Orðin fjarverandi

Á bak og burt-legu lesendur.

Sumir, eða nánar til tekið einn, hefur spurt mig hvernig standi á því að engin bloggfærsla hafi litið dagsins ljós nú í tæpar tvær vikur hér á bloggsíðu sumra landsmanna. Skýringarnar á þessu ástandi eru margþættar. Þessi bloggfærsla er tileinkuð fjarveru Einars Haf undanfarna daga og mögulegum skýringum á þessari fjarveru.

Skýring á fjarveru nr. 1: Ég tók sprengidaginn full bókstaflega og sprakk á limminu. Sprengjutætlurnar brunnu svo daginn eftir og urðu að ösku. Á öskudaginn. Þvílík óheppni.

Skýring á fjarveru nr. 2: Ríkisútvarpið setti mig í straff þannig að ég myndi ekki kjafta frá því hver eða hverjir séu morðingjarnir í Ófærð. Ég skil auðvitað ekkert í þessari viðkvæmni hins opinbera, enda hefur það legið fyrir í margar vikur hver eða hverjir eiga í hlut. Ég meina, þetta stendur jú allt í dagbók lögreglunnar á Siglufirði.

Skýring á fjarveru nr. 3: Ég ákvað að skreppa í Jökulsárlón og bregða mér þar í jakahlaup og ísskoðun ásamt fleiri grandarlausum ferðamönnum. Fljótlega kárnaði gamanið þegar ísjakarnir losnuðu frá landi og ráku út á lónið. Þar með breyttist ég í Einar Hafísjaka. Nema þetta var lón en ekki haf. Kemur. Borgarísjaki eða borgar ísjaki? Ekki náðist í Borgar Ísjaka við gerð þessarar bloggfærslu til að athuga málið.

Skýring á fjarveru nr. 4: Útlendingastofnun komst að því að á bak við bloggsíðu Einars Haf væri umtalsverður fjöldi erlends vinnuafls sem sæi um efnisöflun og skrif á síðuna. Þetta sama vinnuafl var ekki með skráð landvistarleyfi hér á landi og var því umsvifalaust flogið úr landi í skjóli nætur. Einar Haf þurfti því að fara að hugsa og skrifa sjálfur – og það tekur sinn tíma.

Skýring á fjarveru nr. 5: Ég misskildi bolludaginn og fékk mér áfenga bollu – borðaði ávextina í botninum á bolluskálinni og hrundi hressilega í það. Ég hef verið á herðablöðunum, sneplunum og rassgatinu allar götur síðan.

Skýring á fjaveru nr. 6: Ég fór í feluleik en fann engan til að leika við þannig að ég fór bara einn í feluleik og enginn er að leita að mér. Og ég er enn í felum.

Skýring á fjarveru nr. 7: Ég gerði framvirkan starfslokasamning við sjálfan mig, samningurinn var fjármagnaður með veði í næstu 120 bloggfærslum á bloggsíðu Einars Haf. Ég lofaði því að setjast í helgan stein og láta ekki sjá mig á opinberum vettvangi gegn himinhárri fyrirframgreiðslu.

Skýring á fjarveru nr. 8: Ég var numinn á brott af geimverum. HJÁLP!!!

Skýring á fjarveru nr. 9: Dabbi Grensás hitti mig á förnum vegi og það kom í ljós að hann hafði lesið allar bloggfærslurnar mínar gegnum tíðina. Ég þarf ekki að segja meira…

Allt eru þetta frekar trúverðugar skýringar. Lesendur, eða lesandi, verða, eða verður, að fá að velkjast aðeins lengur í vafa um hver þessara skýringa er rétt. Hið sanna mun koma í ljós á sunnudagskvöldið. Eða hvað? Múhaha.

Horfinn er Einar, hlaupinn á brott
hausinn er rifinn og tættur
lesendur setja upp velsældarglott
vonandi er spéfuglinn hættur.

Í næstu bloggfærslu verður fjallað mjög ítarlega um endurkomu Einars Haf á ritvöllinn eftir óútskýrða fjarveru. Einar Haf hefur annars hafnað því alfarið að bloggfærslurnar séu að verða sífellt sjálfhverfari en áður. Bara rugl.

Einar verandi fjar.

Tilvitnun dagsins:
Einar Haf: Loksins er vitnað í mig á þessari bloggsíðu.

Orðin bolluð

Bollulegu lesendur.

Já verði ykkur bollurnar að góðu, bollurnar ykkar. Nú er rjóminn á kinnunum, glassúrinn í munnvikunum og sultan í efri gómnum. Allt eins og það á að vera. Ét, drekk og ver glaðr, því svo hefst langafastan, eða sjöviknafastan, á miðvikudaginn og mun hún standa alveg fram að páskum. Það er ekki nóg með að þreyja þurfi þorrann, það þarf líka að fasta föstuna. Fast.

Hmm, þetta var furðulegur inngangur. En það er kannski ekki að undra, sykurmagnið í blóði undirritaðs er það hátt að það kemur ekkert vitrænt þaðan. Á morgun verður það svo saltið sem tekur öll völdin og loks verður það askan sem tryllir mann og annan á miðvikudaginn. Ég er einmitt bollulegur í dag, verð í spreng á morgun og svo öskuillur á miðvikudaginn. Tja, eða ekki.

Sumir (vitleysingar) ætla ekki að taka þátt í þessum átdögum eins og bollan ég og meirihluti þjóðarinnar. Þessir sömu vitleysingar borða bara heilsubollur á bolludaginn með geri og kókosrjóma og svo verða þeir fyrir vikið spengilegir á spengidaginn, bévaðir. Síðan afþakka þeir hinir sömu allt gotterí og sætindi á öskudaginn og syngja þess í stað bara fyrir ávexti, grænmeti og gras. Ég hef vitaskuld óbeit á þessu fólki sem hefur slíka sjálfstjórn – en ég hef reyndar þann löst að velgengni annarra veitir mér ekki ánægju heldur fyllir mig hatri og öfund. Það eru jú þeir hvatar sem drífa áfram þessa löngu úr sér gengnu bloggsíðu.

Er eitthvað að frétta annað en bollur, bollan þín? Eiginlega ekki. Atvinnubílstjóri hjá Strætó eyddi nýverið korteri í að skoða bollur í flotta skjástóra snjallsímanum sínum meðan hann keyrði greiðlega frá Menntaskólanum í Hamrahlíð að Hátúni í Reykjavík. Einhver hortitturinn tók atvikið upp á myndband með flotta skjástóra snjallsímanum sínum. Mér finnst fólk óþarflega æst út af þessu almennt séð, bílstjórinn er jú bara mannlegur og þar af leiðandi bolluáhugamaður. Síðan slógust 30 fullorðnir karlmenn blóðugum slagsmálum utan við Skeifuna í Reykjavík á laugardaginn síðasta með bareflum og bolluvöndum. Tilefni slagsmálanna voru bollur þ.e. hvor tegundin væri betri gerbollur eða vatnsdeigsbollur. Ekki tókst að útkljá ágreininginn á staðnum en það verður vonandi gert síðar. Svo má líka nefna að rúmlega 60 þúsund manns hafa skrifað undir áskorun Kára Stefánssonar um að hið opinbera skuli verja hið minnsta 11% af árlegri vergri landsframleiðslu í kaup á rjómabollum – enda muni það stuðla að hagsæld og heilbrigði þjóðarinnar.

Líkamsræktarlúin þjóð
leyfir sér að sukka feitt
Vatnsdeigssulturjómaflóð
getur dimmu í dagsljós breytt.

Hvorki Bjössi Bolla né Arthúr Björgvin Bolla gáfu kost á viðtali, eða rjómabollu, í tengslum við gerð þessarar bloggfærslu.

Einar bolla bolla.

Tilvitnun dagsins:
Allir: Bolla!

Orð í bundnu þorramáli

Vísur fluttar af Kristjáni Hjartarsyni veislustjóra á þorrablóti Svarfdælinga á Rimum 30. janúar 2016. Einar Haf (gjörningalistamaðurinn E. Haf) setti saman, Kristján Hjartarson snyrti til texta og „útsetti“.

Á Þorra hrökkva Svarfdælir hvarvetna í kút
og kófsveittir þeir rifja upp barnatrúna
því þorrablótsnefndin lítur gjarnan illa út
en aldrei þó eins herfilega og núna.

Skáldalækjar Ógga Sigga er fremst í þessum flokk
furðuleg hún er í stórum dráttum
í hunangi og fíflamjöð hún mýkir upp sinn skrokk
mikið er hún undarleg í háttum.

Litlu skárri er bóndinn, sem er við hennar hlið
hjólbeinóttur, útskeifur og gleiður
í frystihúsi Samherja fimur er hann við
flesta daga að draga ýsur, Eiður.

Sigurður frá Hreiðarsstöðum keikur kemst á blað
kuldalegur er og fúll á svipinn
í Sæplasti hann vinnur en ég veit ekki við hvað
voða erfitt er að hemja gripinn.

Elísa hans kona, er hjúkka herfileg
sem hrellir sjúklinga og gamalmenni
fas hennar og ásjóna er ansi gervileg
eins gott er að passa sig á henni.

Frá Urðum Halla kerlingin, grimm er hún og grá
og gerir óleik sama hvar hún kemur
karlinn geymir heima, já minna má nú sjá
og misnotar og klórar hann og lemur.

Klaufabrekkna-Jóna Heiða klækjarefur er
kankvís læðist um og fer með veggjum
í háttum er hún ódæl og illskeytt því er ver
og upp úr þurru grýtir fólk með eggjum.

Næstur Sökkubóndinn, er klúr með klám og glott
kristnar Svarfdæli með fési sposku
að þjóna sínum Guði er Gunnsteins mark og plott
í gjótu bak við hús hann reisir mosku.

Dagbjört, eftir getu, glöð sinn styður mann
og gasprar um hans mátt um lönd og álfur
erfitt getur verið fyrir hana að verja hann
því hún er ekkert skárri en Gunnsteinn sjálfur.

Á Hrafnsstöðum er Zophonías kindarlegur kall
kauði safnar ull í pokaskjatta
á haustin leitar kinda frá fjöru upp á fjall
af fjármunum hann á víst nokkurn slatta.

Kalli bóndi í Brekku er klikkaður og snar
kartöflur hann stundum fær í skóinn
plægir, sáir, rúllar og plastar tuggurnar
í pásum gjarnan kastar sér í sjóinn.

Begga frúin hans er hörð og býsna fylgin sér
börn og mann og hund fær til að hlýða
í þröngum leðurbuxum á baki oft hún er
besta skemmtun hennar er að ríða.

Hér í einum flokk er þessi ljóti kynjakór
kominn til að gleðja Svarfdælinga
en til þess að það lukkist er best að drekka bjór
og blóta Þorra, dansa, hlæja og syngja!

Flutningurinn er kominn inn á jútjúb, hvað annað.

Þess má til gamans geta að úthlutunarnefnd listamannalauna varð enn harðari í afstöðu sinni gagnvart því að úthluta Einari Haf aldrei nokkurn tímann listamannalaunum eftir að hún komst yfir þennan kveðskap.

Orðin súr og kæst

Þorralegu lesendur.

Já nú er hann runninn upp, þorri landsmanna. Eða svoleiðis. Þorrinn er í hugum flestra það sama og súrmeti, brennivín, blót, glaumur og gleði. Það er alveg rétt. Nema reyndar ef við erum að tala um minimalískan lífstíl og veganúar janúar. Sem betur fer er það ekki til umræðu hér.

Þetta Borgunarmál er nú frekar súrt. Og kæst. Jafnvel byrjað aðeins að þrána. Um hvað snýst þetta eiginlega? Tja, fyrir algjört klúður og óheppni seldi RíkisLandsbankinn eignarhlut sinn í einhverju ómerkilegu skúffufyrirtæki á spottprís – en sá sami hlutur var svo seldur aftur skömmu síðar á uppsprengdu verði. Ótrúleg óheppni. Ég hef ekkert meira um þetta mál að segja. Bara pjúra óheppni.

Nú er víðfrægur tælitæknir á leið til landsins. Ha? Já, það er frétt um það hér. Þið hélduð að ég væri að plata. Ó nei. Helsta aðferð þessara flagara er sú að taka „nei“ ekki sem gilt svar þegar kemur að kynferðislegum samskiptum við konur. Nei þýðir já og já þýðir já. Nei eða já, af eða á, farðu svo frá. Ég efast um að þessar aðferðir séu vænlegar til árangurs. Ég mun sennilega halda áfram við mína eigin aðferð þegar kemur að tælitækni, þ.e. að fara í kerfi, skríða undir borð og bíða morguns. Árangurinn lætur á sér standa, sennilega bara óheppni (sjá skilgreiningu á óheppni hér fyrr í bloggfærslunni).

Kári Stefánsson réðst í þá miklu aðgerð fyrir nokkrum árum að safna lífssýnum úr allri íslensku þjóðinni – enginn veit til hvers. Þetta dugði Kára hins vegar ekki. Nú er hann að vinna í því að safna undirskriftum allra Íslendinga. Hvað gengur manninum eiginlega til? Hann segist vera að bjarga heilbrigðiskerfinu. Er hin raunverulega ástæða kannski óstjórnleg söfnunarárátta Kára? Tja, það er spurning. Eins og með aðrar spurningar er borin von að svarið finnist hér í þessari bloggfærslu.

Íslendingar halda áfram að gera það gott á Evrópumeistaramótinu í handbolta þó svo að Íslendingar séu fyrir löngu fallnir úr keppni. Guðmundur Okkar Guðmundsson atti kappi við Dag Okkar Sigurðsson nú í kvöld í hreinum úrslitaleik um það hvort liðið héldi áfram í 4 liða úrslit mótsins. Dagur Okkar hafði betur að þessu sinni. Ísland keppir við Noreg í undanúrslitunum en Spánn mætir Króatíu í hinum leiknum. Þegar ég segi Ísland meina ég auðvitað Þýskaland.

Fréttamönnum þótti það fréttnæmt að kaldavatnsnotkun drægist marktækt saman meðan á sýningu þáttarins Ófærðar stæði. Sú ályktun hefur verið dregin að sjónvarpsáhorfendur haldi hreinlega í sér og margir hverjir láti sig hafa það að vera í spreng alveg þar til eftir þátt. Þetta er auðvitað hið versta mál. Næsta spennuþáttaröð sem sýnd verður í ríkissjónvarpinu; Óværð, fjallar einmitt um fólk sem reynir og reynir í hátt í klukkutíma að halda vatni yfir hinum og þessum sjónvarps- og útvarpsþáttum, með misjöfnum árangri. Sprengurinn hefur oft verið mikill, en sjaldan eins mikill og núna.

Nýir búvörusamningar eru nú í burðarliðnum og sýnist sitt hverjum. Breyta á hinu svokallaða mjólkurkvótakerfi, reynt verður að lækka mjólkurverð til bænda ef mögulegt er auk þess sem hampræktun í dreifðum byggðum verður gefin frjáls – svo eitthvað sé nefnt. Ær og kýr bænda verða þó áfram þeirra ær og kýr nái nýir samningar í gegn, nema ef vera skyldi hjá kjúklinga- og svínabændum. Ekki náðist í talsmann samninganefndar bænda, Gísla á Uppsölum, við gerð þessarar bloggfærslu.

Þorrablót Svarfdælinga fer fram nú um komandi helgi. Margt verður um manninn og mikið um dýrðir og þétt verður setinn Svarfaðardalur. Einar Haf hefur látið í veðri vaka að hann standi fyrir einhvers konar atriði á þessari skemmtun, en er það alls kostar rétt? Þið munið hvað ég sagði um spurningar og svör þegar kemur að þessari bloggsíðu. Allt kemur þetta í ljós á laugardagskvöldið. Verið hrædd. Verið mjög hrædd!

Einar sér gerir glaðan dag
og mætir á blót af skyldurækni
hann virðist sko kunna vel sitt fag
með Bs. gráðu í tælitækni.

Þess má geta að þessi bloggfærsla var að mestu unnin úr léttreyktum lambatittlingum auk þess sem hráefni á borð við súrsaða selshreyfa og rakaða hrútspunga komu við sögu.

Einar alþjóðaflagari.

Tilvitnun dagsins:
Svarfdælingar: Gaaaamaaaaann!!!

Orðin inn úr horninu

Stórtöpuðu lesendur.

Janúar. Jafnvel nafnið á þessum mánuði er leiðinlegt. Það gildir reyndar líka um bloggsíðu Einars Haf. En þarf janúar endilega að vera svona íþyngjandi og niðurdrepandi? Þarf endilega að vera með þetta þunglyndisraus og þennan bölmóð? Ekkert endilega, en það er bara svo miklu auðveldara en hitt. Þið vitið, glaðlyndi og svoleiðis. Oj bara.

Íslenska landsliðið í handknattleik stóð í ströngu á Evrópumótinu í handbolta sem fram fer í Póllandi þessa dagana. Strákarnir okkar hafa þar att kappi við milljónaþjóðir og unnu alla leiki sé horft til höfðatölu. Þannig að úrslitin sjálf skipta kannski minna máli. Miðað við höfðatölu fáum við líka miklu fleiri brottvísanir en önnur lið og við tökum mun lengri leikhlé. Allt er þetta jú leikur að tölum. Fjölmiðlar fylgja strákunum okkar eftir hvert fótmál og leita viðbragða þeirra í sigrum og ósigrum. Misvel liggur á strákunum okkar eins og gengur. Eftir skellinn gegn Króatíu var augljóslega þungt hljóð í okkar mönnum. Sumir hafa allt á hornum sér, sérstaklega þó hornamennirnir. Persónulega myndi ég bara taka símaviðtöl við línumennina, enda fá þeir jú borgað fyrir að vera á línunni. Bravó Einar, bravó.

Burt séð frá höfðatölu þá gekk þetta mót vægast sagt illa hjá okkar mönnum. Það er þó huggun harmi gegn að við fáum strákana okkar heim og getum knúsað þá. Fast. Og lengi.

Á sama tíma og öryrkjar og gamalmenni skrimta við fátæktarmörk og hjúkrunarheimili eru rekin með tugmilljóna tapi þá gengur alveg blússandi vel að selja hátt í 10% þjóðarinnar miða á tvenna tónleika með Justin Bieber – á uppsprengdu verði. Svipað hlutfall þjóðarinnar ætlar til Frakklands næsta sumar að horfa á fótboltastrákana okkar elta hverja tuðruna á fætur annarri undir styrkri stjórn Heimis og Lars. Bílasala hefur sjaldan verið meiri og fasteignir spretta upp eins og gorkúlur. Er eitthvað bogið við þetta? Nei alls ekki, höldum bara áfram að pína gamla fólkið – framtíð okkar veltur á því að gamla fólkið leggi allt sitt og meira til af mörkum til samfélagsins. Eins og það hefur jú gert alla tíð. Framtíð þessa lands er gamla fólkið. Virkjum gamla fólkið. Og ævisparnað þess.

Forsetaframbjóðendum fer nú ört fjölgandi og sýnist sitt hverjum. Enn sem komið er er Ástþór Magnússon fremstur í flokki en skammt á hæla hans koma Donald Trump og Hillary Clinton. Ég að misskilja? Aldrei.

Þættirnir Ófærð eru gríðarlega umtalaðir, enda horfa um tveir af hverjum þremur landsmönnum á þættina. Virtum leikhúsgagnrýnendum er farið að leiðast þófið og kófið nú þegar fjórir þættir af tíu eru búnir en því ber þó kannski að taka með fyrirvara í ljósi fjölda þeirra þátta og leikverka sem viðkomandi gagnrýnandi hefur rakkað niður í gegnum tíðina. Veit Jón Viðar hver er morðinginn? Nei.

Enn styttist í að þorrakúrinn hefjist. Bóndadagur markar upphaf Þorra, sá dagur er einmitt nú á föstudaginn. Hvernig er haldið upp á þann dag? Það er gert með því að snæða hákarl, hrútspunga, magál og hangikjet, svolgra í sig mysu og brennivín og yrkja bögur. Enn bagalegt. Svo styttist nú einnig í þorrablót Svarfdælinga sem fram fer á Rimum laugardagskvöldið 30. janúar. Hvað mun gerast þar? Enginn veit. Þó veit ég að starfsmaður vísnahorns bloggsíðu Einars Haf er að bauka eitthvað – og sá hefur nú nokkuð óhreint mjöl í sínu pokahorni. Úff.

Dagur bóndans dettur á
dylst það engum kjafti
rengi, magáll, rúgbrauð smá
rek ég við af krafti.

Þess má geta að engin ær reis upp meðan á gerð bloggfærslunnar stóð. Ef það er eitthvað sem ég er smeykur við þá er það uppreist ær.

Einar ær.

Tilvitnun dagsins:
Bogi róni: Ég er bara kenndur á yfirborðinu en undir niðri er ég blá edrú. Ég er nefnilega svo yfirborðskenndur.

Orðin 2016

Nýárslegu lesendur.

Nýtt ár, nýjar væntingar, ný sýn, nýtt fólk, ný vonbrigði, ný hringrás, nýtt vín og gamlir belgir. Segir einn gamall belgur; Einar Haf. Hvenær skyldi maðurinn þroskast og hætta þessum barnaskap? Það er mjög góð spurning. Svarið fæst alveg örugglega ekki í þessari bloggfærslu, en við getum samt lifað í voninni.

Nú eru síðustu áramótabrennurnar kulnaðar, síðasti flugeldurinn sprunginn og síðasta jólasteikin snædd. Lífið er aftur komið í gömlu skorðurnar og ekkert framundan nema dimmblátt svartnættið, drungi og depurð. Eða hvað? Ekki endilega nei. Ljósið í myrkrinu er auðvitað að Alþingi hefur brátt göngu sína á ný eftir jólaleyfi og svo ætla strákarnir okkar að skora hverja stórþjóðina á hólm á Evrópumótinu í handbolta í Póllandi nú um miðjan mánuðinn. Þar verður sko aldeilis skurk á skelinni.

Talandi um kulnaðar brennur, þrettándabrenna Ungmennafélagsins Þorsteins Svörfuðar fór að mestu friðsamlega fram við Tungurétt í Svarfaðardal að kveldi þrettánda dags jóla. Eignatjón varð nokkuð en það var viðbúið, enda erum við að tala um gömul áburðarbretti, eldfiman vökva og rokeldspýtur. Veður var með ágætum, bálkösturinn þurr á manninn og eldsneytið fljótandi í brúsum og tunnum þannig að ekki var að sökum að spyrja. Nokkurt fjölmenni mætti til að vera viðstatt herlegheitin sem og skothríð björgunarsveitarinnar á Dalvík þegar leikar stóðu sem hæst. Ekki var hægt að heyra annað en að samkoman þætti takast ágætlega, sjálfur var ég of upptekinn við að hella olíu á ófriðarbálið ásamt félögum mínum. Og ekki í fyrsta sinn.

Fyrirséð er að sviptingar verða á fjölmiðlamarkaði á árinu 2016. Hið svokallaða Netflix ryður sér nú til rúms þar sem notendum bjóðast fjölmargir þættir og afþreying á hlægilega lágu verði. Erfitt verður fyrir einkareknar hérlendar sjónvarpsstöðvar og bloggsíður að keppa við þetta. Dagar sjónvarpslausra fimmtudaga virðast svo óralangt í burtu nú þegar holskefla sjónvarpsþátta og kvikmynda eirir engum sem fyrir verður. Hvernig nokkur maður kemst til þess að horfa á alla þá þætti sem framleiddir eru, það veit ég ekki. Ég hef nóg með það eitt að komast gegnum þessa bloggfærslu.

Tilhleypingar þóttu takast ágætlega þessi jólin að sögn hins kindarlega Gandí Laufasonar talsmanns hrúta í fjárhúsunum á Urðum í samtali við heimildamann bloggsíðu Einars Haf. Nokkuð hafi gengið á þegar beiðsli náðu hámarki um og eftir aðfangadag jóla en það hafi ekki verið neitt sem vösk sveit hrúta réði ekki við. Eitthvað var um uppbeiðsli en tekið hefði verið á hverju tilfelli fyrir sig og það afgreitt samviskusamlega. Samtalið við Gandí varð frekar snubbótt enda var stutt í morgungjöf, hungrið farið að sverfa að og hann hafði þar af leiðandi allt á hornum sér. Engin smá horn það.

Talandi um að hafa allt á hornum sér; það er orðinn árlegur viðburður að allt verður vitlaust þegar listamannalaunum er úthlutað. Hneyksli vikunnar er einmitt þetta. Enn og aftur var Einar Hafliðason bloggsíðuritari hundsaður þegar listamannalaunum var úthlutað, einhverra hluta vegna. Næst þegar listamannalaunum verður úthlutað mun Einar sjálfur velja einhvern í úthlutunarnefndina – þá skulum við sjá hvað gerist.

Listamenn semja og skrifa
skálda og leita hughrifa
kröpp eru kjör
en svo verður fjör,
á einhverju verða að lifa.

Undirbúningur fyrir þorrablót Svardælinga á Rimum 30. janúar næstkomandi er hafinn. Ýmiskonar leynimakk og undirferli nefndarmanna og ábyrgðaraðila einkenna þann tíma sem nú fer í hönd. Mun Einar Haf eitthvað koma nálægt þessu? Ó nei, ekki segja það. Það er bara eitt sem ég hef um þetta að segja: múhahahahahaha.

Engar kvikmyndir voru teknar upp af auðmönnum í fangelsi meðan á gerð þessarar bloggfærslu stóð.

Einar lævi blandinn.

Tilvitnun dagsins:
Nurse #2: Mrs. Nordberg, I think we can save your husband’s arm. Where would you like it sent?

Mót við áraorð

Góðir Íslendingar.

Það er til siðs og raunar ekkert annað en sjálfsögð kurteisi að staldra ögn við á tímamótum eins og þeim sem við stöndum nú á og líta til baka yfir farinn veg. Því þó svo að við vitum ekkert hvert við erum að fara er ágætt að skoða hvaðan við erum að koma. Sagði enginn. Aldrei. Áramótahugvekjur eru afar hentugar til þess að koma á lymskufullan hátt annarlegum skoðunum og hugsjónum hugvekjuhöfundar á framfæri í dulbúningi – og rugla þannig lesendur í ríminu. Efni hugvekjunnar er að mestu endurunnið úr fyrri hugvekjum, því þetta eru jú ekki fyrstu áramótin sem skollið hafa á.

Íslendingar eru þrautseig þjóð. Íbúar þessa lands hafa frá örófi alda staðið saman gegn hvers kyns ógnunum og hindrunum og hafa ekki látið sundurlyndi og óeiningu koma í veg fyrir framþróun og framfarir hvers konar. Hér hefur þjóðin þraukað við kröpp kjör og hrikaleg náttúruöfl og staðið saman gegnum þykkt og þunnt. Þjóðin var sem einn maður í IceSave deilunni, í þorskastríðinu og á tímum einokunar og kúgunar. Þjóðin stóð saman í forræðisdeilu Sophiu Hansen gegn Halim Al og þjóðin stóð saman til að fá því framgengt að Justin Bieber kæmi hingað og héldi tvenna tónleika. Já, þegar mest á reynir stendur þjóðin saman.

Við lifum á viðsjárverðum tímum. Veröldin er að hitna, jöklarnir bráðna og sjávarmál fer hækkandi. Landamæri eru að verða óskýrari og ofstæki og öfgar ná fram að ganga á ýmsum sviðum. Íslenskt rapp er orðið vinsælt og Gísli Pálmi þykir móðins. Já þetta eru frekar ógnvekjandi tímar sem við lifum á. Sem betur fer er líka margt sem er jákvætt. Fuglarnir syngja enn sinn söng, tún og engi grænka enn þegar vorar og sauðkindin gengur enn frjáls um fjallasali og kyrrláta dali sumardægrin löng.

Já þið lásuð rétt. Íslenska sauðkindin. Hvað annað? Hún var nokkuð milli tannanna á fólki á árinu sem er að líða. Sem betur fer, kindakjötið á að vera milli tannanna á fólki – rétt áður en það rennur ljúflega niður í maga. Blessuð sauðkindin, þessi tignarlega skepna sem hefur hjálpað íslenskri þjóð að þrauka hér á hjara veraldar gegnum aldirnar. Hún þarf sinn sess í hverri einustu áramótahugvekju, eigi að taka hugvekjuna alvarlega. Hún mun eftir sem áður hjálpa íslenskri þjóð að þrauka af á nýju ári. Það er að segja sauðkindin….ekki hugvekjan.

Þrátt fyrir fámennið gera Íslendingar það gott á hverjum degi vítt og breitt um veröldina. Við eigum íþróttafólk, kvikmyndagerðarfólk, tónlistarfólk, hugvitsmenn og sérfræðinga sem skara fram úr á sínum sviðum og bera hróður okkar um heimsbyggðina þvera og endilanga. Gunnar okkar Nelson gerir það gott og er góð fyrirmynd – þar sem hann hefur sýnt fram á að þó maður sé barinn í gólfið og lúskrað sé á manni er það í fína lagi ef launin eru nógu há. Kjarasamningar ársins tóku einmitt mið af þessu. Baltasar okkar Kormákur flýgur til og frá Hollywood eins og hann fái borgað fyrir það og leikstýrir hverju stykkinu á fætur öðru hvort sem er hérlendis eða erlendis eins og hann fái borgað fyrir það. Sem hann reyndar fær. Of Monsters and okkar Men spila út um hvippinn og hvappinn fyrir aragrúa fólks og kynna um leið land og þjóð. Að vísu á ensku, en allt í lagi. Hugvitsmenn og sérfræðingar eru fluttir út í stórum stíl og gera það gott um víðan heim. Þetta er kannski ekki æskileg þróun en ef það er huggun þá njóta þó að minnsta kosti einhverjir góðs af þessum íslensku gáfum.

Við Íslendingar megum ekki gleyma uppruna okkar. Víkingarnir fóru um heiminn fyrir þúsund árum og rændu, drápu og nauðguðu. Þessu megum við ekki gleyma og við eigum að vera stolt af okkar uppruna. Íslenskt þjóðlíf ber enn þann dag í dag keim af þessu. Næturlífið, hegðun fólks á samfélagsmiðlum og fleira í þeim dúr sannar það. Einu sinni vorum við fátæk þjóð sem mátti þola sult og volæði. Í dag erum við rík þjóð en samt er enn til staðar sultur og volæði. Talandi um sultur, þær voru góðar rabbarbarasulturnar og rifsberjasulturnar sem hún móðir mín sauð á árinu. Með svona sultur ætti sultur brátt að verða úr sögunni.

En hvað einkenndi árið sem er í þann mund að andast? Ýmislegt mætti nefna. Til dæmis alla gullmolana, bumbugullin, krúttmolana, æðibínurnar, prinsessurnar og gimsteinana sem komu í heiminn á árinu. Fasbókarsíður fylltust af myndum og frásögnum af þessum himnasendingum og gersemum, svo mjög að á köflum keyrði um þverbak. Það var eins og aldrei hefðu komið börn í heiminn áður. Hafa ber í huga að þessi áramótahugvekja er rituð af gömlum einsömlum fúlum kalli.

Góðir Íslendingar. Nýtt ár er handan við hornið. Hvað boðar nýárs blessuð sól? Hún boðar fleiri tæki og tól? Nei hún boðar glens og grín og gól? Nei ekki heldur. Hún boðar spikk og span og spól? Æi góði besti. Hún boðar náttúrunnar jól. Hvað sem það nú þýðir. Hann Matthías Jochumson velti þessu fyrir sér í meitluðu kvæði seint á 19. öld. Matthías hefði einmitt orðið 180 ára gamall nú á árinu sem er senn á enda runnið. Ekkert smá afmæli þar á ferð. Kveðskapur Matthíasar hefur fylgt þjóðinni í næstum því öll þessi ár. Hans helstu hittarar eru tvímælalaust Lofsöngurinn Ó Guð vors lands, Hvað boðar nýárs blessuð sól? og Fögur er foldin, sem var í 13 vikur samfleytt á toppi vinsældarlista Rásar 2 á sínum tíma. Við skulum hugleiða um stund og þakka fyrir íslenskan skálda- og sagnaarf. Við skulum líka þakka fyrir að þessi hugvekja er nú loksins að líða undir lok.

Aftur koma áramót
og enn er staðan býsna snúin
kannski er það sárabót
að þessi hugvekja er búin.

Að endingu vil ég þakka fyrir árið sem er alveg hér um bil að syngja sitt síðasta og springa í loft upp. Vonandi verður nýtt ár gæfuríkt og fullt af gleði og hamingju, þó ég leyfi mér að efast um það í ljósi þess að þessi bloggsíða er ennþá starfandi. Sjáum hvað setur.

Bessastöðum 31. desember 2015.
Einar Okkar Hafliðason

Tilvitnun dagsins:
Örvar: Fórst þú á áramótabrennu?
Bogi: Já en ég rétt slapp áður en þeir kveiktu í henni.

Jólasveinar orð og átta

Betlehemslegu lesendur.

Nú þegar hátíð ljóss og friðar nálgast óðfluga er ekki seinna vænna en að koma sér og lesendum í hátíðargír. Hvernig er best að gera það? Nú, með því sama og alltaf. Með því að leysa hinn heilaga anda úr læðingi og láta hann svífa frjálsan yfir vötnunum og yfir hausamótum landsmanna. Það skulu allir komast í hátíðarskap, hvort sem ykkur líkar það betur eða verr. Þú komst með jólin til mín…..og allt það.

Talandi um hátíðarskap, það voru margir í sannkölluðu hátíðarskapi um síðustu helgi þegar Gunnar okkar Nelson lét til sín taka í slagsmálabransanum í Las Vegas og þjóðin fylgdist spennt með vonarstjörnu sinni. Gunnar stóð sig vel eins og alltaf og var ekki kýldur í smettið nema um 200 sinnum í þremur lotum á móti einhverjum brasilískum jújítsúfújitsjúmeistara. Auðvitað er það bara bábilja og kjaftæði að halda því fram að bardagaíþróttir sem þessar valdi heilaskaða. Augljóslega er þetta hættulaust sport. Blóðugar augntóftir og fjólubláar kinnar eru bara partur af útliti bardagamanna. Og hvaða barn eða unglingur vill ekki verða bardagamaður? Þetta eru svo ofboðslega góðar fyrirmyndir. Svo er það líka bara hressandi fyrir hvern sem er að hrista aðeins upp í heilasellunum af og til og láta berja þær dauðu úr kollinum, segja 3 af hverjum 4 læknum. 1 af hverjum 4 læknum bendir á að aðeins menn sem eru með heilaskaða fyrir láti hafa sig út í að taka þátt í athæfi sem þessu, þó það sé gegn svimandi hárri greiðslu.

Mér finnst samt eyrun á reyndu bardagaköppunum flottust, þau eru svona eins og þau hafi lent undir straujárninu með skyrtunni og sparibuxunum. Og svo gleymdi einhver straujárninu á strauborðinu. Úbbs.

Þónokkrir umhleypingar eru í veðrinu þessa dagana þannig að maður veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið. Þið verðið að fyrirgefa veðrið, það breytir því enginn. Þegar svona viðrar verður manni hugsað til þess hvernig þetta var nú þarna í fyrndinni þegar samgöngur voru mun frumstæðari en nú og fólk þurfti á milli staða í hvaða veðri sem var. María og Jósep gátu til að mynda ekki reitt sig á björgunarsveitir, snjóbíla eða vélsleða þegar þau börðust í stórhríðinni milli skafla þarna í eyðimörkinni um árið í leit að gistihúsi. Ekki var gönguskónum eða kraftgöllunum fyrir að fara. Nei, aldeilis ekki. Það hefur sennilega bjargað þeim að asninn sem þau riðu á var fjórhjóladrifinn. En hvað veit ég svo sem? Ekki svara þessu.

Bloggritunarferill Einars Haf er nokkuð skrykkjóttur, sé litið til baka. Til fjölda ára hefur hann leitt landsmenn á villigötur en stundum þó í sannleikann um hin ýmsu mál. Þetta hefur vitaskuld mælst misvel fyrir, enda hefur þetta verið gert á misgáfulegan hátt. Vonir standa til að bloggfærslur Einars verði aðeins fullorðinslegri, alvarlegri og skárri á allan hátt ef Einari tekst að ná 30 ára aldri, sem allt stefnir í nú í svartasta svartnættinu 21. desember næstkomandi. Fastlega má því búast við aukinni menningarumfjöllun, umfjöllun um þjóðfélagsleg umbótamál og umfjöllun um áhugamál eldri borgara eins og Einars hér á bloggsíðunni nú í afar náinni framtíð.

Talandi um menningarumfjöllun; fjöldinn allur af jólabókum kemur út nú fyrir jólin venju samkvæmt. Væri ekki ráð að glugga í nokkrar þeirra? Jú, endilega.

Þófið: Spenna, sprenghlægileg augnablik og gáskafull frásögn. Hér hefur forseti Alþingis tekið saman brot af því allra besta úr málþófi Alþingismanna haustið 2015. Bókin er 1.300 blaðsíður og tekur lestur hennar rúmar 90 klukkustundir. Jólanóttin mun virðast heila eilífð að líða með þessa bók við höndina.

Flóttinn mikli: Grátbrosleg saga um albanska fjölskyldu sem leitar skjóls á eyju norður í ballarhafi þar sem hún er á flótta undan hrottalegum glæpamönnum í heimalandinu. Íslenska þjóðin klofnar í afstöðu sinni til þess hvort fólkið eigi að vera eða fara úr landi. Spennan nær hámarki í kaflanum um litla strákinn með bangsann, Útlendingastofnun og umsóknina um ríkisborgararéttinn.

Konan við þúsund gráður: Bók sem fjallar á afar bókstaflegan og beinskeyttan hátt um hræðilegar afleiðingar loftslagsbreytinga og hnatthlýnunar.

Grillréttir Hagkaups: Hér er enn á ný tekið til við að grilla í fólki og nú hitnar verulega í kolunum. Reyndir grillmeistarar fara hamförum í hverri steikinni á fætur annarri. Sjálfsagt hefur þetta eitthvað með mat að gera líka.

Nautið: Fyrst hélt að þetta væri bók um stjörnumerki. Síðan hélt ég kannski að þetta væri einhver skuggaleg matreiðslubók. Nú er ég bara orðinn skíthræddur og fel mig undir rúmi. Þori ekki að halda lestrinum áfram.

Fyrirgefðu, ég hélt að þetta ætti að vera málefnaleg umfjöllun. Það gat auðvitað ekki staðist.

Hneyksli vikunnar er stóra hliðmálið á Arnarnesi. Auðvitað er það bara gott mál ef hægt er að sýna fram á skiptingu fólks í stéttir hér á landi með girðingum, þ.e. hólfa af ákveðna þjóðfélagshópa. Þetta er sennilega ekki hneyksli, þetta er bara sjálfsagt mál.

Jólasveinarnir streyma nú til byggða einn af öðrum. Askasleikir er væntanlegur, þó vissulega sé lítið um aska fyrir hann til að sleikja. Hurðaskellir kemur á eftir honum en hann hefur einnig átt erfitt uppdráttar vegna sívaxandi fjölda rafknúinna hurða og pumpna sem valda því að ekki er hægt að skella hurðum. Gluggagægir er þó í ágætis málum, sérstaklega eftir tilkomu Hörpunnar og fleiri slíkra gluggabygginga.

Heyrðu þessi bloggfærsla er farin að minna óþægilega mikið á málþóf. Á að eiga afmæli við þetta? Já næstum því…..

Jólatréð í stofu bráðum stendur
af gleði barnið fellir lítið tár
í hringnum kappinn liggur nú örendur
gulur og rauður og svolítið fjólublár.

Og svo ein sem er allra tíma klassík:
Það á að bíta í börnin snauð
býsna mörg á jólunum,
bjarga sér í dagsins nauð
með könnur uppi á stólunum
væna flís af erkisauð
er varla gekk á hólunum
nú er hún gamla Grýla dauð
hengdi hún sig í rólunum.

Þegar næsta bloggfærsla fer í loftið er mjög hætt við því að bloggsíðuritari hafi elst ótæpilega. Það gera lesendur reyndar líka með hverri færslu sem þeir lesa.

Að lokum óska ég ykkur öllum gleðilegra og málþófslausra jóla og vara ykkur jafnframt við yfirvofandi áramótaávarpi bloggsíðu Einars Haf.

Einar jólastrákur.

Tilvitnun dagsins:
Skrámur: Ég skal finna þig í fjöru!

Ég kemst í hátíðarorð

Upp á stól-slegu lesendur.

Jú það líður að jólum. Reyndar hefur liðið að jólum alveg síðan síðustu jólum lauk. Nú líður samt virkilega að jólum. Jólaösin er komin af stað og stutt er í að fyrsti jólasveinninn, Stekkjastaur, komi til byggða. Ég veit, það eru margar margar vikur síðan jólasveinarnir létu á sér kræla í mannabyggðum, en með stífri rannsóknarblaðamennsku og uppljóstrunum starfsmanna Einarhaf.is tókst auðvitað að sýna fram á hvers lags loddarar og gervijólasveinar væru þar á ferð, drifnir áfram af gróðasjúkum verslunarmönnum.

Þetta er ekki eina rannsóknarblaðamennskan sem bloggsíða Einars Haf hefur staðið fyrir. Það var til dæmis bloggsíðan sem uppljóstraði því á sínum tíma að Al Thani væri bara súkkulaðisjeik, en ekki raunverulegur arabískur fjárfestir. Svo kom það líka fyrst fram á bloggsíðu Einars Haf að jólin byrji ekki í IKEA heldur í fjárhúsunum. Það er svo augljóst svona eftir á að hyggja, ekki satt?

Það er nú einmitt að koma að því að hin árlega umfjöllun Einars Haf um tilhleypingar í fjárhúsum landsmanna eigi sér stað. Kannski full snemmt, en samt. Kindakynlífið er um það bil að detta í gang með tilheyrandi bægslagangi og fjárdrætti. Nú er svo komið að fjölmargir fjárbændur láta sæða ærnar sínar með verðlaunuðum hrútafyrirsætum og sæðisgjöfum sem lesa má mærðaryrði um í hinni árlegu hrútaskrá. Hvers eiga heimahrútarnir að gjalda? Þeir þurfa að horfa upp á þetta. Hvernig þætti húsbændum það ef eiginkonurnar yrðu sæddar með verðlaunafyrirsætum og sæðisgjöfum sem lesa má mærðaryrði um í hinni árlegu hrútaskrá. Nei bíddu við, þetta er alls ekki raunhæft dæmi. Hvað þá sambærilegt. O jæja. Ekki í fyrsta skipti á þessari bloggsíðu sem farið er með fleipur.

Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður, hefur nú verið sviptur réttinum til að bera fálkaorðuna. Fálkaorðuna hlaut hann svo eftirminnilega árið 2007 fyrir forystu í útrás íslenskrar fjármálastarfsemi. Öll vitum við nú hvernig það fór. Siggi var úti með ærnar í haga en allar þær stukku suður í mó. Og aumingja Siggi þorði ekki heim frá London. Hann er reyndar í fangelsi hér á landi þessa dagana, örugglega bara fyrir misskilning – enda gerði hann ekkert af sér. Raunar hafði hann ekki hugmynd um hvað gekk á í íslenska bankakerfinu fyrir hrun, enda var hann bara einn að bora í nefið á skrifstofu sinni á besta og dýrasta stað í London á sama tíma, að samþætta störf Kaupþings á alþjóðavísu eins og það var svo skemmtilega orðað, og þáði bara laun fyrir en gerði ekkert annað ámælisvert. En hvers vegna var hann sviptur fálkaorðunni? Mér skilst hann hafi fallið á lyfjaprófi, þannig að sá sem varð í öðru sæti fær orðuna bara í staðinn.

Fyrir nokkrum dögum gekk óveðurslægð yfir landið, ef það skyldi hafa farið framhjá einhverjum. All mikið veður var gert út af veðrinu í fjölmiðlum en ég hafði svo sem haft veður af þessu nokkru áður – með lestri veðurkorta. Það veður aldeilis á honum Einari, þið afsakið það. Óveðrið olli töluverðu tjóni, bæði á raflínum og ýmsum mannvirkjum. Á Hallormsstaðahálsi voru hviður yfir 70 metrar á sekúndu þegar verst lét. Og á Einari Haf er kviður vel yfir 7 metra á sekúndu. Það kemur óveðrinu þó ekkert við.

Hneyksli vikunnar er veðurfréttalesturshneykslið og slær það út mörgum fyrri hneykslum hvað varðar eðli og ákúrur í garð minnihlutahópa. Auðvitað er það hneyksli að jafn mikilvægar fréttir og veðurfréttir séu fluttar með bjöguðum evrópskum hreim.

Drunga og depurð ég vísa á bug
því brátt sigrar ljósið myrkrið svart
djörfung ég sýni og herði minn hug
senn heyrist ekkert lengur kvart.

Í fjárhúsi frelsarans boðskapur skýr
þulinn er upp fyrir stóra og smáa
fagnið þið lífinu fallegu dýr
friður á jörð milli hrúta og áa.

Þess má geta að þessi bloggfærsla var rædd 128 sinnum undir liðnum „fundarstjórn forseta“ – í öll skiptin á málefnalegan hátt.

Þess má líka geta að engum hælisleitendum var svarað um hæl eða hæli við gerð þessarar bloggfærslu. Ekki hæli ég því.

Einar jólasería.

Tilvitnun dagsins:
Skrámur: Jóli, þetta er ekkert fyndið hjá þér lengur!

Des í orðember

Snjóugu lesendur.

Það er aldeilis óhætt að halda því fram fullum fetum og án þess að blikkna að veturinn hafi haldið innreið sína hér á landi. Haustið var langt og gott en nú er skollinn á vetur með tilheyrandi éljagangi, nýsnævi og umferðartöfum. Ófærðar hefur þegar orðið vart en þó þarf hún að vera býsna mikil þannig að Subaru Impreza Sedan Snowplow árg. 2003 finni eitthvað fyrir því að marki. Er ég kominn á keðjur? Nei, Nike skórnir duga vel ennþá.

Veðurfræðingar gleðjast þessa dagana, enda þrífast þeir flestir á endalausum lægðagangi. Það er ekkert varið í veðurkortin þegar veðrið er rólegt og hæðirnar umlykja landið. Nú hins vegar eru þrýstilínurnar afar þrýstnar og hver hefur ekki gaman af þrýstnum línum? Greint hefur verið frá því að snjókoman í Reykjavík sé algjört met en nokkuð er þó enn í að Svarfaðardalshreppsmetinu verði ógnað. Hvað finnst Einsa Kalda um þetta veðurfar? Ég spyr hann þegar hann þiðnar.

Það var ekki nóg með að kaupmenn auglýstu Black Friday eins og þeir ættu lífið að leysa, heldur bættist Cyber Monday við, hver andskotinn sem það nú er. Og Cyber Monday var meira að segja framlengdur til þriðjudags í einhverjum tilfellum. Hvers konar rugl er þetta eiginlega? Hvað varð um að halda bara upp á Svartan föstudag? Eða bjóða upp á Ýlisútsölu? Hvað með Spádómakertisafsláttinn? Eða Fullveldisdagstilboðið? Þarf alltaf að apa allt upp eftir einhverjum froðuhöfðum í hinni stóru Ameríku. Þvílík minnimáttarkennd. Af hverju hefur Einar Haf samt ekki bloggað í fleiri daga? Æi ég mátti ekki vera að því, var enn slappur eftir Þeinksgiving.

Veðurhorfur næsta sólarhringinn eru annars þessar: Gengur í norðan 15 metra en snýr svo við og gengur í vestur. Fær sér áttavita. Gengur síðan í norðaustan 13-20 metra á sekúndu með skafrenningi á heiðum og stöku uppskafningi í innsveitum. Frost 4-14 stig í frystihólfinu í ísskápnum, annars hiti um og undir frostmarki en ekkert frost að marki.

Jájá, átti þetta nú að vera eitthvað fyndið? Ég skal segja ykkur hvað er fyndið, listaverkið nakinn karl í kassa – það er fyndið. Það er svo fyndið að það er ekki einu sinni hægt að gera grín að því.

Nú eru allir voða spenntir að vita hvort forseti vor, Ólafur Ragnar Grímsson, hyggst bjóða sig fram til forseta á nýjan leik eða hvort hann ætli að segja þetta gott næsta vor eftir 20 ár í embætti. Ólafur tjáir sig vitaskuld ekkert um málið, enda væri það algjört glapræði svona stuttu fyrir nýársávarpið. Ég meina, um að gera að byggja upp spennu til að fá sem mest áhorf. Óstaðfestar heimildir herma að ávarpið í ár verði í fyrsta sinn með auglýsingahléi 2007-stæl.

Nýjasti skandallinn í langri röð hérlendra skandala er án efa jóladagatalsskandallinn. Ég spyr nú bara; af hverju mátti ekki sýna Á baðkari til Betlehem aftur? Það skal tekið fram í þessu samhengi að þessi bloggfærsla sem þú varst að lesa var upphaflega send út á dönsku með íslenskum texta, en var loks talsett eftir fjölmargar athugasemdir ýmissa minnihlutahópa.

Á skjáinn gónir skúffað lið
og skilur ekki neitt í neinu
sit ég einn og eins þess bið
að fá í skóinn hálfa kleinu.

Hafa þessir Danir ekki fengið nóg? Nei, nú ætla þeir líka að hirða af okkur jóladagatalið. Aðeins ÞÚ getur stöðvað þá!

Einar undir skafli.

Tilvitnun dagsins:
Sigfinnur: JÁ.