Orð á akureyri.net aftur

Góðir lesblindur. Afsakið; góðir lesendur!

Nú stendur til að loka skráarskiptasíðunni deildu.net., því sjaldan veldur einn þá tveir deila. Þeim sem eru með internethraða upp á 1 mb/sek (þegar best lætur) eins og mér stendur auðvitað á drullusama um þetta. En hvað er gert á svona skráarskiptasíðum? Á svona skráarskiptasíðum hafa menn og konur verið að skiptast á skrám. Það væri raunar bara kjánalegt ef ekki væri hægt að skiptast á skrám á skráarskiptasíðum. Ég prófaði nú áðan hvernig svona lagað gengur fyrir sig og hlóð upp nýjustu símaskránni í hæstu mögulegu gæðum, með möguleg skipti á eldri skrám í huga. Engin viðbrögð hafa enn borist við þessari upphleðslu. Ekki náðist í Skrám við gerð þessarar umfjöllunar.

Nú stendur til að opna vínbokkurnar upp á gátt og leyfa áfengi í matvöruverslunum og stórmörkuðum, því sjaldan verslar einn þá tveir drekka. Samkvæmt frumvarpi sem rætt er á Alþingi verður ÁTVR breytt í TVR og áfengisverslun gefin frjáls. TVR stendur þá fyrir Tóbaksverslun Ríkisins, sem er kaldhæðnislegt í ljósi þess að það er ekkert tóbak til sölu í (Á)TVR. Skiptar skoðanir eru um hvort áfengi eigi heima í almennum verslunum. Sumir telja að fyllerí muni stóraukast og að fjandinn verði laus en aðrir telja að ekki gangi lengur að púkka upp á núverandi fyrirkomulag þar sem nauðsynlegt sé að rauðvínið fáist á sama stað og steikin (af því það er jú hægt í útlöndum). Ég hef velt þessu aðeins fyrir mér og eina málamiðlunin sem ég sé er að leyfa sölu á almennum neysluvörum í ÁTVR – þá þarf fólk ekkert að vera að þvælast í stórmarkaði yfir höfuð heldur getur gert öll sín heimilisinnkaup í ÁTVR, ef því langar endilega svona mikið í rauðvín með matnum.

Nú stendur til að auka lestur Íslendinga með allsherjar lestrarátaki. Lestur hér á landi hefur verið í algjörum ólestri frá ómunatíð, því lestur er á illu bestur sem og ólestur. Þó Íslendingar hafi aldrei lesið mikið hafa þeir skrifað og gefið út gríðarlega mikið magn bóka, og gefið þær flestar í jólagjöf. Raunar á ég bágt með að trúa því að rithöfundarnir sjálfir hafi lesið allar þessar bækur sínar, svo margar eru þær. Íslendingar hafa alla tíð verið duglegir að lesa milli línanna, en því miður telur slíkur lestur lítið þegar orð á mínútu eru talin í hraðlestrarskólanum. Þarna er ég auðvitað að tala um aðallestur, en ef hann klikkar er gott að eiga varalestur.

Nú stendur til að setja aldurstakmörk í framhaldsskólum. Það er gott, enda gera eldri nemendur ekki annað en tefja þá sem yngri eru og trufla þá við að hanga á netinu í tímum, senda snapchat og pósta einhverju á feisbúkk. Við þurfum ekki á slíku að halda. Svo er talað um að stytta þurfi framhaldsskólann. Ekki hefur komið fram hversu mikið eigi að stytta hann, en skólarnir eru mislangir og því hljótum við að vera að tala um eitthvert hlutfall. Ef t.d. Verkmennaskólinn á Akureyri yrði styttur um 10% gætum við verið að tala um 200 metra styttingu. Við þurfum ekki á slíku að halda. Heyrðu mig nú, gekkst þú einhvern tímann í skóla? Já reyndar, en mér var samt oftast keyrt þangað.

Ýmsir kveljur súpa
aðrir fella tár
ástandið er allt annað en beisið.
Að rembast eins og rjúpa
við staur í sautján ár –
fjólublátt þá eflaust verður feisið.

Þessi pistill verður ekkert snjallari þó svo að hann sé skoðaður gegnum snjallsíma.

Orð á akureyri.net enn og aftur

Góðir lesendur.

Eftir síðasta pistil gætuð þið eflaust haldið að ég væri með fitu á heilanum. Það er rétt ályktun. En ég er líka með margt annað á heilanum. Svo sem útlitsdýrkun. Augljóslega.

Í dag er enginn maður með mönnum eða konum nema vera helköttaður, skorinn, massaður, sólbrúnn og jafnvel íklæddur þveng. Þetta eru ekki ný vísindi. Það sem eru hins vegar ný vísindi er sú staðreynd að útlitsdýrkunin nær nú einnig til ævintýrapersóna og auglýsingafígúra. Kötturinn Klói hefur auglýst Kókómjólk frá árinu 1990. Frá upphafi hefur Klói verið frekar eðlilegur köttur, malandi og þybbinn heimilisköttur sem lapið hefur sína dísætu Kókómjólk eins og enginn sé morgundagurinn. Hann vildi ekki mýs, hann át bara kökur og rjómaís. Nú er Klói hins vegar orðinn að vaxtarræktartrölli með stinna kálfa og harðar loppur eins og sést hefur í nýjustu auglýsingum hans. Klói fær sér ekki eins mikla Kókómjólk og áður, en hann borðar þeim mun meira af vaxtarhormónum og tekur kreatín svo að vöðvauppbyggingin verði tilkomumikil og kötturinn köttaður. Í ljósi þessa má spyrja sig: hvað næst? Mikki mús með sixpakk? Dolli dropi sólbrúnn? Þorskurinn á Lýsispillunum kominn með stinna ugga? Kóka kóla jólasveinninn kominn með kúlurass? Ég hreinlega veit það ekki; útlitsdýrkunin er hvort eð er komið út í tóma vitleysu.

Ég er ekki bara með útlitið á heilanum, heldur einnig ofbeldi. Ofbeldi hefur notið sívaxandi vinsælda undanfarin misseri og virðist ekkert lát vera þar á. Í dag er ekkert óvenjulegt við það að í fréttatímum birtist myndir af ofbeldi og misþyrmingum. Stjórnvöld eru sökuð um að beita öryrkja og eldri borgara ofbeldi, íþróttir eru fullar af ofbeldi, allir sjónvarpsþættir sem eitthvað varið er í sýna ofbeldi og síðast en ekki síst einkennist íslenskt næturlíf fyrst og fremst af ofbeldi, þar sem eitthvað næturlíf er yfir höfuð að finna. Íslendingar eru farnir að fatta að framamöguleikar eru fyrir hendi þegar kemur að ofbeldi og bardögum og fylkja sér því að baki Gunnari Nelson – sem snýr andstæðinga sína niður og lúskrar á þeim hverjum af öðrum, nema reyndar þeim síðasta. Ég hef gaman af ofbeldi og bardögum eins og hver annar; en ég meina, hvaða dagar eru ekki bar-dagar? Sérstaklega nú þegar Októberfest stendur yfir.

Ég er ekki bara með fitu, útlit og ofbeldi á heilanum; heldur líka hagræðingu. Stundum þarf ég jú að hagræða mér, svona eins og gengur. Hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar vinnur nú hörðum höndum að útfærslu  fjölmargra tillagna sem eiga að miða að því að ná fram hagræði í rekstri hins opinbera – og ekki veitir af. Að vísu er ekki búið að sýna fram á hvort eitthvert hagræði náist með þessum tillögum, en það er sennilega aukaatriði. Meðal þess sem stefnt er að er að fækka hljóðfæraleikurum í Sinfóníuhljómsveitinni, draga úr hljómagangi og leggja bann við notkun fleiri en þriggja tóntegunda. Skógrækt ríkisins verður sameinuð ÁTVR á næstunni, enda talið nóg að hafa timburmenn á einum stað í opinbera kerfinu. Endurskoða á fyrirkomulag bókhalds og greiðslu reikninga í sendiráðum. Með öðrum orðum, það á að hagræða bókhaldinu og sleppa því að greiða reikningana sem berast sendiráðunum og spara þannig umtalsverða fjármuni – því greidd skuld er jú glatað fé. Ríkisstyrkt íþróttasambönd á borð við KSÍ munu hætta að selja miða á helstu íþróttaviðburði gegnum viðurkennd opinber miðasölukerfi og þess í stað selja alla miða á svörtu – enda seljast þannig miðar alltaf á mun hærra verði en hinir og þá er ekki hætta á að miðasölukerfið hrynji, eins og gerist alltaf á Íslandi þegar fleiri en 10 manns langar á sama viðburðinn á sama tíma. Að síðustu hefur hagræðingarhópurinn það á stefnuskrá sinni að skipta út öllum ráðherrum ríkisstjórnarinnar og ráða aðstoðarmenn í þeirra stað – enda á mun lægra tímakaupi.

Talandi um ríkisfjármál; Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra stendur nú í október fyrir landssöfnuninni Bleiki ugginn. Kaupi fólk bleika uggann leggur það sitt af mörkum svo hægt verði að borga starfsmönnum Fiskistofu fyrir að flytja til Akureyrar, en það þykir borin von að nokkur heilvita maður flytji af höfuðborgarsvæðinu og út á land nema gegn vænni greiðslu.

Síðasta lag fyrir fréttir er ekki lengur síðasta lag fyrir fréttir, heldur meira svona síðasta lag fyrir síðustu auglýsingar fyrir fréttir. Enn teflir dagskrárstjóri Rásar 1 á tæpasta vað, með því að breyta dagskrárlið sem verið hefur eins frá landnámi Ingólfs árið 874. Ég meina, kommon. Það eiga að vera lesnar tilkynningar, svo kemur lag sem oftast er í dúr eða moll og sungið af Stefáni Íslandi og svo kemur Broddi Broddason með fréttirnar kl. 12:20. Ég hélt að þetta væri ekki bara í útvarpslögum heldur í landslögum einnig. En hvert var síðasta lag fyrir réttir? Nú, auðvitað Blessuð sértu sveitin mín. Hvað annað?

Höfundur tók sig saman í andlitinu samhliða gerð þessa pistils og er nú óþekkjanlegur.

Orð á akureyri.net aftur og enn á ný

Góðir lesendur.

Þessi pistill fjallar um efni sem er mér mjög kært og ég á raunar nóg til af á lager; fitu.

Íslendingar eru fyrir nokkru síðan dottnir út af lista yfir ríkustu þjóðir heims. Hins vegar eru Íslendingar komnir á lista yfir feitustu þjóðir heims. Það þýðir ekkert að gráta það, við getum bara róið í eigin spiki á meðan við finnum lausn á þessum vanda. Vísindamenn reyna nú að átta sig á hvar skýringin á þessu liggur. Alltaf eru að berast fréttir af risastórum skokkhópum, metfjölda í heilsurækt, cross-fit keppnum, boot-camp æfingum, harðkjarna (e. hardcore) fitubrennsluefnum og þar fram eftir götunum. Samt eru Íslendingar 60% of feitir eða þungir. Eða nei, 60% Íslendinga eru of feitir eða þungir. Sumir telja að ástæðan sé sú hversu þungt hljóðið sé í okkur um þessar mundir. Aðrir halda því fram að landsþekkt söfnunarárátta Íslendinga nái ekki bara yfir penna og frímerki heldur einnig spik, þannig að nú safna margir spiki viljandi. Enn aðrir vilja meina að kaloríurnar leynist bara svo víða að saklaus almúginn átti sig ekki á því þegar keypt er í matinn eða sest að snæðingi að kaloríubomburnar leynast við hvert munnvik. Vissuð þið til dæmis að bara í þessari efnisgrein sem þið hafið nú meðtekið eru 170 kaloríur? Þetta skýrir að einhverju leyti vaxtarlag undirritaðs.

Ég er svo aldeilis hlessa. Eða hlussa. Fituhlussa. Ástandið er grafalvarlegt og róðurinn er þungur. Róðurinn í spikinu það er að segja. Hvert þó í feitasta segi ég nú bara. Við, selspikaðir fituhjallar, grátum að sjálfsögðu djúpsteikingarfeitisblönduðum kokteilsósutárum yfir ástandinu því allar bjargir virðast bannaðar. Meira að segja megrunarkúrar eru fitandi samkvæmt nýjustu fréttum og rannsóknum. Og hvar er huggun að finna þegar ástandið er svona? Hvar annars staðar en í mat? Það er því um sannkallaðan vítahring að ræða.

Það er ekki nóg með að Íslendingar séu feitir, heldur henda þeir mörg hundruð tonnum af mat á ári hverju sem þeir geta ekki torgað. Gráðugu svín. Á meðan svelta milljónir manna víðsvegar um heimsbyggðina. Hvernig stendur á þessu? Ég veit það ekki, ég þekki ekki hvernig það er að henda mat enda hef ég aldrei gert slíkt (eins og sést á mér). Ef svo ólíklega vill til að maturinn klárist ekki á mínu heimili fá hænurnar afgangana, því næst kötturinn og loks hundurinn. Vilji kötturinn og hundurinn ekki afgangana fæ ég þá aftur og klára. Þannig er hringrásin.

Það er ekki bara á Íslandi sem fitan safnast upp. Jarðarbúar fitna stöðugt að meðaltali og þeim fjölgar líka stöðugt. Nú þegar mannfjöldi á jörðinni er kominn yfir 7 milljarða manna er augljóst að landrými minnkar með hverju árinu, en munnunum sem metta þarf fjölgar hins vegar á ógnarhraða. Vesturlandabúar spikast, íbúar í Afríku eru margir hverjir að horfalla. Hér felst því lausnin augljóslega í því að fitujafna, samanber kolefnisjöfnunina þarna um árið. Það er til nóg af uppsafnaðri fitu handa öllum. Enginn ætti að þurfa að líða hungur og sult, það er til nóg fita í heiminum. Vesturlandabúar, sérstaklega Íslendingar, myndu líka þiggja það ef hægt væri að flytja fituna úr landi og bæta henni á íbúa í öðrum heimsálfum þar sem fita er af skornum skammti.

Hvernig endar þetta annars allt saman? Með ósköpum auðfitað. Auðvitað meina ég. Flugvélasætin stækka, rúmin breikka, fötin víkka og auka þarf burðarþol brúa. Ekki nóg með það; byggja þarf nýtt hátæknisjúkrahús þar sem gamla sjúkrahúsið rúmar ekki allar þessar feitabollur. Svo þarf líka að byggja nýtt fangelsi af sömu ástæðu. Hvernig endar svo þessi pistill? Nú, Einar springur úr spiki. Afsakið sóðaskapinn.

Það er best að hætta að svo komnu máli, enda er pistlahöfundur nú þegar kominn langt yfir spikið……eða strikið.

Höfundi tókst ekki að gera hreint fyrir sínum dyrum meðan á gerð þessa pistils stóð, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og afar sterk hreinsiefni. 

Orð á akureyri.net aftur og aftur

Akureyri.net kynnir til sögunnar nýjan pistlahöfund Einar Hafliðason.

Góðir lesendur.

Nú loksins, í fyrsta skipti á íslensku, erindi frá erindrekanum Einari Haf. Ég á að vísu ekkert erindi við almenna lesendur þessa vefmiðils, en það verður bara að hafa það. Lögmálið um framboð og eftirspurn gildir ekki alltaf. Varúð, þeir sem lesa einarhaf.labratorian.net í áskrift hafa eflaust lesið allt það sem fram kemur hér á eftir.

Gífurleg fjölgun ferðamanna hér á landi heldur áfram að koma ferðamannaparadísinni Íslandi í klípu. Nú er svo komið að í óefni stefnir verði ekkert að gert. Hingað flykkjast túristarnir tugþúsundum saman og sveima um alla þá staði sem mögulega gætu talist áhugaverðir og þar sem mögulega er eitthvað áhugavert að finna, vítt og breitt um landið. Gildir einu hvort um ræðir fallvötn, fjöll, þúfur, mosa, huldufólk, norðurljós, verðtryggð lán eða eitthvað annað séríslenskt. Alltaf eru ferðamennirnir mættir. Vandamálið er að þegar þessir sömu ferðamenn þurfa á klósettið að gera númer 1, númer 2 eða bæði grípa þeir oftar en ekki í tómt. Víða eru engin klósett og sums staðar eru ekki einu sinni hólar, tré, runnar, eldri borgarar eða eitthvað annað sem hægt er að skýla sér á bak við. Fyrir vikið verður upplifun ferðamannanna ekki eins góð og hún annars hefði orðið og margir hverjir þurfa að ganga í keng burt frá náttúruperlunni og aka rakleiðis að þeirri næstu í þeirri von að þar séu salerni. Sumir ferðamenn eru alls ekki á bíl heldur fara á milli staða fótgangandi í hægðum sínum. Þeir hafa því þurft að ganga örna sinna hringinn í kringum Ísland, en við skulum ekkert fara nánar út í það skítamál. Hvernig snúum við þessari þróun við? Uninspired by Iceland.

Góðærið hefur að nýju hafið innreið sína í íslenskt þjóðfélag, Dabba kóngi sé lof. Millistjórnendur eru loksins komnir á verulegt launaskrið og stjórnendur maka krókinn í eitt skipti fyrir öll, ekki bara stjórnendur Krókamökunar ehf. heldur margir fleiri stjórnendur. Auðlegðarskatturinn heyrir sögunni til þannig að vonir standa til að hægt verði að maka krókinn enn frekar á komandi misserum. Eina vesenið er kvabbið í verkalýðnum nú þegar enn og aftur styttist í að semja þurfi að nýju um kaup og kjör á almennum vinnumarkaði og nokkurra þúsundkalla launahækkun fyrir þá sem hafa margra ára háskólanám á bakinu og skulda milljónir í námslán. En hverjum er ekki sama um það þegar millistjórnendur nálgast margir hverjir 3 kúlur á mánuði? Bráðum fæ ég kúlu á hausinn og ég veit hvers vegna.

Nú nýverið átti að taka af dagskrá Rásar eitt hina sívinsælu þætti Morgunandakt, Bæn og Orð kvöldsins. Alveg gat það nú verið. Heiðingjarnir og trúarslóðarnir í dagskrárstjórn og útvarpsráði láta þjóðkirkju og þjóðtrú lönd og leið og hyggjast skipta út nokkurra mínútna andlegu næringarefni fyrir eitthvað bévítans óperurúnk og dægurþras. Ó nei, biskupinn kom snarlega í veg fyrir þetta, að áeggjan umsjónarmanns lóðarinnar við Urðakirkju og fleiri máttarstólpa íslensku þjóðkirkjunnar. Ekki náðist í þennan trúarofstækisfulla umsjónarmann við gerð þessarar efnisgreinar þar sem hann var upptekinn við að tefla við páfann.

Nú nýverið kynnti Alþingi Íslendinga vetrardagskrá sína með pompi og prakt. Á dagskrá þingsins í vetur verða margir áhugaverðir þættir, bæði nýir og gamlir. Má þar meðal annars nefna spjallþáttinn Maður er uppnefndur, spurningaþáttinn Útsvarshækkun, skemmtiþáttinn Klúrt orðbragð, tónlistarþáttinn Bjölluglamur, fréttaskýringaþáttinn Þrasað og þrefað og loks íslenska glæpaþáttinn Hraunið, þar sem hraunað verður yfir hina og þessa þingmenn sem eiga það skilið. Til stóð að setja á dagskrá barnaþáttinn hjartnæma um Kærleiksbangsana en því miður náðist ekki þverpólitísk samstaða um það. Krakkarnir verða því bara að ná sér í eitthvað gott barnaefni á netinu í staðinn í boði Pírata og pirate bay.

Hvað með stóra lekamálið? Nei þetta sleppur, það er ekki ennþá byrjað að leka málið. Skál.

Höfundur sleit barnsskónum meðan á gerð þessa pistils stóð. Skórnir eru því miður taldir ónýtir.