Góðir lesblindur. Afsakið; góðir lesendur!
Nú stendur til að loka skráarskiptasíðunni deildu.net., því sjaldan veldur einn þá tveir deila. Þeim sem eru með internethraða upp á 1 mb/sek (þegar best lætur) eins og mér stendur auðvitað á drullusama um þetta. En hvað er gert á svona skráarskiptasíðum? Á svona skráarskiptasíðum hafa menn og konur verið að skiptast á skrám. Það væri raunar bara kjánalegt ef ekki væri hægt að skiptast á skrám á skráarskiptasíðum. Ég prófaði nú áðan hvernig svona lagað gengur fyrir sig og hlóð upp nýjustu símaskránni í hæstu mögulegu gæðum, með möguleg skipti á eldri skrám í huga. Engin viðbrögð hafa enn borist við þessari upphleðslu. Ekki náðist í Skrám við gerð þessarar umfjöllunar.
Nú stendur til að opna vínbokkurnar upp á gátt og leyfa áfengi í matvöruverslunum og stórmörkuðum, því sjaldan verslar einn þá tveir drekka. Samkvæmt frumvarpi sem rætt er á Alþingi verður ÁTVR breytt í TVR og áfengisverslun gefin frjáls. TVR stendur þá fyrir Tóbaksverslun Ríkisins, sem er kaldhæðnislegt í ljósi þess að það er ekkert tóbak til sölu í (Á)TVR. Skiptar skoðanir eru um hvort áfengi eigi heima í almennum verslunum. Sumir telja að fyllerí muni stóraukast og að fjandinn verði laus en aðrir telja að ekki gangi lengur að púkka upp á núverandi fyrirkomulag þar sem nauðsynlegt sé að rauðvínið fáist á sama stað og steikin (af því það er jú hægt í útlöndum). Ég hef velt þessu aðeins fyrir mér og eina málamiðlunin sem ég sé er að leyfa sölu á almennum neysluvörum í ÁTVR – þá þarf fólk ekkert að vera að þvælast í stórmarkaði yfir höfuð heldur getur gert öll sín heimilisinnkaup í ÁTVR, ef því langar endilega svona mikið í rauðvín með matnum.
Nú stendur til að auka lestur Íslendinga með allsherjar lestrarátaki. Lestur hér á landi hefur verið í algjörum ólestri frá ómunatíð, því lestur er á illu bestur sem og ólestur. Þó Íslendingar hafi aldrei lesið mikið hafa þeir skrifað og gefið út gríðarlega mikið magn bóka, og gefið þær flestar í jólagjöf. Raunar á ég bágt með að trúa því að rithöfundarnir sjálfir hafi lesið allar þessar bækur sínar, svo margar eru þær. Íslendingar hafa alla tíð verið duglegir að lesa milli línanna, en því miður telur slíkur lestur lítið þegar orð á mínútu eru talin í hraðlestrarskólanum. Þarna er ég auðvitað að tala um aðallestur, en ef hann klikkar er gott að eiga varalestur.
Nú stendur til að setja aldurstakmörk í framhaldsskólum. Það er gott, enda gera eldri nemendur ekki annað en tefja þá sem yngri eru og trufla þá við að hanga á netinu í tímum, senda snapchat og pósta einhverju á feisbúkk. Við þurfum ekki á slíku að halda. Svo er talað um að stytta þurfi framhaldsskólann. Ekki hefur komið fram hversu mikið eigi að stytta hann, en skólarnir eru mislangir og því hljótum við að vera að tala um eitthvert hlutfall. Ef t.d. Verkmennaskólinn á Akureyri yrði styttur um 10% gætum við verið að tala um 200 metra styttingu. Við þurfum ekki á slíku að halda. Heyrðu mig nú, gekkst þú einhvern tímann í skóla? Já reyndar, en mér var samt oftast keyrt þangað.
Ýmsir kveljur súpa
aðrir fella tár
ástandið er allt annað en beisið.
Að rembast eins og rjúpa
við staur í sautján ár –
fjólublátt þá eflaust verður feisið.
Þessi pistill verður ekkert snjallari þó svo að hann sé skoðaður gegnum snjallsíma.