Orðablót

Góðir lesendur.

Eftirfarandi kveðskapur Einars Haf var ekki fluttur á þorrablóti Svarfdælinga á Rimum laugardagskvöldið 28. janúar 2017 vegna þess að hann þótti alltof klúr, dónalegur og tímafrekur. Það gengur bara betur næst. Þessi kveðskapur er hins vegar ekki of klúr, dónalegur eða tímafrekur fyrir lesendur þessarar bloggsíðu. Augljóslega.

Nefndarvísur 2017

Hér í kvöld samtaka munum við gleðjast og syngja
súrmatinn borða og glösunum fimlega klingja.
Við þorrablótsnefndina set ég þó spurningamerki
spurningin er hvernig helst henni á þessu verki?

Patti í Garðshorni plássfrekur ryðst fram á sviðið
með pela í vasa hann einbeittur ávarpar liðið.
Frystihúsgaurinn hér fimmtugur stendur á stalli
fallegur þykir hans glansandi bónaði skalli.

Hildur er varla langt undan, það megið þið vita
verklega lætur hún þorrablótsnefndina strita.
Á jeppa hún reykspólar rétt eins og ör milli staða
og reynir að ver’ekki langt undir löglegum hraða.

Doddi á Jarðbrú er drekkhlaðinn allskonar syndum
duddar á hestum og hlúir að óþekkum kindum.
Í göngum hann puðar og púlar og rám verður raustin
því andskotans rollurnar vilja ekki heim kom’á haustin.

Ella vill helst hafa vit fyrir húsbónda sínum
það veitir ei af þegar kemur að samkomum fínum.
Vörpuleg stendur hún oftast við hliðin’á honum
og heldur því fram að hún beri af velflestum konum.

Úr útlegð nú snúinn er Alli, vor uppáhalds sonur
Svarfdæli þetta mjög gleður, þá einna helst konur.
Á verkstæði gjarnan hann dundar með skrúfjárn og skæri
og söngrödd sem gæti sprengt rúðu af sjö metra færi.

Á hlaðinu stendur og þenur sig frú Hildigunnur
hjúkrunarfræðingsins skerandi rómur er kunnur
betr’er að haf’ana góða, það Guð veit og Alli
því gaman ei væri ef allt myndi enda í skralli.

Færðin í Svarfaðardalnum oft spillist á köflum
Sigvaldi kappinn þá kemur og blæs burtu sköflum.
Hann móast í ruðningum, mikið finnst honum það gaman
á meðan að keðjan í blásaranum tollir saman.

Í kotin’er blessunin Gígja ein heima og biður
að bévítans snjókoman hætti og á komist friður.
Hún Silla sinn þráir að fá aftur sér til að hlýja
og saman þau komist hið fyrsta á sólarströnd nýja.

Jökull á Klængshóli sýnir oft fimi og kænsku
kappklædda ferðamenn flytur, þá bresku og spænsku.
Fær er á skíðunum, hann er sko alls enginn klunni
og skýst svo á Dalvík og verslar í Húsasmiðjunni.

Sunna hans kona er kvenskörungurinn hinn mesti
klárlega finnst henni Skíðadalurinn sá besti.
Í blindni hún eltir sinn ástmann um hóla og hæðir
og engu þá skiptir í hvers konar ófærð hann æðir.

Við Helgafell kóninn hann Jón er nú yfirleitt kenndur
krúttlegur brosir hann hvernig sem á því nú stendur.
Athyglissjúkur með eindæmum þykir hann vera
að endingu sjálfsagt af sviðinu þarf hann að bera.

Nefndin er sniðug og myndarleg, það vill hún meina
másk’er það lygi en við skulum lát’á það reyna.
Að lokum þá skulum við skála og hrópa öll saman
í svarfdælskum hátíðaranda, já nú er sko GAMAN!!!

Höfundur óþekkur. Eða ekki.

Fyrir áhugasama má geta þess að hinn svarfdælski þorrablótsannáll er nú aðgengilegur á þútúbu efnisveitunni í þremur hlutum. Eitt, tvö og þrjú. Góða skemmtun.

Einar klipptur út.

Tilvitnun dagsins:
Allir: RITSKOÐUN!

3 thoughts on “Orðablót”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *