Orðin h(r)austleg

Góðu lesendur.

Það er langt síðan síðast en samt ekkert svo. Lesenda mikill er skellur. Þyrst er hún Þórhalla, drekkur tvo. Snjórinn á kollhúfur fellur.

Vá, verður öll þessi bloggfærsla í bundnu máli? Nei því miður ekki, ég átti ekki nóg band. Ég útiloka samt ekki að hluti þessarar bloggfærslu verði í undnu máli.

Þeir sem mig þekkja vita það að ég er með eindæmum heimakær. Heimskur er heimakær og allt það. Ég tek það til mín. Helst fer ég ekki út fyrir Norðurlandsfjórðung nema brýna nauðsyn beri til. Það kann því að hljóma svolítið ólíkt mér að ætla að skreppa til höfuðborgar Danmerkur í nokkra daga í nóvember næstkomandi. Ég er meira að segja búinn að panta flugfar hjá hinu gamalgróna og trausta flugfélagi Icelandair til og frá Kaupmannahöfn. Um leið og hlutabréfamarkaðurinn komst að þessum fyrirætlunum mínum hríðféllu hlutabréf í Icelandair um 24%, félagið sendi frá sér aðkomuviðvörun og forstjórinn sagði af sér. Fyrr má nú vera. Vonandi verður ekki um brotlendingu að ræða, þá er ég bæði að tala um í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Það mætti ætla sem svo að allt fari lóðbeint á hliðina ef ég ætla svo mikið sem skreppa til Kaupmannahafnar. Allt á þetta eftir að koma í ljós. Lexían er auðvitað sú að vera bara heima hjá sér…eða heima hjá mér hér eftir sem hingað til en það hefur verið mín bjargfasta sannfæring. Kannski tek ég sönsum og kyrru fyrir held. Systir mín í Köben bíður bróður. Kýrin mín er kálflaus og stendur heima geld. Starra og Þresti gaf ég fuglafóður. Hmm, undna málið byrjað aftur ha?

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu virðist ætla að fylla Laugardalsvöll næsta laugardag þegar stelpurnar okkar mæta Þýskalandi í hreinum úrslitaleik um sæti á næsta heimsmeistaramóti í knattspyrnu. Kvennalandsliðinu hefur aldrei áður tekist að fylla Laugardalsvöll og þetta þykir því tíðindum sæta. Hvernig fyllir maður Laugardalsvöll? Með nóg af áfengi auðvitað he he 🙂
Bara grín. Maður fyllir hann með því að ákalla þjóðina, biðla til knattspyrnuáhugafólks og með því að koma almenningi í skilning um að konur séu líka menn og konuboltaspark sé alveg jafn merkilegt og karlaboltaspark. Þessi umfjöllun missti pínulítið marks vegna rangstöðu og biðst ég velvirðingar á því. Konur sprækar keppast við, að koma fólki völlinn á. Séra Albert altarið, auglýsir á risaskjá. Heyrðu mig nú, þetta versnar bara ef eitthvað er!

Um liðna helgi fór Akureyrarvaka fram aftur og enn á ný. Fram og aftur. Akureyringum gafst þar meðal annars kostur á að skoða nýja rándýra listasafnið sitt í Listagilinu og einhverjir misstu listina við það. Eða lystina. Utanbæjarmaðurinn ég var staddur á svæðinu og brá mér því á listasafnið, enda þekktur menningarviti. Ég ber ágætt skynbragð á nútímalist en er þó býsna veikur fyrir expressíonisma og póst módernisma ef út í það er farið. Svo má nú ekki gleyma óhlutbundnu listinni, öðru nafni abstrakt. Mitt uppáhald er þó auðvitað gjörningalist með innsetningu. Innsetning er raunar mitt uppáhald og þá er ég ekki bara að tala um list. Förum þó ekki nánar út í það, gæti bara misskilist. Misski-list er einmitt ein af mínum uppáhalds listum líka. Verkið hangir voða flott, á vegg í stóru rými. Lárus elskar eyrnaþvott, við endarím ég glími. Æi Einar gerðu það hættu þessu…

Líður nú senn að göngum og réttum víðs vegar um land og er Svarfaðardalur þar ekki undanskilinn. Nú er um það bil vika í að gangnamenn leggi á fjöll og firnindi og leitist við að ná heim þeim kindum sem það vilja. Þær sem ekki vilja koma heim verða þá bara að eiga það við sína samvisku. Gangnahelgin í Svarfaðardal á sér æði marga hápunkta og einn þeirra er óumdeilanlega hið alræmda og víðfræga gangnaball í samkomuhúsinu Höfða að kveldi sunnudags. Velunnarar Höfðans standa fyrir ballinu hér eftir sem hingað til og fara þar eftir áratuga gamallri uppskrift. Þetta þarf svo sem ekki að vera flókið. Miðasöluskúr leikinn af Toyota Hilux á Hóli, siðgæðisvörður í sjoppu leikinn af Einari Haf og vinum, dyraverðir leiknir af Sissa og Bergi Höskulds, tónlist leikin af Stulla og Danna og lesendur illa leiknir eftir þennan lestur. Eða ólestur. Sem sagt, allt eins og það á að vera. Það styttist. Má ég heyra, GAMAN!! Engar hef ég eigin kindur til að elta þessar göngurnar en ég er líka alvanur því að eltast við annarra manna fé (að vísu með misgóðum árangri) og geri þar af leiðandi bara gott úr þessu öllu saman. Upp á fjöll og inn til dala, eftir fénu hleyp við fót. Þorbjörn bóndi bjó á Hala, biksvartur er Raggi sót. Guð minn góður.

Síðsumarið er tími ástarinnar og þar af leiðandi tími giftinga. Nú eru til dæmis allir mættir til Ítalíu í brúðkaup Friðriks Dórs og Lísu. Hvernig er skilgreiningin á „allir“? „Allir“ sem fengu boð þegar H&M opnaði á Íslandi? „Allir“ sem fá borgað fyrir að vera á samfélagsmiðlum? „Allir“ sem vettlingi geta valdið? Já ég er pínu sár yfir þessu öllu saman. Þetta er enn ein sönnun þess að aðrir lífstílsbloggarar viðurkenna ekki minn lífstíl sem bloggari og er ég þess vegna útskúfaður úr þessu glamúr samfélagi. Allt í lagi mín vegna, ég held þá bara áfram að vera bitur og kaldhæðinn einn úti í horni. Ekkert (b)undið mál hér? Nei er ekki mál að linni…hérna inni.

Margt er í málinu bundið
misskilið, snúið og undið
set ég upp stút
bind hárið í hnút
fjölina mína hef fundið.

Til stóð að fjalla mun meira um göngur og gangnahelgina í þessari bloggfærslu en þar sem ég var búinn að fylla gangnamagnspakkann og gangnaverið var lokað gat því miður ekki orðið af því. Það gengur bara betur næst. Eða gengst.

Einar senn genginn.

Tilvitnun dagsins:
Allir: GAAAAAAMAAAAAANNNNNN!!!!!!!

One thought on “Orðin h(r)austleg”

  1. Góða skemmtun um helgina. Fínt að þú sért að fara í sumarfrí, þarft væntanlega nokkra daga til að jafna þig 🙂

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *