Orð á krossinum

Sviknu lesendur.

Þessum langa degi getur varla lokið nema Einar Haf, samnefnari kristilegra kennimynda, leggi orð í belg og tjái sig að beiðni Þjóðkirkjunnar um trúarleg og andleg málefni sem brenna á hinu kristna samfélagi okkar. Þessu hafa ekki margir beðið eftir – en mér er auðvitað alveg drullusama.

Það vita það kannski ekki margir en páskafrí var ekki fundið upp svo fólk gæti klætt sig í fokdýr utanyfirföt, brunað á jeppunum sínum þvers og kruss um landið og skroppið á skíði eða í sumarbústað. Nei. Páskafríið var heldur ekki fundið upp svo að ca. helmingur landsmanna gæti skroppið rétt sem snöggvast til útlanda. Nei. Páskafríið er auðvitað kirkjunni að þakka. Og fær hún einhverjar þakkir fyrir það? Nei. Á páskum minnumst við þess þegar síðasta kvöldmáltíðin var snædd, þegar Jesús laugaði fætur lærisveina sinna, þegar Júdas sveik Jesús og hann var krossfestur og þegar Jesús á þriðja degi reis upp frá dauðum og steig upp til himna. Man einhver eftir þessu? Nei, enda býsna langt síðan þetta gerðist. Þetta er hins vegar rifjað upp á hverju ári og ekki veitir af. Nú síðast var þetta rifjað upp í messu í Urðakirkju að kveldi Skírdags. Þeir sem mættu þangað og svo inn í kaffi á eftir urðu margs vísari…en hinir ekki. Heiðingjar. Hvað var annars með kaffinu? Nú auðvitað fimm brauð, tveir fiskar, oflátur, páskaegg og nokkrir Júdasarkossar.

Nú ræða þingmenn um það í fullri alvöru að afnema þurfi hinn svokallaða helgidagafrið – þeir vilja nefnilega endilega spila bingó og fara á diskótek á föstudaginn langa. Það er einmitt það sem við þurfum – að afnema friðinn. Finnst fólki í alvörunni vont að hafa frið í örfáa daga? Svei þessu öllu saman. Það veit ég að sannkristnir guðhræddir forfeður mínir hefðu tekið þetta óþekka hyski og rasskellt það.

Þjóðarleikhúsið setti nú nýverið upp helgileikinn Jesus Christ Superstar að erlendri fyrirmynd. Óþarfi er að fara í löngu máli yfir söguþráð og annað slíkt en þó má segja frá því að í þessari uppsetningu er Júdas leikinn af Ólafi Ólafssyni, hinir lærisveinarnir eru leiknir af meðlimum úr S-hópnum og Jesús Kristur er leikinn af fulltrúa yfirvalda á þeim tíma þegar sagan gerist. Leikstjóri er hinn margverðlaunaði þýski dramatúlkur Hackund Afhauser.

Í dag var keppt í hinni árlegu 25 kílómetra píslargöngu sem genginn er í krossfit-stíl upp á topp Golgatahæðar við Jerúsalem. Það skiptir engu máli hver vinnur, allir eru jafnir fyrir Guði. Þegar hér er komið við sögu ætlaði ég að koma með brandarann sem fjallar um það af hverju Jesús getur ekki borðað M&M en af ótta við að móðga lesendur ætla ég að sleppa því.

Haldið þið bara áfram að lifa og leika ykkur um páskana. Gerið þið það bara. Ég ætla að halda áfram að loka mig af bak við predikunarstólinn, lesa gömul kristinfræði og fussa og sveia þegar ég heyri minnst á útlandaóða snjallsímasjúka peningasólundandi Íslendinga góðæra sig í drasl hvar sem því verður við komið.

Hvernig verður vorið? Það veit ég ekki. Ég veit bara hvernig faðir vorið verður. Og hvernig það er. Og hvernig það mun verða um aldir alda. Amen. Takið hinni kostulegu kveðju.

Jesús Kristur kappinn sá
klígju fékk af þófinu
krossinn negldur var hann á
syndir manna tók sig á –
ég féll á krossaprófinu.

Jesús var, með réttu, hryggur á páskunum – sérstaklega þegar hann hafði boðið sveinum sínum í læri.

Einar þakkar fyrir allt. Ari.

Tilvitnun dagsins:
Allir: AMEN!

Orð í plati í rassagati

Fífluðu lesendur.

Eftir nokkurt óvissuástand undanfarið hefur það nú verið staðfest að erlendir fjárfestar hafa keypt þriðjungshlut í bloggsíðu Einars Haf. Þetta mun án efa renna styrkari stoðum undir rekstur bloggsíðunnar, sem hefur verið töluvert þungur undanfarið. Sem betur fer virðast erlendir fjárfestar vera farnir að öðlast trú á þetta verkefni á nýjan leik – en þessir fjárfestar hafa reyndar keypt hlut í bloggsíðunni í hvert einasta skipti sem hún hefur verið einkavædd – til þess eins að láta ríkið taka eignarhaldið yfir aftur vegna ófyrirséðs hruns, milljarða skulda og gjaldþrota viðkomandi. Eins gott að þetta sé ekki svona á fleiri sviðum atvinnulífsins.

Ég get ekkert tjáð mig um það hvort Ólafur þessi eða Ólafur hinn hafi einhvern tímann átt hlut í þessari bloggsíðu. Ég get hins vegar staðfest að hið góðkunna sprotafyrirtæki Financial Universal Corporate Kiss&Hugs Ltd. (FUCK Ltd.) sem staðsett er á bresku Jómfrúareyjum átti um tíma hlut í bloggsíðunni í gegnum eignarhaldsfélagið YouCantTrustThisCompany Ltd. sem var eitt sinn í eigu sjeik Al Thani sem var jú hliðarsjálf Ólafs Ólafssonar. Þetta var hins vegar bara 1% hlutur og ég hefndi mín með því að kaupa 27% hlut í þessum andskotum í staðinn. Svo fékk ég mér sjeik…ekki samt eins og Ólafur. Hvaða Ólafur sem það nú var. Það verður ekki bæði sleppt og eignarhaldið og þess vegna get ég ekki haldið svona áfram.

Ungmennafélagið Þorsteinn Svörfuður stendur eins og klettur í hafróti fjárhagslegrar óvissu og ringulreiðar. Þar er eignarhaldið alltaf það sama, gjaldkerinn skammtar sér alltaf sama risnukostnaðinum ár eftir ár og smjörið drýpur af hverju strái sem sést í bókhaldinu. Enn á ný stefnir í að félagið skili ársreikningi sem sýnir rekstrarniðurstöðu réttu megin við núll – en þetta þykir einkar góður árangur þegar horft er til þess að téður gjaldkeri félagsins, sem hefur nú setið við kjötkatlana í rúm 13 ár, á sér ekki beint glæsilega sögu sem gjaldkeri þegar horft er til baka. Hvað á ég við með því? Allir muna jú hvernig fór fyrir peningatrénu sem hann, sem gjaldkeri í sumarstarfi, sá um að vökva í seðlageymslu Sparisjóðs Svarfdæla á sínum tíma. Hann vökvaði tréð alltof mikið og með dollaramerkin í augunum horfði hann á það visna upp og deyja. Því fór sem fór. Í starfi sínu sem skuggagjaldkeri Urðakirkju kom hann ýmsu misjöfnu til leiðar, t.d. að settur yrði upp hraðbanki í forkirkjunni og þá jókst sala á altaristöflum gríðarlega á svörtum markaði. Sem gjaldkeri nemendafélagsins Reka stóð hann fyrir gengdarlausu sukki og svínaríi og tókst að setja saman ársreikning sem leit eðlilega út en innihélt engu að síður áfengiskaup í hverjum einasta gjaldalið. Óþarfi er að fara út í aðkomu þessa gjaldkera að endurreisn samkomuhússins Höfða í Svarfaðardal, en viðskiptafléttan sem þar hefur verið notuð var afhjúpuð á síðasta þorrablóti. Hvernig endar þetta eiginlega? Þetta endar auðvitað með því að Umf. Þorsteinn Svörfuður, Umf. Atli, UMSE, Nemendafélagið Reki, Urðakirkja og bloggsíða Einars Haf verða sameinuð í eina risastóra samstæðu sem gæti jafnvel lokkað að erlenda fjárfesta. Þá fyrst er okkur öllum borgið – það sýnir sagan. Er einhver með símanúmerið hjá Hack&Afhauser?

Íslendingar virðast ekki ætla að láta sér segjast þegar kemur að botnlausri ásókn erlendra ferðamanna í ómetanlegar náttúruperlur hér á landi. Alveg saman hvað við reynum að draga úr eigin ágæti og tala niður landið þá keppast útlendingar við að komast hingað í hundruða þúsunda tali og berja okkur…….augum. Þó að fjölgun ferðamanna sé alveg stjarnfræðilega mikil síðustu misseri hefur náðhúsum og skítakömrum ekkert fjölgað í samræmi við þetta. Það hlaut því að enda með því að frétt sem þessi færi í loftið. Það þarf varla að taka það fram að við endum öll í djúpum skít ef ekki verður brugðist við gríðarlegri fjölgun ferðamanna með einhverjum hætti.

Er eitthvað nýtt að frétta úr heimi minnihlutahópa? Ég held ekki. Allavega er staða þeirra ekkert að batna. Erlendir vogunarsjóðir, þeir eru til dæmis minnihlutahópur sem virðist vera allt í lagi að rakka niður í svaðið. Grey skinnin. Íslenskir auðmenn, það er annar minnihlutahópur sem gefið hefur verið skotleyfi á, þó svo að þessir vesalingar hafi ekkert gert sem réttlætir slíkt. Meirihlutinn á Alþingi virðist meira að segja vera kominn í minnihluta og engin mál komast í gegn. Hvað með feitu örvhentu kventransmennina ekki með yfirvaraskegg sem ættleitt hafa barn með hálfum útlendingi sem jafnframt er tónlistarkona? Ég held að það sé verulega á brattann að sækja hjá þeim líka. Það er ekki sama Jón og séra Jón. Eða Ólafur.

Nú þegar Íslendingar eru farnir að færa sig upp á skaftið þegar kemur að kýla-í-kássu íþróttum er ekki úr vegi að þakka þeim fjölmörgu ofbeldis- og skapofsamönnum sem komið hafa að því að móta þjóðfélag okkar gegnum árin. Það eru auðvitað brautryðjendur sem Gunnar, Sunna og fleiri bardagamenn koma í kjölfarið á. Þar má nefna Egil Skallagrímsson, Gunnar á Hlíðarenda og svo þennan hérna. Einn er sá ofbeldis- og skapofsamaður sem stendur yfirleitt fyrir sínu hvað þetta varðar en lesendur þessarar bloggsíðu ættu svo sem alveg að vita hver það er.

Þegar banka kaupa knáir
karlar sem að eiga glás
snúa þeir til baka bláir
barðir niður, slippir, smáir
gróðann hirðir D. Grensás.

Æi, ég þori ekki að halda áfram með þetta. Við vitum jú öll hvernig það mun enda.

Þess má til gamans geta að á föstudaginn langa verður Ólafur Jesús Ólafsson krossfestur á Golgatahæð ásamt S-hópnum og píslarvottunum Hack und Afhauser – en þar munu þeir taka á sig allar einkavæðingar íslenska bankakerfisins frá landnámi.

Einar bak við félagið sem á félagið sem á í sjóðnum sem á félagið sem á í mér.

Tilvitnun dagsins:
Allir: Ólafur!

Orð án hafta

Hömlulausu lesendur.

Þá hefur þeim loks verið aflétt, þessum leiðinda ekkisens gjaldeyrishöftum. Höftunum sem haldið hafa þjóðinni í heljargreipum í hartnær áratug. Höftunum sem hafa komið í veg fyrir botnlaus kaup landsmanna á erlendum gjaldeyri – eitthvað sem hafði jú haldið lífi í þjóðinni áratugina á undan. Við er tekið hömluleysi og frelsi til að framkvæma allskonar vafasama gjörninga og skandala. Bloggsíða Einars Haf hefur haldið þjóðinni í heljargreipum mun lengur en gjaldeyrishöftin. Það er vont….en það venst. Kannski.

Nýverið hélt UMSE sitt 96. ársþing. Hvað í ósköpunum er UMSE heldur þú? Umbar með skondin eyru? Uglur manna sem elska? Ungbörn með slæman ekka? Ungmennasamband Eyjafjarðar? Já reyndar – hitt var samt alveg eins líklegt. Á þessu 96. ársþingi UMSE sem haldið var í Árskógi voru ýmis mál rædd, plottað um lottó og sýslað í skýrslum. Hápunkturinn, á eftir matarhléinu, var auðvitað kosning í stjórn. Ég hef, nánast í laumi og án þess að nokkur hafi kært sig um að vita, setið í stjórn ungmennasambandsins í sex ár og í krafti valds míns þar unnið að ýmsum skuggalegum málum sem og þjóðþrifamálum bak við tjöldin eins og nærri má geta. Nú í lok míns þriðja kjörtímabils í stjórn þótti flestum, og jafnvel mér, kominn tími á að ég afsalaði mér völdum sem gjaldkeri og eftirléti einhverjum öðrum að stýra fjármálum sambandsins. Eftir að hafa legið undir felldi nokkra hríð ákvað ég þó að taka samtalið við kjósendur…eða ungmennafélaga…enda vil ég vinna á breiðum grundvelli þvert á ungmennafélög og sérgreinafélög og ná sem víðastri skírskotun í störfum mínum með grasrótinni. Ég fann mikinn meðbyr þegar leið að þessu ársþingi – kannski var það suðvestan áttin – og auk þess komu margir og líka Margeir að máli við mig vegna þessa. Ekki til að skora á mig að halda áfram heldur bara til að spjalla. Allavega…ég vildi auðvitað ekki skorast undan þeirri ábyrgð að vinna fyrir fólkið í landinu, þó svo að þetta embætti snúist alls ekki um það, og ég var því orðinn verulega uppveðraður þegar loksins kom að ársþinginu. Rétt áður en framboðsræður áttu að fara fram kom í ljós að það var enginn í framboði á þinginu, allir stjórnar- og varastjórnarmenn í kjöri voru endurkjörnir í öll embætti með rússnesku lófataki og að launum lét ég verðlauna sjálfan mig með starfsmerki UMSE eins og kom fram í fjölmiðlum eftir á. Af hverju ætti maður svo sem að leyfa öðrum að komast að kjötkötlunum þegar maður getur haldið áfram að standa á blístri sjálfur? Það er vont….en það venst. Kannski.

Söngvakeppni sjónvarpsins hefur sungið sitt síðasta þetta árið. Þetta vita auðvitað allir, enda horfðu allir á keppnina hvort sem þeir viðurkenna það eða ekki og flestir kusu meira að segja líka í símakosningunni hvort sem þeir viðurkenna það eða ekki. Lagið pappír var líklegast á pappírunum og hafði að lokum sigur eftir hádramatískt listrænt einvígi Svölu í hvítum jakkafötum af Bó gegn nördum og hippsterum í grænum Daðapeysum. Einvígið kostaði þjóðina milljónir króna og þennan kostnað mun hún eflaust sitja uppi með alveg fram í miðjan maí þegar hin evrópska söngvakeppni fer loks fram. Strax að keppni lokinni spunnust umræður um hvort rétt lag hefði unnið – en eins og alkunna er hefur lagið sem endar í 2. sæti söngvakeppninnar alla jafna verið hið raunverulega sigurlag og værum við eflaust búin að vinna Eurovision nokkrum sinnum hefðum við sent 2. sætið út. Þetta lag varð að vísu ekki í 2. sæti á sínum tíma – en það hefði engu að síður átt að fara út. Hefði það gerst hefðum við verið dæmd í ævilangt Eurovision bann og þyrftum ekki að eyða fúlgum fjár í þetta dæmi á hverju ári. Það er vont….en það venst. Kannski.

Fleira er held ég ekki í fréttum. Jú kannski þetta – og svo þetta með höftin…en við vitum jú öll hvernig það endar. Það endar með nýrri einkavæðingu, nýju hömluleysi, nýrri kollsteypu og nýju hruni. Þegar búið verður að greiða úr þeirri flækju getum við loks aftur farið að rífast um hvort selja eigi áfengi í matvöruverslunum eða ekki. Þannig mun þetta ganga mann fram af manni og ganga loks endanlega fram af manni. Það er vont….en það venst. Kannski. Ekki.

Gunnar okkar Nelson ætlar sér að lemja mann og annan…eða reyndar bara annan mann…í beinni útsendingu næsta laugardagskvöld. Fyrir ómakið hyggst hann þéna tugi milljóna. Aðeins þú getur stöðvað hann. Kauptu miða núna. Víkingalottó. Ofbeldið heim. Það er vont….og það versnar. Örugglega.

Gunnar Nelson starir glúrinn
á glímumann sem stendur stúrinn
hyggst í gólfið kýla.
Sparkar, slær og ber í súrinn
senn er fallinn þessi múrinn
megn er svita- og prumpufýla.

Þess má til gamans geta að fyrir mistök gaf ég allar tekjur Rupp til skatts nýverið. Rupp hefur enn ekki fyrirgefið mér það.

Einar með starfsmerki.

Tilvitnun dagsins:
Allir: Bless höft.

Orð í miklu meiri minnihluta en meirihluti minnihlutahópa

Réttsýnu lesendur.

Aftur er hann mættur, hinn réttsýni og réttláti Einar Haf. Laus við fordóma, laus við þröngsýni og laus við að tilheyra minnihlutahópi. Maðurinn með réttu skoðanirnar lætur nú loks í sér heyra – þó að vísu sé það á kolvitlausum vettvangi þar sem allir eru hættir að lesa svona bloggsíður. Auðvitað er mér alveg drullusama, það er ekki eins og ég sé í þessum bransa til að afla mér vinsælda. Ég er bara að þessu af því þetta er svo vel borgað.

Það hefur nú komið upp úr dúrnum að það eru ekki til eins miklir peningar í innviðauppbyggingu og talið hafði verið í upphafi. Þetta er gríðarlega óvænt og kemur í raun eins og holóttur malarvegskafli úr heiðskíru malbiki. Eða eitthvað svoleiðis. Þingmenn í minnihluta, eða minnihlutahóp, telja samgönguráðherra vera úti að aka í þessu máli – enda gangi það ekki lengur að slá nauðsynlegum framkvæmdum á frest. Þessu er ég auðvitað afar ósammála, enda vita það allir að frestur er á illu bestur. Ég meina, þetta hlýtur að reddast. Þegar fjölskylduvænir svifbílar eins og sáust í myndunum Back to the future koma á markaðinn verður þetta vandamál úr sögunni. Réttara væri auðvitað að eyða þessum fáu krónum sem til eru í að endurreisa bókaútgáfuna Skjaldborg – eins og þar síðasta ríkisstjórn hafði lofað ítrekað.

Nokkuð er deilt um það á samfélagsmiðlum þessa dagana hvaða minnihlutahópar séu í raun mestu minnihlutahóparnir í samfélaginu. Ég myndi giska á feita transmenn, svokallaða transfitumenn, enda verða þeir daglega fyrir aðkasti þeirra sem eru hvorki feitir né transmenn. Konur eru kannski ekki minnihlutahópur en tónlistarkonur eru það svo sannarlega – og þær verða heldur betur fyrir aðkasti svokallaðra tónlistarmanna. Viðmælendur í fréttatímum sem mæta til að svara spurningum um fordóma eru oftar en ekki í minnihluta og verða fyrir fordómum fréttamanna sem eru í enn fleiri og merkilegri minnihlutahópum. Ég ætla að breyta svarinu mínu síðan áðan; feitir örvhentir kventransmenn sem ættleitt hafa barn með hálfum útlendingi sem jafnframt er tónlistarkona – þeir eiga samúð mína alla. Við skulum ekki fordæma þetta fólk, það er í minnihluta og getur ekkert að því gert.

Ef allir væru í minnihluta væri þetta örugglega ekkert mál og við værum laus við mjög stóran hluta (meirihluta) allra þessara fordóma. Ástandið er hins vegar ekki svo gott. Alltaf skal meirihlutinn vera í meirihluta og aumingja minnihlutinn í minnihluta, þar sem hann þarf að þola fordóma og ofríki meirihlutans.

Sjónvarpsmaður ársins hélt því fram nýverið að Mottumars væri lítið annað en fjárplógsstarfsemi til handa auglýsingastofum og öðrum blóðsugum samfélagsins; minnstur hluti (minnihluti) þeirra yfirvaraskeggja sem safnað væri í mars rynnu til krabbameinsrannsókna. Ég veit reyndar ekki hvernig yfirvaraskegg ætti að hjálpa til við krabbameinsrannsóknir en kannski er ég bara svona rúðustrikaður. Þeir sem ekki safna yfirvaraskeggi í mars eru í minnihluta og verða þar af leiðandi fyrir aðkasti þeirra sem safna yfirvaraskeggi og eru í meirihluta. Sem sagt: feitir örvhentir kventransmenn ekki með yfirvaraskegg sem ættleitt hafa barn með hálfum útlendingi sem jafnframt er tónlistarkona – þeir eiga samúð mína alla. Við skulum ekki fordæma þetta fólk, það er í minnihluta og getur ekkert að því gert.

Söngvakeppni sjónvarpsins er í algleymingi þessa dagana, sem þýðir að sumir hafa alveg gleymt keppninni. Samkvæmt fréttum vefmiðla er fjör að færast í leikinn – og ekki er enn komið á hreint hvaða lög verða í meirihluta og hvaða lög verða í minnihluta. Samkvæmt rannsóknum mínum munu engir feitir örvhentir kventransmenn ekki með yfirvaraskegg sem ættleitt hafa barn með hálfum útlendingi sem jafnframt er tónlistarkona taka þátt í keppninni að þessu sinni. Þetta er nokkuð undarlegt þegar haft er í huga hvaða lag vann Eurovision keppnina árið 2014. En hvað veit ég svo sem um tónlist.

Ef minnihlutans málpípur
reyna að malda í móinn,
Dabbi Grensás gírugur
grýtir þeim í sjóinn.

Úbbs, þetta voru nú kannski ekki æskilegar málalyktir. En engar áhyggjur, lesendur þessarar bloggsíðu eru alveg örugglega í minnihluta og hafa þar af leiðandi um margt alvarlegra að hugsa heldur en þessa slöppu vísu.

Einar í meiri minnihluta en flestir.

Tilvitnun dagsins:
Allir: Mín skoðun er RÉTT!!!

ps. Engum feitum örvhentum kventransmönnum ekki með yfirvaraskegg sem ættleitt hafa barn með hálfum útlendingi sem jafnframt er tónlistarkona var misþyrmt við gerð þessarar bloggfærslu.

Orð í matvöruverslanir

Skæðu lesendur.

Mikið er þetta nú búinn að vera góður mánuður það sem af er. Veðurblíðan hefur leikið við landsmenn, þjóðarskútan siglir lygnan sjó óravegu frá sjávarháskum og vígaslóðum, þingmennirnir okkar vinna störf sín af natni og fagmennsku og síðast en ekki síst þá hefur Einar Haf ekkert bloggað síðan hann var ritskoðaður út af þorrablótinu (til allrar lukku segja flestir). Því miður benda þessi inngangsorð þó til þess að friðurinn sé nú úti. Óveður er í aðsigi samkvæmt öllum þrýstnu línunum sem ég sá á veðurkortunum áðan, þjóðarskútan nálgast úfið brimrótið, þingmennirnir okkar eru enn og aftur farnir að tala um áfengi í matvöruverslanir og síðast en ekki síst, Einar Haf hefur risið úr öskustónni eins og skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins og lætur nú í sér heyra þrátt fyrir afar takmarkaða eftirspurn. Auðvitað gilda markaðslögmálin ekki um Einar, hann lætur þau sem vind um eyru þjóta eins og svo fjölmargt annað.

Meðan beðið er eftir því að heilbrigðiskerfið verði endurreist er ágætt að drepa tímann með því að rökræða hvort rétt sé að selja áfengi í matvöruverslunum. Þetta er farið að hljóma eins og rispuð plata, sem það auðvitað er. Sérfræðingar hafa haldið því fram að drykkja komi til með að aukast um 40% nái þetta frumvarp fram að ganga. Það mun auðvitað þýða fjölgun salernisferða sem er bæði tímafrekt og stemmningsdrepandi. Ég meina, prófið þið bara að drekka 40% meira og gáið hvað gerist. Aukin drykkja mun hafa í för með sér fleiri og flóknari heilbrigðisvandamál, en það ætti svo sem að sleppa ef það verður farið beint í það að endurreisa heilbrigðiskerfið eftir að þetta drykkjuboltafrumvarp kemst á koppinn.

Þingmaður hélt því fram nýverið að hann gæti ekki safnað sér fyrir kaupum á íbúð. Þetta er auðvitað talsverður skellur, ekki síst fyrir kjararáð sem reyndi hvað það gat að koma þessu fólki á mannsæmandi laun í eitt skipti fyrir öll. Það hefur greinilega ekki tekist neitt sérstaklega vel sé rýnt í þessi ummæli. Einhverja rámar í að hafa mótmælt úrskurði kjararáðs á sínum tíma en það er allt gleymt í dag.

Topp 5 gleymdir skandalar (síðustu örfárra ára):
1. Arðgreiðslur tryggingafélaganna.
2. Iðnaðarsalt í matvælum.
3. Þegar Stöð 2 keypti sýningarréttinn af íslenska karlahandboltalandsliðinu.
4. Nautabakan sem innihélt ekkert nautakjöt.
5. Panamaskjölin.

Allt í lagi, þetta síðasta er kannski ekki gleymt – þó svo að núverandi forsætisráðherra hafi gleymt að leggja fram skýrslu um þessi mál fyrir kosningar. En það er nú ekki hægt að muna eftir öllu.

NASA telur sig nú hafa fundið plánetur í ca. 40 ljósára fjarlægð frá jörðinni þar sem gæti þrifist vitsmunalíf. Skattrannsóknarstjóri hefur nú þegar sett sig í samband við NASA til að fá frekari upplýsingar um þessa uppgötvun, enda verður það að teljast afar líklegt að íslenskir auð- og athafnamenn geymi fé sitt rækilega falið á þessum aflandsplánetum.

Menn setti hljóða nýverið þegar fréttir bárust af því að kjararáð hefði ákveðið að laun Birnu bankastjóra Íslandsbanka ætti að lækka um 40%. Síðar kom auðvitað á daginn að þetta var stafsetningarvilla, það átti að læka launin hennar en ekki lækka. Sem betur fer. Manni fór svo að líða ögn betur þegar fréttir bárust af því að framkvæmdastjórn hins ríkisrekna banka hefði fengið 300 milljónir króna í laun árið 2016 auk þess að hafa bíla til afnota á kostnað bankans. Hugsið ykkur, auðvitað getur þingmaður með 800 þús. kr. laun á mánuði eftir skatt ekki keypt íbúð ef 9 manns með 300 millj. kr. á ári geta ekki rekið nokkra bíla. Ég veit ekki með ykkur en mér líður allavega betur nú þegar ég veit fyrir víst að það er alvöru góðæri í landinu. Ekki svona platgóðæri eins og var þarna fyrir áratug síðan. Puff.

Síðustu misseri hefur nokkuð verið rætt um niðurfellingu tolla. Ekki náðist í Tolla við gerð þessarar bloggfærslu, þar af leiðandi treysti ég mér ekki til að tjá mig meira um þetta mál að svo stöddu.

Bollum vil ég bragða á
í björtum gleðiljóma
Íslendingsins blíða brá
brestur er hann kjamsar á
brasilískum rjóma.

Mmm Arthúr Björgvin Bolla, bolla, bolla.

Þess má til gamans geta að gengi krónunnar hélt áfram að styrkjast þrátt fyrir gerð þessarar bloggfærslu. Gengi Bandaríkjadollars hefur styrkst nokkuð að undanförnu en gengi yens hefur hins vegar fallið. Jens, hvað finnst þér um þetta? Jens: Ég er auðvitað ægilega skúffaður yfir þessu! (Sama og þegið, plata frá árinu 1985 með Karli Ágústi, Sigha Sigurjóns og Erni Árna, besta plata í heimi).

Einar aftur genginn.

Tilvitnun dagsins:
Allir: Hvar geymir Guðni ananasana?

Orðablót

Góðir lesendur.

Eftirfarandi kveðskapur Einars Haf var ekki fluttur á þorrablóti Svarfdælinga á Rimum laugardagskvöldið 28. janúar 2017 vegna þess að hann þótti alltof klúr, dónalegur og tímafrekur. Það gengur bara betur næst. Þessi kveðskapur er hins vegar ekki of klúr, dónalegur eða tímafrekur fyrir lesendur þessarar bloggsíðu. Augljóslega.

Nefndarvísur 2017

Hér í kvöld samtaka munum við gleðjast og syngja
súrmatinn borða og glösunum fimlega klingja.
Við þorrablótsnefndina set ég þó spurningamerki
spurningin er hvernig helst henni á þessu verki?

Patti í Garðshorni plássfrekur ryðst fram á sviðið
með pela í vasa hann einbeittur ávarpar liðið.
Frystihúsgaurinn hér fimmtugur stendur á stalli
fallegur þykir hans glansandi bónaði skalli.

Hildur er varla langt undan, það megið þið vita
verklega lætur hún þorrablótsnefndina strita.
Á jeppa hún reykspólar rétt eins og ör milli staða
og reynir að ver’ekki langt undir löglegum hraða.

Doddi á Jarðbrú er drekkhlaðinn allskonar syndum
duddar á hestum og hlúir að óþekkum kindum.
Í göngum hann puðar og púlar og rám verður raustin
því andskotans rollurnar vilja ekki heim kom’á haustin.

Ella vill helst hafa vit fyrir húsbónda sínum
það veitir ei af þegar kemur að samkomum fínum.
Vörpuleg stendur hún oftast við hliðin’á honum
og heldur því fram að hún beri af velflestum konum.

Úr útlegð nú snúinn er Alli, vor uppáhalds sonur
Svarfdæli þetta mjög gleður, þá einna helst konur.
Á verkstæði gjarnan hann dundar með skrúfjárn og skæri
og söngrödd sem gæti sprengt rúðu af sjö metra færi.

Á hlaðinu stendur og þenur sig frú Hildigunnur
hjúkrunarfræðingsins skerandi rómur er kunnur
betr’er að haf’ana góða, það Guð veit og Alli
því gaman ei væri ef allt myndi enda í skralli.

Færðin í Svarfaðardalnum oft spillist á köflum
Sigvaldi kappinn þá kemur og blæs burtu sköflum.
Hann móast í ruðningum, mikið finnst honum það gaman
á meðan að keðjan í blásaranum tollir saman.

Í kotin’er blessunin Gígja ein heima og biður
að bévítans snjókoman hætti og á komist friður.
Hún Silla sinn þráir að fá aftur sér til að hlýja
og saman þau komist hið fyrsta á sólarströnd nýja.

Jökull á Klængshóli sýnir oft fimi og kænsku
kappklædda ferðamenn flytur, þá bresku og spænsku.
Fær er á skíðunum, hann er sko alls enginn klunni
og skýst svo á Dalvík og verslar í Húsasmiðjunni.

Sunna hans kona er kvenskörungurinn hinn mesti
klárlega finnst henni Skíðadalurinn sá besti.
Í blindni hún eltir sinn ástmann um hóla og hæðir
og engu þá skiptir í hvers konar ófærð hann æðir.

Við Helgafell kóninn hann Jón er nú yfirleitt kenndur
krúttlegur brosir hann hvernig sem á því nú stendur.
Athyglissjúkur með eindæmum þykir hann vera
að endingu sjálfsagt af sviðinu þarf hann að bera.

Nefndin er sniðug og myndarleg, það vill hún meina
másk’er það lygi en við skulum lát’á það reyna.
Að lokum þá skulum við skála og hrópa öll saman
í svarfdælskum hátíðaranda, já nú er sko GAMAN!!!

Höfundur óþekkur. Eða ekki.

Fyrir áhugasama má geta þess að hinn svarfdælski þorrablótsannáll er nú aðgengilegur á þútúbu efnisveitunni í þremur hlutum. Eitt, tvö og þrjú. Góða skemmtun.

Einar klipptur út.

Tilvitnun dagsins:
Allir: RITSKOÐUN!

Orðin í súrnum

Þorralegu lesendur.

Já það er ekki um að villast. Upp úr súrnum kemur Einar Haf í öllu sínu veldi með enn eina bloggfærsluna. Þetta er að verða frekar kæst og illa lyktandi allt saman og þá er ég að tala um bloggið, en ekki þorramatinn gómsæta. Enginn veit sína ævina fyrr en öll er, bloggið er ekki lesið þó á síðuna sé komið og enginn veit hvaða þorramat átt hefur fyrr en kíkt hefur í trogið.

Nú á Þorranum ákváðu Alþingismenn að snúa aftur til starfa eftir jólaleyfi. Mun betur gekk að reka þjóðfélagið meðan svokölluð starfstjórn var við lýði – en það má skilja þetta þannig að stjórnin sem nú er við völd sé ekki starfstjórn og starfi þar af leiðandi ekki. Hvort þetta sé villandi orðalag eða bara sannleikurinn á auðvitað eftir að koma í ljós. Forsætisráðherra lagði ríka áherslu á jafnvægi í eldhúsdagsumræðunum sem sjónvarpað, útvarpað og andvarpað var ofan í kokið á landsmönnum síðasta þriðjudagskvöld. Auðvitað er mikilvægt að vera í jafnvægi. Fjárhagslegu, andlegu og líkamlegu jafnvægi. Ég get auðvitað trútt um talað, þeir sem lesið hafa bloggsíðu Einars Haf síðasta áratuginn vita það auðvitað að mér fer afar illa að predika um mikilvægi andlegs jafnvægis þegar skrif mín endurspegla augljóslega eitthvað annað. Varðandi eldhúsdagsumræðurnar kom það auðvitað ögn á óvart að sjá hversu margir þingmenn voru niðursokknir ofan í snjallsímana sína meðan á umræðunum stóð. Ég var svo hneykslaður á þessu að ég fór beinustu leið í snjallsímann minn og lýsti furðu minni á þessu opinberlega á samfélagsmiðlum.

Dónald Trömp forseti Bandaríkjanna hefur nú ákveðið að hefjast handa við vegginn mikla milli Mexíkó og Bandaríkjanna. Þarna er loksins kominn maður sem tekur það alla leið að byggja svokallaða skjaldborg eins og margoft var rætt um að gera hér á landi eftir fjármálahrunið þarna um árið. Að vísu átti sú skjaldborg að vera utan um heimilin í landinu en Trömp ætlar að byggja sína skjaldborg utan um sjálfan sig og losna þar með við að þurfa að hafa nokkur afskipti af einhverjum skítugum Mexíkóum, dópistum og glæpamönnum sem streyma þvers og kruss yfir landamærin.

Íslensku sjónvarpsefni hefur heldur betur vaxið fiskur um hrygg síðustu misseri. Þættir eins og Ófærð, Réttur, Hraunið, Pressa, þættir Magga Texasborgara og stillimyndin hafa borið hróður okkar víða. Nýjasta skrautfjöðurin í þennan hatt eru þættirnir Fangar. Þættirnir fjalla um aðþrengdar konur í íslensku kvennafangelsi. Ef ég væri lesblindur myndi ég fagna þessu en ég er ekki lesblindur og þar af leiðandi fanga ég bara. Hmm…hvaða rugl er þetta eiginlega? Ná þættirnir að fanga áhorfendur? Horfi ég á Fanga? Þeim áfanga hef ég náð já.

Nú um helgina verður Þorrinn með stóru Þ-i blótaður í Svarfaðardal og eflaust víðar. Skemmtiatriði kvöldsins verða sjálfsagt ekki af verri endanum frekar en endra nær – nema kannski eitt atriði sem ég veit ekki hvernig verður. Kem ég þar nálægt? Já reyndar. Ég ætla að troða upp og lesa ágrip af bloggfærslum mínum síðustu 10 ár til að koma fólkinu í rétta gírinn. Eftir þann þriggja tíma lestur mun allt hljóma fyndið, sama hvað sagt verður á sviðinu. Á blótinu verður sungið og það verður dansað og það verður skálað – en svo má auðvitað ekki gleyma matnum. Nammi namm. Súrir pungar, súr hvalur og súrmeti af ýmsu tagi. Ég er ekki súr á því hver mun sjá um tónlistina á blótinu en ég giska á Súr Paul McCartney.

Á blótum Þorra bragða ég
á bóndans matarflóru
sviðasultan kræsileg
hákarlslyktin yndisleg
úr trogi risastóru.

Þess má til gamans geta að sjö þingmenn gerðu læk á og fjórir þingmenn deildu stefnuræðu forsætisráðherra meðan á eldhúsdagsumræðum stóð. Enginn var pókaður.

Einar í troginu.

Tilvitnun dagsins:
Allir: ÞORRABLÓT! GAMAN!!

Orðans árið

Stæltu lesendur.

Já, það kom aldeilis aftan að mér þetta nýja ár. Eða svokallaða nýja ár. Ég held að þetta ár sé alls ekki eins nýtt og það vill vera af að láta. Allt sem hefur gerst á þessu svokallaða nýja ári er eitthvað sem hefur oft gerst áður, mörg hin fyrri ár. Sami grauturinn í sömu skálinni. Nýtt vín á gömlum belgjum. Nýr grautur í gömlum belg. Og ég er strax kominn með ógleði – eins og lesendur þessarar síðu.

Samkvæmt nýrri rannsókn eru Íslendingar ekki bara þybbnir, þeir eru beinlínis feitir. Þeir eru svo feitir að aðrar Norðurlandaþjóðir mega bara skammast sín. Hverju má þakka þennan góða árangur? Trúlega er það hreyfingarleysið. Snjalltækjadoðinn grúfir yfir eins og grá dula og fælir fólk frá því að hreyfa á sér rassgatið. Sem dæmi þá rétt náði ég að róa í spikinu hingað inn á bloggsíðuna – en auðvitað sit ég kjurr á mínum risavaxna afturenda meðan ég skrifa þessa bloggfærslu – og borða sykurhúðaðar franskar kartöflur með kokteilsósu og óblönduðu floti. Hvað drekk ég með þessu? Auðvitað Coke Zero…maður þarf jú aðeins að hugsa um línurnar líka.

Ekki nóg með það að Íslendingar séu svona blússandi akfeitir og sáttir með það; okkur hefur líka tekist að komast í efsta sætið á hinum eftirsótta slóða- og slúbertalista Global Footprint Network – sem eru eflaust einhver öfgaveganistasamtök. Niðurstaðan er ótvíræð, ef allar þjóðir væru eins neysluóðar og uppfullar af óráðsíu og Íslendingar þá væri jörðin trúlega ein stór Sahara-eyðimörk. Auðvitað þurfum við að lágmarki 2,5 bíla á hvern íbúa, ekki viljum við nota almenningssamgöngur. Auðvitað þurfum við að eiga nýjustu snjallsímana hverju sinni – ég fékk minn Iphone 7 bara núna rétt áðan og var að verða brjálaður á töfinni. Auðvitað þurfum við að brenna alveg fleiri þúsund tonnum af innfluttum kolum því ekki framleiðir þessi kísill sig sjálfur. Auðvitað þurfum við að kaupa miklu meira af mat en við getum torgað, það er jú betra að henda honum en að eiga það á hættu einn daginn að verða svangur. Auðvitað þurfum við að ferðast minnst þrisvar sinnum til útlanda á ári, svínfeit og ógeðsleg. Það þarf að breikka flugvélarnar svo við komumst fyrir í þeim og það mengar auðvitað meira. Og hvað varð um nýju ríkisstjórnina? Hún hefur ekki sést. Ekki frekar en skýrslan um Panamaskurðinn. Eða skjölin. Eða hvað þetta aflandseyjadrasl hét nú. Hverjum er ekki sama.

Íslendingar, helst karlmenn, streða þessa dagana við að kasta bolta í mark í Frakklandi í beinni sjónvarps- og útvarpsútsendingu. Misvel hefur þetta nú gengið en sama hvað á bjátar þá verða þetta alltaf og ævinlega strákarnir okkar. Það var þeim að þakka að bensínlítrinn var á 27 króna afslætti í gær, gleymið því ekki. Hvað með það þó við höfum á ögurstundu skriplað á skötunni og skotin geigað þegar síst skyldi. Það er jú aðalatriðið að vera með og við erum ennþá með. Ég ætti auðvitað að vera löngu búinn að taka leikhlé þegar hingað er komið í lestrinum en á einhvern óskiljanlegan hátt ákvað ég að halda áfram með sóknina. Svo fer auðvitað allt í vaskinn áður en yfir lýkur.

Dónald Trömp tekur brátt við sem forseti Bandaríkjanna. Það ætlar hann að gera á sjálfan Bóndadaginn, og eflaust mun hann gæða sér á súrsuðum selshreyfum, rengi og magál af þessu tilefni. Hann er reyndar í framan eins og útþynnt rófustappa en það er önnur saga. Gaman yrði að kíkja í trogið hjá kappanum þegar hann heldur upp á áfangann í Hvíta húsinu sínu annaðkvöld. Ekki slægi maður hendi á móti því að vera fluga á vegg í því samkvæmi, rétt eins og rússneska leyniþjónustan – sem er pottþétt með svona myndavélaflugu á sínum snærum.

Senn líður að Þorrablóti Svarfdælinga á Rimum í Svarfaðardal. Allt stefnir í að margt verði um manninn og þétt setinn Svarfaðardalur líkt og jafnan áður. Hvaða skemmtiatriði verður boðið upp á? Það verður lesinn hinn klassíski annáll, farið með gamanmál, fíflast, hlegið, drukkið og dansað. Mun Einar Haf koma eitthvað nálægt þessum skemmtiatriðum? Tja…tíminn einn mun leiða það í ljós og ég get raunar ekki sagt alveg til um þetta á þessu stigi. En ljóst er að oft var þörf á breiðri skírskotun, upplýstu samtali og traustu baklandi – en nú er nauðsyn. Og ég mun ekki skorast undan þeirri ábyrgð.

Upp til fjalla, inn til dala
glaður held á mannamót.
Á hún Halla baun í bala
heldur senn á þorrablót.

Þess má til gamans geta að samkvæmt nýrri rannsókn er Ísland eftir sem áður hreinasta og fegursta land í heimi og íbúarnir þeir gáfuðustu. Sú rannsókn tók að vísu hvorki mið af fitumælingum, neyslufrekju eða spillingu.

Einar í mörnum.

Tilvitnun dagsins:
Allir: SNJALLTÆKI!!!

Ár við orðamót

Góðir Íslendingar.

Við áramót er við hæfi að draga andann djúpt (og muna að anda frá sér aftur), líta um öxl eða axlir, líta yfir sviðið þó það sé sviðið og virða fyrir sér atburði ársins sem er hér um bil alveg liðið í aldanna skaut. Jafnframt er gott að íhuga þá stund sem er og enn fremur horfa björtum augum á komandi mánuði og misseri. Áramótahugvekjur á borð við þessa eru einmitt kjörinn vettvangur fyrir slíkt þó að vissulega séu allar líkur á að áramótahugvekjan mislukkist ef haft er í huga hver það er sem stendur á bak við hana. Hugvekjan er venju samkvæmt uppfull af duldum áróðri og leyndum skilaboðum til lesenda en það er bara eins og tíðkast í öllum alvöru áramótahugvekjum.

Íslendingar eru þrautseig þjóð. Hér í nyrsta hafi hefur þjóðin þraukað hverja pláguna og hörmungina á fætur annarri, ævinlega drifin áfram af bjartsýni og eldmóð. Margar hafa þær verið lífsbjargirnar gegnum tíðina. Þegar á móti blæs sækja Íslendingar ekki aðeins kraft sinn og styrk í óbeislaðar náttúruauðlindir þessa lands, sem ferðamenn eru að vísu að verða búnir með það besta úr. Þeir sækja líka í menningararfinn. Fjársjóðskistu ljóða- og sagnamanna sem uppi hafa verið á liðnum öldum.

Ég rúlla með crewinu
Vagg og velta á loopinu
Hey fokk þú og þitt pulsupartý því ég bara chilla með rúsínum
En ég sé bara útlínur
Þegar ég dett úr rútínu
Stelpur og strákar curious
Stærri en Hafþór Júlíus

Ó shit
Mamma viltu mæla mig, ég held ég sé orðinn veikur
Ó shit
Mamma viltu mæla mig því ég er orðinn svo heitur

Djamma eins og ég eigi afmæli.

Eins og sést á þessu kvæði sem ort var á árinu sem er að líða, trúlega af einhverjum í 12 ára bekk, er það því miður að mestu liðin tíð að bætist í gullkistu ljóða- og sagnamanna. Allt var betra hér áður fyrr. Meitlaðar ljóðlínur horfinna tíma sem hafa lifað með þjóðinni mann fram af manni munu vonandi verða í heiðri hafðar áfram, ekki veitir af eins og dæmin sanna.

Íslendingar eru heppin þjóð. Þó svo að það blasi kannski ekki alltaf við og þó svo að hér áðan hafi ég minnst á plágur og hörmungar þá er hér allt í blússandi uppsveiflu. Þetta sýna hagtölurnar. Hagvöxturinn er kominn á syngjandi skrið aftur, lagvöxtur er ágætur meðal tónlistarmanna og þvagvöxtur hefur sjaldan verið meiri sem skýrist af ríkulegri neyslu á jólabjór. Verst hvað gengur illa að útskýra þetta fyrir þeim sem standa í biðröð eftir mat eða hafa dvalið á atvinnuleysisskránni langtímum saman. Eldri borgarar og öryrkjar hafa lengi staðið í röð og einnig hafa þeir staðið undir hagvexti og hagsæld þjóðarinnar – langt hefur verið seilst í vasa þessa fólks en það má alltaf gera betur.

Jón Sigurðsson hefði orðið hundgamall á árinu hefði hann lifað. Sömu sögu má segja um Hannes Hafstein og Jónas Hallgrímsson. Hvað skyldu þessir menn hafa velt sér marga hringi í gröfinni á árinu yfir hinu og þessu uppþotinu, hinu og þessu klúðrinu og hinu og þessu hneykslinu? Það er engin leið að vita, við getum aðeins ímyndað okkur það. En burtséð frá öllu klúðri og allri vitleysu þá skulum við sem þjóð líta stolt og bjartsýn fram á veginn. Við höfum jú enn íslensku sauðkindina – þessa glæsilegu og tignu skepnu. Hún á heima í öllum áramótahugvekjum enda ein lífæða samfélags okkar enn þann dag í dag þó svo að lítið fáist fyrir hana á sláturhúsi. Það er sama hvar borið er niður, alltaf kemur féð við sögu. Fjármálagjörningar, fjárplógsstarfsemi, fjárdráttur, fjári góður, kindarlegur, sauður, gemsi, alveg ær, súrsaðir hrútspungar. Nokkur hugtök sem eru okkur Íslendingum töm og við eigum að þakka hverjum? Jú, íslensku sauðkindinni. Ég veit ekki með ykkur en ég bíð spenntur eftir sömu tuggunni á árinu 2017.

Ferðamenn halda áfram að sækja okkur heim líkt og enginn sé morgundagurinn. Ómetanlegar náttúruperlur eiga í vök að verjast vegna ágangs ferðamanna og vegakerfið er farið að láta deigann síga. Eða slitlagið. Verslunareigendur gleðjast og peningarnir streyma í Lundabúðarkassana í stríðum straumum. Til að þetta geti allt gengið upp kaupum við Íslendingar ragettur og skottertur í massavís nú um áramót til að Björgunarsveitir geti fjármagnað starfsemi sína – sem gengur í sífellt meira mæli út á að bjarga ferðamönnum úr hverri stórkostlegri lífshættunni og mannrauninni á fætur annarri. Svona viljum við hafa þetta.

Árið hefur ekki bara einkennst af ferðamönnum heldur einnig samfélagsmiðlum og veraldarvefsatburðum ýmiskonar. Á fasbókinni hafa krúttsprengjur, krúttmolar, krúttkögglar, prinsessur, demantar, snillingar, æðibínur, dásemdir og dúllur ýmiskonar verið afar áberandi þannig að stundum hefur keyrt úr hófi fram. Svo má ekki gleyma Pokémon, en veiðar á honum voru eftirminnilega leyfðar á árinu til að vega upp á móti afar naumt skömmtuðu rjúpnaveiðitímabili. Þeir sem ætla að bjóða upp á léttgrillaðan Pokémon með snjallsímasósu á veisluborðinu í kvöld, verði ykkur að góðu.

Góðir Íslendingar, þegar við lítum yfir sviðið, horfum til baka, síðan fram og svo aftur til baka sjáum við það best sjálf hversu öfundsverð við erum af svo ótal mörgum hlutum. Ég man bara ekki alveg í svipinn hvaða hlutir þetta eru. Nema auðvitað sauðkindin, en það hefur reyndar áður komið fram.

Aftur koma áramót
og enn er staðan býsna snúin
kannski er það sárabót
að þessi hugvekja er búin.

Að endingu óska ég ykkur öllum góðs gamlárskvölds, árs og friðar, með von um áframhaldandi breiða skírskotun, upplýst samtöl, traust bakland og uppbyggilegan málefnagrundvöll á komandi ári.

Stéttin framan við Bessastaði
31. desember 2016
Einar Okkar Hafliðason

Tilvitnun dagsins:
Allir: SPRENGJA!!!

Orð í frekar bundnu jólamáli

Góðir lesendur.

Segja vil ég sögu
af snjallsímunum þeim
sem tröllriðu öllu
um heim og geim.

Þeir oní vösum sáust
eins og margur veit
og gerðu fólkið vitlaust
í borg og sveit.

Síma girndust sveinar,
– um jólin birtust þeir.
Og einn og einn þeir komu,
en aldrei tveir og tveir.

Þeir voru þrettán
þessir símamenn,
sem ekki vildu ónáða
allir í senn.

Að dyrunum þeir læddust
og drógu lokuna úr.
Og símanna þeir leituðu
um eldhús og búr.

Lævísir á svipinn
þeir leyndust hér og þar,
til símastuldurs vísir,
ef enginn nærri var.

Og eins, þó einhver sæi,
var ekki hikað við
að hrekkja fólk og trufla
þess heimilisfrið.

Símastaur kom fyrstur,
stinnur eins og tré.
Hann laumaðist í æfón
og millifærði fé.

Hann vildi nota öppin,
– engum var um sel,
snapptjatt, kass og tinder,
– það gekk furðuvel.

Símagaur var annar,
með Samsunginn sinn.
– Hann skreið ofan úr gili
og skaust á jútjúb inn.

Hann faldi sig í netheimum
og væ-fæi stal,
meðan tölvukonan átti
við tölvukarlinn tal.

Stúfur hét sá þriðji
snjallsíminn sá.
Hann krækti sér í blútúð,
þegar kostur var á.

Hann hljóp í burt með símann
og hringdi í dömurnar,
og gældi oft á tíðum
við barminn hér og þar.

Sá fjórði, Símasleikir,
var gráleitur og sljór.
Og ekki varð hann glaður,
þegar hleðslusnúran fór.

Þá þaut hann eins og elding
og snúruna greip,
og hélt með báðum höndum,
því hún var stundum sleip.

Sá fimmti, Símaskefill,
var skrítið kuldastrá.
– Þegar börnin fengu sjö S
hann barði dyrnar á.

Þau ruku upp, til að gá að
hvort message væri á ferð.
Þá flýtti’ ann sér að símanum
fyrir lítið verð.

Sá sjötti, Appasleikir,
var alveg dæmalaus. –
Hann fram undan rúmunum
rak sinn ljóta haus.

Þegar fólkið setti öppin
fyrir kött og hund,
hann slunginn var að ná þeim
og sleikja á ýmsa lund.

Sjöundi var Símaskellir,
– sá var nokkuð klúr,
ef fólkið vildi í símann
mala í moll og dúr.

Símtölunum sleit hann
og nældi tækin í
og aldrei leiddist honum
að taka selfí.

Símjarmur, sá áttundi,
var skelfilegt naut.
Hann bömperinn á símanum
með hnefanum braut.

Svo sveipaði hann skjáinn
og yfir honum gein,
uns ekkert sást þar meira
svo stundi hann og hrein.

Níundi var Símakrækir,
brögðóttur og snar.
Hann hentist upp í rjáfrin
og póstaði þar.

Á fésbókinni var hann
og gerði að leik
að gera læk og deila,
þvílík steik.

Tíundi var Símagægir,
grályndur mann,
sem laumaðist á skjáinn
og leit fast á hann.

Ef eitthvað var í símanum
álitlegt að sjá,
hann oftast nær seinna
í það reyndi að ná.

Ellefti var Símaþefur,
– aldrei fékk sá kvef,
og hafði þó svo hlálegt
og heljarstórt nef.

Hann ilm af smáforritum
upp á heiðar fann,
og léttur, eins og reykur,
á lyktina rann.

Símkrókur, sá tólfti,
kunni á ýmsu lag. –
Hann sett’upp hjá sér Twitter
á Þorláksmessudag.

Hann krækti sér í æfón,
þegar kostur var á.
Stundum reyndist langur
hans símreikningur þá.

Þrettándi var Símasníkir,
– þá var tíðin köld,
ef ekki fór í appstore
á aðfangadagskvöld.

Hann elti litlu börnin
sem brostu, glöð og fín,
og trítluðu um bæinn
með snjalltækin sín.

Á sjálfa jólanóttina,
– sagan hermir frá, –
í símum sínum voru
og störðu skjána á.

Fyrir löngu í símunum
er fennt í þeirra slóð.
– snjalltækin seint breytast
í myndir og ljóð.

Höf. óþekkur.

ps. Ef þið gerið læk, kvittið og deilið lendið þið sjálfkrafa í risaáramótahappdrættispotti bloggsíðu Einars Haf, dregið verður úr pottinum rétt fyrir miðnætti á Gamlárskvöld – strax og árlegri vörutalningu í sjoppu Umf. Þorsteins Svörfuðar á Rimum lýkur. Þeir sem vinna áramótapottinn fá í vinning eldgamala og endurunna áramótahugvekju frá Einari Haf. Það fá hugvekjuna reyndar allir, hvort sem þeir vinna í pottinum eða ekki. Spæling.

Einar í símanum.

Tilvinun dagsins:
Allir: Hvar er síminn minn?