Þorralegu lesendur.
Þorrinn. Þessi grimmilega árstíð sem lætur engan ósnortinn. Bíddu nú við. Hvað leynist þarna ofan í troginu? Súrsuð og úldin bloggfærsla frá Einari Haf? Et, drekk og ver glaðr. Þetta óæti gæti að vísu staðið í einhverjum en þá þarf bara að tyggja aðeins betur. Annars er ég ekki bara ótrúlega hress heldur líka alveg sviðasultuslakur. Sáuð þið hvað ég gerði þarna? Einsinn. Háll sem (mag)áll.
Þorri margmiðlunardeildar fram-Svarfaðardals hefur nú, í skjóli myrkurs, sett þorrablótsannálinn inn á hina geðþekku myndbandaveitu Þútúba (e. youtube). Annáll þessi var fluttur af Sölva Hjaltasyni og þorrablótsnefndinni á þorrablóti Svarfdælinga á Rimum að kveldi laugardagsins 27. janúar við afar góðar undirtektir. Flutningurinn var festur á filmu og er nú kominn á veraldarvefinn eins og fyrr segir og þar með í eilífa og skilyrðislausa eigu Google samsteypunnar vingjarnlegu. Þar með ætti að vera búið að forða frá glötun þeim menningarverðmætum sem þarna eru á ferðinni. Ekki náðist í Þorra margmiðlunardeildar við gerð þessarar bloggfærslu.
Annállinn (fyrri hluti).
Annállinn (seinni hluti).
Þorri blótsins…hmm, ég meina sko þorrablótið var hin mesta skemmtun eins og ætíð. Ég var auðvitað á staðnum, enda hafði mér tekist með klækjum að troða mér inn á skemmtidagskrá kvöldsins. Mér sjálfum var reyndar ekki troðið á dagskránna sem betur fer heldur nokkrum vísum sem ég hafði sett saman um þorrablótsnefndina að hennar eigin frumkvæði. Einhverjir muna kannski að ég var beðinn um slíkt hið sama í fyrra af þorrablótsnefndinni sem þá var en á síðustu stundu tóku ritskoðarar þorrablótsins í taumana og strikuðu það atriði út af dagskránni enda leirburðurinn alltof klúr og dónalegur. Vísnagerðin að þessu sinni slapp í gegnum nálarauga ritskoðunar en hvort það var rétt ákvörðun eður ei skal ósagt látið. Ekki náðist í Þorra blótsins við gerð þessarar bloggfærslu.
Hingað komum hress á blót
hlæjum dátt að vanda,
en þorranefndin leið og ljót
lætur á sér standa.
Þór og Kristín keppast við
kvöldsins plan að smíða
er ganga hjónin glöð á svið
gestir fyllast kvíða.
Tjarnarklukkan tifar hægt
tekur hár að grána
stressi hafa burtu bægt
við bíðum Diddu og Stjána.
Hjá amstri og ama hafa sneitt
ekki er ég að djóga
Öddi og Anna brosa breitt
því bæði stunda jóga.
Valdi’er efni í yndismann
ég yrki um hann bögu.
Kvölds og morgna kátur hann
kemur oft við Sögu.
Jónki og Eydís eru eitt
einstakt þykir flestum
er hjá þau renna rjóð og sveitt
ríðandi á hestum.
Fram í Koti finnum smið
fyrir Atla þökkum.
Hann og Guðrún hamast við
að hrúga niður krökkum.
Þótt tómt mál sé að tala um
að nefndin taki sönsum
við tæmum upp úr trogunum
teygum vín og dönsum.
(höfundur óþekkur)
Þorri vísnanna? Nei þetta voru allar vísurnar. Er nokkuð meira um þetta mál að segja? Held ekki. Hvað gerðist svo eftir þorrablótið? Nú ég var sendur í útlegð til Akraness þar sem ég sit nú og skrifa þennan pistil. Var það nú ekki óþarflega mikil refsing? Það finnst ekki öllum. Ég skal þó með glöðu geði axla pólitíska og þorrablótslega ábyrgð á því sem gerðist og skal glaður gera það aftur síðar ef svo ber undir. Þetta var þess virði. Ekki náðist í Þorra vísnanna við gerð þessarar bloggfærslu.
Þorri Sjálfstæðismanna í Reykjavík kaus Eyþór Arnalds í 1. sæti í prófkjöri flokksins nýverið. Þorri háskólanema þjáist af þunglyndi. Þorri ungmenna horfir á klám. Þorri landsmanna telur að allt stefni í óefni. Það náðist í Þorra landsmanna við gerð þessarar bloggfærslu en Þorri landsmanna vildi ekki láta hafa neitt eftir sér um málið.
Þorri þess sem fram kom í þessari bloggfærslu á sér ekki stoð í raunveruleikanum. Einar. Þorri þegar aðrir þegja.
Einar Þorri landsmanna.
Tilvitnun dagsins:
Allir: Þorri!!!