Góðir tilheyrendur.
Jú það líður að jólum. Reyndar hefur liðið að jólum alveg síðan síðustu jólum lauk. Nú líður samt virkilega að jólum. Jólaösin nær senn hámarki og jólasveinarnir koma til byggða einn af öðrum. Minn maður Gluggagægir kom í nótt sem leið. Það er minn uppáhalds jólasveinn og við eigum reyndar ýmislegt sameiginlegt….en það er önnur saga. Ég veit að það eru margar margar vikur síðan hinir svokölluðu jólasveinar létu fyrst á sér kræla í mannabyggðum, en með stífri rannsóknarblaðamennsku og uppljóstrunum opinberra rannsóknaraðila tókst auðvitað að sýna fram á hvers lags loddarar og gervijólasveinar væru þar á ferð, drifnir áfram af gróðasjúkum verslunarmönnum. Þrátt fyrir þennan augljósa blekkingarvef hef ég hvergi heyrt minnst á það í fréttum að Neytendastofa hyggist fara fram á að jólasveinamerkingar verði teknar af neytendaumbúðum í ljósi þess að engin stofnun getur vottað það að um alvöru jólasveina sé að ræða. Þarna er einfaldlega verið að blekkja neytendur…en það er greinilega ekki sama hver á í hlut í þeim efnum.
Nú á aðventunni eiga tilhleypingar í fjárhúsum landsmanna sér stað. Jólin þín byrja ekki í IKEA. Þau byrja kannski pínu þegar IKEA geitin brennur en þau byrja fyrir alvöru í fjárhúsunum. Kindakynlífið er komið á fullt skrið með tilheyrandi bægslagangi og fjárdrætti. Nú er svo komið að fjölmargir fjárbændur láta sæða ærnar sínar með verðlaunuðum hrútafyrirsætum og sæðisgjöfum sem lesa má mærðaryrði um í hinni árlegu hrútaskrá. Hvers eiga heimahrútarnir að gjalda? Þeir þurfa að horfa upp á þetta. Hvernig þætti húsbændum það ef eiginkonurnar yrðu sæddar með verðlaunafyrirsætum og sæðisgjöfum sem lesa má mærðaryrði um í hinni árlegu hrútaskrá. Nei bíddu við, þetta er alls ekki raunhæft dæmi. Hvað þá sambærilegt. O jæja. Ég dreg þetta til baka.
Af hverju er ég annars að nefna þetta? Jú var það ekki einmitt í fjárhúsi á Betlehemsvöllum sem Jesúbarnið kom í heiminn? Og það á miðjum fengitímanum. María og Jósep létu kindakynlífið ekkert á sig fá heldur gekk fæðing frelsarans hratt og vel fyrir sig. Kindurnar létu þetta heldur ekkert á sig fá og ég veit ekki betur en að sauðburður í Betlehem vorið eftir hafi gengið samkvæmt áætlun.
Þegar vetrarveðrin geysa í desember verður manni einmitt hugsað til þess hvernig þetta hafi nú allt saman verið þarna í fyrndinni þegar samgöngur voru mun frumstæðari en nú er og fólk þurfti á milli staða í hvaða veðri sem var. María og Jósep gátu til að mynda ekki reitt sig á björgunarsveitir, snjóbíla eða vélsleða þegar þau börðust í vetrarstórhríðinni milli skafla þarna í eyðimörkinni um árið í leit að gistihúsi. Ekki var gönguskónum eða kraftgöllunum fyrir að fara. Hvað þá vegahandbók eða ferðamannabæklingum þar sem helstu gististaðir eru auglýstir. Nei, aldeilis ekki. Þá þurfti fólk að treysta á hyggjuvitið.
Og auðvitað var það þannig að María og Jósep enduðu í fjárhúsinu þar sem þau fengu ekkert herbergi til leigu í gistihúsi þar sem allt var uppbókað. Þar höfðu auðvitað forgang sterkefnaðir ferðamenn frá austurlöndum fjær sem komu í hundruða þúsunda tali í svokallaðar norðurljósaferðir og tepptu öll gistipláss, ferðamannastaði og viðkvæmar náttúruperlur. Það má því vera ljóst að vandi ferðamannaiðnaðarins er ekki nýr af nálinni.
Nú er hann kominn, jólasnjórinn. Sá sem veðurfræðingar og mokstursmenn höfðu beðið eftir með öndina í hálsinum. Einmitt. En hvernig verður veðrið á austurlandi? Ég veit það ekki, ég sá bara veðurfræðingsrass í vindi – og sá er úfinn.
Í dag var stysti dagur ársins. Guði sé lof segja sumir, enda á ég afmæli í dag. Og hvernig þakka ég fyrir þær kveðjur og árnaðaróskir sem mér hafa borist? Einmitt svona.
Hátíð blíð nú kemur brátt
björt er stjarna á himni hátt
skín ei lengur sólin.
Krakkar rjóðir syngja kátt
kaupmenn hlæja í búðum dátt
hvenær koma kakan mín og jólin?
Emm…eitthvað fór nú á milli mála þarna. Drykkjarmála…og allt sullast út um allt.
Þess má til gamans geta að algjör samstaða náðist um það í viðskipta- og efnahagsnefnd Alþingis að forgangsraða í þágu bloggsíðu Einars Haf á kostnað heilbrigðiskerfisins – enda mun ódýrara í framkvæmd. Ofan á allt sparar lestur bloggsíðunnar hundruði þúsunda króna árlega í svefnlyfjakostnað.
Um leið og ég þakka fyrir allar afmæliskveðjurnar óska ég ykkur „öllum“ gleðilegra jóla. Áramótaávarp bloggsíðu Einars Haf er í nefnd – hugsanlega tekst að birta ávarpið opinberlega áður en árið rennur sitt skeið – það verður „spennandi“ að fylgjast með því.
Einar ári eldri.
Tilvitnun dagsins:
Allir: Útsala!