Orðin eftir á

Góðir Íslendingar.

Hæ hó og jibbí jei, það er kominn 17. júlí. Í tilefni þess að nú eru áttatíu ár og einn mánuður liðin frá stofnun lýðveldisins Íslands er við hæfi að forneskjulegasta bloggsíða lýðveldissögunnar láti á sér kræla, fjallkallinn Einar Haf íklæðist skautbúningi og skrúfi frá fagurgalanum og hátíðarhjalinu sem nóg er til af á lager. Er hægt að virkja þennan fagurgala? Nei hann er friðaður, alveg eins og meiriparturinn af landi míns föður þó það sé laugað bláum straumi.

Bíddu nú við, var ekki haldið upp á þjóðhátíðina 17. júní ? Jú en það voraði bara svo seint í Svarfaðardal þetta vorið að ég er mörgum vikum á eftir – og var ef til vill ekki á það bætandi.

Góðir landsmenn. Þau áttatíu ár og eini mánuður sem liðin eru frá lýðveldisstofnun hafa svo sannarlega ekki verið dans á rósum og oftar en ekki hafið þið landsmenn góðir þurft að súpa seyðið af því. Þú segir ekki. Þó ég komi af fjöllum sem fjallkall þá veit ég þá staðreynd manna best að hér hafa allra handa hörmungar, hrun, óveður, mannskaðar, áhrifavaldar, plágur, aflabrestir, hallæri, verðbólgur, grátur og gnístran tanna dunið yfir og valdið árlegum búsifjum. Þá er nú gott að berja fjallkallinn……augum, hlýða á fagurgalann og hátíðarhjalið og fyllast bjartsýni og stolti.

Það hefur ýmislegt breyst á áttatíu árum og einum mánuði. Þjóðfélagsgildin hafa breyst. Ferðamannafjöldinn hefur breyst. Tölvutæknin hefur breyst. Samgöngur hafa breyst. Veðurfarið hefur breyst. Heimsmyndin hefur breyst. Já já, bla, bla, þetta vita nú allir. Væri ekki fljótlegra að telja upp það sem hefur ekki breyst? Upptalningablæti bloggarans Einars Haf hefur ekki breyst, óblíð náttúruöflin hafa ekki breyst og þá hefur ósnortin náttúra ekki breyst og er ég ósnortinn vegna þessa. Óttaleg froða er þetta, ef ég væri þið þá myndi ég nú bara gelda…….varhug við því sem fjallkallinn heldur fram. Best að drepa….þessu á dreif og fjalla um eitthvað annað.

Pollamótið á Akureyri stóð svo sannarlega undir nafni þetta árið, enda pollar úti um allt vegna sudda og rigningar. Ingó Veðurguð, Páll Óskar og Blaz Rocca skemmtu gestum eins og árið væri 2008, ég skoraði með vippu eins og árið væri 2004 og síðan fór ég með gamanmál á lokahófi Umf. Óþokka eins og árið væri 1987. Gamalt grín er líka grín og þar af leiðandi sé ég ekki eftir neinu.

Heyskapur í Svarfaðardal er nokkru seinna á ferðinni en oft áður en þó alls ekkert út úr korti. Altjón og kaltjón á túnum hefur valdið verulegum skaða hjá mörgum og uppskera rýr sökum þessa. Ég er ekki hlessa. Nýræktir og rennisléttir blettir áttu að koma grænir undan snjó en komu annað hvort gulir, gráir, hvítir eða alls ekki undan snjó. Flestir hinna dauðu bletta hafa verið plægðir og ísáðir á ný utan fótboltavöll Ungmennafélagsins Þorsteins Svörfuðar við Rima. Sá blettur er jafn steindauður og líflaus og hann var fyrir mánuði síðan en þó hefur þar verið leikin knattspyrna af miklum móð eins og ekkert væri sjálfsagðara. Vallarvörður (sem er varla vörður) segir að hér sé um nýstárlega tilraun að ræða með svokallað hybrid gras, þ.e. gras sem er alvöru gras en samt gervigras. Á Urðum hefur ekki þurft að plægja eða ísá þar sem tún hafa komið tiltölulega vel undan svellavetrinum mikla. Brattar og hallandi grjóturðir kalla ekki allt ömmu sína og kala síður en flatar nýræktir og þess vegna er það svo þetta árið að ósléttustu og grýttustu túnin eru jafnframt bestu túnin. Öðruvísi mér áður brá.

Talandi um halla. Halla Tómasdóttir var í síðasta mánuði kjörin forseti Íslands. Næsta verk þingmanna verður að húrrahrópa fyrir nýkjörnum forseta í Alþingishúsinu við hátíðlega athöfn og þá verður nú glatt á halla….hjalla.

Við þinglok voru gerðar fjölmargar lagabreytingar og þá þurfti líka að laga breytingar sem gerðar höfðu verið á áður löguðum lögum og breyta þeim. Hver var fenginn til að laga breytingarnar? Veit ekki.

Tuðrusparkarar og íþróttabullur hafa nú lagt undir sig Ríkisútvarpið og riðlað allri dagskrá vegna eigin hagsmuna. Evrópumótið í fótbolta er nýafstaðið en þar var það helst riðlakeppnin sem náði að riðla keppninni og riðla dagskránni. Ólympíuleikarnir í París eru svo handan við hornið og þá er nú einnig heldur betur von á riðlun – sérstaklega í rómverskri glímu. Ákveðið var að í sumar skyldi Ríkisútvarpið bara segja gamlar fréttir og því hafa sjöfréttir breyst í níufréttir en samt eru þar sagðar fréttir sem voru nýjar klukkan sjö. Ertu að tala um nýju fréttirnar? Nei, níufréttirnar. Já einmitt.

Á Ólympíuleikunum munu Íslendingar taka þátt í nokkrum keppnisgreinum og mun að líkindum nást góður árangur sökum hagstæðrar höfðatölu. Að afstöðnum ólympíuleikunum fer svo fram ólympíumót fatlaðra venju samkvæmt og þar má einnig gera ráð fyrir góðum árangri Íslendinga. Í því samhengi eru sérstaklega nefndar íþróttagreinar á borð við hnútukast siðblindra, 400 metra gönuhlaup og 50 kílómetra göngu með frjálsri aðferð – en Íslendingar hafa þróað ákveðinn stíl í þeirri grein sem gengur út á að draga lappirnar en halda samt jöfnum hraða út í gegn.

Kallinn var kenndur við fjall
og kveðskapur þar upp úr vall.
Ég víst stefn'á verðlaunapall
og vonandi uppsker þá skjall.

Þetta var ekki nógu gott en bíðið bara – lengi getur vont versnað.

Einar varla fjallkall.

Tilvitnun dagsins:

Allir: Hættu með þessar tilvitnanir!!!

Orðin upp frá dauðum

Lesendur?

Nei varla. Það skiptir samt engu máli. Það sem mestu máli skiptir er endurkoma Einars Haf inn á ritvöllinn, óforskammaðri, óhamingjusamari og illa innrættari en nokkru sinni fyrr. Hvers eiga lesendur að gjalda? Gott þú spurðir. 5.990 kr. plús vsk. og seðilgjald. Ef einhver sofnar leggst gistináttaskattur ofan á.

Síðan ég bloggaði síðast hefur eitt og annað fréttnæmt átt sér stað. Til að mynda hélt ég eitt stykki tvenna karlakórstónleika í Dalvíkurkirkju. Allt í lagi – ég hélt ekki tónleikana en ég átti samt hlut að máli, eða öllu heldur átti ég hlut að fyrsta tenór. Það fór þó aldrei svo að fólk þyrfti að borga fyrir að heyra mig syngja. Ekki mig beint en ég átti samt hlut að máli, eða öllu heldur átti ég hlut að fyrsta tenór. Já þú varst búinn að segja það. Var ég búinn að því? Ekki ég beint en ég átti samt hlut að máli, eða öllu heldur átti ég hlut að fyrsta tenór. Æi þetta þýðir ekkert, næsta mál takk.

Lögmálið um framboð og eftirspurn gildir á mörgum sviðum en það gildir hins vegar ekki um bloggsíðu Einars Haf. Það gildir heldur alls ekki þegar horft er til forsetakosninganna, sem fyrirhugaðar eru 1. júní næstkomandi. Offramboð er af frambjóðendum, sem hafa aldrei verið fleiri en því miður fyrir þá verða þeir ekki allir kosnir því ekki verður á allt kosið og ekki verða allir kosnir. Hver mun enda sem forseti? Bíðið aðeins meðan ég hlunka mér á for-setuna og hugsa málið.

Katrín hefur úti klær
og klókar Höllur báðar tvær
kjósendurna góma.
Steinunn Ólína er fær
og innilega Jón Gnarr hlær
Baldur borðar rjóma.

Viktor eða Ásdís Rán
og enginn getur verið án
Eiríks, hvað þá Helgu.
Arnars þokki þykir lán
Ástþór flaggar friðarfán
a - en ég fæ velgju.

Já ég veit, þetta var kannski ekki alveg nógu gott. Sem er einmitt nýtt slagorð bloggsíðu Einars Haf.

Ef mig vantar segla á ísskápinn, fer ég þá í Seglagerðina? Bara pæling.

Sjálfur er ég varamaður í kjörstjórn Dalvíkurbyggðar en ég veit ekki hve lengi það mun vara. Nú eru teikn á lofti um að ég muni koma inn af varamannabekknum og taka sæti sem aðalmaður fyrir forsetakosningarnar – það er að segja svo lengi sem landskjörstjórn og yfirkjörstjórn lesa ekki þessa bloggsíðu og kippa mér úr umferð á grundvelli almannahagsmuna. Hvað felst svo í því að vera aðalmaður í kjörstjórn? Það er nú ýmislegt. Til dæmis fæ ég að taka út kjörklefana. Af hverju ætti samt að taka út kjörklefana þegar það er nýbúið að setja þá upp, inni? Ruglingslegt. Þá er einsýnt að ég fái að njóta umtalsverðra matar- og kaffiveitinga á kostnað útsvarsgreiðenda en að mínu mati er þeim peningum vel varið. Ofan í kaupið fæ ég að geifla mig og gretta framan í kjósendur þegar þeir mæta á kjörstað, sem er engin kjörstaða fyrir kjósendur. Hugsanlegt er talið að utankjörfundaratkvæðum fjölgi verulega þegar þetta spyrst út.

Það kemur fyrir stöku sinnum að ég er beðinn um að koma fram og fara með fleipur, undir því yfirskyni að um gamanmál sé að ræða. Varla þarf að taka það fram að í þau fáu skipti sem nærveru minnar er óskað sem skemmtikrafts er það iðulega í gegnum frændhygli og klíkuskap. Eitt þessara skipta var nú nýverið þegar Kristján föðurbróðir minn bað mig um að koma á Lionsfund og fara með gamanmál. Ég samþykkti það auðvitað, enda var það tekið skýrt fram að það væru veitingar á fundinum. Að kveldi fundardags var ég auðvitað með allt lóðbeint niður um mig, sveittur, vansvefta og ekki búinn að klára að skrifa það sem ég ætlaði að segja. Það gekk þó ekki að mæta alltof seint því þá myndi ég missa af því að fá að trana mér fram. Ég hljóp því út í bíl, sem stóð í halla aldrei þessu vant og opnaði bílstjórahurðina annars hugar. Ekki vildi betur til en svo að hurðin opnaðist beint á kjaftinn á mér, þökk sé afstöðu bílsins, þannig að skarð kom við annað munnvikið og blóðbragðið lék um tunguna. Auk þess bólgnaði efri vörin hægra megin samstundis, þannig að engu líkara var en ég hefði verið byrjaður að fá mér fylliefni í vör samkvæmt forskrift Ásdísar Ránar – en snúist hugur og hætt við á miðri leið. Þarna varð ég fyrsti maðurinn sem vitað er til að hafi lent í árekstri við eigið ökutæki, án þess að ökutækið væri í gangi og án þess að nokkur væri um borð í ökutækinu. Varla þarf að taka það fram að ég þurfti ekki að segja neitt á Lions fundinum, fundargestir skelltu upp úr við það eitt að sjá mig.

Svarfdælska vorið er í kaldara lagi og gróður lítt tekinn að lifna við eftir klakabunka og kuldasvelju vetrarins. Allt er seinna á ferðinni nú en í fyrra, meira að segja þessi bloggfærsla. Í eðlilegu árferði hefði þessi bloggfærsla verið fyrir tveimur eða þremur vikum síðan en því er ekki að heilsa þetta árið. Ekki er að fullu komið í ljós hvaða tún verða dauðkalin eða ekki dauðkalin og þá er ekki vitað hvaða túnbleyta mun á endanum þorna og hvaða túnbleyta er komin til að vera í sumar. Hér á bæ er að byrja að koma grænn litur á hin harðgerðu og grýttu tún og þá er torfan í kirkjugarðinum tekin að grænka. Þó það nú væri.

Og þá að stóra vallamálinu. Valla? Varla. Glæsivöllur við félagsheimilið Rima er alls ekki grænn þessa dagana. Lengi vel var hann skjannahvítur, síðan svellgrár en þegar þetta er ritað er hann gulur. Stjórn Ungmennafélagsins Þorsteins Svörfuðar hyggst funda um ástand vallarins en það eru nokkrir möguleikar í stöðunni.

  • Sá fræi í frjóan svörð og vona það besta.
  • Plægja völlinn og setja niður fóðurkál eða kartöflur.
  • Semja við verktaka og breyta vellinum í malarvöll.
  • Kaupa malbik og breyta vellinum í flugvöll.
  • Kaupa græna málningu og mála völlinn grænan.
  • Spóla til baka um 20 ár og færa fótboltaæfingar sumarsins fram á Flötutungur – sem eru allt annað en flatar.

Ekki er vitað hvað verður ofan á en ljóst er að það verður völlur á stjórn félagsins þegar ákvörðun liggur fyrir.

Stundum er krísa og kal í túnum
kuldi og vosbúð og lítið í kúnum.
Spurningu þeirri svarað skal
skyld'aftur koma vor í dal?

Um síðir taka að grænka tún 
og trúlega lyftist á bændum brún.
Æðri völd hafa ei um það val
það mun aftur koma - vor í dal.

Rétt er að minna á að ef þú vorkennir ekki sjálfum þér, hver á þá að gera það?

Einar á ný.

Tilvitnun dagsins:

Allir: HALLÓ EINAR!!!

Orðin almáttug

Krossóttu lesendur.

Já mikið ofboðslega er þetta nú allt sorglegt. Tárin streyma niður kinnar lesenda og sorgin heltekur hug og hönd nú þegar það er lýðnum ljóst að bloggarinn Einar Haf er ekki dauður úr öllum æðum eins og getgátur höfðu verið uppi um heldur er hann nú upprisinn, upptrekktur og uppveðraður. Gat nú skeð að þetta myndi gerast á lengsta og sorglegasta degi ársins. Varla var á það bætandi, Jesús Kristur. Ótrúlega sorglegur þessi gaur. Jesús? Nei, Einar Haf auðvitað.

Af hverju þarf þetta að vera svona sorglegt? Nú auðvitað af því að það stendur í Biblíunni. Jesús var krossfestur á föstudaginn langa en reis svo á þriðja degi aftur upp frá dauðum – enn eitt kraftaverkið í langri röð kraftaverka sem frelsarinn framkvæmdi á sinni tíð. Hvaða lærdóm má draga af þessu? Til dæmis þann lærdóm að áður en það er hægt að hafa gaman þarf stundum að hafa pínu leiðinlegt. Upp upp mín sál og allt mitt geð, upp mitt hjarta og rómur með. Hugur og tunga hjálpi til, herrans pínu ég minnast vil. Ég vildi s.s. bara minnast herrans pínu, ekki mikið. Vá, ekkert smá sorglegt.

Líkt og Þorgeir Ljósvetningagoði forðum liggja nú fjölmargir undir feldi og velta vöngum yfir því hvort einmitt núna sé rétti tíminn að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Eins og staðan er í dag er mun meira framboð af forsetaframbjóðendum heldur en eftirspurn en að vísu hafa sumir farið óvart í framboð – eins og gerist. Sjálfur nýti ég þessa páska eins og alla aðra páska til íhugunar, meðal annars um forsetaembættið. Þar leita ég bæði inn á við og út á við með það markmið að öðlast frið. Vá þetta rímaði. Það er af litlu að taka þegar horft er inn á við enda er ég lítill í mér en af nógu er að taka út á við enda holdmikill og vel á annað hundrað kíló fullklæddur. Varla þarf að taka fram að ég er reiðbúinn að vinna á þverpólitískum grundvelli og taka samtalið við grasrótina, að öðrum kosti reyki ég grasrótina. Það þarf heldur varla að taka það fram að enn sem komið er hefur enginn komið að máli við mig og ég hef ekki fengið neina hvatningu eða áskorun af nokkru tagi um að bjóða mig fram. Engu að síður ber ég hag landsmanna fyrir brjósti og því íhuga ég alvarlega að halda blaðamannafund á heimili mínu fljótlega, með leyfi mömmu og pabba, til að ræða við fjölmiðla um embætti forseta Íslands. Ætla ég sem sagt að bjóða mig fram? Nei, ég ætla að ræða um embætti forseta Íslands; sem þýðir að fara yfir stjórnskipun landsins, lesa upp 26. greinina, útskýra málskotsréttinn og enda svo á bubblum og brauðréttum. Myndu einhverjir blaðamenn mæta á þennan fund? Tja, ég reikna fastlega með fulltrúum Norðurslóðar, DB blaðsins, Andrésar Andar, Húsfreyjunnar og Lifandi vísinda, það er að segja ef ég borga nógu mikið. Vá, ekkert eðlilega sorglegt.

Hvað er annars að frétta af hinum kristnu kaupsýslumönnum? Kannski það helst að Landsbankinn keypti Tryggingamiðstöðina, til húsa að Golgötu 7, en gleymdi að skoða eigendastefnuna og láta eigendur sína og yfirboðara vita. Þetta gerðist áður en haninn gól þrisvar þó svo að bankaráð hafi afneitað því tvisvar. Eða var það öfugt? Tilgangur kaupanna mun vera sá að græða meiri peninga en það virðist hafa komið ótrúlegasta fólki algjörlega í opna skjöldu. Ótrúlegt að banki ætli sér að stækka og græða meira, það er galið. Það felast reyndar líka annars konar tækifæri í þessum kaupum. Ég held að það muni koma mjög vel út að viðskiptavinir bankans geti átt þess kost að tryggja sig fyrir of háum þjónustugjöldum og of háum vöxtum um leið og þeir eiga viðskipti við bankann. Hafa ráðherra bankamála, bankasýsla, bankaráð og Pontíus Pílatus bankastjóri keppst við að þvo hendur sínar af málinu með grænsápu og sterkum hreinsiefnum en allt hefur komið fyrir ekki og ljóst að lortarnir leynast víða. Óttalegt væl er þetta. Ég meina, hver hefur ekki lent í því að fara í búðina og kaupa eitthvað án þess að það hafi verið á innkaupalistanum? Ofboðslega er þetta sorglegt.

Nýverið tókst óprúttnum náungum að stela peningatöskum sem öryggisverðir Happadrættis Háskólans gættu, um hábjartan dag. Ekki er ljóst hvort um var að ræða óánægða miðaeigendur eða einhverja sem gleymdu að endurnýja fyrir síðasta útdrátt en sama hvort er er ljóst að svikin eru veruleg. Ekki er vitað hversu mikið Júdas og vitorðsmaður hans höfðu upp úr krafsinu en það voru að minnsta kosti 30 silfurpeningar. Það er reyndar frekar sorglegt.

Happadrætti Háskólans? Ekki DAS? JÚ….DAS!? Annað var það ekki. Sorglegt.is.

Líkt og stundum áður var messað í Urðakirkju að kveldi Skírdags. Eftir leiðindaveður og snjókomu undanfarið var síður en svo greiðfært upp að kirkjunni þegar messudagurinn rann upp. Eftir að hringjari og sláttumaður kirkjunnar hafði barist gegnum harðfennið með álskóflu úr Víkurkaup þótti sýnt að ekki næðist að gera messufært í tíma, enda var búist við hátt í tug gesta. Var því ræstur út verktaki á risastórri gröfu svo hreinsa mætti fönnina af Guðs vegum. Í veröld eru margir stígir hálir og það gilti svo sannarlega um stíginn sem Maggi verktaki mokaði upp að kirkjunni. Máttu klerkur, kór, organisti og kirkjugestir hafa sig alla við að standa í lappirnar á svellbunkunum til og frá kirkju en allt hafðist það með Guðs blessun. Af messunni sjálfri er það helst að frétta að sett var nýtt svarfdælskt met í 60 metra altarisgöngu með frjálsri aðferð þar sem séra Erla bauð oflátur og Steinunn sóknarnefndarformaður fylgdi með blóð Krists, bikar lífsins í kjölfarið. Fyrra metið var 18,96 sekúndur en nýja metið er 14,85 sekúndur og verður erfitt að bæta það. Hversu sorglegt?

Á páskunum ég pæli í 
að plana framboð, út af því
að kjósendur mig vilja.
Launahækkun langar í
og löng og fokdýr helgarfrí
það allir hljóta að skilja. 

Þessi páskahugvekja var í boði Biskupsstofu, Límtré vírnets, Golgata tannkrems og Smíðaverkstæðis Jóseps ehf.

Einar í kross.

Tilvitnun dagsins:

Allir: JESÚS KRISTUR!!

Orðin endurkomin

Góðir lesendur.

Eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir hefur verið fremur lítið umleikis hér á bloggsíðu Einars Haf það sem af er árinu 2024. Ástæðan er auðvitað sú að ég hef legið orðlaus í andakt, stjarfur og starandi undir þykkum feldi allar götur síðan Guðni Th. forseti Íslands tilkynnti alþjóð á nýársdag að hann hygðist ekki sækjast eftir endurkjöri sem forseti Íslands. Þetta er hugsanlega sama herkænska og ég beitti um árið þegar ég sagðist ekki sækjast eftir endurkjöri sem gjaldkeri Ungmennasambands Eyjafjarðar en var engu að síður kosinn rússneskri kosningu sem slíkur skömmu síðar. Ef ég tilkynni um framboð til forseta mun ég gera það 1. apríl, þá verður engin leið að vita hvort ég sé að plata eða ekki.

Talandi um að plata. Nú er búið að þreyja Þorrann og þá þarf bara að þreyja Konudaginn og Góuna og lönguföstuna og páskana og það allt saman. Tiltölulega stutt er síðan Svarfdælingar blótuðu Þorrann með miklum tilþrifum á Rimum. Ég og félagar mínir í þorrablótsnefnd stóðum þar fyrir afar bleikri skemmtun og var bleik þá brugðið. Brugðið var á (b)leik í annálnum og þar var komið víða við í þeim tilgangi að níða skóinn af sveitungunum. Fyrst þurfti þorrablótsnefnd þó að níða skóinn af sjálfri sér.

Nefndarvísur 2024

Fyrir þessu flestir hafa kviðið
að fá allt nefndarfólkið uppá sviðið,
því förum við með bæn og blessum okkur
er birtist þessi skringilegi flokkur.

Bryndísi finnst Skíðadalur fagur
og fram á Þverá er víst alltaf Dagur.
Eftir áratug af þessu og hinu
þau elda loks í nýja eldhúsinu.

Í Böggvisbraut þau dýrka mest að dvelja,
doldið skrítið myndu sumir telja.
Snæþór er sá svalasti í bænum
hann sinnir bæði Anítu og hænum.

Nú væri kannski ráðleg klósettpása
enda koma næst þau Trausti og Ása.
Fjöld‘í Hofsárhirð með mesta móti
sirka hundrað manns á þessu blóti.

Anítu og Jón við þykjumst þekkja
þau kunningja og vini vilja hrekkja.
Þið skuluð ei við öllu frá þeim gleypa,
því aðalvinna þeirra er að steypa.

Það þykir bæði sorglegt mjög og skrítið
hvað skömmin Einar þroskast hefur lítið.
Konulaus og kauðskur húkir heima
eins og kattaróféti að breima. 

Dómhildur í Klaufabrekknakoti
stofu sína klauf í óðagoti,
um náungana glúrin veit hún gommu
já þið skuluð gæt‘ykkar á Dommu.

Hér er nefndin keik og kát með braginn
og klár á því að gangi allt í haginn.
Að lokum kemur annað ei til mála
en öskra GAMAN hátt og síðan skála.

Talandi um gaman. Annállin hófst á frásögn af eldhúsframkvæmdum á Þverá í Skíðadal en eldhúsframkvæmdirnar hafa komið við sögu í öllum svarfdælskum þorrablótsannálum undanfarinn áratug eða þar um bil. Nú bar svo við að þau Dagur og Bryndís á Þverá voru sjálf í þorrablótsnefnd og því var ákveðin pressa á þeim að loka málinu. Með hjálp þorrablótsnefndar tókst það eins og kom fram í söng Jónasínu Soffíu frænku í Klaufabrekknakoti….

Ja fussum svei ja fussum svei
mig furðar þetta dót.
Það er ekki séns 
að þetta klárist fyrir blót.
Flestir hlutir ósamsettir
stólar, bekkir, borð.
Já eldhúsið er allt í rúst
ég á bara ekki orð!

Bryndís kennir börnunum
en Dagur bætir hjól,
ekki veit ég hvar
þau ætla að elda þessi jól.
Annál eftir annál bíð
en enga sé ég efnd.
Ef verkið á að vinnast þarf
að virkja þorranefnd!

Talandi um leirburð. Meðal þess sem flutt var í þorrablótsannálnum var látbragðsleikritið „Síðasti veiðifélagsfundurinn“ sem byggði á Gríms ævintýrum.

Við erum stödd á Rimum á dimmu nóvemberkvöldi. Boðaður hefur verið aðalfundur veiðifélags Svarfaðardalsár en því miður barst fundarboðið tveimur mínútum of seint í Mela, án umboðs. Það mátti öllum vera ljóst að þetta myndi setja fundinn og fundarmenn í uppnám enda flestir þeirra skapmenn og miklir áhugamenn um sköp…það er að segja fundarsköp. Fór þar fremstur í flokki maður að nafni Arngrímur á Melum, umboðsmaður Svarfdælska bleikjustofnsins. Segir nú frá fundinum.

Þrútið var loft og þungur sjór
er þungbrýndur á fundinn fór
Grímur lögspekingur.
Á umboðsleysi og yfirklór
skyld‘ann benda, þessum kór,
í regluverki slyngur.
 
Ársreikninga átt‘að sjá
veiðitölur skoða á skjá
skeggræða um afla.
Smurbrauðstertur skyldi fá
fólkið sem var fundi á
alveg heilan stafla. 

Kvenfélag fram kaffi bar
kökur voru tilbúnar 
en súrar urðu sneiðar. 
Arngrímur til máls tók þar
tætti í sig reglurnar -
en minntist hvergi á veiðar.

Sérhver gestur gáttaður
en Grímur fúll og geðvondur
á Rimum engin ást var. 
Burt af fundi formaður
flúði, sár og skúffaður
undir iljar sást þar.

Úr Arngríms skálum reiðin rann
réttlæti framfylgdi hann
og umboð vildi skoða.
Þegar engin umboð fann
innra bál í æðum brann
stefndi allt í voða. 

Upp í loft fór fundurinn
fuðruðu upp málefnin
lenti allt í straffi.
Þvinguð þótti stemmningin
þaut í burtu lýðurinn
og enginn fékk sér kaffi.

Í lok fundar vissi enginn hvort fundinum hefði lokið eða ekki. Enginn vissi
hver væri í stjórn og hver ekki og enginn vissi hver hefði umboð til að
úrskurða um það og hver ekki. Sem málamiðlun tók Gunnsteinn hennar
Dagbjartar á Sökku, hringjari í Vallakirkju og sóknarnefndarformaður, það að sér að stýra félaginu úr öldurótinu og koma því á lygnan sjó, líkt og Nói sigldi örkinni forðum með Guðs blessun. Sveinn hennar Steinunnar á
Melum keyrði á milli landeigenda í dalnum með bænaskjal sem hver og
einn skrifaði undir, með þá trú að málefni veiðifélagsins myndu blessast
undir styrkri stjórn hins útvalda Guðsmanns á Sökku. Á bænaskjalinu stóð meðal annars:

Lýs, Gunnsteinn minn
upp veiðifélagsstrand
mig glepur sýn
nú er það svart og ekki sést í land
ó hjálpin mín
drag mig á þurrt svo veitt ég fá‘á ný
ég lofa samt að sleppa aftur því.

Ég spurði fyrr, hvað hjálpa fundarhöld
og umboðsþras
mig skipti engu hver fór þar með völd
það allt var bras.
Ég elti fiska, þann þó sjaldan frið
uns fáráð bleikjan sættist Arngrím við.

Þrátt fyrir að vera síður en svo hlutlaus tókst þorrablótið afar vel. Að minnsta kosti samkvæmt mér. Mér vitandi fór enginn í fýlu, enginn sármóðgaðist og enginn afvinaði mig á facebook eftir blótið, þannig að það fór nú betur en á horfðist.

Talandi um á horfðist. Ha, það var enginn að tala um það? Nú jæja þá. Flestar fréttir hafa fallið í skuggann af þorrablótinu, svona ef þú spyrð mig – lesandi góður. Aðrar fréttir eru bara leiðindi, stríð, jarðhræringar og almennar hörmungar. Talandi um hörmungar. VR dró sig nýverið út úr kjaraviðræðum breiðfylkingarinnar svokölluðu við SA. Samninganefnd VR gat ekki sætt sig við forsendur forsenduákvæðis sem SA setti inn á sínum eigin forsendum en ég hef að vísu engar forsendur til að fullyrða neitt um það. Sérfræðingar telja að kjaradeilur muni halda áfram næstu vikur, sumir muni semja en aðrir semji ekki og að heilt yfir semjist fólki í samningabransanum ekki. Þú ert þá að tala um VR og SA? Já en líka ASÍ, BSRB, SVR, KFUM, UMSE, KPMG, LOL og GSM. Hver samdi þessa þvælu eiginlega? Allavega ekki ég.

Talandi um þvælu. Ef hin grænu orkuskipti eiga að fara fram hér á landi er ljóst að það þarf að virkja meira en ímyndunaraflið til að framleiða allt rafmagnið og allt stuðið sem á þarf að halda. Hins vegar má ekki virkja neitt án þess að allt verði brjálað. Það má ekki einu sinni virkja Bessastaði. Er það nokkuð Ástþór? Nei. Þegar ég hugsa málið þá hef ég reyndar virkjað eitt og annað nýverið án þess að því hafi verið mótmælt. Ég virkjaði rafrænu skilríkin hjá mér um daginn án þess að því væri mótmælt. Svo virkjaði ég aðgang inn á mínar síður hjá nokkrum fyrirtækjum og loks virkjaði ég sköpunarkraftinn til að skrifa þessa bloggfærslu en því var að vísu mótmælt nokkuð af lesendum eins og venjulega. Það gengur örugglega ekki betur næst.

Talandi um mótmæli. Töluverð mótmæli og miklar umræður hafa farið fram undanfarið um útlendingamál. Si? Njet. Ég veit ekki og þori ekki að hætta mér út í útlenska sálma enda vil ég ekki ala á úlfúð og andúð við útlendinga þar sem ég á nóg með að ala sjálfan mig. Íslendingar gera auðvitað sitt besta til að bjarga útlendingum sem búa í útlöndum hvar allt er í steik en ljóst er að það verður ekki öllum bjargað án þess að það verði á okkar eigin kostnað. Ég á erfitt með að spá í þessi mál en það lagast kannski ef ég fæ lánað föðurland hjá einhverjum – enda er enginn spámaður í eigin föðurlandi.

Undir háu hamrabelti
hundur karls í koti gelti
heimsins vanda upp ég velti
víst er margt sem miður fer.
Ódýrt leður er mitt belti
skrítlu las og upp úr skellti
brauðið brúnt er allt úr spelti
hausinn hylur koddaver. 

Þess má geta að lestur Passíusálmanna stendur yfir á Rás 1 þessar vikurnar en sálmarnir eru einnig aðgengilegir á streymisveitum – enda erum við að tala um lifandi brunn hins andlega streyms…meinti seims.

Einar Konur á Konudaginn.

Tilvitnun dagsins:

Allir: TALANDI UM ÞAÐ!!!

Ár við orðamót

Góðir landsmenn.

Það er góður og gamall siður, nánast skylda segja sumir, að staldra við nú um áramót og líta til baka yfir farinn veg. Ekki bara líta yfir farinn veg heldur góna yfir farinn veg og í einstaka tilfellum mæna yfir farinn veg. Þá er einnig gott að horfa um öxl, horfa reiður um öxl, henda reiður á öxl – það er að segja hvaða öxl það er sem verið er að horfa yfir. Svo má líka yppa öxlum ef á annað borð er búið að tékka á öxlunum og smyrja öxlana. Hvað með að líta í eigin barm? Æi má ég þá frekar biðja um að fá að líta á einhverja aðra barma. Hrifnastur er ég af barmi örvæntingar en það er annað mál. Þetta áramótaávarp er augljóslega ekki unnið með aðstoð gervigreindar. Til stóð að ávarpið yrði textað á síðu 888 í textavarpi en því miður varð að hætta við það vegna alvarlegrar bilunar. Ekki í textavarpinu heldur í höfundi ávarpsins. Það gengur bara betur næst.

Ágætu landsmenn. Náttúruöflin hafa minnt verulega á sig á árinu sem er að líða. Það er ósköp eðlilegt að þau skyldu minna á sig enda höfðu margir gleymt þeim. Þó að jarðskjálftar, eldgos, frost og fárviðri séu fréttaefni þá er fegurðin og ástin já og sólskinið hið rétta efni. Söngur um lífið, texti Þorsteinn Eggertsson? Já mér fannst þetta bara passa svo vel hér. Það er líka mjög algengt að það sé vitnað í kvæði og ljóð í svona áramótaávörpum. Til dæmis þetta kvæði hér. Nú árið er liðið í aldanna skaut og kýrin hún Skrauta eignaðist naut. Hmm…nei þetta var víst ekki rétta kvæðið. Jæja en hvað með það. Allar líkur eru á því að náttúran haldi áfram að láta okkur finna til tevatnsins árið 2024 en trúlega munu hinir náttúrulausu sleppa billega. Sjálfur er ég í brimvarnarbúningi í felum heima hjá mér, tilbúinn að hlaupa niður í kartöflugeymsluna og bíða af mér hörmungarnar.

Undurfögru landsmenn. Stríðsátök og styrjaldir áttu verulega sterka endurkomu á árinu sem er við það að springa í tætlur. Rykið var dustað af gömlum kreðsum og átökum austurs og vesturs og hergagnaframleiðsla stóð í miklum blóma. Mikið var að gera hjá öllum hjálparsamtökum og flóttamannabúðir voru því miður vinsælustu búðirnar enn eitt árið, rétt á undan fangabúðunum. Allar líkur eru á því að blóðsúthellingarnar og tortímingin haldi áfram árið 2024 hvað sem líður öllum ályktunum og samþykktum öryggisráða, allsherjarþinga og þjóðarleiðtoga. Sjálfur er ég áfram í felum heima hjá mér með rafvarnarbúnað íklæddur stingheldu vesti, tilbúinn að hlaupa út í hlöðu og bíða af mér hörmungarnar.

Yndisfríðu landsmenn. Íslensk þjóð er þrautseig þjóð. Hér hefur kynslóð eftir kynslóð þraukað gegnum aflabresti, kal í túnum, drepsóttir, plágur, hallæri, óblíð náttúruöfl, válynd veður, bloggfærslur Einars Haf og ýmsar aðrar hamfarir sem of langt mál væri að telja upp í stuttu áramótaávarpi. Þegar öll sund virðast lokuð og enga von að finna stígum við Íslendingar upp, bítum á jaxlinn og komumst í gegnum erfiðleikana með óútskýrða, innistæðulausa og óbilandi bjartsýni að vopni. Það munum við halda áfram að gera, enda engin ástæða til annars. Hvernig þá? Iss, það reddast. Þetta gildir þó ekki um mig því sjálfur er ég svartsýnn og vonlítill í felum heima hjá mér, tilbúinn að hlaupast undan merkjum og bíða af mér hörmungarnar.

Forkunnarfögru landsmenn. Íslenska sauðkindin heldur áfram að berjast í bökkum og þá er ég auðvitað að tala um alla matarbakkana sem innihalda gómsætt lambakjöt. Í gegnum aldirnar hefur sauðkindin haldið lífinu í hræddri þjóð á norðurhjara og mun gera það áfram, sérstaklega ef tekst að vinna bug á landlægri riðuveiki og tilheyrandi leiðindum. Það þurfti auðvitað lífstílsbónda til að ýta úr vör arfgerðargreiningum og ræktun kinda með verndandi arfgerðir gegn riðu en það hafði dýralæknum og spekingum Matvælastofnunar aldrei dottið í hug – enda hafa skoðanir þeirra og starfsaðferðir byggt á hinni síðklassísku dramakvikmynd Lömbin þagna. Ég er því miður ekki með neitt verndandi gen enn sem komið er og því kannski best að ég haldi mig í felum heima hjá mér, íklæddur sauðagæru og ullarsokkum, tilbúinn að hlaupa af mér hornin og bíða þannig af mér hörmungarnar.

Andlitsfríðu landsmenn. Ísland er fegursta land í heimi og íslensk orka er að öllum líkindum besta orka sem fyrirfinnst á byggðu bóli. Grænt rafmagn skoppar hjalandi í lækjarfarvegum niður flúðir og fossa, um stokka og steina og beint inn í innstungur landsmanna. Landsmenn taka við orkunni fegins hendi þar sem hún bunar úr innstungunum og hlaða með henni rafmagnsbíla, rakvélar, snjallsíma, tölvuúr, eldhúsáhöld, unaðstæki, ennisljós, ostaskera, útvörp, hitapoka og handklæðaofna svo eitthvað sé nefnt. Grænu orkuskiptin hafa verið til umræðu í ófá skipti og eru það einmitt nú meðan ég ekki skipti um umræðuefni. Stjórnvöld hafa ákveðið að keyra orkuskiptin í gegn en hins vegar eru engar líkur á því að allir fái það rafmagn sem þeir vilja árið 2024 enda vantar sárlega fleiri virkjanir og fleiri innstungur. Stefna yfirvalda er sett á að kolefnisjafna sig einhvern tímann þegar líður á öldina en þó er enginn tilbúinn til að fækka flugferðum, minnka neyslu eða gera eitthvað sem gæti orðið til þess að minnka útblástur og kolefnisfótspor. Hvernig kemur þetta allt heim og saman? Það gerir það örugglega ekki. Ég hugsa að það sé öruggast að ég haldi mig í felum heima hjá mér, við hliðina á batteríunum, rafmagnstöflunni og olíutanknum, tilbúinn að hlaupa svokallað skammhlaup sem gæti reyndar endað með hörmungum.

Dúllubossalegu landsmenn. Auðvitað voru það ekki stríðsfréttir, hamfarafréttir, verðbólgufréttir, loftslagsfréttir eða flóttamannafréttir sem voru mest lesnu fréttir ársins. Það voru bleiku fréttirnar á Smartlandinu og víðar sem nutu mestrar hylli og skyldi engan undra. Fréttir af fræga, fallega og ríka fólkinu eru þær fréttir sem mestu skipta almenning. Já og svo reyndar fréttir af hvalveiðum. Kristján Loftsson fellur undir allt ofangreint og ætti því með réttu að vera manneskja ársins. Áhrifavaldarnir okkar reyndu sitt besta við að létta okkur lundina á árinu sem er við það að líða og gekk það flestum vel. Ég fylgdi nokkrum áhrifavöldum eftir á árinu og var ávíttur fyrir það af Persónuvernd en slapp við kæru. Ég misskildi víst aðeins hvernig maður fylgir áhrifavöldum eftir, það er ætlast til þess að maður geri það gegnum samfélagsmiðla en ekki bílaeltingaleiki, gluggagægingar og persónunjósnir. Eitt minna fjölmörgu áramótaheita verður að fylgja færri áhrifavöldum eftir á árinu 2024, enda smáhrifavaldur sjálfur. Það gæti orðið erfitt að fylgja mér eftir, enda er ég í felum heima hjá mér, liðleskja ársins, tilbúinn að hlaupa í hvalspik sem væri reyndar engin hörmung.

Yfirkrúttuðu landsmenn. Eitt fjölmargra áhugamála Íslendinga er að fylgjast með stjórmálum og framferði stjórnmálamanna, bæði innan og utan þings. Nokkur merkileg pólitísk mál áttu sér stað á árinu sem senn er á enda. Bera þar hæst afsögn fjármálaráðherra, tilkoma nýs utanríkisráðherra og ólga kringum formann Sjálfstæðisflokksins. Bíddu nú við, er þetta ekki allt sami maðurinn? Jú reyndar en það hefur löngum þótt happadrjúgt í íslenskri pólitík að vera margfaldur í roðinu. Hvað ætla ég að fá mér í kvöldmat á eftir? Snúið roð í hund – en það tengist þessu máli að vísu ekki á nokkurn hátt. Gera má ráð fyrir því að einn og einn stjórnmálamaður verði hafður að bitbeini og jafnvel bitinn af tík, það er að segja pólitík, á árinu 2024. Þó ég sé að flytja ykkur þetta áramótaávarp og hljómi alveg eins og forsætisráðherra er ég ekki stjórnmálamaður. Hvað þá? Nú ég er auðvitað í felum heima hjá mér, tilbúinn að hlaupast undan pólitískri ábyrgð og bíða þannig af mér hörmungarnar.

Snoppufríðu landsmenn. Afrek Íslendinga á íþróttasviðinu voru mörg og merkileg á árinu sem er alveg við það að klárast. Við náðum sundmanni á pall, fótboltamanni á vog og kraftakarli á sterum. Nei bíddu við, þetta var reyndar ekki alveg rétt. Æi hvað með það. Íslenska karlalandsliðið í handbolta var nokkuð illa liðið í upphafi árs sem endaði með þjálfaraskiptum þegar nokkuð var liðið. Á árið. Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta lenti í hremmingum og framlengingu sem varð til þess að framlengja þjáningar liðsins. Merkilegasta afrekið var örugglega það að Ungmennafélagið Þorsteinn Svörfuður hélt úti tveimur fótboltaæfingum í viku síðasta sumar fyrir eldri og yngri iðkendur. Hélt úti? Já æfingarnar voru haldnar úti. Hvernig eru annars mörkin á fótboltavellinum við Rima? Þau eru kassalaga með götóttum netum. Já ég skil. Ýmsir spekingar hafa nú valið flottasta mark ársins og er það vel. Samtök sauðfjárbænda völdu einnig flottasta markið en það var blaðstýft aftan hægra, alheilt vinstra. Reikna verður með því að margir íþróttamenn fari yfir mörk á árinu 2024. Sjálfur er ég vitaskuld í felum heima hjá mér á stuttbuxum og takkaskóm, tilbúinn að hlaupa í mark sem yrði hörmung fyrir ásigkomulag marksins.

Frygðarlegu landsmenn. Verslun og þjónusta eru meðal hornsteina íslensks samfélags, rétt á eftir landbúnaði, sjávarútvegi, nýsköpun, ferðaþjónustu, fiskeldi, undaneldi, flugeldi, ylrækt, skógrækt, órækt, vaxtarrækt, menntastofnunum, heilbrigðisstofnunum og þjóðkirkjunni. Smásalar hafa átt gott ár, enda engin smá sala sem þar á sér stað. Milliliðir hagnast vel á því að vera milliliðir en það er allt í lagi enda hafa bændur bara gaman af því að geta lagt sín lóð á vogarskálarnar í baráttunni við verðhækkanir og verðbólgu. Skítt með eigin afkomu. Þá er óhætt að nefna kynlífstækjabransann sem hefur átt gríðarlega fullnægjandi ár. Salan hefur toppað sig skipti eftir skipti og neytendur hafa unað sér vel við unað og annan munað. Sjálfur er ég að verslast veslast upp í felum heima hjá mér, tilbúinn að hlaupa í næsta kauphlaupi sem gæti endað með vísaskuld og hörmungum.

Sætu sætu landsmenn. Þegar öllu er á botninn hvolft og allt kemur til alls er engin ástæða til annars en að vera bjartsýnn þegar horft er fram til ársins 2024. Þetta segi ég auðvitað með krepptar tær og lygaramerki en það þarf varla að taka það fram miðað við allt sem áður hefur verið nefnt í þessari áramótahugvekju. Hugvekja? Meira svona, hugógnvekja. Múhaha. Hvað boðar nýárs blessuð sól? Hún boðar rokk og ról, tæki og tól, gleði og gól, könnu upp á stól, álf út úr hól, Sollu í kjól, BDSM hálsól og svo að ári önnur jól. Vonandi. Þetta skiptir samt ekki öllu máli. Aðalmálið er að sprengja árið sem er við það að renna sitt skeið í loft upp með heilsuspillandi flugeldum, lífshættulegum skottertum og baneitruðum blysum og leitast þannig við að toppa alla svifryksmæla sem fyrirfinnast um byggð og ból. Það er eina rétta og viðeigandi leiðin til að ljúka þessu guðsvolaða ári. Hvernig ætla ég að ljúka þessu ári? Nú auðvitað með því að vera í felum heima hjá mér á skautbúningi þegar árið líður í aldanna skaut, tilbúinn að hlaupa frá logandi ragettu sem annars gæti valdið mér og öðrum hörmungum.

Í árslok ég af angist fyllist
og auðmjúkur ég felli tár.
Yfir harmi heimsins tryllist
er hugsa um hið liðna ár. 

Ég trúi þó að batni tíðin
og tel að friður komist á,
þó síðar verði hættir hríðin
og hugljúft lognið brestur á. 

Húðstinnu landsmenn. Jónas Hallgrímsson hefði orðið 216 ára á árinu sem er að líða hefði hann lifað – sem hefði reyndar gengið nærri kraftaverki. Hann er nú þegar búinn að snúa sér sautján hringi í gröf sinni vegna þess skáldskapar sem hér hefur verið borinn á borð fyrir lesendur. Ég skammast mín og held því áfram að vera í felum heima hjá mér, tilbúinn að hlaupa sem fætur toga frá lesendum sem annars gætu valdið mér hörmungum.

Að lokum óska ég öllum lesendum nær og fjær gleðilegs árs og þakka um leið samfylgdina, samkenndina, samstöðuna og samlesturinn á árinu sem er að líða. Njótið áramótanna hvort sem þið eruð í felum heima hjá ykkur eða ekki.

Bílskúrinn á Bessastöðum, 31. desember 2023.

Einar Okkar Hafliðason

Orðin jóla í jóla Norðurslóð

Orð af jólaundirbúningi

Góðir lesendur.

Nú þegar aðventan er í algleymingi, jólablað Norðurslóðar komið út og hátíðin helga byrjuð að banka á dyrnar er ekki úr vegi að líta ögn nánar á jólaundirbúninginn.

Jólastressið

Já, jólin nálgast enn og aftur. Samt er svo stutt síðan síðast. Svona gengur tíminn, já og lífið hring eftir hring, ár eftir ár, öld eftir öld og mann fram af manni. Það gengur fram af manni fyrir rest. Hvernig er aðventan svona í nútímanum? Kertaljós, friður og rólegheit í núvitund? Eða kannski jólastressaðir og yfirspenntir neytendur sem eltast við að ná í skottið á sjálfum sér, bestu tilboðunum og tímanum sjálfum? Hálft í hvoru, bæði og en samt ekki. Það er erfitt að ætla sér að vera heima í rólegheitum við kertaljós og klæðin rauð á aðventunni en þurfa á sama tíma að vera í einum spreng við að bjarga sér frá þeim hörmulegu örlögum að brenna inni á tíma og klikka á að hafa allt klárt fyrir jólin. Hafið þið heyrt um manninn sem hafði ekki allt klárt fyrir jólin? Ekki ég heldur. Best að fara að þurrka af efri skápunum og þerra svitann af efri vörinni. Haldið þið bara áfram með þessa hugvekju á meðan.

Jólafötin

Tiltektir í fataskápum landsmanna standa yfir þessa dagana. Sumir eru með harðan skráp. Ég er með harðan skáp. Ýmislegt dúkkar þar upp sem ég hafði ekki einu sinni hugmynd um að væri í skápnum. Þá er ekki nema von að spurt sé. Kemst ég í kjólinn fyrir jólin? Eða koma konfektið og kviðspikið í veg fyrir það? Minni mör, meira fjör? Í þrengri bol með lystarstol? Nei ég held það þýði ekkert að stressa sig á þessu. Hér eftir sem hingað til mun ég vinna með einkunnarorðin;  í mussuna með hlussuna. Fyrr en síðar ég fæ mér buxur víðar. Munið, ekki vera í stressi út af jóladressi.

Jólagjafir

Þá eru jólafötin afgreidd en ég er hins vegar í pínu vandræðum með jólagjafirnar. Gjafirnar verða auðvitað að vera frumlegar og kærleiksríkar en um leið umhverfisvænar, með lágt sótspor, siðferðislega réttar og helst endurnýttar til að draga úr gengdarlausri sóun. Að þessu sögðu hef ég því ákveðið þetta árið að gefa annað hvort gjafabréf á bloggsíðu Einars Haf, endurunna brandara eða lítið notaða flugmiða, það er að segja ef viðkomandi flugferðir voru ánægjulegar. Ég hugsa að þetta sé alveg jafn góð hugmynd og þegar ég gerðist umhverfisvænn þarna um árið og keypti eingöngu notaða flugelda. Svo komst ég reyndar að því síðar að björgunarsveitirnar bjóða líka upp á gróðursetningu fyrir þá sem vilja ekki skjóta flugeldunum upp. Einhverjir gætu talið heimskulegt og tilgangslaust að gróðursetja flugelda en ég er tilbúinn að gefa þessu séns.

Jólakortin

Árlega hef ég streðað við að skrifa á jólakort og senda vinum og kunningjum hingað og þangað um landið og miðin. Þetta verk hefur reynst erfiðara með hverju árinu sem líður. Það er ekki endilega vegna þess að það sé erfiðara að skrifa á sjálf kortin heldur hitt að Pósturinn gerir allt sem í valdi hans stendur til að leggja stein í götu mína með því að hækka verð og draga úr útburði. Það mætti halda að Pósturinn hafi fengið jólakort frá mér, lesið það og hugsað svo með sér: Nei. Það þarf að vernda almenna borgara fyrir þessum bloggara! Markmið Póstsins á næsta ári er að hætta helst alveg að bera út póst í dreifbýli, enda gríðarlega kostnaðarsamt fyrir Póstinn að bera út póst.

Jólamaturinn

Auðvitað þarf að huga að jólamatnum í tíma. Hér á Urðum hefur þessi undirbúningur staðið yfir frá því í haust, enda þarf bæði að salta, reykja og hengja kjötið….nei ég meina sko, láta kjötið hanga, áður en eldamennska getur hafist. Annars er þetta allt frekar hefðbundið. Léttreyktur hamborgarhryggur á aðfangadagskvöld og lögbundið hangikjöt á jóladag. Síðan er svínahamborgarhangikjöt á öðrum degi jóla. Mögulega verður matseðillinn eitthvað flippaðri um áramótin, litaður af ástandinu í þjóðfélaginu. Maríneruð langlund, ávöxtunarsalat, verðbólgupaté, skelk í kalkúnabringu og útþynnt skuldasúpa í eftirrétt. Ekki? Nei Einar, þetta var of mikið.

Jólaboðskapurinn

Ég ætlaði mér hér næst að fjalla ítarlega um Jesús Krist, fæðingu frelsarans og gullið, reykelsið og myrruna í fjárhúsinu í Betlehem forðum daga. Mér var hins vegar bent á að í dag þyki opinber kristileg umfjöllun orka tvímælis hjá góða fólkinu og þeim sem kenna sig við víðsýnt, tvísýnt, alþjóðlegt, trúsnautt, kynlaust og kynlegt fjölþjóðlegt sammenningarsamfélag. Já af því það er einmitt það sem er vandamálið í dag, of mikið af kristni og Jesú? Ég veit ekki. Meðan ég hugsa málið er best að ég fari út í kirkju og feli mig bak við predikunarstólinn.

Víst um jólin verð ég að
virða gamla siði,
þrífa, skreyta, skella í bað
skrifa á kort og senda það
og biðja fyrir friði. 

Á meðan þessu fer fram er Jesúbarnið hjalandi í jötunni, áhyggjulaust með geislabaug og gleðibros. Vonandi má það verða þannig áfram um ókomna tíð.

Hátíðarkveðjur

Einar Hafliðason

Orðin jóla í jóla DB

Góðir lesendur.

Um jólin hef ég haft þann sið
að hugleiða og biðja um frið
hripa niður örfá orð
og auðmjúkur þau leggja á borð. 

Er það rétt sem ég sé? Jú það passar. JólasvEinar Haf kemur siglandi inn hátíðarmiðin á smjörsprautaða kalkúnaskipinu sínu. Hó hó hó. Já enn eitt árið, enn eitt eldgosið og enn ein jólahugvekjan. Heilabörkurinn gliðnar, sprungan rofnar og upp gýs einhver algjör della ásamt hellingi af óæskilegu gasi. Hverju er ég að lýsa? Þið getið í eyðurnar, til þess er leikurinn gerður.

Jólahugvekjan í ár er ekki bara uppfull af jarðgasi, hátíðleika og heilögum anda. Hún er líka uppfull af rangfærslum og útúrsnúningum í boði mín, Einars Haf; bloggara og pistlahöfundar sem lætur engan ósnortinn. Allra síst lesendur. Þess má geta að það er fyrst og fremst bloggurum og pistlahöfundum eins og mér að kenna að lesskilningur Íslendinga dvínar ár eftir ár samkvæmt Písa könnuninni. Lesendur lesa meira og meira en skilja minna og minna. Og þetta skilur auðvitað ekkert eftir sig. Já ég skil. Ekki.

Sumir vilja gos á jólunum en aðrir vilja það ekki. Persónulega finnst mér ágætt að skola niður hamborgarhryggnum með malti og appelsíni en það eru vissulega skiptar skoðanir um þetta eins og annað. En innviðir, eru þeir í hættu? Innviðir Reynisson fulltrúi almannavarna, hvað segir þú um það? Nei þökk sé vinum og varnargörðum þá er ég bara í þokkalegum málum, þakka þér fyrir að spyrja. Hvað verður svo í jólamatinn þarna í samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð? Tja, ég veit ekki en ég giska á hættumat. 

Eru allir komnir í jólaskap? Tja, ég segi nú bara eins og unglingarnir. JÓLÓ. Ég veit reyndar ekki alveg hvað það þýðir en það er eflaust eitthvað mjög jólalegt. Annað sem er jólalegt er hið árlega ákall hjálparsamtaka um hjálp og auðvitað hjálpar maður samtökunum. Sko, hjálparsamtökunum. Það hjálpar samtökunum að fólk er almennt séð gjafmildara í aðdraganda jóla en á öðrum tímum ársins. Hvort sem það eru Pieta samtökin, Rauði krossinn, SOS barnaþorpin, einhverf börn, samtök um legslímuflakk, Landssamband útgerðarmanna, SÁÁ, þroskahjálp, blindrafélagið, Bændasamtökin, gigtarfélagið eða félag siðblindra. Alls staðar er neyðin sár og lífsbaráttan hörð. Allir þurfa sitt til að láta enda ná saman, allir þurfa aur til að geta unnið að sínu brýna hjálparstarfi og alltaf kemst ég í jafn mikið hátíðarskap þegar fulltrúar þessara hjálparsamtaka hringja í mig og grátbiðja um styrk. Ég vil helst láta ganga lengi á eftir mér áður en ég loks fellst á að styrkja viðkomandi hjálparsamtök um eitthvað lítilræði, enda sé ég oft aumur á hinum og þessum ef ég leita vel. Ég læt þó eingöngu fé af hendi rakna ef röddin á hinum enda línunnar lofar að peningurinn fari ekki eingöngu í það að standa straum af því að hringja í mig til að biðja um pening.

IKEA geitin er óbrunnin enn og það þrátt fyrir að ódýrt eldsneyti og eldfæri sé að finna nánast við hliðina á geitinni. Ég hefði jafnvel haldið að geitin yrði verðbólgubálinu að bráð en þökk sé afar strangri öryggisgæslu kringum mammonslíkneskið hefur tekist að vernda þennan sænskættaða gullkálf. Almennt hefur jólaverslunin gengið vel og einkaneyslan blómstrar sem aldrei fyrr. Verð á helstu vörum og nauðsynjum hefur hækkað mun meira en sem nemur verðbólgu og verður það að teljast afar góður árangur fyrir verslunina. Smávöruverslun mokar inn hagnaðinum sem aldrei fyrr en það gæti aldrei orðið að veruleika nema fyrir tilstuðlan lífstílsbænda sem vinna glaðir og yfirskuldsettir baki brotnu við að tryggja matvælaöryggi og taka lítið sem ekkert fyrir það. Ekki ber síður að þakka íslenskum neytendum sem kalla ekki allt ömmu sína þegar kemur að neyslu og láta sig ekki muna um nokkra tugi prósenta í verðhækkanir. Hvað gerir verslunin svo við allan hagnaðinn? Nú hún styrkir auðvitað hjálparsamtök sem hafa ekki undan við að aðstoða neytendur sem farið hafa á hausinn í viðskiptum sínum við smávöruverslunina. Eitthvað í þessu dæmi gengur ekki upp en það verður bara að hafa það.

Jólasveinar einn og átta hafa undanfarna daga komið til byggða og gefið landsmönnum í skóinn en þess má geta að skórinn kreppir víða. Samkvæmt Gallup könnun hafa um 40% aðspurðra á einhverjum tímapunkti fengið kartöflu í skóinn en auðvitað ætla ég ekki að gera því skóna að svo sé í raun. Samkvæmt sömu könnun hafa 23% pissað í skóinn sinn en það mun vera skammgóður vermir.  Hvað með mig kann einhver að spyrja? Nú ég er bundinn í báða skó og get þar af leiðandi ekki tjáð mig frekar um þetta mál.

Jólasveinarnir hafa þurft að uppfæra sig í takt við tíðarandann. Áður fyrr voru þeir harðsvíraðir og skítugir smákrimmar sem fóru ránshendi um byggð og ból um hver jól og rændu og rupluðu af bændum og búaliði, börnum og gamalmennum. Jól voru skálkaskjól fyrir þessi fól en ég er með könnu upp á stól og jólahjól og allskyns tól þar sem María mey í bláum kjól son guðs ól og fékk fyrir það hól. Rólegur Einar. Í dag eru jólasveinarnir í rauðum einkennisklæðum, með hreinhvít skegg og ilmandi af old spice rakspíra. Ýmislegt hefur auðvitað breyst í persónulegu lífi jólasveinanna svona í gegnum árin og árhundruðin. Stekkjarstaur er til dæmis í mun betri málum í dag eftir að hafa farið í liðskiptaaðgerð. Líf Hurðaskellis breyttist nokkuð með tilkomu hurðapumpanna og þá er Gluggagægir að mestu hættur að gægjast á glugga í kjölfar ýmissa dóma í héraði er tengjast persónuverndarsjónarmiðum. Þá er Giljagaur nánast alveg hættur að gilja í kjölfar þess að svokölluð slaufunarmenning hélt innreið sína í íslenskt samfélag. Hvað mun gerast þegar fram líða stundir? Það veit enginn, vandi er um slíkt að spá.

Hér næst stóð til að fjalla um Grýlu gömlu sem lést í sviplegu slysi þarna um árið þegar hún gafst upp og hengdi sig í rólunum. Sú umfjöllun verður hins vegar að bíða betri tíma, enda alveg að koma jól.

Ég ligg í fleti flötu
og fýsir helst í skötu
sem lyktar út á götu
gaman verður þá.
Ég stúta fimm úr fötu
og finn til lög á plötu
er lúrir barn í jötu
ég segi bara vá.  

Gleðileg jól.

Einar Hafliðason

Orðin rétt stóðu í stóðrétt

Hryssingslegu lesendur.

Nú verður gert stutt hlé á pólitískum stóratburðum, stríðsfréttum og hamfaratíðindum þannig að hægt sé að koma að þessari bráðnauðsynlegu bloggfærslu, í þágu almannahagsmuna. Muna hvað? Alls ekki neitt.

Samkomuhúsið Höfði kemur nokkuð vel undan sumartörn, göngum og réttum. Útleiga var vel viðunandi í sumar og flestar helgar nýttar undir ættarmót, afmæli, brúðkaup og gleðskap ýmiskonar. Töluvert magn af dósum og flöskum safnaðist upp samhliða þessu partýstandi og var svo komið nú í haust að vélaskemman á Urðum var orðin hálf full. Sjálfur var ég orðinn hálf fullur á leið til Akureyrar með hluta dósanna um daginn, enda virðist það vera lögmál að sama hversu tómar dósirnar eru, alltaf skulu dósapokarnir leka. Gamall áfengisilmur fyllti vitin og raunar eymir enn eftir af henni í bílnum. Dósainnleggið nam 13.080 kr. sem ég lagði auðvitað beint inn á mig. Engar áhyggjur. Ef þetta kemst upp mun ég axla ábyrgð, segja af mér sem gjaldkeri og taka að mér að vera meðstjórnandi í staðinn. Engin spilling hér.

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu hefur verið í nokkurri lægð upp á síðkastið en nú horfir það allt til betri vegar þar sem sterkir leikmenn eru komnir aftur eftir lögreglurannsóknir. Umræddir leikmenn hafa að vísu ekki spilað fótbolta lengi en það er samt gott að hafa þá með. Okkar heitasti framherji í Evrópuboltanum um þessar mundir er því miður ekki með vegna lögreglurannsóknar. Ef strákunum okkar mun mistakast gegn Lúxemborg og Lichtenstein er mjög líklegt að liðið allt sæti lögreglurannsókn.

Síðasta helgi var svokölluð stóðréttarhelgi í Svarfaðardal og sjálfsagt víðar. Stóð réttarhelgin lengi? Nei ekki svo. Ég stóð rétt við réttina þegar stóðið mætti en stóð reyndar á sama nema hvað að ég hafði augastað á stóðréttarkaffinu. Stóð réttarkaffið lengi? Nei ekki svo. Stóðið stóð í réttinni rétt á meðan réttað var en steðjaði svo brott, alveg rétt. Um kvöldið var stóðréttardansleikur á Rimum. Stóð réttardansleikurinn lengi? Nei ekki svo. Auðvitað mætti ég á staðinn þrátt fyrir að vera ekki hestamaður og skeiðaði um dansgólfið, allt fyrir málstaðinn. Einar, telur þú þessa umfjöllun hafa heppnast vel? Nei ekki svo.

Sláturtíð hefur staðið yfir undanfarið og því eru eflaust einhverjir sem hafa gripið um slátrið af því tilefni. Fallþungi þykir vel í meðallagi þetta árið, lögun góð og gerð viðunandi. Sjálfur er ég með 4 í bakvöðva og 17,5 í læri en betur má ef duga skal. Svo fæ ég reyndar ekkert sérstaka einkunn fyrir ull, sem er auðvitað bull. Nú er unnið markvisst að því hörðum höndum að rækta upp riðuþolnar kindur á Íslandi. Þó fyrr hefði verið. Æðsti draumur MAST er auðvitað að skera og höggva og slátra því sem slátrað verður í þágu smitvarna en af gefinni reynslu mæli ég ekki með þeirri aðferð. Riðfrýjar kindur og fjárhúsagrindur, það er málið.

Talandi um slátur. Stóðlífi á upptöku á verulega upp á pallborðið og lyklaborðið hjá netnotendum nú sem fyrr. Þeir hinir sömu verða aldeilis svekktir þegar þeir komast að því innan skamms að bloggsíða Einars Haf er bloggsíða en ekki harðsvíruð klámsíða, sem kann reyndar að hljóma lygilega miðað við hvað efnið sem hér er að finna er klúrt og í ljósi þeirrar staðreyndar að ég sit hér hálfnakinn í g-strengsþveng í keng, ritandi þessar hugleiðingar. Bíddu aðeins, ég ætla að skrifa þetta hjá mér. Æi það kemur ekkert úr honum. Sko, pennanum. Dóni. Klámáhorf er mikið, ómálga börn og enskuslettir unglingar eru heltekin af snjallsímum og svalltækjum…meinti snjalltækjum – og dónaskapurinn í þjóðfélaginu ríður manni á slig og ríður ekki við einteyming. Ó hve gröð er vor æska! Stendur mér á sama? Alls ekki. Ein spurning að lokum. Stóð lífið lengi? Nei ekki svo.

Lesendakönnun. Hver er ykkar uppáhalds umboðsmaður?

  • Umboðsmaður skuldara
  • Umboðsmaður Alþingis
  • Umboðsmaður barna
  • Umboðsmaður Íslands (Einar Bárða)

Munið. Það eru engin röng svör. Bara rangar skoðanir.

Reykingar drepa. Það á þó alls ekki við kjötreykingar. Þær eru nú hafnar hér á Urðum og ilmurinn eftir því. Lykillinn er að kveikja í þurrkuðum kindakúk, beina reyknum í átt að kjötinu og vona svo það besta. Þetta er reyndar ekki alveg satt en hljómar skemmtilega. Verði ykkur að góðu.

Einar, hvað með heimsmálin?

Stríð og sturlun hrella heim
streyma tárin niður kinn
sendið mig helst strax út í geim
svo fái ég flúið átökin.

Á árshátíð stjórnarráðsins um komandi helgi verður margt skemmtilegt á boðstólnum. Eins og hvað? Fjölbreytt skemmtiatriði eins og fallinn spýtukall, ráðherrakapall, hlaupast undan í skarðið, minnipokahlaup og svo auðvitað stólaleikurinn sívinsæli.

Einar stóð í tunglsljósi.

Tilvitnun dagsins:

Allir: STÓÓÓÐÐÐÐ!!!

Orðabrjáli í bundnu máli

Góðir lesendur, skúm- og blesendur.

Úti er rigning, í rjóðrinu þytur. 
Heyri og hugsa í rökkrinu vitur. 
Einar við bloggskrifin rennsveittur situr, 
skömmustulegur og bólginn og bitur. 

Hér í upphafi bið ég lesendur innilegrar afsökunar. Ekki aðeins á inngangsorðunum heldur einnig á því að mér gafst hvorki tími né ráðrúm til að panta þyrlu og drullubrúna reyksprengju sem gefa átti fylgjendum mínum til kynna hvers kyns væri hér á bloggsíðu Einars Haf – og þar af leiðandi veit enginn hvers kyns er. Enginn sómakær og metnaðarfullur áhrifavaldur með sjálfsvirðingu ætti að sætta sig við þessa meðalmennsku. Ég lofa að gera betur þegar næsta barn….blogg kemur undir.

Hann eða hún eða hán, engin(n) veit,
en Birgitta Líf í pakkann leit -
saklausar skepnurnar voru á beit 
er eitraður bláreykur sveif yfir sveit

Ég gæti svo sem beðist afsökunar á öllu því sem kom fram hér á undan og á öllu því sem á eftir kemur en ég ætla ekki að gera það – og biðst ég afsökunar á því.

Ríkisendurskoðun hefur nú gert stjórnsýsluúttekt á Sinfóníuhljómsveit Íslands vegna ófremdarástands sem þar mun hafa ríkt innandyra um langt skeið – en eins og flestir vita er alltaf sama gaulið í þessum listamönnum. Niðurstaða úttektarinnar er afar sláandi, sérstaklega þegar kemur að trommuleikurum og öðrum er leika á ásláttarhljóðfæri. Svo virðist sem margir starfsmenn sinfóníunnar hafi haft horn í síðu hvors annars en það mun hafa verið franskt horn. Upp hafi komið viðkvæm starfsmannamál og jafnvel ásakanir um ofbeldi. Ég get að vísu ekki lesið út úr fréttum af málinu að neinn hafi fengið á lúðurinn, nema þá kannski einstaka blástursleikari.

Í smáatriði sjaldan ég mig hengi
í sinfóníuhljómsveitinni lengi
við ofbeldi og ástand ekki tengi
enda slæ ég bara á létta strengi.

Göngur og réttir hafa nú farið fram fram og aftur í Svarfaðardal og mögulega víðar. Vel smalaðist í þeim tilfellum þar sem þoka byrgði gangnamönnum ekki sýn og í þeim tilfellum þar sem kindurnar voru alveg til í að koma heim. Einhverjar undantekningar voru vissulega á þessu enda misjafn sauður í mörgu fé eins og sést á mér. Nýlega fundust nýir og áður óþekktir sauðalitir hér á landi. Til dæmis fannst úlfagrár hrútur en rannsóknir eiga eftir að skera úr um hvort hér sé á ferðinni alvöru úlfagrár hrútur eða bara dæmigerður úlfur í sauðagæru, sem er vel þekkt fyrirbæri hér á landi. Einnig hafa fundist vinstri-grænbláir sauðir og píratabláir gemsar en stjórnmálafræðingurinn Rútur Hrútsson telur líklegt að nýir sauðalitir muni finnast í öllum helstu stjórnmálaflokkum áður en langt um líður.

Misjafn er sauður í mörgu fé
magnþrungin eru hin helgu vé
koníakspela þú lést mér í té
höfuð og herðar, tær og hné.

Hvers lags rugl er þetta? Svipað rugl og var á bílaleigubíl Teigamanna sem harðneitaði að keyra áfram um gangnahelgina ef fótstigið var drullugt. Þetta var hægara sagt en gert á drullugum malarvegi og lengdi þetta þar af leiðandi alla millitíma og öll pissustopp umtalsvert og setti alla ferðaáætlun úr skorðum. Tungurétt var troðfull af túristum og trallandi gangnamönnum sem tæmdu kaffiskúr kvenfélagsins Tilraunar og borðuðu allt brauð upp til agna. Fé var af skornum skammti en stundum er þetta ekki spurning um magn heldur gæði. Réttarballið fór fram á Höfða að kveldi sunnudags og fór það ekki framhjá neinum. Velunnarar Höfða höfðu veg og vanda að ballinu, réðu Landabandið og Sissa og Berg í dyrnar og réðu sér svo vart fyrir kæti, ekki frekar en aðrir ballgestir sem skemmtu sér vel að því ég best tel. Sjoppusala Umf. Þorsteins Svörfuðar gekk líka vel. Allt bakkelsi ætlað hljómsveitinni var selt ballgestum á uppsprengdu verði og hefði eflaust verið hægt að selja miklu meira. Annars þarf ekki að hafa fleiri orð um ballið, það er nóg að vitna í braginn góða eftir Árna Hjartarson Tjarnarbróðir:

Á Höfðaballi haugfullt stóð
herjar á meyjafansinn.
Undir vegg við fíflum fljóð
og förum svo í dansinn.
Augafullir erum við í kvöld,
augafullir erum við í kvöld,
augafullir erum við í kvöld
og örugglega á morgun!

Æi vá Einar er ekki mál að linni? Jú svona að þessu sinni. Er gamaldags rímnamál inni? Nei en kannski ef ég það betur kynni.

Hvað með hvalveiðibannið, fjárlagafrumvarpið, orkuskiptin, gervigreindina, flóttamannavandann, öfgaveðurfarið og alheimsvánna? Sá tittlingaskítur verður bara að bíða þar til næst. Það er ekki eins og að hörmungarnar séu að fara neitt hvort sem er.

Hörmulegt er ástandið
en ömurðina set á bið
skemmti ég mér frekar við
að fylla út skattaframtalið. 

Hræðilegt er útlitið
og ekkert útlit fyrir frið
huga mínum gef ég grið
og glápi á fótaskammelið.

Af einlægni ég vona og bið
að kærleiksríka mannfólkið
stígi aftur inn á svið
og sátt og elsku leggi lið.

Of mikið?

Alltof oft ég kýli kvið
svo kviðurinn leggst út á hlið
mikið voða rek ég við
enda kláraði ég allt konfektið.

Já þetta var of mikið.

Hafið þið heyrt um veðurfræðinginn sem flutti til útlanda? Hann las nefnilega að það væri enginn spámaður í eigin föðurlandi.

Einar uppgenginn.

Tilvitnun dagsins:

Allir: Nei bara rím!!

Orðin rasandi bit

Gáttuðu lesendur.

Rosalega er kalt hérna og mikill gustur. Hvernig stendur á þessu? Já ég sé það núna. Félagaskiptaglugginn er opinn. Best að fara og loka honum, bíðið aðeins.

Já þetta var miklu betra. Gott kvöld og velkomin í dagskrárliðinn „Einar er aldeilis hlessa“. Í þætti kvöldsins mega lesendur eiga von á góðu þar sem undirritaðan rekur ítrekað í rogastans í hverju stórmálinu á fætur öðru og kemur loks varla upp orði af undrun. Fylgist endilega spennt með hverju ég verð kjaftstopp yfir fyrst, en áður en það gerist skulum við fara í smáauglýsingar.

Vantar þig tilboð í flutninginn? Hafðu samband við annað hvort okkur hjá Eimskip eða okkur hjá Samskip og við finnum út það hagstæðasta fyrir þig. Það skiptir engu við hvorn þú talar. Það munu allir græða…nema kannski þú! Áratugalöng samvinna, samstarf og samráð – vönduð vinnubrögð. Eimskip og Samskip – flytjum saman!

Farmiði til Íslands fæst gefins – ég er hættur við. Leonardo Di Caprio.

Tapað fylgi. Fylgi sem nóg var af fyrir kosningar er nú týnt og tröllum gefið. Fundarlaunum heitið. Ríkisstjórnarflokkarnir.

Okkur er annt um umhverfið. Viltu fljúga með góðri samvisku? Pantaðu þá far með okkur og við sjáum um að kolefnisjafna ferðina með gróðursetningu trjáa. Icelandair.

Óskum eftir því að ráða tugi skógarhöggsmanna til að fella yfir þrjúþúsund tré í Öskjuhlíðinni, öryggisins vegna. Icelandair.

Ný íslensk hrollvekja/spennumynd, Kuldi, var frumsýnd nú fyrr í kvöld. Myndin fjallar um hóp fólks úr þremur stjórnmálaflokkum sem reynir í sameiningu að stjórna örþjóð úti í ballarhafi með málamiðlunum. Til að byrja með gengur allt vel en þegar á líður tekur að anda köldu á milli foringjanna í hópnum með skelfilegum afleiðingum. Alls ekki við hæfi Bjarna…..barna. Ég er svo aldeilis hlessa.

Matvælaráðherra hefur nú leyft hvalveiðar að nýju, eftir sumarlanga yfirlegu og hugarangist. Leið hún kvalir? Nei. Hvalveiðar eru nú leyfðar með hertum skilyrðum frá því sem áður var, til að koma til móts við mannúðar- og hvalúðarsjónarmið. Samkvæmt nýbirtri reglugerð verða hvalveiðimenn að hafa að minnsta kosti fimm ára reynslu, fimm sentimetra skegghýjung, mynd af Kristjáni Loftssyni á náttborðinu og akkeristattú á upphandleggnum. Samkvæmt sömu reglugerð verður aðeins heimilt að veiða hvali sem náð hafa 15,2 metra lengd, eru með greindarvísitölu undir 140 og eru í kjörþyngd. Upphaflega var til skoðunar hjá ráðherranum að innleiða svokallaða veiða-sleppa aðferð eins og reynd hefur verið við sportveiðar í íslenskum ám með góðum árangri en fallið var frá þeirri hugmynd í ráðuneytinu á lokametrunum þar sem aðferðin var talin of flókin í útfærslu. Ég er svo aldeilis forviða.

Erlendar stórstjörnur og spíssbúbb hafa tekið þessum fregnum afar illa og hóta því nú í umvörpum að sniðganga Ísland haldi þjóðin hvalveiðum sínum til streitu. Að vísu hafa fæstar þessara erlendu stórstjarna látið sjá sig við Íslandsstrendur hvort eð er þannig að trúlega verða áhrif þessara hótana óveruleg. Sjálfur ætla ég að halda áfram að sniðganga Hollywood í mótmælaskyni en ég hef að vísu aldrei komið þangað. Svei mér þá.

Forseti spænska knattspyrnusambandsins rak fyrirliða spænska kvennalandsliðsins…….rembingskoss. Á munninn. Í miðjum fagnaðarlátum eftir sigur Spánverja á HM kvenna í fótbolta. Já ég skil. Ekki. Ekki hefur koss á fótboltavelli valdið jafn miklu fjaðrafoki síðan Ingólfur Hannesson íþróttafréttamaður kyssti Guðjón Þórðarson þjálfara íslenska karlalandsliðsins á kinnina í beinni sjónvarpsútsendingu eftir jafnteflisleik við Frakka á Laugardalsvelli þarna um árið. Ja hérna hér.

Heyskap er nú víðast hvar lokið eða að ljúka. Heyfengur er almennt talinn góður í Svarfaðardal og heygæði í fínu lagi. Á Urðum endaði slátturinn með því að vinkildrifið á sláttuvélinni brotnaði frá sjálfri sláttuvélinni á síðustu fermetrunum á síðasta stykkinu sem slegið var og var því ekki slegið meira í það skiptið. Sölvi verktaki á Hreiðarsstöðum kláraði dæmið. Síðan sá Sölvi verktaki á Hreiðarsstöðum um að garða en Gunnar verktaki í Göngustaðakoti hefur einnig verið til taks í görðun undanfarin ár. Kalli verktaki í Brekku sá svo um að rúlla. Hver sér eiginlega um að greina frá þessu öllu hér á blogginu hans Einars? Nú auðvitað Arnaldur verktaki Indriðason. Af hverju að bagsa við þetta sjálfur þegar hægt er að fá mun hæfari verktaka til að afgreiða málið? Einar, ertu ekki lentur úti í skafli með þetta? Jú en það er allt í lagi, ég fæ bara Sigvalda verktaka í Hofsárkoti til að moka mig upp á núll einni. Dámar mér ekki.

Senn taka haustverk við til sveita og þar á meðal eru göngur og réttir. Stutt er í að gera þurfi ballfært í samkomuhúsinu Höfða en þar hefur hið árlega réttarball verið haldið frá ómunatíð og jafnvel lengur. Einhverjir halda að Sissi og Bergur hafi mætt til dyravörslu jafnvel nokkru áður en dyrnar voru smíðaðar og mun það vera rétt. Mikið líf hefur verið á Höfða nú í júlí og ágúst og hvert samkvæmið rekið annað. Einar aðstoðarkirkjuvörður í Urðakirkju sá sér leik á borði í sumar og bauð mörgum verðandi brúðhjónum tveir fyrir einn pakka sem fólst í því að gifta sig á tilboðsverði í Urðakirkju með því skilyrði að viðkomandi myndu taka Höfða á leigu undir veisluhöld. Þetta virkaði afar vel og því líklegt að pakkatilboðið verði síðar meir útvíkkað og nái þá einnig yfir kirkjugarðinn og erfidrykkjuna. Alveg er ég bit á köttinn.

Karl með krumlu greip um pung
og kyssti konu skæður
Aumt er að líta oflátung
á velli rang var stæður. 

Þess má til gamans geta að það er val að veiða hval.

Einar á sjónum.

Tilvitnun dagsins:

Allir: Er nauðsynlegt að skjóta þá?