Kæru blesendur. …nei ég meina lesendur.
Þá er komið að því aftur, aftur kemur Einar afturgenginn aftur og nýbúinn og smellir einni vænni bloggslummu framan í smettið á værukærum og kærum lesendum sem eiga sér einskis ills von. Það er reyndar ekki alveg rétt, fyrst lesendurnir fóru inn á þessa síðu áttu þeir sér sennilega ills von. …eða eitthvað svoleiðis.
Sjoppustjóri Umf. Þorsteins Svörfuðar hefur nú ákveðið að banna 5.000 kr. og 10.000 kr. seðla í sjoppunni. Er það gert með það að markmiði að draga úr umsvifum hins svokallaða svarta hagkerfis? Nei alls ekki. Málið er bara það að þegar einhver kaupir sleikjó eða lakkrísrúllu á 50 kr. og borgar með 10.000 kr. seðli þá klárast öll skiptimyntin. Algjörlega óþolandi. Ég hef sem starfsmaður sjoppunar prófað að svara viðskiptavinunum í sömu mynt og jafnvel með sömu mynt en þá verður ekkert eftir í kassanum og sjoppan tapar. Má seðlabankastjóri gera eitthvað í þessu? Ég veit ekki, best að spyrja Má seðlabankastjóra.
Gríðarlega ógeðslega leiðinlegar haustrigningar hafa gengið yfir þessa síðustu og lengstu daga ársins með tilheyrandi bölmóð og leiðindum. Urðabændur bíða enn eftir því að geta hafið heyskap en grasið bíður hins vegar ekki og sprettur nú úr sér við lítinn fögnuð viðstaddra. Það eru mörg ár síðan ég spratt úr mér, með hrikalegum afleiðingum eins og allir ættu að vita.
Grái fiðringurinn er fyrirbæri sem margir kannast við. Þetta fyrirbæri tekur á sig ýmsar myndir eins og dæmin sanna. Ég er búinn að vera með grátt í öngum mínum…nei ég meina vöngum mínum í tæp 10 ár og það hefur auðvitað haft djúpstæð áhrif á mig. Það er ekki nóg með að gamanið sé grátt heldur eru lesendur líka grátt leiknir vegna þessa.
Hvernig væri þá að hætta þessu blaðri og hlaða í eitt gott vísnahorn? Jú því ekki.
Bændur ljáinn stöðugt brýna
og bíða eftir því
að sólin taki að skína.
Húsmæðurnar deigið hnoða
og hinkra eftir því
að standi brauð til boða.
Kaupmenn fá sér væna kríu
og kætast yfir því
að mok’inn millum tíu.
Læknar kvalir sumra lina
og láta vel af því
að einkavæða hina.
Hreystimenni vöðva hnykla
og hlæja hí hí hí
á háum hælum stikla.
Kýrnar grasið kröftugt bíta
og klæjar þjóinn í
gott er úti að skíta.
Grensás Dabbi gefur á’ann
svo glamrar tönnum í
sjón er ekki að sjá hann.
Músíkfólkið margt í röðum
mjög svo langar í
spilaklúbb með Spöðum.
Lesendurnir súpa leiðir
hveljur yfir því
að Einar Haf þá meiðir
…bráðum skilja leiðir.
Þess má til gamans geta að Einar Haf borgaði fullt af fólki svarta tíuþúsundkalla fyrir að lesa bloggið hans því það gerir jú enginn sjálfviljugur.
Einar á ystu nöf….og jafnvel meira en það.
Tilvitnun dagsins:
Allir: FIMMARI!!!
Takk fyrir mig.