Orðin sólgul og sumarleg

Vorglöðu lesendur.

Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn. Þetta hefur verið langur og tregafullur vetur hvað viðkemur bloggsíðu Einars Haf. Að vísu er erfitt að sjá árstíðamun á þeirri „ágætu“ síðu en það er annað mál. Vetur og sumar frusu saman á eftirminnilegan hátt og nú verður spennandi að sjá hvað kemur út úr því. Kannski útkoman verði sú sama og þegar góðæri og hrun frusu saman hér um árið – hver veit?

Í dag má ekkert. Það má ekki fara í sund án þess að vera undir eftirliti – þú gætir drukknað. Það má ekki hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu – þá gæti ferðamannaiðnaðurinn farið á hausinn. Það má ekki starfrækja kísilverksmiðju – hún gæti drepið almenning úr mengun. Það má ekki kalla mann feitabollu, feitalíus eða hlussu – þá ertu að leggja alla minnihlutahópa í einelti með hatursorðræðu og svívirðingum. Epalhomminn þinn. Svona var þetta ekki í eina tíð. Þá mátti gera alla þessa hluti. Þá mátti fólk fara sér að voða. Þá mátti hjóla hjálmlaus og þá mátti reykja í flugvélum. Þá var meira að segja til þjóðþekkt persóna sem hét Bjössi bolla og heitir reyndar enn – hver man ekki eftir Bjössa fituhjassa? Ef þessi persóna kæmi fram á sjónarsviðið í dag yrði sennilega að kalla hana Bjössa Íturvaxna eða Bjössa Stórbeinótta til þess að móðga nú engan og koma inn ranghugmyndum hjá börnunum. Varla viljum við að börnin verði haldin ranghugmyndum? Gleymum ekki að öll börn eru þau fallegustu sem fæðst hafa og allir eru prinsar og prinsessur og gullmolar. Það eru engar ranghugmyndir.

Menn hafa nú af því stöðugt meiri áhyggjur að íslensk tunga sé við það að deyja svokölluðum stafrænum dauða. Hið engilsaxneska útrúnkaða snjalltækjaorðfæri æsku dagsins mun ef að líkum lætur ganga af einu merkilegasta tungumáli sem fyrirfinnst dauðu áður en langt um líður, verði ekki gripið í taumana. Ég horfði á sjónvarpsþátt um daginn í hinu íslenska Ríkissjónvarpi þar sem fjallað var um lögin í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva (júgravísíjón) og mér hreinlega blöskraði. Kalla ég þó ekki allt ömmu mína. Ég þekki að vísu fáa sem kalla allt ömmu sína en það er aukaatriði. Í þessum þætti voru orð látin falla á borð við að fakttékka, innspíra, vókalísera, improvæsa, performa og svo var talað um að vera ákústískur. Á kústi þá? Hvað í dauða djöflinum á þetta að þýða eiginlega? Ég er að verða pínu improvæstur út af þessu.

Ég hef íhugað það alvarlega undanfarna daga að gerast lífsstílsbloggari en það þykir móðins nú á dögum. Þegar ég var búinn að hugsa um þetta í smástund mundi ég allt í einu eftir því að ég fæ sjittlód af kass sand af seðlum fyrir að skrifa hverja færslu hvort sem er – en það fyndna er að ég fæ enn meira greitt fyrir að skrifa ekki neitt. Hvernig gæti nú staðið á því?

Sauðburður hefst nú von bráðar og er það vel. Að beiðni kjötiðnaðarstöðva og smásala verða hryggir og læri fóðruð í sumarhaganum til haustsins en frampörtum og slögum má farga strax – enda selst slíkt ekki bofs. Já ég sagði bofs. Afkoma sauðfjárbænda verður eflaust í brennidepli þegar líða fer á sumarið en hvað sem því líður mun sauðkindin halda í okkur lífinu eftir sem áður – þó henni takist varla að halda lífinu í sauðfjárbændum. Það hefur ekkert breyst, allir sem lesið hafa áramótahugvekjur Einars Haf vita þetta.

Nú nýverið sendi ríkisstjórn Íslands frá sér skrýtlu- og brandarahefti sem ætlað er að lyfta brún almennings og kallast Fjármálaáætlun Íslands til næstu fimm ára. Í þessu skemmtilega hefti sem frændurnir Bjarni og Benedikt hafa tekið saman kemur meðal annars fram að það eigi að stórauka kyrrstöðu og óbreytt framlög til heilbrigðismála sem standa jafnvel meira í stað en árið áður. Það á að slá skjaldborg um niðurskurð á sjúkrahúsum og það á að byggja nýjan spítala fyrir afganginn sem verður af Vaðlaheiðargöngunum. Stefnt er að því að halda áfram að vega að vegakerfinu þar til allir vegakaflar sem fyrirfinnast verða orðnir endanlega útkeyrðir. Fjármálaáætlunin gerir ráð fyrir að efnahagslegum stöðugleika verði viðhaldið með hjálp eldri borgara – en sparifé þeirra hefur reynst ómetanlegt í endurreisn Íslands síðustu misseri.

Peningar af skammti skornum
skemma fyrir vorri þjóð.
Ferðast ég á slóðum fornum
frekar þunnt er þetta ljóð.

Í næstu bloggfærslu mun lyfstílsbloggarinn Einar Haf segja frá því nýjasta á sviði lyfstíla og annarra heilbrigðistengdra mála.

Einar styrktur í bak og fyrir.

Tilvitnun dagsins:
Allir: FITUFORDÓMAR!!!

2 thoughts on “Orðin sólgul og sumarleg”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *