Orðin afar tæp

Stjórnarmyndunarlegu lesendur.

Nú ríður á að hefja umræðuna upp á hærra plan og láta ekki persónulegan ágreining og skítkast koma í veg fyrir að sett verði saman bloggfærsla. Eða ríkisstjórn. Eða IKEA innrétting. Eða eitthvað annað sem þarf að setja saman.

Tæpur meirihluti eða ekki tæpur meirihluti. Tæp þjóðin eða ekki tæp þjóðin. Jú ar nott mæ tæp. Enn og aftur virðist sem svo að stjórnarmyndunarviðræður sigli í strand vegna þess að ekki næst samstaða um hver eigi að flytja þjóðinni áramótaávarp í beinni sjónvarps- og útvarpsútsendingu á Gamlárskvöld. Síðast sá spaugarinn Sigurður Ingi um það, Sigmundur Davíð flutti gamanmál árið þar áður og Jóhanna Sigurðardóttir hræddi líftóruna úr yngstu kynslóðinni árið þar áður. Lengi hefur Bjarni Ben. haft augastað á því að fá að flytja þjóðinni þetta ávarp, vatnsgreiddur og óaðfinnanlegur í tauinu, á besta sjónvarpstíma kl. 20:00 á Gamlárskvöldi. Oft hefur hann verið nálægt því að lauma rassinum í forsætisráðherrastólinn á réttum tíma og nú er enn og aftur kjörið tækifæri fyrir Bjarna að ná embættinu í tæka tíð fyrir áramótaávarpið. Spurningin er bara sú hverju af baráttumálum flokksins hann er tilbúinn að fórna til að hljóta brautargengi í forsætisráðherraembættið. Ekkert af þessu skiptir þó neinu máli enda vita það allir að áramótaávarp bloggsíðu Einars Haf, eina áramótaávarpið sem eitthvað er varið í, mun verða með jafnvel enn breiðari skírskotun en áður, jafnvel enn loðnara orðalagi og enn duldari skilaboðum en tíðkast hefur hingað til. Ávarpið verður sem fyrr textað á síðu 888 í textavarpi en engu að síður munu þeir sem fylgjast með ávarpinu þurfa að lesa milli línanna með sterku gleraugunum sínum til að átta sig á því hvað raunverulega er þar á ferðinni.

Móðir mín hefur vanið sig á það gegnum áratugina að byrja að reykja á haustin. Einhverjir kynnu að halda að þetta væri eitthvað til að hafa áhyggjur af en svo er þó alls ekki. Hvers vegna? Jú vegna þess að reykingarnar fara fram í sérstökum reykingakofa og þar fær einmitt jólahangikjetið ásamt öðru gúmmelaði að hanga og reykjast í tiltölulega miklum friði. Þrátt fyrir að um áratuga gamla hefð sé að ræða reynir reykingafólk eins og hún mamma að tolla í tískunni. Nú í haust höfum við einmitt verið að gera tilraunir í þá áttina að veipa kjötið í stað þess að reykja það þar sem það hefur oft og ítrekað komið fram í fjölmiðlum og lífstílsbloggum að reykingar séu algjörlega barn síns tíma og geðveikt hallærislegar og að það þyki miklu meira móðins í dag að veipa. Hvort kjötið sé ætt eða ekki eftir þessar meðfarir á eftir að koma í ljós.

Gríðarlegur vandi steðjar nú að sauðfjárbændum og hefur raunar steðjað að alveg síðan ég man bara ekki hvenær. Afurðaverð hefur hríðlækkað og bændur lepja dauðann ómengaðan beint úr skel. Það sem helst hefur haldið lífinu í sauðfjárbændum til þessa eru áramótahugvekjur Einars Haf þar sem það er hamrað á því leynt og ljóst hversu frábær og lífsnauðsynleg sauðkindin er – og arðbær. Það er ekkert plat. Stóra grínið felst í því að það hafa alltof fáir fattað þetta. Afurðastöðvar, kaupmenn og neytendur hafa ekki áttað sig á þessu til fulls. Þykist þú nú hafa vit á þessum málum Einar? Spyr einhver. Nei auðvitað ekki, ég fylltist bara eldmóð þegar ég hlustaði á Kind of Magic með Queen áðan. Svo má bæta við að það var verið að rýja kindurnar hér á Urðum fyrr í dag og tók ég þátt í því. Einhver þurfti jú að draga féð til Hjálmars rúningsmanns og „hjálpa því“ að setjast á rassinn – því ólíkt því þegar almennir borgarar fara í klippingu neitar féð staðfastlega að fá sér sæti þegar klipparinn segir. Féð var auðvitað rúið alveg inn að skinni áður en yfir lauk, ekki ólíkt sauðfjárbændunum sjálfum.

Síðan ég skrifaði vinsælasta pistil ársins 2014 á akureyri.net hefur leiðin vissulega legið niður á við – en það breytir því þó ekki að ég er enn brjálaður þegar nóvember er ellefu daga gamall og samt eru margir farnir á fulla ferð í jólagírnum. Þetta gengur bara ekki upp. Jólasveinarnir komu við í jólalandi Blómavals í Skútuvogi 21. október, samkvæmt því sem ég heyrði í útvarpinu. Sénsinn. Þetta hafa pottþétt verið gervijólasveinar. Alvöru jólasveinn með snefil af sjálfsvirðingu hefði aldrei látið sjá sig í mannabyggðum á þessum árstíma. Jólaklementínurnar og jólaeplin eru komin, segir útvarpið líka. Tæplega. Ef ég kaupi epli út í búð núna og ét það telst það varla jólaepli er það. Bara venjulegt nóvemberepli. Kokkurinn í IKEA auglýsir stíft að jólasmákökur og jólamatur séu nú á boðstólnum og ekki seinna vænna. Hann má troða þessum nóvemberjólamat sínum lóðbeint upp í rassgatið á IKEA geitinni. Lyktin verður þá kannski eitthvað skárri þegar hún brennur í þetta skiptið.

Jólasveinar ganga um gólf
gríðarlega snemma
Allir saman einn og tólf
ef til vill með tremma.

Þess má til gamans geta að bloggsíða Einars Haf mun ekki bjóða upp á jólatónleika fyrir komandi jól vegna fjölda áskorana.

Einar tæpur og torræður.

Tilvitnun dagsins:
Allir: Jóla hvað?

One thought on “Orðin afar tæp”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *