Góðu lesendur.
Hvað hét hundur karls sem í koti bjó? Hver ekur eins og ljón með aðra hönd á stýri? Hver stal kökunni úr krúsinni í gær? Hver skaut J.R? Hvar er sakleysið, ég spyr því varstu ekki kyrr? Hvar hafa dagar lífs okkar lit sínum glatað? Hver er Geysir í Haukadal? Svarið við öllum þessum spurningum er eitt og hið sama; bloggsíða Einars Haf. Nei allt í lagi, það er ekki rétt. Það mátti reyna samt.
Nú stefnir allt í það að íslenskan, þetta viðkvæma og íðilfagra örtungumál, verði þeim frændsystkinum Google og Siri að bráð og deyi drottni sínum á stafrænan og dramatískan hátt. Þetta er auðvitað harmgrætilegt en hverjum er svo sem um að kenna öðrum en okkur sjálfum? Okkur, þessum enskusinnuðu snjalltækjasauðum sem lepja allt upp eftir þeim þarna í útlöndunum og láta valta yfir sig með alls konar erlendum óæskilegum áhrifum. Blettirnir á tungu okkar eru svartir og þeir eru margir. Ungabörn eru alin upp við þá kumpána æpad og jútjúb og þar er allt efni auðvitað á ensku. Væri ekki nær að láta börnin skoða Markaskránna, Strumpana á myndbandsspólum eða bloggsíðu Einars Haf? Það er þægilegt að fljóta sofandi að feigðarósi á meðan á því stendur. Þegar í feigðarósinn er komið er veruleikinn hins vegar annar.
Fram á þennan dag hefur íslenskum ungmennum verið kennd danska í skólum þessa lands. Ég var þar engin undantekning. Þetta var ekki skemmtilegasta fagið sem maður fór í en engu að síður lét maður sig hafa það. Maður yrði jú að kunna tungumál gömlu herraþjóðarinnar ef svo færi að Íslendingar þyrftu að skila lýðveldinu aftur til baka vegna óþægðar og slæmrar hegðunar og gerast á ný þegnar dönsku krúnunnar. Með þetta bak við eyrað lagði maður mikið á sig til að læra dönsku og þóttist ég hafa náð ágætis tökum á henni að náminu loknu. Síðan skólagöngunni lauk hefur dönskukunnáttan rykfallið uppi í hillu. Það var ekki fyrr en ég eignaðist danskan mág sem ég þurfti að dusta rykið af þessari gleymdu mállýsku en ég reyni þó að stilla því algjörlega í hóf. Ég er ekki vanur að úttala mig á íslensku, hvað þá á dönsku eða öðrum tungumálum. Þetta leiddi þó hugann að því hvort margra ára dönskunám í grunn- og framhaldsskóla væri lítið annað en óþarfa pláss á harða disknum í heilabúinu? Nú tala allir ensku. Á þingi Norðurlanda er töluð enska. Þegar Íslendingurinn Ragnhildur Steinunn tók viðtal við dönsku söngkonuna Emily De Forrest var talað á ensku. Danir tala ensku þegar þeir vilja vera svalir. Ef þeir nenna ekki sjálfir að tala dönsku, af hverju ættum við Íslendingar þá að gera það? Hugsið aðeins um þetta, ég ætla að fá mér eitt danskt smörrebröd á meðan. Tja…kannski fæ ég mér bara enska skonsu og te.
Var haldið samræmt próf í dönsku? Nei það hefur örugglega klúðrast. Alveg eins og samræmdu prófin í íslensku og ensku. Það er ekki nema von að menntun ungmenna hér á landi sé eins og hún er þegar við ráðum ekki einu sinni við það að leggja fyrir próf án þess að klúðra því. Sérfræðiteymi í menntamálaráðuneytinu reynir nú að leysa prófin en þau eru greinilega alveg svínþung og erfið. Hvað er það sem nemendur, kennarar, foreldrar og ráðamenn vilja? Þeir vilja svör. Já auðvitað vilja þeir svör. Ég vildi líka fá svör þegar ég var í samræmdu prófunum. Maður fær bara ekki allt sem maður vill, því miður.
Um helgina hef ég setið námskeið í skapandi skrifum í Dalvíkurskóla. Þessum fregnum hljóta lesendur bloggsíðunnar að taka fegins hendi enda hef ég almennt ekki verið talinn sá mest skapandi í bransanum hingað til. Námskeiðið var mjög skemmtilegt og áhugavert. Ég komst að því að þegar maður er settur niður fyrir framan autt blað og tekur penna í hönd er ekkert að óttast. Nema auðvitað ef vera skyldi fyrir mögulega lesendur.
Þegar Finnbogi settist niður á bekkinn í miðbæjargarðinum fór hann að hugsa um lífið í sínu víðasta samhengi. Allt var orðið breytt eftir að hann varð á ný einn í heimili. Trén sem áður voru skrýdd grænum fötum stóðu nú ber og kuldaleg. Laufin fuku hjá í norðangolunni. Hvert lauf hafði eflaust einhverja merkilega sögu að segja. Einu sinni var ég á þessari grænu grein en svo visnaði ég og féll til jarðar án þess að fá rönd við reist. Hversu grimmt getur lífið verið? Vonandi hugsa ekki öll laufblöðin svona. Hróp krakkanna við vegasaltið og rólurnar voru þögnuð eftir sumarið. Nú stóðu leiktækin auð og biðu næsta sólskinsdags. Hvenær skyldi hann koma? Sólin gerir allt betra. Það segir sig sjálft. Hún Sigurborg mín bakaði svo ljúffengar sólarlummur. Það var góður og gamall siður þegar skammdegið vék fyrir birtunni. Sælusvipur færðist yfir andlit Finnboga þar sem hann lét hugann reika. Sólargangurinn var vissulega mun lengri eftir að þau Sigurborg fluttu til höfuðborgarinnar, þar sem sólin gekk varla undir nokkru sinni. Það var annað en heima í Hnífsdal. Þó sólargangurinn væri lengri í höfuðborginni var samt miklu minni tími fyrir alla hluti. Þetta eilífa tímaleysi. Finnbogi tók um munninn og hóstaði. Svifrykið var eflaust yfir heilsuverndarmörkum þennan daginn, samt var að bæta í vindinn. Þegar mennirnir verða búnir að tortíma umhverfi sínu og náttúrunni með sóðaskap tortíma þeir sjálfum sér í beinu framhaldi. Þegar menn grafa sína eigin gröf byrjar það yfirleitt alltaf á einni lítilli holu. Fyrsta skóflustungan. Svo smám saman stækkar holan og gröfin dýpkar. Finnbogi setti upp barðahattinn og sveiflaði treflinum um háls sér. Kominn tími til að halda göngunni um garðinn áfram. Einn.
Var þetta nógu skapandi fyrir ykkur? Nei? Jæja, ég verð þá bara að halda áfram að fara á svona námskeið og æfa mig.
Samgönguráðherra hefur nú boðað til stórátaks í vegamálum. Gaman gaman. Hvað skyldi verða gert við hinn forna malarveg fram í Svarfaðardal og Skíðadal? Vonandi verður hann varðveittur í upprunalegri mynd með öllum helstu holunum. Og ekki mokaður of oft, það gæti rispað stórgrýtið. Hvað kallast saltið sem Vegagerðin blandar saman við drulluna og vatnið þegar vegurinn er rykbundinn á vorin og haustin? Nú vegasalt auðvitað.
Kvalinn af stressi og svima ég er
sveittur og þvalur í lófunum.
Erfitt ég á með að einbeita mér,
tölvan er frosin og heilinn er smjér
ég flaskað’á samræmdu prófunum.
Þess má til gamans geta að Einar Hafrannsóknarstofnun hefur tilkynnt skyndilokun á þessari bloggsíðu. Vinsamlegast hafið samband við vaktstöð siglinga.
Einar skapandi.
Tilvitnun dagsins:
Allir: SVIFRYK!!!
Hvernig er best að hafa samband við vaktstöð siglinga?
Í gegnum einarhaf.is?
Sæll. Já það er ágætis leið. Þeir lesa þessa síðu og ættu því að sjá skilaboðin sem skilin eru eftir hér.