Orðin jóla í jóla Norðurslóð

Orð af jólaundirbúningi

Góðir lesendur.

Nú þegar aðventan er í algleymingi, jólablað Norðurslóðar komið út og hátíðin helga byrjuð að banka á dyrnar er ekki úr vegi að líta ögn nánar á jólaundirbúninginn.

Jólastressið

Já, jólin nálgast enn og aftur. Samt er svo stutt síðan síðast. Svona gengur tíminn, já og lífið hring eftir hring, ár eftir ár, öld eftir öld og mann fram af manni. Það gengur fram af manni fyrir rest. Hvernig er aðventan svona í nútímanum? Kertaljós, friður og rólegheit í núvitund? Eða kannski jólastressaðir og yfirspenntir neytendur sem eltast við að ná í skottið á sjálfum sér, bestu tilboðunum og tímanum sjálfum? Hálft í hvoru, bæði og en samt ekki. Það er erfitt að ætla sér að vera heima í rólegheitum við kertaljós og klæðin rauð á aðventunni en þurfa á sama tíma að vera í einum spreng við að bjarga sér frá þeim hörmulegu örlögum að brenna inni á tíma og klikka á að hafa allt klárt fyrir jólin. Hafið þið heyrt um manninn sem hafði ekki allt klárt fyrir jólin? Ekki ég heldur. Best að fara að þurrka af efri skápunum og þerra svitann af efri vörinni. Haldið þið bara áfram með þessa hugvekju á meðan.

Jólafötin

Tiltektir í fataskápum landsmanna standa yfir þessa dagana. Sumir eru með harðan skráp. Ég er með harðan skáp. Ýmislegt dúkkar þar upp sem ég hafði ekki einu sinni hugmynd um að væri í skápnum. Þá er ekki nema von að spurt sé. Kemst ég í kjólinn fyrir jólin? Eða koma konfektið og kviðspikið í veg fyrir það? Minni mör, meira fjör? Í þrengri bol með lystarstol? Nei ég held það þýði ekkert að stressa sig á þessu. Hér eftir sem hingað til mun ég vinna með einkunnarorðin;  í mussuna með hlussuna. Fyrr en síðar ég fæ mér buxur víðar. Munið, ekki vera í stressi út af jóladressi.

Jólagjafir

Þá eru jólafötin afgreidd en ég er hins vegar í pínu vandræðum með jólagjafirnar. Gjafirnar verða auðvitað að vera frumlegar og kærleiksríkar en um leið umhverfisvænar, með lágt sótspor, siðferðislega réttar og helst endurnýttar til að draga úr gengdarlausri sóun. Að þessu sögðu hef ég því ákveðið þetta árið að gefa annað hvort gjafabréf á bloggsíðu Einars Haf, endurunna brandara eða lítið notaða flugmiða, það er að segja ef viðkomandi flugferðir voru ánægjulegar. Ég hugsa að þetta sé alveg jafn góð hugmynd og þegar ég gerðist umhverfisvænn þarna um árið og keypti eingöngu notaða flugelda. Svo komst ég reyndar að því síðar að björgunarsveitirnar bjóða líka upp á gróðursetningu fyrir þá sem vilja ekki skjóta flugeldunum upp. Einhverjir gætu talið heimskulegt og tilgangslaust að gróðursetja flugelda en ég er tilbúinn að gefa þessu séns.

Jólakortin

Árlega hef ég streðað við að skrifa á jólakort og senda vinum og kunningjum hingað og þangað um landið og miðin. Þetta verk hefur reynst erfiðara með hverju árinu sem líður. Það er ekki endilega vegna þess að það sé erfiðara að skrifa á sjálf kortin heldur hitt að Pósturinn gerir allt sem í valdi hans stendur til að leggja stein í götu mína með því að hækka verð og draga úr útburði. Það mætti halda að Pósturinn hafi fengið jólakort frá mér, lesið það og hugsað svo með sér: Nei. Það þarf að vernda almenna borgara fyrir þessum bloggara! Markmið Póstsins á næsta ári er að hætta helst alveg að bera út póst í dreifbýli, enda gríðarlega kostnaðarsamt fyrir Póstinn að bera út póst.

Jólamaturinn

Auðvitað þarf að huga að jólamatnum í tíma. Hér á Urðum hefur þessi undirbúningur staðið yfir frá því í haust, enda þarf bæði að salta, reykja og hengja kjötið….nei ég meina sko, láta kjötið hanga, áður en eldamennska getur hafist. Annars er þetta allt frekar hefðbundið. Léttreyktur hamborgarhryggur á aðfangadagskvöld og lögbundið hangikjöt á jóladag. Síðan er svínahamborgarhangikjöt á öðrum degi jóla. Mögulega verður matseðillinn eitthvað flippaðri um áramótin, litaður af ástandinu í þjóðfélaginu. Maríneruð langlund, ávöxtunarsalat, verðbólgupaté, skelk í kalkúnabringu og útþynnt skuldasúpa í eftirrétt. Ekki? Nei Einar, þetta var of mikið.

Jólaboðskapurinn

Ég ætlaði mér hér næst að fjalla ítarlega um Jesús Krist, fæðingu frelsarans og gullið, reykelsið og myrruna í fjárhúsinu í Betlehem forðum daga. Mér var hins vegar bent á að í dag þyki opinber kristileg umfjöllun orka tvímælis hjá góða fólkinu og þeim sem kenna sig við víðsýnt, tvísýnt, alþjóðlegt, trúsnautt, kynlaust og kynlegt fjölþjóðlegt sammenningarsamfélag. Já af því það er einmitt það sem er vandamálið í dag, of mikið af kristni og Jesú? Ég veit ekki. Meðan ég hugsa málið er best að ég fari út í kirkju og feli mig bak við predikunarstólinn.

Víst um jólin verð ég að
virða gamla siði,
þrífa, skreyta, skella í bað
skrifa á kort og senda það
og biðja fyrir friði. 

Á meðan þessu fer fram er Jesúbarnið hjalandi í jötunni, áhyggjulaust með geislabaug og gleðibros. Vonandi má það verða þannig áfram um ókomna tíð.

Hátíðarkveðjur

Einar Hafliðason

Orðin jóla í jóla DB

Góðir lesendur.

Um jólin hef ég haft þann sið
að hugleiða og biðja um frið
hripa niður örfá orð
og auðmjúkur þau leggja á borð. 

Er það rétt sem ég sé? Jú það passar. JólasvEinar Haf kemur siglandi inn hátíðarmiðin á smjörsprautaða kalkúnaskipinu sínu. Hó hó hó. Já enn eitt árið, enn eitt eldgosið og enn ein jólahugvekjan. Heilabörkurinn gliðnar, sprungan rofnar og upp gýs einhver algjör della ásamt hellingi af óæskilegu gasi. Hverju er ég að lýsa? Þið getið í eyðurnar, til þess er leikurinn gerður.

Jólahugvekjan í ár er ekki bara uppfull af jarðgasi, hátíðleika og heilögum anda. Hún er líka uppfull af rangfærslum og útúrsnúningum í boði mín, Einars Haf; bloggara og pistlahöfundar sem lætur engan ósnortinn. Allra síst lesendur. Þess má geta að það er fyrst og fremst bloggurum og pistlahöfundum eins og mér að kenna að lesskilningur Íslendinga dvínar ár eftir ár samkvæmt Písa könnuninni. Lesendur lesa meira og meira en skilja minna og minna. Og þetta skilur auðvitað ekkert eftir sig. Já ég skil. Ekki.

Sumir vilja gos á jólunum en aðrir vilja það ekki. Persónulega finnst mér ágætt að skola niður hamborgarhryggnum með malti og appelsíni en það eru vissulega skiptar skoðanir um þetta eins og annað. En innviðir, eru þeir í hættu? Innviðir Reynisson fulltrúi almannavarna, hvað segir þú um það? Nei þökk sé vinum og varnargörðum þá er ég bara í þokkalegum málum, þakka þér fyrir að spyrja. Hvað verður svo í jólamatinn þarna í samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð? Tja, ég veit ekki en ég giska á hættumat. 

Eru allir komnir í jólaskap? Tja, ég segi nú bara eins og unglingarnir. JÓLÓ. Ég veit reyndar ekki alveg hvað það þýðir en það er eflaust eitthvað mjög jólalegt. Annað sem er jólalegt er hið árlega ákall hjálparsamtaka um hjálp og auðvitað hjálpar maður samtökunum. Sko, hjálparsamtökunum. Það hjálpar samtökunum að fólk er almennt séð gjafmildara í aðdraganda jóla en á öðrum tímum ársins. Hvort sem það eru Pieta samtökin, Rauði krossinn, SOS barnaþorpin, einhverf börn, samtök um legslímuflakk, Landssamband útgerðarmanna, SÁÁ, þroskahjálp, blindrafélagið, Bændasamtökin, gigtarfélagið eða félag siðblindra. Alls staðar er neyðin sár og lífsbaráttan hörð. Allir þurfa sitt til að láta enda ná saman, allir þurfa aur til að geta unnið að sínu brýna hjálparstarfi og alltaf kemst ég í jafn mikið hátíðarskap þegar fulltrúar þessara hjálparsamtaka hringja í mig og grátbiðja um styrk. Ég vil helst láta ganga lengi á eftir mér áður en ég loks fellst á að styrkja viðkomandi hjálparsamtök um eitthvað lítilræði, enda sé ég oft aumur á hinum og þessum ef ég leita vel. Ég læt þó eingöngu fé af hendi rakna ef röddin á hinum enda línunnar lofar að peningurinn fari ekki eingöngu í það að standa straum af því að hringja í mig til að biðja um pening.

IKEA geitin er óbrunnin enn og það þrátt fyrir að ódýrt eldsneyti og eldfæri sé að finna nánast við hliðina á geitinni. Ég hefði jafnvel haldið að geitin yrði verðbólgubálinu að bráð en þökk sé afar strangri öryggisgæslu kringum mammonslíkneskið hefur tekist að vernda þennan sænskættaða gullkálf. Almennt hefur jólaverslunin gengið vel og einkaneyslan blómstrar sem aldrei fyrr. Verð á helstu vörum og nauðsynjum hefur hækkað mun meira en sem nemur verðbólgu og verður það að teljast afar góður árangur fyrir verslunina. Smávöruverslun mokar inn hagnaðinum sem aldrei fyrr en það gæti aldrei orðið að veruleika nema fyrir tilstuðlan lífstílsbænda sem vinna glaðir og yfirskuldsettir baki brotnu við að tryggja matvælaöryggi og taka lítið sem ekkert fyrir það. Ekki ber síður að þakka íslenskum neytendum sem kalla ekki allt ömmu sína þegar kemur að neyslu og láta sig ekki muna um nokkra tugi prósenta í verðhækkanir. Hvað gerir verslunin svo við allan hagnaðinn? Nú hún styrkir auðvitað hjálparsamtök sem hafa ekki undan við að aðstoða neytendur sem farið hafa á hausinn í viðskiptum sínum við smávöruverslunina. Eitthvað í þessu dæmi gengur ekki upp en það verður bara að hafa það.

Jólasveinar einn og átta hafa undanfarna daga komið til byggða og gefið landsmönnum í skóinn en þess má geta að skórinn kreppir víða. Samkvæmt Gallup könnun hafa um 40% aðspurðra á einhverjum tímapunkti fengið kartöflu í skóinn en auðvitað ætla ég ekki að gera því skóna að svo sé í raun. Samkvæmt sömu könnun hafa 23% pissað í skóinn sinn en það mun vera skammgóður vermir.  Hvað með mig kann einhver að spyrja? Nú ég er bundinn í báða skó og get þar af leiðandi ekki tjáð mig frekar um þetta mál.

Jólasveinarnir hafa þurft að uppfæra sig í takt við tíðarandann. Áður fyrr voru þeir harðsvíraðir og skítugir smákrimmar sem fóru ránshendi um byggð og ból um hver jól og rændu og rupluðu af bændum og búaliði, börnum og gamalmennum. Jól voru skálkaskjól fyrir þessi fól en ég er með könnu upp á stól og jólahjól og allskyns tól þar sem María mey í bláum kjól son guðs ól og fékk fyrir það hól. Rólegur Einar. Í dag eru jólasveinarnir í rauðum einkennisklæðum, með hreinhvít skegg og ilmandi af old spice rakspíra. Ýmislegt hefur auðvitað breyst í persónulegu lífi jólasveinanna svona í gegnum árin og árhundruðin. Stekkjarstaur er til dæmis í mun betri málum í dag eftir að hafa farið í liðskiptaaðgerð. Líf Hurðaskellis breyttist nokkuð með tilkomu hurðapumpanna og þá er Gluggagægir að mestu hættur að gægjast á glugga í kjölfar ýmissa dóma í héraði er tengjast persónuverndarsjónarmiðum. Þá er Giljagaur nánast alveg hættur að gilja í kjölfar þess að svokölluð slaufunarmenning hélt innreið sína í íslenskt samfélag. Hvað mun gerast þegar fram líða stundir? Það veit enginn, vandi er um slíkt að spá.

Hér næst stóð til að fjalla um Grýlu gömlu sem lést í sviplegu slysi þarna um árið þegar hún gafst upp og hengdi sig í rólunum. Sú umfjöllun verður hins vegar að bíða betri tíma, enda alveg að koma jól.

Ég ligg í fleti flötu
og fýsir helst í skötu
sem lyktar út á götu
gaman verður þá.
Ég stúta fimm úr fötu
og finn til lög á plötu
er lúrir barn í jötu
ég segi bara vá.  

Gleðileg jól.

Einar Hafliðason

Orðin rétt stóðu í stóðrétt

Hryssingslegu lesendur.

Nú verður gert stutt hlé á pólitískum stóratburðum, stríðsfréttum og hamfaratíðindum þannig að hægt sé að koma að þessari bráðnauðsynlegu bloggfærslu, í þágu almannahagsmuna. Muna hvað? Alls ekki neitt.

Samkomuhúsið Höfði kemur nokkuð vel undan sumartörn, göngum og réttum. Útleiga var vel viðunandi í sumar og flestar helgar nýttar undir ættarmót, afmæli, brúðkaup og gleðskap ýmiskonar. Töluvert magn af dósum og flöskum safnaðist upp samhliða þessu partýstandi og var svo komið nú í haust að vélaskemman á Urðum var orðin hálf full. Sjálfur var ég orðinn hálf fullur á leið til Akureyrar með hluta dósanna um daginn, enda virðist það vera lögmál að sama hversu tómar dósirnar eru, alltaf skulu dósapokarnir leka. Gamall áfengisilmur fyllti vitin og raunar eymir enn eftir af henni í bílnum. Dósainnleggið nam 13.080 kr. sem ég lagði auðvitað beint inn á mig. Engar áhyggjur. Ef þetta kemst upp mun ég axla ábyrgð, segja af mér sem gjaldkeri og taka að mér að vera meðstjórnandi í staðinn. Engin spilling hér.

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu hefur verið í nokkurri lægð upp á síðkastið en nú horfir það allt til betri vegar þar sem sterkir leikmenn eru komnir aftur eftir lögreglurannsóknir. Umræddir leikmenn hafa að vísu ekki spilað fótbolta lengi en það er samt gott að hafa þá með. Okkar heitasti framherji í Evrópuboltanum um þessar mundir er því miður ekki með vegna lögreglurannsóknar. Ef strákunum okkar mun mistakast gegn Lúxemborg og Lichtenstein er mjög líklegt að liðið allt sæti lögreglurannsókn.

Síðasta helgi var svokölluð stóðréttarhelgi í Svarfaðardal og sjálfsagt víðar. Stóð réttarhelgin lengi? Nei ekki svo. Ég stóð rétt við réttina þegar stóðið mætti en stóð reyndar á sama nema hvað að ég hafði augastað á stóðréttarkaffinu. Stóð réttarkaffið lengi? Nei ekki svo. Stóðið stóð í réttinni rétt á meðan réttað var en steðjaði svo brott, alveg rétt. Um kvöldið var stóðréttardansleikur á Rimum. Stóð réttardansleikurinn lengi? Nei ekki svo. Auðvitað mætti ég á staðinn þrátt fyrir að vera ekki hestamaður og skeiðaði um dansgólfið, allt fyrir málstaðinn. Einar, telur þú þessa umfjöllun hafa heppnast vel? Nei ekki svo.

Sláturtíð hefur staðið yfir undanfarið og því eru eflaust einhverjir sem hafa gripið um slátrið af því tilefni. Fallþungi þykir vel í meðallagi þetta árið, lögun góð og gerð viðunandi. Sjálfur er ég með 4 í bakvöðva og 17,5 í læri en betur má ef duga skal. Svo fæ ég reyndar ekkert sérstaka einkunn fyrir ull, sem er auðvitað bull. Nú er unnið markvisst að því hörðum höndum að rækta upp riðuþolnar kindur á Íslandi. Þó fyrr hefði verið. Æðsti draumur MAST er auðvitað að skera og höggva og slátra því sem slátrað verður í þágu smitvarna en af gefinni reynslu mæli ég ekki með þeirri aðferð. Riðfrýjar kindur og fjárhúsagrindur, það er málið.

Talandi um slátur. Stóðlífi á upptöku á verulega upp á pallborðið og lyklaborðið hjá netnotendum nú sem fyrr. Þeir hinir sömu verða aldeilis svekktir þegar þeir komast að því innan skamms að bloggsíða Einars Haf er bloggsíða en ekki harðsvíruð klámsíða, sem kann reyndar að hljóma lygilega miðað við hvað efnið sem hér er að finna er klúrt og í ljósi þeirrar staðreyndar að ég sit hér hálfnakinn í g-strengsþveng í keng, ritandi þessar hugleiðingar. Bíddu aðeins, ég ætla að skrifa þetta hjá mér. Æi það kemur ekkert úr honum. Sko, pennanum. Dóni. Klámáhorf er mikið, ómálga börn og enskuslettir unglingar eru heltekin af snjallsímum og svalltækjum…meinti snjalltækjum – og dónaskapurinn í þjóðfélaginu ríður manni á slig og ríður ekki við einteyming. Ó hve gröð er vor æska! Stendur mér á sama? Alls ekki. Ein spurning að lokum. Stóð lífið lengi? Nei ekki svo.

Lesendakönnun. Hver er ykkar uppáhalds umboðsmaður?

  • Umboðsmaður skuldara
  • Umboðsmaður Alþingis
  • Umboðsmaður barna
  • Umboðsmaður Íslands (Einar Bárða)

Munið. Það eru engin röng svör. Bara rangar skoðanir.

Reykingar drepa. Það á þó alls ekki við kjötreykingar. Þær eru nú hafnar hér á Urðum og ilmurinn eftir því. Lykillinn er að kveikja í þurrkuðum kindakúk, beina reyknum í átt að kjötinu og vona svo það besta. Þetta er reyndar ekki alveg satt en hljómar skemmtilega. Verði ykkur að góðu.

Einar, hvað með heimsmálin?

Stríð og sturlun hrella heim
streyma tárin niður kinn
sendið mig helst strax út í geim
svo fái ég flúið átökin.

Á árshátíð stjórnarráðsins um komandi helgi verður margt skemmtilegt á boðstólnum. Eins og hvað? Fjölbreytt skemmtiatriði eins og fallinn spýtukall, ráðherrakapall, hlaupast undan í skarðið, minnipokahlaup og svo auðvitað stólaleikurinn sívinsæli.

Einar stóð í tunglsljósi.

Tilvitnun dagsins:

Allir: STÓÓÓÐÐÐÐ!!!

Orðabrjáli í bundnu máli

Góðir lesendur, skúm- og blesendur.

Úti er rigning, í rjóðrinu þytur. 
Heyri og hugsa í rökkrinu vitur. 
Einar við bloggskrifin rennsveittur situr, 
skömmustulegur og bólginn og bitur. 

Hér í upphafi bið ég lesendur innilegrar afsökunar. Ekki aðeins á inngangsorðunum heldur einnig á því að mér gafst hvorki tími né ráðrúm til að panta þyrlu og drullubrúna reyksprengju sem gefa átti fylgjendum mínum til kynna hvers kyns væri hér á bloggsíðu Einars Haf – og þar af leiðandi veit enginn hvers kyns er. Enginn sómakær og metnaðarfullur áhrifavaldur með sjálfsvirðingu ætti að sætta sig við þessa meðalmennsku. Ég lofa að gera betur þegar næsta barn….blogg kemur undir.

Hann eða hún eða hán, engin(n) veit,
en Birgitta Líf í pakkann leit -
saklausar skepnurnar voru á beit 
er eitraður bláreykur sveif yfir sveit

Ég gæti svo sem beðist afsökunar á öllu því sem kom fram hér á undan og á öllu því sem á eftir kemur en ég ætla ekki að gera það – og biðst ég afsökunar á því.

Ríkisendurskoðun hefur nú gert stjórnsýsluúttekt á Sinfóníuhljómsveit Íslands vegna ófremdarástands sem þar mun hafa ríkt innandyra um langt skeið – en eins og flestir vita er alltaf sama gaulið í þessum listamönnum. Niðurstaða úttektarinnar er afar sláandi, sérstaklega þegar kemur að trommuleikurum og öðrum er leika á ásláttarhljóðfæri. Svo virðist sem margir starfsmenn sinfóníunnar hafi haft horn í síðu hvors annars en það mun hafa verið franskt horn. Upp hafi komið viðkvæm starfsmannamál og jafnvel ásakanir um ofbeldi. Ég get að vísu ekki lesið út úr fréttum af málinu að neinn hafi fengið á lúðurinn, nema þá kannski einstaka blástursleikari.

Í smáatriði sjaldan ég mig hengi
í sinfóníuhljómsveitinni lengi
við ofbeldi og ástand ekki tengi
enda slæ ég bara á létta strengi.

Göngur og réttir hafa nú farið fram fram og aftur í Svarfaðardal og mögulega víðar. Vel smalaðist í þeim tilfellum þar sem þoka byrgði gangnamönnum ekki sýn og í þeim tilfellum þar sem kindurnar voru alveg til í að koma heim. Einhverjar undantekningar voru vissulega á þessu enda misjafn sauður í mörgu fé eins og sést á mér. Nýlega fundust nýir og áður óþekktir sauðalitir hér á landi. Til dæmis fannst úlfagrár hrútur en rannsóknir eiga eftir að skera úr um hvort hér sé á ferðinni alvöru úlfagrár hrútur eða bara dæmigerður úlfur í sauðagæru, sem er vel þekkt fyrirbæri hér á landi. Einnig hafa fundist vinstri-grænbláir sauðir og píratabláir gemsar en stjórnmálafræðingurinn Rútur Hrútsson telur líklegt að nýir sauðalitir muni finnast í öllum helstu stjórnmálaflokkum áður en langt um líður.

Misjafn er sauður í mörgu fé
magnþrungin eru hin helgu vé
koníakspela þú lést mér í té
höfuð og herðar, tær og hné.

Hvers lags rugl er þetta? Svipað rugl og var á bílaleigubíl Teigamanna sem harðneitaði að keyra áfram um gangnahelgina ef fótstigið var drullugt. Þetta var hægara sagt en gert á drullugum malarvegi og lengdi þetta þar af leiðandi alla millitíma og öll pissustopp umtalsvert og setti alla ferðaáætlun úr skorðum. Tungurétt var troðfull af túristum og trallandi gangnamönnum sem tæmdu kaffiskúr kvenfélagsins Tilraunar og borðuðu allt brauð upp til agna. Fé var af skornum skammti en stundum er þetta ekki spurning um magn heldur gæði. Réttarballið fór fram á Höfða að kveldi sunnudags og fór það ekki framhjá neinum. Velunnarar Höfða höfðu veg og vanda að ballinu, réðu Landabandið og Sissa og Berg í dyrnar og réðu sér svo vart fyrir kæti, ekki frekar en aðrir ballgestir sem skemmtu sér vel að því ég best tel. Sjoppusala Umf. Þorsteins Svörfuðar gekk líka vel. Allt bakkelsi ætlað hljómsveitinni var selt ballgestum á uppsprengdu verði og hefði eflaust verið hægt að selja miklu meira. Annars þarf ekki að hafa fleiri orð um ballið, það er nóg að vitna í braginn góða eftir Árna Hjartarson Tjarnarbróðir:

Á Höfðaballi haugfullt stóð
herjar á meyjafansinn.
Undir vegg við fíflum fljóð
og förum svo í dansinn.
Augafullir erum við í kvöld,
augafullir erum við í kvöld,
augafullir erum við í kvöld
og örugglega á morgun!

Æi vá Einar er ekki mál að linni? Jú svona að þessu sinni. Er gamaldags rímnamál inni? Nei en kannski ef ég það betur kynni.

Hvað með hvalveiðibannið, fjárlagafrumvarpið, orkuskiptin, gervigreindina, flóttamannavandann, öfgaveðurfarið og alheimsvánna? Sá tittlingaskítur verður bara að bíða þar til næst. Það er ekki eins og að hörmungarnar séu að fara neitt hvort sem er.

Hörmulegt er ástandið
en ömurðina set á bið
skemmti ég mér frekar við
að fylla út skattaframtalið. 

Hræðilegt er útlitið
og ekkert útlit fyrir frið
huga mínum gef ég grið
og glápi á fótaskammelið.

Af einlægni ég vona og bið
að kærleiksríka mannfólkið
stígi aftur inn á svið
og sátt og elsku leggi lið.

Of mikið?

Alltof oft ég kýli kvið
svo kviðurinn leggst út á hlið
mikið voða rek ég við
enda kláraði ég allt konfektið.

Já þetta var of mikið.

Hafið þið heyrt um veðurfræðinginn sem flutti til útlanda? Hann las nefnilega að það væri enginn spámaður í eigin föðurlandi.

Einar uppgenginn.

Tilvitnun dagsins:

Allir: Nei bara rím!!

Orðin rasandi bit

Gáttuðu lesendur.

Rosalega er kalt hérna og mikill gustur. Hvernig stendur á þessu? Já ég sé það núna. Félagaskiptaglugginn er opinn. Best að fara og loka honum, bíðið aðeins.

Já þetta var miklu betra. Gott kvöld og velkomin í dagskrárliðinn „Einar er aldeilis hlessa“. Í þætti kvöldsins mega lesendur eiga von á góðu þar sem undirritaðan rekur ítrekað í rogastans í hverju stórmálinu á fætur öðru og kemur loks varla upp orði af undrun. Fylgist endilega spennt með hverju ég verð kjaftstopp yfir fyrst, en áður en það gerist skulum við fara í smáauglýsingar.

Vantar þig tilboð í flutninginn? Hafðu samband við annað hvort okkur hjá Eimskip eða okkur hjá Samskip og við finnum út það hagstæðasta fyrir þig. Það skiptir engu við hvorn þú talar. Það munu allir græða…nema kannski þú! Áratugalöng samvinna, samstarf og samráð – vönduð vinnubrögð. Eimskip og Samskip – flytjum saman!

Farmiði til Íslands fæst gefins – ég er hættur við. Leonardo Di Caprio.

Tapað fylgi. Fylgi sem nóg var af fyrir kosningar er nú týnt og tröllum gefið. Fundarlaunum heitið. Ríkisstjórnarflokkarnir.

Okkur er annt um umhverfið. Viltu fljúga með góðri samvisku? Pantaðu þá far með okkur og við sjáum um að kolefnisjafna ferðina með gróðursetningu trjáa. Icelandair.

Óskum eftir því að ráða tugi skógarhöggsmanna til að fella yfir þrjúþúsund tré í Öskjuhlíðinni, öryggisins vegna. Icelandair.

Ný íslensk hrollvekja/spennumynd, Kuldi, var frumsýnd nú fyrr í kvöld. Myndin fjallar um hóp fólks úr þremur stjórnmálaflokkum sem reynir í sameiningu að stjórna örþjóð úti í ballarhafi með málamiðlunum. Til að byrja með gengur allt vel en þegar á líður tekur að anda köldu á milli foringjanna í hópnum með skelfilegum afleiðingum. Alls ekki við hæfi Bjarna…..barna. Ég er svo aldeilis hlessa.

Matvælaráðherra hefur nú leyft hvalveiðar að nýju, eftir sumarlanga yfirlegu og hugarangist. Leið hún kvalir? Nei. Hvalveiðar eru nú leyfðar með hertum skilyrðum frá því sem áður var, til að koma til móts við mannúðar- og hvalúðarsjónarmið. Samkvæmt nýbirtri reglugerð verða hvalveiðimenn að hafa að minnsta kosti fimm ára reynslu, fimm sentimetra skegghýjung, mynd af Kristjáni Loftssyni á náttborðinu og akkeristattú á upphandleggnum. Samkvæmt sömu reglugerð verður aðeins heimilt að veiða hvali sem náð hafa 15,2 metra lengd, eru með greindarvísitölu undir 140 og eru í kjörþyngd. Upphaflega var til skoðunar hjá ráðherranum að innleiða svokallaða veiða-sleppa aðferð eins og reynd hefur verið við sportveiðar í íslenskum ám með góðum árangri en fallið var frá þeirri hugmynd í ráðuneytinu á lokametrunum þar sem aðferðin var talin of flókin í útfærslu. Ég er svo aldeilis forviða.

Erlendar stórstjörnur og spíssbúbb hafa tekið þessum fregnum afar illa og hóta því nú í umvörpum að sniðganga Ísland haldi þjóðin hvalveiðum sínum til streitu. Að vísu hafa fæstar þessara erlendu stórstjarna látið sjá sig við Íslandsstrendur hvort eð er þannig að trúlega verða áhrif þessara hótana óveruleg. Sjálfur ætla ég að halda áfram að sniðganga Hollywood í mótmælaskyni en ég hef að vísu aldrei komið þangað. Svei mér þá.

Forseti spænska knattspyrnusambandsins rak fyrirliða spænska kvennalandsliðsins…….rembingskoss. Á munninn. Í miðjum fagnaðarlátum eftir sigur Spánverja á HM kvenna í fótbolta. Já ég skil. Ekki. Ekki hefur koss á fótboltavelli valdið jafn miklu fjaðrafoki síðan Ingólfur Hannesson íþróttafréttamaður kyssti Guðjón Þórðarson þjálfara íslenska karlalandsliðsins á kinnina í beinni sjónvarpsútsendingu eftir jafnteflisleik við Frakka á Laugardalsvelli þarna um árið. Ja hérna hér.

Heyskap er nú víðast hvar lokið eða að ljúka. Heyfengur er almennt talinn góður í Svarfaðardal og heygæði í fínu lagi. Á Urðum endaði slátturinn með því að vinkildrifið á sláttuvélinni brotnaði frá sjálfri sláttuvélinni á síðustu fermetrunum á síðasta stykkinu sem slegið var og var því ekki slegið meira í það skiptið. Sölvi verktaki á Hreiðarsstöðum kláraði dæmið. Síðan sá Sölvi verktaki á Hreiðarsstöðum um að garða en Gunnar verktaki í Göngustaðakoti hefur einnig verið til taks í görðun undanfarin ár. Kalli verktaki í Brekku sá svo um að rúlla. Hver sér eiginlega um að greina frá þessu öllu hér á blogginu hans Einars? Nú auðvitað Arnaldur verktaki Indriðason. Af hverju að bagsa við þetta sjálfur þegar hægt er að fá mun hæfari verktaka til að afgreiða málið? Einar, ertu ekki lentur úti í skafli með þetta? Jú en það er allt í lagi, ég fæ bara Sigvalda verktaka í Hofsárkoti til að moka mig upp á núll einni. Dámar mér ekki.

Senn taka haustverk við til sveita og þar á meðal eru göngur og réttir. Stutt er í að gera þurfi ballfært í samkomuhúsinu Höfða en þar hefur hið árlega réttarball verið haldið frá ómunatíð og jafnvel lengur. Einhverjir halda að Sissi og Bergur hafi mætt til dyravörslu jafnvel nokkru áður en dyrnar voru smíðaðar og mun það vera rétt. Mikið líf hefur verið á Höfða nú í júlí og ágúst og hvert samkvæmið rekið annað. Einar aðstoðarkirkjuvörður í Urðakirkju sá sér leik á borði í sumar og bauð mörgum verðandi brúðhjónum tveir fyrir einn pakka sem fólst í því að gifta sig á tilboðsverði í Urðakirkju með því skilyrði að viðkomandi myndu taka Höfða á leigu undir veisluhöld. Þetta virkaði afar vel og því líklegt að pakkatilboðið verði síðar meir útvíkkað og nái þá einnig yfir kirkjugarðinn og erfidrykkjuna. Alveg er ég bit á köttinn.

Karl með krumlu greip um pung
og kyssti konu skæður
Aumt er að líta oflátung
á velli rang var stæður. 

Þess má til gamans geta að það er val að veiða hval.

Einar á sjónum.

Tilvitnun dagsins:

Allir: Er nauðsynlegt að skjóta þá?

Orðin upp úr jörðinni

Gosglöðu lesendur.

Þegar gýs þá þarf að skoða gosið, þó vissulega hefðu sumir kosið að finna íshelli hvar allt er frosið og fest á filmu jökulkalda brosið. Eruð þið alveg í spreng? Losið. Ef þið eruð föst, þá tosið.

Það hefur orðið vart við töluverðan óróa á Reykjanesi undanfarið. Um ræðir svokallaðan gosóróa sem nær bæði til jarðskorpunnar og eins til ferðamanna sem eru afar gosórólegir og ekki í rónni fyrr en þeir komast upp að eldgosinu…og helst ofan í gíginn. Hraunjaðarinn kallar fólkið til sín og sumir hafa raunar gengið svo langt að ganga of langt, alla leið inn á nýja hraunið og leggja sig þar með í stórkostlega hættu. Hættu. Sumum er ekki viðbjargandi og það mun væntanlega raungerast ef fólk passar sig ekki. Í Vestmannaeyjum halda menn upp á goslok en ferðamannaiðnaðurinn þráir ekkert heitar en að gosið muni malla áfram næstu mánuðina. Ef að líkum lætur verður fjölmennsta útihátíðin um verslunarmannahelgina Gosi 23 – Gosgleðin við Litla-Hrút. Þessa dagana er verið að leggja drög að bílastæðum, salernisaðstöðu, malbikuðum vegi, veitingasölu og uppsetningu útisviðs við gosjaðarinn. Það verður margt í boði á Gosa 23. Slökkviliðið í Grindavík mun sýna tækjabúnað sinn, börnin fá hraun, gos og sinubrennt kandífloss og hápunkturinn verður auðvitað hinn klassíski mannvitsbrekkusöngur við gígbarminn á sunnudagskvöldinu þar sem Brunaliðið stígur á stokk, Pálmi Gunnars tekur Af litlum neista og Eivör flytur singalong útgáfu af Nú brennur þú í mér. Eini gallinn er hversu erfitt er að syngja þegar þú ert með lífsnauðsynlega gasgrímu á andlitinu en það verður víst ekki á allt gosið…kosið.

Til fróðleiks; fimm misheitir eða kaldir ferðamannastaðir á Íslandi, mældir á celsius:

  • Eldgosið við Litla-Hrút, 1.100 gráður.
  • Vegurinn yfir Hellisheiði, 100 gráður.
  • Geysir, 80 gráður.
  • Bláa lónið, 37 gráður.
  • Bloggsíða Einars Haf, vitsmunalegt alkul.

Í þessa upptalningu vantar reyndar býsna heitan áningarstað ferðamanna; Urðakirkju í Svarfaðardal. Þangað hefur á þriðja tug ferðamanna lagt leið sína það sem af er sumri og orðið agndofa yfir fegurð staðarins sem og fegurð ábúenda á Urðum. Hingað til hafa hús og híbýli hér á jörðinni, þar á meðal kirkjan, verið upphituð með rafmagni þar sem engin hitaveita er á staðnum. Nú er rafmagnið hins vegar orðið svo dýrt að sóknarnefnd hefur séð sig knúna til að snúa sókn í vörn og skrúfa niður í rafmagnsofnunum í kirkjunni í sparnaðarskyni. Dýrð sé Guði í rosalega háum upphæðum á reikningum frá Rarik og Orkusölunni. Amen. Héðan í frá mun þurfa að treysta eingöngu á trúarhitann til að kirkjan haldist frostfrí. Hólí mólí.

Hvernig var þetta með djöfulinn? Stóð’ann eða sat’ann? Man þetta aldrei.

Það er víða hiti í kirkjum og sóknarbörnum landsins, hvort sem hann stafar af hitaveitu, raforku eða trúarhita. Á Biskupsstofu er mjög heitt og einhverjir sveittir á efri vörinni en það er vegna þess að þar logar allt stafnanna á milli. Mikil ringulreið ríkir innan Þjóðkirkjunnar eftir að því var slegið upp í fréttum að það væri ekki Guð Almáttugur sem skipar biskup í embætti eins og flestir héldu, heldur sjá forseti kirkjuþings og ritari biskupsstofu um það á svokölluðu gráu svæði. Þetta kom mörgum í opna skjöldu. Hver skipar þá eiginlega forseta kirkjuþings og ritara biskupsstofu í embætti? Nú auðvitað Páfinn. Samkvæmt fréttum ríkir lagaleg óvissa um stöðu biskups en ég er lagalega óviss um hvað það þýðir. Ég gæti þurft að glugga í Biblíuna til að átta mig á þessu en eins og allir vita er svörin að finna í hinni helgu bók.

Til stóð að biskup fengi að halda embætti sínu þar til tækist að vígja nýja Miðgarðakirkju í Grímsey. Þar hefur framkvæmdatími hins vegar riðlast og framkvæmdakostnaður rokið upp úr öllu valdi. Fyrir smiðum og arkitektum er einn dagur sem þúsund ár og framvinda verksins öll í samræmi við það. Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri mun kostnaðurinn verða orðinn allt að því himneskur þegar verkinu loksins lýkur, einhvern tímann milli jóla og páska. Þá er eins gott að fara að biðja Guð að hjálpa sér.

Heyr kirkjusmiður
Grímseyingur biður
guðshús um að fá
þó það kosti smá. 
Senn þeir gerast gramir
óhamingjusamir
ennþá kirkju án
með yfirdráttarlán.

Ég er ekki viss um að það sé góð hugmynd að hætta sér út í þessa sálma. Er ekki miklu skemmtilegra að tala um hlýnun andrúmsloftsins, brotthvarf hafstrauma og yfirvofandi tortímingu hins byggilega heims? Æi ég nenni því ekki. Hvað þurfa Íslendingar annars að gróðursetja mörg tré til að kolefnisjafna þetta eldgos?

Þegar ég heyri fréttir og les blöð og netmiðla verð ég ekki bara hvumsa, gáttaður og hneykslaður heldur einnig steinhissa og rasandi bit. Til dæmis kemur það mér auðvitað rosalega á óvart að við Íslendingar skulum enn vera að bæta í útblástur gróðurhúsalofttegunda, þvert á öll markmið og allar samþykktir alls staðar. Bíðið andartak meðan ég næ hökunni upp úr gólfinu. Ég meina, fólki fjölgar, ferðamönnum fjölgar, bílum fjölgar, skemmtiferðaskipum fjölgar, eldgosum fjölgar, utanlandsferðum fjölgar og ástæðum til að breiða upp fyrir höfuð og gefast upp fjölgar. Þess vegna kemur þetta svakalega á óvart. Það má reyndar geta þess að bloggsíða Einars Haf stefnir á orkuskipti fljótlega, enda er Einar Haf alveg grænn í flestum málum.

Svört, svört, svört er lifrin mín um helgar
svört, svört, svört er loftslagsskýrslan mín
ekkert er bjart, bjart, allt er bara svart, svart
svart er útlitið og bókhaldið. 

Þess má geta að samkvæmt nýjustu útreikningum er vonlaust að kolefnisjafna eldgosið með gróðursetningu trjáa þar sem þau munu fyrr en síðar verða skógareldum að bráð – og auka þar með enn á vanda okkar.

Einar heitur og líka pínu feitur.

Tilvitnun dagsins:

Allir: HEEEIIIITTTTT!!!!

Orð lýðveldisins

Góðir Íslendingar.

Þar sem ég stend hér á hlaðinu, hagræði mér í skautbúningnum, les uppáhalds greinarnar mínar úr stjórnarskrá íslenska lýðveldisins, helli upp á Braga kaffi, steiki kleinur, tek verðtryggt lán, þamba fjallavatn og horfi yfir fífilbrekku og gróna grund get ég ekki annað en fellt tár. Bæði vegna eigin fegurðar og einnig vegna fegurðar landsins. Ósnortin náttúra lætur engann ósnortinn. Lesendur fella líka tár en það tengist þó ekki ósnortinni náttúru heldur þeirri staðreynd að hátíðarávarp hinnar Svarfdælsku fjallkerlingar er nú komið í loftið. Þess má geta að fjallkonan í ár er greind í þykistunni, sem sagt gervigreind.

Þjóðlegu landsmenn. Það eru erfiðir tímar og jafnvel atvinnuþref. Fjárhagsstaða margra er slæm, vonin dræm, Geiri var Sæm og ég á ekkert Daim. Einkum og sér í lagi er fjárhagsstaða ríkissjóðs döpur og skuldastaðan nöpur. Langlundargeð Íslendinga er sem betur fer endurnýjanleg auðlind. Þessi auðlind hefur verið virkjuð óspart og ítrekað til að halda ríkisfjármálunum á floti gegnum árin og áratugina. Í dag má reyndar ekki virkja neitt nema þá hugsanlega ímyndunaraflið en Íslendingar eru alveg grænir þegar kemur að grænum orkuskiptum. Alltaf þegar gefur á bátinn og vandi steðjar að ríkissjóði eins og nú um stundir kemur þjóðin til bjargar og borgar glöð hærri skatta og hærri gjöld svo hið opinbera geti staðið undir sér og mér. Ég meina, það kostar skildinginn að framfleyta heilli fjallkonu. Það er von ráðamanna að íslenska langlundin gangi ekki til þurrðar í náinni framtíð, því ef svo fer erum við öll í djúpum skít.

Er þetta hóll eða hæð? Nei sérðu ekki að þetta er fjall kona!

Afsakið, smá hökt í útsendingunni og snökt í fjallkonunni. Ekki grunaði mig að það væru alvöru rafskaut á þessum skautbúningi en það er önnur saga.

Þolgóðu landsmenn. Það er ekki nóg með að ríkissjóði sé borgið ef þið borgið. Með sama hætti og af sömu fádæma fórnfýsi borgar þjóðin glöð hærri vexti og hærri verðbætur þannig að hér geti áfram þrifist sómasamlegt bankakerfi með ofurlaunum, arðgreiðslum og hæfilegu magni af siðblindu eins og tíðkast í hinum siðmenntaða heimi. Maður tárast bara yfir eljunni. Já og óspilltu náttúrunni líka. Grenjuskjóða.

Þrautreyndu landsmenn. Ríkið – það er ég. Sagði einhver. Einhverntímann. Ég borga minn fjallkonuskatt með glöðu geði og legg þar með mitt af mörkum til samneyslunnar. Ég læt þó ekki þar við sitja. Ég hef með óhóflegum akstri milli Svarfaðardals og Akureyrar reynt að láta gott af mér leiða gegnum eldsneytisgjöld á liðnum árum. Þá hef ég tekið áfengisgjaldið til kostanna og fagna ég því ákaft í hvert sinn sem ráðamönnum dettur í hug að hækka gjaldið í þágu þjóðarinnar. Auðvitað læt ég það ekki eftir mér að fara reglulega í drykkjarvöruverslun ríkisins, kaupa ríkisdjús á ríkistaxta og detta svo í það í þágu góðs málefnis og með góða samvisku. Er neyslan vandamál? Já pínu en þetta kemur samneyslunni vel þannig að ég er sáttur. Mig er samt aðeins farið að klæja undan skautbúningnum og svo svíður mér í framan vegna allra táranna sem féllu hér áðan. Vælukjói.

Þjökuðu landsmenn. Næst ætla ég að fjalla um fjallavötnin fagurblá, föðurlandið, land míns föður, landið mitt, laugað bláum straumi og þá fjölmörgu kosti og örfáu galla sem Ísland hefur. Full fyrirsjáanlegt? Já ég er full fjallkona og það var fyrirsjáanlegt. Ef til vill þó ekki jafn fyrirsjáanlegt og þegar forsætisráðherra talaði um verðbólgu í sínu hátíðarávarpi. Viltu ekki bara fara að grenja? Jú ég er reyndar löngu byrjaður á því.

Þrælmyndarlegu landsmenn. Íþróttafólkið okkar heldur áfram að gera það gott vítt og breitt um heiminn. Nýjasta dæmið er íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu sem er nú komið með nýjan og ferskan norskan ellilífeyrisþega, Áka Háreyði, sem aðalþjálfara. Liðið hélt upp á það í dag með því að yfirspila Slóvaka og tapa samt bara 2-1. Ha? Já. Mér þótti þetta líka vel sloppið. Slóvakar eru jú margfalt fleiri, margfalt stærri og margfalt heppnari en við. Ef einhvern tímann var rétt ákvörðun að leggjast í grasið og gráta var það í leikslok nú áðan því ef þú vorkennir ekki sjálfum þér, hver á þá að gera það? Sé ég tár á hvarmi? Já, réttið mér vasaklútinn.

Þurrpumpulegu landsmenn. Bráðum kemur ekki betri tíð því betri getur tíðin ekki orðið. Ég meina, 20 gráður og hægviðri. Gerist ekki betra. Þetta vitum við fullvel en samt berjum við höfðinu við steininn og viljum meira enda vel full og það veit ég líka fullvel. Aldrei myndi neinn bláedrú berja höfðinu við stein viljandi en slysin geta gerst. Í tilefni af góðri tíð og vegna fjölda áskoranna hófu Urðabændur heyskap fyrir miðjan júní sem heyrir til tíðinda. Oft höfum við beðið þess að blómstrið eina spretti úr sér áður en látið er til skarar skríða en í ár var ákveðið að reyna nýja og óvænta nálgun. Ólíkt bloggsíðu Einars Haf var að þessu sinni lögð meiri áhersla á gæði heldur en magn þannig að rúllurnar eru það sem af er í færri kantinum en þeim mun gæðalegri. Ósléttu óslegnu túnin eiga vonandi eftir að spretta nokkuð næstu daga og þá verður vonandi hægt að halda baráttunni áfram. Það sem þú gerir í sveitinni á sumrin gengur jú allt út á það að hjálpa þér og bústofninum að lifa næsta vetur af, með einum eða öðrum hætti. Hey grasasni, ertu enn að væla? Já afsakið, er þessi skautbúningur ekki örugglega vatnsheldur?

Ísland er æði, það vitum við öll,
karlar og konur kenndar við fjöll.
Náttúran ósnortin, tárast ég senn
við að hugsa um vindbarða hrafnistumenn.  

Þrútnuðu landsmenn. Þrátt fyrir margbreytilegar hörmungar og hrylling í heiminum hef ég fulla trú á því að þetta verði allt í lagi. Já þetta lagast pottþétt allt saman. Þetta reddast eins og alltaf. En auðvitað get ég leyft mér að halda því fram, komandi af fjöllum þegar öll erfiðu málin ber á góma. Hvað er best að bera á góma? Örugglega bara tannkrem.

Bletturinn við samkomuhúsið Höfða í Svarfaðardal, 17. júní 2023.

Einar fjallkonur.

Tilvitnun dagsins:

Allir: Áfram Ísland!

Orðin leið toga fund í sundur

Vel vörðu lesendur.

Veturinn var grimmur og gaf mér fáa kosti, svo ógurlega dimmur með alltof miklu frosti. Í sumarbyrjun samloku ég fæ með smjöri og osti, bloggskrif Einars valdið hafa aðdáendum losti. Að sleppa þessum inngangsorðum, hvað ætli það kosti?

Sumar og vetur frusu ekki saman fyrr en tæpum mánuði eftir að sumarið byrjaði. Boðar það ekki gott? Nei. Það boðar heldur ekki gott að Einar Haf skuli hafa risið upp á afturlappirnar og lagt til atlögu við lesendur. Netnotendur þurftu að sitja undir stöðugum netárásum í tengslum við leiðtogafund Evrópuráðsins þar sem meðal annars var ráðist á vefsíður Alþingis, dómstóla, ráðuneyta og Dalvíkurbyggðar. Alvarlegasta netárásin af þeim öllum er þó klárlega yfirstandandi netárás Einars Haf, sem notar netið til árása á grunlausa lesendur. Það er að vísu ekki fréttnæmt.

Ég er hvorki á nöglum né nálum yfir veðurkortunum, enda kominn á sumardekkin. Ég lét umfelga þegar sumarið gekk í garð og ætlaði að koma mér aftur á sömu dekk og tekin voru undan bílnum í haust (desember reyndar). Bílnum? Já, þið munið. Nissan Quashqai árg. 2016 með leðjubornum undirvagni, sætishita, samanleggjanlegum aftursætum, bakkmyndavél sem aldrei sést neitt í vegna drullu og geisladiskaspilara svo fátt eitt sé nefnt. Frábær bíll en skelfileg dekk? Já. Það kom í ljós að eitt dekkið var ónýtt og ekki á vetur setjandi…í sumar. Ekki gekk að kaupa bara eitt nýtt dekk og ég keypti því tvö ný dekk og hugðist nota tvö minnst ónýtu sumardekkin að aftan. Eftir umhugsun sprenglærðra dekkjasérfræðinga, það er að segja níkótínpúðaðra ávaxtaanganveipandi karlakarla með tattú upp um alla handleggi, var niðurstaðan hins vegar sú að kaupa 4 ný sumardekk. Tvö notuðu dekkin að aftan væru svo ólík nýju óslitnu dekkunum tveimur að framan að það myndi aldrei enda öðruvísi en illa. Ég lagði niður skottið, lokaði skottinu, borgaði tæpar hundrað þúsund krónur og spændi svo í bláa botni út á götu á glænýjum dekkum. Einar úti að aka? Það er ekki fréttnæmt.

Dekkjaþemað hefur teygt sig mun lengra en ég gerði ráð fyrir í upphafi. Skítadreifarar, dráttarvélar og önnur tæki sem ég hef komist í tæri við hafa flest endað á felgunni með ófyrirséðum afleiðingum og verulegum fjárútlátum. Ég var varla byrjaður að hugsa um það að þeyta kúamykju um allar koppagrundir þegar keðjudreifarinn affelgaðist. Þeir hjá Steypustöðinni gátu bjargað því en á sama augnabliki og dekkið fór undir aftur varð gamla Ferguson dráttarvélin loftlaus úti á túni. Þeir hjá Steypustöðinni gátu bjargað því en í síðustu skítkeyrsluferðinni kom gat á dekk keðjudreifarans og aftur varð dreifarinn, sem ég kalla reyndar lortaþeyti við hátíðleg tækifæri, vindlaus – eins og ökumaðurinn. Þeir hjá Steypustöðinni ætla að bjarga því en æru og sjálfsáliti undirritaðs verður hins vegar ekki bjargað, ekki einu sinni af Steypustöðinni. Það er ekki fréttnæmt, bara sorglegt.

Það fór auðvitað mjög illa, jafnvel afleitlega, fyrir okkur Íslendingum í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva nýverið en það er að vísu ekki fréttnæmt. Þrátt fyrir mikla fyrirhöfn og mikinn tilkostnað varð niðurstaðan 11. sæti af 15 í síðari undankeppninni og þar með var draumurinn um Nínu búinn. Sérfræðingar telja að umdeildar hvalveiðar Íslendinga hafi riðið baggamuninn og orðið til þess að góða fólkið í Evrópu kaus okkur ekki áfram. Þá er ljóst að vinsældir Íslands hafa enn ekki náð fyrri hæðum eftir bankahrunið, Icesave klúðrið og Eyjafjallajökulsgosið. Gæði júróvísjónlags og flutningur skipta litlu máli samanborið við hið pólitíska landslag. Hvaða lag var svo best? Pólitískt landslag? Nei reyndar bara sænskt verksmiðjupopplag flutt af marflatri, muldrandi söngkonu íklæddri leðjubrúnni lufsu og gervikrumlum en það er alls ekki fréttnæmt. Og þú færð að sjá það sem enginn sér.

Það var nú alveg meiriháttar fyrir okkur Íslendinga að fá eitt stykki leiðtogafund Evrópuráðsins upp í hendurnar þarna um daginn, nánast á silfurfati. Öll þessi landkynning og allt þetta umtal mun koma okkur vel þegar góða og rétthugsandi fólkið í útlöndum ákveður hvaða land það eigi að heimsækja næst, nema kannski fólkið sem er á móti hvalveiðum og kaus okkur ekki í Júróvísjón. Við kærum okkur hvort eð er ekkert um það fólk hingað. Ísland, fagra Ísland. Landið sem er svo dúllulegt og æðislegt. Nú sér heimurinn allur að það er einfalt og öruggt að heimsækja Ísland. Umstang og öryggisgæsla við leiðtogafundarhöldin kostaði einungis um 2 milljarða króna sem kallast vel sloppið. Þökk sé lögregluliði með alvæpni, þyrlueftirliti og víðtækum götulokunum gátu Ali Baba og ráðamennirnir fjörtíu verið alveg öruggir þar sem þeir sátu innan um glerveggina og gróðurhúsamosann í Hörpu og hlýddu hver á annan ræða um heimsfrið eða skort á heimsfriði. Steðjar vá að heimsbyggðinni? Vá, segi ég nú bara….en það er alls ekki fréttnæmt. Helsta umræðuefni fundarins mun hafa verið hversu góð öryggisgæsla var á fundinum og nauðsyn þess almennt að hafa góða öryggisgæslu fyrir þjóðarleiðtoga. Í lok fundarins sendi fundurinn frá sér ályktun þess efnis að Rússar væru bara leiðinlegir en sem betur fer hafi þjóðarleiðtogunum liðið vel á fundinum vegna góðrar öryggisgæslu og þeir geti vel hugsað sér að koma aftur til Íslands.

Þó það sjáist ekki endilega á þessari bloggfærslu þá fór ég nýverið á námskeið í skapandi skrifum, öðru sinni. Þar var reynt að hrista upp í heilasellunum og virkja sköpunarkraft nemenda við sagnaskrif, uppbyggingu sögu og persónusköpun svo eitthvað sé nefnt. Þetta er spurning um í hvaða persónu maður skrifar, fyrstu eða þriðju? Já það er nú það Einar. Allt saman ljómandi skemmtilegt en hver er svo árangurinn?

Jónas stökk bak við runnann þegar hann varð þess áskynja að Stefanía stóð við gluggann með kaffibolla og horfði út í vorið. Stefanía heilsurúmasölukona, eða það hét hún í huga Jónasar að minnsta kosti. Hann ætlaði sér að koma henni á óvart, hringja dyrabjöllunni og bjóða henni út að borða í eigin persónu, af því hann þorði ekki að gera það í versluninni. Lúmskur eins og grafarræningi að forðast það að lenda í gildru stiklaði hann á milli trjágróðurs og blómabeða í bakgarði Stefaníu. Hann ætlaði sér að spyrja hvort hann mætti ekki bjóða þessari huggulegu konu út að borða og á sinfóníutónleika. Reyndar ætlaði hann sér að selja henni SÁÁ álfinn í fjáröflunarskyni en hitt átti svo að fylgja með. Hann hafði vitað frá því hann keypti af henni Deluxe heilsurúmið og Tempura koddann í Svefn og heilsu að þessari konu yrði hann að selja álfinn….já og svo eitthvað meira. Hann var svo sem bara með vinnusímann hennar en það voru nægar upplýsingar á þessu stigi. Ekki var hún með hring á fingri. Og hún hafði jú hvatt hann til að hafa samband hversu ómerkilegar spurningar hann kynni að hafa um nýja heilsurúmið. Jónas reyndi að réttlæta fyrir sjálfum sér að banka upp á hjá Stefaníu en hann þurfti svo sem ekki réttlætingu til að fara og selja henni álfinn. Verra væri með það sem á eftir kæmi.

Ég skil. Enginn árangur sem sagt. Jæja, það mátti reyna. Sömu sögu er að segja af Niceair; það mátti reyna. Þegar á reyndi reyndist erfitt að reka flugfélag án flugvélar og því fór sem fór….eða fór ekki neitt. Farþegar sitja eftir með sárt ennið og tómt veskið en það er þó huggun harmi gegn að hugurinn ber þá hálfa leið. Eini sénsinn að Íslendingum takist að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið í náinni framtíð er sá að fleiri flugfélög fari á hausinn og hætti starfsemi – og hætti þar með kolefnisútblæstri. Vonum það besta og verum bjartsýn….sem er reyndar fréttnæmt.

Tíðarfar í maí hefur verið nokkuð blautt, eins og ég, en það er ekki fréttnæmt. Það hefur líka verið töluvert hvasst, svona eins og viðmót mitt en það er ekki fréttnæmt. Sólin er einhvers staðar í felum eins og mitt innra sjálf en það er ekki fréttnæmt. Malarvegurinn er holóttur eins og persónuleiki minn en það er ekki fréttnæmt. Ég veit reyndar ekki hvers vegna ég er að segja ykkur þetta þar sem þetta er ekki fréttnæmt en það er reyndar ekki fréttnæmt heldur.

Í Hörpu herrar dagpart dvöldu
drottnarar á landi köldu
ræddu heims um ból
gott var þeirra skjól
í sprengjubyrgi margföldu. 

Stýrivaxtahækkun, ófremdarástand á húsnæðismarkaði, skuldafangelsi og landflótti? Nei, ekki fréttnæmt heldur.

Einar fréttaónæmur.

Tilvitnun dagsins:

Allir: HVAÐ ER AÐ FRÉTTA???

Orð í kross

Trúarlegu lesendur.

Þjáningarnar eru miklar. Sársaukinn er áþreifanlegur. Sorgin er alltumlykjandi. Það er við hæfi að sorglegasti og langorðasti bloggarinn Einar Haf í samstarfi við þjóðkirkjuna og Golgata tannkrem birti sorglega og langa bloggfærslu á sorglegasta og lengsta degi ársins. Vá hvað þetta er sorglegt.

Já manni er nú ekki hlátur í hug á þessum degi, enda er þetta dagur sorgar og dagur lyga. Jesús var svikinn, dæmdur og krossfestur af fjandmönnum sínum og höfum við hin fengið að súpa seyðið af þeim gjörningi allar golgötur síðan.

Nútíma útgáfa krossfestingar kallast slaufun og getur verið alveg jafn sársaukafull og hamar og naglar í lófann. Jesús reis á þriðja degi aftur upp frá dauðum en hins vegar eru aðeins örfá dæmi þess að slaufaðir rísi aftur upp frá dauðum. Í þau fáu skipti sem það gerist er það alltaf jafn umdeilt og ótrúlegt, alveg eins og hjá Kristi forðum. Svo getur það reyndar líka gerst að þeim sem slaufa er slaufað , ekki satt Frosti?

Ég ætla auðvitað ekki nánar út í þessa sálma, enda má ég ekki við slaufun. Það er miklu nær og raunar mun meira viðeigandi að fara út í Passíusálmana. Þar fer séra Hallgrímur Pétursson í ramm stuðluðu máli og miklum smáatriðum yfir píslarsöguna og allar þær þjáningar sem Kristur mátti þola. Sálmarnir eru lesnir viða í kirkjum landsins nú um páskahátíðina og ekki vanþörf á. Þeir sem ekki nenna að hlusta á passíusálmana geta auðvitað tekið sorgina upp á næsta stig og hlýtt á upplestur ríkisstjórnarinnar á nýrri fjármálaáætlun en þar eru þjáningarnar einnig í fyrirrúmi. Sérstaklega sorgleg þykja erindin um hækkun tekjuskatts á fyrirtæki og frestun ríkisframkvæmda.

Það næsta sem ég hef komist því að fara á kenderí það sem af er þessum páskum var þegar ég gekk til altaris í Urðakirkju að kveldi Skírdags og teigaði blóð krists úr bikar lífsins. Mæting í messuna var sorgleg eins og flest annað sem talið hefur verið upp hér í þessari bloggfærslu. Eflaust dró það nokkuð úr mætingu þegar spurðist út hver myndi hringja kirkjuklukkunum og eins þegar það fréttist að heimilisfólkið á Urðum myndi ekki opna húsakynni sín að messu lokinni og bjóða gestum og gangandi upp á messukaffi. Þegar metta þarf heilan kirkjukór og tæpan tug kirkjugesta duga ekki fimm brauð og tveir fiskar líkt og í gamla daga, þess vegna var alveg eins gott að sleppa þessu og láta oflátuna duga. Eins sorglegt og það nú er.

Mikið súkkulaði hefur bráðnað til sjávar síðan fyrsta páskaeggið var steypt í mót og ungi settur ofan á. Í dag er hægt að fá allar stærðir og allar gerðir af páskaeggjum, með mismunandi bragði, mismunandi á litinn og mismunandi áferð. Innihaldið er einnig afar mismunandi og þá eru ótaldir sjálfir málshættirnir, sem eru í raun það sem málið snýst um. Ég get alveg tekið það á mig að stúta heilu páskaeggi svo lengi sem ég fæ góðan málshátt. Í fyrra fékk ég málsháttinn ,,enginn verður af einum bita feitur“. Þetta hef ég haft í huga í öllum matartímum síðan og bara tekið einn bita. Svo tekur maður einn bita, síðan einn bita, þá einn bita og þannig koll af kolli. Virkar þetta? Nei alls ekki og auðvitað bita ég mig á það. Já og meðan ég man, ég er ekki eins framstæður og margir halda en hins vegar er ég afar bitastæður.

Tollheimtumenn og farísear mæla eindregið með óverðtryggðum lánum á breytilegum vöxtum. Síðan kemur 10% verðbólga og vaxtahækkun. Þá koma tollheimtumennirnir og farísearnir og hirða af ykkur húsin upp í skuldir. Bankastjóri Jerúsalembanka, Pontíus Pílatus, telur ekkert óeðlilegt við þetta ástand og bendir á að sá yðar er syndlaus er lendir fyrst í vanskilum.

Í öðrum sorglegum fréttum er það helst að aðalfundur Ungmennafélagsins Þorsteins Svörfuðar var haldinn síðastliðið miðvikudagskvöld að viðstöddu fámenni. Fundurinn var í sjálfu sér alls ekki sorglegur en mætingin var frekar sorgleg, ef ekki grátleg. Á fundinum var samþykkt að greiða 5% launahækkun, óbreytta risnu en engan arð. Gjaldkeri félagsins neitar nú sem fyrr að víkja sæti og því lítil von til þess að ástandið skáni eitthvað á næstunni. Til að ná nýju og fersku blóði inn í félagið hefur stjórnin leitast við að skipa fólk í nefndir án vilja og vitundar viðkomandi. Sérstaka athygli vakti skipan í íþróttanefnd félagsins en í nefndina voru kosin þau Guðni Bergsson, Vanda Sigurgeirsdóttir og Arnar Þór Viðarsson. Arnar er að vísu að jafna sig af meiðslum en hann sleit krossband þegar hann var krossfestur af íslenskum fótboltabullum og knattspyrnusambandinu um daginn í kjölfar þess að hafa unnið Lichtenstein aðeins 7-0.

Sorgin yfirtekur sál
af sársauka innra brennur bál.
Píslarsögu hugsa um, 
með páskaegg í maganum. 

Neytendur athugið! Eru þið á bömmer yfir of mörgum utanlandsferðum, taumlausu stóðlífi og guðlasti? Örvæntið eigi. Hinar geysivinsælu syndaaflausnir nú loks fáanlegar aftur eftir langt hlé. Komið og iðrist gjörða ykkar, það er aldrei of seint. Aðeins 9.999 kr., afgreitt bakvið predikunarstólinn í Urðakirkju. Fullum trúnaði heitið. Já einmitt, trúlegt.

Einar Jósepsson

Tilvitnun dagsins:

Allir: DÍSES KRÆST!!!

Orðin afsakandi

Fyrirgefanlegu lesendur.

Nú spyrja sig eflaust einhverjir þeirrar spurningar. Hvers vegna í ósköpunum gat ég ekki hundskast til að setjast niður fyrir lifandi löngu og deila hugleiðingum mínum með ykkur lesendum í hnyttinni bloggfærslu? Góði besti, það hefur nú aldrei gerst. Jæja þá, en af hverju að þegja svo vikum skiptir? Og eiga það á hættu að verða sviptur himinháum listamannalaunum fyrir vikið? Fyrir þessari löngu þögn eru margar mismunandi, misgóðar og mistrúverðugar ástæður sem full ástæða er til að fara á mis við en verður nú engu að síður gerð grein fyrir. Þið ráðið svo alveg sjálf hverju þið trúið. Já einmitt, trúlega.

1. Ég hef ekki getað bloggað af því að það er búinn að vera svo mikill kuldi og vosbúð allan marsmánuð. Þar af leiðandi hafa bæði tölvan og bloggið verið frosin. Það verður ekki á allt kosið, enda frosið en ég get samt ekki verið í síma að ríma í tíma og ótíma. Loksins kom þíða og jafnvel blíða en þá voru svo margir uppteknir við að ríða og skíða. Takk fyrir þíðinguna en um þýðingu og talsetningu sá Veturliði Guðnason.

2. Ég hef ekki getað bloggað af því að ég var settur sáttasemjari í deilu Eflingar við SA þarna um daginn og var illa settur í kjölfarið. Lengi vel stefndi í óefni en þó komst loks skriður á viðræðurnar þegar samninganefndirnar funduðu sitt í hvoru lagi, það er að segja lokuðu sig af í sitt hvoru herberginu og töluðu við sjálfa sig en ekki hvora aðra. Þegar nefndirnar settust aftur sitt hvoru megin við sama samningaborðið fór allt í bál og brand. Allt útlit var fyrir að setja þyrfti lög á verkfallið og var þá verið að hugsa um nokkur vel valin júróvísjónlög sem hafa oft á tíðum sameinað stríðandi fylkingar og jafnvel þjóðina alla. Ég sá fyrir mér að klára deiluna hægt og hljótt með því að taka lítil skref og funda um nætur en niðurstaðan núna hlaut auðvitað að verða nei eða já, sama hvað þú og þeir segja. Málinu lauk með miðlunartillögu sem var samþykkt með semingi í símakosningu. Tillagan hlaut 8 stig frá Eflingu, 10 stig frá SA en 12 stig frá hlutlausri dómnefnd. Þá veistu svarið. Síðan kjaraviðræðum lauk hefur verðbólgan bólgnað úr hófi fram og raunar svo mjög að allar forsendur áður gerðra kjarasamninga eru brostnar. Þá þarf auðvitað að setjast niður aftur og hækka launin meira sem aftur á móti hækkar kostnað fyrirtækja og atvinnurekenda sem hækka þá verðið til að viðhalda góðri arðsemi – sem tekur í pyngju launþega sem þurfa þá að semja um hærri laun. Þá þarf auðvitað að setjast niður aftur og hækka launin meira sem aftur á móti hækkar kostnað fyrirtækja og atvinnurekenda sem hækka þá verðið til að viðhalda góðri arðsemi – sem tekur í pyngju launþega sem þurfa þá að semja um hærri laun. Svona gæti ég haldið áfram í allt kvöld og ætti raunar að gera það í þágu þjóðarhags. Þeir sem vilja geta skipt yfir á RÚV 2 en hinir mega halda áfram hér. Það eru jú ekki mikið fleiri rásir í boði.

3. Ég hef ekki getað bloggað vegna þess að ég þurfti að gera ársreikning fyrir Ungmennasamband Eyjafjarðar. Sem gjaldkeri hugsaði ég mér gott til glóðarinnar að losna nú loksins úr embættinu með því að gera ársreikning sem sýndi algjört mettap og fjármálaóreiðu. Að vísu hafði tapið legið lengi í loftinu, enda hefur kostnaður vegna aldarafmælis sambandsins verið fyrirséður í um 100 ár en það er önnur saga. Eftir að hafa ráðfært mig við baklandið og tekið samtalið við grasrótina sá ég þó þann eina kost að axla ábyrgð og neita að segja af mér sem gjaldkeri heldur bjóðast til að halda áfram og vinna á breiðum grundvelli þvert á flokka. Helstu rökin voru auðvitað sú að einhvern þyrfti til að hreinsa upp skítinn og að enginn væri betur til þess fallinn en sá sem skeit í upphafi. Nákvæmlega eins og fyrir tveimur árum. Heyra mátti saumnál detta þegar gjaldkeri las upp ársreikninga á ársþingi UMSE í Árskógi og spennan var ekki bara í hárinu heldur lá hún einnig í loftinu. Enginn baulaði, enginn klappaði og enginn gerði athugasemd heldur sátu þingfulltrúar og störðu á ræðupúltið eins og naut á nývirki. Gjaldkerinn var endurkjörinn og allir lifðu hamingjusamir til æviloka, nema hugsanlega gjaldkerinn.

4. Ég hef ekki getað bloggað vegna þess að John Deere dráttarvélin fór ekki í gang. Þegar frostið hafði verið um og yfir 10 stig í fleiri sólarhringa sagði Jón Dýri hingað og ekki lengra og steinstoppaði í miðri heimreiðinni á Urðum. Urðum við að gera eitthvað í því? Já auðvitað. Kalli á Hóli dró vélina úr alfaraleið og mælti um leið með undraefni sem fengist í Motul og myndi duga til að brenna burtu vatnið úr olíuleiðslum vélarinnar og hreinsa pípurnar. Ég keypti undraefnið í lítravís og dældi því bæði á dráttarvélina, bílinn og sjálfan mig. Allt hefur gengið smurt síðan. Eins gott að það er til nóg af Costco klósettpappír í Víkurkaupum á Dalvík. Sjitt.

5. Ég hef ekki getað bloggað vegna heimsmeistaramótsins í Brús sem Ungmennafélagið Þorsteinn Svörfuður stóð fyrir. Spilað var um hin virtu alþjóðlega verðlaun Gullkambinn og var gríðarlega hart barist. Nokkuð var um klórningar, jananir, voganir og uppbeiðsli og stundum hélt kolur slag. Þegar spurt var að leikslokum kom í ljós að liðið Atgeir hafði sigrað og þá þurfti ekki að spyrja að leikslokum. Jú reyndar. Æi þið vitið hvað ég á við.

6. Ég hef ekki getað bloggað vegna tímaskorts. Fyrst slítur vinnan mann í sundur og svo slítur hún í sundur fyrir manni daginn og svo er það sjálfboðavinnan sem getur tekið drjúgan tíma einnig. Nýjasta dæmið er auðvitað þegar Höfðinn var leigður út til menntaskólanema sem þökkuðu fyrir sig með því að brjóta eldhúskranann. Enginn húsvörður er á Höfða í fullu starfi, aðeins húsnefnd full í starfi og framkvæmdanefnd á fullu í starfi og öðrum störfum. Húsnefnd og framkvæmdanefnd funduðu um eldhúskranann og hvort hægt væri að fá vaskinn endurgreiddan en það reyndist vera í lagi með vaskinn, það voru bara blöndunartækin sjálf sem tjónuðust. Húsnefnd keypti ný blöndunartæki í Víkurkaupum og nú er beðið eftir því að húsnefnd og framkvæmdanefnd nái saman um uppsetningu nýs eldhúskrana þannig að áfram verði hægt að leigja Höfða út með góðri samvisku. Auðvitað fer dýrmætur bloggtími í þetta allt saman. Ég er þó búinn að fyrirgefa menntskælingum eldhúskranabrotið enda var um fyrsta brot að ræða.

7. Ég hef ekki getað bloggað vegna þess að ég komst í tilfinningalegt uppnám og varð orða vant yfir vantrauststillögu stjórnarandstöðunnar á Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra. Á Alþingisrásinni í sjónvarpinu, sem fer að verða eina virka innlenda sjónvarpsrásin fyrir utan RÚV, sameinast svæsið raunveruleikasjónvarp, hægvarp, andvarp, æðarvarp, kúluvarp og illa skrifuð sápuópera í einn graut. Grauturinn sýður svo upp úr reglulega og breytist í einn kekkjóttan viðbrenndan klump þannig að úr verður hin besta skemmtun fyrir áhorfandann. Raunar ætti að gera Alþingisrásina að læstri sjónvarpsstöð og innheimta gjald af áskrifendum til að standa straum af vantraustskostnaði skattgreiðenda ár hvert.

8. Ég hef ekki getað bloggað vegna þess að mig skorti orð og skorti setningar sem ekki er nú þegar búið að bera á borð fyrir lesendur oftar en góðu hófi gegnir. Ég ætlaði að fá nýjustu og fullkomnustu gervigreind sem völ er á til að skrifa bloggfæsluna fyrir mig því það sér jú enginn muninn á gervi og raunveruleika lengur. Gervigreindin neitaði hins vegar að taka til við bloggskrif af ótta við að bíða álitshnekki ef þetta kæmist upp.

9. Ég hef ekki getað bloggað vegna þess að ég var í sigurvímu eftir 7-0 sigur karlalandsliðs okkar í knattspyrnu gegn Lichtenstein. Aldrei hefur landsliðið okkar unnið jafn stóran sigur í keppnisleik og því ástæða til að fagna þessu vel, ekki síst þegar horft er til þess að við erum smáþjóð norður í ballarhafi og raunar hrein heppni að hér sé hægt að leggja stund á knattspyrnu yfir höfuð. Það kom mér því nokkuð á óvart þegar þjálfari landsliðsins var rekinn nokkrum dögum eftir þennan glæsta sigur. Það er ekki einu sinni víst að 8-0 sigur hefði bjargað honum úr Vanda. Nú er þeim möguleika velt upp að ráða einn allsherjarþjálfara sem geti þá bæði sinnt þjálfun karlalandsliðsins í handbolta og karlalandsliðsins í fótbolta. Góð hugmynd sem fellur raunar vel að markmiðum ríkisstjórnarinnar um sparnað og sameiningar í opinbera geiranum eins og kemur fram í nýbirtri fjármálaáætlun. Stefnan er sett á að handbolta- og fótboltaliðið geti komist að nýju í fremstu röð og spilað fyrir troðfullri þjóðarhöll um leið og hún rís, sem verður líklega haustið 2042.

10. Ég hef ekki getað bloggað vegna þess að ég hef verið of upptekinn við að tína til afsakanir fyrir því að blogga ekki. Vá djúpt.

Bloggsins brim á svorfnum klettum lendir
bloggarinn í djúpa vísu hendir.
Þrasið þagnar, fólki er ei um sel
þögnin fer mér óskaplega vel. 

Þess má til gamans geta að lóan kom 26. mars en fór aftur 28. mars. Það gengur bara betur næst.

Einar af sakandi.

Tilvitnun dagsins:

Allir: REKINN!