Orð af jólaundirbúningi
Góðir lesendur.
Nú þegar aðventan er í algleymingi, jólablað Norðurslóðar komið út og hátíðin helga byrjuð að banka á dyrnar er ekki úr vegi að líta ögn nánar á jólaundirbúninginn.
Jólastressið
Já, jólin nálgast enn og aftur. Samt er svo stutt síðan síðast. Svona gengur tíminn, já og lífið hring eftir hring, ár eftir ár, öld eftir öld og mann fram af manni. Það gengur fram af manni fyrir rest. Hvernig er aðventan svona í nútímanum? Kertaljós, friður og rólegheit í núvitund? Eða kannski jólastressaðir og yfirspenntir neytendur sem eltast við að ná í skottið á sjálfum sér, bestu tilboðunum og tímanum sjálfum? Hálft í hvoru, bæði og en samt ekki. Það er erfitt að ætla sér að vera heima í rólegheitum við kertaljós og klæðin rauð á aðventunni en þurfa á sama tíma að vera í einum spreng við að bjarga sér frá þeim hörmulegu örlögum að brenna inni á tíma og klikka á að hafa allt klárt fyrir jólin. Hafið þið heyrt um manninn sem hafði ekki allt klárt fyrir jólin? Ekki ég heldur. Best að fara að þurrka af efri skápunum og þerra svitann af efri vörinni. Haldið þið bara áfram með þessa hugvekju á meðan.
Jólafötin
Tiltektir í fataskápum landsmanna standa yfir þessa dagana. Sumir eru með harðan skráp. Ég er með harðan skáp. Ýmislegt dúkkar þar upp sem ég hafði ekki einu sinni hugmynd um að væri í skápnum. Þá er ekki nema von að spurt sé. Kemst ég í kjólinn fyrir jólin? Eða koma konfektið og kviðspikið í veg fyrir það? Minni mör, meira fjör? Í þrengri bol með lystarstol? Nei ég held það þýði ekkert að stressa sig á þessu. Hér eftir sem hingað til mun ég vinna með einkunnarorðin; í mussuna með hlussuna. Fyrr en síðar ég fæ mér buxur víðar. Munið, ekki vera í stressi út af jóladressi.
Jólagjafir
Þá eru jólafötin afgreidd en ég er hins vegar í pínu vandræðum með jólagjafirnar. Gjafirnar verða auðvitað að vera frumlegar og kærleiksríkar en um leið umhverfisvænar, með lágt sótspor, siðferðislega réttar og helst endurnýttar til að draga úr gengdarlausri sóun. Að þessu sögðu hef ég því ákveðið þetta árið að gefa annað hvort gjafabréf á bloggsíðu Einars Haf, endurunna brandara eða lítið notaða flugmiða, það er að segja ef viðkomandi flugferðir voru ánægjulegar. Ég hugsa að þetta sé alveg jafn góð hugmynd og þegar ég gerðist umhverfisvænn þarna um árið og keypti eingöngu notaða flugelda. Svo komst ég reyndar að því síðar að björgunarsveitirnar bjóða líka upp á gróðursetningu fyrir þá sem vilja ekki skjóta flugeldunum upp. Einhverjir gætu talið heimskulegt og tilgangslaust að gróðursetja flugelda en ég er tilbúinn að gefa þessu séns.
Jólakortin
Árlega hef ég streðað við að skrifa á jólakort og senda vinum og kunningjum hingað og þangað um landið og miðin. Þetta verk hefur reynst erfiðara með hverju árinu sem líður. Það er ekki endilega vegna þess að það sé erfiðara að skrifa á sjálf kortin heldur hitt að Pósturinn gerir allt sem í valdi hans stendur til að leggja stein í götu mína með því að hækka verð og draga úr útburði. Það mætti halda að Pósturinn hafi fengið jólakort frá mér, lesið það og hugsað svo með sér: Nei. Það þarf að vernda almenna borgara fyrir þessum bloggara! Markmið Póstsins á næsta ári er að hætta helst alveg að bera út póst í dreifbýli, enda gríðarlega kostnaðarsamt fyrir Póstinn að bera út póst.
Jólamaturinn
Auðvitað þarf að huga að jólamatnum í tíma. Hér á Urðum hefur þessi undirbúningur staðið yfir frá því í haust, enda þarf bæði að salta, reykja og hengja kjötið….nei ég meina sko, láta kjötið hanga, áður en eldamennska getur hafist. Annars er þetta allt frekar hefðbundið. Léttreyktur hamborgarhryggur á aðfangadagskvöld og lögbundið hangikjöt á jóladag. Síðan er svínahamborgarhangikjöt á öðrum degi jóla. Mögulega verður matseðillinn eitthvað flippaðri um áramótin, litaður af ástandinu í þjóðfélaginu. Maríneruð langlund, ávöxtunarsalat, verðbólgupaté, skelk í kalkúnabringu og útþynnt skuldasúpa í eftirrétt. Ekki? Nei Einar, þetta var of mikið.
Jólaboðskapurinn
Ég ætlaði mér hér næst að fjalla ítarlega um Jesús Krist, fæðingu frelsarans og gullið, reykelsið og myrruna í fjárhúsinu í Betlehem forðum daga. Mér var hins vegar bent á að í dag þyki opinber kristileg umfjöllun orka tvímælis hjá góða fólkinu og þeim sem kenna sig við víðsýnt, tvísýnt, alþjóðlegt, trúsnautt, kynlaust og kynlegt fjölþjóðlegt sammenningarsamfélag. Já af því það er einmitt það sem er vandamálið í dag, of mikið af kristni og Jesú? Ég veit ekki. Meðan ég hugsa málið er best að ég fari út í kirkju og feli mig bak við predikunarstólinn.
Víst um jólin verð ég að virða gamla siði, þrífa, skreyta, skella í bað skrifa á kort og senda það og biðja fyrir friði.
Á meðan þessu fer fram er Jesúbarnið hjalandi í jötunni, áhyggjulaust með geislabaug og gleðibros. Vonandi má það verða þannig áfram um ókomna tíð.
Hátíðarkveðjur
Einar Hafliðason