Greinasafn fyrir flokkinn: Pistlar & Pillur

Orðin blótandi

Súru lesendur.

Þar sem undirritaður er enn að ná áttum að loknu þorrablóti verður ekkert vitrænt fært fram í þessari bloggfærslu. Hér koma hins vegar nokkrir kaflar úr hinum svarfdælska þorrablótsannál sem fluttur var á þorrablótinu á Rimum laugardagskvöldið 1. febrúar 2025. Fyrst er þar að nefna ævintýri sem því miður komst ekki að öllu leyti fyrir á myndbandsupptöku sem gerð var af annálsflutningnum og er sýnileg á youtube.

Ævintýrið um Brekkubónda, Bakkabræður og hrútinn í sauðagærunni.

Á bæ þeim er Brekka heitir í Svarfaðardal bjó bóndi einn fyrir löngu. Hann var frægur að endemum fyrir ýmislegt, þar á meðal fyrir smölun. Þegar saga þessi gerist var áliðið hausts og plastbíllinn rétt ókominn. Höfðu ýmsir villuráfandi sauðir enn ekki skilað sér heim af fjalli. Þar á meðal var sauður Jóns Garðarssonar sem saknað var frá Hrafnsstöðum. Átti sauðurinn að vera sauðmeinlaus, gæfur og innundir sig, ekki ósvipað fólkinu á Hrafnsstöðum. Maður kallaður Hrappur…og það með réttu, taldi sig hafa séð sauðinn spígsporandi ofan fjallgirðingar. Hann þyrfti að handsama hið snarasta, þar sem búið væri að selja kjötið af honum fyrirfram beint frá býli fyrir stórfé. Það er að segja sauðinn, ekki Hrappinn. Fregnaði bóndinn í Brekku af þessu og þar sem hann mátti ekkert aumt sjá, allra síst sauðfé utandyra í vondu veðri, rauk hann þegar af stað ásamt liði sínu og fann grip sem hann var fullviss um að væri sauðurinn sauðmeinlausi við skógreitinn ofan við bæinn Tjörn. Hinn meinti sauður brást hinn versti við ónæðinu og rauk í smalana frá Brekku en varð þó að láta í minni pokann.

Þótti Brekkubóndanum og fylgdarliði hans sem sauðurinn væri heldur hrútslegur, pungsíður, augsýnilega spólgraður og alls ekki sauðmeinlaus, hvað þá gæfur. Ræddu smalarnir um þetta sín á milli en komust þó ekki að afgerandi niðurstöðu. Keyrðu þeir því rakleiðis með hinn meinta sauð í Hrafnsstaði þar sem til stóð að Hrappurinn myndi sjá fyrir honum, því fyrr því betra. Hrappurinn og menn hans tóku á móti hinum meinta sauð. Þar á meðal voru frægir Svarfdælskir bræður. Tóku þeir eftir sömu smáatriðum og Brekkubóndinn, enda af sama sauðahúsi;

Gísli, Eiríkur, Helgi, sauðurinn er með horn eins og hrútur.

Gísli, Eiríkur, Helgi, sauðurinn er með risastóran pung eins og hrútur.

Gísli, Eiríkur, Helgi, sauðurinn er spólandi graður eins og hrútur.

Svona ræddu þeir sín á milli drykklanga stund. Allir voru þeir sammála um að þessi sauður væri ekki sauður heldur hrútur og það meira að segja frekar ljótur hrútur.  Loks tók Gísli, Eiríkur, Magnús Helgi Jónsson Garðarsson á Hrafnsstöðum af skarið og sagði;

Gísli, Eiríkur, Helgi, Hrappurinn kallar kútinn. Sauðinn – ekki hrútinn!

Þurfti þá ekki að ræða það frekar, hrúturinn var ekki hrútur heldur sauður.

Hrappurinn og menn hans höfðu vissulega hugleitt að gá í eyru sauðsins til að skoða mark og merki. Það væri þó þeirra skoðun að það skánaði ekkert skrokkurinn við að gá að númerinu í hausnum.

Gísli, Eiríkur, Helgi, sauðurinn lætur svo illa að við skulum slátra honum fyrst og skoða svo merkið.

Þessu samsinntu allir viðstaddir. Allir voru sammála um að sauðurinn myndi veita minni mótspyrnu eftir að hann væri dauður.

Þegar sauðnum hafði verið veitt náðarhöggið var komið að því að gá að númerinu. Sá sem var hugaðastur bræðranna gáði.

Gísli, Eiríkur, Helgi. 45E09, er það sami bær og 33E10? 

Rann nú upp fyrir Gísla, Eiríki, Helga og öðrum viðstöddum að fórnarlambið var alls ekki sauður Jóns Garðars. heldur kynbótahrútur Hjörleifs í Laugasteini.

Hafði Brekkubóndinn gómað hrút Hjörleifs nánast á hlaðinu í Laugasteini og keyrt með hann í opinn dauðann á Hrafnsstöðum.

Hvorki Gísli, Eiríkur né Helgi, hvað þá Hrappurinn, þorðu að hringja í Hjörleif til að tilkynna honum þetta ótímabæra andlát kynbótahrútsins. Því varð úr að Berglind á Hrafnsstöðum hringdi í Kristján á Tjörn, notaði sína alþekktu kvenlegu blíðu og auðmýkt og færði honum dánartilkynninguna, sem hann gæti svo áframflutt Hjörleifi bróður sínum.

Stór orð voru látin falla í þessu símtali á kjarnyrtri íslensku en til að særa ekki blygðunarkennd blótsgesta verða þau ekki höfð eftir hér. Það sama má segja um viðbrögð Hjörleifs, sem hefur ekki farið eins hátt upp á háa C síðan hann söng síðast með Tjarnarkvartettinum. Eftir að hafa sökkt sér ofan í Brennu-Njálssögu voru mannvíg honum ofarlega í huga á þessum tímapunkti. Fór Hjörleifur fram á fimmföld manngjöld fyrir hrútinn og að auki krafðist hann þess að fá annan hrút í stað þess sem veginn var.

Gísli, Eiríkur, Helgi, ekki er kyn þó keraldið leki – hrúturinn er suður í Borgarfirði.

Fóru þeir bræður því þangað, á ræktunarbúið Hest, keyptu dýrasta lambhrútinn sem fyrirfannst og færðu Hjörleifi. Er um að ræða einn dýrasta og mesta kynbótagrip sem sést hefur í Svarfaðardal nokkru sinni. Sauður Jóns Garðars. er ófundinn enn og ekkert er vitað hvar hann er niður kominn. Það er ótrúleg tilviljun að um svipað leyti og þessir atburðir gerðust héldu starfsmenn Dalvíkurbyggðar mikla veislu í Árskógi þar sem boðið var upp á dýrindis sauðakjöt í svartri sósu. Hins vegar er sauðahangikjötið sem snætt er úr Hrafnsstaðatroginu í kvöld með sterku hrútabragði.

Gísli, Eiríkur, Helgi, það er allt í lagi. Bölvaður Hrappurinn étur allt og hrútakjötið líka!

_ _ _ _ _

Í annálnum var einnig minnst á heyskap og hrakfarir honum tengdum.

Heyskapur gekk afleitlega. Í byrjun september, þegar plastbíllinn var væntanlegur, hömuðust Svarfdælingar við heyskap. Einar á Urðum sá fram á mikinn þurrk, rauk því af stað og eyddi hálfum degi í að slá túnbleðil sem var óvenju lítið grýttur miðað við Urðatún, aðeins um 40% stórgrýti. Slátturinn  gekk nokkuð vel en að honum loknum var meðalvindur úr suðvestri kominn vel yfir 40 metra á sekúndu og heyið löngu horfið. Ysta hringinn á túninu þurfti Einar að slá með rúðuþurrkurnar í botni til að sjá út, enda fauk heyið út í buskann jafn óðum og það kom undan ljánum. Það litla hey sem ekki fauk út í móa skrælnaði á nærstöddum girðingarstaurum. Þar sparaði Urðabúið mörg þúsund krónur sem annars hefðu farið í að borga K20 ehf. fyrir rúllubinding.

Á himni sólin skín
og sunnangolan hvín
tætir hann traktorinn
um túnið með ljáinn sinn
á meðan heyið fýkur burt.

Enn bætir bylinn í
er blika goluský
Einar þó áfram slær
í angistarkasti hlær
á meðan heyið fýkur burt.

Kveða vindarnir vögguljóð og feigðarspá
Veðurstofan sýndi storm í kortasjá
en aulinn engan gaum því gaf,
grautarhausinn Einar Haf
og heyforðinn fauk allur eitthvað burt.

Fokið í flestöll skjól
fauk hey um dal og hól
tvístruðust tuggurnar
tárvotur Einar var
á meðan heyið fauk allt burt
á meðan heyið fauk allt burt

_ _ _ _ _

Það var líka minnst á ár kvenna.

Trausti og Ása á Hofsá leiddu síðustu þorrablótsnefnd. Trausti hefur löngum þótt hallur undir kvenfólk og haft mikinn áhuga á því. Þetta eru engar fréttir. Í aðdraganda síðasta blóts lagði Trausti á það mikla áherslu að fylla Rima af barbídúkkum og skreyta húsið bleikt hátt og lágt, svo mjög að jafnvel Ásu blöskraði og kallar hún nú ekki allt ömmu sína í þessum efnum.

Sumir finna barnið í sjálfum sér en þarna fann Trausti konuna í sjálfum sér – og hefur ekki litið til baka síðan. Á meðan stórbændur í dalnum skipulögðu tækjaskoðunarferð til Danmerkur skellti Trausti sér frekar með kvenfélaginu Tilraun í hjálpartækjaskoðunarferð til Tékklands.

Það býðst til Prag að fara
og fyrr það mátti vera,
nú fylkja konur liði
um fríhöfnina þvera.
Stundin er runnin upp.
Tökumst allar hönd í hönd
með húrrahróp og skálum
karlar vilja koma með
í kossaflens og mikið tjútt
það einn fær hann Trausti krútt...

En þori ég, vil ég, get ég?
Já ég þori get og vil.
En þori ég, vil ég, get ég?
Já ég þori get og vil.

Ýmsir sussa og sveia
og skilja ekki kvennanna hlið
þá heyrist Trausti segja
þetta kemur karlapungum ekkert við.

En þori ég, vil ég, get ég?
Já ég þori get og vil.
En þori ég, vil ég, get ég?
Já ég þori get og vil.

Áfram stelpur, stöndum saman
staupum okkur, höfum gaman
kveðum niður karlaveldið hér.
Kvenfélagið Tilraun tætir
Tékkana í sig og mætir
fer um búðir eins og flugnager.
Trausti er svakalega sætur
stæltur og vaxinn eins og gnýr
notum hann eins og burðardýr.

En þori ég, vil ég, get ég?
Já ég þori get og vil.

_ _ _ _ _

Svo var líka minnst á eitt og annað….

Þór á Bakka kom kátur heim eftir síðasta blót, enda fannst honum hann hafa sloppið ótrúlega billega frá annálnum og mun minna grín var gert að honum en efni stóðu til. Á hlaðinu steig Þór villtan gleðidans en mundi þá allt í einu eftir svellinu sem hann stóð á. Hann mundi líka eftir því að hann væri kominn nokkuð vel við skál. Hann mundi eftir því að hann væri árinu eldri en í fyrra og hefði þar af leiðandi átt að drekka einum bjór færra en í fyrra. Þá mundi hann ennfremur eftir því að hafa nýlega stórslasast á gönguskíðum. Þetta allt og meira til gat Þór rifjað upp meðan hann sveif láréttur í loftinu og snérist eins og þyrla – en eftir að hafa lent flatur á svellinu mundi hann ekki meira. Kristín fór inn á undan bónda sínum og beið léttklædd eftir honum í rúminu en þegar ekkert bólaði á honum fór hún að gá út á hlað. Fann hún hann þar, reifaðan og liggjandi í götu. Henni fannst ekkert athugavert við að sjá Þór liggjandi á hlaðinu, hann væri sennilega að dytta að púströrinu á heimilisbílnum, þessi elska. Þór er enn að jafna sig á byltunni en púströrið á heimilisbílnum hefur sjaldan verið betra.

Veiðifélag Svarfaðardalsár var á sínum tíma flestum gleymt. Sárafáir sóttu aðalfundi félagsins, sem voru yfirleitt haldnir árlega á tveggja ára fresti. Í dag er staðan allt önnur. Árið 2024 var áhuginn slíkur að haldnir voru tveir aðalfundir sama kvöldið. Þetta var í lok maí, rétt áður en plastbíllinn átti að koma. Aldrei hafa jafn margir sótt fundi veiðifélagsins og umrætt kvöld. Að vísu voru það ekki umræður um veiðar og afla sem drógu fólk að, enda gafst enginn tími til að ræða slík smáatriði. Fundargestir mættu á Rima til að fylgjast með framfylgni við fundarsköp og til að sjá hver stjórnarmanna myndi reiðast fyrstur, verða vitlaus og hlaupa út. Stjórn veiðifélagsins vildi í ljósi atburða ársins á undan hafa vaðið fyrir neðan sig. Mönnum þótti ljóst að illir andar hefðu hreiðrað um sig innan félagsins og til að kveða þá niður var ákveðið að fá særingamann á fundinn. Þegar enginn slíkur fannst var í staðinn ákveðið að fá sæðingamann á fundinn. Tilvalið þótti að fá Rabba sem fundarstjóra enda með sköp á heilanum, bæði fundarsköp og kýrsköp.

Óþarfi er að hafa mörg orð um það hér hvernig tíðarfarið var síðasta sumar, enda er sannleikurinn stundum lygilegri en skáldskapur. Vegna alls þess sem á undan hafði gengið varðandi síðbúið vor, ótíð, ónýt tún, langdreginn heyskap og uppskerubrest vissi enginn hvenær göngur og réttir ættu að fara fram.  Árni Siggi fjallskilastjóri og fjallskilanefnd vissu það ekki, Gunnar í Göngustaðakoti formaður dreifbýlisráðs vissi það ekki, bændur vissu það ekki og kindurnar vissu það ekki. Sveitarstjórn vissi það ekki og fannst því gáfulegt að spyrja Árskógsströndunga hvenær þeir ætluðu í göngur. Svör þeirra voru teygjanleg og loðin – eins og þeir sjálfir. Dreifbýlisráð tók loks af skarið og ályktaði að göngur í Svarfaðardal skyldu hugsanlega gengnar aðra helgi í september ef bændur vildu en það gæti líka gengið að ganga einhverja aðra helgi í september. Þá yrðu seinni göngur örugglega seinni. Í kjölfarið hófu menn að klóra sér í höfðinu yfir dagatalinu og rífast um hvaða helgi teldist vera önnur helgi í september og hvaða helgi teldist einhver allt önnur helgi í september. Símtæki Árna Sigga fjallskilastjóra var rauðglóandi eins og hann sjálfur í margar vikur, þar sem bændur og búalið hringdu án afláts og færðu rök fyrir því með og á móti að færa göngurnar eða færa þær ekki. Nokkuð bar á svonefndu Ragnars Reykás heilkenni í símtölum við fjallskilastjóra þar sem sumir sem hringdu voru komnir í hrópandi mótsögn við sjálfa sig jafnharðan og vildu jafnvel í sama símtalinu færa göngurnar og færa þær ekki.

Mikill uppgangur var í svarfdælskri sauðfjárrækt á árinu. Á Tjörn töldu Jón Bjarki og Björk skynsamlegast að saga gat á gamla mykjuhúsið og breyta því í fjárhús. Munu þetta vera fyrstu fjárhúsin í dalnum þar sem kindurnar eru hafðar í mykjuhúsinu en mykjan geymd á hæðinni fyrir ofan. Þegar mykjuhúsið verður orðið fullt af kindum sjá Jón Bjarki og Björk fyrir sér að nýta plássið undir kirkjugólfi Tjarnarkirkju til að hýsa sauðfé. Þannig yrði einnig úr sögunni hið þráláta vandamál varðandi það hvernig best sé að kynda kirkjuna.

Jón Bjarki og Björk töldu skynsamlegt að tæma mykjuhúsið áður en gat var gert á það. Í Brekku var þessu öfugt farið. Gurra fannst skynsamlegt að gera gat á gamla mykjuhúsið meðan það var enn fullt af skít, enda eygði hann von um að selja rándýra lífræna mykju í Syðra-Holt. Skemmst er frá því að segja að Gurri fékk lífrænu mykjuspýjuna beint í fangið, rann í hægðum sínum og hægðum búpeningsins niður undir reiðveg og endaði brúnflekkóttur og flæktur í túngirðingunni. Skriðþungi mykjunnar sannfærði ábúendur í Brekku endanlega um að færa þyrfti heimreiðina út í Brekkukot og tengja nýrri heimreið þar, þar sem koma mætti upp hringtorgi og mislægum gatnamótum. Sveitarfélagið hafnaði alfarið að taka þátt í kostnaði við nýja heimreið, þar sem ábúendur hefðu getað sagt sér það sjálfir að til að búa í Brekku þyrfti bæði að keyra upp brekku og niður brekku.

Doddi og Ella á Jarðbrú ákváðu öfugt við marga aðra að draga saman seglin í sauðfjárræktinni. Hefur Doddi haft allt á hornum sér síðan. Þegar hann beið eftir plastbílnum sá hann kindur við húshornið hjá sér. Við það snöggreiddist hann, hringdi í Hrísa Gvend og hellti sér yfir hann svo um munaði. Hrísa Gvendur kom aldrei þessu vant ekki upp orði en eftir um það bil tíu mínútna samfelldan reiðilestur fattaði Doddi að hann hafði ætlað að hringja í Gurra í Brekku en ekki Hrísa Gvend. Bað Doddi þá Hrísa Gvend um að skila þessari kveðju sinni orðrétt til Gurra og skellti á.

Það hefur verið vitað lengi að á Sökku væri afburðagott sauðfé, að minnsta kosti var það álit Þóru og Sveins – sem selja kynbótagripi beint frá býli. Gæði Sökkufjárins voru gerð sveitungum ljós haustið 2024 þegar Sökkubúið skilaði í fyrsta sinn opinberri afurðaskýrslu fyrir sauðfé. Þar kom meðal annars fram kjötmat þeirra Þóru og Sveins. Aldrei hafa sést viðlíka tölur í Svarfaðardal fyrir lögun; 9,5 fyrir bakvöðva og 21 fyrir læri. Meira að segja drekalömbin á Búrfelli litu út eins og kettlingar í samanburðinum. Til að bregðast við þessari óvæntu samkeppni afréðu þau Guðrún og Gunnar að kaupa hrút af Sökkubúinu á fengitímanum, fyrir morðfjár. Eftir skamma dvöl á Búrfelli þótti þeim vera orðið ljóst að hrúturinn frá Sökku myndi ekki koma til með að kynbæta Búrfellsstofninn nema síður væri. Eftir mikið og ákaft þukl töldu þau að læraeinkunn hrútsins væri að minnsta kosti tvöfalt of há. Þegar þetta var borið undir Þóru taldi hún að hugsanlega hafi hún fyrir mistök þuklað Svein en ekki hrútinn og þar af leiðandi gefið einkunn í samræmi við það.  

_ _ _ _ _

…og að lokum.

Dularfullir atburðir áttu sér stað í fjósinu á Ytra Hvarfi að loknu síðasta blóti. Á öryggismyndavél sáust nokkrir skuggalegir menn brjóta sér leið inn í fjósið. Þar ráfuðu þeir um allt, opnuðu hlið, létu mjaltaþjóninn reyna að mjólka sig og drukku loks mjólkina frá smákálfunum.

Eftir blótið finnum fjör
og förum ekk‘að hátta
við getum djammað duglega
og djúsað fram til átta.
drykkjusvall er strembið starf
við staulumst heim í Ytra Hvarf
já lygilegt var þetta þorrablótsgeim
en nú þorum við ekki að fara heim.

Við læðumst hægt um lítið fjós
og leggjumst þar í jötu
draugfullir og drafandi
við drekkum mjólk úr fötu.
Við bullum smá í beljunum
og bjórinn gefum kálfunum
já lygilegt var þetta þorrablótsgeim,
en nú þorum við ekki að fara heim.

Við munum hvorki stað né stund
er stíft við drekkum bjórinn
ef partýið í pásu fer
þá pissum við í flórinn
við drekkum oss til óbóta
og ælum ögn á róbóta
að morgni þá enginn neitt veit eða man
hvorki Hlini né Styrmir né Einar Dan.

Tilvitnun dagsins:

Allir: GAAAMMMAAANNN!!!

Mót við orðin ára

Góðir landsmenn.

Það er til siðs og raunar kemur það fram í siðareglum alþjóðlegu sáluhjálparsamtakanna blogg án landamæra, að engu ári geti og megi ljúka án þess að það sé gert með hugljúfri áramótahugvekju……..í tilefni áramóta. Það er tvennt í þessu dæmi sem kemur verulega á óvart. Annars vegar að bloggarar á borð við Einar Haf séu með siðareglur og hins vegar að hugvekjan sem nú er hafin eigi að vera hugljúf. Það vita þeir sem þekkja sorakjaftinn og landeyðuna Einar Haf að getur ekki staðist. Líkt og jafnan áður er efni og innihald hugvekjunnar ekkert annað en dulbúinn áróður, útúrsnúningar og dylgjur um menn, málefni og þá sem minnst mega sín – alveg eins og hjá forsætisráðherra, forseta og biskup. Guð minn góður. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft – en það þarf reyndar oft að hafa mikið fyrir þeim.

Stóru landsmenn. Nú við áramót er við hæfi og raunar algjörlega bráðnauðsynlegt að líta til baka yfir farinn veg. Ég var staddur á veginum heim að húsi áðan og leit yfir farinn veg. Hluti af veginum er ekki bara farinn heldur alveg farinn, eftir að Jónki á Steypustöðinni mokaði vegkantinum burt með Payloader vinnuvél þegar hann hafði losað ruslabílinn úr krapasnjó fyrr í vetur. Undir krapasnjónum var þíð jörð og því lítil fyrirstaða fyrir stóra vinnuvél. Ég leit sem sagt ekki bara yfir farinn veg, ég leit líka yfir horfinn veg. Ef ég horfi fram á veginn sé ég ekkert nema holur og stórgrýti, þannig að það er margs að hlakka til. Enginn verður óbarinn biskup, tala nú ekki um ef hann er óvarinn. Þá er rétt að nefna að sjaldan er barinn biskup ómarinn.

Stæðilegu landsmenn. Það er ekki bara við hæfi að líta yfir farinn veg og horfinn veg. Það er líka við hæfi að líta í eigin barm. Vá, enginn smá barmur. Auðvitað getur það verið leiðinlegt að líta endalaust í eigin barm en þá er um að gera að líta í kringum sig. Einar, hver er annars þinn uppáhalds barmur? Ég held að það sé tvímælalaust barmur örvæntingar.

Slepjulegu landsmenn. Stór hluti landsmanna er af erlendu bergi brotinn og skilur því hugsanlega ekki það sem kemur fram í þessari áramótahugvekju. Það er þó huggun fyrir ykkur að jafnvel innfæddustu íslenskustu Íslendingarnir skilja áramótahugvekjuna ekki heldur. Sífellt fleiri flytja hingað til lands frá heimsins vígaslóð með búslóð í leit að húslóð og betra lífi, friði og ró. Verulega hefur reynt á margskonar innviði íslensks samfélags vegna þessa, innviði sem voru margir hverjir komnir að þolmörkum fyrir. Fyrir hvað? Ég veit það ekki. Hvað getum við gert í þessu? Auðvitað verðum við að taka vel á móti útlendingum sem vilja setjast hér að en auðvitað getum við ekki opnað dyrnar fyrir hverjum sem er en auðvitað þurfum við að geta hjálpað þeim sem þurfa hjálp en auðvitað þola innviðirnir ekki nema hluta þeirra fjölmörgu sem koma hingað en auðvitað þarf að kenna þessu fólki að lesa, skrifa og skilja íslensku en auðvitað er þessi setning orðin alltof löng, búin að tapa merkingu sinni og er málfræðilega kolröng. Bókvitið verður ekki í askana látið, sem stangast að vísu á við það sem kennarar hafa farið fram á í nýlegum kjaraviðræðum sínum.

Sjónvarpsglöðu landsmenn. Hér næst átti að sýna svipmyndir af innlendum vettvangi en vegna tæknibilunar reyndist það ekki unnt. Verða því sýndar svipmyndir af innlendum vettlingi í staðinn. Engar áhyggjur, skemmtanagildið er svipað.

Smeðjulegu landsmenn. Ísland er krúttlegasta, frábærasta, hreinasta, fegursta, strjálbýlasta, yfirdrifnasta, ósnortnasta og friðsælasta land í heimi. Á Íslandi er jafnframt að finna flest lýsingarorð í efsta stigi á byggðu bóli. Landið er fagurt og frítt, ríkt af hvers kyns auðlindum og stórbrotinni náttúrufegurð. Þetta eru staðreyndir sem ég hef litlu við að bæta en við sjáum mynd.

Stífpressuðu landsmenn. Hingað flykkjast útlendingar í tugþúsunda vís á hverju ári, til að virða fyrir sér þetta ótrúlega land og þessa ótrúlegu þjóð. Þjóð sem hefur þreyjað þorrann í þessu harðbýla landi, yst á norðurhjara fjarri hinni vestrænu siðmenningu. Þjóð sem hefur komist gegnum hverja pláguna, drepsóttina og hörmungina á fætur annarri án þess að láta beygja sig í duftið. Þjóð sem hefur þurft að bugta sig og beygja…ekki í duftið heldur fyrir erlendum valdherrum, konungum og kúgurum – en ávallt gert það með bros á vör og blik í auga. Þjóð sem hefur aðgang að lífsbjörgum eins og gjöfulum fiskimiðum, margskonar happdrættismiðum og öðrum miðum sem auðnast ekki öðrum þjóðum sem við miðum okkur við. Þjóð sem hefur með hugvitsemi og dirfsku skipað sér sess sem þjóð meðal þjóða, allavega ef horft er til meðalþjóða. Þjóð sem hefur mátt sitja undir stanslausum upptalningum og orðagjálfri misvitra bloggara og pistlahöfunda mun lengur en eðlilegt getur talist. Þjóð sem leggur sig fram um umhverfisvænan og kolefnishlutlausan lífstíl allt árið til þess eins að geta með góðri samvisku sett heimsmet í flugeldaskothríð, púðurkerlingaíkveikjum og svifryksmengun á gamlárskvöld með tilheyrandi skerðingu loftgæða, lasleika lungnasjúklinga og flóttatilraunum logandi hræddra gæludýra. Þjóð sem á fleiri orðatiltæki í máli sínu en hægt er að ímynda sér, sem sést ágætlega í þessari áramótahugvekju. Talandi um það, þá er rétt að minna á áramótatilboð kjötbúðarinnar sem gildir aðeins í dag, þar sem böggull fylgir hverju skammrifi.

Samanteknu landsmenn. Um leið og árans fjárans árið líður í aldanna skaut er rétt að minnast þess sem vel hefur gengið en einnig að harma það sem miður hefur farið, sem er jú alveg heill hellingur. Það gekk vel að kjósa forseta, sem gekk vel að kaupa bíl á hagstæðum kjörum. Það gekk vel að sprengja ríkisstjórnina, rjúfa þing og boða til kosninga. Það gekk vel að fylgja áhrifavöldum við að feta framabrautina og fá innblástur frá þeim við daglegt amstur. Það gekk vel að ná dýrmætum gjaldeyri af útlendingum með alls konar bellibrögðum á borð við eldgosaskoðanir, safnaskoðanir, norðurljósaskoðanir, hvalaskoðanir og allskonar aðrar vafasamar skoðanir. Það gekk vel að starfrækja undirmannaða bráðamóttöku Landsspítalans á yfirsnúningi enda með ólíkindum hvað hægt er að bjóða starfsfólki og sjúklingum upp á – og vel hægt að ganga enn lengra í þeim efnum. Það gekk vel að veiða hvel og sel að ég tel og drekka bjór í karlakór. Það gekk hins vegar illa að halda einbeitingu og þræðinum, sérstaklega á bloggsíðu Einars Haf – sem var afar sundurlaus lengst af á árinu. Fremur illa gekk við heyskap, heyöflun og bústörf almennt, nokkuð illa gekk hjá íslensku ólympíuförunum sem gerðu upp á bak í mörgum greinum og þá gekk afar illa að koma Nissan Qashquai árg. 2016 í gang þegar líða tók á árið, vegna útbrunninna glóðarkerta. Engin leið er að segja til um hvenær bíllinn fer í gang næst, hugsanlega ef og þegar vora tekur.

Skotglöðu landsmenn. Nú við áramót er ekki aðeins full ástæða til að harma hið liðna, það er líka full ástæða til að kvíða því sem framundan er. Angist af ýmsu tagi hjá tugum, hundruðum, þúsundum og milljónum manna sem þurfa að takast á við afleiðingar stríða, hungursneyða, óveðra og allra handa hörmunga. Alvarlegustu hörmungarnar eru sennilega síendurtekin skemmdarverk stríðsæstra og valdamikilla þjóða sem hafa meðal annars rofið sæstrengi hér og þar um heiminn. Viðbúið er að slíkt eigi sér stað hér á okkar slóðum með tilheyrandi netsambandsleysi og þar af leiðandi mun enginn komast á bloggsíðu Einars Haf. Þvílík hörmung. Frekari stríðsátök og hörmungar eru framundan eins og nú verður farið yfir í smáatriðum. Æi nei, ég ætla að sleppa því. Þetta átti að vera áramótahugvekja, ekki hrollvekja. Reynum að vera jákvæð því máninn hátt á himni skín. Bregðum blysum á loft og bleika lýsum grund. Glottir tungl? Já örugglega, vegna þess að það hrín við hrönn.

Smekkfullu landsmenn. Á hátíðarborðum landsmanna nú um áramót verður eflaust að finna ýmiskonar spennandi og framandi kræsingar. Innbakaðar nautasteikur, grænkeravænar hnetusteikur, gljáðir svínahryggir, grafnir laxar og fylltir kalkúnar. Nammi namm, ég hreinlega iða í smjörsprautuðu kalkúnaspikinu….nei ég meina skipinu…skinninu. Þrátt fyrir allt þetta freistandi og framandi gúmmelaði er það þó auðvitað sauðkindin sem trónir á toppnum eins og venjulega. Frá örófi alda hefur sauðkindin brauðfætt íslenska þjóð þar sem hryggir og lambalæri hafa prýtt ófá veisluborðin. Þá hefur sauðkindin einnig skemmt þjóðinni og verið dægrastytting. Hrúturinn Hreinn er gott dæmi um það. Nú um áramót er fimbulkuldi og þá mæli ég eindregið með hlýjum ullarfatnaði, í boði sauðkindarinnar og handprjónasambandsins. Áramótahugvekja Einars Haf er sama tuggan tuggin aftur og aftur en það er auðvitað gert til heiðurs sauðkindinni og að hennar fyrirmynd. Gerið eins og ég á stórhátíðum; verið kindarleg. Til heiðurs íslensku sauðkindinni. Hvað gerði ég við kindina sem lenti í heita pottinum? Ég sauð kindina auðvitað.

Sjálfumglöðu landsmenn. Það eru ekki allir sem valda því að komast til valda. Einar, átt þú þetta tafl? Nei ég held þetta sé Valda-tafl. Nú jæja. Sjálfur hef ég fundið mikinn meðbyr á árinu, sérstaklega í hvert skipti sem ég viðra þá skoðun að láta af einhverju hinna fjölmörgu gjaldkeraembætta sem ég gegni. Nú í lok árs var ég fenginn til að mynda stjórn, það gerði ég með Canon digital myndavél.

Aftur koma áramót
út um loftið svífur sót
skín á himni máni.
Sjálfur dunda ég við dót
og dansa, enda sálubót
að láta eins og kjáni. 

Snarsundluðu landsmenn. Að endingu óska ég ykkur friðar og farsældar á komandi ári. Um leið þakka ég fyrir samfylgdina og lesturinn á árinu sem er við það að springa í loft upp. Látið ekki skjóta ykkur………… skelk í bringu um áramótin. Heyrumst einhvern tímann á næsta ári, kannski. Góðar stundir.

Kynhlutlausa salernið á Bessastöðum, 31. desember 2024.

Einar Okkar Hafliðason

Orðin alveg kjörin

Ágætu kjósendur.

Kannski er það aðeins of seint í rassinn gripið en hér kemur langþráð framboðsræða mín, sem er að mestu endurunnin úr því sem aðrir frambjóðendur hafa nú þegar boðið fram í aðdraganda kosninga.

Nú líður að því að kjörstaðir opni, sem er kannski engin kjörstaða. Þessi kosningabarátta hefur verið stutt en snörp, sem ég get stutt með rökum. Ég hef gegnum tíðina stutt ýmsa flokka og flokksbrot en það hefur yfirleitt staðið stutt enda er stutt á milli hláturs og gráturs. Guði sé lof að þessi efnisgrein er ekki löng heldur stutt.

Þó ég sé ekki á kjörseðlinum get ég engu að síður boðað betri tíð með lægri vöxtum, lægri verðbólgu og lægri siðferðisþröskuldi. Þá lofa ég því að lundin verði léttari, netmöskvarnir verði þéttari og rangindin verði réttari. Bæturnar verða hærri, útgjaldaaukningin verður stærri þannig að lætur nærri….lýðskrumi. Silkihúfurnar verða dýrari, hinsegin samtökin verða hýrari og óskýru línurnar verða skýrari. Ég get hins vegar ekki lofað því að ritstíllinn verði dýrari.

Ég hef starað á svokallaðar kappræður frambjóðenda, eins og naut á nývirki. Eigum við eitthvað að ræða það eða? Í þessum kappræðum talar hver í kapp við annan eins og nafnið bendir til en oft er það bara eitthvað krapp sem kemur út úr þessu. Þá eru þetta kannski krappræður? Hefðu kosningarnar verið nálægt Sjómannadeginum hefðum við getað horft á kappróður frambjóðenda en ekki kappræður. Markmið sumra er auðvitað að tala aðra í kaf þannig að hvorki skiljist upp né niður í því sem fram fer en þá eru þetta reyndar ekki kappræður lengur heldur kafræður. Þessu ræð ég því miður ekki.

Ganga í Evrópusambandið, ganga í sjóinn, ganga í hjónaband, ganga af göflunum, ganga úr sér eða ganga í barndóm. Þetta eru aðeins nokkrir þeirra möguleika sem standa göngufólki til boða á næsta kjörtímabili. Í öllu falli get ég lofað kjósendum því að gangan verður strembin, burtséð frá áfangastaðnum.

Veðurstofa Íslands hefur náð að troða sér inn í kosningabaráttuna á lokasprettinum með því að veifa gulum viðvörunum framan í andlit kjósenda og frambjóðenda. Orðið „kosningabarátta“ fær nýja merkingu vegna veðurútlits, þar sem baráttan mun snúast um það hvort kjósendur komist til að kjósa eða hvort þeir verði undir í baráttunni við veðuröflin. Sumir stunda pólitískan þankagang, aðrir hafa tapað áttum við að feta lífsins stigagang en Veðurstofan boðar pólitískan éljagang. Vá hvað þetta var djúpt, alveg eins og skaflinn sem ég stend í núna.

Eitt fjölmargra baráttumála í kosningunum að þessu sinni eru bættar samgöngur og aukið fé til Vegagerðarinnar. Þar sem stjórnmálaleiðtogum fannst góð hugmynd að boða til kosninga í lok nóvember hefur Vegagerðin nú þurft að ráða viðbótarverktaka til starfa og mun fyrirsjáanlega eyða tugum milljóna næsta sólarhringinn bara svo að fært sé á kjör- og talningastaði. Þetta mun valda því að fjárheimildir Vegagerðarinnar ganga til þurrðar nú um kosningahelgina og því er niðurskurður og samdráttur líklegur á næsta ári, sem mun valda verri samgöngum. Það er eitthvað í þessu dæmi sem gengur ekki upp en ég veit ekki alveg hvað það er. Er fært á bloggsíðu Einars Haf? Já í augnablikinu en hins vegar er bloggarinn sjálfur ófær með öllu, eins og fjölmargir geta vitnað um. Það er því ekki nema von að allt sitji fast.

Góðu kjósendur. Ég veit að mörg ykkar hafa í hyggju að kjósa með hjartanu en ég ráðlegg ykkur hins vegar frekar að kjósa með blýanti, þá eru mun minni líkur á því að atkvæðið verði dæmt ógilt. Ef svo ólíklega vill til að þið komist klakklaust á kjörstað er mikilvægt að muna að ef þið eruð í vafa gæti ykkar atkvæði verið túlkað sem vafaatkvæði og þess vegna er betra að vera viss í sinni sök.

Á kjörstaðinn kýs ég að fara
kankvís og spari til fara.
Atkvæðið umlukið vafa
alldrukkinn tek ég að drafa.

Gætið ykkar á exinu, axinu og öxunum.

X-Einar, aldrei seinar.

Tilvitnun dagsins:

Allir: Ég lofa!

Orð á tungunni

Góðir Íslendingar.

Í tilefni dags íslenskrar tungu nú um helgina er ekki úr vegi að tala tungum tveim og hver er betur til þess fallinn en sá tungulipri froðusnakkur Einar Haf? Jú ég veit reyndar um mjög marga sem væru mun betur til þess fallnir en Einar Haf en því miður er bara ekkert annað í boði hér á bloggsíðu Einars Haf. Svekkjandi, já vissulega en samt ekkert sem ætti að skjóta lesendum skelk í bringu.

Kosningabarátta stendur nú sem hæst fyrir alþingiskosningarnar 30. nóvember næstkomandi. Hvert þó í logandi. Um það bil tíu flokkar bjóða fram og því ljóst að einhverjir munu bera sigur úr býtum á meðan aðrir munu fara halloka. Stjórnmálafræðingar eru ekki á einu máli um útkomuna en það er ekki bara óvissa í könnunum. Það er líka vatn í könnunum, best að fá sér sopa. Ah, þetta var nú gott. Í kosningabaráttunni er bæði rætt um málefni en einnig persónuleg hneykslismál og eldgamla skandala sem nú eru dregnir fram í dagsljósið. Talandi um það. Eða skrifandi. Undirritaður hóf bloggskrif á blogcentral vefsíðu á því herrans ári 2006. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá og mikið hland hefur runnið gegnum klóakrörin á sama tíma. Ólíkt sumum öðrum hef ég ekkert þroskast í bloggskrifum mínum á tæpum tveimur áratugum. Ég er enn þann dag í dag harður talsmaður feðraveldisins, uppfullur af karlrembu, hroka og minnimáttarkennd með það sérstaka áhugamál að níða skóinn af minnipokamönnum og minnihlutahópum. Svona hófst fyrsta bloggfærslan árið 2006:

Þrátt fyrir gífurlegan fjölda áskorana, faxbréfa og flöskuskeyta hef ég nú nýskráð þessa skemmtilegu bloggsíðu. Hér verður bryddað upp á hinum ýmsu nýjungum, svo sem bráðfyndnum þýðingum á rúnaletri, brotum af því besta úr sígildum íslenskum bókmenntaþrekvirkjum, eins og símaskránni og svo auðvitað persónulegt skítkast og móðursýki út í menn og málefni líðandi stundar. Það er svo annað mál hvort einhver nennir að lesa slíkt, en það verður bara að koma í ljós.

Vá, þetta er jafnvel verra en mig minnti. Jæja, gott að allir séu búnir að gleyma þessu. Hörmungar líðandi stundar eru alveg nógu slæmar þó það þurfi ekki að bæta gömlu hörmungunum við.

Eins og einhverja gæti rekið minni til átti ég sæti í síðustu þorrablótsnefnd. Sæti sæti. Nokkuð hafði dregist að umrædd nefnd myndi hittast og ljúka störfum sínum með formlegum hætti. Blótið fór fram í byrjun febrúar en nefndin hittist loks á lokafundi nú í nóvember. Sumir elska góðan drátt en það er önnur saga. Mér er hér um bil aldrei boðið í mat af augljósum ástæðum en þarna var loks komið að því, pítsur, kex, ostar og allskonar gúmmelaði sem beið á fundinum. Daginn fyrir fund var ég einu sinni sem oftar að vandræðast, að þessu sinni með glussatengi sem ég þurfti að skipta um á Ferguson dráttarvélinni. Á tenginu var plasttappi og í hugsunarleysi stakk ég honum upp í mig meðan ég hélt á slöngu fullri af glussa í hinni hendinni. Ekki vildi betur til en svo að þegar ég beit í plasttappann losnaði framtönn í efri gómi og veltist hún nú um uppi í trantinum á mér eins og brjóstsykur. Umrædd tönn brotnaði fyrir margt löngu, einhvern tímann á regnvotum uppstigningardegi í lok tuttugustu aldar í glímu minni við smákálf. Sá stökk upp undir hökuna á mér þannig að höggið braut báðar framtennur í efri gómi. Sjaldan launar kálfurinn ofeldið en stundum launar kálfurinn með ofbeldi, það er önnur saga. Nú var ég sem sagt á leið í matarboð með lausa framtönn, í viðbót við lausa skrúfu. Lokafundur þorrablótsnefndar gekk ágætlega. Ég ætla ekki að halda því fram að ég sé barnalegri en gengur og gerist en ég kom með fullan poka af barbídúkkum á fundinn til að leika með (leifar frá síðasta þorrablóti), tók svo út úr mér tönnina og byrjaði að borða eins og ekkert væri sjálfsagðara. Af tönninni er það að segja að hún var límd upp í mig á ný morguninn eftir og hef ég getað tuggið sömu tugguna án vandkvæða síðan.

Ætla ég mér að skrifa á jólakort í ár? Já það var nú planið en hins vegar gera yfirvöld sitt allra besta til að koma í veg fyrir það. Nýjasta útspilið var að loka pósthúsinu á Dalvík og koma fyrir einhverju nýmóðins póstboxi sem maður kemur engu tauti við. Ber póstboxið póstinn út? Ég efast um það. Póstburður er raunar afar íþyngjandi fyrir Póstinn og því hefur stórlega verið dregið úr honum og eflaust mun sú þróun halda áfram. Þetta dregur þó ekki úr mér kjarkinn, ég skal finna einhver ráð til að koma annarlegum og vafasömum boðskap mínum á framfæri við vini og vandamenn, dulbúinn sem jóla- og nýárskveðja.

Er hægt að snúa úr úr nöfnum allra þeirra stjórnmálaflokka sem bjóða fram á landsvísu? Ég er ekki viss. Sjálfhælisflokkurinn, Samhyglingin, Vinstri alveg grænir, Framógnarflokkurinn, Viðrekst, Pífretar, Sósulistaflokkurinn, Flokkur fokksins, Smiðflokkurinn og Lýðhæðisflokkurinn. Nei það er líklega ekki hægt, þið afsakið það.

Sjálfur átti ég sæti sem varamaður í kjörstjórn Dalvíkurbyggðar og hefði því með réttu átt að vinna á kjörstað í Dalvíkurskóla 30. nóvember næstkomandi. Áður en Bjarni Ben. boðaði til kosninga hafði ég hins vegar skráð mig á jólahlaðborð þennan sama laugardag. Þegar ég bar saman kjörseðilinn annars vegar og matseðilinn hins vegar komst ég að þeirri niðurstöðu að halda mig við jólahlaðborðið en láta kosningarnar afskiptalausar, enda lítið bitastætt á kjörseðlinum samanborið við matseðilinn. Þessi matgræðgi mín varð til þess að kjósa þurfti nýja kjörstjórn í Dalvíkurbyggð. Ég veit ekki alveg hvernig mér á að líða með þessi tíðindi, enda er ég með öllu óvanur því að losna úr embætti sem ég á annað borð læt plata mig til að taka að mér. Kannski er þetta það sem koma skal, hver veit. Hvað er svo eiginlega á matseðli jólahlaðborðsins? Skelk í kjúklingabringu, snúið roð í hund og fiskur í skötulíki. Nei bíddu, þetta var það sem var í boði á kjörseðlinum. Æi skiptir ekki máli.

Kennarar eru nú í verkfalli. Það er að segja sumir, ekki allir. Formaður kennarasambandsins segir að ekki sé verið að mismuna öllum börnum, bara sumum. Hið opinbera er ekki til í að borga öllum milljón á mánuði, bara sumum. Já ég skil. Vilja ekki allir leysa þessa kjaradeilu og aflýsa verkfalli? Ekki allir, bara sumir. Læknar, sumir en ekki allir, ætla sér líka í verkfall og þá fyrst er nú hægt að fara að biðja Guð að hjálpa sér. Allavega ættu sumir að gera það, kannski ekki allir.

Jónas Hallgrímsson bjó til fjöldann allan af nýyrðum á sinni tíð og hafa mörg orða hans lifað góðu lífi allar götur síðan. Þar á meðal má nefna orð eins og kosningaloforð, kosningaskjálfti, uppbótarþingmaður, jöfnunarsæti, hræðsluáróður, fagurgali og flottræfilsháttur en orðið flokkræfilsháttur er því miður ekki til í orðabókinni enn sem komið er.

Framboðnir lestrinum ljúka
í loforðaflaumnum er kátt.
Sumir í kjörklefa kúka
ef kjósanda brók er í brátt.

Verndum tunguna, pössum tennurnar og lyftum andanum.

Einar ullandi með íslenskri tungu.

Tilvitnun dagsins:

Allir: TUUUUNNNNGGGGAAAAAA.

Orðin miklu miklu meira eftirá en síðast og þar síðast og jafnvel þar áður

Langþráðu lesendur.

Lok. Sins. Endur. Koma.

Já þessi taumlausi gleðskapur heldur nú loks áfram eftir aðeins nokkurra mánaða hlé, án þess að nokkuð fáist við ráðið og hugsanlega eins og ekkert hafi í skorist. Bloggarinn og blóðfitukeppurinn Einar Haf er búinn að hrista upp í spikinu, lesendum, sjálfum sér og kokteilnum og bíður þess nú að geta þambað af stút í þessu bráðfjöruga eins manns partýi sínu. Enginn vandi að detta í það enda keppast nú smásalar við að þverbrjóta áfengislöggjöfina og auðvelda aðgang almennings að áfengi með alls kyns klækjabrögðum og útúrsnúningum. Hagkaup breytist í Þvagkaup, Nettó í Gettó og Krónan í Rónann. Full. Langt gengið. Svo er kannski ráð að fá sér eins og eitt rauðvínsglas líka til að skola niður óbragðinu sem ég er með í munninum. Hvaða þrúgur er verið að drekka? Djöfulinn kemur þér það við! Já ég skil, þrúgur reiðinnar. Eins og venjulega.

Einhverjir gætu hafa tekið eftir því en ég hef verið orðlaus nú í margar vikur og mánuði og ekki komið upp svo miklu sem einu bloggi. Hvað skýrir þessa æpandi þögn? Gúrkutíð? Tímaskortur? Ritstífla? Týnt lykilorð inná bloggsíðuna? Hægðateppa? Stjórnarslit? Skortur á listamannalaunum? Já samblanda af öllum þessum atriðum en auk þess hef ég hreinlega verið kjaftstopp alveg síðan Halla forseti keypti sér nýjan rafmagnsbíl og lét taka af sér mynd. Er það kannski það merkilegasta sem hefur gerst frá síðustu bloggfærslu?

Júlí

Glænýr forseti vor lenti milli tannanna á fólki í kjölfar þess að hafa keypt sér rafmagns Volvo. Vá, það er svakalegt. Það var ekki bara kosið taktískt í forsetakosningunum, það var líka keypt taktískt. Byrjað að halla undan fæti strax Halla? Einar hættu þessu. Mynd af þáverandi verðandi forsetahjónum framan við nýja Volvo rafmagnsbílinn var umsvifalaust sett á netið í auglýsingaskyni og það látið fylgja með að bíllinn hafi fengist á góðum afslætti. Forstjóri bílasölunnar tók það að vísu fram að þessi góði afsláttur stæði öllum til boða sem væru með fullar lúkur fjár og því væri alls ekkert óeðlilegt þarna á ferðinni. Gengur ekki illa að keyra bílinn þegar maður er með fullar lúkur fjár? Veit ekki. Það er svo algjör tilviljun og ótengt bílakaupunum að þessi sami forstjóri bílasölunnar var á gestalistanum þegar nýr forseti tók við embættinu skömmu síðar. Spillingin getur greinilega komið aftan að manni hljóðlaust og straujað yfir mann, svona eins og rafmagns Volvo. Halla undir flatt? Já takk. Að gefnu tilefni vil ég taka það fram að ég bauð bílasalanum hjá Bílalífi að birta mynd af mér opinberlega þegar ég keypti af honum Nissan Quashqai árg. 2016 þarna um árið – en hann hafnaði því.

Um svipað leyti og þessir atburðir gerðust horfði ég á í andakt þegar ólympíuleikarnir voru settir í París í Frakklandi. Hvert voru þeir settir? Allavega ekki til hliðar. Engu var til sparað, íburður gríðarlegur, öryggisgæsla sú mesta sem sést hefur og allt gert til að fanga hinn sanna ólympíuanda í eitt skipti fyrir öll. Það munaði ekki um það. Keppnin fór vel fram í flestum greinum nema þríþraut sem var þrautin þyngri, enda var varla hægt að synda í Signu nema í kafarabúningi og með þvottaklemmu á nefinu sökum mengunar. Íslensku keppendurnir stóðu sig afar vel miðað við höfðatölu. Sem fyrr voru það óheppni, dagsform, taugaspenna og smæð lands vors sem komu í veg fyrir framúrskarandi árangur. Mun ganga betur næst? Ég veit það ekki. Ætli muni ekki ganga svona lala, enda verða næstu ólympíuleikar í LA.

Af tíðarfari í mánuðinum er það helst að segja að það var rysjótt. Það sama má reyndar segja um tíðahvörfin. Heyskapur gekk afar hægt, ef hann þá gekk yfir höfuð. Ef það var þurrt í einn dag var kvittað fyrir það daginn eftir með rigningu og þannig liðu vikurnar ein af annarri. Eðlilega var veðurfræðingum kennt um ástandið, því ef þú hefur engan til að skjóta þá skýtur þú auðvitað sendiboðann.

Teigaráin var kúkabrún á litinn og þar af leiðandi veiddust engar bleikjur í Svarfaðardalsá neðan Teigarár, bara brúnkur.

Nokkurrar ólgu, hugsanlega bólgu, gætti á stjórnarheimilinu og ljóst að verulega grunnt væri orðið á því góða milli ráðherra vegna ágreinings í fjölda mála. Nokkrir ráðherrar hringdu í ríkislögreglustjóra; alls ekki til að beita hann þrýstingi í málefnum hælisleitenda heldur bara til að vita hvernig hann hefði það.

Blindrafélagið, Landssamtök Þroskahjálpar og Pietasamtökin hringdu öll og þökkuðu mér af heilum hug fyrir veitta styrki gegnum tíðina…og báðu jafnframt um meira enda væri hart í ári og peningar af skornum skammti. Ég játti því en benti jafnframt á að það væri meira í lífinu heldur en peningar og skellti á.

Einar Haf ætlaði að blogga í lok þessa mánaðar en skriplaði á skötu og því fór sem fór.

Ágúst

Enn á ný gaus kröftuglega í námunda við Grindavík. Líkt og í fyrri gosum var heppnin með okkur að mestu leyti og hin bullsjóðandi og bráðdrepandi kvika kom upp utangarðs en ekki innan. Ég er samt pínu hræddur um að næsta gos muni fara bæði fyrir ofan varnargarð og neðan en tíminn einn getur leitt það í ljós.

Nýr forseti var settur inn……í embætti. Húrra húrra húrra húrra. Nokkrir fóru á Húrra og héldu upp á þetta. Nokkurrar sundurþykkju gætti í stjórnarráðinu, enda límið farið úr ríkisstjórninni og herinn orðinn höfuðlaus. Kata Jak fór á atvinnuleysisbætur. Hún á ekki rafmagns Volvo.

Verslunarmannahelgin fór afar vel fram og reyndar framhjá mér, enda of upptekinn við að ljúka fyrri slætti. Þetta er nú bara fyrirsláttur. Jæja já. Sem fyrr var þjórhátíð í Eyjum vinsælust en fast á hæla hennar komu Ein með velgju á Akureyri og Halló Steindyr í Svarfaðardal. Mannfall var óverulegt en eignatjón allnokkuð eins og við mátti búast.

Af tíðarfari í mánuðinum er það helst að segja að það var rysjótt eins og í júlí. Það sama má reyndar segja um tíðahvörfin eins og í júlí. Heyskapur gekk afar hægt, ef hann þá gekk yfir höfuð…eins og í júlí. Ef það var þurrt í einn dag var kvittað fyrir það daginn eftir með rigningu og þannig liðu vikurnar ein af annarri eins og í júlí. Eðlilega var veðurfræðingum kennt um ástandið eins og í júlí og voru margir slegnir. Sérstaklega í miðbæ Reykjavíkur um helgar.

Teigaráin var ekki bara kúkabrún heldur hljóp hún líka í kekki og rann út úr sínum venjulega farvegi. Grímur gröfumaður bjargaði því.

Kýrin Salóme gleymdi því um stund að hún væri kýr og tróð sér inn í hænsnakofann. Ein hæna dó úr hræðslu og eggjaframleiðsla á Urðum dróst tímabundið saman. Enn þann dag í dag ná eggjabændur ekki að framleiða nóg af eggjum fyrir innlendan markað.

Ákveðið var að fresta göngum og hafa fyrri göngur þegar seinni göngur áttu að vera en seinni göngur enn seinna. Sumir töldu að göngurnar ættu að vera fyrr en síðar, aðrir vildu hafa þær síðar en það var ekki fyrr en síðar sem það var ákveðið að hafa þær síðar.

Krabbameinsfélagið, Bergið og SÁÁ hringdu öll og þökkuðu mér af heilum hug fyrir veitta styrki gegnum tíðina…og báðu jafnframt um meira enda væri hart í ári og peningar af skornum skammti. Ég játti því en benti jafnframt á að það væri meira í lífinu heldur en peningar og skellti á.

Einar Haf ætlaði að blogga í þessum mánuði en kembdi ekki hærurnar og því fór sem fór.

September

Göngur og réttir fóru fram um miðjan september. Til stóð að gangnamenn fengju far upp á fjallatoppa með þyrlu Árna Helgasonar en þegar göngurnar loks brustu á var snjólínan komin langleiðina niður að girðingu, þyrluflugið úr sögunni og flestar kindurnar komnar heim – enda var þeim ekki sagt frá því að göngunum hefði verið frestað um viku. Landabandið spilaði á gangnaballinu á Höfða, hvar posi var nú í fyrsta sinn notaður við miðasölu. Hvað næst spyrja einhverjir, gervigreind? Að morgni föstudags um gangnahelgina ákvað lögreglan á Norðurlandi eystra að ekki væri nóg að Sissi og Bergur væru dyraverðir eins og síðustu áratugi og því var Einar Haf munstraður sem dyravörður nr. 3 þrátt fyrir flekkótt mannorð. Hvernig stóð ég mig svo sem dyravörður? Mjög vel, dyrunum var ekki stolið og það var nú fyrir öllu.

Það voru líka seinni göngur og seinni sláttur sem mátti ekki vera mikið seinni en slapp til. Undirritaður sló eitt lítið og krúttlegt tún að morgni dags en fyrir hádegi gerði suðvestan storm þannig að allt lauslegt fauk, þar á meðal heyið af túninu. Þarna spöruðust nokkrir þúsundkallar í rúllubinding og vesen. Stórt tré ofan við íbúðarhúsið á Urðum brotnaði í látunum en svo bregðast krosstré sem önnur.

Líkt og í öðrum mánuðum hríðaði í fjöll í þessum mánuði og raunar gott betur en það. Almennt var tíðarfar rysjótt en tíðahvörf voru hverfandi. Kartöfluuppskera var rýr og kom þar enn og aftur í ljós að þú uppskerð alls ekki alltaf eins og þú sáir. Hver sáði? Nú auðvitað Adam.

Teigaráin var kúkabrún lengi vel en upplitaðist þegar á leið. Áfram hélt þó að molna undan jöklinum á Teigardalnum, alveg eins og molnaði undan ríkisstjórninni.

Stígamót, ADHD samtökin og félag áhugafólks um símasölu hringdu öll og þökkuðu mér af heilum hug fyrir veitta styrki gegnum tíðina…og báðu jafnframt um meira enda væri hart í ári og peningar af skornum skammti. Ég játti því en benti jafnframt á að það væri meira í lífinu heldur en peningar og skellti á.

Einar Haf ætlaði að blogga í þessum mánuði en rasaði um ráð fram og því fór sem fór.

Október

Vinstri grænir fengu grænar bólur af ríkisstjórnarsamstarfinu en voru samt alveg til í að vera með fram á sumar. Bjarni Ben. beið ekki boðanna og sprengdi stjórnina strax, einn og óstuddur. Kosningar voru boðaðar í lok nóvember samkvæmt kosningalögunum og um sama leyti yrðu jólalögin tekin fyrir, samkvæmt jólalögunum.

Þónokkuð margir flokkar ætla sér að bjóða fram, sumir bjóða fram aftur og aðrir bjóða aftur fram. Hvað snýr fram og hvað snýr aftur? Man það ekki. Nokkrir umkomulausir og jafnvel erindislausir þingmenn hafa gengið kaupum og sölum nú í aðdraganda kosninga. Hvað kostar einn svona slarkfær þingmaður með miðlungs hugsjónir og stefnumál í dag? Trúlega alveg milljón með uppreikningi. Dýrt spaug það. Græningjar voru það grænir að halda að þeir gætu fengið ókeypis þingmenn til að manna framboðslista en þegar það dæmi gekk ekki upp hættu þeir við framboð.

Nýverið fór ég í sólarhrings reisu til Reykjavíkur, gisti á Hótel Bjössa og fór í Þjóðleikhúsið í fyrsta sinn, svo eitthvað sé nefnt. Þar sáum við Bjössi leikverkið Eltum veðrið. Þar er á ferðinni melódramatískt íslenskt raunsæislágmenningarleikhús eins og það gerist best, sem hentar mér ágætlega verandi unnandi lágmenningar. Varla þarf að skoða þessa bloggsíðu lengi til að sannfærast um það. Sýningin er uppfull af kúkabröndurum og neðanbeltisgríni og auðvitað er það partur af gríninu að ríkissjóður standi straum af slíku. Eftir leikhúsið löbbuðum við aðeins í miðbænum og börðum þar margt fólk……..augum. Næsta sýning sem ég ætla að sjá mun vera í smíðum þessa dagana og er þar einnig á ferðinni lágmenning sem skrapar svo sannarlega botninn. Vinnuheiti sýningarinnar er „Draumur á kosninganótt“ og mun hún skarta mörgum helstu atvinnupólitíkusum landsins auk minni spámanna. Ekki er búið að ráða í öll aðalhlutverk en Dagur B. Eggertsson verður í aukahlutverki, svo mikið er víst.

Teigaráin er orðin blá, alveg eins og það sem drukkið er í Teignum um göngurnar.

Hrekkjavakan hefur heldur betur hafið innreið sína í íslenska dægurmenningu. Þá klæða börnin sig í skondin og skelfileg dulargervi, dulbúast jafnvel sem vampírur, banka upp á hjá fólki og betla sælgæti ellegar hræða líftóruna úr viðkomandi. Hmm nei bíddu, kannski er ég að ruglast á hrekkjavökunni og meðmælasöfnun fyrir alþingiskosningarnar. Þá klæða frambjóðendur sig í skondin og skelfileg dulargervi, dulbúast jafnvel sem hugsjónafólk, banka upp á hjá fólki og betla meðmæli ellegar hræða líftóruna úr viðkomandi.

Almennt var tíðarfar rysjótt í mánuðinum, tíðaverkir tíðir og auðvitað hefur snjóað ofan í kaupið.

Samhjálp, Hjálparstarf kirkjunnar og Kvennaathvarfið hringdu öll og þökkuðu mér af heilum hug fyrir veitta styrki gegnum tíðina…og báðu jafnframt um meira enda væri hart í ári og peningar af skornum skammti. Ég samþykkti að styrkja öll samtökin og meira til og í beinu framhaldi sótti ég um styrki til þessara sömu hjálparsamtaka, enda peningar mínir orðnir af skornum skammti vegna hárra greiðslna til hjálparsamtaka.

Einar Haf ætlaði að blogga í mánuðinum. Gekk það eftir? Ég veit það ekki, þið verðið bara að skoða bloggsíðuna til að komast að því.

Í skammdegi svörtu ég kýs
skandall ef eldfjallið gýs,
verður það vandamál nýs
valdaflokks? Holdið brátt rís.

Vá, þvílík lágmenning. Jæja það var ekki við öðru að búast.

Einar endurvakinn og hrekkjavakinn.

Tilvitnun dagsins:

Allir: HRÆÆÆÐÐÐIIIILLLEEEGGGTTT…….

Orðin eftir á

Góðir Íslendingar.

Hæ hó og jibbí jei, það er kominn 17. júlí. Í tilefni þess að nú eru áttatíu ár og einn mánuður liðin frá stofnun lýðveldisins Íslands er við hæfi að forneskjulegasta bloggsíða lýðveldissögunnar láti á sér kræla, fjallkallinn Einar Haf íklæðist skautbúningi og skrúfi frá fagurgalanum og hátíðarhjalinu sem nóg er til af á lager. Er hægt að virkja þennan fagurgala? Nei hann er friðaður, alveg eins og meiriparturinn af landi míns föður þó það sé laugað bláum straumi.

Bíddu nú við, var ekki haldið upp á þjóðhátíðina 17. júní ? Jú en það voraði bara svo seint í Svarfaðardal þetta vorið að ég er mörgum vikum á eftir – og var ef til vill ekki á það bætandi.

Góðir landsmenn. Þau áttatíu ár og eini mánuður sem liðin eru frá lýðveldisstofnun hafa svo sannarlega ekki verið dans á rósum og oftar en ekki hafið þið landsmenn góðir þurft að súpa seyðið af því. Þú segir ekki. Þó ég komi af fjöllum sem fjallkall þá veit ég þá staðreynd manna best að hér hafa allra handa hörmungar, hrun, óveður, mannskaðar, áhrifavaldar, plágur, aflabrestir, hallæri, verðbólgur, grátur og gnístran tanna dunið yfir og valdið árlegum búsifjum. Þá er nú gott að berja fjallkallinn……augum, hlýða á fagurgalann og hátíðarhjalið og fyllast bjartsýni og stolti.

Það hefur ýmislegt breyst á áttatíu árum og einum mánuði. Þjóðfélagsgildin hafa breyst. Ferðamannafjöldinn hefur breyst. Tölvutæknin hefur breyst. Samgöngur hafa breyst. Veðurfarið hefur breyst. Heimsmyndin hefur breyst. Já já, bla, bla, þetta vita nú allir. Væri ekki fljótlegra að telja upp það sem hefur ekki breyst? Upptalningablæti bloggarans Einars Haf hefur ekki breyst, óblíð náttúruöflin hafa ekki breyst og þá hefur ósnortin náttúra ekki breyst og er ég ósnortinn vegna þessa. Óttaleg froða er þetta, ef ég væri þið þá myndi ég nú bara gelda…….varhug við því sem fjallkallinn heldur fram. Best að drepa….þessu á dreif og fjalla um eitthvað annað.

Pollamótið á Akureyri stóð svo sannarlega undir nafni þetta árið, enda pollar úti um allt vegna sudda og rigningar. Ingó Veðurguð, Páll Óskar og Blaz Rocca skemmtu gestum eins og árið væri 2008, ég skoraði með vippu eins og árið væri 2004 og síðan fór ég með gamanmál á lokahófi Umf. Óþokka eins og árið væri 1987. Gamalt grín er líka grín og þar af leiðandi sé ég ekki eftir neinu.

Heyskapur í Svarfaðardal er nokkru seinna á ferðinni en oft áður en þó alls ekkert út úr korti. Altjón og kaltjón á túnum hefur valdið verulegum skaða hjá mörgum og uppskera rýr sökum þessa. Ég er ekki hlessa. Nýræktir og rennisléttir blettir áttu að koma grænir undan snjó en komu annað hvort gulir, gráir, hvítir eða alls ekki undan snjó. Flestir hinna dauðu bletta hafa verið plægðir og ísáðir á ný utan fótboltavöll Ungmennafélagsins Þorsteins Svörfuðar við Rima. Sá blettur er jafn steindauður og líflaus og hann var fyrir mánuði síðan en þó hefur þar verið leikin knattspyrna af miklum móð eins og ekkert væri sjálfsagðara. Vallarvörður (sem er varla vörður) segir að hér sé um nýstárlega tilraun að ræða með svokallað hybrid gras, þ.e. gras sem er alvöru gras en samt gervigras. Á Urðum hefur ekki þurft að plægja eða ísá þar sem tún hafa komið tiltölulega vel undan svellavetrinum mikla. Brattar og hallandi grjóturðir kalla ekki allt ömmu sína og kala síður en flatar nýræktir og þess vegna er það svo þetta árið að ósléttustu og grýttustu túnin eru jafnframt bestu túnin. Öðruvísi mér áður brá.

Talandi um halla. Halla Tómasdóttir var í síðasta mánuði kjörin forseti Íslands. Næsta verk þingmanna verður að húrrahrópa fyrir nýkjörnum forseta í Alþingishúsinu við hátíðlega athöfn og þá verður nú glatt á halla….hjalla.

Við þinglok voru gerðar fjölmargar lagabreytingar og þá þurfti líka að laga breytingar sem gerðar höfðu verið á áður löguðum lögum og breyta þeim. Hver var fenginn til að laga breytingarnar? Veit ekki.

Tuðrusparkarar og íþróttabullur hafa nú lagt undir sig Ríkisútvarpið og riðlað allri dagskrá vegna eigin hagsmuna. Evrópumótið í fótbolta er nýafstaðið en þar var það helst riðlakeppnin sem náði að riðla keppninni og riðla dagskránni. Ólympíuleikarnir í París eru svo handan við hornið og þá er nú einnig heldur betur von á riðlun – sérstaklega í rómverskri glímu. Ákveðið var að í sumar skyldi Ríkisútvarpið bara segja gamlar fréttir og því hafa sjöfréttir breyst í níufréttir en samt eru þar sagðar fréttir sem voru nýjar klukkan sjö. Ertu að tala um nýju fréttirnar? Nei, níufréttirnar. Já einmitt.

Á Ólympíuleikunum munu Íslendingar taka þátt í nokkrum keppnisgreinum og mun að líkindum nást góður árangur sökum hagstæðrar höfðatölu. Að afstöðnum ólympíuleikunum fer svo fram ólympíumót fatlaðra venju samkvæmt og þar má einnig gera ráð fyrir góðum árangri Íslendinga. Í því samhengi eru sérstaklega nefndar íþróttagreinar á borð við hnútukast siðblindra, 400 metra gönuhlaup og 50 kílómetra göngu með frjálsri aðferð – en Íslendingar hafa þróað ákveðinn stíl í þeirri grein sem gengur út á að draga lappirnar en halda samt jöfnum hraða út í gegn.

Kallinn var kenndur við fjall
og kveðskapur þar upp úr vall.
Ég víst stefn'á verðlaunapall
og vonandi uppsker þá skjall.

Þetta var ekki nógu gott en bíðið bara – lengi getur vont versnað.

Einar varla fjallkall.

Tilvitnun dagsins:

Allir: Hættu með þessar tilvitnanir!!!

Orðin upp frá dauðum

Lesendur?

Nei varla. Það skiptir samt engu máli. Það sem mestu máli skiptir er endurkoma Einars Haf inn á ritvöllinn, óforskammaðri, óhamingjusamari og illa innrættari en nokkru sinni fyrr. Hvers eiga lesendur að gjalda? Gott þú spurðir. 5.990 kr. plús vsk. og seðilgjald. Ef einhver sofnar leggst gistináttaskattur ofan á.

Síðan ég bloggaði síðast hefur eitt og annað fréttnæmt átt sér stað. Til að mynda hélt ég eitt stykki tvenna karlakórstónleika í Dalvíkurkirkju. Allt í lagi – ég hélt ekki tónleikana en ég átti samt hlut að máli, eða öllu heldur átti ég hlut að fyrsta tenór. Það fór þó aldrei svo að fólk þyrfti að borga fyrir að heyra mig syngja. Ekki mig beint en ég átti samt hlut að máli, eða öllu heldur átti ég hlut að fyrsta tenór. Já þú varst búinn að segja það. Var ég búinn að því? Ekki ég beint en ég átti samt hlut að máli, eða öllu heldur átti ég hlut að fyrsta tenór. Æi þetta þýðir ekkert, næsta mál takk.

Lögmálið um framboð og eftirspurn gildir á mörgum sviðum en það gildir hins vegar ekki um bloggsíðu Einars Haf. Það gildir heldur alls ekki þegar horft er til forsetakosninganna, sem fyrirhugaðar eru 1. júní næstkomandi. Offramboð er af frambjóðendum, sem hafa aldrei verið fleiri en því miður fyrir þá verða þeir ekki allir kosnir því ekki verður á allt kosið og ekki verða allir kosnir. Hver mun enda sem forseti? Bíðið aðeins meðan ég hlunka mér á for-setuna og hugsa málið.

Katrín hefur úti klær
og klókar Höllur báðar tvær
kjósendurna góma.
Steinunn Ólína er fær
og innilega Jón Gnarr hlær
Baldur borðar rjóma.

Viktor eða Ásdís Rán
og enginn getur verið án
Eiríks, hvað þá Helgu.
Arnars þokki þykir lán
Ástþór flaggar friðarfán
a - en ég fæ velgju.

Já ég veit, þetta var kannski ekki alveg nógu gott. Sem er einmitt nýtt slagorð bloggsíðu Einars Haf.

Ef mig vantar segla á ísskápinn, fer ég þá í Seglagerðina? Bara pæling.

Sjálfur er ég varamaður í kjörstjórn Dalvíkurbyggðar en ég veit ekki hve lengi það mun vara. Nú eru teikn á lofti um að ég muni koma inn af varamannabekknum og taka sæti sem aðalmaður fyrir forsetakosningarnar – það er að segja svo lengi sem landskjörstjórn og yfirkjörstjórn lesa ekki þessa bloggsíðu og kippa mér úr umferð á grundvelli almannahagsmuna. Hvað felst svo í því að vera aðalmaður í kjörstjórn? Það er nú ýmislegt. Til dæmis fæ ég að taka út kjörklefana. Af hverju ætti samt að taka út kjörklefana þegar það er nýbúið að setja þá upp, inni? Ruglingslegt. Þá er einsýnt að ég fái að njóta umtalsverðra matar- og kaffiveitinga á kostnað útsvarsgreiðenda en að mínu mati er þeim peningum vel varið. Ofan í kaupið fæ ég að geifla mig og gretta framan í kjósendur þegar þeir mæta á kjörstað, sem er engin kjörstaða fyrir kjósendur. Hugsanlegt er talið að utankjörfundaratkvæðum fjölgi verulega þegar þetta spyrst út.

Það kemur fyrir stöku sinnum að ég er beðinn um að koma fram og fara með fleipur, undir því yfirskyni að um gamanmál sé að ræða. Varla þarf að taka það fram að í þau fáu skipti sem nærveru minnar er óskað sem skemmtikrafts er það iðulega í gegnum frændhygli og klíkuskap. Eitt þessara skipta var nú nýverið þegar Kristján föðurbróðir minn bað mig um að koma á Lionsfund og fara með gamanmál. Ég samþykkti það auðvitað, enda var það tekið skýrt fram að það væru veitingar á fundinum. Að kveldi fundardags var ég auðvitað með allt lóðbeint niður um mig, sveittur, vansvefta og ekki búinn að klára að skrifa það sem ég ætlaði að segja. Það gekk þó ekki að mæta alltof seint því þá myndi ég missa af því að fá að trana mér fram. Ég hljóp því út í bíl, sem stóð í halla aldrei þessu vant og opnaði bílstjórahurðina annars hugar. Ekki vildi betur til en svo að hurðin opnaðist beint á kjaftinn á mér, þökk sé afstöðu bílsins, þannig að skarð kom við annað munnvikið og blóðbragðið lék um tunguna. Auk þess bólgnaði efri vörin hægra megin samstundis, þannig að engu líkara var en ég hefði verið byrjaður að fá mér fylliefni í vör samkvæmt forskrift Ásdísar Ránar – en snúist hugur og hætt við á miðri leið. Þarna varð ég fyrsti maðurinn sem vitað er til að hafi lent í árekstri við eigið ökutæki, án þess að ökutækið væri í gangi og án þess að nokkur væri um borð í ökutækinu. Varla þarf að taka það fram að ég þurfti ekki að segja neitt á Lions fundinum, fundargestir skelltu upp úr við það eitt að sjá mig.

Svarfdælska vorið er í kaldara lagi og gróður lítt tekinn að lifna við eftir klakabunka og kuldasvelju vetrarins. Allt er seinna á ferðinni nú en í fyrra, meira að segja þessi bloggfærsla. Í eðlilegu árferði hefði þessi bloggfærsla verið fyrir tveimur eða þremur vikum síðan en því er ekki að heilsa þetta árið. Ekki er að fullu komið í ljós hvaða tún verða dauðkalin eða ekki dauðkalin og þá er ekki vitað hvaða túnbleyta mun á endanum þorna og hvaða túnbleyta er komin til að vera í sumar. Hér á bæ er að byrja að koma grænn litur á hin harðgerðu og grýttu tún og þá er torfan í kirkjugarðinum tekin að grænka. Þó það nú væri.

Og þá að stóra vallamálinu. Valla? Varla. Glæsivöllur við félagsheimilið Rima er alls ekki grænn þessa dagana. Lengi vel var hann skjannahvítur, síðan svellgrár en þegar þetta er ritað er hann gulur. Stjórn Ungmennafélagsins Þorsteins Svörfuðar hyggst funda um ástand vallarins en það eru nokkrir möguleikar í stöðunni.

  • Sá fræi í frjóan svörð og vona það besta.
  • Plægja völlinn og setja niður fóðurkál eða kartöflur.
  • Semja við verktaka og breyta vellinum í malarvöll.
  • Kaupa malbik og breyta vellinum í flugvöll.
  • Kaupa græna málningu og mála völlinn grænan.
  • Spóla til baka um 20 ár og færa fótboltaæfingar sumarsins fram á Flötutungur – sem eru allt annað en flatar.

Ekki er vitað hvað verður ofan á en ljóst er að það verður völlur á stjórn félagsins þegar ákvörðun liggur fyrir.

Stundum er krísa og kal í túnum
kuldi og vosbúð og lítið í kúnum.
Spurningu þeirri svarað skal
skyld'aftur koma vor í dal?

Um síðir taka að grænka tún 
og trúlega lyftist á bændum brún.
Æðri völd hafa ei um það val
það mun aftur koma - vor í dal.

Rétt er að minna á að ef þú vorkennir ekki sjálfum þér, hver á þá að gera það?

Einar á ný.

Tilvitnun dagsins:

Allir: HALLÓ EINAR!!!

Orðin almáttug

Krossóttu lesendur.

Já mikið ofboðslega er þetta nú allt sorglegt. Tárin streyma niður kinnar lesenda og sorgin heltekur hug og hönd nú þegar það er lýðnum ljóst að bloggarinn Einar Haf er ekki dauður úr öllum æðum eins og getgátur höfðu verið uppi um heldur er hann nú upprisinn, upptrekktur og uppveðraður. Gat nú skeð að þetta myndi gerast á lengsta og sorglegasta degi ársins. Varla var á það bætandi, Jesús Kristur. Ótrúlega sorglegur þessi gaur. Jesús? Nei, Einar Haf auðvitað.

Af hverju þarf þetta að vera svona sorglegt? Nú auðvitað af því að það stendur í Biblíunni. Jesús var krossfestur á föstudaginn langa en reis svo á þriðja degi aftur upp frá dauðum – enn eitt kraftaverkið í langri röð kraftaverka sem frelsarinn framkvæmdi á sinni tíð. Hvaða lærdóm má draga af þessu? Til dæmis þann lærdóm að áður en það er hægt að hafa gaman þarf stundum að hafa pínu leiðinlegt. Upp upp mín sál og allt mitt geð, upp mitt hjarta og rómur með. Hugur og tunga hjálpi til, herrans pínu ég minnast vil. Ég vildi s.s. bara minnast herrans pínu, ekki mikið. Vá, ekkert smá sorglegt.

Líkt og Þorgeir Ljósvetningagoði forðum liggja nú fjölmargir undir feldi og velta vöngum yfir því hvort einmitt núna sé rétti tíminn að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Eins og staðan er í dag er mun meira framboð af forsetaframbjóðendum heldur en eftirspurn en að vísu hafa sumir farið óvart í framboð – eins og gerist. Sjálfur nýti ég þessa páska eins og alla aðra páska til íhugunar, meðal annars um forsetaembættið. Þar leita ég bæði inn á við og út á við með það markmið að öðlast frið. Vá þetta rímaði. Það er af litlu að taka þegar horft er inn á við enda er ég lítill í mér en af nógu er að taka út á við enda holdmikill og vel á annað hundrað kíló fullklæddur. Varla þarf að taka fram að ég er reiðbúinn að vinna á þverpólitískum grundvelli og taka samtalið við grasrótina, að öðrum kosti reyki ég grasrótina. Það þarf heldur varla að taka það fram að enn sem komið er hefur enginn komið að máli við mig og ég hef ekki fengið neina hvatningu eða áskorun af nokkru tagi um að bjóða mig fram. Engu að síður ber ég hag landsmanna fyrir brjósti og því íhuga ég alvarlega að halda blaðamannafund á heimili mínu fljótlega, með leyfi mömmu og pabba, til að ræða við fjölmiðla um embætti forseta Íslands. Ætla ég sem sagt að bjóða mig fram? Nei, ég ætla að ræða um embætti forseta Íslands; sem þýðir að fara yfir stjórnskipun landsins, lesa upp 26. greinina, útskýra málskotsréttinn og enda svo á bubblum og brauðréttum. Myndu einhverjir blaðamenn mæta á þennan fund? Tja, ég reikna fastlega með fulltrúum Norðurslóðar, DB blaðsins, Andrésar Andar, Húsfreyjunnar og Lifandi vísinda, það er að segja ef ég borga nógu mikið. Vá, ekkert eðlilega sorglegt.

Hvað er annars að frétta af hinum kristnu kaupsýslumönnum? Kannski það helst að Landsbankinn keypti Tryggingamiðstöðina, til húsa að Golgötu 7, en gleymdi að skoða eigendastefnuna og láta eigendur sína og yfirboðara vita. Þetta gerðist áður en haninn gól þrisvar þó svo að bankaráð hafi afneitað því tvisvar. Eða var það öfugt? Tilgangur kaupanna mun vera sá að græða meiri peninga en það virðist hafa komið ótrúlegasta fólki algjörlega í opna skjöldu. Ótrúlegt að banki ætli sér að stækka og græða meira, það er galið. Það felast reyndar líka annars konar tækifæri í þessum kaupum. Ég held að það muni koma mjög vel út að viðskiptavinir bankans geti átt þess kost að tryggja sig fyrir of háum þjónustugjöldum og of háum vöxtum um leið og þeir eiga viðskipti við bankann. Hafa ráðherra bankamála, bankasýsla, bankaráð og Pontíus Pílatus bankastjóri keppst við að þvo hendur sínar af málinu með grænsápu og sterkum hreinsiefnum en allt hefur komið fyrir ekki og ljóst að lortarnir leynast víða. Óttalegt væl er þetta. Ég meina, hver hefur ekki lent í því að fara í búðina og kaupa eitthvað án þess að það hafi verið á innkaupalistanum? Ofboðslega er þetta sorglegt.

Nýverið tókst óprúttnum náungum að stela peningatöskum sem öryggisverðir Happadrættis Háskólans gættu, um hábjartan dag. Ekki er ljóst hvort um var að ræða óánægða miðaeigendur eða einhverja sem gleymdu að endurnýja fyrir síðasta útdrátt en sama hvort er er ljóst að svikin eru veruleg. Ekki er vitað hversu mikið Júdas og vitorðsmaður hans höfðu upp úr krafsinu en það voru að minnsta kosti 30 silfurpeningar. Það er reyndar frekar sorglegt.

Happadrætti Háskólans? Ekki DAS? JÚ….DAS!? Annað var það ekki. Sorglegt.is.

Líkt og stundum áður var messað í Urðakirkju að kveldi Skírdags. Eftir leiðindaveður og snjókomu undanfarið var síður en svo greiðfært upp að kirkjunni þegar messudagurinn rann upp. Eftir að hringjari og sláttumaður kirkjunnar hafði barist gegnum harðfennið með álskóflu úr Víkurkaup þótti sýnt að ekki næðist að gera messufært í tíma, enda var búist við hátt í tug gesta. Var því ræstur út verktaki á risastórri gröfu svo hreinsa mætti fönnina af Guðs vegum. Í veröld eru margir stígir hálir og það gilti svo sannarlega um stíginn sem Maggi verktaki mokaði upp að kirkjunni. Máttu klerkur, kór, organisti og kirkjugestir hafa sig alla við að standa í lappirnar á svellbunkunum til og frá kirkju en allt hafðist það með Guðs blessun. Af messunni sjálfri er það helst að frétta að sett var nýtt svarfdælskt met í 60 metra altarisgöngu með frjálsri aðferð þar sem séra Erla bauð oflátur og Steinunn sóknarnefndarformaður fylgdi með blóð Krists, bikar lífsins í kjölfarið. Fyrra metið var 18,96 sekúndur en nýja metið er 14,85 sekúndur og verður erfitt að bæta það. Hversu sorglegt?

Á páskunum ég pæli í 
að plana framboð, út af því
að kjósendur mig vilja.
Launahækkun langar í
og löng og fokdýr helgarfrí
það allir hljóta að skilja. 

Þessi páskahugvekja var í boði Biskupsstofu, Límtré vírnets, Golgata tannkrems og Smíðaverkstæðis Jóseps ehf.

Einar í kross.

Tilvitnun dagsins:

Allir: JESÚS KRISTUR!!

Orðin endurkomin

Góðir lesendur.

Eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir hefur verið fremur lítið umleikis hér á bloggsíðu Einars Haf það sem af er árinu 2024. Ástæðan er auðvitað sú að ég hef legið orðlaus í andakt, stjarfur og starandi undir þykkum feldi allar götur síðan Guðni Th. forseti Íslands tilkynnti alþjóð á nýársdag að hann hygðist ekki sækjast eftir endurkjöri sem forseti Íslands. Þetta er hugsanlega sama herkænska og ég beitti um árið þegar ég sagðist ekki sækjast eftir endurkjöri sem gjaldkeri Ungmennasambands Eyjafjarðar en var engu að síður kosinn rússneskri kosningu sem slíkur skömmu síðar. Ef ég tilkynni um framboð til forseta mun ég gera það 1. apríl, þá verður engin leið að vita hvort ég sé að plata eða ekki.

Talandi um að plata. Nú er búið að þreyja Þorrann og þá þarf bara að þreyja Konudaginn og Góuna og lönguföstuna og páskana og það allt saman. Tiltölulega stutt er síðan Svarfdælingar blótuðu Þorrann með miklum tilþrifum á Rimum. Ég og félagar mínir í þorrablótsnefnd stóðum þar fyrir afar bleikri skemmtun og var bleik þá brugðið. Brugðið var á (b)leik í annálnum og þar var komið víða við í þeim tilgangi að níða skóinn af sveitungunum. Fyrst þurfti þorrablótsnefnd þó að níða skóinn af sjálfri sér.

Nefndarvísur 2024

Fyrir þessu flestir hafa kviðið
að fá allt nefndarfólkið uppá sviðið,
því förum við með bæn og blessum okkur
er birtist þessi skringilegi flokkur.

Bryndísi finnst Skíðadalur fagur
og fram á Þverá er víst alltaf Dagur.
Eftir áratug af þessu og hinu
þau elda loks í nýja eldhúsinu.

Í Böggvisbraut þau dýrka mest að dvelja,
doldið skrítið myndu sumir telja.
Snæþór er sá svalasti í bænum
hann sinnir bæði Anítu og hænum.

Nú væri kannski ráðleg klósettpása
enda koma næst þau Trausti og Ása.
Fjöld‘í Hofsárhirð með mesta móti
sirka hundrað manns á þessu blóti.

Anítu og Jón við þykjumst þekkja
þau kunningja og vini vilja hrekkja.
Þið skuluð ei við öllu frá þeim gleypa,
því aðalvinna þeirra er að steypa.

Það þykir bæði sorglegt mjög og skrítið
hvað skömmin Einar þroskast hefur lítið.
Konulaus og kauðskur húkir heima
eins og kattaróféti að breima. 

Dómhildur í Klaufabrekknakoti
stofu sína klauf í óðagoti,
um náungana glúrin veit hún gommu
já þið skuluð gæt‘ykkar á Dommu.

Hér er nefndin keik og kát með braginn
og klár á því að gangi allt í haginn.
Að lokum kemur annað ei til mála
en öskra GAMAN hátt og síðan skála.

Talandi um gaman. Annállin hófst á frásögn af eldhúsframkvæmdum á Þverá í Skíðadal en eldhúsframkvæmdirnar hafa komið við sögu í öllum svarfdælskum þorrablótsannálum undanfarinn áratug eða þar um bil. Nú bar svo við að þau Dagur og Bryndís á Þverá voru sjálf í þorrablótsnefnd og því var ákveðin pressa á þeim að loka málinu. Með hjálp þorrablótsnefndar tókst það eins og kom fram í söng Jónasínu Soffíu frænku í Klaufabrekknakoti….

Ja fussum svei ja fussum svei
mig furðar þetta dót.
Það er ekki séns 
að þetta klárist fyrir blót.
Flestir hlutir ósamsettir
stólar, bekkir, borð.
Já eldhúsið er allt í rúst
ég á bara ekki orð!

Bryndís kennir börnunum
en Dagur bætir hjól,
ekki veit ég hvar
þau ætla að elda þessi jól.
Annál eftir annál bíð
en enga sé ég efnd.
Ef verkið á að vinnast þarf
að virkja þorranefnd!

Talandi um leirburð. Meðal þess sem flutt var í þorrablótsannálnum var látbragðsleikritið „Síðasti veiðifélagsfundurinn“ sem byggði á Gríms ævintýrum.

Við erum stödd á Rimum á dimmu nóvemberkvöldi. Boðaður hefur verið aðalfundur veiðifélags Svarfaðardalsár en því miður barst fundarboðið tveimur mínútum of seint í Mela, án umboðs. Það mátti öllum vera ljóst að þetta myndi setja fundinn og fundarmenn í uppnám enda flestir þeirra skapmenn og miklir áhugamenn um sköp…það er að segja fundarsköp. Fór þar fremstur í flokki maður að nafni Arngrímur á Melum, umboðsmaður Svarfdælska bleikjustofnsins. Segir nú frá fundinum.

Þrútið var loft og þungur sjór
er þungbrýndur á fundinn fór
Grímur lögspekingur.
Á umboðsleysi og yfirklór
skyld‘ann benda, þessum kór,
í regluverki slyngur.
 
Ársreikninga átt‘að sjá
veiðitölur skoða á skjá
skeggræða um afla.
Smurbrauðstertur skyldi fá
fólkið sem var fundi á
alveg heilan stafla. 

Kvenfélag fram kaffi bar
kökur voru tilbúnar 
en súrar urðu sneiðar. 
Arngrímur til máls tók þar
tætti í sig reglurnar -
en minntist hvergi á veiðar.

Sérhver gestur gáttaður
en Grímur fúll og geðvondur
á Rimum engin ást var. 
Burt af fundi formaður
flúði, sár og skúffaður
undir iljar sást þar.

Úr Arngríms skálum reiðin rann
réttlæti framfylgdi hann
og umboð vildi skoða.
Þegar engin umboð fann
innra bál í æðum brann
stefndi allt í voða. 

Upp í loft fór fundurinn
fuðruðu upp málefnin
lenti allt í straffi.
Þvinguð þótti stemmningin
þaut í burtu lýðurinn
og enginn fékk sér kaffi.

Í lok fundar vissi enginn hvort fundinum hefði lokið eða ekki. Enginn vissi
hver væri í stjórn og hver ekki og enginn vissi hver hefði umboð til að
úrskurða um það og hver ekki. Sem málamiðlun tók Gunnsteinn hennar
Dagbjartar á Sökku, hringjari í Vallakirkju og sóknarnefndarformaður, það að sér að stýra félaginu úr öldurótinu og koma því á lygnan sjó, líkt og Nói sigldi örkinni forðum með Guðs blessun. Sveinn hennar Steinunnar á
Melum keyrði á milli landeigenda í dalnum með bænaskjal sem hver og
einn skrifaði undir, með þá trú að málefni veiðifélagsins myndu blessast
undir styrkri stjórn hins útvalda Guðsmanns á Sökku. Á bænaskjalinu stóð meðal annars:

Lýs, Gunnsteinn minn
upp veiðifélagsstrand
mig glepur sýn
nú er það svart og ekki sést í land
ó hjálpin mín
drag mig á þurrt svo veitt ég fá‘á ný
ég lofa samt að sleppa aftur því.

Ég spurði fyrr, hvað hjálpa fundarhöld
og umboðsþras
mig skipti engu hver fór þar með völd
það allt var bras.
Ég elti fiska, þann þó sjaldan frið
uns fáráð bleikjan sættist Arngrím við.

Þrátt fyrir að vera síður en svo hlutlaus tókst þorrablótið afar vel. Að minnsta kosti samkvæmt mér. Mér vitandi fór enginn í fýlu, enginn sármóðgaðist og enginn afvinaði mig á facebook eftir blótið, þannig að það fór nú betur en á horfðist.

Talandi um á horfðist. Ha, það var enginn að tala um það? Nú jæja þá. Flestar fréttir hafa fallið í skuggann af þorrablótinu, svona ef þú spyrð mig – lesandi góður. Aðrar fréttir eru bara leiðindi, stríð, jarðhræringar og almennar hörmungar. Talandi um hörmungar. VR dró sig nýverið út úr kjaraviðræðum breiðfylkingarinnar svokölluðu við SA. Samninganefnd VR gat ekki sætt sig við forsendur forsenduákvæðis sem SA setti inn á sínum eigin forsendum en ég hef að vísu engar forsendur til að fullyrða neitt um það. Sérfræðingar telja að kjaradeilur muni halda áfram næstu vikur, sumir muni semja en aðrir semji ekki og að heilt yfir semjist fólki í samningabransanum ekki. Þú ert þá að tala um VR og SA? Já en líka ASÍ, BSRB, SVR, KFUM, UMSE, KPMG, LOL og GSM. Hver samdi þessa þvælu eiginlega? Allavega ekki ég.

Talandi um þvælu. Ef hin grænu orkuskipti eiga að fara fram hér á landi er ljóst að það þarf að virkja meira en ímyndunaraflið til að framleiða allt rafmagnið og allt stuðið sem á þarf að halda. Hins vegar má ekki virkja neitt án þess að allt verði brjálað. Það má ekki einu sinni virkja Bessastaði. Er það nokkuð Ástþór? Nei. Þegar ég hugsa málið þá hef ég reyndar virkjað eitt og annað nýverið án þess að því hafi verið mótmælt. Ég virkjaði rafrænu skilríkin hjá mér um daginn án þess að því væri mótmælt. Svo virkjaði ég aðgang inn á mínar síður hjá nokkrum fyrirtækjum og loks virkjaði ég sköpunarkraftinn til að skrifa þessa bloggfærslu en því var að vísu mótmælt nokkuð af lesendum eins og venjulega. Það gengur örugglega ekki betur næst.

Talandi um mótmæli. Töluverð mótmæli og miklar umræður hafa farið fram undanfarið um útlendingamál. Si? Njet. Ég veit ekki og þori ekki að hætta mér út í útlenska sálma enda vil ég ekki ala á úlfúð og andúð við útlendinga þar sem ég á nóg með að ala sjálfan mig. Íslendingar gera auðvitað sitt besta til að bjarga útlendingum sem búa í útlöndum hvar allt er í steik en ljóst er að það verður ekki öllum bjargað án þess að það verði á okkar eigin kostnað. Ég á erfitt með að spá í þessi mál en það lagast kannski ef ég fæ lánað föðurland hjá einhverjum – enda er enginn spámaður í eigin föðurlandi.

Undir háu hamrabelti
hundur karls í koti gelti
heimsins vanda upp ég velti
víst er margt sem miður fer.
Ódýrt leður er mitt belti
skrítlu las og upp úr skellti
brauðið brúnt er allt úr spelti
hausinn hylur koddaver. 

Þess má geta að lestur Passíusálmanna stendur yfir á Rás 1 þessar vikurnar en sálmarnir eru einnig aðgengilegir á streymisveitum – enda erum við að tala um lifandi brunn hins andlega streyms…meinti seims.

Einar Konur á Konudaginn.

Tilvitnun dagsins:

Allir: TALANDI UM ÞAÐ!!!

Ár við orðamót

Góðir landsmenn.

Það er góður og gamall siður, nánast skylda segja sumir, að staldra við nú um áramót og líta til baka yfir farinn veg. Ekki bara líta yfir farinn veg heldur góna yfir farinn veg og í einstaka tilfellum mæna yfir farinn veg. Þá er einnig gott að horfa um öxl, horfa reiður um öxl, henda reiður á öxl – það er að segja hvaða öxl það er sem verið er að horfa yfir. Svo má líka yppa öxlum ef á annað borð er búið að tékka á öxlunum og smyrja öxlana. Hvað með að líta í eigin barm? Æi má ég þá frekar biðja um að fá að líta á einhverja aðra barma. Hrifnastur er ég af barmi örvæntingar en það er annað mál. Þetta áramótaávarp er augljóslega ekki unnið með aðstoð gervigreindar. Til stóð að ávarpið yrði textað á síðu 888 í textavarpi en því miður varð að hætta við það vegna alvarlegrar bilunar. Ekki í textavarpinu heldur í höfundi ávarpsins. Það gengur bara betur næst.

Ágætu landsmenn. Náttúruöflin hafa minnt verulega á sig á árinu sem er að líða. Það er ósköp eðlilegt að þau skyldu minna á sig enda höfðu margir gleymt þeim. Þó að jarðskjálftar, eldgos, frost og fárviðri séu fréttaefni þá er fegurðin og ástin já og sólskinið hið rétta efni. Söngur um lífið, texti Þorsteinn Eggertsson? Já mér fannst þetta bara passa svo vel hér. Það er líka mjög algengt að það sé vitnað í kvæði og ljóð í svona áramótaávörpum. Til dæmis þetta kvæði hér. Nú árið er liðið í aldanna skaut og kýrin hún Skrauta eignaðist naut. Hmm…nei þetta var víst ekki rétta kvæðið. Jæja en hvað með það. Allar líkur eru á því að náttúran haldi áfram að láta okkur finna til tevatnsins árið 2024 en trúlega munu hinir náttúrulausu sleppa billega. Sjálfur er ég í brimvarnarbúningi í felum heima hjá mér, tilbúinn að hlaupa niður í kartöflugeymsluna og bíða af mér hörmungarnar.

Undurfögru landsmenn. Stríðsátök og styrjaldir áttu verulega sterka endurkomu á árinu sem er við það að springa í tætlur. Rykið var dustað af gömlum kreðsum og átökum austurs og vesturs og hergagnaframleiðsla stóð í miklum blóma. Mikið var að gera hjá öllum hjálparsamtökum og flóttamannabúðir voru því miður vinsælustu búðirnar enn eitt árið, rétt á undan fangabúðunum. Allar líkur eru á því að blóðsúthellingarnar og tortímingin haldi áfram árið 2024 hvað sem líður öllum ályktunum og samþykktum öryggisráða, allsherjarþinga og þjóðarleiðtoga. Sjálfur er ég áfram í felum heima hjá mér með rafvarnarbúnað íklæddur stingheldu vesti, tilbúinn að hlaupa út í hlöðu og bíða af mér hörmungarnar.

Yndisfríðu landsmenn. Íslensk þjóð er þrautseig þjóð. Hér hefur kynslóð eftir kynslóð þraukað gegnum aflabresti, kal í túnum, drepsóttir, plágur, hallæri, óblíð náttúruöfl, válynd veður, bloggfærslur Einars Haf og ýmsar aðrar hamfarir sem of langt mál væri að telja upp í stuttu áramótaávarpi. Þegar öll sund virðast lokuð og enga von að finna stígum við Íslendingar upp, bítum á jaxlinn og komumst í gegnum erfiðleikana með óútskýrða, innistæðulausa og óbilandi bjartsýni að vopni. Það munum við halda áfram að gera, enda engin ástæða til annars. Hvernig þá? Iss, það reddast. Þetta gildir þó ekki um mig því sjálfur er ég svartsýnn og vonlítill í felum heima hjá mér, tilbúinn að hlaupast undan merkjum og bíða af mér hörmungarnar.

Forkunnarfögru landsmenn. Íslenska sauðkindin heldur áfram að berjast í bökkum og þá er ég auðvitað að tala um alla matarbakkana sem innihalda gómsætt lambakjöt. Í gegnum aldirnar hefur sauðkindin haldið lífinu í hræddri þjóð á norðurhjara og mun gera það áfram, sérstaklega ef tekst að vinna bug á landlægri riðuveiki og tilheyrandi leiðindum. Það þurfti auðvitað lífstílsbónda til að ýta úr vör arfgerðargreiningum og ræktun kinda með verndandi arfgerðir gegn riðu en það hafði dýralæknum og spekingum Matvælastofnunar aldrei dottið í hug – enda hafa skoðanir þeirra og starfsaðferðir byggt á hinni síðklassísku dramakvikmynd Lömbin þagna. Ég er því miður ekki með neitt verndandi gen enn sem komið er og því kannski best að ég haldi mig í felum heima hjá mér, íklæddur sauðagæru og ullarsokkum, tilbúinn að hlaupa af mér hornin og bíða þannig af mér hörmungarnar.

Andlitsfríðu landsmenn. Ísland er fegursta land í heimi og íslensk orka er að öllum líkindum besta orka sem fyrirfinnst á byggðu bóli. Grænt rafmagn skoppar hjalandi í lækjarfarvegum niður flúðir og fossa, um stokka og steina og beint inn í innstungur landsmanna. Landsmenn taka við orkunni fegins hendi þar sem hún bunar úr innstungunum og hlaða með henni rafmagnsbíla, rakvélar, snjallsíma, tölvuúr, eldhúsáhöld, unaðstæki, ennisljós, ostaskera, útvörp, hitapoka og handklæðaofna svo eitthvað sé nefnt. Grænu orkuskiptin hafa verið til umræðu í ófá skipti og eru það einmitt nú meðan ég ekki skipti um umræðuefni. Stjórnvöld hafa ákveðið að keyra orkuskiptin í gegn en hins vegar eru engar líkur á því að allir fái það rafmagn sem þeir vilja árið 2024 enda vantar sárlega fleiri virkjanir og fleiri innstungur. Stefna yfirvalda er sett á að kolefnisjafna sig einhvern tímann þegar líður á öldina en þó er enginn tilbúinn til að fækka flugferðum, minnka neyslu eða gera eitthvað sem gæti orðið til þess að minnka útblástur og kolefnisfótspor. Hvernig kemur þetta allt heim og saman? Það gerir það örugglega ekki. Ég hugsa að það sé öruggast að ég haldi mig í felum heima hjá mér, við hliðina á batteríunum, rafmagnstöflunni og olíutanknum, tilbúinn að hlaupa svokallað skammhlaup sem gæti reyndar endað með hörmungum.

Dúllubossalegu landsmenn. Auðvitað voru það ekki stríðsfréttir, hamfarafréttir, verðbólgufréttir, loftslagsfréttir eða flóttamannafréttir sem voru mest lesnu fréttir ársins. Það voru bleiku fréttirnar á Smartlandinu og víðar sem nutu mestrar hylli og skyldi engan undra. Fréttir af fræga, fallega og ríka fólkinu eru þær fréttir sem mestu skipta almenning. Já og svo reyndar fréttir af hvalveiðum. Kristján Loftsson fellur undir allt ofangreint og ætti því með réttu að vera manneskja ársins. Áhrifavaldarnir okkar reyndu sitt besta við að létta okkur lundina á árinu sem er við það að líða og gekk það flestum vel. Ég fylgdi nokkrum áhrifavöldum eftir á árinu og var ávíttur fyrir það af Persónuvernd en slapp við kæru. Ég misskildi víst aðeins hvernig maður fylgir áhrifavöldum eftir, það er ætlast til þess að maður geri það gegnum samfélagsmiðla en ekki bílaeltingaleiki, gluggagægingar og persónunjósnir. Eitt minna fjölmörgu áramótaheita verður að fylgja færri áhrifavöldum eftir á árinu 2024, enda smáhrifavaldur sjálfur. Það gæti orðið erfitt að fylgja mér eftir, enda er ég í felum heima hjá mér, liðleskja ársins, tilbúinn að hlaupa í hvalspik sem væri reyndar engin hörmung.

Yfirkrúttuðu landsmenn. Eitt fjölmargra áhugamála Íslendinga er að fylgjast með stjórmálum og framferði stjórnmálamanna, bæði innan og utan þings. Nokkur merkileg pólitísk mál áttu sér stað á árinu sem senn er á enda. Bera þar hæst afsögn fjármálaráðherra, tilkoma nýs utanríkisráðherra og ólga kringum formann Sjálfstæðisflokksins. Bíddu nú við, er þetta ekki allt sami maðurinn? Jú reyndar en það hefur löngum þótt happadrjúgt í íslenskri pólitík að vera margfaldur í roðinu. Hvað ætla ég að fá mér í kvöldmat á eftir? Snúið roð í hund – en það tengist þessu máli að vísu ekki á nokkurn hátt. Gera má ráð fyrir því að einn og einn stjórnmálamaður verði hafður að bitbeini og jafnvel bitinn af tík, það er að segja pólitík, á árinu 2024. Þó ég sé að flytja ykkur þetta áramótaávarp og hljómi alveg eins og forsætisráðherra er ég ekki stjórnmálamaður. Hvað þá? Nú ég er auðvitað í felum heima hjá mér, tilbúinn að hlaupast undan pólitískri ábyrgð og bíða þannig af mér hörmungarnar.

Snoppufríðu landsmenn. Afrek Íslendinga á íþróttasviðinu voru mörg og merkileg á árinu sem er alveg við það að klárast. Við náðum sundmanni á pall, fótboltamanni á vog og kraftakarli á sterum. Nei bíddu við, þetta var reyndar ekki alveg rétt. Æi hvað með það. Íslenska karlalandsliðið í handbolta var nokkuð illa liðið í upphafi árs sem endaði með þjálfaraskiptum þegar nokkuð var liðið. Á árið. Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta lenti í hremmingum og framlengingu sem varð til þess að framlengja þjáningar liðsins. Merkilegasta afrekið var örugglega það að Ungmennafélagið Þorsteinn Svörfuður hélt úti tveimur fótboltaæfingum í viku síðasta sumar fyrir eldri og yngri iðkendur. Hélt úti? Já æfingarnar voru haldnar úti. Hvernig eru annars mörkin á fótboltavellinum við Rima? Þau eru kassalaga með götóttum netum. Já ég skil. Ýmsir spekingar hafa nú valið flottasta mark ársins og er það vel. Samtök sauðfjárbænda völdu einnig flottasta markið en það var blaðstýft aftan hægra, alheilt vinstra. Reikna verður með því að margir íþróttamenn fari yfir mörk á árinu 2024. Sjálfur er ég vitaskuld í felum heima hjá mér á stuttbuxum og takkaskóm, tilbúinn að hlaupa í mark sem yrði hörmung fyrir ásigkomulag marksins.

Frygðarlegu landsmenn. Verslun og þjónusta eru meðal hornsteina íslensks samfélags, rétt á eftir landbúnaði, sjávarútvegi, nýsköpun, ferðaþjónustu, fiskeldi, undaneldi, flugeldi, ylrækt, skógrækt, órækt, vaxtarrækt, menntastofnunum, heilbrigðisstofnunum og þjóðkirkjunni. Smásalar hafa átt gott ár, enda engin smá sala sem þar á sér stað. Milliliðir hagnast vel á því að vera milliliðir en það er allt í lagi enda hafa bændur bara gaman af því að geta lagt sín lóð á vogarskálarnar í baráttunni við verðhækkanir og verðbólgu. Skítt með eigin afkomu. Þá er óhætt að nefna kynlífstækjabransann sem hefur átt gríðarlega fullnægjandi ár. Salan hefur toppað sig skipti eftir skipti og neytendur hafa unað sér vel við unað og annan munað. Sjálfur er ég að verslast veslast upp í felum heima hjá mér, tilbúinn að hlaupa í næsta kauphlaupi sem gæti endað með vísaskuld og hörmungum.

Sætu sætu landsmenn. Þegar öllu er á botninn hvolft og allt kemur til alls er engin ástæða til annars en að vera bjartsýnn þegar horft er fram til ársins 2024. Þetta segi ég auðvitað með krepptar tær og lygaramerki en það þarf varla að taka það fram miðað við allt sem áður hefur verið nefnt í þessari áramótahugvekju. Hugvekja? Meira svona, hugógnvekja. Múhaha. Hvað boðar nýárs blessuð sól? Hún boðar rokk og ról, tæki og tól, gleði og gól, könnu upp á stól, álf út úr hól, Sollu í kjól, BDSM hálsól og svo að ári önnur jól. Vonandi. Þetta skiptir samt ekki öllu máli. Aðalmálið er að sprengja árið sem er við það að renna sitt skeið í loft upp með heilsuspillandi flugeldum, lífshættulegum skottertum og baneitruðum blysum og leitast þannig við að toppa alla svifryksmæla sem fyrirfinnast um byggð og ból. Það er eina rétta og viðeigandi leiðin til að ljúka þessu guðsvolaða ári. Hvernig ætla ég að ljúka þessu ári? Nú auðvitað með því að vera í felum heima hjá mér á skautbúningi þegar árið líður í aldanna skaut, tilbúinn að hlaupa frá logandi ragettu sem annars gæti valdið mér og öðrum hörmungum.

Í árslok ég af angist fyllist
og auðmjúkur ég felli tár.
Yfir harmi heimsins tryllist
er hugsa um hið liðna ár. 

Ég trúi þó að batni tíðin
og tel að friður komist á,
þó síðar verði hættir hríðin
og hugljúft lognið brestur á. 

Húðstinnu landsmenn. Jónas Hallgrímsson hefði orðið 216 ára á árinu sem er að líða hefði hann lifað – sem hefði reyndar gengið nærri kraftaverki. Hann er nú þegar búinn að snúa sér sautján hringi í gröf sinni vegna þess skáldskapar sem hér hefur verið borinn á borð fyrir lesendur. Ég skammast mín og held því áfram að vera í felum heima hjá mér, tilbúinn að hlaupa sem fætur toga frá lesendum sem annars gætu valdið mér hörmungum.

Að lokum óska ég öllum lesendum nær og fjær gleðilegs árs og þakka um leið samfylgdina, samkenndina, samstöðuna og samlesturinn á árinu sem er að líða. Njótið áramótanna hvort sem þið eruð í felum heima hjá ykkur eða ekki.

Bílskúrinn á Bessastöðum, 31. desember 2023.

Einar Okkar Hafliðason