Orð samkvæmt nýrri rannsókn

Góðu lesendur.

Samkvæmt nýrri rannsókn getur lestur bloggsíðu Einars Haf valdið óstjórnlegum niðurgangi. Þessi rannsókn hefur sem betur fer ekki farið hátt í fjölmiðlum vegna fjölda annarra mála sem komið hafa upp og hafa af einhverjum sökum þótt merkilegri.

Samkvæmt nýrri rannsókn eru konur í gríðarlegum minnihluta þegar kemur að viðmælendum í fjölmiðlum. Og hvað með það? Það er alltaf sama tuðið í þessu kvenfólki. Aldrei mega strákarnir fá að hafa neitt út af fyrir sig. Þær hafa saumaklúbba, 50 gráa skugga, kvenfélög og uppskriftarbækur, nú vilja þær líka fá fjölmiðlaathyglina. Týpískt. Hvernig væri að fá Einar til að rita fáeinar greinar um ójafna stöðu kynjana í fjölmiðlum? Jú eflaust góð hugmynd, nema hvað að Einar er karlrembusvín og myndi án efa níða skóinn af kvenfólkinu blygðunarlaust með dylgjum og útúrsnúningum eins og þessi efnisgrein sýnir fram á – og ekki er á það bætandi.

Samkvæmt nýlegri rannsókn er spilling á Íslandi ein sú minnsta sem fyrirfinnst á byggðu bóli og þó víðar væri leitað. Rannsóknin náði til allra stjórnmálaflokka, ungmennafélaga, trúfélaga, bólfélaga og bloggsíðna. Hmm…nei, líklega náði hún til allra nema stjórnmálaflokka, ungmennafélaga, trúfélaga, bólfélaga og bloggsíðna. Algjörlega ótengt þessu má nefna að önnur rannsókn sýndi fram á að aðeins tæp 10% landsmanna vita hvað orðið „spilling“ þýðir.

Samkvæmt nýrri rannsókn selja kampavínsklúbbar ekki bara kampavín. Þetta kemur auðvitað verulega á óvart.

Samkvæmt nýrri rannsókn mengar hérlend stóriðja stórkostlega mikið meira en flestir aðrir fretarar og mengunarsvelgir landsins. Skýtur stóriðjan sjávarútvegi og flugsamgöngum ref fyrir rass þegar kemur að útblæstri og eyðingu ósonlagsins. Allt stefnir í að árið 2015 verði það hlýjasta í heiminum frá upphafi mælinga. Með áframhaldandi mengun lofthjúpsins er vel mögulegt að okkur takist enn betur til við hlýnun jarðar á árinu 2016. Spennandi.

Samkvæmt nýrri rannsókn eru nýjar rannsóknir ekkert endilega betri eða marktækari heldur en eldri rannsóknir.

Það þurfti ekki nýja rannsókn til að koma Svarfdælingum á kortið, það þurfti bara auða vélageymslu, útihús og utanbæjarmenn til að koma dalnum fagra í fréttirnar. Dæmigert. Auðvitað er þetta bara yfirskin yfir allt aðra og miklu dularfyllri starfsemi sem hefur átt sér stað hér í framdalnum um langt árabil. Ég ætla auðvitað ekki að segja hvaða starfsemi það er, en hún tengist auðvitað þessari bloggsíðu og því hvernig Einar Haf fær „innblástur“.

Úti í skúrnum litla urt
ætla ég að kanna
í huganum ég flýg í burt
í þágu vísindanna.

Ekki var tekið viðtal við neinar konur, eða Einar konur, í tengslum við gerð þessarar bloggfærslu. Það gengur bara betur næst. Áfram stelpur.

Einar sýknaður. Og skakkur. Samkvæmt nýrri rannsókn.

Tilvitnun dagsins:
Homer Simpson: Boy, everyone is stupid except me.

Orðin(n) ofsalega bandbrjálaður

Furðulegu lesendur.

Athugið, til að hámarka „ánægjuna“ af lestri þessarar bloggfærslu er æskilegast að hún sé lesin í anda þess sem les inn á Víkingalottóauglýsingarnar sem heyrast þessa dagana í sjónvarpi og útvarpi.

Það eru ýmis mál sem þarf að taka fyrir og fjalla um þessa dagana. Þessi mál eru mis umfangsmikil og mis falleg. Sum eru alls ekki falleg, heldur hræðileg. Eitt þeirra mála er til umræðu í þessari bloggfærslu; jólaundirbúningur og jólaskraut um miðjan nóvember.

Alveg er það með hreinum ólíkindum hvernig sumt fullorðið „viti“borið fólk útþynnir jólahátíðina með því að setja allt á fullt nú um miðjan nóvember við jólaundirbúning. Hvað vakir fyrir þessu fólki? Fyrir þá sem ekki vita er desember jólamánuðurinn, en nóvember er bara nóvember. Það á að vera dimmt og drungalegt í nóvember. Það á að vera skítakuldi, hor og ógeð í nóvember. Til þess er nóvember. Lok nóvember er í lagi, enda byrjar aðventan þá. En er það nóg fyrir þetta skreytingaglaða fólk? Neeeeiiiii.

Kaupmenn eru auðvitað helstu sökudólgarnir í þessu máli. Búið er að markaðssetja jólin þannig að byrja þarf að kaupa inn og gera og græja snemma í nóvember og þannig er hinn kristilegi boðskapur um nægjusemi, hógværð og andlega stillingu að engu hafður. Auðvitað tek ég þátt í þessu og versla eins og óður maður þegar nálgast jólin. Það er ekki mér að kenna, þetta er einfaldlega hópþrýstingur og krafa samfélagsins. Af nákvæmlega sömu ástæðu byrjaði ég á facebook. Kaupmenn, eru þeir sáttir við þetta? Neeeiiiiiii……..þeir vilja meira. Og meira. Aðeins þú getur stöðvað þá.

Heill hellingur af fólki hefur nú þegar kveikt á jólaseríunum. Auðvitað, ekki seinna vænna. Þegar þetta er borið undir viðkomandi koma ýmsar afsakanir, eins og til dæmis að veðrið hafi verið svo gott undanfarið að það hafi verið alveg tilvalið að setja upp jólaseríurnar. Ég kaupi alveg þau rök. En var nauðsynlegt að setja seríurnar í samband líka? Er ekki hægt að setja seríurnar í samband í desember þó komið sé frost og snjór? Er það ekki nóg fyrir þetta seríuglaða fólk? Neeeeeiiiiiii.

Fyrsti jólasveinninn kom til byggða í byrjun þessa mánaðar og mætti auðvitað í IKEA, enda var honum tjáð að jólin byrjuðu þar. Raunar væri það fyrsti vísirinn að jólunum þegar kveikt væri í jólageitinni. Sem kveikti reyndar í sér sjálf að þessu sinni. Jólasveinarnir eru nú þegar orðnir hundleiðir á því að þurfa að húka við búðargluggana og bíða þar eftir því að geta farið að syngja jólalög, dansa í kringum jólatréð og gefa í skóinn. Sem gerist einmitt alveg rétt ekki á morgun, ekki hinn og ekki hinn heldur eftir þrjár vikur. Frábært. Var það þetta sem þið vilduð? Var ekki nóg að fá jólasveinana til byggða í desember? Neeeeeiiiiiiii.

Er ég ekki að taka þessu heldur illa? Ætti ég ekki að hleypa skammdeginu og drunganum úr hjarta mínu og bjóða þangað inn birtunni og ylnum sem fylgir ætíð undirbúningi jólanna? Er þetta ekki spurning um að róa sig aðeins og sætta sig við orðinn hlut? Neeeeeiiiiiiiiiiii.

Tíminn líður á ógnarhraða og áður en við vitum af verður aðventan byrjuð. Þá hljómar þessi bloggfærsla eflaust mjög illa. En er mér sama? Jáááááááááá.

Í hátíðarskap ég kemst í dag
þvert gegn vilja, því er ver
húsið er nú með helgum brag
fullskreytt um miðjan nóvember.

Hvað skyldi forseti vor, Jólafur Ragnar Grímsson, hafa um þetta að segja? Réttast væri fyrir hann að neita því að staðfesta jólalögin sem lög frá Alþingi og senda allt heila klabbið í þjóðaratkvæði. Hvernig myndi ég kjósa? Neeeeiiiii.

Einar óhemju neeeiiiikvæður.

Tilvitnun dagsins:
Homer: Shut up, Flanders!
Ned Flanders: Okily-dokily!

Orðin bundin

Strengdu lesendur.

Varúð, þema þessarar bloggfærslu er bundið. Með eða án samþykkis ykkar.

Já, fólk er bundið í ýmsu þessa dagana. Sumt fólk er bundið yfir snjallsímunum, annað fólk er bundið yfir sjónvarpsdagskránni og enn annað fólk er bundið við heimilisstörfin. Svo eru sumir líka bundnir við BDSM iðju. Sama yfir hverju fólk er bundið og við hvað fólk er bundið og á hvaða hátt fólk er bundið er ljóst að samfélagsmiðlarnir nötra.

Sumir ganga bundnir til kosninga. Það hlýtur að vera erfitt. Og tafsamt. Langflestir kjósa að ganga óbundnir til kosninga og er það vel. Sumir eru bundnir trúnaði. Aðrir eru bundnir þagnarskyldu. Enn aðrir eru tímabundnir. Verst af öllu er að vera bundinn einhvers staðar í ókunnri íbúð. Get ég ímyndað mér. Ég er ekki bundinn af þessum ummælum er það nokkuð? Enn nötra samfélagsmiðlarnir.

Næst á dagskrá er bundið mál sem Kalli heitinn í Klaufabrekknakoti kenndi mér og ég hef bundið trúss mitt við:
Einar minn ó já, ekki fór á fundinn
heima í leti latt lá, líkt og hundur bundinn
flösku hefði þurft að hella ofan í hundinn
því hrygg var lundin.

Þar hafið þið það. Eins og kom fram áðan nötra samfélagsmiðlar. Hvers vegna? Vegna þess að einhver fannst með reipi og svipu heima hjá sér? Nei, vegna þess að nú eru allir í því að vera brjálaðir og hneykslast á því opinberlega að meintar nauðganir meintra nauðgara hafi ekki orðið til þess að meintum sakborningum hafi verið kippt í meint gæsluvarðhald. Meint fólk út í bæ ákvað að birta meintar myndir af meintum sakborningum á netinu, nafngreina þá og fjalla um á ýmiskonar meintan hátt. Lögfræðingar meintra fórnarlamba og meintra sakborninga eru brjálaðir og fyrirséð er að meintar kærur munu fljúga á milli, þannig að fyrir rest verða allir búnir að kæra alla fyrir leka, myndbirtingar, ærumeiðandi ummæli, spillingu rannsóknarhagsmuna og fleira. Raunar verður allt kært nema meintar nauðganir, sem er furðulegt í ljósi þess hvernig þetta mál allt saman er til komið.

Meintur fjölmiðlamaður, sem er reyndar ekki bundinn, lét hafa eftir sér opinberlega nýverið að betur sæmdi að flytja fólk til höfuðborgarinnar og borga því fyrir það heldur en að ausa fé í hinar og þessar tittlingaskíts framkvæmdir á landsbyggðinni sem engu munu skila. Til hvers í ósköpunum ætti svo sem að byggja einhvern snjóflóðavarnargarð úti í rassgati þegar hægt er að nýta peningana í að efla verslun á Laugaveginum? Samfélagsmiðlarnir nötra og skjálfa.

Það er ekkert grín að skrifa heila bloggfærslu þar sem þemað er bundið í titil færslunnar. Kannski þess vegna sem engum stekkur bros á vör.

Eftir að Einar Haf byrjaði aftur að blogga fór landflótti af stað á nýjan leik. Nú er útlit fyrir að árið í ár slái öll met á síðari tímum þegar kemur að fjölda þeirra íslensku ríkisborgara sem flytja úr landi. Ég á sök á þó nokkuð mörgum landflóttum. Til dæmis gerði ég skattframtalið fyrir systur mína núna síðast, hún er flutt til Danmerkur. Tilviljun? Kannski er ég bara heppinn að hún flutti ekki enn lengra í burtu, svona þegar ég skoða skattframtalið betur. En það er annað mál.

Fyrst að samfélagsmiðlarnir nötra svona í sífellu, má ekki bara binda þá?

Margur er maður óheflaður
í myrkvaðri íbúð er keflaður
bundinn við stól
brátt koma jól
háls minn er býsna vel treflaður.

Hmm…þetta bundna mál var býsna laust í reipunum, ekki satt?

Einar óheflaður, en ekki keflaður.

Tilvitnun dagsins:
Hljómsveitin Queen: Tie Your Mother Down!

Orðin hættuleg

Skaðræðislegu lesendur.

Er ekki kominn tími til að hysja upp um sig buxurnar og sætta sig við þá staðreynd að Einar Haf er aftur byrjaður í blogginu? Nei, það á kannski ekki við að hysja upp um sig buxurnar í þessu tilfelli. Frekar kannski að loka hurðinni, slökkva á tölvunni og breiða upp fyrir haus. Þess má geta að þessi bloggfærsla var einmitt skrifuð þannig.

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að unnar kjötvörur séu krabbameinsvaldandi. Ekki náðist í Unnar kjötvörur við gerð þessarar bloggfærslu. Reynt var að hafa samband við nokkra starfandi kjötiðnaðarmenn sem heita Unnar en þeir vildu ekki kannast við að vera kallaðir Unnar kjötvörur, hvað þá að vera krabbameinsvaldandi. Þetta er augljóslega frekar snúið mál og þar af leiðandi borin von að ég nái að ráða mig fram úr því.

Maður er það sem maður borðar, þess vegna er ég eins og gamalt bjúga í framan.

Tónlistarhátíðin Icelandic Airwaves stendur nú sem hæst í Reykjavík. Þeir sem fylgjast með fjölmiðlum eða samfélagsmiðlum hafa tæplega komist hjá því að fá fréttir af þessari hátíð, hvort sem þeir kæra sig um það eða ekki. Fjölmargir tónlistarmenn koma fram aftur og aftur og fram og aftur á hátíðinni og enn fleiri koma ekki fram á hátíðinni heldur utan hátíðar. Hvað á ég við? Ég er að tala um fyrirbærið sem heitir Offvenjú eða afvenju upp á íslensku. Ég er að vísu litlu nær um hvernig þetta nákvæmlega virkar, en ég veit þó að það er ekkert minna móðins að koma fram afvenju heldur en á hátíðinni sjálfri. Svo það sé á hreinu þá kemst enginn hjá því að detta hressilega í það á þessari hátíð, hvort sem það er að venju eða offvenjú.

Viðskiptabann Rússa, eru allir búnir að gleyma því? Banninu sem átti að setja þjóðina á vonarvöl?Greinilega. Umfjöllun um bannið hvarf eins hratt úr kastljósi fjölmiðlanna og „tónlistarmaðurinn“ Gísli Pálmi eftir fúkyrðaflauminn sem hann var fenginn til að flytja í beinni útsendingu á Arnarhóli á menningarnæturgamni Reykjavíkur nú í sumar. Eru þið að fokking heyra í mér Arnarhóll? Þessu spurði hann að í sífellu. Flott hjá honum. Annað sem er horfið með öllu; innihaldslýsingahneykslið. Hver man til dæmis eftir Gæðakokkum í Borgarnesi? Og Dow Jones vísitalan, hvað fylgjast margir með henni í dag? Edward Snowden?

Talandi um snow. Eða snjó. Nú þegar kominn er 5. nóvember er enn snjólaust í Svarfaðardal og nágrenni og kindur úti á beit. Yndislegt. Einar Haf er auðvitað kominn á þrælnegld nagladekk og refsar malbikinu grimmilega daginn út og inn á Súbarú fák sínum. Ég meina, það þarf að refsa einhverjum fyrir það að ég setti nagladekkin undir um daginn – það er alveg eins gott að malbikið taki skellinn. Malarveginum í fram-Svarfaðardal er erfiðara að refsa, hann refsar öllum sem um hann keyra með miskunnarlausum drulluslettum sem engu hlífa. Ég lít á björtu hliðarnar, það er bara töff að keyra um á bíl sem er blár að ofan og leðjubrúnn að neðan.

Tónlistin er tær og hrein og fögur
tímalaus og listileg í senn, jú
Bloggfærslan er bagaleg og mögur
best væri að hafa’na off venjú.

Þess má geta að þeir sem ekki nenna að lesa þessa bloggfærslu geta beðið eftir bíómyndinni. Ekki bíómyndinni um bloggfærsluna heldur bara einhverri bíómynd. Mér er alveg sama.

Einar afvenju.

Tilvitnun dagsins:
Marge: „I’d really like to give this a try.“
Homer: „I dunno, trying is the first step towards failure…“.

Orðin hrekkjótt

Viðsömdu lesendur.

Þá hefur aðilum vinnumarkaðarins loksins tekist að semja um nýjan inngang hér í bloggfærslu Einars Haf. Um er að ræða miklu betri og nútímalegri inngang en tíðkast hefur hingað til. Inngangurinn á að fylgja verðlagsbreytingum auk fastra hækkana í þrepum, en að vísu fylgir ekki sögunni hvort inngangurinn verði eitthvað skiljanlegri fyrir vikið. Hvað með launahækkanirnar? Iss piss, hver þarf launahækkun þegar hann hefur góðan inngang? En er svo ekki líka verið að tala um að stytta vinnuvikuna? Eða átti kannski bara að stytta inngangana? Nei það passar nú eiginlega ekki.

Hrekkjavakan er haldin hátíðleg í þessum töluðu orðum, öskudagur fátæka mannsins. Ýmiskonar uppvakningar, skilanefndarmenn, forynjur, kröfuhafar og draugar leika lausum hala og vaða uppi með hrekkjum og fyrirgangi. Af engri augljósri ástæðu. Uppvakningar eru að vísu ekki bara á ferðinni um hrekkjavökuna, þeir eru á ferli flesta daga ársins. Sumir gegna meira að segja ábyrgðarstöðum í þjóðfélaginu.

Þing Norðurlandaráðs hefur farið fram undanfarna daga í Reykjavík. Á þingum Norðurlandaráðs sitja hrekkjalómar og þingfulltrúar Norðurlandanna saman og tala saman…..á ensku. Eða í hæsta máta á bjagaðri dönsku. Týpískt. Hvað er svo verið að ræða um? Jú, auðvitað er verið að tala um Víkingalottóið.

Um áramót stendur til að sprengja burtu gjaldeyrishöftin með sannkallaðri áramótabombu. Bomban verður sprengd á kostnað erlendra kröfuhafa og slitabúa og verður að minnsta kosti 500 milljarða virði. Auðvitað snýst lífið um miklu meira en peninga, sagði enginn erlendur kröfuhafi. Aldrei. Hrekkjalómar.

Jólin þín byrja í IKEA. Verður sem sagt opið hjá þeim í IKEA kl. 18:00 á aðfangadegi jóla, 24. desember? Athyglisvert. Svo var sagt frá því áðan að jólin væru komin í BYKO. Hvernig má það vera? Eru þeir í BYKO á öðru tímabelti en við hin? Jólagarðurinn í Smáralindinni gengur vel – sem og í Blómavali í Skútuvogi, hann er búinn að vera í gangi í meira en viku. Auðvitað. Auðvitað þarf að þynna út hátíðleika jólanna og besta ráðið er að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur – blessuð börnin. Það er búið að koma því inn hjá yngstu kynslóðinni að það sé alveg eðlilegt að byrja að setja upp jólaskraut í lok október. Svei því öllu saman. Ekki bæta tónlistarmennirnir okkar úr skák þegar þeir, í sífellu og síbylju, auglýsa að nú sé nánast orðið uppselt á alla jólatónleikana. Takk fyrir upplýsingarnar. Er þessi árlegi reiðilestur Einars Haf ekki orðinn frekar þunnur? Jú, þunnur eins og Einar Haf.

Ég ferðaðist til Reykjavíkur um síðustu helgi í þeim tilgangi að fara í blaðaviðtal hjá Morgunblaðinu (einarhaf.is greiddi flugfarið og hótelgistinguna fyrir mig). Ég stóð í þeirri meiningu að viðtalið ætti að fjalla um óbeit mína á jólastemmningu í október og þá staðreynd að ég missi þráðinn þegar málefnið ber á góma í bloggfærslum mínum – en í staðinn var ég spurður um hvar ég vildi að nýr Landspítali ætti að rísa. Eins og svoleiðis tittlingaskítur skipti einhverju máli þegar jólabrjálæðingarnir ganga lausir þarna úti?

Málefni vikunnar: http://www.mbl.is/smartland/samskipti/2015/10/31/engin_kona_getur_stadist_luxus_turtappa/. Mín skoðun? Alveg sammála.

Vinsælt er að hrekkja hrekk
og hreykja sér í böðunum.
Ég tolli ekki í tossabekk
tjái mig frekar í blöðunum.

Þess má geta að ekki er lengur hægt að fá miða á jólatónleika KK og Ellenar þar sem þeir eru allir uppseldir en hins vegar eru enn til miðar á aftansöng jóla í Dómkirkjunni.

Einar lómur hrekkja.

Tilvitnun dagsins:
Rodney Dangerfield: On Halloween, the parents sent their kids out looking like me.

Orð á fornum slóðum

Endurlesnu lesendur.

Það er tæplega hægt að halda því fram að endurkoma Einars Haf á vettvang bloggsins sé sú kraftmesta sem sögur fara af. Þetta er í raun bara framhald á sama gamla stagglinu – nema hvað að nú er Einar Haf farinn að horfast í augu við vandann og viðurkenna hann fyrir sjálfum sér og öðrum. Annað sem ég var að spá í, hafa inngangarnir í bloggfærslum Einars Haf alltaf verið svona lélegir?

Sláturtíð hefur nú staðið yfir um nokkurt skeið og gengið vel. Lömbin sem fögnuðu í vor þögnuðu nú í haust, en áhorfendur rögnuðu meðan þeir horfðu á Gló Mögnuðu. Þetta segir sig sjálft. Lambakjöt er vitanlega besta kjöt sem völ er á, nú sem endranær. Um það verður ekki deilt. Ég tala nú ekki um þegar búið er að reykja kjötið í reykhúsinu á Urðum. Í þessu samhengi má nefna sperðlana, sem ég tók svo eftirminnilega þátt í að búa til fyrir skemmstu. Þeir hafa nú verið teknir niður úr reykingakofanum og verið smakkaðir, maður lifandi.

Um síðustu helgi slóst undirritaður í hóp með Ungmennafélaginu Óþokka þar sem liðsmenn þess héldu til Hull í Bretlandi í svokallaða menningarferð. Tilgangur ferðarinnar var loðinn og teygjanlegur eins og þessi frásögn. Spilaður var fótbolti, farið í fótboltagolf og horft á fótboltaleik í Sheffield. Farið var í rútu, leigubíl og lest. Svo var farið á knæpur, krár og bari. Ekki er hægt að greina frá ferðinni í frekari smáatriðum af ótta við lögbann – eða leikbann.

Þingstörf ganga vel eins og alltaf. Afar málefnalegar umræður hafa farið fram undanfarið um fundarstjórn forseta. Vonir standa til að frumvarp um fundarstjórn forseta komist gegnum þingið fyrir jól. Það er jú farið að styttast verulega í jólin.

Samningaviðræður á almennum vinnumarkaði ganga líka vel. Eða kannski ekki. Landspítalinn er í lamasessi vegna tíðra verkfalla en það sem verra er er að vínbúðirnar hafa þurft að loka og þar af leiðandi eru menn að verða verulega þurrbrjósta og leiðinlegir. Krafa verkalýðsins er sem fyrr betri bílar, yngri konur, eldra viskí og meiri pening.

Framtíðardagurinn var haldinn hátiðlegur í fortíðinni í gær, 21. október. Þá var þess minnst að 30 ár eru síðan Marty McFly og Doktorinn í bíómyndaþríleiknum Back to the Future flökkuðu 30 ár fram í tímann, frá árinu 1985 til ársins 2015, nánar til tekið 21. október. Spekingar hafa rýnt í hverju spáð var um framtíðina í myndinni og hvað hefði ræst af þeim spádómum. Risaskjáir, tölvuleikir án handa og þrívídd voru meðal þess sem hefur ræst, afnám gjaldeyrishafta og íslenski fasteignamarkaðurinn er meðal þess sem myndin spáði ekki rétt fyrir um. En það er jú ekki hægt að sjá allt fyrir.

Nú er auglýst að jólagarðurinn í Smáralind opni um helgina, nánar til tekið fyrsta vetrardag. Loksins loksins. Guði sé lof. Ég sem var farinn að óttast að jólagarðurinn myndi bara hreinlega alls ekkert opna í ár. Í IKEA eru menn auðvitað byrjaðir að skreyta og matsölustaðurinn farinn að bjóða upp á rammíslenskt (að eigin sögn) hangikjöt – sem verður á boðstólnum alla daga til jóla. Ætli verði ekki farið að slá í kjötið og kokkinn síðustu dagana fyrir jól. Og ekki langar mig í hangikjötið af kokkinum, það er önnur saga.

Veturnætur langar valda
vesæld innst í minni sál
Einars angist djúpa falda
ætlar upp að kveikja bál.

Vorboðinn minn litli ljúfi
lagðist út í skafl og dó
í stað hans á ég von á Stúfi
strjúkandi sinn stinna þjó.

Jólin koma ekki snemma í ár. Skoðið bara almannakið.

Einar í framtíðinni.

Tilvitnun dagsins:
Dr. Emmett Brown: Great Scott!

Orðin öfugsnúin

Hljóðir lesendur.

Það er varla hægt að tala um að endurkoma Einars Haf á öldurhús….afsakið, öldur ljósvakans komi á óvart. Þetta hefur legið í loftinu lengi og verið skrifað í skýin um þó nokkurn tíma. Mikið tómarúm hefur myndast í þjóðfélagsumræðunni og mörg mikilvæg mál hafa engan veginn fengið þá umfjöllun sem þurft hefði svo almenningur ætti gott með að átta sig á stöðunni, vega og meta aðstæður og mynda sér skoðun. Þegar fréttist af endurkomu Einars Haf voru þeir Gísli Marteinn á RÚV og Logi Bergmann á Stöð 2 settir til höfuðs honum í dagskránni og því er ljóst að hart verður barist um hylli fólks á næstunni. Æi nei annars, best að horfa bara á The Voice á Skjá Einum í opinni dagskrá, það hljóta allir að geta sætt sig við það.

Fræðimenn og aðrir sem tjáð hafa skoðanir sínar opinberlega óttast svokallaða bólumyndun í hagkerfinu. Þetta er engin ný bóla. Eða jú, sennilega er þetta ný bóla. Alveg glæný meira að segja. Bólar eitthvað á þessu ennþá? Nei ég held ekki. Ekki náðist í Bólu úr Stundinni okkar við gerð þessarar efnisgreinar.

Allt logar í illdeilum á vinnumarkaði. Fræðimenn, ekki þó þeir sömu og minnst var á hér að framan, tala um að nú sé höfrungahlaupsheilkennið komið af stað, það er að segja að fyrst sé samið við hóp fólks um 20% launahækkun sem veldur því að næsti hópur sem samið er við fær 20,5% launahækkun og þannig koll af kolli. Þetta koll af kolli veldur verðbólgu og kollsteypu og það getur komið okkur öllum í koll. Og ég kæri mig kollóttan. Ekki má ég við því. Yfir 40% fólks sem er í 40% skattþrepinu finnst 20% launahækkun sirka 85% af því sem hækkunin ætti að vera miðað við 100% starf, ég er þó ekki 100% viss um þetta. Eftir þessa setningu er ég kominn í rétt tæp 300%. Hversu sterkt er það sem þú ert að drekka? 5,5%.

Eins og lesendur ættu að kannast við hefur sá er þetta ritar lagt sig fram um það hingað til að tjá sig á góðri íslensku, eins og það er kallað, með notkun vandaðs málfars og stafsetningar eins og honum er frekast unnt – þó hann sé alls ekki saklaus af bjöguðu málfari. Nú eru uppi viðsjárverðir tímar í þjóðfélaginu þar sem ýmsir eiga undir högg að sækja, fleiri en ég. Íslensk tunga er þar hvergi undanskilin, enda er tungan fótum troðin af enskuslettandi snjallsímakynslóð og málhöltum froðuheilum sem kunna oft ekki að tjá sig á íslensku. Því verðum við í menningarmafíunni að leitast við að vernda tunguna eins og kostur er og láta okkur ekki vefjast tunga um tönn. Ef fram heldur sem horfir, hvernig verður þá talað og ritað mál í framtíðinni? Best að kansela fokking fundinum því allir eru á feisinu eða jútjúb. Hómís. Swag. Rólex skiluru. Bwhaha. Bigg læk áþa okei. Hættað gúggla mig moðerfokking krípið þitt, hasstagg sjitt. Bæ. Einmitt, þetta var kannski ekki raunhæft dæmi. En hver er svo sem að leita að einhverju raunhæfu ef hann er hvort eð er að lesa bloggfærslu skrifaða af Einari Haf?

Samkvæmt fræðimönnum hafa aldrei í mannkynssögunni liðið jafn margir dagar milli ríkisstjórnarfunda nokkurs staðar eins og hjá ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar nú í sumar, rúmur mánuður. Ég er hneykslaður. Svo er ég líka hneykslaður á því að sum hrísgrjón eru full af arseni og arseniki, samkvæmt fræðimönnum. Ég krefst þess að fá að vita í hvaða pökkum þessi hrísgrjón eru, en ef það er of mikið mál krefst ég þess að hvert og eitt hrísgrjón verði upprunamerkt svo hægt sé að sniðganga vafasöm grjón sem koma frá vafasömum framleiðendum.

Enn og einu sinni er rætt um hvort leyfa eigi sölu áfengis í matvörubúðum. Er ekki kominn tími á að poppa þessa einstrengingslegu umræðu aðeins upp og færa á hærra plan? Af hverju kemur enginn með frumvarp þess efnis að selja matvöru í áfengisbúðum? Ég bara spyr.

Sláturtíðin stendur nú sem hæst. Búið er að slátra ám og lömbum, gera að skrokkunum, salta og saga. Hakka í spað og búa til sperðla. Nammi. Svo er reyking í reykhúsinu hafin. Nammi nammi. Hverjum verður slátrað næst? Sennilega fíflinu sem taldi það góða hugmynd að taka upp þráðinn á ný sem bloggari, múhaha.

Haustsins blær um lyngið læðist
ljúft er það sem guð oss gaf.
Von um velsæld vex og glæðist
en lítið lagast Einar Haf.

Þess má til gamans geta að það að skrifa eitthvað meiningarfullt á feisbúkk og fá læk og deilingar á það jafngildir ekki alltaf byltingu, samkvæmt fræðimönnum. Því sjaldan veldur einn ef tveir deila einhverju á feisbúkk.

Einar fræðimaður.

Tilvitnun dagsins:
Norm: Next to Sammy’s life, my life has always appeared dull. Then again, next to a barnacle’s life, my life has always appeared dull.

Orðin snúa aftur

Langþráðu lesendur.

Maðurinn sem hvarf sporlaust fyrr á árinu 2015 er nú kominn aftur í leitirnar. Að vísu var enginn að leita að honum, en það er alveg sama. Bloggsíðan sem hann hafði til umráða var lögð niður af ráðandi öflum í samfélaginu, en hefur nú verið lífguð við vegna ástandsins í þjóðfélaginu. Einna líklegast er að fljótlega verði síðan lögð niður á nýjan leik, en best er að taka bara einn dag í einu og eitt blogg í einu. Er ég að lesa bloggfærslu eftir höfund í persónulegri krísu og tilvistarkreppu? Hvað ár er, 2004? Lol (lítið og lélegt).

Hvers vegna lokaði bloggsíðan annars þarna á sínum tíma? Var það kannski ritskoðunarnefnd ríkisins sem lét loka henni? Hvaða hagsmuni var verið að vernda? Var einhver sannleikur sem ekki mátti líta dagsins ljós? Já, allt passar þetta. Ég er hins vegar löngu búinn að gleyma því núna hvað það var sem var svona merkilegt og mátti ekki kvissast út. Það eru jú margir mánuðir síðan bloggsíðan lokaði.

Í ljósi þess hvernig horfir í þjóðmálunum og þess hve langur tími er liðinn síðan síðast er rétt að taka stöðuna á nokkrum hlutum:

1) Ísland er enn ekki að hætta við að ganga ekki í Evrópusambandið, hvorki að undangenginni né frágenginni þjóðaratkvæðagreiðslu eða atkvæðagreiðslu um þingsályktun um þjóðaratkvæðagreiðslu eða umsókn um að vera umsóknarríki. Enn fremur hefur því verið vísað á bug í umræðum um bréfið sem utanríkisráðherra skrifaði að þetta mál lægi ekki ljóst fyrir af hálfu Íslendinga eða ekki.

2) Auðlindir eru eftir sem áður í þjóðareign, en þið eruð reyndar ekki þjóðin.

3) Íslendingar eru enn bestir Norðurlandaþjóða í knattspyrnu karla. Þjóðin fylkir sér á bak við strákana okkar og Laugardalsvöllur er þétt setinn, raunar svo þétt að krafa er komin á nýjan og stærri þjóðarleikvang. Hálftíma síðar keppa stelpurnar okkar í kvennalandsliðinu í mikilvægum leik í undankeppni stórmóts en aðeins nokkur hundruð hræður nenna að mæta. Einmitt. Svo segja menn að Einar Haf sé tvöfaldur í roðinu?

4) Þegar bloggsíðu Einars Haf var lokað stefndi allt í óefni í heilbrigðiskerfinu. Hefur sú staða batnað? Tja….hvað varðar geðheilbrigðismál bloggara er ég ekki viss. Gagagúgú.

5) Allir urðu brjálaðir þegar Amnesty International ályktaði að afglæpavæða skyldi vændi. Í kjölfarið var ég afglapavæddur, enda afglöp ein minna sérgreina. Þetta mál gleymdist mjög fljótlega þegar þjóðfélagsumræðan beindist að byrjendalæsi, sem ég átti reyndar erfitt með að lesa mér til um sökum byrjendahæsis. Skömmu síðar skall flóttamannavandinn á þjóðinni og sér enn ekki fyrir endann á því. Ef ég reyni að henda reiður á þann vanda verður einhver reiður – best að sleppa því.

6) Einar Haf er eftir sem áður ekki byrjaður að æfa krossfitt, búttkamp eða módelfitness (þó sú grein henti honum líklega býsna vel), en hann er hins vegar mjög nálægt ólympíulágmörkunum bæði í réttritun örvhentra og samhæfðu sundi einstaklinga. Við fylgjumst spennt með því.

7) Liður 6) tengist þjóðmálaumræðunni ekki á nokkurn hátt, ég skil reyndar ekki hvers vegna þurfti að taka stöðuna á þessu máli í þessari bloggfærslu.

Stóðréttir fóru fram í Svarfaðardal um síðustu helgi. Á hverju ári í mörg ár hefur verið greint frá því á bloggsíðu Einars Haf hversu lengi réttin stóð, hvar stóðið stóð, hvað stóð upp úr og hvernig stóð á allri fyrirhöfninni. Þessari umfjöllun verður sleppt í ár, enda er hún löngu gengin sér til húðar. Óþarfi er að greina frá stóðréttarballinu sem stóð fram eftir nóttu, en óljósar heimildir herma að sjoppustjóri Umf. Dodda Svörf hafi ráðið þaulreyndan starfsmann til sjoppu- og siðgæðisvörslu þannig að hann sjálfur gæti sleppt fram af sér beislinu í allra handa gleðilátum. Öðruvísi mér áður brá. Og eflaust lesendum líka.

Að hlusta á allar þessar jólatónleikaauglýsingar og sjá jóladótið koma í búðirnar smátt og smátt fær mann bara til að hlakka til jólanna. Er það nokkuð of snemmt? 5. okt? Rasshausar.

Lúið gamalt rop og raus
lifnar upp af dvala,
fjandinn bráðum gengur laus
þjóðin ekki þetta kaus
ein er baun í bala.

Þess má til gamans geta að engin svín fengu legusár við gerð þessarar bloggfærslu.

Einar á ný.

Tilvitnun dagsins:
The Terminator: I´ll be back!

Orð á akureyri.net

Góðir lesendur.

Við Dorrit færum ykkur öllum okkar bestu óskir um farsæld og hamingju á árinu sem nú er nýhafið með þökk fyrir öll liðnu árin.

Það fór eins og sérfræðingar höfðu spáð; nýtt ár gekk í garð um áramótin og gamla árið sprakk í loft upp við dynjandi skothríð og fagnaðarlæti. Nýtt ár hefur í för með sér nýjar væntingar, nýja nálgun og nýja hugsun – nema auðvitað þegar kemur að Einari Haf sem virðist því miður hjakka í sama farinu og hann var í á síðasta ári. Aumingja hann. Og aumingja lesendur.

Skammdegið, þessi yndislegi tími drunga og svartnættis. Ótrúlega margir hafa gaman af dumbungnum og sortanum og geta ekki hugsað sér að berja sólina augum eða líta bjartan dag. Þarna er ég auðvitað ekki að tala um hinn almenna D-vítamínsnauða borgara heldur svokallaða uppvakninga, eða sombía. Það er minnihlutahópur sem hefur orðið algjörlega undir í samfélaginu, en virðist nú loks vera að vakna til lífsins.

Annar minnihlutahópur hefur líka átt undir högg að sækja, síþreyttir. Þreyta getur verið margskonar en ein tegund þreytu er svokölluð klukkuþreyta, sem hefur einmitt gert vart við sig nú í svartasta skammdeginu. Svoleiðis þreyta á ekki bara við um þá sem eru orðnir þreyttir á klukkunni og endalausum umræðum um hana heldur líka þá sem telja að klukkan hér á landi sé kolvitlaus. Sérfræðingar segja að klukkan sjö á morgnana sé klukkan í raun hálf sex. Hádegismaturinn ætti ekki að vera fyrr en hálf tvö og svo er kaffitíminn mjög nálægt kvöldmatnum í raunveruleikanum. Svo veit ég ekki hvaða áhrif þetta hefur á klukkubúðirnar, sem eru að vísu alltaf opnar. Þreyta ungmenna á morgnana er rakin til þessarar klukkuvitleysu. Mér detta fleiri ástæður í hug fyrir þeirri þreytu án þess að þær verði tilgreindar hér. Þess má geta að klukkan núna er það sama og hún væri á Grænhöfðaeyjum fyrir hádegi ef búið væri að flýta lágnætti um tvo klukkutíma. Ég ætla að hringja í klukkuna á eftir og reyna að komast til botns í þessu. Gangi mér vel.

Svo er það nú einn minnihlutahópurinn enn, en það er sá hópur fólks sem er með aðra löppina styttri en hina. Það er hópur sem hefur staðið verulega höllum fæti nú um langt árabil.

Sá hópur sem ekki er í minnihluta í samfélaginu; feitabollur eins og ég. Nú í upphafi árs nýta líkamsræktarfrömuðir, bútkamparar, krossfittarar, hottjógarar og allir hinir áramótaheit okkar íturvöxnu til hins ýtrasta og leggja sig alla fram um að lokka okkur til sín í púl og svitabað. Aukakílóin skulu fjúka, fitan skal brenna og nú skal taka þetta með trompi. Flagð er undir fögru skinni en bein er undir mögru skinni. Hvað gerist síðan? Jú, þorri fólks missir móðinn, að minnsta kosti á Þorranum en hinir staðföstu þrauka áfram, enda búnir að borga tugi þúsunda fyrir líkamsræktarkort. En hvernig ætlar Einar Haf að losa sig við sín aukakíló? Ekki endist hann í púlinu. Tja, ég bind miklar vonir við Þorrakúrinn sem tekur við síðar í mánuðinum. Í fyrra voru það megrandi hvalabjór og grennandi lífrænir lambatittlingar, hvað gerist nú?

 

Megrun

Kílóin koma í bútum

og konfekti öll verðum háð

akfeitum steikunum stútum

megrunin byrjar í bráð.

 

Um áramót auðmjúkur strengi

heit um að bæta mitt lag

hyggst lifa vel bæði og lengi

megrunin byrjar í dag.

 

Á þrettánda þvalur af svita

þenki um misrétti heims

fjallið á mér heitir fita

megrun er ekki til neins.

 

Þrjóskur þó reyni að vera

og þykist ef einhver mig spyr

fituna burt ætl’að skera

megrunin fær aukinn byr.

 

Þorrinn mun senn þreif’á okkur

hinni þrautseigu megrandi stétt

fitna þá fáir ef nokkur

megrunin þykir mér létt.

 

Því miður er margt sem að truflar

meira en vilja þarf til

sykurinn sálina hruflar

megrunin lendir í byl.

 

Hætturnar leynast víst víða

varla ég óhultur er

gourmet og sósur mig svíða

megrunaráráttan þver.

 

Freistingar fljótt taka völdin

fölnar hið nýstrengda heit

sætindi sækj’að á kvöldin

um megrun ég ekki neitt veit.

 

Á hilluna kortinu hendi

og hundsvekktur þerra burt tár

ræktin fékk rysjóttan endi

megrunin frestast um ár.

 

Engum aukakílóum var misþyrmt við gerð þessa pistils.

Orðin(n) brjálaður

Nú er nóg komið. Mælirinn er fullur. Hingað og ekki lengra, þakka ykkur fyrir. Ég hef setið þögull undanfarnar vikur og samtímis hefur reiðin kraumað og stigmagnast innra með mér. Það hlaut að koma að þolmörkunum. Og auðvitað bitnar þessi innri bræði á ykkur lesendum. En einhver verður jú að taka skellinn.

Þegar þetta er ritað er 13. nóvember. Það stoppar þó ekki alla vitleysingana sem finnst þeir endilega þurfa að setja allar jólaseríur í samband og kveikja á jólastjörnum við fjölfarnar umferðargötur nú þegar meira en 40 dagar eru til jóla – og eyðileggja þannig skammdegið fyrir okkur hinum. Hvers lags ekkisens andskotans vitleysa er þetta? Ekki er rafmagnsokrið að sliga þessa bjána, svo mikið er víst. Verða ljósin ekki orðin hversdagsleg eftir nokkrar vikur? Skildi þó ekki vera, grautarheilar. Við skulum samt endilega hafa kveikt á ljósunum. Já já, það er allt í lagi bara.

Létt-Bylgjan byrjaði að spila jólalögin fyrir meira en viku síðan. Bévítans apakettirnir. Það er ekkert hátíðlegt við Jóla-Bó þegar hann er í massívri tveggja mánaða spilun. Er það? Ekki eru rasshausarnir í verslunarmiðstöðvunum skárri þar sem þeir, algjörlega óumbeðnir, leitast við að koma fólki í jólaskap með útstillingum, glingri, konfektkynningum og skreytingum. Þetta getur auðvitað gert hvern mann geðveikan. Viljið þið ekki bara sprauta fólk með heilögum anda í æð, manndelarnir ykkar? Þið megið taka þetta jólaglingur ykkar og troða því upp í aftansönginn á ykkur alveg fram á aðventu.

Hvað ætli jólasveinunum finnist um þetta? Það hlýtur að vera komin aukin pressa á þá að fara tvær umferðir og gefa í skóinn, svona fyrst að jólaskapið er byrjað að blómstra nú þegar. Það verða allir orðnir endanlega vitlausir loks þegar þrettán dagar eru til jóla og Stekkjarstaur mætir á svæðið. Uppfæra þyrfti textann góðkunna um jólasveinana sem ganga um gólf á þann veg að í stað “níu nóttum fyrir jól þá kem ég til manna” yrði sungið “tuttugu og níu nóttum fyrir jól þá kem ég til manna”. Er það það sem þið viljið? Ginningarfífl.

Það er ekki nóg með að ég sé bandbrjálaður út af snemmkomnum jólum, ég er hoppandi snælduvitlaus út af skuldaleiðréttingunni. Af hverju er verið að leiðrétta gömul og góð íslensk skammdegisþunglyndis verðbólgin fasteignalán sauðsvarts almúgans? Má fólk ekki borga sínar svimandi háu afborganir í friði fyrir stjórnvöldum? Nei auðvitað ekki, það þarf endilega að leiðrétta lánin. Var virkilega ekkert annað sem þörf var á að leiðrétta fyrst? Hvað með skínandi skær jólaljós 13. nóvember? Það þarf ekki að leiðrétta það? Ó nei. Leiðréttum frekar lánin. Grefilsins asnagangur alla tíð.

Svo er það lekamálið. Alveg getur það mál gert mig stjörnugalinn. Það þarf endilega að býsnast yfir einhverjum guðsvoluðum hælisleitanda og einhverjum leka á hans persónulegu högum sem allir eru hvort eð er búnir að gleyma. Hvaða fjandans máli skiptir það? Skiptir virkilega ekki meira máli að halda jólaskreytingavitfirringunum og jólalagabrjálæðingunum í skefjum? Þeir mega ganga lausir, já já, en heiðarlegir embættismenn sem leka pínu – þeir þurfa að svara til saka og lenda í steininum. Forgangsröðunin er augljóslega kolbrengluð í þessu þjóðfélagi.

Jólin jólin eru finnst mér alveg allsstaðar
óhultur er ekki nokkur maður,
Ég get orðið brjálaður, já nánast alveg snar
svartur himinn var minn griðarstaður –
nú er hann orðinn ljós og upplitaður.

Bó spurði sig eitt sinn í söngtexta af hverju jólin væru ekki sérhvern dag og sérhvert andartak? Ætli hann þurfi að spyrja sig mikið lengur að því. Takk fyrir ekkert, ófétin ykkar.

Einar öskuillur.