Furðulegu lesendur.
Athugið, til að hámarka „ánægjuna“ af lestri þessarar bloggfærslu er æskilegast að hún sé lesin í anda þess sem les inn á Víkingalottóauglýsingarnar sem heyrast þessa dagana í sjónvarpi og útvarpi.
Það eru ýmis mál sem þarf að taka fyrir og fjalla um þessa dagana. Þessi mál eru mis umfangsmikil og mis falleg. Sum eru alls ekki falleg, heldur hræðileg. Eitt þeirra mála er til umræðu í þessari bloggfærslu; jólaundirbúningur og jólaskraut um miðjan nóvember.
Alveg er það með hreinum ólíkindum hvernig sumt fullorðið „viti“borið fólk útþynnir jólahátíðina með því að setja allt á fullt nú um miðjan nóvember við jólaundirbúning. Hvað vakir fyrir þessu fólki? Fyrir þá sem ekki vita er desember jólamánuðurinn, en nóvember er bara nóvember. Það á að vera dimmt og drungalegt í nóvember. Það á að vera skítakuldi, hor og ógeð í nóvember. Til þess er nóvember. Lok nóvember er í lagi, enda byrjar aðventan þá. En er það nóg fyrir þetta skreytingaglaða fólk? Neeeeiiiii.
Kaupmenn eru auðvitað helstu sökudólgarnir í þessu máli. Búið er að markaðssetja jólin þannig að byrja þarf að kaupa inn og gera og græja snemma í nóvember og þannig er hinn kristilegi boðskapur um nægjusemi, hógværð og andlega stillingu að engu hafður. Auðvitað tek ég þátt í þessu og versla eins og óður maður þegar nálgast jólin. Það er ekki mér að kenna, þetta er einfaldlega hópþrýstingur og krafa samfélagsins. Af nákvæmlega sömu ástæðu byrjaði ég á facebook. Kaupmenn, eru þeir sáttir við þetta? Neeeiiiiiii……..þeir vilja meira. Og meira. Aðeins þú getur stöðvað þá.
Heill hellingur af fólki hefur nú þegar kveikt á jólaseríunum. Auðvitað, ekki seinna vænna. Þegar þetta er borið undir viðkomandi koma ýmsar afsakanir, eins og til dæmis að veðrið hafi verið svo gott undanfarið að það hafi verið alveg tilvalið að setja upp jólaseríurnar. Ég kaupi alveg þau rök. En var nauðsynlegt að setja seríurnar í samband líka? Er ekki hægt að setja seríurnar í samband í desember þó komið sé frost og snjór? Er það ekki nóg fyrir þetta seríuglaða fólk? Neeeeeiiiiiii.
Fyrsti jólasveinninn kom til byggða í byrjun þessa mánaðar og mætti auðvitað í IKEA, enda var honum tjáð að jólin byrjuðu þar. Raunar væri það fyrsti vísirinn að jólunum þegar kveikt væri í jólageitinni. Sem kveikti reyndar í sér sjálf að þessu sinni. Jólasveinarnir eru nú þegar orðnir hundleiðir á því að þurfa að húka við búðargluggana og bíða þar eftir því að geta farið að syngja jólalög, dansa í kringum jólatréð og gefa í skóinn. Sem gerist einmitt alveg rétt ekki á morgun, ekki hinn og ekki hinn heldur eftir þrjár vikur. Frábært. Var það þetta sem þið vilduð? Var ekki nóg að fá jólasveinana til byggða í desember? Neeeeeiiiiiiii.
Er ég ekki að taka þessu heldur illa? Ætti ég ekki að hleypa skammdeginu og drunganum úr hjarta mínu og bjóða þangað inn birtunni og ylnum sem fylgir ætíð undirbúningi jólanna? Er þetta ekki spurning um að róa sig aðeins og sætta sig við orðinn hlut? Neeeeeiiiiiiiiiiii.
Tíminn líður á ógnarhraða og áður en við vitum af verður aðventan byrjuð. Þá hljómar þessi bloggfærsla eflaust mjög illa. En er mér sama? Jáááááááááá.
Í hátíðarskap ég kemst í dag
þvert gegn vilja, því er ver
húsið er nú með helgum brag
fullskreytt um miðjan nóvember.
Hvað skyldi forseti vor, Jólafur Ragnar Grímsson, hafa um þetta að segja? Réttast væri fyrir hann að neita því að staðfesta jólalögin sem lög frá Alþingi og senda allt heila klabbið í þjóðaratkvæði. Hvernig myndi ég kjósa? Neeeeiiiii.
Einar óhemju neeeiiiikvæður.
Tilvitnun dagsins:
Homer: Shut up, Flanders!
Ned Flanders: Okily-dokily!
Ég held að ég geti ekki stöðvað þetta því miður Einar.