Orðin á fallanda fæti

Fágætu lesendur.

Nú er Snorrabúð stekkur. Og engum stekkur bros. Horfið er nú sumarið og sólin, í sálu minni hefur gríma völd. Hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum glatað? Þetta er alveg glatað. Eitt eilífðarsmáblóm með titrandi tár, sem tilbiður Guð sinn og deyr. Ég get ekki meir. Angistin holdi klædd heilsar lesendum sínum á ljóðrænum nótum þennan biksvarta vetrardag, tilbúin að opna hjarta sitt þeim sem það vilja skilja. Ég hlýt að fara að hætta þessu er það ekki? Jú örugglega. Bloggið lifir ekki að eilífu. Eitt sinn verða allir menn að þegja.

Æi góði besti. Hættu þessu svartagalsrausi og segðu frekar frá einhverju skemmtilegu. Jú jú ég get svo sem látið slag standa og kýlt á það. Tja…þegar ég hugsa um það er kannski best að segja sem minnst. Einn hlekkur á vefslóð getur dimmu í dagsljós breytt, þó stefnuljós gefi ég ekki neitt. Mér þykir það leitt.

Ein pæling. Mun hatrið sigra Sigurjón digra?

Stjórnendur fyrirtækja, bókhaldarar og endurskoðendur standa í ströngu og stórræðum þessa dagana við að gera upp gamla árið í tugum og þúsundum króna. Tilvonandi lesendur reikningsskilanna bíða spenntir eftir því að geta sökkt sér ofan í afkomu og framlegð þess liðna og með því móti komist að því hvaða fyrirtækjarekstur eigi sér viðreisnar von og hvaða fyrirtækjarekstur sé á vonarvöl. Nú þegar hafa nokkur fyrirtæki gefið upp sínar tölur frá liðnu ári og orka margar þeirra afar tvímælis. Innan íþróttahreyfingarinnar er þess beðið í ofvæni að Ungmennasamband Eyjafjarðar og Ungmennafélagið Þorsteinn Svörfuður geri ársreikninga sína opinbera. Beinast þar öll spjót að gjaldkeranum sem hefur alla þræði í hendi sér og öll kort í veski sér…hmm eitthvað var nú bogið við þetta. Þá verður spennandi að sjá afkomu hinna rótgrónu skúffufélaga Ríkisferða ehf. og Bændaferða ehf. en þessi tvö félög hafa sinnt akstri með nauðsynjar og óþarfa fyrir bændur – og jafnvel akstri með bændurna sjálfa, í mörg herrans ár. Fáir botna í tekjumódeli þessara félaga enda er sjaldnast greitt fyrir þennan akstur í formi reiðufjár. Á móti kemur að bæði Toyota Corolla Touring Deluxe 1991 árgerð með rafdrifnum rúðum og götóttu púströri og arftakinn Subaru Impreza Sedan RoadRage 2003 árgerð með ískrandi öryggisbeltum og steinbörðum stuðara framleiða eldsneyti meðan þau eru í gangi og því er hægt að leyfa sér töluvert margar bílferðir. Ekki náðist í forvígismann félaganna, Einar Haf, þar sem hann var úti að aka – einu sinni sem oftar.

Gríðarlega mörg samsæri hafa verið upprætt undanfarið en betur má ef duga skal. Búið er að fletta ofan af atvinnuuppljóstraranum Báru sem situr fyrir alþingismönnum á Klaustri dulbúin sem erlendur ferðamaður. Búið er að afhjúpa yfirgengileg svik bílaleigunnar Procar þar sem búið var að eiga við kílómetramæla bílaleigubíla í miklum mæli og núlla hvern mæli sem var orðinn fullur. Þá þótti einhverjum mælirinn fullur, það er að segja þegar hann var tómur. Varla er þess langt að bíða að fólkið á bak við samsærið gegn afmælisriti Jóns Baldvins verði dregið fram í dagsljósið, sem betur fer, og það látið svara til saka. Jón Baldvin hefur varist fimlega og tjáð sig ítrekað um það í fjölmörgum blaðagreinum og sjónvarpsviðtölum að hann muni ekkert tjá sig um þetta mál. Ég bíð spenntur eftir því að næsta samsæri verði opinberað en ég get mér þess til að það muni tengjast framlagi Íslendinga í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva.

Íslenska þjóðin fylgist í ofvæni með gangi mála í hinni afar umfangsmiklu sjónvarpsþáttaröð Ófærð. Hvert sunnudagskvöld situr þorri landsmanna stjarfur við sjónvarpsskjáinn og reynir að henda reiður á öllum þeim vofeiflegu atburðum sem eiga sér stað á Siglufirði viku eftir viku. Sem betur fer fyrir lögregluna í Fjallabyggð eru bara tveir þættir eftir en það er að vísu nægur tími fyrir allra handa hörmungar að eiga sér stað. Margir velta vöngum yfir því hver sé morðinginn og standi á bak við öll þessi ósköp. Ég er fyrir löngu búinn að átta mig á því og skil raunar ekkert í því að fleiri hafi ekki fattað þetta. Ég fór einfaldlega og las dagbók lögreglunnar á Siglufirði og sá þá hverjar málalyktirnar urðu. Sniðugt. Gárungarnir segja að það hafi verið einhver ilmur á lögreglustöðinni. Hvernig ilmur? Nú auðvitað Ilmur Kristjánsdóttir leikkona. Nei ég segi svona. Hvar eru trommurnar þegar maður þarf á þeim að halda?

Bankastjóri blóðbankans hefur legið undir ámæli undanfarið fyrir að misnota vald sitt, blóðmjólka viðskiptavini bankans í krafti stöðu sinnar og skammta sér ofurlaun, hvort sem um ræðir launaflokk 1, 2 eða 3 eða blóðflokk A, B, AB eða O. Bankastjóranum til varnar er afkoma bankans góð og því er ósköp eðlilegt að hans eigin afkoma sé líka góð. Nokkur blóð-þrýstingur hefur verið settur á bankastjórann að bregðast við þessu og lækka launin en honum hefur ekki runnið blóðið til skyldunnar enn sem komið er. Við fylgjumst spennt með.

Undir háu hamrabelti
hundurinn minn meig og gelti
eldra fólk og börn hann hrellti
sem og menn með magabelti.

Heyrðu þetta var nú kannski ekki alveg nógu gott. Það vantar einhvern brodd í þetta vísnahorn er það ekki?

Mörg er konan þrjósk og þver
þurr á manninn, hörð sem gler,
stöku dólgur þrífst þó hér -
Jón er bald(v)in(n) þykir mér.

Æi þetta skánar trúlega ekkert, það verður bara að hafa það.

Þess má til gamans geta að þessi bloggfærsla er með öllu sýklalyfjaónæm.

Einar baldinn.

Tilvitnun dagsins:

Allir: Samsæri!!!

2 thoughts on “Orðin á fallanda fæti”

  1. Flýtti mér að lesa bloggið meðan verið var að rifja upp efni fyrri þátta Ófærðar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *