Mikið var þetta orðið langt hlé

Góðu lesendur.

Hann er mættur aftur. Eftir langt hlé. Var þetta nógu langt hlé? Ég er ekki svo viss um það. En gott og vel. Maðurinn með munnræpuna lætur til skarar skríða og lætur ekkert ósnortið. Ég veit að það er erfitt að halda þessum lestri áfram án þess að fá ælubragð í munninn – sem betur fer eru lesendur ekki það margir að ég þurfi að fá samviskubit út af þessu.

Síðan ég lét síðast í mér heyra á þessum úrelta vettvangi hefur ýmislegt gengið á. Ég skrapp til dæmis til Parísar í dagpart eða svo, ásamt lesanda þessarar síðu nr. 1 og þeim Gunnari á Göngustöðum og Karli á Hóli – skuggastjórnendum í Ungmennafélaginu Þorsteini Svörfuði til margra ára. Ég sjálfur á eftir að gera upp og gera upp við mig hvort ég var þarna á vegum bloggsíðu Einars Haf eða Ungmennafélagsins Þorsteins Svörfuðar – sennilega skipti ég kostnaðinum 50/50. Allavega, ferðin var farin og það var farið á Stade de france, þjóðarleikvang Frakka, til að berja íslenska karlaknattspyrnuliðið…..augum. Þeir öttu kappi við heimamenn Frakka. Fljótlega kom á daginn að þessir Frakkar voru númeri of stórir – er þetta ekki spurning um að sníða sér stakk eftir vexti. Eða Frakka eftir vexti. Hvað sem þessum vangaveltum líður fór leikurinn 5-2, Ísland vann seinni hálfleik og íslenskir stuðningsmenn öskruðu úr sér lungu og lifur allan tímann, svo eftir var tekið. Það var gaman að geta tekið þátt í þessu og upplifa þetta ævintýri. Kvennalandsliðið keppir svo í lokakeppni EM í Hollandi á næsta ári – verður það mót sýnt hjá Símanum? Mun Gummi Ben öskra sig inn í hugi og hjörtu heimsbyggðarinnar þá? Tja…ég myndi ekki vera of viss. Konur eru jú stundum Einar.

Síðan ég lét síðast í mér heyra er búið að halda eitt stykki fossarakosningar með tilheyrandi sjónvarpskappræðum, kosningavökum og atkvæðaveiðum. Kosningabaráttan var frekar undarleg leyfi ég mér að segja, frambjóðendur voru níu talsins og voru þeir spurðir út um víðan völl og spurðir út í víðan völl. Svörin voru líka út um víðan völl, þorskastríðin og Icesave voru merkilegustu umræðuefnin. Þrír frambjóðendur settu met í kosningunum, aldrei hefur nokkur nokkru sinni fengið jafn fá atkvæði hlutfallslega séð. Rangur maður á röngum tíma? Veit ekki, en af hverju fæddist ég lúser? Ég bara spyr.

Hneyksli vikunnar að þessu sinni er að sjálfsögðu þetta hér. Þetta er ákveðinn skellur fyrir kvennapönksveitina Randalín og stelpurokksveitina Klassapíur en sem betur fer mun stúlknakór Kársnesskóla fá að koma fram á hátíðinni – og lagfærir það kynjahlutföllin eitthvað. Svo má velta fyrir sér hvort þeir sem fari á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum bara út af hljómsveitunum sem koma fram séu á einhverjum villigötum.

Og nú er lagður ljósleiðari um Svarfaðardal þveran og endilangan – hvern hefði grunað það hér í þá daga þegar afi klifraði upp í símastaur til að ná sambandi við næsta nágrenni. Internetið leggur heiminn að fótum sér og ljósleiðarinn leiðir ýmislegt í ljós – tala nú ekki um nú þegar tekist hefur að koma ljósleiðaranum gegnum Urðaengið. Það er ekkert grín að plægja streng niður í slíkt landsvæði – landareignin heitir ekki „Urðir“ bara út í loftið. Enda enda ég yfirleitt í grjótinu þegar ég reyni eitthvað.

Kerlingar reyna að koma fram
en komast hvorki lönd né strönd
við karlrembusvínin ég segi skamm
skelfing nú bágt eiga kvennabönd.

Þess má geta að ég fékk 0,18% af því verðlaunafé sem ég hefði fengið fyrir þessa bloggfærslu hefði ég skráð mig til leiks sem karlmann. Þvílíkt klúður hjá mér. Það er ekki sama Jón og frú Jón.

Einar kvennamaður.

Tilvitnun dagsins:
Allir: Húh!

Orðin evrópumótuð

Innköstuðu lesendur.

Þá er stóra stundin loksins við það að renna upp. Íslenska landsliðið í knattspyrnu er á leið á sitt fyrsta stórmót. Það verður aldeilis gleði og gaman þá. Ég skal segja ykkur það.

Hmm…já en íslenska landsliðið í knattspyrnu hefur komist á stórmót áður, meira að segja tvisvar.

Já, en það voru kelling…..afsakið, það voru konur. Það telst þess vegna varla með. Ég meina, þetta hjá strákunum er miklu merkilegra. Þess vegna er hægt að horfa á æfingaleik Íslands og Lichtenstein í karlaboltanum í beinni útsendingu á aðalrás Ríkissjónvarpsins með tilheyrandi riðlun á línulegri dagskrá en kvennaleikur Íslands við Makedóníu í undankeppni Evrópumótsins fær sinn stað á Rúv 2 – svo að íþróttafréttir af íþróttakörlum á aðalrásinni fái nú að vera á sínum eðlilega tíma. Allt ósköp eðlilegt og eins og það á að vera.

Ungmennafélagið Þorsteinn Svörfuður lagði sín lóð á vogarskálarnar varðandi hlut kvenna í íþróttahreyfingunni þegar stjórn félagsins, á eftirminnilegan hátt, skipaði á aðalfundi konu í brennunefnd félagsins fyrir fáeinum árum. Þetta varð að vísu ekki til þess að fjölga konum í starfi félagsins – en það mátti reyna.

Alltaf þegar stórmót í fótbolta standa fyrir dyrum er barist hatrammlega um sýningarréttinn. Bloggsíða Einars Haf fór halloka enn eina ferðina. Stöð 2 átti ekki séns og RÚV strögglaði. Það var, öllum á óvörum, Síminn sem keypti sýningarréttinn. Hvern hefði grunað það á tímum sveitasímans að áratugum síðar væri Ísland að fara á stórmót og Síminn myndi sýna það í beinni útsendingu. Algjörlega galið.

Sauðburði er nú loks formlega lokið og líður þá að því að kindur haldi til fjalls. Þar verða þær vonandi flestar þar til þeim verður gefið leyfi til að koma heim aftur, um göngur. Kindurnar hafa verið látnar vita af því hvenær göngurnar eiga að vera og sættu þær sig flestar við þessa ráðstöfun – ég meina, ekkert sem kom á óvart svo sem. Önnur helgin í september, allt í lagi. Með því skilyrði að við fáum smá túnbeit í viðbót þegar við komum aftur….áður en börnin okkar fara á sláturhús. Þessi líking mun aldrei ganga upp.

Það er alltaf nóg um að vera í samkomuhúsinu Höfða. Nú um helgina var haldið sveitaball og mætti ég þangað að sjálfsögðu og stundaði mannlífsrannsóknir. Um næstu helgi standa svo velunnarar hússins fyrir sveru kaffihlaðborði þar sem öllu verður til tjaldað. Það verður sól og 15 stiga hiti og svei mér þá ef það verða ekki bara allir í hátíðarskapi. Ég geri ráð fyrir að þeir sem ekki eru staddir í Frakklandi að fylgjast með fótboltanum komi á kaffihlaðborðið – eðlileg krafa.

Og hvað er að frétta af forsetakosningunum? Ekki baun í bala held ég. Bara það jú að samsærið gegn Ástþóri Magnússyni heldur áfram að hans sögn. Og Davíð er með kosningaskrifstofu við Grensásveg. Það minnti á mig á ákveðinn Davíð sem hefur einmitt komið nokkrum sinnum fyrir hér í vísnahorninu. Skemmtileg tilviljun. Meira var það ekki.

Og svo veðrið maður.

Kosningarnar eru hlátur, grátur
kvíðinn sljóvgar tilfinningarnar
Dabbi er á Grensás, býsna kátur
skyldi hann kýla kjósendurnar þar?

Þess má til gamans geta að nánast allir flugumferðarstjórar lesa bloggsíðu Einars Haf í yfirvinnu.

Einar boltabulla.

Tilvitnun dagsins:
Allir: Bolti.

Borin orðin

Góðu lesendur.

Inngangur er fyrir plebba. Áfram með smjörið.

Er sauðburði þá lokið? Nei, það er ein eftir.

En hvað eru margir forsetaframbjóðendur eftir? Þeir ku vera níu. Samt fá bara tveir til fjórir að mæta í umræðuþætti og skiptast á skoðunum. Það er svo sem ágætt að grisja aðeins úr þessum fjölda. Ekki viljum við eyða okkar dýrmæta tíma í eitthvað rugl. Tja…nema ef vera skyldi að lesa bloggin hans Einars Haf. Lesendaþrautin að þessu sinni er: hvaða níu manns eru í forsetaframboði? Rétt svör óskast í athugasemdum.

Hlutlausasti fjölmiðillinn þegar kemur að forsetakosningunum er bloggsíða Einars Haf og næst þar á eftir kemur Morgunblaðið. Öll viljum við jú faglega og hlutlausa umfjöllun þegar kemur að þessum málum og skal þá á engan hallað.

Eldhúsdagsumræður fóru fram á Alþingi í gærkvöldi, eldhúskvöldsumræður sem sagt. Umræðunum var útvarpað og sjónvarpað í þráðbeinni línulegri útsendingu Rásar 2 og Ríkissjónvarpsins lögum samkvæmt og var áhorf töluvert – sérstaklega á þeim heimilum þar sem ekki nást aðrar sjónvarpsstöðvar. Hvað kom fram í umræðunum? Auðmýkt og hreinskilni? Minnisleysi? Ég man það ekki, ég ákvað að fara út í vorið í staðinn og telja kindur. Sem endaði auðvitað með því að ég sofnaði.

Íslenskt íþróttafólk gerir það gott þessa dagana. Strákarnir okkar í fótboltanum, stelpurnar okkar í sundinu, vöðvabúntin okkar í Krossfittinu, fituhlunkurinn okkar í málþófinu. Allt þetta og meira til eykur hróður lands og lýðs um veröldina. Hvernig stendur eiginlega á þessum svakalega góða árangri? Er það skyrið? Lýsið? Náttúrufegurðin? Eða eru það öll gömlu góðu húsráðin? Nei held ekki. Held þetta sé fyrst og fremst heppni. Já og auðvitað höfðatalan.

Ég var að lesa hérna í Mogganum nafnlausa frétt þess efnis að Guðni Th. hafi sagt eitthvað í hálfum hljóðum við eldhúsborðið heima hjá sér fyrir sjö árum síðan sem stenst enga skoðun og verða að túlkast sem afar óheppileg ummæli í ljósi forsetaframboðs hans. Skamm Guðni.

Ef þið voruð að velta því fyrir ykkur í hvað hin svokallaða „skuldaleiðrétting“ fór þá er svarið hér. Hún fór sem sagt í það að leiðrétta laun starfsmanna skattsins. Spæling.

Hneyksli vikunnar er hið árlega klósetthneyksli. Ferðamannastraumurinn ætlar að slá öll met og hvað gerum við? Setjum við upp klósett eða ferðakamra? Nei, við setjum upp skilti um að það sé bannað að ganga örna sinna hér og þar. Vandamálið hverfur varla við það. Ég þarf alveg jafn mikið að kúka þó það standi á einhverju skilti að ég megi það ekki. Og næsta klósett víðsfjarri. Svo um leið og eitthvað verður bannað og forboðið verður freistingin enn meiri. Hi, I’m John and this is my wife Sarah. We are from America. And we just pooped next to Gullfoss under the blue summer sky. Spectacular! Ég segi nú bara sjitturinn titturinn.

Vorboðinn ljúfi laumast í var
og lætur allt gossa á ósnortið land
á hælunum hangandi nærbuxurnar
hræðist ég mjög þetta fljótandi hland.

Þess má til gamans geta að nú á að einkavæða viðskiptabankana almennilega og í eitt skipti fyrir öll, ekki í einhverju svona flippi og hálfkæringi eins og í síðasta góðæri. Sjúkket – ég sem var farinn að óttast að þetta væri allt að fara úr böndunum hjá okkur aftur.

Einar genginn örna.

Tilvitnun dagsins:
Ferðamenn: Where is the next toilet?

Orðin framboðin

Krúttípúttulegu lesendur.

Margir hafa komið að máli við mig. Margeir hefur líka komið að máli við mig. Margeir heldur mig sig, en það er hans vandamál. Óvissuástand og blablabla. Er ég hættur við eða ekki hættur við? Hættur við hvað? Við sjáum hvað setur og hvað maður setur á kjörseðilinn fyrir sólsetur. Og ég er hættur við, vegna óvissuástands. Hættur við þessa bloggfærslu þá? Hætturnar leynast víða, og svo hætturnar við að hætta. Hættu nú alveg.

Sauðburður hefur verið í miklum algleymingi undanfarna daga. Hvítasunnuhelgin var sérlega annasöm, þar sem heilagur andi sveif yfir vötnum, sem og burðarslím. Og ýmislegt fleira. Sauðburði er ekki lokið og ýmislegt getur enn gerst, en þetta hefur gengið þokkalega hingað til. Hvað með brandarana um allt féð sem er í skattaskjólum og þar af leiðandi ekki í fjárhúsunum? Orðið svolítið þreytt, ekki satt? Samt ennþá viðeigandi.

Hvenær fer svo að vora? Það er ekki vitað fyrir víst. Veðurstofa Íslands hefur ekki getað svarað neinum spurningum því tengdu þar sem nýjar ofurtölvur nánast bræddu úr sér um helgina. Þær fengu næstum hitaslag, greyin. Skýringin var bilun í kælikerfi. Einmitt, eins og einhver trúi því. Hvað ætti Veðurstofa Íslands að hafa að gera með kælikerfi? Það ætti alveg að duga þeim að spá skítakulda til að kæla niður tölvukerfið. Þeir hafa jú býsna góð sambönd. En hvernig geta þeir spáð kulda þegar spátölvurnar bila? Hringlaga rökvilla – eða Circular reference – svo maður vitni í excel. Og enginn botnar neitt í neinu.

Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva fór fram nú um Hvítasunnuhelgina. Íslendingar freistuðu þess að taka þátt en þeim varð ekki kápan úr því klæðinu. Ekki einu sinni nálægt því að vera kápa, bara einhver svört lufsa með kögri á. Það dugði engan veginn. Boðskapur okkar framlags var í stuttu máli sá að aðalatriðið væri ekki að sigra heldur að vera með (eða reyna það) og hafa nógu dökkan og drungalegan bakgrunn – og kjósendur í Evrópu tóku svo sannarlega mark á því. Að vísu var dulinn boðskapur í titli lagsins „Hear Them Calling“, þ.e. það var sungið um símakosninguna og að það heyrðist þegar Evrópubúar hringdu inn til að kjósa íslenska lagið áfram. Því miður heyrðist enginn hringja. Can’t Hear Them Calling.

Fossarakosningarnar nálgast og frambjóðendur eru farnir að setja sig í stellingar, þeir sem ekki eru hættir við það er að segja. Þegar síðasta bloggfærsla fór í loftið var hr. Ólafur Ragnar Grímsson forseti enn í framboði vegna mikillar óvissu. Nokkrum dögum síðar taldi hann öllu óhætt og hætti við að hætta við að hætta, þeim sem höfðu hætt vegna þess að hann hætti við að hætta til mikillar óánægju. Enn eru þó einhverjir í framboði sem enginn veit hverjir eru, en það er auðvitað bara samsæri ljósvakamiðla og áróðursmaskína kerfisins – sem þessi bloggsíða er jú ágætt dæmi um.

Íslenska knattspyrnusumarið er nú hafið. Sem fyrr er aðalatriðið að vera með og efla ungmennafélagsandann eins og við höfum reyndar séð nokkuð glögglega nú í upphafi Íslandsmótanna. Hvenær byrja fótboltaæfingar utandyra hjá Ungmennafélaginu Þorsteini Svörfuði? Væntanlega að loknum sauðburði, þegar frostið verður farið út netmöskvunum og þegar vallarstarfsmennirnir koma undan snjó – en þeir voru geymdir á fótboltavellinum við hliðina á mörkunum í vetur svo allt væri á vísum stað þegar voraði á ný.

Vorið kemur, hlýnar hjarta og sál
hugur minn á ný úr roti raknar
Kindur eignast lömbin, mikið er þeim mál
merkrar speki Einars enginn saknar.

Þess má til gamans geta að Einar Haf bauðst til að afsala sér launum sem hann þiggur hjá bloggsíðu Einars Haf til þess eins að geta tekið við forsetalaunum Davíðs Oddssonar – sem hann hyggst afsala sér þegar hann kemst á Bessastaði.

Einar auðmjúkur.

Tilvitnun dagsins:
Allir: Ég finn mikin meðbyr.

Orðin upp stigin

Undanskotnu lesendur.

Það er við hæfi nú að kveldi Uppstigningardags að horfa ögn til andlegra málefna og staldra við í amstri hversdagsins. Það er rétt að minnast himnafarar Jesú Krists, þessi dagur er jú til þess gerður. Eins og þjóðfélagsástandið var á tímum Jesús var himnaför hans skiljanleg. Væri hann hér á meðal vor í dag myndi hann eflaust gera slíkt hið sama, forða sér burt úr vitleysunni og stíga upp til himna. Að þessu leyti hefur ekkert breyst.

Óli segir nei nei nei, nei nei segir Óli.

Nú er það allt í einu orðið vítavert að tengdaforeldrar manns skuli eiga peninga einhvers staðar á einhverri eyju suður í aflandshafi. Afsakið meðan ég æli. Syndir feðranna eru þeirra syndir, ekki okkar. Ég er ekki að tala um mig, enda á ég enga tengdaforeldra svo ég viti, heldur er ég að tala um Þormóð Ugluspegilsson á Framnesvegi 16. Honum er ekki lengur sætt sem forseta húsfélagsins vegna þess að tengdaforeldrar hans eiga peninga á Tortóla eyjum. Skamm Þormóður.

Nú stendur yfir Öldunkamót í blaki, þar sem blakkempur hvaðanæva af landinu keppast við að tæma hvern öldunkinn á fætur öðrum. Ekki ósvipað Pollamótinu í fótbolta þegar fótboltakempur hvaðanæva af landinu keppast við að tæma hvern pollann á fætur öðrum. Hmm…eitthvað í þessu gengur ekki upp. Veit samt ekki hvað.

Óli segir nei nei nei, nei nei segir Óli.

Nýjasta hneykslið í langri röð hneykslismála er hið árlega veðurhneyksli sem samtök veðurfræðinga standa fyrir. Frá og með sumardeginum fyrsta og langt fram í maí spá þeir engu nema norðanátt og kulda – og alltaf rætast spárnar. Ungir Sjálfstæðismenn hafa ítrekað lagt til að Veðurstofa Íslands verði einkavædd, í þeirri von að spárnar og þar með veðrið batni í kjölfarið. Gangi þeim vel með það.

Bresku Jómfrúareyjar eru þekktar fyrir blómlegt atvinnulíf og öflugan fyrirtækjarekstur. Eyjaskeggjar hafa brotist til metorða úr sárri fátækt með tveimur höndum tómum – þeir hafa sannkallað víkingablóð í æðum. Þeir virðast einnig hafa notið fjárhagslegs stuðnings íslenskra auðmanna. Þetta hefur komið betur og betur í ljós eftir því sem skjölin hafa lekið og lekið frá Panamaeyjum. Enn á ný sannast þá hið fornkveðna að þegar smáþjóðir eru í vanda staddar koma Íslendingar til skjalanna og redda málunum. Alveg sama hvort það bitnar á innviðum samfélagsins okkar eða ekki. Tortóla – öruggur staður til að vera á.

Óli segir nei nei nei, nei nei segir Óli.

Auðkýfingurinn Donald Trump hefur hlotið mikið brautargengi í forkosningum Repúblikana í Bandaríkjunum, vegna komandi forsetakosninga. Ekki líst mér á Repúblikuna. Það eru Repúblikur á lofti. Ég vildi bara koma þessu á framfæri.

Evrópusöngvakeppnisfararnir okkar eru löngu mættir til Stokkhólms til að æfa sig fyrir Evrópusöngvakeppnina, sem mun tröllríða allri línulegri dagskrá í næstu viku. Gréta Salóme er í forsvari fyrir okkar hönd. Í íslensku söngvakeppninni heyrði hún raddir á íslensku en nú á alþjóðavísu heyrir hún raddir á engilsaxnesku. Í fyrra söng hún María okkar af sér rassgatið og það stefnir allt í að hún Gréta muni gera það sama í ár. Við fylgjumst spennt með.

Fokið er í flestöll skjól
framinn býður skaða
eins og álfur út úr hól
breyti ég í spaða

Þess má til gamans geta að þó svo að frændi minn hafi átt bankareikning á Tortóla eyjum og systir vinkonu minnar setið í stjórn skúffufyrirtækis á Ceycille eyjum ætla ég ekki að segja af mér. Hvað þá að biðjast afsökunar.

Einar þaulsetinn.

Tilvitnun dagsins:
Allir: Rass!!!

Orð af landi

Kæru lesendur.

Gekk ég yfir sjó og land og hitti þar einn auðkýfing. Sagði svo og spurði svo hvar átt þú heima? Ég á heima á Aflandi, Aflandi, Aflandi. Ég á heima á Aflandi, Aflandinu góða.

Það er nefnilega það. Vegna óvissuástands í þjóðfélaginu ákváðu hérlend og erlend yfirvöld að láta loka öllum vafasömum vefsíðum – enda fyrir löngu ljóst að tjáningarfrelsið er komið út fyrir öll velsæmismörk og rúmlega það. Það er ein af aðalástæðum fyrir því að þú flýgur betur með Icelandair. Nei ég meina, það er ein af aðalástæðunum fyrir því að Einar Haf hefur ekkert bloggað í fleiri vikur. Reyndar tókst honum að blogga einu sinni um miðjan apríl en sú færsla var sem betur fer tekin út af internetinu jafn harðan þar sem hún þótti afar gróf og særði blygðunarkennd margra. Margra sem lásu ekki einu sinni færsluna.

Í dag var haldinn stofnfundur félags fyrrverandi forsetaframbjóðenda. Mikið fjölmenni var á stofnfundinum og loft lævi blandið. Í þessu nýja félagi er fólk sem á um sárt að binda um þessar mundir í ljósi þess að núverandi forseti ákvað að bjóða sig fram aftur og aftur fram, fram og aftur. Hefur þetta haft í för með sér gríðarmikið tekjutap fyrir þetta fólk, sem sumt hvert hafði þegar eytt stórfé í auglýsingar og kynningarbæklinga. Gera má ráð fyrir að fjölgi enn í félaginu þegar kemur fram í maí – og svo verður loks stofnuð deild innan samtakanna 25. júní fyrir þá sem hafa í raun og sann boðið sig fram en ekki náð kjöri. Stöndum saman og hjálpum þessu fólki.

Óvissuástandið í þjóðfélaginu hefur oft verið mikið en aldrei þó eins gríðarlega mikið og undanfarið. Á tímabili vissi ég ekki hvaða ríkisstjórn væri við völd einu sinni. Ég vissi heldur ekki hver væri handhafi forsetavalds né heldur hversu margir væru í framboði til forseta. Ég vissi ekki hvort Andri Snær væri enn á listamannalaunum. Ég vissi ekki hvernig færi fyrir gjaldeyrishöftunum og ég vissi heldur ekki hvernig veðrið yrði á morgun. Ég vissi heldur ekki hvort ég myndi nokkurn tímann ná að skrá mig aftur inn á bloggsíðu Einars Haf. Á svona óvissutímum er gott að hafa einhvern fastan punkt, sem hægt er að stóla á og reikna með að standi eins og klettur í brimróti nútímans. Um hvað er ég að tala? Auðvitað Magga á Texasborgurum.

Sjónvarpið sýnir um þessar mundir raunveruleikadramað Panamaskjölin, eða „Panamapapers“ eins og það heitir í meðförum erlendra blaðamanna. Nánast daglega gerist eitthvað nýtt og spennandi í þessari sápuóperu og yfirleitt enda allir þættir á því að einhver segi af sér. Í upphafi var gefið út að um 600 leikarar tækju þátt en þeim hefur fækkað eitthvað eftir því sem á hefur liðið.

Minnisleysi er hrikalegt fyrir þá sem í því lenda. Ég minnist þess að vísu ekki að hafa nokkurn tímann þurft að glíma við það vandamál, en það eru ekki allir svo heppnir. Fjölmargir fjármagnseigendur virðast til dæmis hafa gleymt því með öllu að þeir hafi á sínum tíma stofnað bankareikninga erlendis og stundað viðskipti, jafnvel í einhverjum löndum í órafjarlægð frá Íslandi þar sem skattar tíðkast ekki. Svo hafa þeir stundum gleymt að gefa þessar eignir og tekjur af eignunum upp til skatts á Íslandi. Ég man þá tíð……ekki baun.

Ný rannsókn sýnir að átröskun er mun algengari meðal íslenskra íþróttamanna heldur en meðal erlendra íþróttamanna. Skiptir þá engu hvort um ræðir dvergakast, skák, fitness, bobb, hnit, hrútaþukl, Brús eða einhverja aðra íþróttagrein. Þessar niðurstöður koma rannsakendum í opna skjöldu. Ekki skrítið. Ég ætla ekki að éta neitt ofan í mig af því sem ég hef áður sagt um útlitsdýrkun og annað í þeim dúr, ég ætti það einfaldlega á hættu að æla því – samkvæmt rannsókninni.

Nú líður senn að sauðburði í Svarfaðardal og víðar. Á nokkrum stöðum er burður meira að segja hafinn. Það er auðvitað alveg dæmigert að einmitt þá skiptir veðurguðinn um gír, slekkur á sólinni og dembir á mann dimmum hríðaréljum og frostkala. Það var nú ekki það sem hnýpin sál á hjara veraldar þurfti á að halda. Haldið þið að væri munur að vera núna á Panama í 30 stiga hita og sauðburður að detta í gang. Allar kindurnar búnar að klæða sig úr ullinni og komnar á nærfötin. Já það væri nú eitthvað annað. Það sem heldur manni gangandi er vonin um að bráðum komi betri tíð með blóm í haga, sæla langa sumardaga, kjöt og smjör í sérhvern maga og biksvart kaffi í grænum Braga. Ja, eða svoleiðis.

Á Panama skulum við dvelja um skeið
og skúbba um reikninga vel falda
Þjóðin á þrasinu orðin er leið
og kommentakerfin svo þrútin og reið
ég höfðinu sting inn í skel kalda

Lögfræðistofurnar leika sér við
að liðka til fyrir þá Pétur og Pál
erlendir peningar setj’allt á hlið
og þjóðþrifamálin þau öll fara á bið
úr ausunni sýp ég af áfergju kál

Þó ég hafi ekki gert neitt rangt í þessari bloggfærslu, hvað þá gerst brotlegur við lög og siðareglur, ætla ég samt að stíga til hliðar svo hægt sé að byggja upp traust á nýjan leik. Bara spurning hvað ég tek mörg skref til hliðar. Hliðar saman hliðar. Ég áskil mér þó rétt til að endurskoða þá ákvörðun mína um að bjóða mig að nýju fram til forseta bloggsíðu Einars Haf – enda sé það vilji lesenda. Ég heiti líka Einar Haf, kann lykilorðið inn á bloggsíðuna og er þar af leiðandi lang hæfasti aðilinn til að sinna embættinu.

Þess má til gamans geta að Kim Kardashian og Kanye West létu rýma Bláa lónið á dögunum svo þau gætu skoðað bloggsíðu Einars Haf í friði og ró.

Einar ekki viss.

Tilvitnun dagsins:
Allir: Ég man það ekki.

Orðin upprisin

Páskalegu lesendur.

Já það hefði ég nú aldeilis haldið. Einar Haf, öðrum orðum ég, læt dræmar undirtektir og hríðfallandi eftirspurn eftir bloggfærslum sem vind um eyru þjóta og held áfram að tala í tómið. Maður er gráti næst.

Æi hættu þessu grenjuskjóða. Farðu frekar og troddu páskaeggjum í grímuna á þér, feitilíus. Nú er allt svoleiðis vaðandi í páskaeggjum að það hálfa væri nóg. Og þá er ég ekki að tala um veganegg. Hvaðan koma öll þessi egg? Hver verpti öllum þessum eggjum? Og hver sá um að setja þau í plast? Páskahérinn verpti eggjunum og það voru þau Nói Síríus, Linda og Góa sem sáu um plöstunina. Við stöndum í þakkarskuld við þessi fyrirtæki, án þeirra væru engir páskar.

Heyrðu mig nú trúleysingi. Væri ekki frekar að við þökkuðum Jesú Kristi og upprisu hans. Þjáningar Krists á krossinum urðu til þess að í dag getur venjulegt fólk tekið sér nokkurra daga samfellt frí í mars eða apríl og farið í sumarbústað, á skíði eða jafnvel til útlanda á hverju ári. Það er nú aldeilis þakkarvert. Og hvernig sýnum við þetta þakklæti í verki? Hvernig heldur fólk upp á þessa stærstu hátíð kirkjuársins? Með því að mæta ekki í messu á Páskunum og skrá sig úr þjóðkirkjunni. Auðvitað. Auðvitað fá trúleysingjarnir líka frí á páskunum. Þeir trúa ekki á Guð almáttugan en þeir trúa á frí og hið ljúfa líf eftir sem áður. Það er eitthvað verulega rotið við þetta allt saman. Ég finn hvernig ég er að verða brjálaður.

Forsetaframbjóðendur halda áfram að spretta undan feldinum eins og gorkúlur. Óhætt er að segja að flóra frambjóðenda sé að verða umfangsmeiri en hinn almenni kjósandi ræður við og kærir sig um. Mikill fjöldi forsetaframbjóðenda er ekki bara kjánalegur heldur einnig kostnaðarsamur fyrir þjóðarbúið. Og má þjóðarbúið þó ekki við því. Fyrir það fyrsta þurfa þessir forsetaframbjóðendur 1.500 meðmælendur hver eigi þeir að geta boðið sig fram. Gætum við lent í því að þurfa að flytja inn kjósendur frá útlöndum til þess að allt þetta fólk fái að bjóða sig fram? Ég velti því fyrir mér. Síðan þarf óhjákvæmilega að stækka kjörseðlana til að koma nöfnum allra frambjóðenda fyrir, jafnvel upp í stærð A3 haldi þessi þróun áfram. Þá þarf ennfremur að stækka kjörkassana og það kostar sitt. Talning atkvæða verður umfangsmeiri og kosningavakan lengist margfalt, með tilheyrandi kostnaði fyrir Ríkissjónvarpið. Kosningapartí frambjóðenda verða mun fleiri en venjulega þannig að það þarf fleiri fréttamenn á vakt til að geta heimsótt þau öll og flutt fréttir af frambjóðendum og fylgismönnum þeirra.

Líkt og með hina trúuðu og páskafríið þá er eitthvað rotið við þetta forsetabrölt einnig. Hér eru auglýstar stöður í heilbrigðisgeiranum vikum saman og enginn sækir um – en svo er auglýst eftir forseta lýðveldisins og þá hrúgast inn umsóknir. Hvernig fær fólk það út að það sé auðveldara starf? Tja, jú kannski þegar það er hugsað út í það. Það eru miklu meiri hæfniskröfur gerðar í heilbrigðisgeiranum heldur en í forsetabransanum en samt eru launin margfalt hærri í forsetabransanum. Kannski er það skiljanlegt. Við viljum ekki að hvaða api sem er geti sótt um stöðu læknis en við myndum lifa það af sama hvaða api yrði kosinn forseti. Hver myndi til dæmis vilja fara í uppskurð til Dr. Ástþórs Magnússonar? Það er þó skárra að hafa manninn í öruggu umhverfi á Bessastöðum.

Og að lokum; hér eru nokkrir málshættir sem ég fékk úr páskaeggjum dagsins. Það er rétt, ég keypti glás af eggjum bara til að geta fengið fleiri málshætti. Ég opna eggin, næ málshættinum út og hendi svo restinni. Andlegt fóður nægir mér……

Af aflandsfélögunum skuluð þið þekkja þá.
Sjaldan er einn kröfuhafinn stakur.
Enginn verður óbarinn forsætisráðherra.
Hver hefur sína auðugu eiginkonu að draga.
Sá vægir sem Wintris hefur meira.

Ég tók í morgun þátt í umfangsmikilli páskaeggjaleit, venju samkvæmt. Ég fann engin páskaegg en ég fann hins vegar nokkra módelfitnesskeppendur – sem ég hélt í ógáti að væru páskaegg. Það runnu á mig tvær grímur þegar ég fór að kafa ofan í málið en fann enga málshætti hvernig sem ég reyndi að grafa mig inn gegnum götin aftan á meintum páskaeggjum. Það gengur vonandi bara betur næst.

Einar í upprisu.

Tilvitnun dagsins:
Rodney Dangerfield: During sex, my wife always wants to talk to me. Just the other night she called me from a hotel.

Orð í kristilegum skrúða

Dymbillegu lesendur.

Loksins loksins loksins. Ég hef tekið föstuna full alvarlega og hvorki æmt né skræmt hér á bloggsíðunni frá því í síðasta mánuði. Nú líður hins vegar senn að mestu hátíð kirkjuársins, hátíð upprisunnar – og þá get ég auðvitað ekki á mér setið. Við minnumst jú þess þegar lífið sigraði dauðann. Þegar svartnættið þurfti að lúta í lægra haldi fyrir ljósinu og öllu því bjarta og fagra. Þegar bloggsíða Einars Haf varpaði nýju ljósi á sannleikann. Tja, það passar nú kannski ekki alveg. Það má að minnsta kosti þakka fyrir að inngangurinn er ekki lengri en hann þó er.

Fermingar eru nú hafnar. Þá er ég ekki að tala um fermingar eða affermingar þegar skip koma til hafnar heldur fermingar þar sem bólugrafin ungmenni fermast til fjár – í anda páskanna. Öllu fer aftur, segja þeir sem eldri eru. Ég er alveg sammála því. Nú er valið orðið alltof mikið. Í fermingarbransanum er hægt að velja um kirkjulega fermingu, borgaralega fermingu, óborganlega fermingu eða enga fermingu. Fæstir velja enga fermingu því engin ferming jafngildir engum gjöfum. Viðkomandi segist ekki trúa en trúir samt á að fermast og fá fermingargjafir. Borgaraleg ferming er í tísku nú til dags, en ég veit því miður ekki hvað það er. Kannski þýðir það að þú þarft ekki að klæðast hvítum kirtli og hafa yfir trúarjátninguna en færð samt að halda veislu og þiggja gjafir að verðmæti hundruða þúsunda króna frá vinum og ættingjum. Bévítans trúleysingjar. Auðvitað er alltaf best að fermast í kirkju þegar verið er að standa í þessu á annað borð, tala nú ekki um þegar kirkjan er á hlaðinu heima hjá þér. Urðakirkja er kjörin til þess arna, hægt er fá afnot af kirkjunni á mjög góðum kjörum, ræðið bara við E.Haf starfsmann kirkjunnar og hann útbýr eitthvað mjög ásættanlegt fermingartilboð.

Páskalambið á sér langa sögu í kristinni trú. Ekki er vitað hvernig nýir búvörusamningar munu koma til með að hafa áhrif á afdrif páskalambsins í ár, en mögulega verður lambið flutt út til Ameríku sem hluti af allsherjarmarkaðsátaki sauðfjárbænda og talsmanns þeirra, Svavars Halldórssonar – með von um bætta afkomu sauðfjárbænda. Páskaeggin eru einnig í nokkurri óvissu þar sem nýir búvörusamningar ná einnig til alifuglabænda og annarra sem hafa eggjavarp á sinni könnu, eða í sínum varpkassa. Tilraunir með að gefa hænunum á Urðum súkkulaði og lesa fyrir þær málshætti með það að augnamiði að þær fari að verpa páskaeggjum hafa því miður engan árangur borið. Ástandið er raunar það slæmt að undanfarið hafa nánast engin egg orpst…orpist…varpast…æi ég veit ekki. Gefið mér séns, ég varð bara í 12. sæti í stafsetningarkeppninni þarna á Landsmótinu um árið. Áryð, á ég við. Vyð.

Nú þegar hyllir undir að Lönguföstu ljúki hugsa margir sér gott til glóðarinnar að troða sig út af páskasteikum og gotteríi. Ég er að sjálfsögðu þar á meðal. Sumir eru þó staðfastir og falla ekki fyrir freistingunum sem nú eru við hvert fótmál og hvern búðarkassa. Gufusoðið grænmeti í öll mál gefur heilbrigt útlit og góða heilsu. Ekki satt, Viktoría?

Mörður Árnason, fyrrverandi alþingismaður, hefur nú á föstunni lesið upp Passíusálma Hallgríms Péturssonar eftir tíufréttirnir á Rás 1, einn sálm á kvöldi. Hefur lestur Marðar verið að mestu fumlaus og án hnökra, utan við sálm 23 – þar sem Mörður fékk hóstakast þegar kom að ítarlegri og rammstuðlaðri lýsingu á húðstrýkingu Krists í bundnu máli. Ég hef auðvitað hlustað á alla sálmana í beinni útsendingu, eins og fyrri ár, og alltaf fyllist ég jafn mikilli lotningu þegar ég hlýði á. Lýsingarnar í sumum sálmunum á meðferðinni sem Kristur mátti sæta eru afar sláandi og hryllilegar. Hryllingurinn nær þó nýjum hæðum, mögulega Golgatahæðum, á föstudaginn langa þegar Megas „syngur“ alla fimmtíu sálmana í einni beit í kirkju einhvers staðar nálægt ÞÉR. Já bíðið þið bara, enginn er óhultur. Það er önnur saga.

Talandi um hrylling, Ríkissjónvarpið bauð upp á æsispennandi niðurlægingu og pínlega útreið í beinni útsendingu síðastliðið föstudagskvöld þegar Menntaskólinn í Reykjavík flengreið Kvennaskólanum í Reykjavík í úrslitum í spurningakeppni óskýrmæltra framhaldsskólanema. Lokatölur urðu 40-13. Á sama tíma tóku Fræknir feðgar þátt í heimsmeistaramótinu í Brús á Rimum í Svarfaðardal og spiluðu þar rassinn endanlega úr buxunum við nokkur af þeim 10 borðum sem spilað var við í heimsmeistarakeppninni. Uppskeran varð nokkrar drepnar voganir og tvær jananir auk þriggja klórninga. Fyrir þennan fjölda klórninga fékk liðið sérstök verðlaun, sem verður að teljast afar vafasamur heiður, en förum ekki nánar út í það. Á laugardagskvöldið var ég svo rótari fyrir hljómsveit Hafliða sem spilaði undir hinum svarfdælska mars sem stiginn var af miklum móð á Rimum. Mjög hefðbundið.

Allt stefnir í æsispennandi forsetakosningar hér á landi í sumar. Forsetaframbjóðendurnir eru nú orðnir fleiri en guðspjallamennirnir og lærisveinar Jesú Krists. Nánar til tekið, þeir eru orðnir jafn margir og jólasveinarnir þrettán. Er það tilviljun? Ég er ekki viss. Ólíkt jólasveinunum þekkir þjóðin hér um bil engan þeirra þrettán sem boðið hafa fram krafta sína. Nema kannski Ástþór Magnússon og Þorgrím Þráinsson. Ástþór hefur að vísu leikið jólasvein en ég veit ekki með Þorgrím. Allir finna frambjóðendurnir mikinn meðbyr og allt er þetta eflaust ágætis fólk. Ég óttast bara vandræðalega augnablikið í pallborðsumræðum frambjóðenda þegar frambjóðendur við pallborðið verða fleiri en áhorfendur í sjónvarpssal. Geðveikt vandró.

Nú stefnir allt í að Sigmundur Jesús Davíð Gunnlaugsson Kristur verði krossfestur af Pírötum og öðrum siðapostulum á Golgatahæð nú á föstudaginn langa. Mun Sigmundur þar taka á sig syndir og peningalegar eignir eiginkonu sinnar og allra aflandsfélaga sem fyrirfinnast á hennar nafni og áttu kröfu á gömlu bankana. Kristnifræðingum og stjórnmálafræðingum ber ekki saman um hvernig þessi atburðarrás muni vinda upp á sig né heldur hvernig upprisu Sigmundar verði háttað eða hvenær hún muni eiga sér stað – fari allt eins og horfir. Ég mun mæta í messu í Urðakirkju að kvöldi Skírdags og reyna að komast að hinu sanna í málinu. Svörin eru jú öll í hinni helgu bók.

Á krossi mátti dúsa Jesú Kristur
kvalinn var hann vegna synda manna
karlanginn var hrærður bæði og hristur
og hér sit ég með málshátt milli tanna.

Enginn bauð sig fram til forseta meðan á gerð þessarar bloggfærslu stóð, en þónokkrir hugsuðu málið enda höfðu þeir fundið fyrir miklum meðbyr.

Einar páskaungi.

Tilvitnun dagsins:
Herbert the Pervert: Alright everyone but Chris keep your pants on and lets figure this out.

Orðin gróðvænleg

Hagnaðardrifnu lesendur.

Meðan enn lifir von um skjótfenginn gróða held ég áfram leit minni að honum….já og sannleikanum í hjáverkum. Það er góðæri og ég ætla að vera með. Ég lifi enn í þeirri blekkingu að bloggskrif séu til þess fallin að raka saman seðlum – og framtíðin byggir öll á því. Það er skammt á milli gulls og grænna skóga annars vegar og hugmyndafræðilegs gjaldþrots hins vegar. Á hvorn veginn skyldi þetta fara í mínu tilviki? Ég leitast að sjálfsögðu við að draga fleiri niður í svaðið með mér þegar (ekki ef) þar að kemur að allt fari í þrot og þess vegna heldur þessi farsi áfram í beinni útsendingu.

Það að kaupa hlut í og eiga hlut í fyrirtækjum er ein leið til að komast yfir skjótfenginn gróða. Það allra besta er að komast yfir fyrirtækin fyrir lítinn eða helst engan pening, til dæmis með því að fá þau í afmælisgjöf, í skóinn eða þekkja rétta fólkið og fá umbun fyrir. Svo fara þessi sömu fyrirtæki að skila methagnaði alveg upp úr þurru, jafnvel eftir að hafa skitið upp á bak og verið bjargað fyrir horn af hinu opinbera og almennum skattgreiðendum fyrir örfáum misserum. Þegar þannig háttar er eina ráðið að greiða sér út nógu mikinn arð, því af arðinum skuluð þið þekkja þá. Hverja? Veit ekki. Skítt með þá sem hlupu undir bagga þegar illa gekk, þeir geta bara samglaðst með eigendunum og fagnað þeim merkilega áfanga að eigendurnir skuli virkilega geta borgað sér út svona mikinn arð.

Stundum gengur það ekki upp að fá fyrirtæki á silfurfati, þá getur þurft að taka lán. Lang best er að taka nógu hátt lán með veði í fyrirtækinu sjálfu, með því móti þarftu aldrei að hafa áhyggjur af því að þurfa að endurgreiða lánið – þú þarft heldur ekki að eiga nokkurn skapaðan hlut, nema ef vera skyldi vin sem á góðan penna, þannig að hægt sé að undirrita helstu formsatriði.

Það er líka hægt að sleppa þessu fyrirtækjabrölti og kaupa bara lottómiða. Það er aldrei að vita nema heppnin snúist á sveif með þér. Ég bendi lesendum á að þeir geta nú á eftir lagt inn á mig 5 þús. kall – þá fer nafn þeirra í pott og það verður mögulega dreginn út vinningshafi fyrir páska. Miði er möguleiki……fyrir mig. Endilega takið þátt.

Það er auðvitað gleðiefni að góðærið sé komið aftur og að nú séu það gróðasjónarmiðin sem ráða ríkjum. Hugsunin á auðvitað að vera; hvernig get ég gert minna og grætt meira? Stundum liggur þetta ekki í augum uppi. Í mínu tilfelli gengur þetta þannig fyrir sig að ég blogga minna og sjaldnar en fæ helmingi meira borgað, þar sem ég get einfaldlega hækkað skylduáskriftina hvort sem lesendum og almenningi líkar það betur eða verr.

Forsetaframbjóðendum fjölgar nú stöðugt. Ég veit ekki hvort það séu gróðasjónarmið sem knýja þá hina sömu áfram, eða einhverjar aðrar mis annarlegar kenndir, en ljóst er að baráttan verður hörð. Sumir hafa legið undir felldi og liggja þar jafnvel enn – og það væri kannski best ef þeir lægju þar bara fram yfir kosningar og létu okkur hin í friði. Ég veit svei mér ekki, en ef ég ætti að velja í dag myndi ég frekar taka hana Hillary á Bessastaði heldur en Trumparann.

Þessa dagana er verið að setja á svið í Borgarleikhúsinu gróðærissýninguna Mamma mía – og þar er auðvitað sungið um peninga og aftur peninga. Monní monní. Ást og svo meiri peninga. Sólbrúnt fólk, ást og peninga. Ævintýrið gerist á grískri eyju – sem er viðeigandi þar sem Íslendingar „kaupa“ nú pakkaferðir til suðrænna landa í massavís, fyrir „peninga“. Ekki veitir suðrænum vinum okkar af norrænum „gjaldeyri“ beint í vasann. Þegar uppselt var orðið í allar sólarlandaferðirnar og pakkaferðirnar tóku neysluóðir Íslendingar til við að kaupa upp miða á allar sýningar á Mamma mía og nú þegar er orðið uppselt á allar sýningar fram til októberloka 2019. Kemst Helgi Björnsson söngvari til sólarlanda, nú þegar hann er upptekinn við að syngja um peninga í Mamma mía? Já örugglega, en hann á að vísu bara miða aðra leið. Það er að segja, ef hann verður ekki farinn á Landróvernum sínum frá Mývatni á Kópasker.

Nýverið var konum í Svíþjóð ráðlagt að vera ekki Einar á ferð. Þetta er nokkur skellur fyrir mig persónulega, en ég reyni að vera ekki mikið á ferðinni þessa dagana. Gætið ykkar konur, ekki vera ég á ferð.

Hún kemur til mín aftur, gróðavonin góð
gæli ég við vín og villtar meyjar
hagsældin er hafin, ég feta forna slóð
ferðast þjóð um hlýjar draumaeyjar.

En engu má þó treysta, víst er gengið valt
vesöld tekur við án fyrirvara
aftur kemur nóttin og næturhúmið kalt
niður kúldrast ég og jórtra þara.

Þessi bloggfærsla var skrifuð með veði í bloggfærslunni sjálfri. Ég fékk kúlu á hausinn en tók kúlulán og er þar af leiðandi í ágætis málum.

Einar auðfenginn auður.

Tilvitnun dagsins:
Lt. Frank Drebin: Looks like the cows have come home to roost.

Orðin hlaupársleg

29. lesendur.

Hlaupársdagur er dagur sem aðeins kemur á fjögurra ára fresti. Hann er sem sagt sjaldgæfur – alveg eins og góðar bloggfærslur frá Einari Haf. Hvers vegna er þetta svona? Þá er ég að tala um hlaupársdaginn en ekki bloggfærslurnar. Eigum við að athuga málið?

Heimildum á internetinu ber ekki að fullu saman um hvers vegna í ósköpunum verið er að troða inn á okkur aukadegi fjórða hvert ár. Sumar heimildir telja að þennan dag megi rekja allt aftur til ársins 46 fyrir Krist, þegar Rómverjum datt það snjallræði í hug að endurbæta hjá sér tímatalið. Einmitt, eins og einhver hafi verið að spá í því árið 46 fyrir Krist. Voru menn á þeim tíma ekki frekar uppteknari að því að telja niður þar til Kristur kæmi loksins? Bara 46 ár, ég hlakka svo til! Varla færu þeir að fjölga dögunum og lengja með því biðina? Rökréttara hefði verið hefðu þeir fækkað dögunum til að stytta biðina eftir Kristi. Skrýtið.

Önnur tilgáta um þennan dag er þannig að um mánaðarmótin febrúar/mars árið 1243 hafi komið gríðarmikið hlaup í Svarfaðardalsá í óvenjulegum leysingum sem þá urðu. Hlaup þetta olli ekki miklu tjóni og stóð aðeins yfir í einn dag. Samtímasöguritun var verulega ábótavant á þessum tíma enda voru bændur uppteknir við að skrifa lygasögur af frændum sínum og forfeðrum, svokallaðar Íslendingasögur, og fór allt kálfskinn sem til féll í að hýsa þá skáldsagnaritun. Ekkert pláss var eftir fyrir skrif um atburði líðandi stundar. Þegar frá leið fóru menn að deila um hvort þetta mikla og óvenjulega hlaup hafi orðið í febrúar eða mars mánuði. Til að sætta stríðandi fylkingar og koma í veg fyrir Sturlungaöld (sem varð að vísu ekki umflúin) ákvað þáverandi Hólabiskup að skjóta inn aukadegi og kalla daginn hlaupárdag – sem síðar varð að hlaupársdegi. Þar sem um sjaldgæft hlaup væri að ræða yrði þessi dagur þó aðeins á fjögurra ára fresti. Engin á hefur nokkru sinni hlaupið á þessum degi síðan þessir atburðir urðu, sem er nokkuð kaldhæðnislegt.

Ein söguskýring í viðbót um tildrög þessa dags er sú að höfundi vísunnar um lengd mánuðanna, Ólafi Guðmundssyni frá Sauðanesi, hafi vantað einhvern krassandi botn á vísuna. Hann var kominn með mjög góða byrjun, það er að segja Ap, jún, sept, nóv þrjátíu hver, einn til hinir kjósa sér. Febrúar tvenna fjórtán ber og …… svo komst hann ekki lengra. Ólafur vissi að hann væri með efnivið í höndunum sem myndi rata inn í allar dagbækur sem prentaðar yrðu á Íslandi næstu árþúsundin þannig að mikið var í húfi fjárhagslega að botna vísuna. Ólafur átti valdamikinn frænda sem á þessum árum sá um prentun almannaks Háskóla Íslands. Þannig að nú brá Ólafur á það ráð að tala við frænda sinn og fá hann til að hleypa einum aukadegi inn í almannakið – svokölluðum hlaupársdegi – en hafa daginn bara fjórða hvert ár til að þetta plott yrði minna áberandi. Frændi Ólafs lét til leiðast gegn því að fá 5% af höfundarrétti vísunnar um ókomna tíð. Vísan, með botninum „frekar einn þá hlaupár er“ kom fyrst út í dagbók þjóðvinafélagsins árið 1604 og lifðu þeir frændur í vellystingum alla tíð eftir þá birtingu. Eftir að hlaupársdagurinn hafði verið prentaður inn í almannak Háskóla Íslands í nokkur skipti fór sú trú að verða útbreidd á Íslandi að þessi dagur væri til í alvörunni. Því fór sem fór.

Engin þeirra söguskýringa sem raktar hafa verið hér á undan koma heim og saman við raunveruleikann. Það að þetta sé alþjóðlegt samsæri vísindamanna sem telja sig vita allt um sólarganginn og lengd hans á ársgrundvelli og sjái sig því knúna til að skjóta inn aukadegi á fjögurra ára fresti. Svona þegar málið er skoðað nánar kemur í ljós að þessi skýring er ekkert trúlegri en hinar sem voru taldar upp hér áðan. Þannig að lesendur fá bara að ráða því hvaða skýring er sú rétta.

Lesendaverðlaun bloggsíðu Einars Haf voru haldin hátíðleg í gærkvöldi, 28. febrúar. Um látlausa og fallega athöfn var að ræða þar sem Gunnar Þórir Björnsson var sá eini tilnefndi og hirti raunar öll verðlaun sem í boði voru. Því miður féll þessi uppskeruhátíð nokkuð í skuggann af Edduverðlaununum og Óskarsverðlaununum – þrátt fyrir álíka mikið skemmtanagildi fyrir hinn almenna borgara.

Talandi um skemmtanagildi, þátturinn hjá Gísla Marteini hefur oft verið góður en aldrei þó eins góður og síðasta föstudagskvöld þegar botninn var sleginn í skemmtunina með hugljúfum flutningi Reykjavíkurdætra – sem er svipuð hljómsveit og Borgardætur – á hinu angurværa og melódramatíska lagi Ógeðsleg. Aldrei í manna minnum hefur annar eins herskari kvenna ruðst inn í beina sjónvarpsútsendingu og tekið Gísla – og ekki einu sinni farið fram á lausnargjald.

Aukadagur dúkkar upp
ég dreg fram sparibrosið
eina rímið hér er Rupp
rassgatið er frosið.

Í tilefni dagsins ákvað ég að hlaupa á mig, augljóslega. Lesandi síðunnar er beðinn velvirðingar á því en hann getur þó að minnsta kosti huggað sig við lesendaverðlaunin.

Einar árhlaup.

Tilvitnun dagsins:
Reykjavíkurdætur: SO WHAT? Ég owna þetta ittybittytittycommitty, No pitty!
Oscar Wilde myndi shje´nga mig er svo helvíti witty
Galdrandi ólikum línum á varhugaverðum timum
í no djóki ég er Alfreð Flóki