðið þið bara. Lengi getur vont versnað eins og nú verður sýnt fram á. Þó skammt sé liðið af árinu hafa mun fleiri lægðir, mun fleiri hægðir og mun fleiri appelsínugular viðvaranir dunið á landinu en góðu hófu gegnir í meðalári. Eða er það ekki svo? Þar sem ég lifi afar spennuþrungnu og oft á tíðum sprenghlægilegu lífi ákvað ég að glugga aðeins í dagbókina og deila því með ykkur hvernig árið hefur farið af stað. Einhverja dagana gleymdi ég að vísu að skrá í dagbókina og þar af leiðandi eru þeir skrásettir hér eftir minni. Það getur ekki verið svo nauið, það er að segja spaugið.

Nýársdagur. Lægð var yfir landinu en það var bara út af gamlárspartíinu. Timburmenn á annesjum og tremmi á stöku stað. Forseti Íslands hélt kynhlutlaust nýársávarp og enginn vissi hvers kyns var.

2. janúar. Lægð var yfir landinu, enda fyrsti mánudagurinn af fimm í janúar. Svifryksmengun í Reykjavík fór yfir hættumörk í þrítugasta sinn frá áramótum, þó það væri bara 2. janúar.

5. janúar. Annar janúar búinn og kominn allt annar janúar. Lægð var á leið til landsins og bloggarinn Einar Haf var í töluverðri lægð. Hægðirnar voru frekar linar þennan daginn, enda verið að vinna upp afganga frá jólunum.

6. janúar. Vel tókst til þegar kveikt var í stærstu þrettándabrennu Umf. Þorsteins Svörfuðar í manna minnum. Björgunarsveitin á Dalvík bauð upp á þriggja ára uppsafnaða flugeldaskothríð. Íslenska knattspyrnulandsliðið karlamegin var í mikilli lægð en það kom reyndar hvergi fram á veðurkortinu.

8. janúar. Ekkert var eftir af þrettándabrennunni nema aska, hurðalamir, naglar og bjórdósir sem ekki brunnu. Verðbólgubálið logaði glatt þrátt fyrir að ekkert brennuleyfi hafi verið gefið út. Veðurfræðingar komu auga á enn eina lægðina….í landslaginu. Það er nú bara eðlilegt.

10. janúar. Ekki ríkti sátt um ríkissáttasemjara, sem breyttist í ríkisekkisáttasemjara. Íslenska handboltalandsliðið undirbjó sig af kappi fyrir komandi stórmót. Nokkrir í liðinu köstuðu eins og kelling, það er að segja Kristian Kjelling, norsk stórskytta. Ekki leiðum að líkjast.

12. janúar. Norðanátt, slydda og gul viðvörun. Veðurfræðingar töldu þó ekki ástæðu til að gera veður út af því, enda alveg nægt veður fyrir. Eflingu og SA tókst hvorki að semja þorrablótsannál, kjarasamning eða júróvísíjónlag en ég aftur á móti reyndi.

13. janúar. Ekki nóg með fimm mánudaga í janúar heldur fengum við líka föstudaginn þrettánda. Hvaða við? Bara við og við. Ég var frekar óheppinn þennan dag eins og marga aðra daga, en þó ekki fyrr en ég fattaði að þetta væri lögbundinn óhappadagur. Ég nýtti tækifærið til að taka út alla mögulega óheppni. Gekk ég því undir stiga þar sem ég mætti svörtum ketti og heyrði um leið í kráku sem var trúlega óheillakráka.

15. janúar. Eindagi staðgreiðslu og tryggingagjalds fyrir desember. Eindagi sálarangistar og trega yfir brotthvarfi jólanna, sérstaklega þegar ég komst að því að næsti rauði dagur á almannakinu er í apríl. Engir kjarasamningar voru undirritaðir og heldur ekki varasamningar sem gott er að eiga til vara.

17. janúar. Lægð fór yfir landið. Fjölmiðlamenn töluðu um snjóstorm og við það fékk ég sár á sálina. Í kjölfarið skrifaði ég harðort bréf stílað á alla helstu málfarsráðunauta og sagði þeim að taka þennan snjóstorm og troða honum upp í kafaldsbylinn á sér. Þriðjudagur og miður janúar, sem mér þótti miður.

19. janúar. Lægðin var gengin yfir, enda yfirgengileg. Bloggarinn Einar Haf hélt áfram að skrifa þorrablótsannál og skemmti sér ágætlega, því heimskur hlær að sjálfs síns fyndni.

20. janúar. Lægð var yfir landinu vegna handboltalandsliðsins. Íslendingar töpuðu fyrir Svíum á heimsmeistaramótinu, stemmningin var hræðileg og strákarnir okkar voru ekki lengur strákarnir okkar. Landsliðinu var þó vorkunn, enda hvorki með nóga breidd eða lengd miðað við önnur lið. Herjaði umgangspesti á heimilið, sú þriðja af átján í röðinni. Kom asnahláka…nei ég meinti asahláka. Margir voru duglegir að bonda, enda bondadagurinn.

21. janúar. Bloggarinn Einar Haf fór ekki á djammið þennan laugardaginn sem er auðvitað ótrúlegt. Honum var ekki boðið í nein partí sem er vissulega ekki fréttnæmt gefið hversu leiðinlegur hann er, en hins vegar las hann allar fréttir sem birtar höfðu verið á Smartlandi það sem af var ári og naut þess í botn að lifa góða lífinu gegnum aðra. Þorrablótsannállinn var settur í súr fram að þorrablóti.

23. janúar. Það var ekki lægð yfir landinu en það lægði yfir landinu. Eflingu og SA tókst ekki að semja enda samdi samningamönnum ekki. Ég vissi ekki hvort ég ætti að tala um mig í fyrstu persónu eða bloggarann Einar Haf í þriðju persónu í næstu bloggfærslu. Það eina sem ég vissi var að þetta yrði hryllilega löng bloggfærsla.

25. janúar. Bloggarinn Einar gerði hosur sínar grænar en það voru mistök, þær áttu auðvitað að vera rauðar. Veikluleg skil fóru yfir landið. Skil? Nei ég skil ekki alveg. Alþingi kom aftur saman eftir jólaleyfi og lenti þingmönnum saman strax í upphafi. Gefin var úr gul viðvörun. Ekki vegna veðurs heldur vegna gulra svitabletta í fötunum mínum en þvottavélin á Urðum bilaði og engin leið að vita hvenær næsti hurðarrofi í Electroloux Timecare 500 kæmi til landsins.

26. janúar. Ríkissáttasemjari nennti ekki lengur að hlusta á deiluaðila kýta og baknaga hvorn annan og lagði því fram miðlunartillögu til að sprengja viðræðurnar endanlega í loft upp.

28. janúar. Éljabakki gekk yfir Norðurland og um hríð var hríð. Síðan blotnaði í snjónum og Svarfdælingum einnig, enda þorrablót og þorrabloti á Rimum um kvöldið. Ekki var gerður aðsúgur að mér fyrir annálsskrif, enda allt persónulegt níð í skjóli nafnleyndar.

30. janúar. Smálægð gekk yfir karphúsið og olli það nokkrum loftþrýstingi, votti af háþrýstingi og almennum þrýstingi hjá samninganefndum SA og Eflingar.

2. febrúar. Gefin var út viðvarandi svitagul viðvörun vegna þess að þvottavélin á Urðum var enn biluð. Einar brynnti músum enda voru þær orðnar mjög þyrstar.

4. febrúar. Það slitnaði ekki upp úr kjaraviðræðum SA og Eflingar enda engar viðræður í gangi. Sjúklingum með slæma hálsbólgu fækkaði nokkuð á Landspítalanum en hins vegar fjölgaði þeim sem lagðir voru inn vegna svæsnar verðbólgu í liðum. Mjög mörgum liðum.

6. febrúar. Lesendum var strax farið að kvíða fyrir Konudeginum, enda miklar líkur taldar á bloggfærslu frá Einari Haf þann dag. Gefin var út gul viðvörun fyrir Vesturland, Suðurland og Tenerife en á þessum tíma var Tenerife einmitt fjölmennasta kjördæmi Íslands.

8. febrúar. Fimm fílar lögðu af stað í leiðangur, lipur var ei þeirra fótgangur. Takturinn fannst þeim heldur tómlegur, svo þeir tóku sér einn til viðbótar. Það gerðist einmitt þann 8. febrúar samkvæmt mínum heimildum.

10. febrúar. Lægð við Hvarf hvarf og kom því ekki til landsins. Seðlabankastjóri setti upp á sig stýri og stýrivexti sem héldu áfram í örum vexti.

13. febrúar. Lægð í kvenmannsfötum fór framhjá landinu, svokallað lægðardrag. Uppskafningur í innsveitum en heiðríkja á heiðum. Eflingu og Samtökum atvinnulífsins samdi ekki og því var ekki samið. Ríkissáttasemjari steig til hliðar, fór svo í hliðar saman hliðar, snéri sér í hring og hnerraði.

15. febrúar. Vegna verkfalla greip um sig skelfing og óðagot hjá mörgum. Varað var við svokölluðum bensínhamstri. Ég fletti upp í dýrabókinni minni en fann engan bensínhamstur þar. Telst málið enn óupplýst.

18. febrúar. Lægð nálgaðist landið með hægð. Bloggarinn Einar Haf fattaði að hann yrði að fara að skrifa eitthvað ef hann ætlaði sér að birta bloggfærslu í Konudagsgjöf. Samningaviðræður í karphúsinu stóðu yfir allan daginn en settur sáttasemjari sá að eina leiðin til að halda viðræðum gangandi væri sú að láta fylkingar Eflingar og SA funda sitt í hvoru herberginu.

19. febrúar. Þorrinn fór og Góan kom. Konudagurinn tók við af Þorraþrælnum og voru það ágæt skipti. Einar Haf er það sem konur vilja ekki vera….einar. Upp úr slitnaði í karphúsinu, verkföll og vöruskortur eru því framundan. Gul viðvörun á Suðausturlandi en óvissustig almannavarna vegna stóra þvottavélamálsins á Urðum. Einari finnst það góð hugmynd að birta lengstu bloggfærslu Svarfdælskrar bloggsögu á veraldarvefnum í tilefni konudagsins.

Engin vísa, ekkert grín
Sólveig seint mun skammast sín
úfinn er Halldór Benjamín
þjóðin ben mun hamstra sín.

23. febrúar. Einar Haf er talinn standa þjóðfélagsskipaninni fyrir þrifum vegna nýjustu bloggfærslu sinnar og er þar af leiðandi sett lögbann á bloggsíðuna, enda eru þrif lögvernduð starfsgrein og engum heimilt að standa fyrir þrifum nema starfsfólki sem starfar undir kjarasamningi Eflingar.

Einar langur dreginn.

Tilvitnun dagsins:

Allir: LAAAAANNNNNGGGGGGDDDDDRRRREEEEGGGGIIIIIÐÐÐÐÐ!!!!!

Mót við orðaár

Kæru landsmenn.

Það er við hæfi nú um áramót að staldra aðeins við, líta til baka, líta yfir farinn veg, líta fram á veginn, líta til beggja hliða áður en farið er yfir farinn veg, líta aðgerð, líta um öxl, líta læknir, líta á öxl, nudda öxl, reisa sér hurðarás um öxl, huga að öxlunum og smyrja öxlana. Þá er gott að líta í eigin barm, líta í barm annarra og gera barmasamanburð – og barma sér svo í beinu framhaldi. Það er líka við hæfi um áramót að koma alls kyns vafasömum skoðunum og rangfærslum á framfæri með því að dulbúa þær sem áramótahugvekju. Á þessum síðustu og verstu tímum er við hæfi að síðasti og versti bloggarinn komi með síðustu og verstu bloggfærslu ársins. Hvernig var þetta nú aftur með áramótasíðkjólinn minn, var hann ekki síðastur og verstur? Nei ég átti einn sem var enn síðari….. og verri.

Veðurstofa Íslands gaf nú rétt í þessu út appelsínugula viðvörun fyrir næstu efnisgreinar hugvekjunnar. Búist er við mikilli ófærð í kaflanum um sauðkindina.

Skæru landsmenn. Árið sem er hér um bil alveg að renna sitt skeið hefur um margt verið afar sérstakt. Samkomuhömlum var aflétt í eitt skipti fyrir öll og hömlur á viðskipti við Rússland komu í staðinn. Grímuskylda vék fyrir grímulausum áróðri af ýmsu tagi og fjarlægðartakmarkanir urðu fjarlægar takmarkanir þegar leið á árið. Kórónuveiran heldur áfram að hrella grandvaralausa landsmenn nú í hömluleysinu en vonandi fjarar kraftur veirunnar út í Fæser og fyllingu tímans. Ýmsir aðrir vágestir hafa leikið lausum hala í þjóðfélaginu á árinu sem er að líða. Nægir þar að nefna inflúensuna, upp og niður pestina, verðbólguna, bloggarann Einar Haf, mávana í Urðaenginu, föður ríkislögreglustjóra og tryggingasölumenn. Vágestir? Nei meira svona vá….gestir!

Hvar værum við ef við hefðum ekki ærnar? Sjálfa sauðkindina? Það get ég sagt ykkur. Við værum hnípin og skjálfandi úti í horni að drepast úr kulda og hungri. Í árhundruði hefur íslenska sauðkindin haldið lífinu í landanum með því að fórna sjálf sínu eigin lífi, útigengin, belgfull af grænum grösum og södd lífdaga – tilbúin að gefa eftir sitt eigið líf mannkindinni til hagsbóta. Já eða svoleiðis. Sauðkindin gefur okkur svo ótal margt. Má þar nefna hrygg og gæruskinn, frampart og afturpart, teygðan lopa og óteygðan lopa. Fullvíst má telja að sauðkindin mun spila lykilhlutverk þegar kemur að áframhaldandi vexti og vindgangi…nei ég meinti viðgangi þjóðarinnar á komandi ári.

Veðurstofa Íslands hefur gefið út að áður útgefin appelsínugul viðvörun sé nú orðin gul en viðvörunin gæti orðið dul þegar líður á hugvekjuna.

Tæru landsmenn. Ísland er meiriháttar krúttlegt land. Hér eru allir innviðir annað hvort sprungnir eða við það að springa vegna álags en samt fáum við hingað ferðafólk í milljóna vís, dolfallið yfir ósnortinni náttúrufegurð og vályndu veðurfari. Hér er loftið svo ofboðslega tært, ljósið svo yfirgengilega skært og fólkið óaðfinnanlega hært. Hér eru hæstu og bestu stýrivextir á byggðu bóli. Hér eru höfuðstólar lána þeir traustustu og greiðslubyrðin sú hagstæðasta, fyrir lánveitendur. Hér renna hreinustu ár og hreinustu lækir sem fyrirfinnast í víðri veröld og þó víðar væri leitað. Svo lengi sem aurspýjur vegna öfga í veðurfari og bráðnir jöklar af mannavöldum skemma ekki stemmninguna fyrir okkur. Hér eru bestu rútubílstjórar í heimi, sem keyra ferðamannadúllunum um allar koppagrundir í öllum veðrum, þó svo að vegir séu merktir lokaðir og engin vitglóra í að halda áfram akstrinum. Við vitum hvað gjaldeyrir ferðamanna hefur mikla þýðingu fyrir krúttipúttulega hagkerfið okkar. Grænt rafmagn kemur úr öllum innstungum og streymir án afláts og óhindrað inn í hugi og hjörtu fólks, hringrásarhagkerfinu til hagsbóta. Enginn skilur hvernig hin grænu orkuskipti eiga að fara fram ef ekki má virkja fleiri fallvötn og náttúruperlur til að framleiða meira rafmagn fyrir alla rafmagnsbílana, allar tölvurnar, alla er-fræjerana og öll unaðstækin úr blöss. Stefna stjórnvalda er hér eftir sem hingað til sú að bæði sé hægt að sleppa og halda. Eða ég held það allavega.

Áhrifavaldar gerðu sitt besta til að komast til áhrifa og hafa áhrif á okkur á árinu. Gaman er að geta þess að ég er undir áhrifum eins og er, annars gæti ég aldrei klárað hugvekjuna. Hvaða áhrifavaldi er það að þakka? Sennilega Víkingi, man ekki hvers son hann er. Áhrifavaldar voru duglegir að taka af sér myndir á árinu sem er að líða og greina almenningi frá öllu því helsta sem á daga þeirra dreif og öllum þeim styrktaraðilum sem greiddu fyrir herlegheitin. Hvað sést svo á þessum myndum? Til dæmis nýjar stellingar, nýjar húðvörur, nýjar varir, nýr fatnaður, vöðvauppbygging, brúnkustig, gljástig, fituprósenta, vaxtaprósenta, hárvöxtur, líkamsvöxtur, kærastar, kærustur, gleðskapur og glaumur.

Væru landsmenn. Það er ljóst að hættur og ógnir steðja að á flestum sviðum mannlegrar tilveru. Óstöðvandi smitsjúkdómar, styrjaldir og stríðsátök, sóun auðlinda, framboð Trömps, matvælaóöryggi, fjölgun áhrifavalda og eyðing ósonlagsins eru bara nokkur dæmi um þetta. Hvað er hægt að gera? Því verður auðvitað ekki svarað í svona áramótahugvekju, enda ekki við því að búast. Þetta voru bara svona vangaveltur af minni hálfu, ég ætlaði alls ekki að vekja óhug meðal lesenda. Nema þá að ég breyti þessu bara í áramótaóhugvekju. Þá getur svartsýnisrausið haldið áfram eins og ekkert sé.

Víða kreppir skóinn. Gríðarlegar verðhækkanir og verðbólga hafa sett svip sinn á árið sem er hér um bil alveg að fuðra upp – og hafa ófáar krónurnar fuðrað upp á verðbólgubálinu. Ég furða mig á því…eða fuðra. Nánast sama er hvar borið er niður, allt er að hækka nema hvað að ég er ennþá bara 1,76. Ríki og sveitarfélög berjast í bökkum og velta þarf við hverri krónu til að ná endum saman. Útlit er fyrir áframhaldandi sultarólaherðingar á komandi ári og þá er nú gott að hafa varaforða. Ekki viljum við að allt endi sem rústir einar…..Einar?

Færu landsmenn. Leiður er læklaus maður. Samfélagsmiðlar spiluðu stóra rullu á árinu sem er hér um bil alveg að ljúka sér af, samkvæmt samfélagsmiðlum. Fyrirséð er að sú þróun haldi áfram á næstu árum, samkvæmt samfélagsmiðlum. Þjóðfélag nútímans byggir á því að vera í stöðugu sambandi alltaf allsstaðar og snjallsímar og smáforrit geta gert hvern mann geðveikan á afar skömmum tíma ef ekki er varlega farið, samkvæmt samfélagsmiðlum. Úreltasta gerð samfélagsmiðla samkvæmt samfélagsmiðlum eru bloggsíður og því fer vel á því að úreltasti smáhrifavaldurinn noti þann miðil til að koma skoðunum sínum á framfæri. Reiknað er með fjölmörgum deilingum, allnokkrum lækum og slatta af athugasemdum á nýju ári, samkvæmt samfélagsmiðlum.

Veðurstofa Íslands hefur gefið út að gul viðvörun er orðin dul en dregur þó ekki dul á að hún gæti orðið gul aftur ef Einar Haf fer ekki að ljúka þessari hugvekju.

Æru landsmenn. Íslensk þjóð er þrautseig þjóð. Hér við ysta haf hefur þjóðin þraukað hvert hallærið, hverja pláguna og hverja hörmungina á fætur annarri. Horfellir, móðuharðindi, kórónuveirur, frostavetrar og fárviðri hafa dunið á með reglulegu millibili en ævinlega hefur nógu mörgum tekist að lifa af til að hægt sé að halda partýinu gangandi. Von er á frekari hörmungum á komandi ári en ég get þó huggað ykkur með því að sennilega verða hörmungarnar léttvægar í samanburði við þessa áramótahugvekju.

Mikið hefur verið um fólk á flótta á árinu sem er alveg næstum því liðið. Fjölmargir flýja hörmungar í heimalandinu og leita nauðugir að betra og öruggara lífi. Forstjóri bankasýslunnar er á flótta undan fréttamönnum og ég sjálfur er á stöðugum flótta undan sannleikanum en almennt eru Íslendingar á stöðugum og rándýrum flótta frá eigin leiðindum og er þá vinsælast að flýja til Tenerife og annarra suðrænna aflandseyja. Þar hópast Íslendingar nú saman í hundruðatali og halda áfram að eyða gjaldeyrisvaraforðanum í tóma vitleysu. Nýverið gaf veðurstofan út gula viðvörun á Tenerife. Ekki vegna veðurs heldur vegna fjölda Íslendinga sem þar voru staddir með svæsna matareitrun sökum jólaboðs að íslenskum sið. Ekki hefur enn tekist að þrífa þau salerni sem verst urðu úti á Íslendingahótelinu. Lýsandi fyrir árið…..sjitt hægðir.

Þegar öllu er á botninn hvolft og þegar allt kemur til alls skiptir ekki máli hvað gerðist eða gerðist ekki á árinu sem er hér um bil á enda runnið. Það sem skiptir máli er að hægt sé að sprengja árið í burtu með baneitruðum flugeldum og stórhættulegum skottertum án þess að fyllast sótskömm, kolefniskvíða og öðrum loftslagstengdum vandamálum. Nokkuð langt er liðið síðan síðast var haldið upp á áramót í hömluleysi. Ég hvet ykkur ágætu lesendur þó til að viðhalda hæfilegri fjarlægð við logandi ragettur og íkveiktar skottertur, tveggja metra reglan gildir ennþá þar….hið minnsta.

Bálið brennur, svífur sót
síðan koma áramót. 
Ég er bæði mildur, meyr
og mjúkur eins og tröllaleir. 

Bæru landsmenn. Að síðustu óska ég ykkur öllum farsældar á komandi ári og þakka um leið fyrir samfylgdina, lesturinn, afskiptin og samskiptin á fjárans árans fárinu og árinu sem er við það að veslast upp. Njótið áramótanna sem best þið getið en gætið ykkar þó á hömluleysinu.

Koníakstofan á Bessastöðum, 31. desember 2022.

Einar Okkar Hafliðason.

Orð í jóla DB blaðinu

Ágætu lesendur.

Þegar ég var beðinn um að koma með efni í jólablað DB blaðsins lá auðvitað beinast við að koma með eitthvað grín. Jólin eru hugsanlega ekki rétti tíminn til að vera með grín – en öðru máli gegnir um áramótin. Þess vegna ætti kannski að lesa þennan pistil nær gamlársdegi en aðfangadegi. Jæja, við skulum samt gera tilraun. Hér kemur því jólaleg samantekt úr nýútkominni skýrslu Leppalúða, tröllkarls og ríkisendurskoðanda í hjáverkum, þar sem fjallað er á afar hátíðlegan hátt um sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka fyrr á árinu.

En það bar til þá um vorið að boð komu frá ríkisstjórninni um að Bankasýsla ríkisins skyldi selja 22,5% hlut í Íslandsbanka í lokuðu útboði. Var þetta alls ekki fyrsta bankasalan í lokuðu útboði og var gjörð þá er Bjarni Ben var fjármálaráðherra yfir Íslandi.  Fóru þá áhugasamir útvaldir kaupendur hver til síns heima og hugsuðu málið.

Þá fór og Jósef úr Garðabæ frá borginni Reykjavík inn á netið og lét skrásetja sig fyrir lokuðum hlut í lokuðu útboði á lokuðu tilboði ásamt Maríu heitkonu sinni sem var mjög heit kona og þar að auki þunguð og þungt hugsi. María vildi koma sér út á land til að fæða og ala upp barnið sem var eingetið og ekki einleikið, enda engin leikskólapláss í boði í borginni. Ástandið í heilbrigðiskerfinu gerði það hins vegar að verkum að hún neyddist að lokum til að leita á náðir bænda og eiga barnið í fjárhúsinu – því eigi var rúm handa þeim í gistihúsi sem var yfirfullt af erlendum ferðamönnum í norðurljósaskoðun.

En í sömu byggð voru fagfjárfestar úti á túni að gæta aura sinna. Og forstjóri Bankasýslunnar stóð hjá þeim og ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir um peningana sína en forstjóri Bankasýslunnar sagði við þá: Verið óhræddir! Því sjá, ég boða yður mikinn gróða sem veitast mun ykkur öllum. Yður er í dag seldur eignarhlutur í ríkiseign á afar hagstæðu verði. Og hafið þetta til marks, þið munuð stórgræða á þessu á aðeins örfáum dögum. Og í sömu svipan var með forstjóra Bankasýslunnar fjöldi himneskra og himinlifandi spákaupmanna sem lofuðu einkavæðinguna og sögðu; Dýrð sé öllum þessum rosalega háu upphæðum og friður á jörðu með mönnum sem Bjarni Ben hefur velþóknun á. Sérstaklega pabba hans. Upp frá þessu lifðu allir fagfjárfestarnir saddir og sælir. Sælir eru þeir sem banka eiga því þeirra er gróðinn.

Það eru ekki allir svo heppnir að eiga hlut í banka og því þarf að semja svokallaða kjarasamninga þar sem samtök atvinnurekenda annars vegar og samtök launþega hins vegar, semja um kaup og kjör hvort sem þeim líkar það betur eða verr. Yfirleitt líkar mönnum það verr því það fá aldrei allir allt sem lagt var upp með. Þetta árið var ákveðið að semja svokallaða skammsýna samninga. Lengi vel áttu þetta að vera skammtímasamningar en vegna skamms tíma við samningsgerðina tók skammsýnin völdin. Í smáa letrinu kemur fram að allir fái þá eitthvað fallegt en hvað það nákvæmlega verður veit nú enginn. Vandi er um slíkt að spá.   

Útgáfa stendur í miklum blóma nú á aðventunni, bókaormum, lestrarhestum og blaðasnápum til mikillar ánægju. Bankaskýrsla um bankasýslu, hrútskýranleg hrútaskrá og kindarlegir kjarasamningar eru meðal heitustu bitanna í bókatíðindunum en til að toppa allt hefur forsætisráðherra nú skrifað og gefið út glæpasögu sem heitir Reykjavík. Í bókinni þurfa íbúar Reykjavíkur að glíma við alls kyns uppskálduð vandamál á borð við fyrirhugaða borgarlínu, Evrópumet í svifryki og umferðaröngþveiti, blóðugt næturlífið í miðbænum og önnur glæpsamleg athæfi sem eiga sér stað með reglulegu millibili. Fylgist spennt með, forsætisráðherra mun lesa valda kafla úr bókinni í áramótaávarpi sínu að kvöldi gamlársdags. Alls ekki við hæfi barna….eða Bjarna.  

Góðir lesendur, það er ekki góðæri í landinu. Hins vegar eru góðar ær í landinu, sem er mun betra. Hvar værum við ef ekki væri til staðar íslenska sauðkindin? Þjóðargersemin, bjargvætturinn og bjartsýnisvaldurinn sem veitt hefur svo mörgum sólargeislum inn í líf okkar sem landið byggjum. Ég get alveg sagt ykkur það. Við værum í bráðum háska, svöng og skjálfandi af kulda. Þegar hættur steðja að og tregi og sorg fylla hjörtu og hugi er það yfirleitt íslenska sauðkindin sem kemur til bjargar, með brosi sínu og blíðu…já og kannski brúnni sósu. Þetta skulum við muna nú um jól og áramót.

Gleðileg jól.

Einar Hafliðason

Forðum orðum borðum frá

Flóttalegu lesendur.

Orðatiltækið að hjakka í sama farinu kemst upp á algjörlega nýtt og áður óþekkt stig í hugum lesenda þar sem þeir fylgjast með síendurteknum og örvæntingarfullum tilraunum mínum til að vera sniðugur og skemmtilegur hér á bloggsíðu allra landsmanna. Auðvitað bind ég bagga mína ekki sömu hnútum og samferðamenn mínir og því skyldi engan undra þó allt fari í hnút og hlaupi í kekki eða ekki. Heyri ég gráthljóð? Nei þetta var sennilega bara ekki, eða ekki.

Hið svokallaða hryðjuverkamál er jafn torskilið og inngangurinn sem þú varst að lesa. Nýjustu vendingar minna helst á illa skrifaða sápuóperu þar sem faðir ríkislögreglustjóra reynist einn stórtækasti byssubrjálæðingur og vopnasali landsins, flæktur inn í vopnaviðskipti við vafasama vandamenn, menn í vanda og einstaklega einkennilega einstaklinga með kynlegar kenndir og meinlegar meiningar. Ríkislögreglustjóri hefur sagt sig frá málinu vegna óvæntra fjölskyldutengsla en hvað sem því líður er ljóst að næsta fjölskylduboð verður vandræðalegt. Lögmaður þeirra sem setið hafa í gæsluvarðhaldi vegna málsins svo vikum skiptir segir að aðeins hafi verið um misheppnaðan brandara að ræða og að aldrei hafi staðið til að myrða einn eða neinn. Æi dreptu mig ekki. Þess má til gamans geta að ég hef mjög oft sagt misheppnaða brandara og nokkrir lesendur bloggsíðunnar hafa drepist úr leiðindum en samt sem áður hef ég aldrei verið hnepptur í gæsluvarðhald. Það mál er sem betur fer ekki til rannsóknar.

Guðjón löggupabbi
er bæði sætur og klár
búinn að vera í vopnabransa
í sautján ár.
Vopnvæðir bófa og ræningja
og dóttur um leið gerir vanhæfa.

Dagur einfaldra var haldinn hátíðlegur nú fyrir skemmstu. Á þeim degi er einfaldur almúginn plataður upp úr skónum og sokkunum með alls kyns einföldum og margföldum gylliboðum og afsláttarauglýsingum þar sem ódýrum raftækjum, gerviefnaríkum fatadruslum og gagnslausu dótaríi er prangað inn á ginkeypt fólk í stórum stíl, kaupmönnum til hagsbóta. Auðvitað læt ég ekki gabba mig svona. Ég fer sko ekki að rjúka til og kaupa eitthvað dót á afslætti sem ég get keypt á fullu tvöföldu okurverði alla aðra daga ársins. Nei takk.

Gegnum netið næla sér í dót
neysluóðir kreditkortafantar
rassgat hreyfa ekki hætishót
heldur kaupa það sem engan vantar. 

Dagur einfaldra er vissulega góður en dagur íslenskrar tungu er enn betri. Dagur íslenskrar tungu er raunar ágætur dagur til að velta fyrir sér stöðu tungumálsins, þessarar þjóðargersemi sem mótar alla okkar hugsun og hegðun. Þetta er líka ágætis tímapunktur til að ausa úr skálum reiði sinnar vegna þeirrar óþolandi boðflennu sem enska er í okkar daglega tungutaki. Þar er ég auðvitað ekki undanskilinn með öll mín ókei og hæ og bæ og seif og dánlód og guð má vita hvað. Orðskrípið síngulsdei er eitthvað sem á auðvitað að bannfæra með lögum strax í dag, alveg eins og þeinksgivíng, hallóvín, blakkfrædei og sæbermondei. Fuss og svei. Jónas Hallgrímsson snýr sér eflaust marga hringi í gröfinni meðan hann þarf að hlusta á þessar yfirgengilegu enskuslettur allar saman og skiptir þá engu hvort um ræðir bólugrafinn bloggara, siðblint markaðsfólk, ómálga útvarpsfólk eða snjalltækjasjúka samfélagsmiðlafíkla . Ekki hefði Jónasi líkað betur að labba gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar þessa dagana þar sem allt er morandi í enskuslettum og málsóðar vaða uppi með subbuskap. Þar er til dæmis ekki talað um hlið heldur er talað um geit. Geit eitt, geit tvö, geit þrjú og svo framvegis. Passengers to London, plís gó tú geit nömber næn. Óskiljanlegt. Þarna þarf augljóslega að koma hlutunum í rétt horf. Hreinlegast hefði verið að kveikja bara strax í bévítans geitinni. Hvað er svo málið með þetta búst dott komm sem er alltaf verið að auglýsa? Hver fjandinn er það? Talið íslensku! Og Serranó, fress happí mex? Mér er flökurt. Út af serranó vefjunni? Nei bara út af enskuslettunum.

Tunga íslensk
yfir Hraundranga
af ensku bólgin er
horfin til himna,
hryggur þráir
sveinn í djúpum dali. 

Útgáfa lestrarefnis stendur í miklum blóma þessar vikurnar eins og sést vel á nýútkomnum bókatíðindum. Engu máli skiptir þó bóklestur dvíni og læsi hraki, eftirspurn eftir bókum er áfram mjög mikil og stöðug. Eftirspurn eftir krassandi rannsóknarskýrslum hefur einnig aukist stórlega. Það eru því gleðifréttir að nú hefur Ríkisendurskoðun loks tekist að ljúka viðamikilli skýrslu sem fjallar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka fyrr á árinu. Skýrslan kemur mátulega inn í jólabókaflóðið og án efa mun hún leynast í býsna mörgum pökkum þessi jólin. Efni skýrslunnar er hefðbundið og formfast en þó skáldlegt á köflum. Sagan rís einna hæst þegar svokallaðir kjölfestufjárfestar fá að kaupa hluti í Íslandsbanka á vildarkjörum og selja svo þessa sömu hluti skömmu síðar með margra milljóna gróða. Þetta mun vera hin svokallaða íslenska leið sem er ætíð farin þegar íslenskir bankar eru seldir. Sumir sem lesa skýrsluna telja að ekkert hafi verið gert á rangan hátt við sölu Íslandsbanka en aðrir sem lesa skýrsluna telja að varla hefði verið hægt að klúðra hlutunum á stórkostlegri hátt, nema þá hugsanlega ef bloggsíðu Einars Haf hefði verið boðið að kaupa hlut í bankanum. Ráðamenn og bankasýslumenn hyggjast axla ábyrgð með því að sitja sem fastast, enda væri það óábyrgt að flýja af hólmi í miðjum hildarleiknum. Ég ætla að bíða eftir því að skáldskapurinn verði tekinn fyrir og krufinn til mergjar í Kiljunni en þangað til tjái ég mig ekki frekar um málið. Enda bundinn. Trúnaði.

Bankasýslan kann ekki á excel
ekki getur það nú endað mjög vel
í skýrsluflóði skammlaust mér ég drekki
og axla ábyrgð með því að hætta ekki.

Nú er stutt í að heimsmeistaramótið í tvískinnungi og siðblindu hefjist í ofríka dvergríkinu Katar. Þessa dagana streyma þangað heilu þotufarmarnir af oflaunuðum og oföldum knattspyrnuköppum hvaðanæva að. Þeir ætla sér að sprikla á nýslegnu og ilmandi Katörsku grasi næsta mánuðinn eða svo og keppa í leiðinni um heimsmeistaratitilinn. Sigurlaunin eru ekki af verri endanum, gullstytta úr 18 karötum, frítt flug með Katar erlæns og nokkur hundruð dánarbú farandverkamanna sem létu lífið við byggingu hinna glæsilegu og glænýju Katörsku fótboltavalla. Dómgæsla á mótinu verður nokkuð ströng og ekki verður hikað við að nota svokallaða myndbandsdómgæslu. Dómari, var þetta ekki brot? Leikbrot, jafnvel stílbrot? Nei þetta var bara ósköp venjulegt og saklaust mannréttindabrot og því má leikurinn halda áfram. Koma svo!

Olíuauðvald alheim platar
heims á enda loksins ratar
æru margur maður glatar
mitt í sandauðn suðrí Katar

Þess má til gamans geta að íslensk tunga er jafn góð hvort sem hún er töluð, íbitin, léttsöltuð eða reykt. Nammi.

Einar tungulipur.

Tilvitnun dagsins:

Allir: KATAR!!!!

Orðin trúleg

Guðhræddu lesendur.

Í tilefni af allra heilagra messu er ekki úr vegi að bloggarinn Einar Haf sýni sitt allra heilagasta og láti trúhræðslu sína bitna illilega á sóknarbörnum og öðrum lesendum. Þessi bloggfærsla er að mestu endurunnin upp úr lítið lesnum guðspjöllum enda engin ástæða til að láta spjöllin fara til spillis. Ætlast þú svo til að við trúum þessu? Trúlega. Is it trú? Já heldur betur. Bara aðeins meiri trú og þá hefði Jóhanna unnið Júróvísjón og andsetni norski fiðluflipparinn lent í öðru sæti.

Trúmál eru nú sem fyrr afar áberandi í þjóðlífinu. Samkvæmt nýlegri könnun hafa kaupmenn mikla trú á góðri jólavertíð og neytendur standa að sama skapi í þeirri trú að þeir muni gera góð kaup í kristilegum anda. Í bæklingi sem nú hefur verið dreift í flest hús er fagnaðarerindið boðað og það staðhæft að jólin þín byrji í kirkjunni IKEA. Þessari fullyrðingu til stuðnings hafa stjórnendur IKEA látið reisa gríðarstórt og eldfimt geitarlíkneski við verslunina. Munu trúaðir neytendur geta komið þangað öllum stundum og tilbeðið hina mammonsku og gullslegnu geit. Verði trúarhitinn of mikill er hætt við að geitin fuðri upp á verðbólgubálinu en hún yrði reyndar ekki sú fyrsta til að brenna fyrir málstaðinn.

Þeir sem nú sitja við kjarasamningaborðið hafa litla sem enga trú á því að það takist að semja um kaup og kjör í bráð enda eru bæði himinn, haf og Einar Haf á milli aðila þegar kemur að vonum og væntingum um nýja kjarasamninga. Auðvitað má alltaf vonast eftir kraftaverki og því verður næsta útspil samningsaðila að fá Þjóðkirkjuna með sér í lið. Jesús mettaði fimm þúsund manns með fimm brauðum og tveimur fiskum hér í eina tíð og vonir standa til að hann fáist til að endurtaka leikinn þannig að létta megi undir framfærslu hinna tekjulægstu. Þá myndi það koma ÁTVR og þar með ríkissjóði til góða ef tækist að semja við meistarann um að hefja að nýju að breyta vatni í vín, sérstaklega í ljósi boðaðra hækkana á áfengisgjaldi.

Í þeirri veiku von að bjarga glötuðum sálum og til að öðlast guðsblessun þora sóknarprestar Dalvíkur- og Möðruvallaprestakalls ekki öðru en að messa með reglulegu millibili, þar á meðal í Urðakirkju. Sumir vilja meina að það sé messað full oft en aðrir vilja meina að það sé messað alltof sjaldan. Vegna heimsfaraldurs hefur samkvæmt mínu bókhaldi verið messað um það bil árlega á tveggja ára fresti síðustu misseri og svo má deila um hvort það sé of oft eða of sjaldan. Burtséð frá tíðni messuhalds á kirkjan auðvitað ávallt að standa fólki til boða og þangað á fólk að geta leitað bæði í gleði og sorg, á hamingjustundum sem og í erfiðleikum og neyð. Urðakirkja hefði vissulega staðið fólki opin og breitt út kristilegan faðm sinn ef útidyrnar hefðu ekki staðið á sér á ögurstundu. Seinni partinn í október var boðað til messu en þegar opna átti kirkjuna í aðdraganda messunnar stóðu kirkjudyrnar…eða hurðin á sér vegna notkunarleysis og enginn komst inn um dyrnar…eða hurðina. Þegar loks tókst að sækja trúarlegan styrk í bókstafstrú og dyrastafstrú opnaðist kirkjan og varð eigi aftur lokað með góðu. Varð því kirkjan að standa opin þar til viðgerðarmaður kæmi á staðinn enda engin leið að loka dyrunum…eða hurðinni. Þrátt fyrir að kirkjan stæði opin trekkti það ekki að neina kirkjugesti, öfugt við það þegar fasteignasalar auglýsa opin hús og allt fyllist af fólki. Sennilega voru allir erlendis eða í höfuðborginni að kynda undir verðbólgunni í vetrarfríinu.

Trúarþorsta tæpast vilja svala
en tæta þess í stað um höf og lönd.
Á Tenerife þeir bjórinn drekka úr bala
og busla svo á heitri sólarströnd. 

Fyrir umrædda messu í Urðakirkju hafði það spurst út að hringjari dagsins yrði Einar Haf og að hann myndi notast við nýklassískan Nokia hringitón, H-moll. Fyrirfram taldi ég að þessar fregnir (auk hinna illa lokanlegu kirkjudyra….eða hurðar) myndu hafa jákvæð áhrif á mætingu messugesta en því var öfugt farið og hafa sjaldan mætt eins fáir til guðsþjónustu og nú. Aðeins þeir allra skylduræknustu og guðhræddustu mættu. Til messunnar mættu einn prestur, einn organisti, ellefu kórmeðlimir, sex kirkjugestir (þar af einn hringjari) og fimmtíu og átta kirkjuflugur. Allir sungu saman sálm númer 29 og báðu um betri hurð og smurðari lamir.

Mikli Drottinn, dýrð sé þér,
dásemd þína um aldaraðir
hurðin þrútin orðin er
í andakt utandyra glaðir
dyrastaf þinn föllum á
smurðar lamir allir þrá. 

Að lokinni guðsþjónustu var öllum nema kirkjuflugunum boðið inn í kaffi á Urðum og mæltist það vel fyrir hjá öllum nema kirkjuflugunum.

Kór og klerkur gleði ekki leyna
kætast þegar messað er á ný
sálmasöngur mun á raddbönd reyna
rjómi og súkkulaði bjarga því
ef ég væri orðin kirkjufluga
ég kúkað gæti ljósakúplum hjá
og þó ég ei til annars mætti duga
ég andast gæti gluggakistu á.

Hrekkjavökubúningar fræga, fallega og ríka fólksins voru afar fjölbreyttir, nýstárlegir og jafnvel lygilegir þetta árið. Bjarni Ben klæddi sig í jakkaföt af Guðlaugi Þór og Guðlaugur Þór klæddi sig í jakkaföt af Bjarna Ben. Útkoman var vægast sagt sláandi. Forsætisráðherra dulbjó sig sem rithöfund, Einar Haf klæddi sig eins og Gísli á Uppsölum og pabbi ríkislögreglustjóra fór í gervi vopnasafnara. Ótrúlegt….en satt.

Einar ofsa trúar.

Tilvitnun dagsins:

Allir: AMEN!!!

Orðin átaka(n)leg

Rímuðu lesendur.

Í kápur klæðast börnin ung, vott er úti veður. Í myrkri þoku lund er þung, brátt er skaðinn skeður. Nóttin er víst ennþá ung, ég klæði mig í leður. Á safni sá ég siginn pung, á vegg þar hanga reður. Já það er enginn vandi að villast og þá er varla um að villast; Einar Haf er aftur tekinn til við að viða að sér við og úr efniviðnum verður ein allsherjar bloggþvæla. Vakin er athygli á mögulegum athyglisbresti sem hlotist getur af lestri þessarar færslu.

Sláturtíð stendur nú sem hæst en hún tók við af svokallaðri slaufunartíð sem staðið hafði yfir í nokkra mánuði. Sauðfé sem er slátrað og frægir sviðslistamenn, forstjórar og sjónvarpsstjörnur sem er slaufað eiga það sameiginlegt að eiga ekki afturkvæmt, hvorki í þennan heim né annan. Lömbin þagna en kjötætur fagna þegar þær borða lömbin upp til agna. Eins og margoft hefur komið fram hér á bloggsíðu allra landsmanna er það sauðkindinni að þakka að enn þrífst byggð vítt og breitt um landið og raunar standa Íslendingar í stórri þakkarskuld við sauðkindina vegna alls þess fjölmarga sem hún hefur gert til að halda lífinu í þjóðinni gegnum hallæri og hungur fyrri alda. Mikilvægt er nú sem endranær að bæta á forðann í frystikistunum fyrir veturinn og tryggja með því matvælaöryggi sem mikið hefur verið rætt og ritað um. Þá verður enginn svikinn af taðreyktu hangikjöti sem til stendur að galdra fram á gamla mátann. Æi góði besti hættu þessu jarmi og kveiktu í þurru kindalortunum…ekki reykir kjötið sig sjálft er það?

Nokkuð hefur borið á hneykslunargirni í þjóðfélaginu upp á síðkastið og ég er auðvitað verulega hneykslaður vegna þess. Nýlegar mælingar hafa raunar staðfest að hneykslunargirni er orðið þriðja algengasta girnið á markaðnum, næst á eftir nælongirni og nýjungagirni. Fólk er hneykslað á verðhækkunum, veðrinu, sjónvarpsdagskránni, stjórnmálamönnum, gerendum, þolendum, gagnrýnendum, Gísla Marteini, áhrifavöldum, innflytjendum, ferðamönnum, fyllibyttum, vopnaburði, leirburði, áburði og samanburði svo dæmi séu nefnd. Enginn veit hver hneykslast næst og hvers vegna en mjög líklega verður það einhver á ársþingi Alþýðusambands Íslands. Þar er hver höndin uppi á móti annarri og flestir komnir í hár saman áður en farið er að tala um kjaramál. Innan verkalýðshreyfingarinnar berjast tvær aðskildar fylkingar um að komast til metorða; annars vegar fylking hneykslaðra og hins vegar fylking móðgaðra. Spennandi verður að sjá hver ber sigur úr býtum en eitt er víst og það er að mikil ó-eining mun koma við sögu.

Ef allir sem hlut eiga að máli sleppa lifandi frá ársþingi ASÍ liggur fyrir að setjast við samningaborðið og hefja kjarasamningaviðræður. Engar líkur eru taldar á því fyrirfram að það gangi vel enda ber afar mikið í milli aðila nú þegar. Kröfur verkalýðsins snúast sem fyrr um betri bíla, yngri konur, eldra viskí og meiri pening en atvinnurekendur telja sig með engu móti geta gengið að þeim kröfum. Mögulega verði hægt að semja um betri konur, yngra viskí og eldri pening en það sé þó alls ekkert víst enda eru verðbólguhorfur ískyggilegar og ástand heimsmála voveiflegt. Ef svo ólíklega vill til að það fari ekki allt til andskotans innan fárra vikna mun nýr kjarasamningur klárlega bæta geð og létta lund. Nýr barasamningur mun bæta drykkjumenninguna og þá gæti nýr hjarasamningur opnað dyrnar fyrir einhverjum. Ef allt klikkar verður að vera til vonar og varasamningur.

Snjómokstur er hafinn í Svarfaðardal og það áður en veturinn er formlega genginn í garð. Þetta verður að teljast verulega svekkjandi og jafnvel skúffandi, enda nákvæmlega engin eftirspurn eftir þeim snjó sem nú hefur látið sjá sig. Vegna rauðrar veðurviðvörunar sem þulin var upp í sífellu allan laugardaginn af andstuttum, uppveðruðum útvarpsfréttaþulum og sísveittum, óðamála óveðurskrákum á sjónvarpsskjánum puðuðu og púluðu bændur og vinnuhjú við það langt fram á kvöld að koma búpeningi í skjól, sumarblómum í var og tækjum og tólum undan ísingu og frosti. Það tókst að mestu en sem betur fer var veðrið hér um slóðir ekki alveg eins slæmt og það hefði eflaust geta verið. Veður eða óveður, gott eða vont veður og veður yfir höfuð eða bara ekkert veður. Það er auðvitað best þegar það er ekkert veður og ekkert sem veður yfir mann. Vonandi verður ekkert veður á næstunni en það er algjörlega undir verðandi kjarasamningi veðurfræðinga og Veðurstofunni sjálfri komið. Veður Einar reyk? Já vitaskuld.

Ég hef býsna gaman af því að tefla svona annað slagið og meðal annars spreyti ég mig gegn öðrum skákmönnum á veraldarvefnum þegar sá gállinn er á mér. Árangurinn lætur oft á sér standa og má spyrja sig hvernig geti staðið á því. Mögulega er það eitthvað tengt því að ég reiði nú ekki beint vitið í þverpokum en það getur samt ekki verið eina ástæðan. Ég hef kannað málið og komist að því að lykillinn að árangri býr innra með hverjum góðum skákmanni. Innra? Já, nánar til tekið felst árangurinn í unaðstækjum ástarlífsins sem komið er fyrir innra með fremstu skákmönnum heims. Þar lætur góður nettengdur vinur tækin titra og skjálfa þannig að þjóhnapparnir hristast og biskupinn fer á Einar sex á hárréttum tímapunkti. Skák og mát. Hinn bandaríski Niemann þykir afar sterkur skákmaður þegar kemur að nettengdum unaðstækjum og endatafli og þá einkum og sér í lagi svokölluðu afturendatafli. Þar stenst honum enginn snúning…þó vissulega sé smá skítalykt af þessu máli.

Vetur kaldur kom í gær
með kafaldsbyl og renningi.
Ég tefli oft á hættur tvær
og titra svo af spenningi.

Samkvæmt nýjustu fréttum hefur fylking hneykslaðra dregið framboð sitt til baka á ársþingi ASÍ og gengið út af þinginu í kjölfar þess að hafa móðgast heiftarlega sökum framferðis fylkingar móðgaðra á þessu sama þingi. Sérfræðingum ber ekki saman um hversu lengi þessi tiltekni skrípaleikur getur haldið áfram en það er alveg ljóst að einhverjir munu hneykslast meira og einhverjir munu móðgast meira. Skítt með kjarasamningana. Við fylgjumst áfram hneyksluð með gangi mála….og kannski pínu móðguð líka.

Einar átakanlegur í aftakaveðri.

Tilvitnun dagsins:

Allir: Hneyksli!!!

Orðalabbilabb

Glensuðu lesendur.

Já nú þegar spaugið er í mikilli uppsveiflu og sprellvísitalan í hæstu hæðum er ekki úr vegi að taka þátt í gríninu og gantast svolítið með fjallhressum lesendum sem taka gríninu auðvitað vel, hlæja dátt og brosa í kampinn. Hvað er það sem er svona fyndið? Bara allt saman. Hótanir um kjarnorkustyrjöld, hryðjuverkaógn, vopnaframleiðsla, dópsmygl, verðbólgan, Flokkur fólksins og fyrsta haustlægðin. Það er bara ekki annað hægt en að glotta við tönn. Ef þú ert ekki viss, þá er kominn tími á fliss.

Elísabet Englandsdrottning lést nýverið í hárri elli og þjóðarsorg var lýst yfir í Bretlandi. Þetta gerðist í beinu framhaldi af heimsókn minni og fleiri knattspyrnukempa til Bretlandseyja helgina fyrir göngur en þó mun ekki vera neitt augljóst orsakasamhengi þarna á milli. Helgarferðin til Portsmouth gekk nokkuð vel, þar sem bæði var spilaður fótbolti, áhorfður fótbolti og drukkinn fótbolti….já eða eitthvað annað sem var þægilegra að koma niður. Ég gæti vel hugsað mér að prófa þetta aftur eftir svona 4-5 ár en það er um það bil sá tími sem líður á milli utanlandsferða hjá mér. Síðan ég kom heim hef ég reynt að kolefnisjafna mig og sigrast á sótskömminni. Ég sleppti því til dæmis að nota bílinn minn í fleiri fleiri daga heldur ýmist hafði ég hægt um mig innan girðingar eða gekk upp um fjöll og inn til dala í leit að fé – eins og gjaldkera sæmir.

Já göngur og réttir fóru fram í Svarfaðardal nýverið. Þegar ég verð orðinn stór fæ ég mér kannski riðufríar kindur en sem stendur er ég ekki fjáreigandi, bara aðdáandi. Göngurnar gengu ágætlega alveg þangað til að þokan gráa kom til skjalanna og setti allt úr skorðum. Skyggnið fór úr því að vera ágætt og yfir í að vera ekki neitt en skyggnið á derhúfunni hélst óbreytt. Á föstudeginum var gengið í fjallinu hér fyrir ofan og á laugardeginum gekk ég í Teignum. Þrátt fyrir þoku var þar mikill glaumur og gleði og lét ég reyna á raddböndin, ýmist þegar ég þurfti að hóa á eftir kindum eða þegar ég söng með vaskri sveit gangnamanna. Á sunnudeginum var svo komið að því að halda fyrsta gangnaballið á Höfðanum í þrjú ár. Undirbúningur ballsins var samkvæmt gamalli forskrift sem seint hefur klikkað. Undirbúningstékklisti velunnara og ballhaldara Höfða er langur þegar kemur að þessum hápunkti gangnahelgarinnar.

  • Sækja um tækifærisleyfi.
  • Borga fyrir tækifærisleyfi.
  • Fara í leyfi til að hafa tíma til að græja leyfi.
  • Ráða dyraverði, sem eru reyndar sjálfráða….sjálfráðnir.
  • Ráða hljómsveit.
  • Ráða ráðum sínum.
  • Ráða sér ekki fyrir kæti.
  • Fá gamlan Hilux sem miðasölubíl og koma bílnum fram á Höfða.
  • Taka sundur borðin á Höfða og pakka ofan í skúffu.
  • Raða stólunum á Höfða inn á baðherbergi eftir Tetris aðferðafræði.
  • Bæta á klósettpappír og handþurrkur.
  • Forða ónýta tunnugrillinu af Höfða heim í skúr þannig að enginn grillist á ballinu.
  • Koma útrunna namminu sem Umf. Þorsteinn Svörfuður á frá Rimum og fram á Höfða, ef ske kynni að einhver gæti selt það í sjoppunni á ballinu.
  • Setja djammflekana fyrir gluggana á Höfða og verða flekaður.
  • Útvega skiptimynt.
  • Bleyta upp í Höfðastimplinum þannig að hægt sé að stimpla fólk inn á ballið og losna við stimpilgjöld.

Nánast allt gekk upp hvað varðar ballið. Um 200 manns mættu og dönsuðu við tjúttaða tóna Landabandsins. Það eina neikvæða kom í ljós morguninn eftir en það var óhittni notenda níkótínpúða. Þeim virðist fyrirmunað að hitta ruslatunnuna. Ég vil nota tækifærið og þakka öllum fyrir skemmtunina, sjáumst á næsta balli.

Já talandi um skemmtun. Helgina eftir fyrstu göngur var farið í aðrar göngur. Allt aðrar göngur. Aftur var blíðskaparveður og gott skyggni á föstudeginum og aftur var kafþoka og skyggnislaust á laugardeginum. Freistandi hefði verið að halda annað gangnaball enda aðrar göngur en úr því varð ekki. Stutt er þó í að ballþyrstir komist á stóðréttarballið um næstu mánaðarmót. Hversu lengi stóð réttarballið? Æi ég man það ekki alveg.

Ég hef ekki aðeins nýtt haustleyfið til að skreppa til Portsmouth og fara í göngur. Ég hef líka stundað skítmokstur af ákafa, ásamt ýmsu fleiru sem þarf að gera á haustin til sveita. Skítmoksturinn er ýmist framkvæmdur með stórri dráttarvél eða skóflu og skítnum dreift á tún með gamaldags snigildreifara eða taðdreifara. Ég hef passað mig á því að dreifa engum skít nálægt Urðakirkju, enda væri þá um að ræða svokallaðan hólí sjitt og það er eitthvað fyrir lengra komna.

Hér næst átti að koma yfirgengilega fyndin umfjöllun um verðbólguna og fimmaurabrandari í lokin en vegna verðbólgunnar brann fimmaurinn upp meðan ég var að hugsa málið. Leitast verður við að hafa næsta verðbólgugrín verðtryggt.

Vopn og verjur, stormar, stríð
strekkingsvindur, bleytuhríð
á meðan heimsins hrylling lít
í hægðum mínum moka skít. 

Í næsta þætti af sápuóperunni Flokkur fól(k)sins á Akureyri; efstu konur móðgast og fatta ekki dónabrandarana, efsti maður á lista sendir þeim tölvupóst og segir þær vera geggjaðar, enda menntaður geðlæknir. Fyrrverandi kosningastjóri býður fram klofið og uppsker hlátur. Leggur hann eitthvað meira á konur í rúminu en bara hendurnar? Við fylgjumst spennt með í næstu viku.

Einar fram- og afturgenginn.

Tilvitnun dagsins:

Allir: GAMAN!!!

Orð um veginn, daginn og veginn

Grasgrænu lesendur.

Einhver verður að taka það á sig að rjúfa hina þrúgandi þögn sem ríkt hefur um nokkurt skeið hér í griðlandi gáfumannanna, sem í daglegu tali kallast bloggsíða Einars Haf. Griðland gáfumannanna? Þú meinar friðland furðufuglanna. Já ef til vill. Ætli það fari ekki best á því að höfuðpaurinn í málinu, ég sjálfur, taki af skarið, brjóti ísinn og ríði á vaðið – sem endar auðvitað með því að maður sekkur í svaðið. Sjón er sögu ríkari en að vísu náðist hvorki í Sjón né Sögu til að fá þetta staðfest. Það gengur bara betur næst.

Mín helsta skemmtun það sem af er sumri hefur falist í því fyrst og fremst að lúslesa veðurspánna í örvæntingarfullri leit að þurrki. Býsna djúpt hefur verið á þurrkinum í spánni fyrir Svarfaðardal og nágrenni og á löngum köflum hefur viðrað afar illa til heyskapar, bæði samkvæmt spánni og í raunveruleikanum. Engu máli hefur skipt þó maður skipti yfir á norsku spánna, Bliku eða Belging. Ævinlega hafa rigningarskýin náð að lauma sér inn á Tröllaskagann með tilheyrandi leiðindum og vosbúð. Á tímabili var ég hættur að spá í spánni og byrjaður að spá í kindagarnir, músaholur, bolla, kvenfólk og annað sem menn hafa spáð í í gegnum tíðina – en allt kom fyrir ekki. Loks nú í lok ágúst náði að haldast þurrt í nokkra daga samfleytt bæði í spánni og í raunveruleikanum en engar áhyggjur, svo fór að rigna aftur. Þessi endalausa rigning, skýrir hún hvers vegna ég er svona blautur á bak við bæði eyrun? Nei, það er reyndar út af öðru.

Verðbólgan er nú í hæstu hæðum og sér ekki fyrir endann á því ástandi. Vísitölur hækka, lánin stækka og seðlabúntin lækka. Rímorðum tekur að fækka en þessa umfjöllun hefði trúlega mátt smækka. Flest allir kjarasamningar losna nú á næstu mánuðum og biðla yfirvöld því til verkalýðshreyfingarinnar um að halda aftur af sér þegar farið verður fram á frekari launahækkanir, frekari fjölgun orlofsdaga og frekari styttingu vinnuvikunnar. Hvað ætlar svo verkalýðshreyfingin að gera? Nú auðvitað að vera frekari. Frekari launahækkanir? Nei bara frekari almennt.

Allt útlit er nú fyrir að göngur og réttir geti farið fram án nándarreglna og fjöldatakmarkanna, í fyrsta sinn í þrjú ár. Það verður gaman að geta óhikað knúsað bæði gangnamenn og eins lambfé án þess að brjóta sóttvarnarlög og fjárlög en auðvitað er vissara að spritta sig vel að innan og utan áður en það er gert. Velunnarar Höfðans hafa í hyggju að standa fyrir hefðbundnum réttardansleik í fyrsta sinn í þrjú ár og má fastlega gera ráð fyrir stuði og stemmningu. Með hefðbundnum réttardansleik er auðvitað átt við þá Sissa og Berg í dyrunum, hljómsveit sem kann að spila flottan jakka og stuðlagasyrpu sem inniheldur One Way Ticket, fleka fyrir öllum gluggum og rómantíska stemmningu í hvamminum sunnan við Höfða. Ekki er vitað hvort Einar Haf rifji upp gamla takta og verði með sjoppu á staðnum en þó er vitað að einhvern veginn verður að koma út öllu sælgætinu sem hefur verið í birgðum hjá ungmennafélaginu Þorsteini Svörfuði frá því fyrir covid.

Talandi um ungmennafélagið Þorstein Svörfuð. Nýverið hélt hið glæsta félag upp á 100 ára afmæli sitt með sveru kaffihlaðborði kvenfélagsins Tilraunar og fræðsluerindum í félagsheimilinu Rimum. Afmælishófið þótti takast vel, enda hafði gjaldkeri félagsins sig lítt í frammi aldrei þessu vant. Fastlega má reikna með því að yfirvofandi útgáfa afmælisrits félagsins komi til með að trompa alla aðra hérlenda útgáfu fyrir jólin og skjóta jafnvel þeim Yrsu og Arnaldi ref fyrir rass. Þarna er ég að vísu bara að horfa á Svarfdælska efnahagssvæðið.

Talandi um ungmennafélög. Áður en kemur að göngum og réttum hef ég í hyggju að bregða undir mig betri ferðatöskunni og skreppa í helgarferð til Bretlandseyja með ungmennafélaginu Óþokka. Algjörlega stjörnugalið uppátæki og óábyrg kolefnissporsaukandi hegðun í meira lagi og gengst ég við þeirri gagnrýni. Ég mun þó ekki segja af mér sem siðapostuli vegna þessa – en mögulega stíg ég til hliðar og vinn í mínum málum. Reiknað er með menningarlegri áfengis-, íþrótta- og fræðsluferð, íþróttalegri menningar-, fræðslu- og áfengisferð eða áfengri fræðslu-, menningar- og íþróttaferð. Býsna langt er nú liðið frá því ég fór síðast til útlanda og þarf ég því að afla mér upplýsinga um það hvernig maður fær hinn svokallaða smáhrifavaldaafslátt af flugfargjöldum sem mér skilst að sé viðhafður þegar samfélagsmiðlastjörnur ferðast hræbillega vítt og breitt um heiminn #samstarf. Komist ég heill og lifandi heim aftur eftir helgina mun ég að öllum líkindum greina frá því hér og segja satt og rétt frá öllu sem gerðist.

Vegagerðin hefur nú loks ákveðið að ræsa hefilinn og skipta út holum og stórgrýti á leðjuvegunum fram í Svarfaðardal og Skíðadal. Í staðinn er sett svokölluð möl á vegina, eitthvað sem hefur ekki tíðkast í fjölda ára. Hvort hin nýtilkomna möl muni ná að tolla eitthvað á vegunum verður tíminn og rigningin að leiða í ljós. Akstursaðstæður hafa verið gríðarlega krefjandi á vegunum í allt sumar enda löngu orðinn ógjörningur að sneiða hjá dýpstu holunum. Svo rammt hefur kveðið að þessu að fólki var ráðið frá því að keyra um veginn með lausamuni á borð við hárkollur og falskar tennur, enda engar líkur á að það sem ekki var fast fyrir gæti tollað á sínum stað eftir eina góða ökuferð um dalbotnana. Sú mjólk sem mjólkurbílarnir hafa sótt hefur öll verið orðin að mjólkurhristingi þegar komið var á malbikið en sem betur fer er lítraverð á mjólkurhristingi nánast það sama og á hefðbundinni nýmjólk og því ekkert fjárhagslegt tjón sem hlaust af þessu.

Að endingu hlýtur að lygna
og úr loftinu hætta að rigna...
á túni sást syndandi hrygna
og svanur í garðinum flaut. 
Hver á er nú straumhörð sem Signa
og þakrennur þenjast og svigna
ég lautina lít út úr migna
og líð svo í aldanna skaut. 

Til stóð að sýna frá því í beinni útsendingu hér á bloggsíðunni þegar Einar Haf myndi kolefnisjafna ferð sína til Bretlands með því að gróðursetja birki, víði eða ösp. Því miður náðist hvorki í Birki, Víði né Ösp þegar til átti að taka. Ég prófaði að heyra í Reyni, kunningja mínum en hann sagðist ekki vera til í kolefnisjöfnun og gróðursetningu enda væri nú þegar búið að bólusetja, kyrrsetja, skuldsetja og jaðarsetja hann og svo stæði til að jarðsetja hann á næstunni. Það gengur trúlega ekkert betur næst en það má alltaf vona.

Einar veginn.

Tilvitnun dagsins:

Allir: HOLA!

Orðin blaut, rök, þvöl, vot og útvötnuð

Ótrúlegu lesendur.

Já ég bara hreinlega trúi þessu ekki. Detta mér nú allar dauðar lýs úr höfði. Er ekki Einar Okkar Haf mættur aftur, risinn upp úr öskustónni og alls ekki í rónni þó hann sé róni. Betri er auð bloggfærsla en illa skrifuð. Þessa speki virðir Einar bloggari Haf að vettugi og veður áfram þrátt fyrir vott veður. Eins og þið sjáið þá veður á mér. Og þá…veður.

Hugleiðingar veðurfræðings. Veðurhorfur næsta sólarhring eru keimlíkar því sem áður hefur verið, enda ekkert nýtt undir sólinni og skýjunum. Norðvestsuðaustlæg eða jafnvel breytileg átt, lágdautt eða gráð, stinningskaldi á Vestfjörðum, stinningur á Viagranesi en annars rólegheit. Skýjað með köflum en ekki sköflum, skin – mögulega yfirskin – og skúraleiðingar. Bíddu, voru þetta skúraleiðingar veðurfræðings? Nei, bara hugleiðingar. Hiti óverulegur en sviti vart mælanlegur. Svipaðar horfur á morgun. Blaut verslunarmannahelgi í veðurkortunum, yfirdráttur á kreditkortunum og þynnka í innsveitum.

Nú er fyrirhuguð hækkun eftirlaunaaldurs heilbrigðisstarfsfólks hjá hinu opinbera. Stjórnvöld hafa upp á síðkastið rekið sig illilega á það að heilbrigðisstarfsfólk hefur elst mun meira og hraðar en aðrar starfstéttir síðustu ár vegna gríðarlegs álags af völdum COVID-19 faraldursins. Eina leiðin til að bregðast við þessu sé að hækka eftirlaunaaldurinn upp í 75 ár en þá verður jafnframt reynt að hægja á öldrun viðkomandi starfsmanna með ýmsum hætti. Það er mat yfirvalda að fólk geti unnið mun lengur en áður vegna þess hversu gott heilbrigðiskerfið er. Ástæðan fyrir því hversu gott heilbrigðiskerfið er er auðvitað sú að fólk getur unnið í kerfinu fram til 75 ára aldurs. Já ég skil….ekki alveg.

Tíðarfar og lundarfar fara nokkuð oft saman til sveita. Ef það rignir úti rignir einnig í sálinni en skíni sól í heiði setur maður upp sólskinsbros og gleymir allri sorg og sút. Veðurlag og geðslag hafa verið afar sveiflukennd í Svarfaðardal það sem af er sumri en að meðaltali er þurrt annan hvern dag og rigning annan hvern dag. Einar Haf er að meðaltali þurr á manninn þriðja hvern dag en rakur hina tvo dagana. Kemur núll á óvart en það er önnur saga. Heyskapur, gleðskapur og glannaskapur hafa gengið afar brösuglega og þá lagðist galgopaskapur af í vor og hefur ekki verið endurvakinn. Rúllufjöldi er umtalsvert meiri en í fyrra en gæðin eiga eftir að koma að fullu í ljós. Sömu sögu má segja um bloggarann Einar Haf, magnið er töluvert en gæðin eiga enn eftir að koma í ljós.

Talandi um tíðarfar. Gríðarleg hitabylgja hefur gengið yfir Evrópu upp á síðkastið og hefur ýmsum orðið ískyggilega heitt í hamsi. Margir kenna loftslagsbreytingum af mannavöldum um ástandið en mig grunar nú að ástæða hitans sé óþekkt. Ha, óþekkt? Já, fólk er svo óþekkt nú til dags, sjálfumglatt og úr takti við raunveruleikann og þar af leiðandi er allt á leið til helvítis. Já svoleiðis. Þegar allt er á leið til helvítis fylgir því sjálfkrafa meiri hiti – enda mun vera frekar hlýtt í neðra og þar um slóðir. Aftur á móti er kalt á toppnum og því ættu jarðarbúar að íhuga það að hegða sér betur þannig að leiðin liggi framvegis upp en ekki niður. Rosalega eru þetta djúpar pælingar. Sjálfur brenni ég bensíni og hita með því andrúmsloftið í kristilegum tilgangi þar sem ég slæ kirkjulóðina og kirkjugarðana í gríð og erg, guðhræddari en nokkru sinni fyrr. Eitthvað í þessu dæmi gengur ekki upp en það verður bara að hafa það.

Gríðarlegur fjöldi ferðamanna ferðast nú um landið en ferðamenn eru einmitt auðþekktir á því að þeir ferðast mikið, íklæddir príma loftjökkum og 66 gráður norður húfum. Lítið er um laus sæti í flugvélum þessa dagana enda myndi ég ekki vilja vera um borð í flugvél þar sem sætin eru laus. Allt útlit er fyrir að gjaldeyrir ferðamanna, sauðkindin, sjávarútvegurinn og bloggsíða Einars Haf muni halda íslensku þjóðinni á floti gegnum ólgusjó og yfirvofandi alheimskrísu. Ekkert nýtt í þeim efnum.

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin hefur gefið það út að apabólan sé hið versta mál og raunar er apabólan nú skilgreind sem alþjóðleg heilbrigðisvá. Vá segi ég nú bara. Þegar ég frétti af þessu með apabóluna varð ég eins og þorskur á þurru landi en vonandi slepp ég þó við fuglaflensu, kúariðu, hundaæði, gullfiskaminni, spóalappir, fílapensla, mávahlátur, kattaþvott, hrossabrest, hvalalosta, krummafót og aðra alvarlega og hræðilega sjúkdóma úr dýraríkinu. Ég á fullt í fangi með að vera krónískt kindarlegur og það er ekki á það ástand bætandi.  

Það er ekki nóg með að spáð sé apabólu, 12% verðbólgu, hommaskorti og stýrivaxtahækkun heldur er nú einnig spáð rigningu um verslunarmannahelgina. Gildir þá einu hvort um ræðir Þjórhátíð í Eyjum, Eina mellu á Akureyri eða Inníkúkinn í Reykjavík. Hvern á annars að berja á Berjadögum í Ólafsfirði? Og verður eitthvað um að vera í Ölskyldu- og búsdýragarðinum? Ekki hugmynd. Því miður náðist ekki í vakthafandi veðurfræðing á Veðurstofu Íslands þar sem rignt hafði upp í nefið á honum. Við bíðum uppstyttu.

Leika, syngja, dansa, drekka
drífa sig í ferðalag -
eða sitja einn með ekka
og endurtaka þennan brag. 

Að endingu. Hafið varann á ykkur og gætið þess vel að verslast ekki upp um helgina. Ljóst er að uppselt verður á einhverjar útihátíðir og þá verður selt upp á fleiri hátíðum. Komum heil heim en ekki veil, betri er sæla en æla….og veðurguðirnir skæla. Þvílík þvæla.

Einar holdvotur og tárvotur.

Tilvitnun dagsins:

Allir: VERSLA!!

Orðin háðuglega hátíðleg

Góðir landsmenn.

Svona í tilefni af því að það er kominn hæ hó og jibbí jei og jibbí jei 17. júní og ástandið í heiminum er orðið alveg hreint með ólíkindum tvísýnt og ískyggilegt sá ég mig knúinn til að klæðast skautbúningnum, draga fram sparistellið, þeyta rjóma, þreyta lesendur og henda í eitt hátíðarávarp. Tilgangurinn er ekki sá að blása áheyrendum baráttuanda í brjóst heldur miklu frekar að auka enn frekar á óvissuna og angistina sem ríkir þessa dagana og mun það vafalítið reynast leikur einn. Þetta er sama ávarp og fjallkonan flutti á Austurvelli, aðeins uppröðun orða og örfáum efnisatriðum hefur verið breytt. Varla þarf að taka það fram að helsta umfjöllunarefni ávarpsins er ástandið eins og það er í dag.

Stimamjúku landsmenn. Hér í upphafi er rétt að nefna að sökum pólitískra hrossakaupa hefur bloggsíða Einars Haf nú verið færð úr verndarflokki og yfir í biðflokk en einhver bið verður þó á því að hún komist í nýtingarflokk og nýtist þannig til einhvers.

Krúttlegu landsmenn. Það er kunnara en frá þurfi að segja að þessa dagana er allt á lóðbeinni leið til andskotans. Hagkerfi heimsins er á heljarþröm, hungursneið og harðindi, hríðskot og hryðjur, hernaðarbrölt og heill hellingur af hrikalegum, hræðilegum og hreinlega hrottalegum hörmungum handan við hornið. Hvernig veit ég þetta? Ég horfði á fréttirnar og þar kom þetta allt fram. Annað hvort það eða þá hitt að ég fletti í gegnum h-kaflann í orðabókinni og sá öll þessi herfilegu, hvimleiðu og háskalegu orð hringsnúast fyrir augunum á mér. Hádramatískt, alveg eins og ástandið er í dag.

Dúllubossalegu landsmenn. Mikið er hamrað á grænum orkuskiptum þessa dagana. Olíuverð hækkar dag frá degi og er bensínlítrinn nú loksins kominn yfir 350 krónur. Mikið var. Þetta leiðir ef til vill af sér að hin grænu orkuskipti verða enn hraðari en reiknað hafði verið með enda flestir olíukaupendur orðnir grænir í framan og komnir með grænar bólur. Hvar á svo að fá græna rafmagnið í grænu orkuskiptin þegar hvorki má virkja meira né menga meira? Hugsanlega mætti virkja orðaflauminn á bloggsíðu Einars Haf án óafturkræfra áhrifa á viðkvæma náttúru en það kæmu þó aldrei mörg megavött út úr því – bara eitthvað mega bull. Við verðum bara að vona að rafmagnið haldi áfram að koma úr innstungunni eins og hingað til. Góði Guð, gefðu okkur stuð. Mikið stuð, alveg eins og ástandið er í dag.

Æðisgengnu landsmenn. Skemmtanalífið er nú komið í fullan gang að nýju, enda er mjög gott ráð á tímum sem þessum að dansa til að gleyma en gleyma ekki að dansa. Um síðustu helgi fór fram 300 manna/kvenna/kvára sveitaball í félagsheimilinu Rimum í Svarfaðardal. Ég mætti auðvitað og tók þátt í hinni sveittu stemmningu og sveitastemmningu sem var á staðnum. Stemmningin var verulega sveitt á köflum enda hefur það verið viðvarandi vandamál í mörg ár að loftræstingin í íþróttasalnum slekkur alltaf á sér eftir um það bil 20 mínútur og þarf þá að ræsa hana að nýju. Þónokkuð var um aðkomumenn/aðkomukonur/aðkomukvára á ballinu en þrátt fyrir það fór allt vel fram enda ballgestir með það eina markmið að skemmta sér hið besta, hugfangnir af hinni ægifögru náttúru og landslagi Svarfaðardals. Skipti þá engu þó svo að þarna um kvöldið hefði verið svartaþoka og súld, fegurðin skín alltaf í gegn. Ekki nóg með að ballið færi vel fram heldur fór ég sjálfur vel fram og fram úr mér en mér fer hins vegar lítið fram í dansinum svo ég taki það nú fram. Fyrirgefðu Einar en er þessi kynhlutlausa frásögn ekki komin algjörlega út um þúfur? Jú auðvitað. Maður/kona/kvár getur nú ruglast í ríminu. Algjör vitleysa, alveg eins og ástandið er í dag.

Bjútíbombulegu landsmenn. Apabólan hefur nú loksins hafið innreið sína í íslenskt þjóðfélag. Innreið? Eða verður það kannski útreið? Já, ekki vera svona reið út af þessu. Hverjir eiga það mest á hættu að smitast af apabólunni? Samkvæmt sérfræðingum munu það vera þeir sem eru í afar miklu og nánu samneyti við aðra og þá allra helst þeir sem stunda villt kynlíf eða svokallað kynsvall með ókunnugum. Villt kynlíf? Já, spurning hvort þú vilt kynlíf eða ekki. Ég skil. Ein leið til að draga úr líkum á apabólusmiti er að stunda ekki kynsvall með ókunnugum. Það er því góð leið og vænleg til árangurs að kynna sig fyrst og jafnvel fræðast um áhugamál og persónulega hagi viðkomandi áður en kynsvallið hefst. Þá er að minnsta kosti ekki í gangi kynsvall með ókunnugum heldur kunnugum. Það er eins gott að hafa öryggið á oddinum þegar kemur að villtu kynsvalli. Frekar óspennandi, alveg eins og ástandið er í dag.

Gullmolalegu lesendur. Talandi um hópreið. Hestamannafélagið Hringur heldur upp á 60 ára afmæli sitt þessa stundina. Ekki nóg með það. Ungmennafélagið Þorsteinn Svörfuður er nýorðið 100 ára og allar líkur eru á því að einhvern tímann verði mögulega kannski haldið upp á það afmæli líka. Líkt og hjá öðrum sem ná 100 ára aldri er ekki hægt að tala um að virknin sé mikil en vonandi tekst þó að gefa út afmælisrit og borða afmælisköku áður en hinn aldni risi sofnar endanlega svefninum langa. Ef allt endar illa ætti það ekki að þurfa að koma neinum á óvart. Vonbrigði, alveg eins og ástandið er í dag.

Gyðjulegu lesendur. Um leið og apabólan gerði vart við sig varð kórónuveiran öfundsjúk og hóf nýja stórsókn inn í íslenskt þjóðfélag. Já, það var einmitt það sem við þurftum. Meira vesen, meira álag á spítalann og meiri grímuskylda. Líklega þarf að hefja sprautunálarnar á loft á nýjan leik og fylla æðarnar af Phizer ef ekki á mjög illa að fara. Sem betur fer hefur myndast ágætist hjarðónæmi í samfélaginu en því miður er ónæmið ekki gegn COVID-19 eins og haldið var í fyrstu heldur gegn slæmum fréttum og válegum tíðindum. Ónæmið nær meðal annars til fréttaflutnings af nýjustu COVID-19 tölum og fjölda innlagðra á spítala og þar af leiðandi er engin leið að vita hversu slæmt ástandið er í raun og veru – við erum ónæm fyrir því að heyra um það. Skelfilegt, alveg eins og ástandið er í dag.

Brjálæðislega þokkafullu landsmenn. Grasið sprettur nú sem aldrei fyrr öfugt við það sem gerðist í fyrra þegar grasið spratt aldrei hvorki fyrr né síðar. Bændur hafa margir hverjir sáð fræjum í frjóan svörð og mun ýmislegt nytsamlegt spretta þar upp á borð við rýrgresi, repju. fóðurkál, korn, hafra og bygg. Sjálfur var ég að vinna með rýrgresi og repju en til viðbótar sáði ég fræjum efasemdar en ég efast reyndar um að það komi til með að gefa góða raun þegar haustar. Þetta vorið hefur nægur raki verið í jörðu og raki bænda haldist innan vikmarka enn sem komið er. Þar af leiðandi hefur hinn rándýri áburður virkað vel og lítur víðast hvar vel út með heyskap – ef við gefum okkur það að einhvern tímann komi góð þurrkatíð þannig að hið rándýra hey náist pakkað inn í hið rándýra plast án rigningarvatns. Horfur í landbúnaði eru almennt voveiflegar en lengi getur vont versnað eins og þetta hátíðarávarp undirstrikar svo glöggt. Grátbroslegt, alveg eins og ástandið er í dag.

Ísland er dúllulegt, dásamlegt land
dýrð er að lít'upp í vorloftið ljóst
þó þjóðlífið allt saman sigli í strand
ég stend hér og þukla mín fjallkonubrjóst.

Ísland er sjúklega skemmtilegt land
með skrúðmikla fánu um engi og laut
þó þjóðlífið allt saman sigli í strand
ég stend hér og star'í mitt fjallkonuskaut. 

Ísland er æðislegt, örlítið land
lokað frá umheimi lengst út í sjó
þó þjóðlífið allt saman sigli í strand
ég stend hér og strýk mér um fjallkonuþjó. 

Eflaust hefði farið betur á því að fá einhvern instagramóðan fylliefniafylltan áhrifavald til að færa landsmönnum þetta hátíðarávarp en því miður voru þeir áhrifavaldar sem haft var samband við annað hvort uppteknir í boðsferðum erlendis eða reyndust ólæsir þegar til kastanna kom. Það gengur vonandi bara betur næst.

Góðar stundir.

Svarfaðardal, 17. júní 2022.

Hin Svarfdælska fjallkona (sem kemur alltaf af fjöllum).

Tilvitnun dagsins:

Allir: ÁSTAND!