Langþráðu lesendur.
Maðurinn sem hvarf sporlaust fyrr á árinu 2015 er nú kominn aftur í leitirnar. Að vísu var enginn að leita að honum, en það er alveg sama. Bloggsíðan sem hann hafði til umráða var lögð niður af ráðandi öflum í samfélaginu, en hefur nú verið lífguð við vegna ástandsins í þjóðfélaginu. Einna líklegast er að fljótlega verði síðan lögð niður á nýjan leik, en best er að taka bara einn dag í einu og eitt blogg í einu. Er ég að lesa bloggfærslu eftir höfund í persónulegri krísu og tilvistarkreppu? Hvað ár er, 2004? Lol (lítið og lélegt).
Hvers vegna lokaði bloggsíðan annars þarna á sínum tíma? Var það kannski ritskoðunarnefnd ríkisins sem lét loka henni? Hvaða hagsmuni var verið að vernda? Var einhver sannleikur sem ekki mátti líta dagsins ljós? Já, allt passar þetta. Ég er hins vegar löngu búinn að gleyma því núna hvað það var sem var svona merkilegt og mátti ekki kvissast út. Það eru jú margir mánuðir síðan bloggsíðan lokaði.
Í ljósi þess hvernig horfir í þjóðmálunum og þess hve langur tími er liðinn síðan síðast er rétt að taka stöðuna á nokkrum hlutum:
1) Ísland er enn ekki að hætta við að ganga ekki í Evrópusambandið, hvorki að undangenginni né frágenginni þjóðaratkvæðagreiðslu eða atkvæðagreiðslu um þingsályktun um þjóðaratkvæðagreiðslu eða umsókn um að vera umsóknarríki. Enn fremur hefur því verið vísað á bug í umræðum um bréfið sem utanríkisráðherra skrifaði að þetta mál lægi ekki ljóst fyrir af hálfu Íslendinga eða ekki.
2) Auðlindir eru eftir sem áður í þjóðareign, en þið eruð reyndar ekki þjóðin.
3) Íslendingar eru enn bestir Norðurlandaþjóða í knattspyrnu karla. Þjóðin fylkir sér á bak við strákana okkar og Laugardalsvöllur er þétt setinn, raunar svo þétt að krafa er komin á nýjan og stærri þjóðarleikvang. Hálftíma síðar keppa stelpurnar okkar í kvennalandsliðinu í mikilvægum leik í undankeppni stórmóts en aðeins nokkur hundruð hræður nenna að mæta. Einmitt. Svo segja menn að Einar Haf sé tvöfaldur í roðinu?
4) Þegar bloggsíðu Einars Haf var lokað stefndi allt í óefni í heilbrigðiskerfinu. Hefur sú staða batnað? Tja….hvað varðar geðheilbrigðismál bloggara er ég ekki viss. Gagagúgú.
5) Allir urðu brjálaðir þegar Amnesty International ályktaði að afglæpavæða skyldi vændi. Í kjölfarið var ég afglapavæddur, enda afglöp ein minna sérgreina. Þetta mál gleymdist mjög fljótlega þegar þjóðfélagsumræðan beindist að byrjendalæsi, sem ég átti reyndar erfitt með að lesa mér til um sökum byrjendahæsis. Skömmu síðar skall flóttamannavandinn á þjóðinni og sér enn ekki fyrir endann á því. Ef ég reyni að henda reiður á þann vanda verður einhver reiður – best að sleppa því.
6) Einar Haf er eftir sem áður ekki byrjaður að æfa krossfitt, búttkamp eða módelfitness (þó sú grein henti honum líklega býsna vel), en hann er hins vegar mjög nálægt ólympíulágmörkunum bæði í réttritun örvhentra og samhæfðu sundi einstaklinga. Við fylgjumst spennt með því.
7) Liður 6) tengist þjóðmálaumræðunni ekki á nokkurn hátt, ég skil reyndar ekki hvers vegna þurfti að taka stöðuna á þessu máli í þessari bloggfærslu.
Stóðréttir fóru fram í Svarfaðardal um síðustu helgi. Á hverju ári í mörg ár hefur verið greint frá því á bloggsíðu Einars Haf hversu lengi réttin stóð, hvar stóðið stóð, hvað stóð upp úr og hvernig stóð á allri fyrirhöfninni. Þessari umfjöllun verður sleppt í ár, enda er hún löngu gengin sér til húðar. Óþarfi er að greina frá stóðréttarballinu sem stóð fram eftir nóttu, en óljósar heimildir herma að sjoppustjóri Umf. Dodda Svörf hafi ráðið þaulreyndan starfsmann til sjoppu- og siðgæðisvörslu þannig að hann sjálfur gæti sleppt fram af sér beislinu í allra handa gleðilátum. Öðruvísi mér áður brá. Og eflaust lesendum líka.
Að hlusta á allar þessar jólatónleikaauglýsingar og sjá jóladótið koma í búðirnar smátt og smátt fær mann bara til að hlakka til jólanna. Er það nokkuð of snemmt? 5. okt? Rasshausar.
Þess má til gamans geta að engin svín fengu legusár við gerð þessarar bloggfærslu.
Einar á ný.
Ég ákvað að gefa öðrum lesendum tíma þangað til færsla númer tvö myndi líta dagsins ljós til að skrifa fyrstu athugasemdina. Engin athugasemd hefur hins vegar verið rituð og sé ég því mig tilneyddan til þess að brjóta blað í sögu þessarar heimasíðu með því að rita þessa athugasemd. Fyrsta athugasemdin á einarhaf.is
Takk fyrir athugasemdina, Gunnar Þórir.
Þetta markar svo sannarlega tímamót.