Góðu lesendur.
Ég var enn einu sinni búinn að ákveða (að höfðu samráði við hlustendaráð FM957, kjararáð, græna herinn og dómstól götunnar) að láta af störfum sem bloggari og pistlahöfundur en það kom svo í ljós að enn er gríðarleg eftirspurn eftir fræðandi skemmtiefni og skemmtilegu fræðsluefni á öldum ljósvakans. Og hver er betur til þess fallinn að reyna að bera slíkt á borð fyrir lesendur annar en Einar Okkar Hafliðason? Jú eflaust er alveg fullt af fólki sem er betur til þess fallið en Einar en fyrir þennan pening verður þetta bara að duga. Þess má til gamans geta að minnst 20 hlauparar í Reykjavíkurmaraþoninu á morgun munu hlaupa til styrktar því að bloggsíða Einars Haf verði lögð niður….en ég veit að það mun ekki duga þó svo að málefnið sé gott. Ég held þá bara áfram að hlaupa á mig á meðan.
Dónald Trömp Bandaríkjaforseti hefur ekki átt sjö dagana sæla. Það eru reyndar mun fleiri en sjö dagar sem hann hefur ekki átt sæla enda hefur hann farið með hvert málið á fætur öðru út um þúfur. Sífellt fleiri aðstoðarmenn, aðstoðar aðstoðarmenn, fulltrúar og nefndarmenn hrökklast úr starfi eða láta reka sig vegna þess sem forsetinn álpast til að klúðra í starfi. Mun forsetinn hrökklast úr starfi? Munu svín fljúga? Mun Einar hætta að skrifa einhverja þvælu? Einhvern veginn hef ég það á tilfinningunni að ekkert muni breytast.
Sérfræðingar, vísindamenn, minnihlutahópar og málfarsráðunautar hafa sífellt meiri áhyggjur af yfirvofandi alltumlykjandi stafrænum dauða íslenskunnar. Ef ekkert verður að gert mun okkar ástkæra ylhýra tungumál deyja drottni sínum á næstu áratugum þökk sé hinu engilsaxneska snjalltækjatungumáli sem tröllríður öllu og öllum nú til dags og mengar hugi æsku vorrar. Meikar þetta einhvern sens eða splittar þetta ekki diff? Hmm..ég á við, er nokkur vitglóra í þessu eða skiptir þetta engu? Getur tungumálið í alvörunni dáið út? Hvað verður þá um allar bókmenntirnar, bloggfærslurnar, menningararfinn og sérstöðu okkar? Íslendingasögurnar? Um hvað á forsætisráðherra að tala í ávarpinu á Gamlárskvöld? Hvernig munu bloggfærslur mínar hljóma á dönsku, slavnesku eða ensku? Pottþétt afkáralega. Hvað er það að vera afkáralegur? It means to be off Kári-like. Sko, ég held að þetta muni ekki koma til með að ganga upp. Það verður bara að hafa það þó svo að bloggsíða Einars Haf verði sú síðasta sinnar tegundar á íslensku þegar fram líða stundir. Það skilur hvort eð er enginn neitt í þessum bloggfærslum þó þær séu á íslensku.
Og hvers á vesalings Alfreð Gíslason að gjalda þegar íslenskan verður útdauð? Hvað mun honum finnast um það að heita Totally frozen son of a hostage? Þetta mál hefur greinilega ekki verið hugsað til enda.
Bóklestur hefur dregist saman um u.þ.b. 50% síðustu örfáu ár samkvæmt fréttum. Sem sagt, fólk sem las alla bókina fyrir 10 árum les bara hálfa bókina núna og gefst þá upp. Allt er þetta tengt því sem minnst var á hér á undan og snýr að væntanlegum útdauða tungumálsins. Það tollir enginn orðið við bóklestur því það eru allir uppteknir í snjalltækjunum – alltaf. Meira að segja núna eru lesendur bloggsíðunnar í tölvunni og snjallsímanum sínum á sama tíma. Enginn er maður með mönnum nema vera í símanum undir stýri og svo eru símar í dag meira að segja orðnir vatnsheldir þannig að nú er hægt að fara í sund eða heitan pott án þess að missa nokkuð úr. Ég þarf auðvitað ekkert að vera að stagglast svona á þessu endalaust, þið sáuð þetta allt á facebook, snapchat, twitter og instagram fyrr í kvöld.
Væri ekki ráð að taka upp léttara hjal? Jú auðvitað, það væri ekki vitlaust. Til dæmis má greina frá því að nú er óheyrilega stutt í að H&M verslanakeðjan geðþekka og vinsæla opni nýja og æðisgengna verslun á höfuðborgarsvæðinu. Íslendingar hafa iðað í kreditkortinu og skinninu (skinninu sem er undir fötunum sem keypt voru í H&M síðast þegar farið var til útlanda) allar götur síðan tilkynnt var með formlegum hætti að opnun H&M á Íslandi yrði að veruleika. Menn velta því fyrir sér hvaða áhrif þetta gæti haft á hérlendan fatamarkað sbr. þau áhrif sem Costco hafði á smásölumarkaðinn. Helstu áhrifin verða væntanlega þau að fólk mun þurfa að upphugsa nýjar ástæður fyrir því að ferðast til útlanda ef það verður framvegis nóg að fara í Smáralind til að komast í H&M. Annars held ég að ekkert breytist. Auðvitað munu Íslendingar eftir sem áður gera sitt besta við að styðja við enn eitt erlenda stórfyrirtækið sem aumkar sér yfir hnýpna þjóð á hjara veraldar og opnar búð. Auðvitað munu Íslendingar styðja við erlendan iðnað eins og við höfum gert svo margoft áður. Auðvitað ætlum við að slá öll met og standa í biðröð marga klukkutíma áður en búðin opnar í fyrsta skipti svo við missum örugglega ekki af neinu. Auðvitað. Það verður vonandi gott netsamband þarna á svæðinu svo það verði hægt að hanga í snjallsímanum meðan beðið er eftir að opni. Ekki þurfa þó allir að naga þröskuldinn því helstu lífstílsbloggarar landsins og aðrir meðlimir í þotuliðinu fá að mæta í sérstaka merkikertaopnun tveimur dögum á undan almenningi. Enn og aftur er lífstílsbloggarinn Einar Haf skilinn út undan í svona löguðu, bara vegna þess að hans lífstíll samræmist ekki lífstíl góða og réttláta fólksins. Algjörlega dæmigert. Til þess að bíta hausinn af skömminni er boðskortið fyrir merkikertin á ensku. Það var svo sem auðvitað. Kærar þakkir H&M (Hlandhausar&Merkikerti) fyrir að leggja ykkar lóð á vogarskálarnar við að útdeyða íslenskuna. Takk.
Já ég er brjálaður. Það eina sem gæti kætt mig núna væri að forsalan á JólaBó myndi opna hið snarasta.
Ég reyni hvað ég get að lifa lýtalausu lífi
lífstíl reyni að temja mér sem aðrir telja’að blífi,
fyrir helgi heilbrigði og hollustu ég fíla
…en eftir helgi ligg ég undir bekk og borða stíla.
Þess má til gamans geta að þeir félagar Gylfi Sig og Borgar Sig eru ekkert skyldir…..eða hvað?
Alone Son of a seamember.
Tilvitnun dagsins:
Allir: SÍMINN!!!
Löngu lesið en síðan var með stæla og leyfði mér ekki að skrifa athugasemd.