Greinasafn fyrir flokkinn: Pistlar & Pillur

Orðin 2016

Nýárslegu lesendur.

Nýtt ár, nýjar væntingar, ný sýn, nýtt fólk, ný vonbrigði, ný hringrás, nýtt vín og gamlir belgir. Segir einn gamall belgur; Einar Haf. Hvenær skyldi maðurinn þroskast og hætta þessum barnaskap? Það er mjög góð spurning. Svarið fæst alveg örugglega ekki í þessari bloggfærslu, en við getum samt lifað í voninni.

Nú eru síðustu áramótabrennurnar kulnaðar, síðasti flugeldurinn sprunginn og síðasta jólasteikin snædd. Lífið er aftur komið í gömlu skorðurnar og ekkert framundan nema dimmblátt svartnættið, drungi og depurð. Eða hvað? Ekki endilega nei. Ljósið í myrkrinu er auðvitað að Alþingi hefur brátt göngu sína á ný eftir jólaleyfi og svo ætla strákarnir okkar að skora hverja stórþjóðina á hólm á Evrópumótinu í handbolta í Póllandi nú um miðjan mánuðinn. Þar verður sko aldeilis skurk á skelinni.

Talandi um kulnaðar brennur, þrettándabrenna Ungmennafélagsins Þorsteins Svörfuðar fór að mestu friðsamlega fram við Tungurétt í Svarfaðardal að kveldi þrettánda dags jóla. Eignatjón varð nokkuð en það var viðbúið, enda erum við að tala um gömul áburðarbretti, eldfiman vökva og rokeldspýtur. Veður var með ágætum, bálkösturinn þurr á manninn og eldsneytið fljótandi í brúsum og tunnum þannig að ekki var að sökum að spyrja. Nokkurt fjölmenni mætti til að vera viðstatt herlegheitin sem og skothríð björgunarsveitarinnar á Dalvík þegar leikar stóðu sem hæst. Ekki var hægt að heyra annað en að samkoman þætti takast ágætlega, sjálfur var ég of upptekinn við að hella olíu á ófriðarbálið ásamt félögum mínum. Og ekki í fyrsta sinn.

Fyrirséð er að sviptingar verða á fjölmiðlamarkaði á árinu 2016. Hið svokallaða Netflix ryður sér nú til rúms þar sem notendum bjóðast fjölmargir þættir og afþreying á hlægilega lágu verði. Erfitt verður fyrir einkareknar hérlendar sjónvarpsstöðvar og bloggsíður að keppa við þetta. Dagar sjónvarpslausra fimmtudaga virðast svo óralangt í burtu nú þegar holskefla sjónvarpsþátta og kvikmynda eirir engum sem fyrir verður. Hvernig nokkur maður kemst til þess að horfa á alla þá þætti sem framleiddir eru, það veit ég ekki. Ég hef nóg með það eitt að komast gegnum þessa bloggfærslu.

Tilhleypingar þóttu takast ágætlega þessi jólin að sögn hins kindarlega Gandí Laufasonar talsmanns hrúta í fjárhúsunum á Urðum í samtali við heimildamann bloggsíðu Einars Haf. Nokkuð hafi gengið á þegar beiðsli náðu hámarki um og eftir aðfangadag jóla en það hafi ekki verið neitt sem vösk sveit hrúta réði ekki við. Eitthvað var um uppbeiðsli en tekið hefði verið á hverju tilfelli fyrir sig og það afgreitt samviskusamlega. Samtalið við Gandí varð frekar snubbótt enda var stutt í morgungjöf, hungrið farið að sverfa að og hann hafði þar af leiðandi allt á hornum sér. Engin smá horn það.

Talandi um að hafa allt á hornum sér; það er orðinn árlegur viðburður að allt verður vitlaust þegar listamannalaunum er úthlutað. Hneyksli vikunnar er einmitt þetta. Enn og aftur var Einar Hafliðason bloggsíðuritari hundsaður þegar listamannalaunum var úthlutað, einhverra hluta vegna. Næst þegar listamannalaunum verður úthlutað mun Einar sjálfur velja einhvern í úthlutunarnefndina – þá skulum við sjá hvað gerist.

Listamenn semja og skrifa
skálda og leita hughrifa
kröpp eru kjör
en svo verður fjör,
á einhverju verða að lifa.

Undirbúningur fyrir þorrablót Svardælinga á Rimum 30. janúar næstkomandi er hafinn. Ýmiskonar leynimakk og undirferli nefndarmanna og ábyrgðaraðila einkenna þann tíma sem nú fer í hönd. Mun Einar Haf eitthvað koma nálægt þessu? Ó nei, ekki segja það. Það er bara eitt sem ég hef um þetta að segja: múhahahahahaha.

Engar kvikmyndir voru teknar upp af auðmönnum í fangelsi meðan á gerð þessarar bloggfærslu stóð.

Einar lævi blandinn.

Tilvitnun dagsins:
Nurse #2: Mrs. Nordberg, I think we can save your husband’s arm. Where would you like it sent?

Mót við áraorð

Góðir Íslendingar.

Það er til siðs og raunar ekkert annað en sjálfsögð kurteisi að staldra ögn við á tímamótum eins og þeim sem við stöndum nú á og líta til baka yfir farinn veg. Því þó svo að við vitum ekkert hvert við erum að fara er ágætt að skoða hvaðan við erum að koma. Sagði enginn. Aldrei. Áramótahugvekjur eru afar hentugar til þess að koma á lymskufullan hátt annarlegum skoðunum og hugsjónum hugvekjuhöfundar á framfæri í dulbúningi – og rugla þannig lesendur í ríminu. Efni hugvekjunnar er að mestu endurunnið úr fyrri hugvekjum, því þetta eru jú ekki fyrstu áramótin sem skollið hafa á.

Íslendingar eru þrautseig þjóð. Íbúar þessa lands hafa frá örófi alda staðið saman gegn hvers kyns ógnunum og hindrunum og hafa ekki látið sundurlyndi og óeiningu koma í veg fyrir framþróun og framfarir hvers konar. Hér hefur þjóðin þraukað við kröpp kjör og hrikaleg náttúruöfl og staðið saman gegnum þykkt og þunnt. Þjóðin var sem einn maður í IceSave deilunni, í þorskastríðinu og á tímum einokunar og kúgunar. Þjóðin stóð saman í forræðisdeilu Sophiu Hansen gegn Halim Al og þjóðin stóð saman til að fá því framgengt að Justin Bieber kæmi hingað og héldi tvenna tónleika. Já, þegar mest á reynir stendur þjóðin saman.

Við lifum á viðsjárverðum tímum. Veröldin er að hitna, jöklarnir bráðna og sjávarmál fer hækkandi. Landamæri eru að verða óskýrari og ofstæki og öfgar ná fram að ganga á ýmsum sviðum. Íslenskt rapp er orðið vinsælt og Gísli Pálmi þykir móðins. Já þetta eru frekar ógnvekjandi tímar sem við lifum á. Sem betur fer er líka margt sem er jákvætt. Fuglarnir syngja enn sinn söng, tún og engi grænka enn þegar vorar og sauðkindin gengur enn frjáls um fjallasali og kyrrláta dali sumardægrin löng.

Já þið lásuð rétt. Íslenska sauðkindin. Hvað annað? Hún var nokkuð milli tannanna á fólki á árinu sem er að líða. Sem betur fer, kindakjötið á að vera milli tannanna á fólki – rétt áður en það rennur ljúflega niður í maga. Blessuð sauðkindin, þessi tignarlega skepna sem hefur hjálpað íslenskri þjóð að þrauka hér á hjara veraldar gegnum aldirnar. Hún þarf sinn sess í hverri einustu áramótahugvekju, eigi að taka hugvekjuna alvarlega. Hún mun eftir sem áður hjálpa íslenskri þjóð að þrauka af á nýju ári. Það er að segja sauðkindin….ekki hugvekjan.

Þrátt fyrir fámennið gera Íslendingar það gott á hverjum degi vítt og breitt um veröldina. Við eigum íþróttafólk, kvikmyndagerðarfólk, tónlistarfólk, hugvitsmenn og sérfræðinga sem skara fram úr á sínum sviðum og bera hróður okkar um heimsbyggðina þvera og endilanga. Gunnar okkar Nelson gerir það gott og er góð fyrirmynd – þar sem hann hefur sýnt fram á að þó maður sé barinn í gólfið og lúskrað sé á manni er það í fína lagi ef launin eru nógu há. Kjarasamningar ársins tóku einmitt mið af þessu. Baltasar okkar Kormákur flýgur til og frá Hollywood eins og hann fái borgað fyrir það og leikstýrir hverju stykkinu á fætur öðru hvort sem er hérlendis eða erlendis eins og hann fái borgað fyrir það. Sem hann reyndar fær. Of Monsters and okkar Men spila út um hvippinn og hvappinn fyrir aragrúa fólks og kynna um leið land og þjóð. Að vísu á ensku, en allt í lagi. Hugvitsmenn og sérfræðingar eru fluttir út í stórum stíl og gera það gott um víðan heim. Þetta er kannski ekki æskileg þróun en ef það er huggun þá njóta þó að minnsta kosti einhverjir góðs af þessum íslensku gáfum.

Við Íslendingar megum ekki gleyma uppruna okkar. Víkingarnir fóru um heiminn fyrir þúsund árum og rændu, drápu og nauðguðu. Þessu megum við ekki gleyma og við eigum að vera stolt af okkar uppruna. Íslenskt þjóðlíf ber enn þann dag í dag keim af þessu. Næturlífið, hegðun fólks á samfélagsmiðlum og fleira í þeim dúr sannar það. Einu sinni vorum við fátæk þjóð sem mátti þola sult og volæði. Í dag erum við rík þjóð en samt er enn til staðar sultur og volæði. Talandi um sultur, þær voru góðar rabbarbarasulturnar og rifsberjasulturnar sem hún móðir mín sauð á árinu. Með svona sultur ætti sultur brátt að verða úr sögunni.

En hvað einkenndi árið sem er í þann mund að andast? Ýmislegt mætti nefna. Til dæmis alla gullmolana, bumbugullin, krúttmolana, æðibínurnar, prinsessurnar og gimsteinana sem komu í heiminn á árinu. Fasbókarsíður fylltust af myndum og frásögnum af þessum himnasendingum og gersemum, svo mjög að á köflum keyrði um þverbak. Það var eins og aldrei hefðu komið börn í heiminn áður. Hafa ber í huga að þessi áramótahugvekja er rituð af gömlum einsömlum fúlum kalli.

Góðir Íslendingar. Nýtt ár er handan við hornið. Hvað boðar nýárs blessuð sól? Hún boðar fleiri tæki og tól? Nei hún boðar glens og grín og gól? Nei ekki heldur. Hún boðar spikk og span og spól? Æi góði besti. Hún boðar náttúrunnar jól. Hvað sem það nú þýðir. Hann Matthías Jochumson velti þessu fyrir sér í meitluðu kvæði seint á 19. öld. Matthías hefði einmitt orðið 180 ára gamall nú á árinu sem er senn á enda runnið. Ekkert smá afmæli þar á ferð. Kveðskapur Matthíasar hefur fylgt þjóðinni í næstum því öll þessi ár. Hans helstu hittarar eru tvímælalaust Lofsöngurinn Ó Guð vors lands, Hvað boðar nýárs blessuð sól? og Fögur er foldin, sem var í 13 vikur samfleytt á toppi vinsældarlista Rásar 2 á sínum tíma. Við skulum hugleiða um stund og þakka fyrir íslenskan skálda- og sagnaarf. Við skulum líka þakka fyrir að þessi hugvekja er nú loksins að líða undir lok.

Aftur koma áramót
og enn er staðan býsna snúin
kannski er það sárabót
að þessi hugvekja er búin.

Að endingu vil ég þakka fyrir árið sem er alveg hér um bil að syngja sitt síðasta og springa í loft upp. Vonandi verður nýtt ár gæfuríkt og fullt af gleði og hamingju, þó ég leyfi mér að efast um það í ljósi þess að þessi bloggsíða er ennþá starfandi. Sjáum hvað setur.

Bessastöðum 31. desember 2015.
Einar Okkar Hafliðason

Tilvitnun dagsins:
Örvar: Fórst þú á áramótabrennu?
Bogi: Já en ég rétt slapp áður en þeir kveiktu í henni.

Jólasveinar orð og átta

Betlehemslegu lesendur.

Nú þegar hátíð ljóss og friðar nálgast óðfluga er ekki seinna vænna en að koma sér og lesendum í hátíðargír. Hvernig er best að gera það? Nú, með því sama og alltaf. Með því að leysa hinn heilaga anda úr læðingi og láta hann svífa frjálsan yfir vötnunum og yfir hausamótum landsmanna. Það skulu allir komast í hátíðarskap, hvort sem ykkur líkar það betur eða verr. Þú komst með jólin til mín…..og allt það.

Talandi um hátíðarskap, það voru margir í sannkölluðu hátíðarskapi um síðustu helgi þegar Gunnar okkar Nelson lét til sín taka í slagsmálabransanum í Las Vegas og þjóðin fylgdist spennt með vonarstjörnu sinni. Gunnar stóð sig vel eins og alltaf og var ekki kýldur í smettið nema um 200 sinnum í þremur lotum á móti einhverjum brasilískum jújítsúfújitsjúmeistara. Auðvitað er það bara bábilja og kjaftæði að halda því fram að bardagaíþróttir sem þessar valdi heilaskaða. Augljóslega er þetta hættulaust sport. Blóðugar augntóftir og fjólubláar kinnar eru bara partur af útliti bardagamanna. Og hvaða barn eða unglingur vill ekki verða bardagamaður? Þetta eru svo ofboðslega góðar fyrirmyndir. Svo er það líka bara hressandi fyrir hvern sem er að hrista aðeins upp í heilasellunum af og til og láta berja þær dauðu úr kollinum, segja 3 af hverjum 4 læknum. 1 af hverjum 4 læknum bendir á að aðeins menn sem eru með heilaskaða fyrir láti hafa sig út í að taka þátt í athæfi sem þessu, þó það sé gegn svimandi hárri greiðslu.

Mér finnst samt eyrun á reyndu bardagaköppunum flottust, þau eru svona eins og þau hafi lent undir straujárninu með skyrtunni og sparibuxunum. Og svo gleymdi einhver straujárninu á strauborðinu. Úbbs.

Þónokkrir umhleypingar eru í veðrinu þessa dagana þannig að maður veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið. Þið verðið að fyrirgefa veðrið, það breytir því enginn. Þegar svona viðrar verður manni hugsað til þess hvernig þetta var nú þarna í fyrndinni þegar samgöngur voru mun frumstæðari en nú og fólk þurfti á milli staða í hvaða veðri sem var. María og Jósep gátu til að mynda ekki reitt sig á björgunarsveitir, snjóbíla eða vélsleða þegar þau börðust í stórhríðinni milli skafla þarna í eyðimörkinni um árið í leit að gistihúsi. Ekki var gönguskónum eða kraftgöllunum fyrir að fara. Nei, aldeilis ekki. Það hefur sennilega bjargað þeim að asninn sem þau riðu á var fjórhjóladrifinn. En hvað veit ég svo sem? Ekki svara þessu.

Bloggritunarferill Einars Haf er nokkuð skrykkjóttur, sé litið til baka. Til fjölda ára hefur hann leitt landsmenn á villigötur en stundum þó í sannleikann um hin ýmsu mál. Þetta hefur vitaskuld mælst misvel fyrir, enda hefur þetta verið gert á misgáfulegan hátt. Vonir standa til að bloggfærslur Einars verði aðeins fullorðinslegri, alvarlegri og skárri á allan hátt ef Einari tekst að ná 30 ára aldri, sem allt stefnir í nú í svartasta svartnættinu 21. desember næstkomandi. Fastlega má því búast við aukinni menningarumfjöllun, umfjöllun um þjóðfélagsleg umbótamál og umfjöllun um áhugamál eldri borgara eins og Einars hér á bloggsíðunni nú í afar náinni framtíð.

Talandi um menningarumfjöllun; fjöldinn allur af jólabókum kemur út nú fyrir jólin venju samkvæmt. Væri ekki ráð að glugga í nokkrar þeirra? Jú, endilega.

Þófið: Spenna, sprenghlægileg augnablik og gáskafull frásögn. Hér hefur forseti Alþingis tekið saman brot af því allra besta úr málþófi Alþingismanna haustið 2015. Bókin er 1.300 blaðsíður og tekur lestur hennar rúmar 90 klukkustundir. Jólanóttin mun virðast heila eilífð að líða með þessa bók við höndina.

Flóttinn mikli: Grátbrosleg saga um albanska fjölskyldu sem leitar skjóls á eyju norður í ballarhafi þar sem hún er á flótta undan hrottalegum glæpamönnum í heimalandinu. Íslenska þjóðin klofnar í afstöðu sinni til þess hvort fólkið eigi að vera eða fara úr landi. Spennan nær hámarki í kaflanum um litla strákinn með bangsann, Útlendingastofnun og umsóknina um ríkisborgararéttinn.

Konan við þúsund gráður: Bók sem fjallar á afar bókstaflegan og beinskeyttan hátt um hræðilegar afleiðingar loftslagsbreytinga og hnatthlýnunar.

Grillréttir Hagkaups: Hér er enn á ný tekið til við að grilla í fólki og nú hitnar verulega í kolunum. Reyndir grillmeistarar fara hamförum í hverri steikinni á fætur annarri. Sjálfsagt hefur þetta eitthvað með mat að gera líka.

Nautið: Fyrst hélt að þetta væri bók um stjörnumerki. Síðan hélt ég kannski að þetta væri einhver skuggaleg matreiðslubók. Nú er ég bara orðinn skíthræddur og fel mig undir rúmi. Þori ekki að halda lestrinum áfram.

Fyrirgefðu, ég hélt að þetta ætti að vera málefnaleg umfjöllun. Það gat auðvitað ekki staðist.

Hneyksli vikunnar er stóra hliðmálið á Arnarnesi. Auðvitað er það bara gott mál ef hægt er að sýna fram á skiptingu fólks í stéttir hér á landi með girðingum, þ.e. hólfa af ákveðna þjóðfélagshópa. Þetta er sennilega ekki hneyksli, þetta er bara sjálfsagt mál.

Jólasveinarnir streyma nú til byggða einn af öðrum. Askasleikir er væntanlegur, þó vissulega sé lítið um aska fyrir hann til að sleikja. Hurðaskellir kemur á eftir honum en hann hefur einnig átt erfitt uppdráttar vegna sívaxandi fjölda rafknúinna hurða og pumpna sem valda því að ekki er hægt að skella hurðum. Gluggagægir er þó í ágætis málum, sérstaklega eftir tilkomu Hörpunnar og fleiri slíkra gluggabygginga.

Heyrðu þessi bloggfærsla er farin að minna óþægilega mikið á málþóf. Á að eiga afmæli við þetta? Já næstum því…..

Jólatréð í stofu bráðum stendur
af gleði barnið fellir lítið tár
í hringnum kappinn liggur nú örendur
gulur og rauður og svolítið fjólublár.

Og svo ein sem er allra tíma klassík:
Það á að bíta í börnin snauð
býsna mörg á jólunum,
bjarga sér í dagsins nauð
með könnur uppi á stólunum
væna flís af erkisauð
er varla gekk á hólunum
nú er hún gamla Grýla dauð
hengdi hún sig í rólunum.

Þegar næsta bloggfærsla fer í loftið er mjög hætt við því að bloggsíðuritari hafi elst ótæpilega. Það gera lesendur reyndar líka með hverri færslu sem þeir lesa.

Að lokum óska ég ykkur öllum gleðilegra og málþófslausra jóla og vara ykkur jafnframt við yfirvofandi áramótaávarpi bloggsíðu Einars Haf.

Einar jólastrákur.

Tilvitnun dagsins:
Skrámur: Ég skal finna þig í fjöru!

Ég kemst í hátíðarorð

Upp á stól-slegu lesendur.

Jú það líður að jólum. Reyndar hefur liðið að jólum alveg síðan síðustu jólum lauk. Nú líður samt virkilega að jólum. Jólaösin er komin af stað og stutt er í að fyrsti jólasveinninn, Stekkjastaur, komi til byggða. Ég veit, það eru margar margar vikur síðan jólasveinarnir létu á sér kræla í mannabyggðum, en með stífri rannsóknarblaðamennsku og uppljóstrunum starfsmanna Einarhaf.is tókst auðvitað að sýna fram á hvers lags loddarar og gervijólasveinar væru þar á ferð, drifnir áfram af gróðasjúkum verslunarmönnum.

Þetta er ekki eina rannsóknarblaðamennskan sem bloggsíða Einars Haf hefur staðið fyrir. Það var til dæmis bloggsíðan sem uppljóstraði því á sínum tíma að Al Thani væri bara súkkulaðisjeik, en ekki raunverulegur arabískur fjárfestir. Svo kom það líka fyrst fram á bloggsíðu Einars Haf að jólin byrji ekki í IKEA heldur í fjárhúsunum. Það er svo augljóst svona eftir á að hyggja, ekki satt?

Það er nú einmitt að koma að því að hin árlega umfjöllun Einars Haf um tilhleypingar í fjárhúsum landsmanna eigi sér stað. Kannski full snemmt, en samt. Kindakynlífið er um það bil að detta í gang með tilheyrandi bægslagangi og fjárdrætti. Nú er svo komið að fjölmargir fjárbændur láta sæða ærnar sínar með verðlaunuðum hrútafyrirsætum og sæðisgjöfum sem lesa má mærðaryrði um í hinni árlegu hrútaskrá. Hvers eiga heimahrútarnir að gjalda? Þeir þurfa að horfa upp á þetta. Hvernig þætti húsbændum það ef eiginkonurnar yrðu sæddar með verðlaunafyrirsætum og sæðisgjöfum sem lesa má mærðaryrði um í hinni árlegu hrútaskrá. Nei bíddu við, þetta er alls ekki raunhæft dæmi. Hvað þá sambærilegt. O jæja. Ekki í fyrsta skipti á þessari bloggsíðu sem farið er með fleipur.

Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður, hefur nú verið sviptur réttinum til að bera fálkaorðuna. Fálkaorðuna hlaut hann svo eftirminnilega árið 2007 fyrir forystu í útrás íslenskrar fjármálastarfsemi. Öll vitum við nú hvernig það fór. Siggi var úti með ærnar í haga en allar þær stukku suður í mó. Og aumingja Siggi þorði ekki heim frá London. Hann er reyndar í fangelsi hér á landi þessa dagana, örugglega bara fyrir misskilning – enda gerði hann ekkert af sér. Raunar hafði hann ekki hugmynd um hvað gekk á í íslenska bankakerfinu fyrir hrun, enda var hann bara einn að bora í nefið á skrifstofu sinni á besta og dýrasta stað í London á sama tíma, að samþætta störf Kaupþings á alþjóðavísu eins og það var svo skemmtilega orðað, og þáði bara laun fyrir en gerði ekkert annað ámælisvert. En hvers vegna var hann sviptur fálkaorðunni? Mér skilst hann hafi fallið á lyfjaprófi, þannig að sá sem varð í öðru sæti fær orðuna bara í staðinn.

Fyrir nokkrum dögum gekk óveðurslægð yfir landið, ef það skyldi hafa farið framhjá einhverjum. All mikið veður var gert út af veðrinu í fjölmiðlum en ég hafði svo sem haft veður af þessu nokkru áður – með lestri veðurkorta. Það veður aldeilis á honum Einari, þið afsakið það. Óveðrið olli töluverðu tjóni, bæði á raflínum og ýmsum mannvirkjum. Á Hallormsstaðahálsi voru hviður yfir 70 metrar á sekúndu þegar verst lét. Og á Einari Haf er kviður vel yfir 7 metra á sekúndu. Það kemur óveðrinu þó ekkert við.

Hneyksli vikunnar er veðurfréttalesturshneykslið og slær það út mörgum fyrri hneykslum hvað varðar eðli og ákúrur í garð minnihlutahópa. Auðvitað er það hneyksli að jafn mikilvægar fréttir og veðurfréttir séu fluttar með bjöguðum evrópskum hreim.

Drunga og depurð ég vísa á bug
því brátt sigrar ljósið myrkrið svart
djörfung ég sýni og herði minn hug
senn heyrist ekkert lengur kvart.

Í fjárhúsi frelsarans boðskapur skýr
þulinn er upp fyrir stóra og smáa
fagnið þið lífinu fallegu dýr
friður á jörð milli hrúta og áa.

Þess má geta að þessi bloggfærsla var rædd 128 sinnum undir liðnum „fundarstjórn forseta“ – í öll skiptin á málefnalegan hátt.

Þess má líka geta að engum hælisleitendum var svarað um hæl eða hæli við gerð þessarar bloggfærslu. Ekki hæli ég því.

Einar jólasería.

Tilvitnun dagsins:
Skrámur: Jóli, þetta er ekkert fyndið hjá þér lengur!

Des í orðember

Snjóugu lesendur.

Það er aldeilis óhætt að halda því fram fullum fetum og án þess að blikkna að veturinn hafi haldið innreið sína hér á landi. Haustið var langt og gott en nú er skollinn á vetur með tilheyrandi éljagangi, nýsnævi og umferðartöfum. Ófærðar hefur þegar orðið vart en þó þarf hún að vera býsna mikil þannig að Subaru Impreza Sedan Snowplow árg. 2003 finni eitthvað fyrir því að marki. Er ég kominn á keðjur? Nei, Nike skórnir duga vel ennþá.

Veðurfræðingar gleðjast þessa dagana, enda þrífast þeir flestir á endalausum lægðagangi. Það er ekkert varið í veðurkortin þegar veðrið er rólegt og hæðirnar umlykja landið. Nú hins vegar eru þrýstilínurnar afar þrýstnar og hver hefur ekki gaman af þrýstnum línum? Greint hefur verið frá því að snjókoman í Reykjavík sé algjört met en nokkuð er þó enn í að Svarfaðardalshreppsmetinu verði ógnað. Hvað finnst Einsa Kalda um þetta veðurfar? Ég spyr hann þegar hann þiðnar.

Það var ekki nóg með að kaupmenn auglýstu Black Friday eins og þeir ættu lífið að leysa, heldur bættist Cyber Monday við, hver andskotinn sem það nú er. Og Cyber Monday var meira að segja framlengdur til þriðjudags í einhverjum tilfellum. Hvers konar rugl er þetta eiginlega? Hvað varð um að halda bara upp á Svartan föstudag? Eða bjóða upp á Ýlisútsölu? Hvað með Spádómakertisafsláttinn? Eða Fullveldisdagstilboðið? Þarf alltaf að apa allt upp eftir einhverjum froðuhöfðum í hinni stóru Ameríku. Þvílík minnimáttarkennd. Af hverju hefur Einar Haf samt ekki bloggað í fleiri daga? Æi ég mátti ekki vera að því, var enn slappur eftir Þeinksgiving.

Veðurhorfur næsta sólarhringinn eru annars þessar: Gengur í norðan 15 metra en snýr svo við og gengur í vestur. Fær sér áttavita. Gengur síðan í norðaustan 13-20 metra á sekúndu með skafrenningi á heiðum og stöku uppskafningi í innsveitum. Frost 4-14 stig í frystihólfinu í ísskápnum, annars hiti um og undir frostmarki en ekkert frost að marki.

Jájá, átti þetta nú að vera eitthvað fyndið? Ég skal segja ykkur hvað er fyndið, listaverkið nakinn karl í kassa – það er fyndið. Það er svo fyndið að það er ekki einu sinni hægt að gera grín að því.

Nú eru allir voða spenntir að vita hvort forseti vor, Ólafur Ragnar Grímsson, hyggst bjóða sig fram til forseta á nýjan leik eða hvort hann ætli að segja þetta gott næsta vor eftir 20 ár í embætti. Ólafur tjáir sig vitaskuld ekkert um málið, enda væri það algjört glapræði svona stuttu fyrir nýársávarpið. Ég meina, um að gera að byggja upp spennu til að fá sem mest áhorf. Óstaðfestar heimildir herma að ávarpið í ár verði í fyrsta sinn með auglýsingahléi 2007-stæl.

Nýjasti skandallinn í langri röð hérlendra skandala er án efa jóladagatalsskandallinn. Ég spyr nú bara; af hverju mátti ekki sýna Á baðkari til Betlehem aftur? Það skal tekið fram í þessu samhengi að þessi bloggfærsla sem þú varst að lesa var upphaflega send út á dönsku með íslenskum texta, en var loks talsett eftir fjölmargar athugasemdir ýmissa minnihlutahópa.

Á skjáinn gónir skúffað lið
og skilur ekki neitt í neinu
sit ég einn og eins þess bið
að fá í skóinn hálfa kleinu.

Hafa þessir Danir ekki fengið nóg? Nei, nú ætla þeir líka að hirða af okkur jóladagatalið. Aðeins ÞÚ getur stöðvað þá!

Einar undir skafli.

Tilvitnun dagsins:
Sigfinnur: JÁ.

Orð samkvæmt nýrri rannsókn

Góðu lesendur.

Samkvæmt nýrri rannsókn getur lestur bloggsíðu Einars Haf valdið óstjórnlegum niðurgangi. Þessi rannsókn hefur sem betur fer ekki farið hátt í fjölmiðlum vegna fjölda annarra mála sem komið hafa upp og hafa af einhverjum sökum þótt merkilegri.

Samkvæmt nýrri rannsókn eru konur í gríðarlegum minnihluta þegar kemur að viðmælendum í fjölmiðlum. Og hvað með það? Það er alltaf sama tuðið í þessu kvenfólki. Aldrei mega strákarnir fá að hafa neitt út af fyrir sig. Þær hafa saumaklúbba, 50 gráa skugga, kvenfélög og uppskriftarbækur, nú vilja þær líka fá fjölmiðlaathyglina. Týpískt. Hvernig væri að fá Einar til að rita fáeinar greinar um ójafna stöðu kynjana í fjölmiðlum? Jú eflaust góð hugmynd, nema hvað að Einar er karlrembusvín og myndi án efa níða skóinn af kvenfólkinu blygðunarlaust með dylgjum og útúrsnúningum eins og þessi efnisgrein sýnir fram á – og ekki er á það bætandi.

Samkvæmt nýlegri rannsókn er spilling á Íslandi ein sú minnsta sem fyrirfinnst á byggðu bóli og þó víðar væri leitað. Rannsóknin náði til allra stjórnmálaflokka, ungmennafélaga, trúfélaga, bólfélaga og bloggsíðna. Hmm…nei, líklega náði hún til allra nema stjórnmálaflokka, ungmennafélaga, trúfélaga, bólfélaga og bloggsíðna. Algjörlega ótengt þessu má nefna að önnur rannsókn sýndi fram á að aðeins tæp 10% landsmanna vita hvað orðið „spilling“ þýðir.

Samkvæmt nýrri rannsókn selja kampavínsklúbbar ekki bara kampavín. Þetta kemur auðvitað verulega á óvart.

Samkvæmt nýrri rannsókn mengar hérlend stóriðja stórkostlega mikið meira en flestir aðrir fretarar og mengunarsvelgir landsins. Skýtur stóriðjan sjávarútvegi og flugsamgöngum ref fyrir rass þegar kemur að útblæstri og eyðingu ósonlagsins. Allt stefnir í að árið 2015 verði það hlýjasta í heiminum frá upphafi mælinga. Með áframhaldandi mengun lofthjúpsins er vel mögulegt að okkur takist enn betur til við hlýnun jarðar á árinu 2016. Spennandi.

Samkvæmt nýrri rannsókn eru nýjar rannsóknir ekkert endilega betri eða marktækari heldur en eldri rannsóknir.

Það þurfti ekki nýja rannsókn til að koma Svarfdælingum á kortið, það þurfti bara auða vélageymslu, útihús og utanbæjarmenn til að koma dalnum fagra í fréttirnar. Dæmigert. Auðvitað er þetta bara yfirskin yfir allt aðra og miklu dularfyllri starfsemi sem hefur átt sér stað hér í framdalnum um langt árabil. Ég ætla auðvitað ekki að segja hvaða starfsemi það er, en hún tengist auðvitað þessari bloggsíðu og því hvernig Einar Haf fær „innblástur“.

Úti í skúrnum litla urt
ætla ég að kanna
í huganum ég flýg í burt
í þágu vísindanna.

Ekki var tekið viðtal við neinar konur, eða Einar konur, í tengslum við gerð þessarar bloggfærslu. Það gengur bara betur næst. Áfram stelpur.

Einar sýknaður. Og skakkur. Samkvæmt nýrri rannsókn.

Tilvitnun dagsins:
Homer Simpson: Boy, everyone is stupid except me.

Orðin(n) ofsalega bandbrjálaður

Furðulegu lesendur.

Athugið, til að hámarka „ánægjuna“ af lestri þessarar bloggfærslu er æskilegast að hún sé lesin í anda þess sem les inn á Víkingalottóauglýsingarnar sem heyrast þessa dagana í sjónvarpi og útvarpi.

Það eru ýmis mál sem þarf að taka fyrir og fjalla um þessa dagana. Þessi mál eru mis umfangsmikil og mis falleg. Sum eru alls ekki falleg, heldur hræðileg. Eitt þeirra mála er til umræðu í þessari bloggfærslu; jólaundirbúningur og jólaskraut um miðjan nóvember.

Alveg er það með hreinum ólíkindum hvernig sumt fullorðið „viti“borið fólk útþynnir jólahátíðina með því að setja allt á fullt nú um miðjan nóvember við jólaundirbúning. Hvað vakir fyrir þessu fólki? Fyrir þá sem ekki vita er desember jólamánuðurinn, en nóvember er bara nóvember. Það á að vera dimmt og drungalegt í nóvember. Það á að vera skítakuldi, hor og ógeð í nóvember. Til þess er nóvember. Lok nóvember er í lagi, enda byrjar aðventan þá. En er það nóg fyrir þetta skreytingaglaða fólk? Neeeeiiiii.

Kaupmenn eru auðvitað helstu sökudólgarnir í þessu máli. Búið er að markaðssetja jólin þannig að byrja þarf að kaupa inn og gera og græja snemma í nóvember og þannig er hinn kristilegi boðskapur um nægjusemi, hógværð og andlega stillingu að engu hafður. Auðvitað tek ég þátt í þessu og versla eins og óður maður þegar nálgast jólin. Það er ekki mér að kenna, þetta er einfaldlega hópþrýstingur og krafa samfélagsins. Af nákvæmlega sömu ástæðu byrjaði ég á facebook. Kaupmenn, eru þeir sáttir við þetta? Neeeiiiiiii……..þeir vilja meira. Og meira. Aðeins þú getur stöðvað þá.

Heill hellingur af fólki hefur nú þegar kveikt á jólaseríunum. Auðvitað, ekki seinna vænna. Þegar þetta er borið undir viðkomandi koma ýmsar afsakanir, eins og til dæmis að veðrið hafi verið svo gott undanfarið að það hafi verið alveg tilvalið að setja upp jólaseríurnar. Ég kaupi alveg þau rök. En var nauðsynlegt að setja seríurnar í samband líka? Er ekki hægt að setja seríurnar í samband í desember þó komið sé frost og snjór? Er það ekki nóg fyrir þetta seríuglaða fólk? Neeeeeiiiiiii.

Fyrsti jólasveinninn kom til byggða í byrjun þessa mánaðar og mætti auðvitað í IKEA, enda var honum tjáð að jólin byrjuðu þar. Raunar væri það fyrsti vísirinn að jólunum þegar kveikt væri í jólageitinni. Sem kveikti reyndar í sér sjálf að þessu sinni. Jólasveinarnir eru nú þegar orðnir hundleiðir á því að þurfa að húka við búðargluggana og bíða þar eftir því að geta farið að syngja jólalög, dansa í kringum jólatréð og gefa í skóinn. Sem gerist einmitt alveg rétt ekki á morgun, ekki hinn og ekki hinn heldur eftir þrjár vikur. Frábært. Var það þetta sem þið vilduð? Var ekki nóg að fá jólasveinana til byggða í desember? Neeeeeiiiiiiii.

Er ég ekki að taka þessu heldur illa? Ætti ég ekki að hleypa skammdeginu og drunganum úr hjarta mínu og bjóða þangað inn birtunni og ylnum sem fylgir ætíð undirbúningi jólanna? Er þetta ekki spurning um að róa sig aðeins og sætta sig við orðinn hlut? Neeeeeiiiiiiiiiiii.

Tíminn líður á ógnarhraða og áður en við vitum af verður aðventan byrjuð. Þá hljómar þessi bloggfærsla eflaust mjög illa. En er mér sama? Jáááááááááá.

Í hátíðarskap ég kemst í dag
þvert gegn vilja, því er ver
húsið er nú með helgum brag
fullskreytt um miðjan nóvember.

Hvað skyldi forseti vor, Jólafur Ragnar Grímsson, hafa um þetta að segja? Réttast væri fyrir hann að neita því að staðfesta jólalögin sem lög frá Alþingi og senda allt heila klabbið í þjóðaratkvæði. Hvernig myndi ég kjósa? Neeeeiiiii.

Einar óhemju neeeiiiikvæður.

Tilvitnun dagsins:
Homer: Shut up, Flanders!
Ned Flanders: Okily-dokily!

Orðin bundin

Strengdu lesendur.

Varúð, þema þessarar bloggfærslu er bundið. Með eða án samþykkis ykkar.

Já, fólk er bundið í ýmsu þessa dagana. Sumt fólk er bundið yfir snjallsímunum, annað fólk er bundið yfir sjónvarpsdagskránni og enn annað fólk er bundið við heimilisstörfin. Svo eru sumir líka bundnir við BDSM iðju. Sama yfir hverju fólk er bundið og við hvað fólk er bundið og á hvaða hátt fólk er bundið er ljóst að samfélagsmiðlarnir nötra.

Sumir ganga bundnir til kosninga. Það hlýtur að vera erfitt. Og tafsamt. Langflestir kjósa að ganga óbundnir til kosninga og er það vel. Sumir eru bundnir trúnaði. Aðrir eru bundnir þagnarskyldu. Enn aðrir eru tímabundnir. Verst af öllu er að vera bundinn einhvers staðar í ókunnri íbúð. Get ég ímyndað mér. Ég er ekki bundinn af þessum ummælum er það nokkuð? Enn nötra samfélagsmiðlarnir.

Næst á dagskrá er bundið mál sem Kalli heitinn í Klaufabrekknakoti kenndi mér og ég hef bundið trúss mitt við:
Einar minn ó já, ekki fór á fundinn
heima í leti latt lá, líkt og hundur bundinn
flösku hefði þurft að hella ofan í hundinn
því hrygg var lundin.

Þar hafið þið það. Eins og kom fram áðan nötra samfélagsmiðlar. Hvers vegna? Vegna þess að einhver fannst með reipi og svipu heima hjá sér? Nei, vegna þess að nú eru allir í því að vera brjálaðir og hneykslast á því opinberlega að meintar nauðganir meintra nauðgara hafi ekki orðið til þess að meintum sakborningum hafi verið kippt í meint gæsluvarðhald. Meint fólk út í bæ ákvað að birta meintar myndir af meintum sakborningum á netinu, nafngreina þá og fjalla um á ýmiskonar meintan hátt. Lögfræðingar meintra fórnarlamba og meintra sakborninga eru brjálaðir og fyrirséð er að meintar kærur munu fljúga á milli, þannig að fyrir rest verða allir búnir að kæra alla fyrir leka, myndbirtingar, ærumeiðandi ummæli, spillingu rannsóknarhagsmuna og fleira. Raunar verður allt kært nema meintar nauðganir, sem er furðulegt í ljósi þess hvernig þetta mál allt saman er til komið.

Meintur fjölmiðlamaður, sem er reyndar ekki bundinn, lét hafa eftir sér opinberlega nýverið að betur sæmdi að flytja fólk til höfuðborgarinnar og borga því fyrir það heldur en að ausa fé í hinar og þessar tittlingaskíts framkvæmdir á landsbyggðinni sem engu munu skila. Til hvers í ósköpunum ætti svo sem að byggja einhvern snjóflóðavarnargarð úti í rassgati þegar hægt er að nýta peningana í að efla verslun á Laugaveginum? Samfélagsmiðlarnir nötra og skjálfa.

Það er ekkert grín að skrifa heila bloggfærslu þar sem þemað er bundið í titil færslunnar. Kannski þess vegna sem engum stekkur bros á vör.

Eftir að Einar Haf byrjaði aftur að blogga fór landflótti af stað á nýjan leik. Nú er útlit fyrir að árið í ár slái öll met á síðari tímum þegar kemur að fjölda þeirra íslensku ríkisborgara sem flytja úr landi. Ég á sök á þó nokkuð mörgum landflóttum. Til dæmis gerði ég skattframtalið fyrir systur mína núna síðast, hún er flutt til Danmerkur. Tilviljun? Kannski er ég bara heppinn að hún flutti ekki enn lengra í burtu, svona þegar ég skoða skattframtalið betur. En það er annað mál.

Fyrst að samfélagsmiðlarnir nötra svona í sífellu, má ekki bara binda þá?

Margur er maður óheflaður
í myrkvaðri íbúð er keflaður
bundinn við stól
brátt koma jól
háls minn er býsna vel treflaður.

Hmm…þetta bundna mál var býsna laust í reipunum, ekki satt?

Einar óheflaður, en ekki keflaður.

Tilvitnun dagsins:
Hljómsveitin Queen: Tie Your Mother Down!

Orðin hættuleg

Skaðræðislegu lesendur.

Er ekki kominn tími til að hysja upp um sig buxurnar og sætta sig við þá staðreynd að Einar Haf er aftur byrjaður í blogginu? Nei, það á kannski ekki við að hysja upp um sig buxurnar í þessu tilfelli. Frekar kannski að loka hurðinni, slökkva á tölvunni og breiða upp fyrir haus. Þess má geta að þessi bloggfærsla var einmitt skrifuð þannig.

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að unnar kjötvörur séu krabbameinsvaldandi. Ekki náðist í Unnar kjötvörur við gerð þessarar bloggfærslu. Reynt var að hafa samband við nokkra starfandi kjötiðnaðarmenn sem heita Unnar en þeir vildu ekki kannast við að vera kallaðir Unnar kjötvörur, hvað þá að vera krabbameinsvaldandi. Þetta er augljóslega frekar snúið mál og þar af leiðandi borin von að ég nái að ráða mig fram úr því.

Maður er það sem maður borðar, þess vegna er ég eins og gamalt bjúga í framan.

Tónlistarhátíðin Icelandic Airwaves stendur nú sem hæst í Reykjavík. Þeir sem fylgjast með fjölmiðlum eða samfélagsmiðlum hafa tæplega komist hjá því að fá fréttir af þessari hátíð, hvort sem þeir kæra sig um það eða ekki. Fjölmargir tónlistarmenn koma fram aftur og aftur og fram og aftur á hátíðinni og enn fleiri koma ekki fram á hátíðinni heldur utan hátíðar. Hvað á ég við? Ég er að tala um fyrirbærið sem heitir Offvenjú eða afvenju upp á íslensku. Ég er að vísu litlu nær um hvernig þetta nákvæmlega virkar, en ég veit þó að það er ekkert minna móðins að koma fram afvenju heldur en á hátíðinni sjálfri. Svo það sé á hreinu þá kemst enginn hjá því að detta hressilega í það á þessari hátíð, hvort sem það er að venju eða offvenjú.

Viðskiptabann Rússa, eru allir búnir að gleyma því? Banninu sem átti að setja þjóðina á vonarvöl?Greinilega. Umfjöllun um bannið hvarf eins hratt úr kastljósi fjölmiðlanna og „tónlistarmaðurinn“ Gísli Pálmi eftir fúkyrðaflauminn sem hann var fenginn til að flytja í beinni útsendingu á Arnarhóli á menningarnæturgamni Reykjavíkur nú í sumar. Eru þið að fokking heyra í mér Arnarhóll? Þessu spurði hann að í sífellu. Flott hjá honum. Annað sem er horfið með öllu; innihaldslýsingahneykslið. Hver man til dæmis eftir Gæðakokkum í Borgarnesi? Og Dow Jones vísitalan, hvað fylgjast margir með henni í dag? Edward Snowden?

Talandi um snow. Eða snjó. Nú þegar kominn er 5. nóvember er enn snjólaust í Svarfaðardal og nágrenni og kindur úti á beit. Yndislegt. Einar Haf er auðvitað kominn á þrælnegld nagladekk og refsar malbikinu grimmilega daginn út og inn á Súbarú fák sínum. Ég meina, það þarf að refsa einhverjum fyrir það að ég setti nagladekkin undir um daginn – það er alveg eins gott að malbikið taki skellinn. Malarveginum í fram-Svarfaðardal er erfiðara að refsa, hann refsar öllum sem um hann keyra með miskunnarlausum drulluslettum sem engu hlífa. Ég lít á björtu hliðarnar, það er bara töff að keyra um á bíl sem er blár að ofan og leðjubrúnn að neðan.

Tónlistin er tær og hrein og fögur
tímalaus og listileg í senn, jú
Bloggfærslan er bagaleg og mögur
best væri að hafa’na off venjú.

Þess má geta að þeir sem ekki nenna að lesa þessa bloggfærslu geta beðið eftir bíómyndinni. Ekki bíómyndinni um bloggfærsluna heldur bara einhverri bíómynd. Mér er alveg sama.

Einar afvenju.

Tilvitnun dagsins:
Marge: „I’d really like to give this a try.“
Homer: „I dunno, trying is the first step towards failure…“.

Orðin hrekkjótt

Viðsömdu lesendur.

Þá hefur aðilum vinnumarkaðarins loksins tekist að semja um nýjan inngang hér í bloggfærslu Einars Haf. Um er að ræða miklu betri og nútímalegri inngang en tíðkast hefur hingað til. Inngangurinn á að fylgja verðlagsbreytingum auk fastra hækkana í þrepum, en að vísu fylgir ekki sögunni hvort inngangurinn verði eitthvað skiljanlegri fyrir vikið. Hvað með launahækkanirnar? Iss piss, hver þarf launahækkun þegar hann hefur góðan inngang? En er svo ekki líka verið að tala um að stytta vinnuvikuna? Eða átti kannski bara að stytta inngangana? Nei það passar nú eiginlega ekki.

Hrekkjavakan er haldin hátíðleg í þessum töluðu orðum, öskudagur fátæka mannsins. Ýmiskonar uppvakningar, skilanefndarmenn, forynjur, kröfuhafar og draugar leika lausum hala og vaða uppi með hrekkjum og fyrirgangi. Af engri augljósri ástæðu. Uppvakningar eru að vísu ekki bara á ferðinni um hrekkjavökuna, þeir eru á ferli flesta daga ársins. Sumir gegna meira að segja ábyrgðarstöðum í þjóðfélaginu.

Þing Norðurlandaráðs hefur farið fram undanfarna daga í Reykjavík. Á þingum Norðurlandaráðs sitja hrekkjalómar og þingfulltrúar Norðurlandanna saman og tala saman…..á ensku. Eða í hæsta máta á bjagaðri dönsku. Týpískt. Hvað er svo verið að ræða um? Jú, auðvitað er verið að tala um Víkingalottóið.

Um áramót stendur til að sprengja burtu gjaldeyrishöftin með sannkallaðri áramótabombu. Bomban verður sprengd á kostnað erlendra kröfuhafa og slitabúa og verður að minnsta kosti 500 milljarða virði. Auðvitað snýst lífið um miklu meira en peninga, sagði enginn erlendur kröfuhafi. Aldrei. Hrekkjalómar.

Jólin þín byrja í IKEA. Verður sem sagt opið hjá þeim í IKEA kl. 18:00 á aðfangadegi jóla, 24. desember? Athyglisvert. Svo var sagt frá því áðan að jólin væru komin í BYKO. Hvernig má það vera? Eru þeir í BYKO á öðru tímabelti en við hin? Jólagarðurinn í Smáralindinni gengur vel – sem og í Blómavali í Skútuvogi, hann er búinn að vera í gangi í meira en viku. Auðvitað. Auðvitað þarf að þynna út hátíðleika jólanna og besta ráðið er að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur – blessuð börnin. Það er búið að koma því inn hjá yngstu kynslóðinni að það sé alveg eðlilegt að byrja að setja upp jólaskraut í lok október. Svei því öllu saman. Ekki bæta tónlistarmennirnir okkar úr skák þegar þeir, í sífellu og síbylju, auglýsa að nú sé nánast orðið uppselt á alla jólatónleikana. Takk fyrir upplýsingarnar. Er þessi árlegi reiðilestur Einars Haf ekki orðinn frekar þunnur? Jú, þunnur eins og Einar Haf.

Ég ferðaðist til Reykjavíkur um síðustu helgi í þeim tilgangi að fara í blaðaviðtal hjá Morgunblaðinu (einarhaf.is greiddi flugfarið og hótelgistinguna fyrir mig). Ég stóð í þeirri meiningu að viðtalið ætti að fjalla um óbeit mína á jólastemmningu í október og þá staðreynd að ég missi þráðinn þegar málefnið ber á góma í bloggfærslum mínum – en í staðinn var ég spurður um hvar ég vildi að nýr Landspítali ætti að rísa. Eins og svoleiðis tittlingaskítur skipti einhverju máli þegar jólabrjálæðingarnir ganga lausir þarna úti?

Málefni vikunnar: http://www.mbl.is/smartland/samskipti/2015/10/31/engin_kona_getur_stadist_luxus_turtappa/. Mín skoðun? Alveg sammála.

Vinsælt er að hrekkja hrekk
og hreykja sér í böðunum.
Ég tolli ekki í tossabekk
tjái mig frekar í blöðunum.

Þess má geta að ekki er lengur hægt að fá miða á jólatónleika KK og Ellenar þar sem þeir eru allir uppseldir en hins vegar eru enn til miðar á aftansöng jóla í Dómkirkjunni.

Einar lómur hrekkja.

Tilvitnun dagsins:
Rodney Dangerfield: On Halloween, the parents sent their kids out looking like me.