Trúnaðarbrostnu lesendur.
Þá er rétt að halda út á jarðsprengjuakurinn og vona það besta. Auðvitað endar þetta alltaf með því að allt springur í loft upp, það segir sig sjálft. Þannig hefur það líka alltaf verið hér á landi, hvernig svo sem jarðsprengjuakurinn er. Mér, Einari Haf, er auðvitað alveg slétt sama því hverju munar það svo sem að bæta gráu ofan á svart þegar allt er á leiðinni til andskotans hvort eð er. Áframhaldandi upplífgandi varnaðarorð og heilræði hér að loknum þessum inngangi.
Hvar hefur bloggarinn Einar Haf eiginlega verið síðasta mánuðinn? Jú ég var upptekinn við að sprengja ríkisstjórnina, egna saman Donald Trump og Kim Yong-un, ala á ótta fólks við útlendinga, dæla plasti í sjóinn, kaupa hlut í United Silicon og millifæra peninga á aflandsreikninga. Ég er hins vegar búinn að sjá að mér og ætla nú að snúa frá villu míns vegar. Hvernig þá? Nú með því að byrja að blogga aftur. Þetta fór jú allt í rugl vegna þess að ég hætti því og hlýtur því að lagast ef ég tek til við ritstörf á nýjan leik.
Nú um liðna helgi fór fram hið árlega stóðréttarball á Rimum í Svarfaðardal. Ýmislegt hafði átt sér stað á bak við tjöldin í aðdraganda ballsins sem er skrítið sé horft til þess að það hafa engin tjöld verið á tjaldsvæðinu við Rima síðan í byrjun september. Til að gera langa sögu stutta var ballið haldið á Rimum en lengi hafði litið út fyrir að svo yrði ekki þar sem ekki náðist samkomulag um sanngjarnt leiguverð við nýjan rekstraraðila félagsheimilisins. Málið fékk farsæla lendingu, eða svona eins og hægt var og því gat ég ásamt fleirum farið í flottan jakka tvít tvít og verið með alls kyns gleðilæti við trylltan undirleik Stulla og Danna. Af hverju er ég að minnast á þetta? Jú bara svo ég geti einu sinni enn sagt frá stóðréttinni sem stóð yfir frá hádegi og fram eftir degi og var jú ástæða þess að ballið var haldið. Stóðið stóð í réttinni meðan fólk drakk kaffi og stóð ég mig vel við það. Stóð réttarballið lengi? Já og það var mjög gaman meðan á því stóð. Stóðréttarballinu. Þess má til gamans geta að enginn hefur nokkurn tímann beðið um að taka einarhaf.is á leigu til að halda dansleik eða annars konar skemmtun enda hafa afar fáir efni á að greiða leiguna sem farið er fram á. Svo er lyktin heldur ekkert til að hrópa húrra fyrir og það dregur trúlega úr eftirspurninni sem annars væri.
Það er kunnara en frá þurfi að segja að íslenska karlalandsliðið í tuðrusparki er nú meðal bestu landsliða heims í þeirri íþrótt. Þetta sannaðist enn og aftur þegar liðið tryggði sér þátttökurétt á heimsmeistaramótinu sem fram fer í Rússlandi næsta sumar með 2-0 sigri á Kósóvó. Hvað heitir annars borgarstjórinn í Moskvu? Nú auðvitað Rúskí Karamba og aðstoðarmaður hans heitir Vladimir Stroganoff. Það er aukaatriði. Allt ætlaði um koll að keyra í fagnaðarlátunum og þjóðin er enn á ný gripin fótboltabrjálæði þökk sé strákunum okkar. Allt sumarfrí landsmanna næsta sumar mun riðlast vegna heimsmeistaramótsins, íslenska knattspyrnusumarið slitnar í sundur og þeir örfáu landsmenn sem ekki fylgja landsliðinu til Rússlands munu eiga í vök að verjast gegn ferðamönnum sem hingað flykkjast sem aldrei fyrr til að berja þetta stórfurðulega land augum – þar sem annar hver einstaklingur er annað hvort atvinnumaður í fótbolta, crossfit eða þátttakandi í fegurðarsamkeppni. Endar þetta svo allt með því að Ísland verður heimsmeistari? Já alltaf. Að minnsta kosti miðað við höfðatölu.
Ef það hefur farið framhjá einhverjum er allt í lagi að nefna það að eina ferðina enn stendur til að ganga til Alþingiskosninga án þess að svokallað hefðbundið fjögurra ára kjörtímabil sé liðið undir lok. Það er bara tæpt ár frá síðustu kosningum og sirka 10 mánuðir síðan ríkisstjórnin var mynduð. Það gekk svona ljómandi vel. Ákveðið var að splundra ríkisstjórninni vegna meints trúnaðarbrests og út af nýja uppáhalds hugtakinu mínu; leyndarhyggju. Sá flokkur sem splundraði stjórninni mun að líkindum þurrkast út eftir kosningar og þá virðist Viðreisn ekki eiga sér viðreisnarvon. Ýmislegt mun gerast á hinu pólitíska sviði næstu vikur og geta lesendur átt von á að verða komnir með æluna upp í kok áður en yfir lýkur. Ætlar bloggarinn Einar Haf ekki í framboð? Ja, ég get reyndar ekki neitað því að það hafa margir komið að máli við mig undanfarið (þar á meðal Margeir)og hvar sem ég kem finn ég mikinn meðbyr. Áður en ég tek ákvörðun þarf ég auðvitað að kanna mitt bakland, taka samtalið við þjóðina og ræða við fólkið í grasrótinni en það er vissulega einn margra kosta bloggarans Einars Haf að vera lausnamiðaður, geta unnið þvert á pólitískar línur hvort heldur til hægri eða vinstri og náð fram breiðri skírskotun sem svo sárlega hefur verið kallað eftir undanfarið. Já og svo langaði mig líka að nefna innviðauppbyggingu en hún gæti að vísu reynst mér og fleirum ofviða – ekki innviða.
Í framhaldi af þessu má nefna að þeir sem vilja skrifa undir meðmæli fyrir uppreista æru bloggarans Einars Haf geta skrifað athugasemd við þessa bloggfærslu. Athugasemdirnar verða síðan umorðaðar og í kjölfarið sendar dómsmálaráðuneytinu ásamt ítarlegum rökstuðningi fyrir því af hverju Einar Haf ætti yfir höfuð að fá að ganga laus þrátt fyrir sín yfirgengilegu pistlaskrif sem ná út fyrir allan þjófabálk. Það verður spennandi að sjá hvað kemur út úr þessu.
Kjósendur í klefa fara
klikkast einn og einn í skapi
svitadropa þurfa að spara
sest í valdastólinn api.
Samkvæmt nýjustu könnunum verða óákveðnir, auðir og ógildir í algjörri lykilstöðu til að mynda nýja ríkisstjórn eftir kosningar. Gaman gaman.
Einar á atkvæðaveiðum.
Tilvitnun dagsins:
Allir: LOFA LOFA!!
Þetta var alveg B O B A.