Sviknu lesendur.
Þessum langa degi getur varla lokið nema Einar Haf, samnefnari kristilegra kennimynda, leggi orð í belg og tjái sig að beiðni Þjóðkirkjunnar um trúarleg og andleg málefni sem brenna á hinu kristna samfélagi okkar. Þessu hafa ekki margir beðið eftir – en mér er auðvitað alveg drullusama.
Það vita það kannski ekki margir en páskafrí var ekki fundið upp svo fólk gæti klætt sig í fokdýr utanyfirföt, brunað á jeppunum sínum þvers og kruss um landið og skroppið á skíði eða í sumarbústað. Nei. Páskafríið var heldur ekki fundið upp svo að ca. helmingur landsmanna gæti skroppið rétt sem snöggvast til útlanda. Nei. Páskafríið er auðvitað kirkjunni að þakka. Og fær hún einhverjar þakkir fyrir það? Nei. Á páskum minnumst við þess þegar síðasta kvöldmáltíðin var snædd, þegar Jesús laugaði fætur lærisveina sinna, þegar Júdas sveik Jesús og hann var krossfestur og þegar Jesús á þriðja degi reis upp frá dauðum og steig upp til himna. Man einhver eftir þessu? Nei, enda býsna langt síðan þetta gerðist. Þetta er hins vegar rifjað upp á hverju ári og ekki veitir af. Nú síðast var þetta rifjað upp í messu í Urðakirkju að kveldi Skírdags. Þeir sem mættu þangað og svo inn í kaffi á eftir urðu margs vísari…en hinir ekki. Heiðingjar. Hvað var annars með kaffinu? Nú auðvitað fimm brauð, tveir fiskar, oflátur, páskaegg og nokkrir Júdasarkossar.
Nú ræða þingmenn um það í fullri alvöru að afnema þurfi hinn svokallaða helgidagafrið – þeir vilja nefnilega endilega spila bingó og fara á diskótek á föstudaginn langa. Það er einmitt það sem við þurfum – að afnema friðinn. Finnst fólki í alvörunni vont að hafa frið í örfáa daga? Svei þessu öllu saman. Það veit ég að sannkristnir guðhræddir forfeður mínir hefðu tekið þetta óþekka hyski og rasskellt það.
Þjóðarleikhúsið setti nú nýverið upp helgileikinn Jesus Christ Superstar að erlendri fyrirmynd. Óþarfi er að fara í löngu máli yfir söguþráð og annað slíkt en þó má segja frá því að í þessari uppsetningu er Júdas leikinn af Ólafi Ólafssyni, hinir lærisveinarnir eru leiknir af meðlimum úr S-hópnum og Jesús Kristur er leikinn af fulltrúa yfirvalda á þeim tíma þegar sagan gerist. Leikstjóri er hinn margverðlaunaði þýski dramatúlkur Hackund Afhauser.
Í dag var keppt í hinni árlegu 25 kílómetra píslargöngu sem genginn er í krossfit-stíl upp á topp Golgatahæðar við Jerúsalem. Það skiptir engu máli hver vinnur, allir eru jafnir fyrir Guði. Þegar hér er komið við sögu ætlaði ég að koma með brandarann sem fjallar um það af hverju Jesús getur ekki borðað M&M en af ótta við að móðga lesendur ætla ég að sleppa því.
Haldið þið bara áfram að lifa og leika ykkur um páskana. Gerið þið það bara. Ég ætla að halda áfram að loka mig af bak við predikunarstólinn, lesa gömul kristinfræði og fussa og sveia þegar ég heyri minnst á útlandaóða snjallsímasjúka peningasólundandi Íslendinga góðæra sig í drasl hvar sem því verður við komið.
Hvernig verður vorið? Það veit ég ekki. Ég veit bara hvernig faðir vorið verður. Og hvernig það er. Og hvernig það mun verða um aldir alda. Amen. Takið hinni kostulegu kveðju.
Jesús Kristur kappinn sá
klígju fékk af þófinu
krossinn negldur var hann á
syndir manna tók sig á –
ég féll á krossaprófinu.
Jesús var, með réttu, hryggur á páskunum – sérstaklega þegar hann hafði boðið sveinum sínum í læri.
Einar þakkar fyrir allt. Ari.
Tilvitnun dagsins:
Allir: AMEN!