Greinasafn fyrir flokkinn: Pistlar & Pillur

Orðin upp úr jörðinni

Gosglöðu lesendur.

Þegar gýs þá þarf að skoða gosið, þó vissulega hefðu sumir kosið að finna íshelli hvar allt er frosið og fest á filmu jökulkalda brosið. Eruð þið alveg í spreng? Losið. Ef þið eruð föst, þá tosið.

Það hefur orðið vart við töluverðan óróa á Reykjanesi undanfarið. Um ræðir svokallaðan gosóróa sem nær bæði til jarðskorpunnar og eins til ferðamanna sem eru afar gosórólegir og ekki í rónni fyrr en þeir komast upp að eldgosinu…og helst ofan í gíginn. Hraunjaðarinn kallar fólkið til sín og sumir hafa raunar gengið svo langt að ganga of langt, alla leið inn á nýja hraunið og leggja sig þar með í stórkostlega hættu. Hættu. Sumum er ekki viðbjargandi og það mun væntanlega raungerast ef fólk passar sig ekki. Í Vestmannaeyjum halda menn upp á goslok en ferðamannaiðnaðurinn þráir ekkert heitar en að gosið muni malla áfram næstu mánuðina. Ef að líkum lætur verður fjölmennsta útihátíðin um verslunarmannahelgina Gosi 23 – Gosgleðin við Litla-Hrút. Þessa dagana er verið að leggja drög að bílastæðum, salernisaðstöðu, malbikuðum vegi, veitingasölu og uppsetningu útisviðs við gosjaðarinn. Það verður margt í boði á Gosa 23. Slökkviliðið í Grindavík mun sýna tækjabúnað sinn, börnin fá hraun, gos og sinubrennt kandífloss og hápunkturinn verður auðvitað hinn klassíski mannvitsbrekkusöngur við gígbarminn á sunnudagskvöldinu þar sem Brunaliðið stígur á stokk, Pálmi Gunnars tekur Af litlum neista og Eivör flytur singalong útgáfu af Nú brennur þú í mér. Eini gallinn er hversu erfitt er að syngja þegar þú ert með lífsnauðsynlega gasgrímu á andlitinu en það verður víst ekki á allt gosið…kosið.

Til fróðleiks; fimm misheitir eða kaldir ferðamannastaðir á Íslandi, mældir á celsius:

  • Eldgosið við Litla-Hrút, 1.100 gráður.
  • Vegurinn yfir Hellisheiði, 100 gráður.
  • Geysir, 80 gráður.
  • Bláa lónið, 37 gráður.
  • Bloggsíða Einars Haf, vitsmunalegt alkul.

Í þessa upptalningu vantar reyndar býsna heitan áningarstað ferðamanna; Urðakirkju í Svarfaðardal. Þangað hefur á þriðja tug ferðamanna lagt leið sína það sem af er sumri og orðið agndofa yfir fegurð staðarins sem og fegurð ábúenda á Urðum. Hingað til hafa hús og híbýli hér á jörðinni, þar á meðal kirkjan, verið upphituð með rafmagni þar sem engin hitaveita er á staðnum. Nú er rafmagnið hins vegar orðið svo dýrt að sóknarnefnd hefur séð sig knúna til að snúa sókn í vörn og skrúfa niður í rafmagnsofnunum í kirkjunni í sparnaðarskyni. Dýrð sé Guði í rosalega háum upphæðum á reikningum frá Rarik og Orkusölunni. Amen. Héðan í frá mun þurfa að treysta eingöngu á trúarhitann til að kirkjan haldist frostfrí. Hólí mólí.

Hvernig var þetta með djöfulinn? Stóð’ann eða sat’ann? Man þetta aldrei.

Það er víða hiti í kirkjum og sóknarbörnum landsins, hvort sem hann stafar af hitaveitu, raforku eða trúarhita. Á Biskupsstofu er mjög heitt og einhverjir sveittir á efri vörinni en það er vegna þess að þar logar allt stafnanna á milli. Mikil ringulreið ríkir innan Þjóðkirkjunnar eftir að því var slegið upp í fréttum að það væri ekki Guð Almáttugur sem skipar biskup í embætti eins og flestir héldu, heldur sjá forseti kirkjuþings og ritari biskupsstofu um það á svokölluðu gráu svæði. Þetta kom mörgum í opna skjöldu. Hver skipar þá eiginlega forseta kirkjuþings og ritara biskupsstofu í embætti? Nú auðvitað Páfinn. Samkvæmt fréttum ríkir lagaleg óvissa um stöðu biskups en ég er lagalega óviss um hvað það þýðir. Ég gæti þurft að glugga í Biblíuna til að átta mig á þessu en eins og allir vita er svörin að finna í hinni helgu bók.

Til stóð að biskup fengi að halda embætti sínu þar til tækist að vígja nýja Miðgarðakirkju í Grímsey. Þar hefur framkvæmdatími hins vegar riðlast og framkvæmdakostnaður rokið upp úr öllu valdi. Fyrir smiðum og arkitektum er einn dagur sem þúsund ár og framvinda verksins öll í samræmi við það. Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri mun kostnaðurinn verða orðinn allt að því himneskur þegar verkinu loksins lýkur, einhvern tímann milli jóla og páska. Þá er eins gott að fara að biðja Guð að hjálpa sér.

Heyr kirkjusmiður
Grímseyingur biður
guðshús um að fá
þó það kosti smá. 
Senn þeir gerast gramir
óhamingjusamir
ennþá kirkju án
með yfirdráttarlán.

Ég er ekki viss um að það sé góð hugmynd að hætta sér út í þessa sálma. Er ekki miklu skemmtilegra að tala um hlýnun andrúmsloftsins, brotthvarf hafstrauma og yfirvofandi tortímingu hins byggilega heims? Æi ég nenni því ekki. Hvað þurfa Íslendingar annars að gróðursetja mörg tré til að kolefnisjafna þetta eldgos?

Þegar ég heyri fréttir og les blöð og netmiðla verð ég ekki bara hvumsa, gáttaður og hneykslaður heldur einnig steinhissa og rasandi bit. Til dæmis kemur það mér auðvitað rosalega á óvart að við Íslendingar skulum enn vera að bæta í útblástur gróðurhúsalofttegunda, þvert á öll markmið og allar samþykktir alls staðar. Bíðið andartak meðan ég næ hökunni upp úr gólfinu. Ég meina, fólki fjölgar, ferðamönnum fjölgar, bílum fjölgar, skemmtiferðaskipum fjölgar, eldgosum fjölgar, utanlandsferðum fjölgar og ástæðum til að breiða upp fyrir höfuð og gefast upp fjölgar. Þess vegna kemur þetta svakalega á óvart. Það má reyndar geta þess að bloggsíða Einars Haf stefnir á orkuskipti fljótlega, enda er Einar Haf alveg grænn í flestum málum.

Svört, svört, svört er lifrin mín um helgar
svört, svört, svört er loftslagsskýrslan mín
ekkert er bjart, bjart, allt er bara svart, svart
svart er útlitið og bókhaldið. 

Þess má geta að samkvæmt nýjustu útreikningum er vonlaust að kolefnisjafna eldgosið með gróðursetningu trjáa þar sem þau munu fyrr en síðar verða skógareldum að bráð – og auka þar með enn á vanda okkar.

Einar heitur og líka pínu feitur.

Tilvitnun dagsins:

Allir: HEEEIIIITTTTT!!!!

Orð lýðveldisins

Góðir Íslendingar.

Þar sem ég stend hér á hlaðinu, hagræði mér í skautbúningnum, les uppáhalds greinarnar mínar úr stjórnarskrá íslenska lýðveldisins, helli upp á Braga kaffi, steiki kleinur, tek verðtryggt lán, þamba fjallavatn og horfi yfir fífilbrekku og gróna grund get ég ekki annað en fellt tár. Bæði vegna eigin fegurðar og einnig vegna fegurðar landsins. Ósnortin náttúra lætur engann ósnortinn. Lesendur fella líka tár en það tengist þó ekki ósnortinni náttúru heldur þeirri staðreynd að hátíðarávarp hinnar Svarfdælsku fjallkerlingar er nú komið í loftið. Þess má geta að fjallkonan í ár er greind í þykistunni, sem sagt gervigreind.

Þjóðlegu landsmenn. Það eru erfiðir tímar og jafnvel atvinnuþref. Fjárhagsstaða margra er slæm, vonin dræm, Geiri var Sæm og ég á ekkert Daim. Einkum og sér í lagi er fjárhagsstaða ríkissjóðs döpur og skuldastaðan nöpur. Langlundargeð Íslendinga er sem betur fer endurnýjanleg auðlind. Þessi auðlind hefur verið virkjuð óspart og ítrekað til að halda ríkisfjármálunum á floti gegnum árin og áratugina. Í dag má reyndar ekki virkja neitt nema þá hugsanlega ímyndunaraflið en Íslendingar eru alveg grænir þegar kemur að grænum orkuskiptum. Alltaf þegar gefur á bátinn og vandi steðjar að ríkissjóði eins og nú um stundir kemur þjóðin til bjargar og borgar glöð hærri skatta og hærri gjöld svo hið opinbera geti staðið undir sér og mér. Ég meina, það kostar skildinginn að framfleyta heilli fjallkonu. Það er von ráðamanna að íslenska langlundin gangi ekki til þurrðar í náinni framtíð, því ef svo fer erum við öll í djúpum skít.

Er þetta hóll eða hæð? Nei sérðu ekki að þetta er fjall kona!

Afsakið, smá hökt í útsendingunni og snökt í fjallkonunni. Ekki grunaði mig að það væru alvöru rafskaut á þessum skautbúningi en það er önnur saga.

Þolgóðu landsmenn. Það er ekki nóg með að ríkissjóði sé borgið ef þið borgið. Með sama hætti og af sömu fádæma fórnfýsi borgar þjóðin glöð hærri vexti og hærri verðbætur þannig að hér geti áfram þrifist sómasamlegt bankakerfi með ofurlaunum, arðgreiðslum og hæfilegu magni af siðblindu eins og tíðkast í hinum siðmenntaða heimi. Maður tárast bara yfir eljunni. Já og óspilltu náttúrunni líka. Grenjuskjóða.

Þrautreyndu landsmenn. Ríkið – það er ég. Sagði einhver. Einhverntímann. Ég borga minn fjallkonuskatt með glöðu geði og legg þar með mitt af mörkum til samneyslunnar. Ég læt þó ekki þar við sitja. Ég hef með óhóflegum akstri milli Svarfaðardals og Akureyrar reynt að láta gott af mér leiða gegnum eldsneytisgjöld á liðnum árum. Þá hef ég tekið áfengisgjaldið til kostanna og fagna ég því ákaft í hvert sinn sem ráðamönnum dettur í hug að hækka gjaldið í þágu þjóðarinnar. Auðvitað læt ég það ekki eftir mér að fara reglulega í drykkjarvöruverslun ríkisins, kaupa ríkisdjús á ríkistaxta og detta svo í það í þágu góðs málefnis og með góða samvisku. Er neyslan vandamál? Já pínu en þetta kemur samneyslunni vel þannig að ég er sáttur. Mig er samt aðeins farið að klæja undan skautbúningnum og svo svíður mér í framan vegna allra táranna sem féllu hér áðan. Vælukjói.

Þjökuðu landsmenn. Næst ætla ég að fjalla um fjallavötnin fagurblá, föðurlandið, land míns föður, landið mitt, laugað bláum straumi og þá fjölmörgu kosti og örfáu galla sem Ísland hefur. Full fyrirsjáanlegt? Já ég er full fjallkona og það var fyrirsjáanlegt. Ef til vill þó ekki jafn fyrirsjáanlegt og þegar forsætisráðherra talaði um verðbólgu í sínu hátíðarávarpi. Viltu ekki bara fara að grenja? Jú ég er reyndar löngu byrjaður á því.

Þrælmyndarlegu landsmenn. Íþróttafólkið okkar heldur áfram að gera það gott vítt og breitt um heiminn. Nýjasta dæmið er íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu sem er nú komið með nýjan og ferskan norskan ellilífeyrisþega, Áka Háreyði, sem aðalþjálfara. Liðið hélt upp á það í dag með því að yfirspila Slóvaka og tapa samt bara 2-1. Ha? Já. Mér þótti þetta líka vel sloppið. Slóvakar eru jú margfalt fleiri, margfalt stærri og margfalt heppnari en við. Ef einhvern tímann var rétt ákvörðun að leggjast í grasið og gráta var það í leikslok nú áðan því ef þú vorkennir ekki sjálfum þér, hver á þá að gera það? Sé ég tár á hvarmi? Já, réttið mér vasaklútinn.

Þurrpumpulegu landsmenn. Bráðum kemur ekki betri tíð því betri getur tíðin ekki orðið. Ég meina, 20 gráður og hægviðri. Gerist ekki betra. Þetta vitum við fullvel en samt berjum við höfðinu við steininn og viljum meira enda vel full og það veit ég líka fullvel. Aldrei myndi neinn bláedrú berja höfðinu við stein viljandi en slysin geta gerst. Í tilefni af góðri tíð og vegna fjölda áskoranna hófu Urðabændur heyskap fyrir miðjan júní sem heyrir til tíðinda. Oft höfum við beðið þess að blómstrið eina spretti úr sér áður en látið er til skarar skríða en í ár var ákveðið að reyna nýja og óvænta nálgun. Ólíkt bloggsíðu Einars Haf var að þessu sinni lögð meiri áhersla á gæði heldur en magn þannig að rúllurnar eru það sem af er í færri kantinum en þeim mun gæðalegri. Ósléttu óslegnu túnin eiga vonandi eftir að spretta nokkuð næstu daga og þá verður vonandi hægt að halda baráttunni áfram. Það sem þú gerir í sveitinni á sumrin gengur jú allt út á það að hjálpa þér og bústofninum að lifa næsta vetur af, með einum eða öðrum hætti. Hey grasasni, ertu enn að væla? Já afsakið, er þessi skautbúningur ekki örugglega vatnsheldur?

Ísland er æði, það vitum við öll,
karlar og konur kenndar við fjöll.
Náttúran ósnortin, tárast ég senn
við að hugsa um vindbarða hrafnistumenn.  

Þrútnuðu landsmenn. Þrátt fyrir margbreytilegar hörmungar og hrylling í heiminum hef ég fulla trú á því að þetta verði allt í lagi. Já þetta lagast pottþétt allt saman. Þetta reddast eins og alltaf. En auðvitað get ég leyft mér að halda því fram, komandi af fjöllum þegar öll erfiðu málin ber á góma. Hvað er best að bera á góma? Örugglega bara tannkrem.

Bletturinn við samkomuhúsið Höfða í Svarfaðardal, 17. júní 2023.

Einar fjallkonur.

Tilvitnun dagsins:

Allir: Áfram Ísland!

Orðin leið toga fund í sundur

Vel vörðu lesendur.

Veturinn var grimmur og gaf mér fáa kosti, svo ógurlega dimmur með alltof miklu frosti. Í sumarbyrjun samloku ég fæ með smjöri og osti, bloggskrif Einars valdið hafa aðdáendum losti. Að sleppa þessum inngangsorðum, hvað ætli það kosti?

Sumar og vetur frusu ekki saman fyrr en tæpum mánuði eftir að sumarið byrjaði. Boðar það ekki gott? Nei. Það boðar heldur ekki gott að Einar Haf skuli hafa risið upp á afturlappirnar og lagt til atlögu við lesendur. Netnotendur þurftu að sitja undir stöðugum netárásum í tengslum við leiðtogafund Evrópuráðsins þar sem meðal annars var ráðist á vefsíður Alþingis, dómstóla, ráðuneyta og Dalvíkurbyggðar. Alvarlegasta netárásin af þeim öllum er þó klárlega yfirstandandi netárás Einars Haf, sem notar netið til árása á grunlausa lesendur. Það er að vísu ekki fréttnæmt.

Ég er hvorki á nöglum né nálum yfir veðurkortunum, enda kominn á sumardekkin. Ég lét umfelga þegar sumarið gekk í garð og ætlaði að koma mér aftur á sömu dekk og tekin voru undan bílnum í haust (desember reyndar). Bílnum? Já, þið munið. Nissan Quashqai árg. 2016 með leðjubornum undirvagni, sætishita, samanleggjanlegum aftursætum, bakkmyndavél sem aldrei sést neitt í vegna drullu og geisladiskaspilara svo fátt eitt sé nefnt. Frábær bíll en skelfileg dekk? Já. Það kom í ljós að eitt dekkið var ónýtt og ekki á vetur setjandi…í sumar. Ekki gekk að kaupa bara eitt nýtt dekk og ég keypti því tvö ný dekk og hugðist nota tvö minnst ónýtu sumardekkin að aftan. Eftir umhugsun sprenglærðra dekkjasérfræðinga, það er að segja níkótínpúðaðra ávaxtaanganveipandi karlakarla með tattú upp um alla handleggi, var niðurstaðan hins vegar sú að kaupa 4 ný sumardekk. Tvö notuðu dekkin að aftan væru svo ólík nýju óslitnu dekkunum tveimur að framan að það myndi aldrei enda öðruvísi en illa. Ég lagði niður skottið, lokaði skottinu, borgaði tæpar hundrað þúsund krónur og spændi svo í bláa botni út á götu á glænýjum dekkum. Einar úti að aka? Það er ekki fréttnæmt.

Dekkjaþemað hefur teygt sig mun lengra en ég gerði ráð fyrir í upphafi. Skítadreifarar, dráttarvélar og önnur tæki sem ég hef komist í tæri við hafa flest endað á felgunni með ófyrirséðum afleiðingum og verulegum fjárútlátum. Ég var varla byrjaður að hugsa um það að þeyta kúamykju um allar koppagrundir þegar keðjudreifarinn affelgaðist. Þeir hjá Steypustöðinni gátu bjargað því en á sama augnabliki og dekkið fór undir aftur varð gamla Ferguson dráttarvélin loftlaus úti á túni. Þeir hjá Steypustöðinni gátu bjargað því en í síðustu skítkeyrsluferðinni kom gat á dekk keðjudreifarans og aftur varð dreifarinn, sem ég kalla reyndar lortaþeyti við hátíðleg tækifæri, vindlaus – eins og ökumaðurinn. Þeir hjá Steypustöðinni ætla að bjarga því en æru og sjálfsáliti undirritaðs verður hins vegar ekki bjargað, ekki einu sinni af Steypustöðinni. Það er ekki fréttnæmt, bara sorglegt.

Það fór auðvitað mjög illa, jafnvel afleitlega, fyrir okkur Íslendingum í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva nýverið en það er að vísu ekki fréttnæmt. Þrátt fyrir mikla fyrirhöfn og mikinn tilkostnað varð niðurstaðan 11. sæti af 15 í síðari undankeppninni og þar með var draumurinn um Nínu búinn. Sérfræðingar telja að umdeildar hvalveiðar Íslendinga hafi riðið baggamuninn og orðið til þess að góða fólkið í Evrópu kaus okkur ekki áfram. Þá er ljóst að vinsældir Íslands hafa enn ekki náð fyrri hæðum eftir bankahrunið, Icesave klúðrið og Eyjafjallajökulsgosið. Gæði júróvísjónlags og flutningur skipta litlu máli samanborið við hið pólitíska landslag. Hvaða lag var svo best? Pólitískt landslag? Nei reyndar bara sænskt verksmiðjupopplag flutt af marflatri, muldrandi söngkonu íklæddri leðjubrúnni lufsu og gervikrumlum en það er alls ekki fréttnæmt. Og þú færð að sjá það sem enginn sér.

Það var nú alveg meiriháttar fyrir okkur Íslendinga að fá eitt stykki leiðtogafund Evrópuráðsins upp í hendurnar þarna um daginn, nánast á silfurfati. Öll þessi landkynning og allt þetta umtal mun koma okkur vel þegar góða og rétthugsandi fólkið í útlöndum ákveður hvaða land það eigi að heimsækja næst, nema kannski fólkið sem er á móti hvalveiðum og kaus okkur ekki í Júróvísjón. Við kærum okkur hvort eð er ekkert um það fólk hingað. Ísland, fagra Ísland. Landið sem er svo dúllulegt og æðislegt. Nú sér heimurinn allur að það er einfalt og öruggt að heimsækja Ísland. Umstang og öryggisgæsla við leiðtogafundarhöldin kostaði einungis um 2 milljarða króna sem kallast vel sloppið. Þökk sé lögregluliði með alvæpni, þyrlueftirliti og víðtækum götulokunum gátu Ali Baba og ráðamennirnir fjörtíu verið alveg öruggir þar sem þeir sátu innan um glerveggina og gróðurhúsamosann í Hörpu og hlýddu hver á annan ræða um heimsfrið eða skort á heimsfriði. Steðjar vá að heimsbyggðinni? Vá, segi ég nú bara….en það er alls ekki fréttnæmt. Helsta umræðuefni fundarins mun hafa verið hversu góð öryggisgæsla var á fundinum og nauðsyn þess almennt að hafa góða öryggisgæslu fyrir þjóðarleiðtoga. Í lok fundarins sendi fundurinn frá sér ályktun þess efnis að Rússar væru bara leiðinlegir en sem betur fer hafi þjóðarleiðtogunum liðið vel á fundinum vegna góðrar öryggisgæslu og þeir geti vel hugsað sér að koma aftur til Íslands.

Þó það sjáist ekki endilega á þessari bloggfærslu þá fór ég nýverið á námskeið í skapandi skrifum, öðru sinni. Þar var reynt að hrista upp í heilasellunum og virkja sköpunarkraft nemenda við sagnaskrif, uppbyggingu sögu og persónusköpun svo eitthvað sé nefnt. Þetta er spurning um í hvaða persónu maður skrifar, fyrstu eða þriðju? Já það er nú það Einar. Allt saman ljómandi skemmtilegt en hver er svo árangurinn?

Jónas stökk bak við runnann þegar hann varð þess áskynja að Stefanía stóð við gluggann með kaffibolla og horfði út í vorið. Stefanía heilsurúmasölukona, eða það hét hún í huga Jónasar að minnsta kosti. Hann ætlaði sér að koma henni á óvart, hringja dyrabjöllunni og bjóða henni út að borða í eigin persónu, af því hann þorði ekki að gera það í versluninni. Lúmskur eins og grafarræningi að forðast það að lenda í gildru stiklaði hann á milli trjágróðurs og blómabeða í bakgarði Stefaníu. Hann ætlaði sér að spyrja hvort hann mætti ekki bjóða þessari huggulegu konu út að borða og á sinfóníutónleika. Reyndar ætlaði hann sér að selja henni SÁÁ álfinn í fjáröflunarskyni en hitt átti svo að fylgja með. Hann hafði vitað frá því hann keypti af henni Deluxe heilsurúmið og Tempura koddann í Svefn og heilsu að þessari konu yrði hann að selja álfinn….já og svo eitthvað meira. Hann var svo sem bara með vinnusímann hennar en það voru nægar upplýsingar á þessu stigi. Ekki var hún með hring á fingri. Og hún hafði jú hvatt hann til að hafa samband hversu ómerkilegar spurningar hann kynni að hafa um nýja heilsurúmið. Jónas reyndi að réttlæta fyrir sjálfum sér að banka upp á hjá Stefaníu en hann þurfti svo sem ekki réttlætingu til að fara og selja henni álfinn. Verra væri með það sem á eftir kæmi.

Ég skil. Enginn árangur sem sagt. Jæja, það mátti reyna. Sömu sögu er að segja af Niceair; það mátti reyna. Þegar á reyndi reyndist erfitt að reka flugfélag án flugvélar og því fór sem fór….eða fór ekki neitt. Farþegar sitja eftir með sárt ennið og tómt veskið en það er þó huggun harmi gegn að hugurinn ber þá hálfa leið. Eini sénsinn að Íslendingum takist að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið í náinni framtíð er sá að fleiri flugfélög fari á hausinn og hætti starfsemi – og hætti þar með kolefnisútblæstri. Vonum það besta og verum bjartsýn….sem er reyndar fréttnæmt.

Tíðarfar í maí hefur verið nokkuð blautt, eins og ég, en það er ekki fréttnæmt. Það hefur líka verið töluvert hvasst, svona eins og viðmót mitt en það er ekki fréttnæmt. Sólin er einhvers staðar í felum eins og mitt innra sjálf en það er ekki fréttnæmt. Malarvegurinn er holóttur eins og persónuleiki minn en það er ekki fréttnæmt. Ég veit reyndar ekki hvers vegna ég er að segja ykkur þetta þar sem þetta er ekki fréttnæmt en það er reyndar ekki fréttnæmt heldur.

Í Hörpu herrar dagpart dvöldu
drottnarar á landi köldu
ræddu heims um ból
gott var þeirra skjól
í sprengjubyrgi margföldu. 

Stýrivaxtahækkun, ófremdarástand á húsnæðismarkaði, skuldafangelsi og landflótti? Nei, ekki fréttnæmt heldur.

Einar fréttaónæmur.

Tilvitnun dagsins:

Allir: HVAÐ ER AÐ FRÉTTA???

Orð í kross

Trúarlegu lesendur.

Þjáningarnar eru miklar. Sársaukinn er áþreifanlegur. Sorgin er alltumlykjandi. Það er við hæfi að sorglegasti og langorðasti bloggarinn Einar Haf í samstarfi við þjóðkirkjuna og Golgata tannkrem birti sorglega og langa bloggfærslu á sorglegasta og lengsta degi ársins. Vá hvað þetta er sorglegt.

Já manni er nú ekki hlátur í hug á þessum degi, enda er þetta dagur sorgar og dagur lyga. Jesús var svikinn, dæmdur og krossfestur af fjandmönnum sínum og höfum við hin fengið að súpa seyðið af þeim gjörningi allar golgötur síðan.

Nútíma útgáfa krossfestingar kallast slaufun og getur verið alveg jafn sársaukafull og hamar og naglar í lófann. Jesús reis á þriðja degi aftur upp frá dauðum en hins vegar eru aðeins örfá dæmi þess að slaufaðir rísi aftur upp frá dauðum. Í þau fáu skipti sem það gerist er það alltaf jafn umdeilt og ótrúlegt, alveg eins og hjá Kristi forðum. Svo getur það reyndar líka gerst að þeim sem slaufa er slaufað , ekki satt Frosti?

Ég ætla auðvitað ekki nánar út í þessa sálma, enda má ég ekki við slaufun. Það er miklu nær og raunar mun meira viðeigandi að fara út í Passíusálmana. Þar fer séra Hallgrímur Pétursson í ramm stuðluðu máli og miklum smáatriðum yfir píslarsöguna og allar þær þjáningar sem Kristur mátti þola. Sálmarnir eru lesnir viða í kirkjum landsins nú um páskahátíðina og ekki vanþörf á. Þeir sem ekki nenna að hlusta á passíusálmana geta auðvitað tekið sorgina upp á næsta stig og hlýtt á upplestur ríkisstjórnarinnar á nýrri fjármálaáætlun en þar eru þjáningarnar einnig í fyrirrúmi. Sérstaklega sorgleg þykja erindin um hækkun tekjuskatts á fyrirtæki og frestun ríkisframkvæmda.

Það næsta sem ég hef komist því að fara á kenderí það sem af er þessum páskum var þegar ég gekk til altaris í Urðakirkju að kveldi Skírdags og teigaði blóð krists úr bikar lífsins. Mæting í messuna var sorgleg eins og flest annað sem talið hefur verið upp hér í þessari bloggfærslu. Eflaust dró það nokkuð úr mætingu þegar spurðist út hver myndi hringja kirkjuklukkunum og eins þegar það fréttist að heimilisfólkið á Urðum myndi ekki opna húsakynni sín að messu lokinni og bjóða gestum og gangandi upp á messukaffi. Þegar metta þarf heilan kirkjukór og tæpan tug kirkjugesta duga ekki fimm brauð og tveir fiskar líkt og í gamla daga, þess vegna var alveg eins gott að sleppa þessu og láta oflátuna duga. Eins sorglegt og það nú er.

Mikið súkkulaði hefur bráðnað til sjávar síðan fyrsta páskaeggið var steypt í mót og ungi settur ofan á. Í dag er hægt að fá allar stærðir og allar gerðir af páskaeggjum, með mismunandi bragði, mismunandi á litinn og mismunandi áferð. Innihaldið er einnig afar mismunandi og þá eru ótaldir sjálfir málshættirnir, sem eru í raun það sem málið snýst um. Ég get alveg tekið það á mig að stúta heilu páskaeggi svo lengi sem ég fæ góðan málshátt. Í fyrra fékk ég málsháttinn ,,enginn verður af einum bita feitur“. Þetta hef ég haft í huga í öllum matartímum síðan og bara tekið einn bita. Svo tekur maður einn bita, síðan einn bita, þá einn bita og þannig koll af kolli. Virkar þetta? Nei alls ekki og auðvitað bita ég mig á það. Já og meðan ég man, ég er ekki eins framstæður og margir halda en hins vegar er ég afar bitastæður.

Tollheimtumenn og farísear mæla eindregið með óverðtryggðum lánum á breytilegum vöxtum. Síðan kemur 10% verðbólga og vaxtahækkun. Þá koma tollheimtumennirnir og farísearnir og hirða af ykkur húsin upp í skuldir. Bankastjóri Jerúsalembanka, Pontíus Pílatus, telur ekkert óeðlilegt við þetta ástand og bendir á að sá yðar er syndlaus er lendir fyrst í vanskilum.

Í öðrum sorglegum fréttum er það helst að aðalfundur Ungmennafélagsins Þorsteins Svörfuðar var haldinn síðastliðið miðvikudagskvöld að viðstöddu fámenni. Fundurinn var í sjálfu sér alls ekki sorglegur en mætingin var frekar sorgleg, ef ekki grátleg. Á fundinum var samþykkt að greiða 5% launahækkun, óbreytta risnu en engan arð. Gjaldkeri félagsins neitar nú sem fyrr að víkja sæti og því lítil von til þess að ástandið skáni eitthvað á næstunni. Til að ná nýju og fersku blóði inn í félagið hefur stjórnin leitast við að skipa fólk í nefndir án vilja og vitundar viðkomandi. Sérstaka athygli vakti skipan í íþróttanefnd félagsins en í nefndina voru kosin þau Guðni Bergsson, Vanda Sigurgeirsdóttir og Arnar Þór Viðarsson. Arnar er að vísu að jafna sig af meiðslum en hann sleit krossband þegar hann var krossfestur af íslenskum fótboltabullum og knattspyrnusambandinu um daginn í kjölfar þess að hafa unnið Lichtenstein aðeins 7-0.

Sorgin yfirtekur sál
af sársauka innra brennur bál.
Píslarsögu hugsa um, 
með páskaegg í maganum. 

Neytendur athugið! Eru þið á bömmer yfir of mörgum utanlandsferðum, taumlausu stóðlífi og guðlasti? Örvæntið eigi. Hinar geysivinsælu syndaaflausnir nú loks fáanlegar aftur eftir langt hlé. Komið og iðrist gjörða ykkar, það er aldrei of seint. Aðeins 9.999 kr., afgreitt bakvið predikunarstólinn í Urðakirkju. Fullum trúnaði heitið. Já einmitt, trúlegt.

Einar Jósepsson

Tilvitnun dagsins:

Allir: DÍSES KRÆST!!!

Orðin afsakandi

Fyrirgefanlegu lesendur.

Nú spyrja sig eflaust einhverjir þeirrar spurningar. Hvers vegna í ósköpunum gat ég ekki hundskast til að setjast niður fyrir lifandi löngu og deila hugleiðingum mínum með ykkur lesendum í hnyttinni bloggfærslu? Góði besti, það hefur nú aldrei gerst. Jæja þá, en af hverju að þegja svo vikum skiptir? Og eiga það á hættu að verða sviptur himinháum listamannalaunum fyrir vikið? Fyrir þessari löngu þögn eru margar mismunandi, misgóðar og mistrúverðugar ástæður sem full ástæða er til að fara á mis við en verður nú engu að síður gerð grein fyrir. Þið ráðið svo alveg sjálf hverju þið trúið. Já einmitt, trúlega.

1. Ég hef ekki getað bloggað af því að það er búinn að vera svo mikill kuldi og vosbúð allan marsmánuð. Þar af leiðandi hafa bæði tölvan og bloggið verið frosin. Það verður ekki á allt kosið, enda frosið en ég get samt ekki verið í síma að ríma í tíma og ótíma. Loksins kom þíða og jafnvel blíða en þá voru svo margir uppteknir við að ríða og skíða. Takk fyrir þíðinguna en um þýðingu og talsetningu sá Veturliði Guðnason.

2. Ég hef ekki getað bloggað af því að ég var settur sáttasemjari í deilu Eflingar við SA þarna um daginn og var illa settur í kjölfarið. Lengi vel stefndi í óefni en þó komst loks skriður á viðræðurnar þegar samninganefndirnar funduðu sitt í hvoru lagi, það er að segja lokuðu sig af í sitt hvoru herberginu og töluðu við sjálfa sig en ekki hvora aðra. Þegar nefndirnar settust aftur sitt hvoru megin við sama samningaborðið fór allt í bál og brand. Allt útlit var fyrir að setja þyrfti lög á verkfallið og var þá verið að hugsa um nokkur vel valin júróvísjónlög sem hafa oft á tíðum sameinað stríðandi fylkingar og jafnvel þjóðina alla. Ég sá fyrir mér að klára deiluna hægt og hljótt með því að taka lítil skref og funda um nætur en niðurstaðan núna hlaut auðvitað að verða nei eða já, sama hvað þú og þeir segja. Málinu lauk með miðlunartillögu sem var samþykkt með semingi í símakosningu. Tillagan hlaut 8 stig frá Eflingu, 10 stig frá SA en 12 stig frá hlutlausri dómnefnd. Þá veistu svarið. Síðan kjaraviðræðum lauk hefur verðbólgan bólgnað úr hófi fram og raunar svo mjög að allar forsendur áður gerðra kjarasamninga eru brostnar. Þá þarf auðvitað að setjast niður aftur og hækka launin meira sem aftur á móti hækkar kostnað fyrirtækja og atvinnurekenda sem hækka þá verðið til að viðhalda góðri arðsemi – sem tekur í pyngju launþega sem þurfa þá að semja um hærri laun. Þá þarf auðvitað að setjast niður aftur og hækka launin meira sem aftur á móti hækkar kostnað fyrirtækja og atvinnurekenda sem hækka þá verðið til að viðhalda góðri arðsemi – sem tekur í pyngju launþega sem þurfa þá að semja um hærri laun. Svona gæti ég haldið áfram í allt kvöld og ætti raunar að gera það í þágu þjóðarhags. Þeir sem vilja geta skipt yfir á RÚV 2 en hinir mega halda áfram hér. Það eru jú ekki mikið fleiri rásir í boði.

3. Ég hef ekki getað bloggað vegna þess að ég þurfti að gera ársreikning fyrir Ungmennasamband Eyjafjarðar. Sem gjaldkeri hugsaði ég mér gott til glóðarinnar að losna nú loksins úr embættinu með því að gera ársreikning sem sýndi algjört mettap og fjármálaóreiðu. Að vísu hafði tapið legið lengi í loftinu, enda hefur kostnaður vegna aldarafmælis sambandsins verið fyrirséður í um 100 ár en það er önnur saga. Eftir að hafa ráðfært mig við baklandið og tekið samtalið við grasrótina sá ég þó þann eina kost að axla ábyrgð og neita að segja af mér sem gjaldkeri heldur bjóðast til að halda áfram og vinna á breiðum grundvelli þvert á flokka. Helstu rökin voru auðvitað sú að einhvern þyrfti til að hreinsa upp skítinn og að enginn væri betur til þess fallinn en sá sem skeit í upphafi. Nákvæmlega eins og fyrir tveimur árum. Heyra mátti saumnál detta þegar gjaldkeri las upp ársreikninga á ársþingi UMSE í Árskógi og spennan var ekki bara í hárinu heldur lá hún einnig í loftinu. Enginn baulaði, enginn klappaði og enginn gerði athugasemd heldur sátu þingfulltrúar og störðu á ræðupúltið eins og naut á nývirki. Gjaldkerinn var endurkjörinn og allir lifðu hamingjusamir til æviloka, nema hugsanlega gjaldkerinn.

4. Ég hef ekki getað bloggað vegna þess að John Deere dráttarvélin fór ekki í gang. Þegar frostið hafði verið um og yfir 10 stig í fleiri sólarhringa sagði Jón Dýri hingað og ekki lengra og steinstoppaði í miðri heimreiðinni á Urðum. Urðum við að gera eitthvað í því? Já auðvitað. Kalli á Hóli dró vélina úr alfaraleið og mælti um leið með undraefni sem fengist í Motul og myndi duga til að brenna burtu vatnið úr olíuleiðslum vélarinnar og hreinsa pípurnar. Ég keypti undraefnið í lítravís og dældi því bæði á dráttarvélina, bílinn og sjálfan mig. Allt hefur gengið smurt síðan. Eins gott að það er til nóg af Costco klósettpappír í Víkurkaupum á Dalvík. Sjitt.

5. Ég hef ekki getað bloggað vegna heimsmeistaramótsins í Brús sem Ungmennafélagið Þorsteinn Svörfuður stóð fyrir. Spilað var um hin virtu alþjóðlega verðlaun Gullkambinn og var gríðarlega hart barist. Nokkuð var um klórningar, jananir, voganir og uppbeiðsli og stundum hélt kolur slag. Þegar spurt var að leikslokum kom í ljós að liðið Atgeir hafði sigrað og þá þurfti ekki að spyrja að leikslokum. Jú reyndar. Æi þið vitið hvað ég á við.

6. Ég hef ekki getað bloggað vegna tímaskorts. Fyrst slítur vinnan mann í sundur og svo slítur hún í sundur fyrir manni daginn og svo er það sjálfboðavinnan sem getur tekið drjúgan tíma einnig. Nýjasta dæmið er auðvitað þegar Höfðinn var leigður út til menntaskólanema sem þökkuðu fyrir sig með því að brjóta eldhúskranann. Enginn húsvörður er á Höfða í fullu starfi, aðeins húsnefnd full í starfi og framkvæmdanefnd á fullu í starfi og öðrum störfum. Húsnefnd og framkvæmdanefnd funduðu um eldhúskranann og hvort hægt væri að fá vaskinn endurgreiddan en það reyndist vera í lagi með vaskinn, það voru bara blöndunartækin sjálf sem tjónuðust. Húsnefnd keypti ný blöndunartæki í Víkurkaupum og nú er beðið eftir því að húsnefnd og framkvæmdanefnd nái saman um uppsetningu nýs eldhúskrana þannig að áfram verði hægt að leigja Höfða út með góðri samvisku. Auðvitað fer dýrmætur bloggtími í þetta allt saman. Ég er þó búinn að fyrirgefa menntskælingum eldhúskranabrotið enda var um fyrsta brot að ræða.

7. Ég hef ekki getað bloggað vegna þess að ég komst í tilfinningalegt uppnám og varð orða vant yfir vantrauststillögu stjórnarandstöðunnar á Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra. Á Alþingisrásinni í sjónvarpinu, sem fer að verða eina virka innlenda sjónvarpsrásin fyrir utan RÚV, sameinast svæsið raunveruleikasjónvarp, hægvarp, andvarp, æðarvarp, kúluvarp og illa skrifuð sápuópera í einn graut. Grauturinn sýður svo upp úr reglulega og breytist í einn kekkjóttan viðbrenndan klump þannig að úr verður hin besta skemmtun fyrir áhorfandann. Raunar ætti að gera Alþingisrásina að læstri sjónvarpsstöð og innheimta gjald af áskrifendum til að standa straum af vantraustskostnaði skattgreiðenda ár hvert.

8. Ég hef ekki getað bloggað vegna þess að mig skorti orð og skorti setningar sem ekki er nú þegar búið að bera á borð fyrir lesendur oftar en góðu hófi gegnir. Ég ætlaði að fá nýjustu og fullkomnustu gervigreind sem völ er á til að skrifa bloggfæsluna fyrir mig því það sér jú enginn muninn á gervi og raunveruleika lengur. Gervigreindin neitaði hins vegar að taka til við bloggskrif af ótta við að bíða álitshnekki ef þetta kæmist upp.

9. Ég hef ekki getað bloggað vegna þess að ég var í sigurvímu eftir 7-0 sigur karlalandsliðs okkar í knattspyrnu gegn Lichtenstein. Aldrei hefur landsliðið okkar unnið jafn stóran sigur í keppnisleik og því ástæða til að fagna þessu vel, ekki síst þegar horft er til þess að við erum smáþjóð norður í ballarhafi og raunar hrein heppni að hér sé hægt að leggja stund á knattspyrnu yfir höfuð. Það kom mér því nokkuð á óvart þegar þjálfari landsliðsins var rekinn nokkrum dögum eftir þennan glæsta sigur. Það er ekki einu sinni víst að 8-0 sigur hefði bjargað honum úr Vanda. Nú er þeim möguleika velt upp að ráða einn allsherjarþjálfara sem geti þá bæði sinnt þjálfun karlalandsliðsins í handbolta og karlalandsliðsins í fótbolta. Góð hugmynd sem fellur raunar vel að markmiðum ríkisstjórnarinnar um sparnað og sameiningar í opinbera geiranum eins og kemur fram í nýbirtri fjármálaáætlun. Stefnan er sett á að handbolta- og fótboltaliðið geti komist að nýju í fremstu röð og spilað fyrir troðfullri þjóðarhöll um leið og hún rís, sem verður líklega haustið 2042.

10. Ég hef ekki getað bloggað vegna þess að ég hef verið of upptekinn við að tína til afsakanir fyrir því að blogga ekki. Vá djúpt.

Bloggsins brim á svorfnum klettum lendir
bloggarinn í djúpa vísu hendir.
Þrasið þagnar, fólki er ei um sel
þögnin fer mér óskaplega vel. 

Þess má til gamans geta að lóan kom 26. mars en fór aftur 28. mars. Það gengur bara betur næst.

Einar af sakandi.

Tilvitnun dagsins:

Allir: REKINN!

Orðin lang langdregnust

Verkföllnu lesendur.

Ég gæti eflaust þreytt ykkur lesendur með vanhugsuðum og illa samsoðnum inngangsorðum en það ætla ég ekki að gera að þessu sinni. Bara grín. Auðvitað ætla ég að þreyta ykkur lesendur með vanhugsuðum og illa samsoðnum inngangsorðum. Í inngangi ég slæ á létta strengi, skælbrosandi línur saman tengi. Í fatabúð ég fer og kaupi þvengi og starfsfólkið með bolluvendi flengi.

Vá, þessi inngangur klúðraðist gjörsamlega. Já sennilega…en bíðið þið bara. Lengi getur vont versnað eins og nú verður sýnt fram á. Þó skammt sé liðið af árinu hafa mun fleiri lægðir, mun fleiri hægðir og mun fleiri appelsínugular viðvaranir dunið á landinu en góðu hófu gegnir í meðalári. Eða er það ekki svo? Þar sem ég lifi afar spennuþrungnu og oft á tíðum sprenghlægilegu lífi ákvað ég að glugga aðeins í dagbókina og deila því með ykkur hvernig árið hefur farið af stað. Einhverja dagana gleymdi ég að vísu að skrá í dagbókina og þar af leiðandi eru þeir skrásettir hér eftir minni. Það getur ekki verið svo nauið, það er að segja spaugið.

Nýársdagur. Lægð var yfir landinu en það var bara út af gamlárspartíinu. Timburmenn á annesjum og tremmi á stöku stað. Forseti Íslands hélt kynhlutlaust nýársávarp og enginn vissi hvers kyns var.

2. janúar. Lægð var yfir landinu, enda fyrsti mánudagurinn af fimm í janúar. Svifryksmengun í Reykjavík fór yfir hættumörk í þrítugasta sinn frá áramótum, þó það væri bara 2. janúar.

5. janúar. Annar janúar búinn og kominn allt annar janúar. Lægð var á leið til landsins og bloggarinn Einar Haf var í töluverðri lægð. Hægðirnar voru frekar linar þennan daginn, enda verið að vinna upp afganga frá jólunum.

6. janúar. Vel tókst til þegar kveikt var í stærstu þrettándabrennu Umf. Þorsteins Svörfuðar í manna minnum. Björgunarsveitin á Dalvík bauð upp á þriggja ára uppsafnaða flugeldaskothríð. Íslenska knattspyrnulandsliðið karlamegin var í mikilli lægð en það kom reyndar hvergi fram á veðurkortinu.

8. janúar. Ekkert var eftir af þrettándabrennunni nema aska, hurðalamir, naglar og bjórdósir sem ekki brunnu. Verðbólgubálið logaði glatt þrátt fyrir að ekkert brennuleyfi hafi verið gefið út. Veðurfræðingar komu auga á enn eina lægðina….í landslaginu. Það er nú bara eðlilegt.

10. janúar. Ekki ríkti sátt um ríkissáttasemjara, sem breyttist í ríkisekkisáttasemjara. Íslenska handboltalandsliðið undirbjó sig af kappi fyrir komandi stórmót. Nokkrir í liðinu köstuðu eins og kelling, það er að segja Kristian Kjelling, norsk stórskytta. Ekki leiðum að líkjast.

12. janúar. Norðanátt, slydda og gul viðvörun. Veðurfræðingar töldu þó ekki ástæðu til að gera veður út af því, enda alveg nægt veður fyrir. Eflingu og SA tókst hvorki að semja þorrablótsannál, kjarasamning eða júróvísíjónlag en ég aftur á móti reyndi.

13. janúar. Ekki nóg með fimm mánudaga í janúar heldur fengum við líka föstudaginn þrettánda. Hvaða við? Bara við og við. Ég var frekar óheppinn þennan dag eins og marga aðra daga, en þó ekki fyrr en ég fattaði að þetta væri lögbundinn óhappadagur. Ég nýtti tækifærið til að taka út alla mögulega óheppni. Gekk ég því undir stiga þar sem ég mætti svörtum ketti og heyrði um leið í kráku sem var trúlega óheillakráka.

15. janúar. Eindagi staðgreiðslu og tryggingagjalds fyrir desember. Eindagi sálarangistar og trega yfir brotthvarfi jólanna, sérstaklega þegar ég komst að því að næsti rauði dagur á almannakinu er í apríl. Engir kjarasamningar voru undirritaðir og heldur ekki varasamningar sem gott er að eiga til vara.

17. janúar. Lægð fór yfir landið. Fjölmiðlamenn töluðu um snjóstorm og við það fékk ég sár á sálina. Í kjölfarið skrifaði ég harðort bréf stílað á alla helstu málfarsráðunauta og sagði þeim að taka þennan snjóstorm og troða honum upp í kafaldsbylinn á sér. Þriðjudagur og miður janúar, sem mér þótti miður.

19. janúar. Lægðin var gengin yfir, enda yfirgengileg. Bloggarinn Einar Haf hélt áfram að skrifa þorrablótsannál og skemmti sér ágætlega, því heimskur hlær að sjálfs síns fyndni.

20. janúar. Lægð var yfir landinu vegna handboltalandsliðsins. Íslendingar töpuðu fyrir Svíum á heimsmeistaramótinu, stemmningin var hræðileg og strákarnir okkar voru ekki lengur strákarnir okkar. Landsliðinu var þó vorkunn, enda hvorki með nóga breidd eða lengd miðað við önnur lið. Herjaði umgangspesti á heimilið, sú þriðja af átján í röðinni. Kom asnahláka…nei ég meinti asahláka. Margir voru duglegir að bonda, enda bondadagurinn.

21. janúar. Bloggarinn Einar Haf fór ekki á djammið þennan laugardaginn sem er auðvitað ótrúlegt. Honum var ekki boðið í nein partí sem er vissulega ekki fréttnæmt gefið hversu leiðinlegur hann er, en hins vegar las hann allar fréttir sem birtar höfðu verið á Smartlandi það sem af var ári og naut þess í botn að lifa góða lífinu gegnum aðra. Þorrablótsannállinn var settur í súr fram að þorrablóti.

23. janúar. Það var ekki lægð yfir landinu en það lægði yfir landinu. Eflingu og SA tókst ekki að semja enda samdi samningamönnum ekki. Ég vissi ekki hvort ég ætti að tala um mig í fyrstu persónu eða bloggarann Einar Haf í þriðju persónu í næstu bloggfærslu. Það eina sem ég vissi var að þetta yrði hryllilega löng bloggfærsla.

25. janúar. Bloggarinn Einar gerði hosur sínar grænar en það voru mistök, þær áttu auðvitað að vera rauðar. Veikluleg skil fóru yfir landið. Skil? Nei ég skil ekki alveg. Alþingi kom aftur saman eftir jólaleyfi og lenti þingmönnum saman strax í upphafi. Gefin var úr gul viðvörun. Ekki vegna veðurs heldur vegna gulra svitabletta í fötunum mínum en þvottavélin á Urðum bilaði og engin leið að vita hvenær næsti hurðarrofi í Electroloux Timecare 500 kæmi til landsins.

26. janúar. Ríkissáttasemjari nennti ekki lengur að hlusta á deiluaðila kýta og baknaga hvorn annan og lagði því fram miðlunartillögu til að sprengja viðræðurnar endanlega í loft upp.

28. janúar. Éljabakki gekk yfir Norðurland og um hríð var hríð. Síðan blotnaði í snjónum og Svarfdælingum einnig, enda þorrablót og þorrabloti á Rimum um kvöldið. Ekki var gerður aðsúgur að mér fyrir annálsskrif, enda allt persónulegt níð í skjóli nafnleyndar.

30. janúar. Smálægð gekk yfir karphúsið og olli það nokkrum loftþrýstingi, votti af háþrýstingi og almennum þrýstingi hjá samninganefndum SA og Eflingar.

2. febrúar. Gefin var út viðvarandi svitagul viðvörun vegna þess að þvottavélin á Urðum var enn biluð. Einar brynnti músum enda voru þær orðnar mjög þyrstar.

4. febrúar. Það slitnaði ekki upp úr kjaraviðræðum SA og Eflingar enda engar viðræður í gangi. Sjúklingum með slæma hálsbólgu fækkaði nokkuð á Landspítalanum en hins vegar fjölgaði þeim sem lagðir voru inn vegna svæsnar verðbólgu í liðum. Mjög mörgum liðum.

6. febrúar. Lesendum var strax farið að kvíða fyrir Konudeginum, enda miklar líkur taldar á bloggfærslu frá Einari Haf þann dag. Gefin var út gul viðvörun fyrir Vesturland, Suðurland og Tenerife en á þessum tíma var Tenerife einmitt fjölmennasta kjördæmi Íslands.

8. febrúar. Fimm fílar lögðu af stað í leiðangur, lipur var ei þeirra fótgangur. Takturinn fannst þeim heldur tómlegur, svo þeir tóku sér einn til viðbótar. Það gerðist einmitt þann 8. febrúar samkvæmt mínum heimildum.

10. febrúar. Lægð við Hvarf hvarf og kom því ekki til landsins. Seðlabankastjóri setti upp á sig stýri og stýrivexti sem héldu áfram í örum vexti.

13. febrúar. Lægð í kvenmannsfötum fór framhjá landinu, svokallað lægðardrag. Uppskafningur í innsveitum en heiðríkja á heiðum. Eflingu og Samtökum atvinnulífsins samdi ekki og því var ekki samið. Ríkissáttasemjari steig til hliðar, fór svo í hliðar saman hliðar, snéri sér í hring og hnerraði.

15. febrúar. Vegna verkfalla greip um sig skelfing og óðagot hjá mörgum. Varað var við svokölluðum bensínhamstri. Ég fletti upp í dýrabókinni minni en fann engan bensínhamstur þar. Telst málið enn óupplýst.

18. febrúar. Lægð nálgaðist landið með hægð. Bloggarinn Einar Haf fattaði að hann yrði að fara að skrifa eitthvað ef hann ætlaði sér að birta bloggfærslu í Konudagsgjöf. Samningaviðræður í karphúsinu stóðu yfir allan daginn en settur sáttasemjari sá að eina leiðin til að halda viðræðum gangandi væri sú að láta fylkingar Eflingar og SA funda sitt í hvoru herberginu.

19. febrúar. Þorrinn fór og Góan kom. Konudagurinn tók við af Þorraþrælnum og voru það ágæt skipti. Einar Haf er það sem konur vilja ekki vera….einar. Upp úr slitnaði í karphúsinu, verkföll og vöruskortur eru því framundan. Gul viðvörun á Suðausturlandi en óvissustig almannavarna vegna stóra þvottavélamálsins á Urðum. Einari finnst það góð hugmynd að birta lengstu bloggfærslu Svarfdælskrar bloggsögu á veraldarvefnum í tilefni konudagsins.

Engin vísa, ekkert grín
Sólveig seint mun skammast sín
úfinn er Halldór Benjamín
þjóðin ben mun hamstra sín.

23. febrúar. Einar Haf er talinn standa þjóðfélagsskipaninni fyrir þrifum vegna nýjustu bloggfærslu sinnar og er þar af leiðandi sett lögbann á bloggsíðuna, enda eru þrif lögvernduð starfsgrein og engum heimilt að standa fyrir þrifum nema starfsfólki sem starfar undir kjarasamningi Eflingar.

Einar langur dreginn.

Tilvitnun dagsins:

Allir: LAAAAANNNNNGGGGGGDDDDDRRRREEEEGGGGIIIIIÐÐÐÐÐ!!!!!

Mót við orðaár

Kæru landsmenn.

Það er við hæfi nú um áramót að staldra aðeins við, líta til baka, líta yfir farinn veg, líta fram á veginn, líta til beggja hliða áður en farið er yfir farinn veg, líta aðgerð, líta um öxl, líta læknir, líta á öxl, nudda öxl, reisa sér hurðarás um öxl, huga að öxlunum og smyrja öxlana. Þá er gott að líta í eigin barm, líta í barm annarra og gera barmasamanburð – og barma sér svo í beinu framhaldi. Það er líka við hæfi um áramót að koma alls kyns vafasömum skoðunum og rangfærslum á framfæri með því að dulbúa þær sem áramótahugvekju. Á þessum síðustu og verstu tímum er við hæfi að síðasti og versti bloggarinn komi með síðustu og verstu bloggfærslu ársins. Hvernig var þetta nú aftur með áramótasíðkjólinn minn, var hann ekki síðastur og verstur? Nei ég átti einn sem var enn síðari….. og verri.

Veðurstofa Íslands gaf nú rétt í þessu út appelsínugula viðvörun fyrir næstu efnisgreinar hugvekjunnar. Búist er við mikilli ófærð í kaflanum um sauðkindina.

Skæru landsmenn. Árið sem er hér um bil alveg að renna sitt skeið hefur um margt verið afar sérstakt. Samkomuhömlum var aflétt í eitt skipti fyrir öll og hömlur á viðskipti við Rússland komu í staðinn. Grímuskylda vék fyrir grímulausum áróðri af ýmsu tagi og fjarlægðartakmarkanir urðu fjarlægar takmarkanir þegar leið á árið. Kórónuveiran heldur áfram að hrella grandvaralausa landsmenn nú í hömluleysinu en vonandi fjarar kraftur veirunnar út í Fæser og fyllingu tímans. Ýmsir aðrir vágestir hafa leikið lausum hala í þjóðfélaginu á árinu sem er að líða. Nægir þar að nefna inflúensuna, upp og niður pestina, verðbólguna, bloggarann Einar Haf, mávana í Urðaenginu, föður ríkislögreglustjóra og tryggingasölumenn. Vágestir? Nei meira svona vá….gestir!

Hvar værum við ef við hefðum ekki ærnar? Sjálfa sauðkindina? Það get ég sagt ykkur. Við værum hnípin og skjálfandi úti í horni að drepast úr kulda og hungri. Í árhundruði hefur íslenska sauðkindin haldið lífinu í landanum með því að fórna sjálf sínu eigin lífi, útigengin, belgfull af grænum grösum og södd lífdaga – tilbúin að gefa eftir sitt eigið líf mannkindinni til hagsbóta. Já eða svoleiðis. Sauðkindin gefur okkur svo ótal margt. Má þar nefna hrygg og gæruskinn, frampart og afturpart, teygðan lopa og óteygðan lopa. Fullvíst má telja að sauðkindin mun spila lykilhlutverk þegar kemur að áframhaldandi vexti og vindgangi…nei ég meinti viðgangi þjóðarinnar á komandi ári.

Veðurstofa Íslands hefur gefið út að áður útgefin appelsínugul viðvörun sé nú orðin gul en viðvörunin gæti orðið dul þegar líður á hugvekjuna.

Tæru landsmenn. Ísland er meiriháttar krúttlegt land. Hér eru allir innviðir annað hvort sprungnir eða við það að springa vegna álags en samt fáum við hingað ferðafólk í milljóna vís, dolfallið yfir ósnortinni náttúrufegurð og vályndu veðurfari. Hér er loftið svo ofboðslega tært, ljósið svo yfirgengilega skært og fólkið óaðfinnanlega hært. Hér eru hæstu og bestu stýrivextir á byggðu bóli. Hér eru höfuðstólar lána þeir traustustu og greiðslubyrðin sú hagstæðasta, fyrir lánveitendur. Hér renna hreinustu ár og hreinustu lækir sem fyrirfinnast í víðri veröld og þó víðar væri leitað. Svo lengi sem aurspýjur vegna öfga í veðurfari og bráðnir jöklar af mannavöldum skemma ekki stemmninguna fyrir okkur. Hér eru bestu rútubílstjórar í heimi, sem keyra ferðamannadúllunum um allar koppagrundir í öllum veðrum, þó svo að vegir séu merktir lokaðir og engin vitglóra í að halda áfram akstrinum. Við vitum hvað gjaldeyrir ferðamanna hefur mikla þýðingu fyrir krúttipúttulega hagkerfið okkar. Grænt rafmagn kemur úr öllum innstungum og streymir án afláts og óhindrað inn í hugi og hjörtu fólks, hringrásarhagkerfinu til hagsbóta. Enginn skilur hvernig hin grænu orkuskipti eiga að fara fram ef ekki má virkja fleiri fallvötn og náttúruperlur til að framleiða meira rafmagn fyrir alla rafmagnsbílana, allar tölvurnar, alla er-fræjerana og öll unaðstækin úr blöss. Stefna stjórnvalda er hér eftir sem hingað til sú að bæði sé hægt að sleppa og halda. Eða ég held það allavega.

Áhrifavaldar gerðu sitt besta til að komast til áhrifa og hafa áhrif á okkur á árinu. Gaman er að geta þess að ég er undir áhrifum eins og er, annars gæti ég aldrei klárað hugvekjuna. Hvaða áhrifavaldi er það að þakka? Sennilega Víkingi, man ekki hvers son hann er. Áhrifavaldar voru duglegir að taka af sér myndir á árinu sem er að líða og greina almenningi frá öllu því helsta sem á daga þeirra dreif og öllum þeim styrktaraðilum sem greiddu fyrir herlegheitin. Hvað sést svo á þessum myndum? Til dæmis nýjar stellingar, nýjar húðvörur, nýjar varir, nýr fatnaður, vöðvauppbygging, brúnkustig, gljástig, fituprósenta, vaxtaprósenta, hárvöxtur, líkamsvöxtur, kærastar, kærustur, gleðskapur og glaumur.

Væru landsmenn. Það er ljóst að hættur og ógnir steðja að á flestum sviðum mannlegrar tilveru. Óstöðvandi smitsjúkdómar, styrjaldir og stríðsátök, sóun auðlinda, framboð Trömps, matvælaóöryggi, fjölgun áhrifavalda og eyðing ósonlagsins eru bara nokkur dæmi um þetta. Hvað er hægt að gera? Því verður auðvitað ekki svarað í svona áramótahugvekju, enda ekki við því að búast. Þetta voru bara svona vangaveltur af minni hálfu, ég ætlaði alls ekki að vekja óhug meðal lesenda. Nema þá að ég breyti þessu bara í áramótaóhugvekju. Þá getur svartsýnisrausið haldið áfram eins og ekkert sé.

Víða kreppir skóinn. Gríðarlegar verðhækkanir og verðbólga hafa sett svip sinn á árið sem er hér um bil alveg að fuðra upp – og hafa ófáar krónurnar fuðrað upp á verðbólgubálinu. Ég furða mig á því…eða fuðra. Nánast sama er hvar borið er niður, allt er að hækka nema hvað að ég er ennþá bara 1,76. Ríki og sveitarfélög berjast í bökkum og velta þarf við hverri krónu til að ná endum saman. Útlit er fyrir áframhaldandi sultarólaherðingar á komandi ári og þá er nú gott að hafa varaforða. Ekki viljum við að allt endi sem rústir einar…..Einar?

Færu landsmenn. Leiður er læklaus maður. Samfélagsmiðlar spiluðu stóra rullu á árinu sem er hér um bil alveg að ljúka sér af, samkvæmt samfélagsmiðlum. Fyrirséð er að sú þróun haldi áfram á næstu árum, samkvæmt samfélagsmiðlum. Þjóðfélag nútímans byggir á því að vera í stöðugu sambandi alltaf allsstaðar og snjallsímar og smáforrit geta gert hvern mann geðveikan á afar skömmum tíma ef ekki er varlega farið, samkvæmt samfélagsmiðlum. Úreltasta gerð samfélagsmiðla samkvæmt samfélagsmiðlum eru bloggsíður og því fer vel á því að úreltasti smáhrifavaldurinn noti þann miðil til að koma skoðunum sínum á framfæri. Reiknað er með fjölmörgum deilingum, allnokkrum lækum og slatta af athugasemdum á nýju ári, samkvæmt samfélagsmiðlum.

Veðurstofa Íslands hefur gefið út að gul viðvörun er orðin dul en dregur þó ekki dul á að hún gæti orðið gul aftur ef Einar Haf fer ekki að ljúka þessari hugvekju.

Æru landsmenn. Íslensk þjóð er þrautseig þjóð. Hér við ysta haf hefur þjóðin þraukað hvert hallærið, hverja pláguna og hverja hörmungina á fætur annarri. Horfellir, móðuharðindi, kórónuveirur, frostavetrar og fárviðri hafa dunið á með reglulegu millibili en ævinlega hefur nógu mörgum tekist að lifa af til að hægt sé að halda partýinu gangandi. Von er á frekari hörmungum á komandi ári en ég get þó huggað ykkur með því að sennilega verða hörmungarnar léttvægar í samanburði við þessa áramótahugvekju.

Mikið hefur verið um fólk á flótta á árinu sem er alveg næstum því liðið. Fjölmargir flýja hörmungar í heimalandinu og leita nauðugir að betra og öruggara lífi. Forstjóri bankasýslunnar er á flótta undan fréttamönnum og ég sjálfur er á stöðugum flótta undan sannleikanum en almennt eru Íslendingar á stöðugum og rándýrum flótta frá eigin leiðindum og er þá vinsælast að flýja til Tenerife og annarra suðrænna aflandseyja. Þar hópast Íslendingar nú saman í hundruðatali og halda áfram að eyða gjaldeyrisvaraforðanum í tóma vitleysu. Nýverið gaf veðurstofan út gula viðvörun á Tenerife. Ekki vegna veðurs heldur vegna fjölda Íslendinga sem þar voru staddir með svæsna matareitrun sökum jólaboðs að íslenskum sið. Ekki hefur enn tekist að þrífa þau salerni sem verst urðu úti á Íslendingahótelinu. Lýsandi fyrir árið…..sjitt hægðir.

Þegar öllu er á botninn hvolft og þegar allt kemur til alls skiptir ekki máli hvað gerðist eða gerðist ekki á árinu sem er hér um bil á enda runnið. Það sem skiptir máli er að hægt sé að sprengja árið í burtu með baneitruðum flugeldum og stórhættulegum skottertum án þess að fyllast sótskömm, kolefniskvíða og öðrum loftslagstengdum vandamálum. Nokkuð langt er liðið síðan síðast var haldið upp á áramót í hömluleysi. Ég hvet ykkur ágætu lesendur þó til að viðhalda hæfilegri fjarlægð við logandi ragettur og íkveiktar skottertur, tveggja metra reglan gildir ennþá þar….hið minnsta.

Bálið brennur, svífur sót
síðan koma áramót. 
Ég er bæði mildur, meyr
og mjúkur eins og tröllaleir. 

Bæru landsmenn. Að síðustu óska ég ykkur öllum farsældar á komandi ári og þakka um leið fyrir samfylgdina, lesturinn, afskiptin og samskiptin á fjárans árans fárinu og árinu sem er við það að veslast upp. Njótið áramótanna sem best þið getið en gætið ykkar þó á hömluleysinu.

Koníakstofan á Bessastöðum, 31. desember 2022.

Einar Okkar Hafliðason.

Orð í jóla DB blaðinu

Ágætu lesendur.

Þegar ég var beðinn um að koma með efni í jólablað DB blaðsins lá auðvitað beinast við að koma með eitthvað grín. Jólin eru hugsanlega ekki rétti tíminn til að vera með grín – en öðru máli gegnir um áramótin. Þess vegna ætti kannski að lesa þennan pistil nær gamlársdegi en aðfangadegi. Jæja, við skulum samt gera tilraun. Hér kemur því jólaleg samantekt úr nýútkominni skýrslu Leppalúða, tröllkarls og ríkisendurskoðanda í hjáverkum, þar sem fjallað er á afar hátíðlegan hátt um sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka fyrr á árinu.

En það bar til þá um vorið að boð komu frá ríkisstjórninni um að Bankasýsla ríkisins skyldi selja 22,5% hlut í Íslandsbanka í lokuðu útboði. Var þetta alls ekki fyrsta bankasalan í lokuðu útboði og var gjörð þá er Bjarni Ben var fjármálaráðherra yfir Íslandi.  Fóru þá áhugasamir útvaldir kaupendur hver til síns heima og hugsuðu málið.

Þá fór og Jósef úr Garðabæ frá borginni Reykjavík inn á netið og lét skrásetja sig fyrir lokuðum hlut í lokuðu útboði á lokuðu tilboði ásamt Maríu heitkonu sinni sem var mjög heit kona og þar að auki þunguð og þungt hugsi. María vildi koma sér út á land til að fæða og ala upp barnið sem var eingetið og ekki einleikið, enda engin leikskólapláss í boði í borginni. Ástandið í heilbrigðiskerfinu gerði það hins vegar að verkum að hún neyddist að lokum til að leita á náðir bænda og eiga barnið í fjárhúsinu – því eigi var rúm handa þeim í gistihúsi sem var yfirfullt af erlendum ferðamönnum í norðurljósaskoðun.

En í sömu byggð voru fagfjárfestar úti á túni að gæta aura sinna. Og forstjóri Bankasýslunnar stóð hjá þeim og ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir um peningana sína en forstjóri Bankasýslunnar sagði við þá: Verið óhræddir! Því sjá, ég boða yður mikinn gróða sem veitast mun ykkur öllum. Yður er í dag seldur eignarhlutur í ríkiseign á afar hagstæðu verði. Og hafið þetta til marks, þið munuð stórgræða á þessu á aðeins örfáum dögum. Og í sömu svipan var með forstjóra Bankasýslunnar fjöldi himneskra og himinlifandi spákaupmanna sem lofuðu einkavæðinguna og sögðu; Dýrð sé öllum þessum rosalega háu upphæðum og friður á jörðu með mönnum sem Bjarni Ben hefur velþóknun á. Sérstaklega pabba hans. Upp frá þessu lifðu allir fagfjárfestarnir saddir og sælir. Sælir eru þeir sem banka eiga því þeirra er gróðinn.

Það eru ekki allir svo heppnir að eiga hlut í banka og því þarf að semja svokallaða kjarasamninga þar sem samtök atvinnurekenda annars vegar og samtök launþega hins vegar, semja um kaup og kjör hvort sem þeim líkar það betur eða verr. Yfirleitt líkar mönnum það verr því það fá aldrei allir allt sem lagt var upp með. Þetta árið var ákveðið að semja svokallaða skammsýna samninga. Lengi vel áttu þetta að vera skammtímasamningar en vegna skamms tíma við samningsgerðina tók skammsýnin völdin. Í smáa letrinu kemur fram að allir fái þá eitthvað fallegt en hvað það nákvæmlega verður veit nú enginn. Vandi er um slíkt að spá.   

Útgáfa stendur í miklum blóma nú á aðventunni, bókaormum, lestrarhestum og blaðasnápum til mikillar ánægju. Bankaskýrsla um bankasýslu, hrútskýranleg hrútaskrá og kindarlegir kjarasamningar eru meðal heitustu bitanna í bókatíðindunum en til að toppa allt hefur forsætisráðherra nú skrifað og gefið út glæpasögu sem heitir Reykjavík. Í bókinni þurfa íbúar Reykjavíkur að glíma við alls kyns uppskálduð vandamál á borð við fyrirhugaða borgarlínu, Evrópumet í svifryki og umferðaröngþveiti, blóðugt næturlífið í miðbænum og önnur glæpsamleg athæfi sem eiga sér stað með reglulegu millibili. Fylgist spennt með, forsætisráðherra mun lesa valda kafla úr bókinni í áramótaávarpi sínu að kvöldi gamlársdags. Alls ekki við hæfi barna….eða Bjarna.  

Góðir lesendur, það er ekki góðæri í landinu. Hins vegar eru góðar ær í landinu, sem er mun betra. Hvar værum við ef ekki væri til staðar íslenska sauðkindin? Þjóðargersemin, bjargvætturinn og bjartsýnisvaldurinn sem veitt hefur svo mörgum sólargeislum inn í líf okkar sem landið byggjum. Ég get alveg sagt ykkur það. Við værum í bráðum háska, svöng og skjálfandi af kulda. Þegar hættur steðja að og tregi og sorg fylla hjörtu og hugi er það yfirleitt íslenska sauðkindin sem kemur til bjargar, með brosi sínu og blíðu…já og kannski brúnni sósu. Þetta skulum við muna nú um jól og áramót.

Gleðileg jól.

Einar Hafliðason

Forðum orðum borðum frá

Flóttalegu lesendur.

Orðatiltækið að hjakka í sama farinu kemst upp á algjörlega nýtt og áður óþekkt stig í hugum lesenda þar sem þeir fylgjast með síendurteknum og örvæntingarfullum tilraunum mínum til að vera sniðugur og skemmtilegur hér á bloggsíðu allra landsmanna. Auðvitað bind ég bagga mína ekki sömu hnútum og samferðamenn mínir og því skyldi engan undra þó allt fari í hnút og hlaupi í kekki eða ekki. Heyri ég gráthljóð? Nei þetta var sennilega bara ekki, eða ekki.

Hið svokallaða hryðjuverkamál er jafn torskilið og inngangurinn sem þú varst að lesa. Nýjustu vendingar minna helst á illa skrifaða sápuóperu þar sem faðir ríkislögreglustjóra reynist einn stórtækasti byssubrjálæðingur og vopnasali landsins, flæktur inn í vopnaviðskipti við vafasama vandamenn, menn í vanda og einstaklega einkennilega einstaklinga með kynlegar kenndir og meinlegar meiningar. Ríkislögreglustjóri hefur sagt sig frá málinu vegna óvæntra fjölskyldutengsla en hvað sem því líður er ljóst að næsta fjölskylduboð verður vandræðalegt. Lögmaður þeirra sem setið hafa í gæsluvarðhaldi vegna málsins svo vikum skiptir segir að aðeins hafi verið um misheppnaðan brandara að ræða og að aldrei hafi staðið til að myrða einn eða neinn. Æi dreptu mig ekki. Þess má til gamans geta að ég hef mjög oft sagt misheppnaða brandara og nokkrir lesendur bloggsíðunnar hafa drepist úr leiðindum en samt sem áður hef ég aldrei verið hnepptur í gæsluvarðhald. Það mál er sem betur fer ekki til rannsóknar.

Guðjón löggupabbi
er bæði sætur og klár
búinn að vera í vopnabransa
í sautján ár.
Vopnvæðir bófa og ræningja
og dóttur um leið gerir vanhæfa.

Dagur einfaldra var haldinn hátíðlegur nú fyrir skemmstu. Á þeim degi er einfaldur almúginn plataður upp úr skónum og sokkunum með alls kyns einföldum og margföldum gylliboðum og afsláttarauglýsingum þar sem ódýrum raftækjum, gerviefnaríkum fatadruslum og gagnslausu dótaríi er prangað inn á ginkeypt fólk í stórum stíl, kaupmönnum til hagsbóta. Auðvitað læt ég ekki gabba mig svona. Ég fer sko ekki að rjúka til og kaupa eitthvað dót á afslætti sem ég get keypt á fullu tvöföldu okurverði alla aðra daga ársins. Nei takk.

Gegnum netið næla sér í dót
neysluóðir kreditkortafantar
rassgat hreyfa ekki hætishót
heldur kaupa það sem engan vantar. 

Dagur einfaldra er vissulega góður en dagur íslenskrar tungu er enn betri. Dagur íslenskrar tungu er raunar ágætur dagur til að velta fyrir sér stöðu tungumálsins, þessarar þjóðargersemi sem mótar alla okkar hugsun og hegðun. Þetta er líka ágætis tímapunktur til að ausa úr skálum reiði sinnar vegna þeirrar óþolandi boðflennu sem enska er í okkar daglega tungutaki. Þar er ég auðvitað ekki undanskilinn með öll mín ókei og hæ og bæ og seif og dánlód og guð má vita hvað. Orðskrípið síngulsdei er eitthvað sem á auðvitað að bannfæra með lögum strax í dag, alveg eins og þeinksgivíng, hallóvín, blakkfrædei og sæbermondei. Fuss og svei. Jónas Hallgrímsson snýr sér eflaust marga hringi í gröfinni meðan hann þarf að hlusta á þessar yfirgengilegu enskuslettur allar saman og skiptir þá engu hvort um ræðir bólugrafinn bloggara, siðblint markaðsfólk, ómálga útvarpsfólk eða snjalltækjasjúka samfélagsmiðlafíkla . Ekki hefði Jónasi líkað betur að labba gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar þessa dagana þar sem allt er morandi í enskuslettum og málsóðar vaða uppi með subbuskap. Þar er til dæmis ekki talað um hlið heldur er talað um geit. Geit eitt, geit tvö, geit þrjú og svo framvegis. Passengers to London, plís gó tú geit nömber næn. Óskiljanlegt. Þarna þarf augljóslega að koma hlutunum í rétt horf. Hreinlegast hefði verið að kveikja bara strax í bévítans geitinni. Hvað er svo málið með þetta búst dott komm sem er alltaf verið að auglýsa? Hver fjandinn er það? Talið íslensku! Og Serranó, fress happí mex? Mér er flökurt. Út af serranó vefjunni? Nei bara út af enskuslettunum.

Tunga íslensk
yfir Hraundranga
af ensku bólgin er
horfin til himna,
hryggur þráir
sveinn í djúpum dali. 

Útgáfa lestrarefnis stendur í miklum blóma þessar vikurnar eins og sést vel á nýútkomnum bókatíðindum. Engu máli skiptir þó bóklestur dvíni og læsi hraki, eftirspurn eftir bókum er áfram mjög mikil og stöðug. Eftirspurn eftir krassandi rannsóknarskýrslum hefur einnig aukist stórlega. Það eru því gleðifréttir að nú hefur Ríkisendurskoðun loks tekist að ljúka viðamikilli skýrslu sem fjallar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka fyrr á árinu. Skýrslan kemur mátulega inn í jólabókaflóðið og án efa mun hún leynast í býsna mörgum pökkum þessi jólin. Efni skýrslunnar er hefðbundið og formfast en þó skáldlegt á köflum. Sagan rís einna hæst þegar svokallaðir kjölfestufjárfestar fá að kaupa hluti í Íslandsbanka á vildarkjörum og selja svo þessa sömu hluti skömmu síðar með margra milljóna gróða. Þetta mun vera hin svokallaða íslenska leið sem er ætíð farin þegar íslenskir bankar eru seldir. Sumir sem lesa skýrsluna telja að ekkert hafi verið gert á rangan hátt við sölu Íslandsbanka en aðrir sem lesa skýrsluna telja að varla hefði verið hægt að klúðra hlutunum á stórkostlegri hátt, nema þá hugsanlega ef bloggsíðu Einars Haf hefði verið boðið að kaupa hlut í bankanum. Ráðamenn og bankasýslumenn hyggjast axla ábyrgð með því að sitja sem fastast, enda væri það óábyrgt að flýja af hólmi í miðjum hildarleiknum. Ég ætla að bíða eftir því að skáldskapurinn verði tekinn fyrir og krufinn til mergjar í Kiljunni en þangað til tjái ég mig ekki frekar um málið. Enda bundinn. Trúnaði.

Bankasýslan kann ekki á excel
ekki getur það nú endað mjög vel
í skýrsluflóði skammlaust mér ég drekki
og axla ábyrgð með því að hætta ekki.

Nú er stutt í að heimsmeistaramótið í tvískinnungi og siðblindu hefjist í ofríka dvergríkinu Katar. Þessa dagana streyma þangað heilu þotufarmarnir af oflaunuðum og oföldum knattspyrnuköppum hvaðanæva að. Þeir ætla sér að sprikla á nýslegnu og ilmandi Katörsku grasi næsta mánuðinn eða svo og keppa í leiðinni um heimsmeistaratitilinn. Sigurlaunin eru ekki af verri endanum, gullstytta úr 18 karötum, frítt flug með Katar erlæns og nokkur hundruð dánarbú farandverkamanna sem létu lífið við byggingu hinna glæsilegu og glænýju Katörsku fótboltavalla. Dómgæsla á mótinu verður nokkuð ströng og ekki verður hikað við að nota svokallaða myndbandsdómgæslu. Dómari, var þetta ekki brot? Leikbrot, jafnvel stílbrot? Nei þetta var bara ósköp venjulegt og saklaust mannréttindabrot og því má leikurinn halda áfram. Koma svo!

Olíuauðvald alheim platar
heims á enda loksins ratar
æru margur maður glatar
mitt í sandauðn suðrí Katar

Þess má til gamans geta að íslensk tunga er jafn góð hvort sem hún er töluð, íbitin, léttsöltuð eða reykt. Nammi.

Einar tungulipur.

Tilvitnun dagsins:

Allir: KATAR!!!!

Orðin trúleg

Guðhræddu lesendur.

Í tilefni af allra heilagra messu er ekki úr vegi að bloggarinn Einar Haf sýni sitt allra heilagasta og láti trúhræðslu sína bitna illilega á sóknarbörnum og öðrum lesendum. Þessi bloggfærsla er að mestu endurunnin upp úr lítið lesnum guðspjöllum enda engin ástæða til að láta spjöllin fara til spillis. Ætlast þú svo til að við trúum þessu? Trúlega. Is it trú? Já heldur betur. Bara aðeins meiri trú og þá hefði Jóhanna unnið Júróvísjón og andsetni norski fiðluflipparinn lent í öðru sæti.

Trúmál eru nú sem fyrr afar áberandi í þjóðlífinu. Samkvæmt nýlegri könnun hafa kaupmenn mikla trú á góðri jólavertíð og neytendur standa að sama skapi í þeirri trú að þeir muni gera góð kaup í kristilegum anda. Í bæklingi sem nú hefur verið dreift í flest hús er fagnaðarerindið boðað og það staðhæft að jólin þín byrji í kirkjunni IKEA. Þessari fullyrðingu til stuðnings hafa stjórnendur IKEA látið reisa gríðarstórt og eldfimt geitarlíkneski við verslunina. Munu trúaðir neytendur geta komið þangað öllum stundum og tilbeðið hina mammonsku og gullslegnu geit. Verði trúarhitinn of mikill er hætt við að geitin fuðri upp á verðbólgubálinu en hún yrði reyndar ekki sú fyrsta til að brenna fyrir málstaðinn.

Þeir sem nú sitja við kjarasamningaborðið hafa litla sem enga trú á því að það takist að semja um kaup og kjör í bráð enda eru bæði himinn, haf og Einar Haf á milli aðila þegar kemur að vonum og væntingum um nýja kjarasamninga. Auðvitað má alltaf vonast eftir kraftaverki og því verður næsta útspil samningsaðila að fá Þjóðkirkjuna með sér í lið. Jesús mettaði fimm þúsund manns með fimm brauðum og tveimur fiskum hér í eina tíð og vonir standa til að hann fáist til að endurtaka leikinn þannig að létta megi undir framfærslu hinna tekjulægstu. Þá myndi það koma ÁTVR og þar með ríkissjóði til góða ef tækist að semja við meistarann um að hefja að nýju að breyta vatni í vín, sérstaklega í ljósi boðaðra hækkana á áfengisgjaldi.

Í þeirri veiku von að bjarga glötuðum sálum og til að öðlast guðsblessun þora sóknarprestar Dalvíkur- og Möðruvallaprestakalls ekki öðru en að messa með reglulegu millibili, þar á meðal í Urðakirkju. Sumir vilja meina að það sé messað full oft en aðrir vilja meina að það sé messað alltof sjaldan. Vegna heimsfaraldurs hefur samkvæmt mínu bókhaldi verið messað um það bil árlega á tveggja ára fresti síðustu misseri og svo má deila um hvort það sé of oft eða of sjaldan. Burtséð frá tíðni messuhalds á kirkjan auðvitað ávallt að standa fólki til boða og þangað á fólk að geta leitað bæði í gleði og sorg, á hamingjustundum sem og í erfiðleikum og neyð. Urðakirkja hefði vissulega staðið fólki opin og breitt út kristilegan faðm sinn ef útidyrnar hefðu ekki staðið á sér á ögurstundu. Seinni partinn í október var boðað til messu en þegar opna átti kirkjuna í aðdraganda messunnar stóðu kirkjudyrnar…eða hurðin á sér vegna notkunarleysis og enginn komst inn um dyrnar…eða hurðina. Þegar loks tókst að sækja trúarlegan styrk í bókstafstrú og dyrastafstrú opnaðist kirkjan og varð eigi aftur lokað með góðu. Varð því kirkjan að standa opin þar til viðgerðarmaður kæmi á staðinn enda engin leið að loka dyrunum…eða hurðinni. Þrátt fyrir að kirkjan stæði opin trekkti það ekki að neina kirkjugesti, öfugt við það þegar fasteignasalar auglýsa opin hús og allt fyllist af fólki. Sennilega voru allir erlendis eða í höfuðborginni að kynda undir verðbólgunni í vetrarfríinu.

Trúarþorsta tæpast vilja svala
en tæta þess í stað um höf og lönd.
Á Tenerife þeir bjórinn drekka úr bala
og busla svo á heitri sólarströnd. 

Fyrir umrædda messu í Urðakirkju hafði það spurst út að hringjari dagsins yrði Einar Haf og að hann myndi notast við nýklassískan Nokia hringitón, H-moll. Fyrirfram taldi ég að þessar fregnir (auk hinna illa lokanlegu kirkjudyra….eða hurðar) myndu hafa jákvæð áhrif á mætingu messugesta en því var öfugt farið og hafa sjaldan mætt eins fáir til guðsþjónustu og nú. Aðeins þeir allra skylduræknustu og guðhræddustu mættu. Til messunnar mættu einn prestur, einn organisti, ellefu kórmeðlimir, sex kirkjugestir (þar af einn hringjari) og fimmtíu og átta kirkjuflugur. Allir sungu saman sálm númer 29 og báðu um betri hurð og smurðari lamir.

Mikli Drottinn, dýrð sé þér,
dásemd þína um aldaraðir
hurðin þrútin orðin er
í andakt utandyra glaðir
dyrastaf þinn föllum á
smurðar lamir allir þrá. 

Að lokinni guðsþjónustu var öllum nema kirkjuflugunum boðið inn í kaffi á Urðum og mæltist það vel fyrir hjá öllum nema kirkjuflugunum.

Kór og klerkur gleði ekki leyna
kætast þegar messað er á ný
sálmasöngur mun á raddbönd reyna
rjómi og súkkulaði bjarga því
ef ég væri orðin kirkjufluga
ég kúkað gæti ljósakúplum hjá
og þó ég ei til annars mætti duga
ég andast gæti gluggakistu á.

Hrekkjavökubúningar fræga, fallega og ríka fólksins voru afar fjölbreyttir, nýstárlegir og jafnvel lygilegir þetta árið. Bjarni Ben klæddi sig í jakkaföt af Guðlaugi Þór og Guðlaugur Þór klæddi sig í jakkaföt af Bjarna Ben. Útkoman var vægast sagt sláandi. Forsætisráðherra dulbjó sig sem rithöfund, Einar Haf klæddi sig eins og Gísli á Uppsölum og pabbi ríkislögreglustjóra fór í gervi vopnasafnara. Ótrúlegt….en satt.

Einar ofsa trúar.

Tilvitnun dagsins:

Allir: AMEN!!!