Mysulegu lesendur.
Árið er 2018 og enn er Einar í sömu sporum og áður. Kvenmanslaus í kulda og trekki blogga ég volandi, þetta er ekki ekki ekki ekki þolandi. Og svo framvegis. Auðvitað get ég eingöngu sjálfum mér um kennt en geri ég það? Nei auðvitað ekki, það eru lesendur sem taka skellinn alveg eins og árið 2017, 2016, 2015 og mörg mörg ár þar á undan. Raunar hefur Einar verið á veraldarvefnum frá því fyrir hrun hvort sem lesendur trúa því eða ekki. Ævinlega hafa raunir mínar bitnað á lesendum og skapraunað þeim og ég sé enga ástæðu til að breyta út af vananum hvað það varðar.
Fjölmargir strengdu og sprengdu áramótaheit nú um áramótin. Mitt áramótaheit gekk út á að vera alltaf geðveikt hress árið 2018 og enn sem komið er hefur það gengið eftir. Nema kannski í innganginum hérna áðan en það er túlkunaratriði. Margir sóru að taka á því árið 2018 og gera bumbuna burtræka. Þetta leiðir til þess að líkamsræktarstöðvar yfirfyllast á þessum árstíma og þeir sem ekki karba þeir bölka. Ekki veit ég hvað það þýðir enda er ég yfirleitt of upptekinn af því að flexa pexana framan við speglana á milli þess sem ég refsa lóðunum og slátra svo nokkrum Noccoum á eftir. Strengdi ég þess heit að verða svalari árið 2018 heldur en árið 2017? Já hvernig vissuð þið? Það heit er að vísu löngu slitið og sprungið líka.
Nú fyrir skemmstu var höfuðborgarbúum ráðið frá því að drekka vatn beint úr krananum þar sem heilbrigðiseftirlitið hefði fundið nokkra sauðmeinlausa jarðvegsgerla sem voru að svala sér í einhverju vatnsbólinu. Þessir jarðvegsgerlar eru auðvitað alveg sára saklausir en einhverjir þvermóðskulegir rúðustrikaðir gerlahatarar hjá hinu opinbera kröfðust þess að fólk skyldi sjóða vatnið áður en það yrði drukkið. Ekki langar mig að drekka sjóðandi vatn, mér finnst raunar enn frekari ástæða til þess að drekka vatnið heldur en áður enda eru svona jarðvegsgerlar alveg meinhollir. Ég get að vísu skilið það að þeir sem eru vegan þurfi að sjóða vatnið fyrst eða kaupa sér vatn einhvers staðar út í búð, varla samræmist það vegan lífstíl að svolgra í sig mörg þúsund lifandi gerlum úr dýraríkinu bara svona eins og að drekka vatn…..eða þið skiljið.
Nú styttist í að þorrinn gangi í garð. Þessi harðneskjulegi forni mánuður sem Íslendingar hafa þurft að þreyja gegnum árhundruðin slafrandi í sig súru slátri, rengi, magál og drekkandi mysu með. Nú er hann enn á norðan, næðir kuldaél. Mér er ekki um sel. Bótin í málinu er þó sú að maður kemst á þorrablót ef að líkum lætur. Þar verður þétt setinn Svarfaðardalur og glatt á hjalla nema auðvitað að bloggaranum Einari Haf takist að lauma sér inn á dagskrá kvöldsins. Og er það í kortunum? Múhaha. Það er algjört trúnaðarmál og geðveikt mikið leyndó í ofanálag.
Nýverið kynnti samgönguráðherra hvaða vegir hér á landi fengju aukna vetrarþjónustu. Fyrsti vegurinn sem talinn var upp í fréttinni um málið og vann þar með vegabingóið var auðvitað Svarfaðardalsvegur sem kom 0% á óvart. Sá böggull fylgir þó skammrifi fyrir Svarfdælinga að þessi aukna þjónusta nær aðeins til vesturkjálkans þar sem mokað verður fram að Skíðadalsafleggjara og snúið við þar á punktinum, hægri akreinin verður mokuð annan daginn og vinstri akreinin hinn. Austurkjálkinn og framdalirnir halda sínu núverandi mokstursfyrirkomulagi og sitja á hakanum. Eða skóflunni. Þessi ráðstöfun Vegagerðarinnar er svo sem skiljanleg enda yfirleitt mun meiri ófærð á veginum þegar kemur fram fyrir Skíðadalsafleggjarann svo ég tali nú ekki um Skíðadalinn sjálfan og þar af leiðandi leiðinlegra og tímafrekara að moka þessa kafla. Þetta góðverk samgönguráðherra er því byrjað að snúast upp í andhverfu sína þar sem þessi ákvörðun mismunar íbúum á svæðinu og veldur þar af leiðandi gremju og pirringi hjá einhverjum. Þetta hefur ekki teljandi áhrif á mig ennþá þar sem Subaru Impreza Sedan árg. 2003 er í raun snjómoksturstæki í dulargervi fólksbíls og kemst þar af leiðandi býsna langt áður en allt pikkfestist.
Handboltastrákarnir okkar tryggðu þjóðinni mörg hundruð króna afslátt af eldsneyti í vikunni. Og hverjar eru þakkirnar? Bara skítur og skömm. Fólk ætti auðvitað bara að skammast sín. Hverjir verða svo Evrópumeistarar? Vinnur Ahmed? Emelía? Eða þú? Potturinn stefnir í 5,4 milljarða. Júró djakkpott, Evrópukeppnin í heppni….ekki handbolta.
Þorra þreyjum hnípin smá
þvalur svitinn perlar
harðnar vetur, visna strá
í vatni jarðvegsgerlar.
Þess má til gamans geta að þeir sem ganga sér til húðar eiga það á hættu að verða mjög hörundsárir.
Einar jafn svalur og í fyrra.
Tilvitnun dagsins:
Allir: GERLAR!!!
Góð byrjun á árinu hjá þér.
Tær SNILLD?
Þakka ykkur fyrir hlý orð ?