Góðir Íslendingar.
Landið er fagurt og frítt og fannhvítir jöklanna tindar. Land míns föður, landið mitt. Hver á sér fegra föðurland með fjöll og dal og bláan sand? Fögur er hlíðin og þá einkum og sér í lagi þar sem háir hólar hálfan dalinn fylla og lækirnir fossa af brún því enginn reisir fangelsismúr úr æðadún. Hmm… Ég er staddur hér á hólmanum þar sem Gunnar snéri aftur og ég hef ákveðið að eigi skuli sigla – enda öxar við ána. Ísland er ögrum skorið, fjarlægðin gerir fjöllin blá og langt til Húsavíkur. Auðvitað er ég ekki á neinum hólma, ég er í öndvegi íslenskra dala þar sem af lynginu er ilmurinn sætur. Nú er þjóðhátíð á næstu grösum, fjallkonan skýtur upp kollinum í fullum skrúða og sjálfur er ég fullur í skrúða.
Íslenska knattspyrnuundrið heldur áfram að koma milljónaþjóðum og alvitrum sparkspekingum í opna skjöldu. Nú þegar heimsmeistaramótið í knattspyrnu karla stendur yfir í Rússlandi stendur þjóðin á öndinni yfir strákunum okkar og heimsbyggðin gerir það reyndar líka. Sé horft til höfðatölu erum við heimsmeistarar og unnum Argentínu örugglega í dag 1-1. Hver veit hvar og hvenær þetta ævintýri endar? Kvikmyndaleikstjóri ver víti, starfsmaður Saltverks heldur Messi í skefjum og tannlæknir situr og skrifar minnispunkta á hliðarlínunni. Ég held að þetta sé helst spurning um hver það verður sem leikstýrir kvikmyndinni sem verður búin til í náinni framtíð um þennan höfðatöluheimsmeistaratitil örþjóðarinnar í norðri.
Á morgun verða liðin 207 ár frá fæðingu frelsishetjunnar Jóns Sigurðssonar, eins merkasta Íslendings sem uppi hefur verið. Hann er raunar enn uppi, bæði uppi á vegg í Alþingishúsinu og uppi á stalli á Austurvelli þar sem hann er meitlaður í stein. Jón forseti var í forsvari fyrir sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og barðist hetjulega gegn ofríki gömlu herraþjóðarinnar á sínum tíma. Jón lést mörgum áratugum áður en Ísland varð lýðveldi en hann átti samt sinn þátt í því segja heimildir. Ég veit þetta ekki persónulega, þetta var löngu fyrir mína tíð. Fyrir tilstuðlan Jóns öðluðust Íslendingar verslunarfrelsi og losnuðu undan helsi, klæddust síðan pelsi og hættu svekk elsi. Hmm þetta var nú ekki sérstaklega góður endir á annars ágætri þjóðhátíðarumfjöllun um Jón afmælisbarn Sigurðsson, þó ég segi sjálfur frá.
Nú þegar Ísland hefur verið fullvalda í tæpa öld er ágætt að staldra við og líta til baka á það sem hefur áunnist síðan landsmenn frusu í hel hver á fætur öðrum frostaveturinn mikla 1918. Kúguð, smáð og einangruð þjóð lengst norður í ballarhafi, afskipt og einangruð frá hinum stóra heimi og með risastóran sultardropa á nefbroddinum. Þetta breyttist eftir því sem áratugirnir liðu. Tæknin hélt innreið sína ekki löngu eftir að Hannes Hafstein varð fyrsti ráðherra fullveldisins, tíðin skánaði og sultardropinn hvarf. Áratugirnir liðu. Bílar, skip og flugvélar komu til sögunnar og svo kom hin nýja samskiptabylting með öllum sínum netsamböndum og snjallsímum. Þjóðin hefur ráðið sér sjálf í meira mæli eftir því sem tíminn hefur liðið og tókst meira að segja að komast undan dönsku krúnunni þarna um árið og fá sína eigin kennitölu. Eða nafnnúmer eins og það hét þá. Hugsanlega. Smám saman hefur okkur vaxið ásmegin og smám saman hefur okkur þótt meira til okkar sjálfra koma. Ferðamönnum hefur þótt þessi uppgangur þjóðarinnar lygilegur og stórmerkilegur í senn og undanfarin ár hafa þeir flykkst hingað í tugþúsunda tali til að leita hins heilaga grals. Hvar endar þetta allt saman? Það endar sennilega með því að Ísland kemst ekki upp úr riðlinum á heimsmeistaramótinu, erlendir ostar útrýma þeim íslensku af markaði og íbúar í Árneshreppi virkja hver annan. Það er að segja ef allt fer á versta veg.
Um hver jól koma jólasveinarnir af fjöllum og þann 17. júní ár hvert kemur fjallkonan af fjöllum. Hvaðan annars staðar frá ætti hún að koma? Í þau 74 ár sem liðin eru frá stofnun lýðveldisins hefur fjallkonan komið til byggða á hverju einasta ári í miðjum þjóðhátíðarhöldunum og stolið senunni með eins og einu góðu ættjarðarljóði og óaðfinnanlegum klæðaburði og sviðsframkomu. Alltaf hefur mér þótt þetta jafn tilkomumikið og mikið óskaplega hefur fjallkonan haldið sér vel gegnum árin. Engin aukakíló, engir titrandi bingóvöðvar og engir baugar fyrir neðan augun. Allt svo slétt og fellt. Nýjustu fréttir benda þó til þess að landsmenn hafi verið hafðir að fíflum öll þessi ár og ég þar meðtalinn. Það hefur nú sem sagt verið opinberað að fjallkonan sé í fyrsta lagi tilbúningur í tilbúningi en ekki alvöru skutla í skautbúningi og í öðru lagi að hún sé klæðskiptingur. Dámi mér ekki, eftir öll þessi ár. Fjallkona sem heitir Sigurður. Hvað svo? Sigurður sem heitir í raun og veru Sigríður? Ég gat svo sem sagt mér það sjálfur að það væri eitthvað bogið við þetta allt saman. Ekkert má vera í friði, alltaf þarf að hrófla við ríkjandi siðum og hefðum. Öllu er á rönguna snúið og öllu virðist vera á botninn hvolft. Aldrei þó eins bókstaflega og nú. Trúlega munu þjóðhátíðarhöldin drag-ast aðeins á langinn – sérstaklega ef forystusveit skrúðgöngunnar leiðir hana öfuga niður á Austurvöll. Þar munu þær eigna sér sviðið fjallkonurnar tvær. Önnur með skúf og hin með kúlur.
Hann Sigríður bóndi er heima í depurð og sorg
Sigríður spark fékk í punginn og rak því upp org,
á meðan hún Sigurður fjallkona skeiðar um torg
skaut* hennar dinglar í öfugri hinsegin borg.
*skv. íslenskri orðabók getur skaut þýtt ‘sérstakur höfuðbúnaður kvenna notaður við faldbúning’ og ‘kvensköp’ auk fleiri merkinga.
Góðir Íslendingar. Tökum okkur fótboltastrákana til fyrirmyndar. Sýnum samstöðu, myndum sterka liðsheild og niðurlægjum milljónaþjóðir. Þær eiga það svo sannarlega skilið.
Heill forseta vorum og fósturjörð. Ísland lengi lifi, húrra húrra tómatpúrra.
Grasbalinn sunnan við Sundskála Svarfdæla.
16. júní 2018.
Einar Okkar Hafliðason, fjall(myndarleg) kona.
Tilvitnun dagsins:
>Allir: Hæ hó HÚH!!