Orð að jólum komin

Góðir tilheyrendur.

Jú það líður að jólum. Reyndar hefur liðið að jólum alveg síðan síðustu jólum lauk. Nú líður samt virkilega að jólum. Jólaösin nær senn hámarki og jólasveinarnir koma til byggða einn af öðrum. Minn maður Gluggagægir kom í nótt sem leið. Það er minn uppáhalds jólasveinn og við eigum reyndar ýmislegt sameiginlegt….en það er önnur saga. Ég veit að það eru margar margar vikur síðan hinir svokölluðu jólasveinar létu fyrst á sér kræla í mannabyggðum, en með stífri rannsóknarblaðamennsku og uppljóstrunum opinberra rannsóknaraðila tókst auðvitað að sýna fram á hvers lags loddarar og gervijólasveinar væru þar á ferð, drifnir áfram af gróðasjúkum verslunarmönnum. Þrátt fyrir þennan augljósa blekkingarvef hef ég hvergi heyrt minnst á það í fréttum að Neytendastofa hyggist fara fram á að jólasveinamerkingar verði teknar af neytendaumbúðum í ljósi þess að engin stofnun getur vottað það að um alvöru jólasveina sé að ræða. Þarna er einfaldlega verið að blekkja neytendur…en það er greinilega ekki sama hver á í hlut í þeim efnum.

Nú á aðventunni eiga tilhleypingar í fjárhúsum landsmanna sér stað. Jólin þín byrja ekki í IKEA. Þau byrja kannski pínu þegar IKEA geitin brennur en þau byrja fyrir alvöru í fjárhúsunum. Kindakynlífið er komið á fullt skrið með tilheyrandi bægslagangi og fjárdrætti. Nú er svo komið að fjölmargir fjárbændur láta sæða ærnar sínar með verðlaunuðum hrútafyrirsætum og sæðisgjöfum sem lesa má mærðaryrði um í hinni árlegu hrútaskrá. Hvers eiga heimahrútarnir að gjalda? Þeir þurfa að horfa upp á þetta. Hvernig þætti húsbændum það ef eiginkonurnar yrðu sæddar með verðlaunafyrirsætum og sæðisgjöfum sem lesa má mærðaryrði um í hinni árlegu hrútaskrá. Nei bíddu við, þetta er alls ekki raunhæft dæmi. Hvað þá sambærilegt. O jæja. Ég dreg þetta til baka.

Af hverju er ég annars að nefna þetta? Jú var það ekki einmitt í fjárhúsi á Betlehemsvöllum sem Jesúbarnið kom í heiminn? Og það á miðjum fengitímanum. María og Jósep létu kindakynlífið ekkert á sig fá heldur gekk fæðing frelsarans hratt og vel fyrir sig. Kindurnar létu þetta heldur ekkert á sig fá og ég veit ekki betur en að sauðburður í Betlehem vorið eftir hafi gengið samkvæmt áætlun.

Þegar vetrarveðrin geysa í desember verður manni einmitt hugsað til þess hvernig þetta hafi nú allt saman verið þarna í fyrndinni þegar samgöngur voru mun frumstæðari en nú er og fólk þurfti á milli staða í hvaða veðri sem var. María og Jósep gátu til að mynda ekki reitt sig á björgunarsveitir, snjóbíla eða vélsleða þegar þau börðust í vetrarstórhríðinni milli skafla þarna í eyðimörkinni um árið í leit að gistihúsi. Ekki var gönguskónum eða kraftgöllunum fyrir að fara. Hvað þá vegahandbók eða ferðamannabæklingum þar sem helstu gististaðir eru auglýstir. Nei, aldeilis ekki. Þá þurfti fólk að treysta á hyggjuvitið.

Og auðvitað var það þannig að María og Jósep enduðu í fjárhúsinu þar sem þau fengu ekkert herbergi til leigu í gistihúsi þar sem allt var uppbókað. Þar höfðu auðvitað forgang sterkefnaðir ferðamenn frá austurlöndum fjær sem komu í hundruða þúsunda tali í svokallaðar norðurljósaferðir og tepptu öll gistipláss, ferðamannastaði og viðkvæmar náttúruperlur. Það má því vera ljóst að vandi ferðamannaiðnaðarins er ekki nýr af nálinni.

Nú er hann kominn, jólasnjórinn. Sá sem veðurfræðingar og mokstursmenn höfðu beðið eftir með öndina í hálsinum. Einmitt. En hvernig verður veðrið á austurlandi? Ég veit það ekki, ég sá bara veðurfræðingsrass í vindi – og sá er úfinn.

Í dag var stysti dagur ársins. Guði sé lof segja sumir, enda á ég afmæli í dag. Og hvernig þakka ég fyrir þær kveðjur og árnaðaróskir sem mér hafa borist? Einmitt svona.

Hátíð blíð nú kemur brátt
björt er stjarna á himni hátt
skín ei lengur sólin.
Krakkar rjóðir syngja kátt
kaupmenn hlæja í búðum dátt
hvenær koma kakan mín og jólin?

Emm…eitthvað fór nú á milli mála þarna. Drykkjarmála…og allt sullast út um allt.

Þess má til gamans geta að algjör samstaða náðist um það í viðskipta- og efnahagsnefnd Alþingis að forgangsraða í þágu bloggsíðu Einars Haf á kostnað heilbrigðiskerfisins – enda mun ódýrara í framkvæmd. Ofan á allt sparar lestur bloggsíðunnar hundruði þúsunda króna árlega í svefnlyfjakostnað.

Um leið og ég þakka fyrir allar afmæliskveðjurnar óska ég ykkur „öllum“ gleðilegra jóla. Áramótaávarp bloggsíðu Einars Haf er í nefnd – hugsanlega tekst að birta ávarpið opinberlega áður en árið rennur sitt skeið – það verður „spennandi“ að fylgjast með því.

Einar ári eldri.

Tilvitnun dagsins:
Allir: Útsala!

Orðin í húminu

Ljúfu lesendur.

Það er aldeilis notaleg stemmningin hérna hjá okkur í kvöld. Dauf kertaljósin flökta í biksvartri skammdegisnóttinni. Glitrandi jólasería lýsir upp fölnaða birkihríslu í bakgarðinum. Máninn veður í skýjum en glottir þess á milli niður á hrímaða jörðina. Bloggarinn grúfir kengboginn yfir nýjustu afurð sinni og svitinn perlar á efri vörinni. Stemmningin er hætt að vera kósý. Mér er eiginlega ekki orðið um sel. Og selnum er reyndar ekkert vel við mig heldur ef út í það er farið.

Jólin nálgast nú af miklum hraða og stefna til okkar án þess að nokkur fái þar rönd við reist. Jólaverslunin er komin á fullan skrið og allt stefnir í nýtt eyðslumet almennings nú fyrir þessi jól. Það er svo sannarlega blússandi góðæri og uppsveifla og það ætla greinilega margir að taka þátt – enda von á kauphækkunum á næstunni. Stjórnmálamenn sem nýverið fengu 40% launahækkun ráðleggja fólki þó að hafa hemil á sér og að ekki sé hægt að búast við því að laun hækki sem nokkru nemi – ekki viljum við að verðbólgan fari á flug og éti upp allt sem áunnist hefur. Þið vitið alveg hvernig þetta er – þegar gamanið stendur sem hæst er maður sleginn í gólfið og blauta tuskan kemur í smettið á fullri ferð. Ljósið er skærast rétt áður en það slökknar, bátsferðin er skemmtilegust rétt áður en kemur að fossinum, krossfitið er best alveg þar til kemur að lyfjaprófinu og kosningaloforðin eru ánægjuleg alveg þangað til eftir kosningar. Allt er í heiminum hverfult og ég er kominn á villigötur.

Hvað er svo að frétta af hinum meintu stjórnarmyndunarviðræðum? Tja, það eru allir bara alveg sultuslakir og pollrólegir. Flokkarnir fimm sem slitu viðræðum um daginn eru byrjaðir aftur að kynnast hverjum öðrum og leggja drög að tilhugalífinu. Mikið er nú gott að heyra það. Áfram er þó deilt um það hver það verði sem fær að flytja þjóðinni áramótaávarp á Gamlárskvöld í beinni sjónvarpsútsendingu. Það er eina málið sem strandað hefur á hingað til, við fylgjumst spennt með. Og þá meina ég spennt eins og í spennitreyju.

Veðurfræðingar klóra sér í hausnum yfir veðurkortunum þessa dagana. Óvenjulega hlýtt hefur verið í veðri og hafa blóm sums staðar sprungið út nú í svartasta skammdeginu. Fyrir nokkrum dögum streðaði ég við að moka snjó ofan af leiðunum í Urðakirkjugarði svo setja mætti niður ljósakrossa – staðan núna er hins vegar þannig að ég þarf að fara að ræsa garðsláttuvélina á nýjan leik. Hverju er um að kenna? Ég veit það ekki, en ég veit hverjum ég ætla að refsa. Ég ætla að refsa marauðu malbikinu og nagladekkunum mínum, gott ef ég spóla ekki bara næst þegar ég kemst út á þjóðveginn. Þessir naglar spæna sig ekki úr sjálfir….

Fyrsti jólasveinninn, Stekkjastaur, er á leið til byggða þessa stundina. Það er því vissara að vera á varðbergi í fjárhúsunum, enda hefur þessi jólasveinn verið frægur fyrir það í gegnum tíðina að laumast í fjárhúsin og leika á bóndans fé. Jafnvel hefur hann gengið svo langt að sjúga ærnar þrátt fyrir að vera með staurfætur….þetta er verulega dónalegt – en hver veit hvað getur gerst nú á fengitímanum.

Talandi um það, jólin eru greinilega á næstu grösum nú þegar Einar Haf segir frá því opinberlega á bloggsíðu sinni að komið sé að þeirri stóru stundu að hrútarnir fái að vitja um fé sitt. Ójá, þeir eru klárir í að leggja inn í bankann og ávaxta fram í maíbyrjun þegar loks afkvæmin litlu og sætu koma í heiminn og hringrás lífsins heldur áfram sem fyrr. Það er allt til reiðu, jólin koma snemma í ár og hrútarnir líka. Hmm, fyrirgefðu – síðan hvenær varð þessi bloggsíða svona klúr og dónaleg? Síðan bara….ALLTAF!!!

Fjölmargir eru búnir að skrifa á öll jólakort nú þegar. Ef þeir hinir sömu fara að monta sig af því segi ég bara: ekki vera með þetta jólagort! Ég gæti haldið svona áfram í alla nótt. Ekki? 🙁

Yfir kaldan eyðisand og snjó
streðar jólasveinn í vetrarró
óþægur í glugga set ég skó
og hefnist fyrir það með naflaló.

Höfum hugfast að það er ljótt að dæma aðra…..nema auðvitað ef þú ert dómari.

Átti dómarinn hlutdeildarskírteini í sjóði 9 hjá Glitni eða átti Glitnir hlutdeildarskírteini í dómaranum í sjóði 9? Átti sjóður 9 hlutdeildarskírteini dómarans í Glitni eða var það öfugt? Sama hvernig það var þá var dómarinn hæfur. Var hæfur…ekki vanhæfur. Höfum það líka hugfast.

Einar hugfastur.

Tilvitnun dagsins:
Allir: Út af með dómarann!

Orð án stuðla og höfuðstafa

Góðu lesendur.

Já, eflaust eru margir pirraðir núna. Kannski brjálaðir. Sennilega alveg bandsjóðandi hoppandi vitlausir af bræði. Hvers vegna í ósköpunum? Út af stóra eggjamálinu? Stjórnarmynduninni? Donald Trump? Aktíveganistunum? Verðlaginu? Nei, alls ekki. Bara út af því að enn einu sinni ætlar Einar Haf að fara að tjá sig um öll þessi mál. Eins og fólk hafi ekki mátt þola nóg?

Stjórnarmyndunarviðræður standa nú yfir. Óformlega. Ýmsar þreifingar hafa átt sér stað síðustu sólarhringa. Óformlega. Ég hef viðað að mér ýmsum upplýsingum um þetta mál. Óformlega. Enginn er neinu nær og alltaf styttist árið í annan endann. Formlega. Hver ætlar að flytja ávarpið á Gamlárskvöld? Formlega. Ég bíð spenntur. Óformlega.

Stjórnmálamennirnir hugsa sitt ráð
sitjandi gljáfægðum rökstólum á
ef ríkisstjórn mynda þeir ekki í bráð
mun Dabbi Grensás berja þá.

Hmm…eitthvað var þetta nú skrítið. En hvað með íþróttamennina okkar? Eru þeir ekki að gera góða hluti? Efla sál og líkama og styrkja ungmennafélagsandann?

Í krossfit margir keppast um
að komast æðsta stallinn á
en hætti þeir ekki á sterunum
mun Dabbi Grensás lemja þá.

Æi, ekki fór þetta nú vel. Við getum þó glatt okkur við blómlega verslun hér á landi og nú stefnir í að jólaverslunin slái öll met. Það er þó jákvætt. Hvernig var þetta með blökkufössarann?

Versla fýrar tækin flest
föstudögum svörtum á
það var sem mér þótti verst
er Dabbi Grensás kýldi þá.

Já, kannski var þetta nú ekki alveg nógu gott. Ef verslunin klikkar þá höfum við þó að minnsta kosti ferðamennina til að stóla á. Þeir hafa nú aldeilis hlaupið undir bagga með okkur Íslendingum síðan í fjármálahruninu og létt verulega undir öllum efnahag. Við eigum þeim mikið að þakka – og þeir vonandi okkur fyrir góðan viðgjörning.

Ferðamenn um landið flakka
fjöldinn sækir okkur heim
ef fyrir sig þeir ekki þakka
mun Dabbi Grensás stúta þeim.

Já, þetta er sennilega frekar brothættur iðnaður þessi ferðamannaiðnaður. Hvað með hænsnabransann?

Verpa hænur eggjum enn
vistvænt eins og geta má
spældir eru margir menn
mun Dabbi Grensás spæla þá?

Ó nei, þetta var slæmt. Ég ylja mér allavega við það að nú er aðventan gengin í garð og jólin nálgast með öllum sínum kærleik og friði. Vonandi mun jólastressið ekki ná tökum á þjóðinni.

Í IKEA er geitin gamla dauð
úr ausunni var ekki sopið kálið
jólastressið upp úr sauð
og Dabbi Grensás gekk í málið.

Úpps. Mér er nú alveg hætt að lítast á blikuna. Hvað skyldu þeir nú segja við þessu í henni Ameríku? Hvað með ameríska drauminn?

Í Ameríku algjört prump
ógnar landi snauðu,
ef ekki róast Dónald Trump
mun Dabbi Grensás „skila auðu“

Ég skil. Djöfull væri ég til í eina pylsu núna til að gleyma þessum vandræðum öllum. Er það ekki bara sjálfsagt?

Grasbítarnir öskra á
sláturhússins glugga
hlaupi þeir ekki okkur frá
mun Dabbi Grensás við þeim stugga.

Ég skil…það má ekkert lengur.

Mér sýnist alveg sama hvert litið er. Allt er í uppnámi og óvissu og lausnin er alls staðar sú sama. Ofbeldi.

Vísnagerðin nú til dags
víst mun ríða mér á slig
hætti ég þessu ekki strax
mun Dabbi Grensás berja mig.

Hmm…nei ofbeldi leysir engan vanda. Ég ætla að forða mér. Bless.

Af gefnu tilefni er rétt að taka það fram að ég get unnið á breiðum grundvelli þvert á pólitískar línur. Ég hef sterkt bakland og er með breiða skírskotun en ég vil auðvitað reyna að auka samtalið við þjóðina og ná fram þjóðarsátt í fjölmörgum málum með beinu lýðræði, þingræðislegri umræðu og láréttu grasrótarstarfi.

Einar á flótta….undan sannleikanum.

Tilvitnun dagsins:
Allir: ÉG ER BRJÁLAÐUR….EÐA BRJÁLUÐ.

Orðin brunarústir Einar

Sótugu lesendur.

Það þarf kannski ekkert að fjölyrða um hvað það var sem var „kveikjan“ að þessari bloggfærslu. Þeir sem fylgst hafa með þjóðmálaumræðu liðinna daga ættu að vita það mæta vel. Stjórnarmyndunarviðræðurnar? Nei ekki alveg. Hótanir og mótmæli grunnskólakennara? Nei aldeilis ekki. Donald Trump þá? Nei það er nú bara tittlingaskítur. Ég er auðvitað að tala um jólageit IKEA. Eða það sem eftir er af henni.

Aðdragandi þessa máls er býsna langur. Hvernig gat svo sem annað verið, geitin var komin upp seinni partinn í október ásamt öllu hinu IKEA jólaskrautinu. Ekki misskilja mig, fjöldi fólks hefur í gegnum tíðina yljað sér við þessa geit – mis bókstaflega. Hálmgeitin, holdgervingur snemmkominna jóla og græðgishyggju nútímans, hefur lengi verið þyrn í augum ýmissa, af ýmsum ástæðum. Ég nefni engin nöfn, en vissulega hafði ég ýjað að því fyrr í þessum mánuði að jólin þín byrjuðu ekki í IKEA heldur þegar kviknað hefði í IKEA geitinni. Þar var ég einungis að vísa til þeirrar staðreyndar að undanfarin ár hefur verið kveikt í geitinni með tilþrifum – og þegar enginn hefur viljað kveikja í henni þá hefur hún kveikt í sér sjálf. Það er alls ekkert grunsamlegt við það, nei nei. Það er eins og þetta liggi í loftinu á hverju einasta ári.

Á dögunum reyndu einhverjir viðvaningar að kveikja í geitinni, en kveiktu næstum í sjálfum sér fyrir vikið. Það þurfti því að bæta um betur og það tókst síðastliðinn mánudagsmorgun. Þegar fréttirnar bárust um heimsbyggðina ráku einhverjir augun í það að ég hafði skroppið til Reykjavíkur þá um morguninn – og augljóslega lá ég undir sterkum grun í ljósi fyrri ummæla um ágæti þessa risastóra októberjólaskrauts. Planið var nokkuð skothelt. Ég átti flugmiða við annan mann þá um morguninn, en í stað þess að fara sjálfir gætum við sent staðgengla í flugið og keyrt á bílaleigubíl suður þá um nóttina. Þar með væri komin fjarvistarsönnun og ekki hægt að bendla mig við brunann. Var þetta þá það sem gerðist? Það mun aldrei neinn vita nema ég, samferðamaður minn og svo öryggisvörðurinn í IKEA. En planið gæti allavega gengið upp. Og hver veit hvað getur gerst þegar það er ofurmáni. Ofurmánadagur var einmitt á mánudaginn, ofurmánudaginn. Eða eitthvað svoleiðis.

En hvers vegna er þessi geit svona mikið stórmál? Jú, hún er tákngervingur hins illa sænska verslunarveldis sem heilaþvegið hefur íslenska þjóð um árabil. Það þarf enginn að versla í IKEA frekar en einhvers staðar annarsstaðar. Samt er það svo að fólk hópast hundruðum þúsunda saman í þetta völundarhús eldhúsinnréttinga og kommóðuskápa og unnir sér ekki hvíldar fyrr en búið er að versla eitthvað sem ekki var endilega þörf á að kaupa. Það er samt ekki endilega gott að kveikt sé í geitinni, það þýðir bara ókeypis auglýsingu fyrir IKEA og brunaútsöluna sem þar er…allavega meðan á brunanum stendur.

Ég komst aftur til míns heima frá Reykjavík þrátt fyrir gífurlega stranga öryggisgæslu. Það gekk að vísu ekki þrautalaust, síðasta flugi þriðjudagsins var aflýst – vegna veðurs sögðu þeir en ég veit betur. Flugvélin var sennilega kyrrsett svo að lögreglumennirnir sem voru á flugvellinum gætu leitað sönnunargagna. Eftir að hafa farið huldu höfði og sett upp gervinef og gerviskegg komst ég gegnum öryggisgæsluna á flugvellinum morguninn eftir og gat flogið heim á ný. Vonandi verða eftirmálar ferðarinnar ekki svæsnari en þetta, nóg er það nú samt.

Ég held svei mér þá að það sé ekkert annað merkilegt að frétta. Einhver er að tala um stjórnarkreppu á Íslandi – en við hljótum að vera í góðum málum meðan Sigga Beinteins og Grétar Örvars nenna að halda spilamennskunni áfram. Það er varla stjórnarkreppa á meðan. Einar, í alvöru? Hjálpi mér allir heilagir…..

Hneyksli vikunnar hlýtur að vera þetta hérna. Íslendingar hljóta að taka málstað sinnar konu í þessu máli – rétt eins og um daginn þegar þjóðin sameinaðist um að styðja feitu fegurðardrottninguna í baráttu sinni gegn vondu fegurðarsamkeppnishöldurunum. Ef íslensk þjóð heldur áfram að standa saman í erfiðum málum komumst við gegnum ólgusjóinn í sameiningu.

Komdu unga ástin mín
drífðu þig á fætur
IKEA geymir gullin þín,
kommóður og húsgögn fín.
Við megum ekki versla um miðjar nætur.

Það er margt sem myrkrið veit
minn er hugur hlessa.
Oft ég tækifæri leit,
til að brenna jólageit.
að morgni stóð eftir biksvört kolaklessa.

Þess má til gamans geta að stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar Framtíðar runnu út í sandinn vegna ágreinings um hvort veita ætti IKEA ríkisábyrgð eða ekki til að standa straum af kostnaðinum við að reisa nýja geit fyrir jól.

Einar útbrunninn.

Tilvitnun dagsins
Allir: Kolgeit? Watergeit? Gareth Southgeit? Nei, jólageit.

Orðin ögn meira pirruð en síðast

Kærkomnu lesendur.

Skilgreiningin á því að eitthvað falli í grýttan jarðveg? Jú, það er þegar Einar Haf skrifar bloggfærslu og birtir opinberlega og það sem gerist svo í beinu framhaldi. Vitið þið bara til. Það mun án efa gerast núna líka. Hefði þessi inngangur ekki mátt vera aðeins lengri? Æi ég veit það ekki.

Nú hefur það komið upp úr kafinu, dúrnum og kjörkössunum að Donald Trump er næsti forseti Bandaríkjanna. Eftirnafn hans rímar við prump – og eflaust er það ekki af ástæðulausu. Ég ætla ekki að tjá mig neitt frekar um það hvort Donald sé hrokafull karlremba sem hlakkar til þess eins að komast í kjarnorkuvopnabúrið…eður ei. Það eina sem ég veit er að maðurinn er ekki bara með appelsínuhúð heldur er hann bókstaflega appelsínugulur á litinn. Svo hefur hann gaman af að horfa á og dæma konur (ekki feitar konur samt) og grípa í …… spil.

Nú er 10. nóvember og enn töluvert langt til jóla. Jólalandið í Blómaval í Skútuvogi er samt búið að vera opið í fjórar helgar nú um komandi helgi. Og þá verða ennþá fimm helgar fram að jólum. Auðvitað lá þessi ósköpin öll á að opna Jólalandið. Eftirspurnin var örugglega gríðarleg. Það virðist þó engu skipta fyrir öll jólafólin og skreytingavitleysingana sem eru komnir á kreik nú þegar og keppast við að útþynna hátíðleika jólanna með því að stilla upp glingri og setja seríurnar í samband strax. Eins og þegar ég í ógáti rak nefið inn á Glerártorg í dag og gekk þar nánast í flasið á fullskreyttu jólatré…i. Svei því öllu saman. Það má ekki bíða með þetta í allavega hálfan mánuð í viðbót? Neeiii, auðvitað ekki. Meira að segja mjólkurfernurnar og kókið er komið með áprentaða jólasveina á sig. Þið vitið, sömu jólasveina og byrja að koma til byggða eftir rúman mánuð. Það lá nú aldeilis á að koma þeim á mjólkurfernurnar. Froðuheilar.

Enn hefur ekki tekist að mynda ríkisstjórn hér á landi þrátt fyrir alls kyns samræður manna og kvenna á milli. Vantar myndavél? Til að mynda þarf myndavél til að mynda stjórn. Nja….veit ekki. Kannski er þetta meira þannig að þessi vill ekki vinna með hinum af því að hann er leiðinlegur, þau þarna eru of mikið púkó til að við getum unnið með þeim, þessi er frekur og hinn er vitleysingur. Einhver myndi kalla þetta krísu en ég kýs að kalla þetta „að kanna baklandið“. Ég hef oft reynt að kanna baklandið, bæði mitt og annarra, en lítið orðið ágengt. Þess má til gamans geta að ég get unnið á víðum grundvelli þvert á pólítískar línur og hef afar breiða skírskotun.

En hvað með vinnumarkaðinn? Nú eru allir grunnskólakennarar brjálaðir út af kjararáði. Eða kjaraóráði? Og sjómenn farnir í verkfall. Þingmenn eru margir hverjir brjálaðir út af óumbeðinni launahækkun kjararáðs. Tala nú ekki um forsetann. Og hvað er kjararáð með í laun? Hver ákveður laun kjararáðs? Er kjararáð á prósentum? Er fullt starf að vera í kjararáði? Skiptir engu. Ótengt þessu má nefna að líkjararáð hefur valið Drambuie líkjör besta líkjör ársins 2016.

Óþefur liggur í loftinu
líkar mér ei þetta prump
gæsin er gripin á fluginu
grípur í konurnar Trump.

Kaninn í mylsnu er klofinn
kaus hann svo yfir sig klump
Í vestri er draumurinn dofinn
grípur í dömurnar Trump.

Erfið er staðan og snúin
því forsetinn minnir á strump
bráðum er dásemdin búin
brátt nálgast klofið hann Trump.

Það er rétt að ítreka það sem fram kom í síðustu bloggfærslu að jólin þín byrja ekki í IKEA, þau byrja þegar kviknar í jólageitinni fyrir utan IKEA. Það er ekki nóg að reyna að kveikja í geitinni, hún þarf að brenna til kaldra kola. Koma svo, næst heppnast þetta.

Einar harðskreyttur….eða harðskeyttur.

Tilvitnun dagsins:
Allir: Trump?

Orðin byrjuð að verða oggópínu pirruð

Tæpu lesendur.

Líður nú senn að kosningum. Af þeim sökum hafa málfrelsi mínu verið settar afar þröngar skorður undanfarið – enda þarf þessi vefsíða eins og aðrir ábyrgir fjölmiðlar að beygja sig undir jafnræðisreglu og gæta þarf hlutleysis í hvítvetna þegar kemur að opinberri umræðu í aðdraganda kosninga. Sagði enginn. Aldrei. Sjóðheitt slúður, rógburður um menn og málefni, svikabrigsl og samsæriskenningar hér rétt handan við hornið – auk glórulauss pólitísks áróðurs…..en fyrst auglýsingar.

Kjósendur athugið – hin margrómaða og sívinsæla loforðasúpa er nú loksins fáanleg aftur. Tilbúin á örfáum mínútum. Ekki samt sjóða hana of mikið, þá hleypur allt í kekki. Knorr, kemur með pólitíska bragðið.

Talandi um auglýsingar. Nú er auglýst að jólamandarínurnar séu komnar í búðir. Þetta er ekki rétt. Það er 28. október, þetta eru mandarínur – ekki jólamandarínur. Það er líka komið svokallað jólaöl í búðir. Þetta er afar villandi. Það er 28. október, þetta er öl í vitlausum umbúðum – ekki jólaöl. Ónafngreindar búðir auglýsa: skreytum fyrir jólin. Það er um að gera. Eftir svona mánuð kannski. Í dag er 28. október og ég finn hvernig háræðarnar eru farnar að tútna út og ég er byrjaður að vera pínu brjálaður út af ástandinu.

Nokkrir jólasveinar eru nú þegar komnir til byggða, tæpum tveimur mánuðum fyrir jól. Ástæðan er ekki bara græðgi kaupmanna heldur líka alþingiskosningarnar sem eru á morgun. Bæði þurfa jólasveinarnir að kjósa eins og aðrir og eins skipa nokkrir þeirra sæti á framboðslistum – sumir jafnvel mjög ofarlega.

Hneyksli vikunnar: Hin ameríska hrekkjavaka, halló vín, virðist vera að ryðja sér til rúms….eins og ástandið hafi ekki verið nógu hryllilegt fyrir. Líkt og ég hef áður sagt mega kaupmenn troða þessu Halloweeni beinustu leið upp í Hrekkjavökuna á sér – og einbeita sér að því í staðinn að efla hinn íslenzka Öskudag. Annars kvíði ég þeim degi þegar jólasveinarnir verða farnir að auglýsa grasker til sölu í Kostkó um miðjan október – en það virðist vera þróunin haldi fram sem horfir. Það er líklega það sem þið viljið, fíflin ykkar.

Stjórnmálamenn og frambjóðendur lofa öllu fögru nú fyrir kosningar. Bætt heilbrigðiskerfi, betra menntakerfi, bætt kjör aldraðra og öryrkja, meiri umhverfisvernd, meiri jöfnuð og minna sukk. Enginn flokkanna hefur hins vegar sett það á oddinn að banna gengdarlausa markaðssetningu jólanna í október. Forgangsröðunin í þessu þjóðfélagi er algjörlega galin.

Jólalandið í Blómavali er kjörinn staður fyrir börnin þessa helgina þar sem það verður boðið upp á ókeypis ís á laugardaginn. Einhverjir voru orðnir smeykir um að jólalandið myndi bara alls ekki opna þetta árið en það opnaði reyndar um síðustu helgi. Fyrsta vetrardag. Einmitt. Ég held það dugi ekkert minna en lagasetning á þessa vitleysu. Já og meðan ég man, þessi pistill er enn í fullu gildi – þetta verður því miður bara enn fyrr á ferðinni í ár ef að líkum lætur 🙁

Góðærið er svo sannarlega komið aftur. En er það komið til að vera? Ég treysti því ekki. Svona til að tryggja að ég fengi minn skerf er ég búinn að fara í tvær utanlandsferðir á þessu ári (sturluð staðreynd!), ég er búinn að skreppa til Parísar og Lissabon og vera samtals í 5 daga (önnur sturluð staðreynd). Og ég verslaði ekkert í H&M. Ég læt þessa erlendu kaupmenn sko ekkert plata mig, frekar kaupi ég fatalufsurnar á mig dýrum dómum hér á landi (að vísu erlend föt yfirleitt) og læt ekki bjóða mér neitt annað.

Fjöldinn faldar alda öld
galdra gjöldin gjalda
Völdin valdar tjalda tjöld
kaldra kvöldin kvalda.

Jólin þín byrja ekki í IKEA, þau byrja þegar kviknar í jólageitinni utan við IKEA.

Einar auður og ógildur.

Tilvitnun dagsins:
Allir: Kjóstu mig, annars………

Orðin á skjálftavaktinni

Góðir lesendur.

Maðurinn sem reiðir ekki vitið í þverpokum. Maðurinn sem bindur bagga sína ekki sömu hnútum og aðrir. Maðurinn sem gengur ekki heill til skógar. Maðurinn sem teflir iðulega á tvær hættur. Maðurinn sem kastar allri skynsemi fyrir róða. Maðurinn sem lætur aðra finna til tevatnsins. Maðurinn sem veit hvar Davíð keypti ölið. Maðurinn sem allar dauðar lýs detta úr höfðinu á. Maðurinn sem flýtur sofandi að feigðarósi. Maðurinn sem ætti sennilega ekki að fá að halda úti bloggsíðu. Já, þið eruð kannski farin að átta ykkur á þessu.

Það getur verið afar hvimleitt að fá sínu ekki framgengt. Þetta veit ég mætavel – ég fékk því til dæmis ekki framgengt að fá aðstoðarmann til að sjá um að skrifa fyrir mig bloggfærslurnar þegar ég nennti því ekki. Því fór sem fór fyrir þessari síðu. Ég hef ekki þorað að sækja endurnýjað umboð lesenda til að halda áfram með þessa bloggsíðu – því ég veit alveg hvernig það myndi enda.

Það er vægt til orða tekið að segja að væst hafi um ákveðna stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka undanfarið. Díses væst. Fréttamenn kjamsa á hverju málinu á fætur öðru, enda stendur til að halda alþingiskosningar í lok mánaðarins. Kjamsi kjamsi kjams. Átök í stjórnmálaflokkum fyrir opnum tjöldum eru eins og tertuhlaðborð fyrir ljósvakamiðla – og það er nóg til handa öllum. SDG vs. SIJ hefur verið fyrsta frétt nú um langt skeið; báðir þeir aðilar kannast eflaust vel við tertuhlaðborð. Af hverju segi ég það? Engin ástæða. Já en hvar á þessi feiti að vera? Í formannssætinu kannski? Veit ekki.

Vonandi tekst duglegu alþingismönnunum okkar að afgreiða öll stóru og mikilvægu málin núna fyrir kosningarnar. Hvaða stóru og mikilvægu mál? Nú málin sem er alltaf verið að tala um á þinginu? Hvaða mál eru það eiginlega? Jú það eru annars vegar starfsáætlun Alþingis og hins vegar fundarstjórn forseta. Vonandi tekst að afgreiða þessi mál nú í vikunni til hagsbóta fyrir almenning í landinu. Ég bíð.

Umtalsverðrar skjálftavirkni hefur orðið vart á mælum Veðurstofu Íslands undanfarna daga. Í fyrstu var talið að skjálftavirknin ætti upptök sín nálægt Kötlu en sérfræðingar hallast nú einna helst að því að um afar öflugan kosningaskjálfta hafi verið að ræða – og við munum víst enn eiga eftir að súpa seyðið af eftirköstunum.

Nú fögnum við átta ára afmæli hinna fleygu orða Geirs Haarde „Guð blessi Ísland“. Í sögubókum framtíðarinnar…eða öllu heldur þegar komandi kynslóðir gúggla þetta þá komast þær að raun um hvers konar vofeiflegir atburðir áttu sér stað í kringum þetta sjónvarpsávarp þáverandi forsætisráðherra. Fjármálakerfið bara spilaborgin ein og búið að hafa landsmenn, já og heiminn allan, að fíflum. Guði sé lof að svona er þetta ekki í dag – allt slétt og fellt og uppi á borðum nú þegar búið er að gera upp hrunið. Emmm….já, segjum það allavega.

Það er merkilegt með svokallaðar raunveruleikastjörnur, þegar raunveruleg vandamál steðja að þá trúir þeim enginn. Talandi um hana Kim okkar Kardashian Íslandsvin með meiru. Raunveruleikastjarnan knáa var rænd á hótelherbergi í París, bundin og kefluð og skilin eftir mörgum skartgripunum fátækari. Fólk er ekki fullt vorkunnsemi vegna þessa, öðru nær. Mörgu fólki virðist þvert á móti bara standa á sama og talar um að þetta hafi verið sviðsett og plat hjá Kim til að fá meiri athygli. Ég leyfi mér að efast, þetta fólk er nú ekki vant öðru en að vera jarðbundið, leysa úr sínum málum án þess að það krefjist mikillar athygli og koma til dyranna eins og það er klætt. Ef það er þá klætt yfir höfuð.

Frammar, Sjallar, Píratar
Þjóðfylking, Dögun og Kratar
Alþýðufylking, Húmanistar
Samfó, Björt Framtíð, VG-atar
Flokkur fólks, Viðreisn, hver platar?

Nei, ég held það gangi aldrei upp að vera með svona pólitískar vísur – þetta eru einfaldlega alltof mörg framboð til þess að þetta geti gengið upp.

Brátt skal kjósa um kosti óljósa
ei ég hrósa stöðunni.
Mun Katla gjósa og sverta ósa?
japlar Rósa á töðunni?

Tjah..pólitískar vísur eða ekki. Þetta verður sennilega aldrei upp á marga fiska.

Þess má til gamans geta að þessi bloggfærsla var rituð án þess að nokkur starfsáætlun þar að lútandi lægi fyrir. Það útskýrir allt þetta málþóf.

Einar yfir marklínuna…….eða ekki.

Tilvitnun dagsins:
Allir: Kjóstu mig!

Orðin steindauð…….. og þó

Lesendur?

Fjölmargir hafa komið að máli við mig undanfarnar vikur og þakkað mér fyrir að hafa loksins hætt. Steinhætt. Fólk hefur varpað öndinni léttar þetta haustið og var fyrir lifandi löngu kominn tími til. Þessu sama fólki gef ég nú langt nef, því eftir afar flóknum krókaleiðum hefur nú tekist að vekja upp frá dauðum skrímsladeild bloggsíðu Einars Haf – þannig að allt það fúlasta og óferskasta er að nýju komið upp á yfirborðið. Þið hélduð að inngangarnir hefðu verið slæmir í eina tíð, bíðið bara!

Varðandi þetta langa nef sem ég var að gefa, er þetta ekki örugglega skattfrjálst? Þarf nokkuð að borga nefskatt af þessu?

September hefur einkennst af göngum og réttum. Þið vitið, labbi labbi labb og mememe. Síðan þegar heim var komið tók við trallala og glöggglöggglögg. Svo var réttarball á Höfða og þar var tvít tvít flottur jakki og gaman saman. Ég veit ekki hvort ég á nokkuð að vera að fara nánar ofan í saumana á öllu þessu. Allt er þetta partur af hinni stóru og stöðugu hringrás sem innifelur fengitíð, sauðburð, göngur, sláturtíð og húskarlahangikjöt. Sauðfjárbændur hafa auðvitað ekkert upp úr krafsinu nema ánægjuna en aðalmálið er auðvitað að verslunin komist þokkalega frá þessu rugli. Eru ekki danskir aukaefnasprautaðir kjúklingar frá Tælandi örugglega á niðursettu verði núna? Nammi namm.

Samkvæmt umræðuþætti Ríkissjónvarpsins sem sýndur var í þráðbeinni línulegri útsendingu núna rétt áðan þá ætla heilir tólf flokkar að bjóða fram í þingkosningunum sem á að halda 29. október næstkomandi. Iss piss. Bara tólf? Þetta er ekkert úrval. Helstu mistökin sem gerð voru nú síðsumars, eins og réttilega hefur verið bent á, voru þau að gefa það út opinberlega hvenær kosningarnar ættu að fara fram – það gerði öllu þessu liði kleift að skipuleggja sig og smala saman fólki á framboðslista. Tólf framboðslistar og hvað er það stór hluti þjóðarinnar? Hver á að borga fyrir þetta allt saman? Er það ekki örugglega ég. Vonandi.

Þar sem það eru kosningar í farvatninu hefur urmull prófkjöra farið fram undanfarið. Þeim sem hefur fundist of mikið kellingaraus á Alþingi á þessu kjörtímabili ætti að vera skemmt, enda hafa konur átt afar erfitt uppdráttar í þeim prófkjörum sem farið hafa fram. Ég er auðvitað mikið upp á kvenhöndina og harma þessa stöðu sem upp er komin. Ef ég ætti framboðslista myndi ég fylla hann af kvenmönnum. Hvað með transfólkið? Jújú, auðvitað er það með í baráttunni líka. Þið vitið hvað máltækið segir. Konur eru menn. Þar af leiðandi eru menn líka konur. Nema hvort tveggja sé.

Nú er komin í kvikmyndahús myndin Eiðurinn. Um hvað fjallar hún, klám, ofbeldi, eiturlyf og óráðsíu? Nei, hún fjallar um Eið Guðnason og allar stafsetningarvillurnar og ambögurnar sem hann hefur leiðrétt í gegnum tíðina. Einn maður, eitt markmið, haugur af málfarsvillum.

Bloggið liðast langt og mjótt
gegnum leiðslur netsins
einn í keng með slæma sótt
svitna af angan fretsins.

Kjósendur athugið, vorum að taka upp fullt af nýjum kosningaloforðum en eigum einnig lítið notuð eldri loforð í úrvali. Bjóðum upp á fjárlagaramma í mörgum stærðum, allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Verðið skiptir ekki máli, það er til fullt af peningum. Atkvæðaveiðar ehf.

Einar enn á meðal vor.

Tilvitnun dagsins
Allir: Jess, hann er hættur að blogga. Eða…………NEIIIIIIIII!!!!!!!!

Orðin á margra vikna fresti

Sjaldséðu lesendur.

Nú þegar Einar Haf er loksins endanlega og í síðasta sinn hættur að blogga er óhætt að líta yfir farinn veg og minnast þess með hryllingi þegar málþóf hans var og hét – og hvernig þófið angraði lesendur daginn út og daginn inn. Sem betur fer eru þeir dagar nú liðnir.

Einari Haf var gjarnan tíðrætt um störf Alþingis í bloggfærslum sínum. Það kann að hljóma afkáralega enda hefur fólk almennt engan áhuga á því sem er að gerast á Alþingi. Þetta færir enn frekari sönnur á það að Einar Haf var ekki að blogga til að gleðja lesendur heldur til að svala einhverri annarlegri fíkn sem hrjáði hann. Þingheimur kom einmitt saman að nýju í gær eftir sumarleyfi og nú leikur allt í lyndi á ný – enginn er fúll og engin mál eru til að rífast og skammast út af. Allir þingmennirnir í skóginum eiga að vera vinir, samkvæmt því sem fram kemur í þingskaparlögum og lögum úr sýningunni Dýrin í Hásaskógi. Hásaskógi, af því allir höfðu talað sig hása. Þið skiljið. Ekki.

Einar Haf ritaði stundum um landsins gagn og nauðsynjar í bloggfærslum sínum, eins ótrúlega og það kann að hljóma. Sveitastörf voru honum ofarlega í huga og raunar var hvers konar skepnuskapur honum að skapi – en ekki lesendum auðvitað. Aumingja Einar, gott að hann hefur bundið enda á þessar þjáningar.

Einar Haf átti það nú til að vera lúmskur. Oft gat hann skrifað heilu efnisgreinarnar um það eitt að hann væri að skrifa langan texta um ekki neitt sem þó tæki heila efnisgrein. Ég tala nú ekki um þegar hann var farinn að lýsa því í löngu máli hvernig hann fór að því að skrifa langan texta um ekki neitt og tók undir það heilu efnisgreinarnar. Eins gott að þessir tímar séu liðnir.

Einar Haf velti stundum upp hinum ýmsu hneykslismálum sem voru til umræðu í þjóðfélaginu á hverjum tíma, en ef honum tókst ekki að finna nein hneykslismál þá bjó hann þau bara til sjálfur. Það var auðvitað hneyksli í sjálfu sér. Einar Haf gat býsnast yfir hinum ótrúlegustu hlutum, sérstaklega blöskraði honum þó þegar jólaskrautið og jólaundirbúningurinn fóru á fullt í byrjun nóvember. Guði sé lof að þessi forheimski fýlupoki sé búinn að pakka saman og hættur að angra almenna lesendur.

Það er reyndar eitt sem ég er farinn að velta fyrir mér núna og þið kannski líka. Er Einar Haf ekki örugglega hættur að blogga? Ég meina, hann hætti í júlí var það ekki? Er kannski eitthvað bogið við þetta? Hvernig vitum við að hann sé hættur. Með því auðvitað að fara á bloggsíðuna hans og skoða hvenær síðasta færsla var birt. Hún var birt bara núna rétt áðan. Það þýðir þá að ………… Ó NEI!!!!

Sólin baðar stokk og stein
strá ég jórtra á hlaðinu
Sigurlín er orðin ein
Aðalsteinn drukknaði í baðinu.

Hneyksli vikunnar er auðvitað sú staðreynd að Umf. Þorsteinn Svörfuður er ekki talinn upp á þessum lista. Það gengur bara betur næst.

Einar hættur við að hætta við að hætta við að hætta við að koma til baka eftir að hafa hætt.

Tilvitnun dagsins:
Allir: Æi góði besti, hættu þessu!

Orðin afar misskilin

Misskildu lesendur.

Ó nei, ég trúi þessu ekki. Hann heldur bara áfram og áfram og áfram. Hversu úrelt sem þetta tjáningarform telst vera þá virðist það ekki stoppa Einar Haf í því að verða sér að atlægi reglulega fyrir allra augum.

Ég hef ákveðið að koma ekki fram á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Nú? Vegna þess að þú ert mótfallinn því að ósamræmi sé í vinnubrögðum lögregluyfirvalda í landinu þegar kemur að upplýsingagjöf um meint kynferðisafbrotamál? Nei, bara vegna þess að mér var ekki boðið að koma fram á þjóðhátíðinni.

Ótal margar fréttir undanfarna daga hafa leitt mann að þeirri niðurstöðu að nú sé allt á leið lóðbeint til andskotans. Kornið sem fyllti mælinn kom svo þegar þessi frétt birtist. Hvar endar þetta eiginlega? Ég er alltaf að verða meira og meira efins um að Ólafur Ragnar sé að gera hið rétta með því að hætta sem forseti nú þegar óvissan í þjóðfélaginu er þrúgandi sem aldrei fyrr. Gangi þér vel Guðni minn.

Sigmundur Davíð er mættur aftur, ferskari en nokkru sinni fyrr. Og hann spyr. Hvenær verða svo þessar þingkosningar? Sem allir voru brjálaðir út af fyrr á árinu? Allt gleymt og grafið. Svo eru allir löngu búnir að gleyma Wintris, er það ekki? Og arðgreiðslu tryggingafélaganna? Kjararáð? Nautabökurnar í Borgarnesi? Iðnaðarsaltið? Jú, steingleymt og grafið – hver einn og einasti skandall. Tær snilld.

Stundum er talað um að hafa allt uppi á borðum. Þetta borð hlýtur því að vera ansi stórt. Annað var það ekki.

Nú um liðna helgi fékk ég símtal þar sem ég var beðinn um að vera sadisti í bíómynd. Ég tók þeirri óvenjulegu beiðni auðvitað vel – lesendur þessarar síðu ættu að geta tengt við einhvers konar sadistatilburði af minni hálfu þegar horft er til baka yfir allar gömlu svínslegu bloggfærslurnar sem birtar hafa verið. Þetta var reyndar einhver misskilningur, því beiðnin fólst í því að vera statisti í bíómyndinni Svanurinn, sem tekin er upp hér í Svarfaðardal um þessar mundir. Gott og vel, ég brást skjótt við og eyddi stærstum hluta laugardags og sunnudags við Tungurétt í Svarfaðardal þar sem upptökur fóru fram. Ég er vitaskuld bundinn trúnaði um það sem þarna fór fram en get þó sagt að ég stóð kjurr, labbaði fram og til baka og var ýmist maður með kaffi eða maður með öl. Nokkurt magn pilsners var haft um hönd. Og ímyndunarfyllerí getur leitt til ímyndaðra timburmanna. Það er annað mál.

Svo er það verslunarmannahelgin. Allar hátíðirnar, allar bjórdósirnar, allir timburmennirnir, allar ákærurnar og allir virkir í athugasemdum. Allir verslast upp. Ég get ekki beðið. Þjórhátíð í Pestmannaeyjum, Inníkúkinn í Reykjavík, ölskylduskemmtun í Búsdýragarðinum og Æludagar í Hörgársveit eru bara brot af því sem verður í boði – og raunar bara brot af útúrsnúningum mínum á nöfnum útihátíða gegnum tíðina – þetta er jú alltaf það sama ár eftir ár eftir ár. Mun ég skemmta mér fallega? Tja….

Lífið leikið getur grátt
gamlar drykkjubullur
ég á orðið býsna bágt
pilsner þamba gervifullur.

Þess má til gamans geta að engar hljómsveitir misskildu innihald þessarar bloggfærslu – og munu þær þar af leiðandi allar koma fram um næstu helgi.

Einar krossfittaður.

Tilvitnun dagsins:
Allir: Pókémon!