Orðin í meiri minnihluta

Jólaföstulegu lesendur.

Ég kemst í jólafíling. Já, algjöran jólafíling. Nú styttist í hátíð ljóss og friðar og þá er kannski best að birta eins og eina bloggfærslu. Það er langt síðan síðast en það hefur einfaldlega ekkert bitastætt gerst þannig að það hefur ekki verið nein ástæða til að birta bloggfærslu. Athugasemdirnar eru vissulega gríðarlega margar og eftirspurnin frá meintum lesendum er stöðug en þetta verður bara að hafa sinn gang. Þess má til gamans geta að lífstílsbloggarar landsins hafa birt 2.754 færslur síðan ég bloggaði síðast og allir hafa þeir verið að gera mjög góða hluti bæði fjárhagslega og í einkalífinu enda velja þeir réttu vörumerkin og taka réttar ákvarðanir í boði réttra fyrirtækja. Ekkert af þessu á við um mig enda hef ég stundum verið kallaður maður hinna röngu ákvarðana.

Nú sprettur hver kvenfylkingin upp af fætur annarri og lýsir áratuga löngum þjáningum, ánauð, kynferðislegri áreitni, ofbeldi, þukli, kukli og alls konar persónulegum hörmungum sem viðkomandi hafa gengið í gegnum vegna ofríkis karlapunga og svartra sauða sem hafa í krafti valds síns og stöðu gengið fram á svívirðilegan hátt. Tónlistarkonur, leikkonur, vísindakonur, réttarvörslukerfiskonur (já það er orð), stjórnmálakonur og alls konar aðrar konur hafa risið upp og lýst hryllingnum og það virðist raunar alveg sama á hvaða kima þjóðlífsins er litið, alls staðar er sömu söguna að segja. Alveg dæmigært. Alltaf eru það minnihlutahóparnir sem þurfa að þola ofbeldi og kúgun af hálfu meirihlutans. Reyndar er það varla minnihluti lengur þegar svona margir hafa þurft að upplifa þessar þjáningar. Meirihluti minnihlutans hefur þjáðst. Þeir sem ekki hafa lent í neinu svona skelfilegu og hryllilegu eru þar af leiðandi í minni minnihluta, meiri minnihluti hefur orðið fyrir barðinu á minni meirihluta. Og þá eru allir komnir í minnihluta og þar af leiðandi er málið allt komið út um þúfur.

Í kjölfarið á þessari holskeflu frásagna af kynferðislegri áreitni og ofbeldi undir myllumerkinu #metoo fylgir svo holskefla afsakana og játninga af ýmsu tagi þar sem allir þeir sem einhvern tímann hafa gert eitthvað á hlut einhvers rita opinbera afsökunarbeiðni og birta á samfélagsmiðlum, í dagblöðum, á skeinipappírum, í strætóskýlum og á lífstílsbloggum og fá þúsundir læka fyrir vikið. Bölvuð svínin. Tökum dæmi. Gilzenegger biðst afsökunar á að hafa lagt það til opinberlega fyrir tíu árum að það þyrfti að tittlinga einhverja nafngreinda konu. Tittlingaskítur. Mótmælendur biðjast afsökunar á því að hafa mótmælt úr hófi fram við heimili nafngreindra einstaklinga og vegið þar með að einkalífi viðkomandi. Eða ekki. Einar Haf biðst afsökunar á að hafa skrifað pistla og birt opinberlega á netinu í rúm 11 ár. Einar Haf biðst afsökunar á að hafa komið við Sögu. Og ég komst við. Eins og það sé bara nóg að segja fyrirgefið og afsakið og málið þar með dautt? Einhverjir þurfa að axla ábyrgð. Jesús Kristur tók á sig syndir heimsins með dramatískum hætti, spurning hvað eigi að gera í þeirri stöðu sem nú er komin upp? Ég held því miður að engum sé lengur við bjargandi, ekki einu sinni Ragnari.

Já og ég biðst afsökunar á því hversu illa ígrunduð þessi síðasta efnisgrein var. Eflaust kom það við kauninn á einhverjum en afsökunarbeiðnir eru í tísku núna og ég hef því engu að kvíða.

Hverjir eru það raunverulega sem bera ábyrgð á því hvernig þjóðfélagið er í dag? Nú það eru auðvitað hinir svokölluðu áhrifavaldar. Þessir áhrifavaldar hafa eins og nafnið gefur til kynna áhrif á flestar gjörðir fólks í dag. Fólk gónir á símana sína og á spjaldtölvurnar og þar blasa við þessir áhrifavaldar sem stjórna svo öllu sem fram fer. Það er ákveðinn skellur fyrir mig persónulega að ég þekki engan þessara áhrifavalda, raunar efast ég um að ég hafi séð þetta fólk áður, og ég hef því ekki gert mér grein fyrir áhrifum þessa fólks fyrr en nú. Ég þarf heldur betur að fara að hugsa minn gang en það eru reyndar engar fréttir fyrir lesendur þessarar bloggsíðu.

Nú er búið að mynda splunkunýja og þverpólitíska ríkisstjórn sem nær frá vinstri til hægri með viðkomu á miðjunni. Stuðla á að auknu samráði og jafnvel samræði, setja brýn mál á oddinn og fá sér á broddinn og þá verður allt hér í alls herjar lukku og fýlan lokuð ofan í krukku. Stendur þetta í stjórnarsáttmálanum? Nei reyndar ekki en þetta stendur örugglega í lesendum.

Hvað með tölvutæknina og íslenska tungu?

Sjítin seifast fælum í
sofna tölvubörnin.
Öppin lódast látlaust því
leið er vírusvörnin.

Já þú meinar. Jæja skítt með það. Nú eru aðeins örfáir dagar í að Stekkjastaur komi til byggða, fyrstur jólasveinanna þrettán. Þeir koma af fjöllum eins og fleiri en þeir geta nú ekkert að því gert blessaðir, annað en sumir. Gert er ráð fyrir góðu skógjafaári enda er góðæri í landinu, hagvöxtur talsverður og verðbólga í lágmarki. Aðstæður til skjógjafa eru því eins og best verður á kosið. Eina breytan sem gæti haft áhrif er hegðun barnanna. Ofdekraðir snjallsímasjúkir krakkagríslingar í sykurvímu fá varla mikið meira en kartöflu í skóinn eða hvað? Persónulega vonast ég til að fá innlegg í skóinn svo það verði þægilegra að ganga í honum.

Fyrr var oft í koti kátt
konur flestar hafa hátt
engin þeirra þagnar
karlar leika konur grátt
kyngerving nær engri átt
ekki vera Ragnar.

Þess má til gamans geta að þrír af hverjum fjórum tannlæknum mæla með Extra tyggjói en aðeins einn af hverjum tvöhundruð þjóðarleiðtogum mæla með Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels.

Einar konur stíga fram.

Tilvitnun dagsins:
Allir: MÍ TÚ!

2 thoughts on “Orðin í meiri minnihluta”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *