Orð við mótin ára

Góðir landsmenn.

Það er til siðs, það er hefð og raunar skylda að hinir málsmetandi, fólk í ábyrgðarstöðum í þjóðfélaginu, áhrifavaldar og embættismenn (með öðrum orðum þotuliðið, ríka, fræga, gáfaða og fallega fólkið) staldri við um stund um áramót, horfi um öxl á árið sem er næstum því alveg liðið í aldanna skaut og birti lýðnum áramótahugvekju með andlegan stuðning og sáluhjálp að leiðarljósi. Gott og vel, en hvers vegna í ósköpunum er þá bloggarinn Einar Haf, örvhentur einsetumaður innanfeitur með ilsig og andremmu, að staldra við, horfa um öxl á árið sem er næstum því alveg liðið í aldanna skaut og birta lýðnum áramótahugvekju? Þeirri spurningu verður auðvitað ekki svarað hér í þessari áramótahugvekju, enda geta lesendur treyst því að þeir koma alltaf að jafn tómum kofanum í hvert sinn sem þeir líta hingað inn á bloggsíðuna. Venju samkvæmt mun áramótahugvekjan byggja á áramótahugvekjum forseta, forsætisráðherra og biskups Íslands en þó með mun dekkri og rætnari undirtón. Er það hægt, ég bara spyr? Úff. Í hugvekjunni ætla ég ekki aðeins að líta yfir farinn veg og fárast yfir öllu sem miður fór á árinu; ég ætla líka að horfa fram á veginn og horfa í eigin barm. Í beinu framhaldi mun ég dást að eigin barmi en einhverjir vilja reyndar meina að ég hefði betur borið barm minn í hljóði. Einar, ertu orðinn fullur strax? Nei, sennilega er ég bara svona barmafullur.

Unaðslegu landsmenn. Já ég segi menn. Konur, kvárar og kynsegin eru líka menn. Það er alveg nóg að þessi árans áramótahugvekja sé steingeld, án þess að ég fari ekki að gelda tungumálið líka. Umræða um kyn hefur farið út um víðan völl, en ekki böll, á árinu sem er næstum því alveg liðið í aldanna skaut. Sagðir þú skaut? Passaðu þig nú. Ég þarf væntanlega ekki að taka það fram að ég býð allar verur, allt fólk, alla aðila, alla einstaklinga, öll kyn og allar manneskjur…já og kvenneskjur líka, velkomnar hingað á bloggsíðuna og auðvitað geri ég ekki upp á milli minnihlutahópa. Ég geri öllum minnihlutahópum jafn lágt undir höfði og reyni að níða skóinn jafnt af þeim öllum. Þetta hefur legið fyrir allan tímann. Hvað með lesendur? Já, þeir hafa líka legið fyrir allan tímann, alveg síðan þeim varð það ljóst að þeir eru staddir í enn einni áramótahugvekjunni hjá Einari Haf. Sennilega er þeim frekar óglatt. Í dag er óglatt í döprum hjörtum. Einar, ertu orðinn fullur strax? Nei, sennilega er ég bara svona tregafullur.

Undurfögru landsmenn. Nú við áramót er rétt að minnast forfeðranna og alls þess sem þeir gerðu fyrir okkur sem uppi erum í dag. Ég er reyndar ekki uppi núna heldur niðri í kjallara en það er annað mál. Já minnumst forfeðranna. Þeirra sem fóru á undan en fóru ekki undan í flæmingi. Þeirra sem ruddu brautina og brutu röddina. Þeirra sem plægðu hinn óplægða akur, fetuðu hina ótroðnu slóð og riðu á hið óriðna vað. Þeirra sem settust hér að í árdaga Íslandsbyggðar og þraukuðu mann fram af manni, konu fram af konu og kvár fram af kvár ár eftir ár, við kröpp kjör og gegnum hörmungar, sundrungar, eldingar og geldingar. Þeirra sem lifðu af hverja drepsóttina á fætur annarri og gáfu óblíðum náttúruöflum langt nef. Þeirra sem hörkuðu hvert bankahrunið, hverja fasteignabóluna og hvert gjaldþrotið á fætur öðru og annað hvort skráðu eignirnar á konuna eða hófu nýtt brask á nýrri kennitölu þegar gaf á bátinn. Þeirra sem stóðu af sér svarta dauða, rauða hunda, græn gímöld og bláar myndir. Þeirra sem lögðu grunninn að ómældri hagsæld komandi kynslóða með því að slíta sér út myrkranna á milli. Já við minnumst þeirra með þakklæti þar sem við liggjum á meltunni, uppfull af vellystingum og allsnægtum nútímans. Gengnar kynslóðir, ég segi bara takk fyrir mig. Einar, ertu orðinn kenndur strax? Nei, sennilega er ég bara svona yfirborðskenndur.

Uppstríluðu landsmenn. Íslensk þjóð er í fararbroddi á svo ótal mörgum sviðum í alþjóðlegum samanburði að það er algjörlega með ólíkindum. Við eigum fegursta fólkið, sterkasta fólkið, gáfaðasta fólkið, tæknivæddasta fólkið, sjálfumglaðasta fólkið, verðbólgnasta fólkið, upptalningaglaðasta fólkið og feitasta fólkið – svo örfá dæmi séu nefnd. Það voru gleðilegar fréttirnar sem bárust nú undir lok árs þess efnis að Íslendingar væru bæði feitastir og þyngstir Norðurlandaþjóða. Þetta eru miklar framfarir frá því sem eitt sinn var, þegar vinnulúnir og örþreyttir Íslendingar héngu á horriminni, sultu heilu hungri, lifðu á skorpum og skófum og litu flestir út eins og tálguð hrífusköft. Já við höfum svo sannarlega náð að komast að kjötkötlunum og ekki bara að þeim heldur alla leið ofan í þá. Sé ég tár á hvarmi? Nei þetta er örugglega bara sósusletta eða matarolía. Já það hlaut að vera. Getum við ekki fengið feitari pistlahöfunda til að skrifa þessar áramótahugvekjur, mér finnst eins og vanti meira kjöt á beinin? Jú eflaust en þetta verður bara að duga núna, enda fitum við…… vitum við jú öll að það er fleira matur en feitt kjöt. Komst Einar Haf í málsháttabókina? Já og át hana. Af hverju er ég annars svona feitur? Spyrjið þið ykkur eflaust. Ef þið skoðið hversu mörg gífuryrði ég hef þurft að éta ofan í mig á liðnum árum og áratugum þá skiljið þið hvers vegna. Einar, ertu orðinn fullur strax? Nei, sennilega er ég bara svona stútfullur af mat.

Uppsiguðu landsmenn. Íslenskt hugvit er trúlega eitt besta hugvit sem fyrirfinnst á byggðu bóli. Okkur dettur svo margt sniðugt og gáfulegt í hug og oftar en ekki auðnast okkur að hrinda hinum frábæru hugmyndum í framkvæmd. Ágætt dæmi um íslenskt hugvit er þegar að ríkisstjórn Íslands datt það snjallræði í hug að hlífa almenningi við óumflýjanlegum skattahækkunum til að standa straum af þungum og sívaxandi rekstri ríkisins – og að í stað þess að hækka skatta boðaði ríkisstjórnin stórfelldar leiðréttingar á skattkerfinu. Í dag er ekki lengur talað um að hækka skatta heldur er talað um að leiðrétta þá. Veiðigjöld voru til dæmis ekki hækkuð heldur voru þau leiðrétt. Sniðugt. Skattkerfið okkar var sem sagt búið að vera snælduvitlaust í mörg ár og kominn tími til að leiðrétta það. Ég steig á vigtina eftir umfjöllunina um matinn áðan og sá að ég hafði bætt á mig. Ekki vegna aukinnar skattbyrðar heldur vegna leiðréttingar. Hvað kostar annars þessi áramótahugvekja? 7.990 kr. eftir leiðréttingu. Rosalega er ég orðinn þreyttur á þessu. Ég hlýt að þurfa aukinn svefn. Já eða svefnleiðréttingu. Einar, ertu orðinn drukkinn strax? Nei, sennilega er ég bara svona svefndrukkinn.

Undirstrikuðu landsmenn. Hin síðari ár hefur gríðarleg uppbygging átt sér stað á hinum ýmsu ferðamannastöðum víða um land og gjaldskyldu verið komið á í einhverjum tilvikum, enda hefur ágangur ferðamanna verið slíkur að eitthvað varð undan að láta. Við Íslendingar viljum auðvitað taka vel á móti þeim gestum sem hingað koma og við munum selja okkur dýrt til að ná öllum þeim peningum sem hægt er að ná af þessum sömu gestum, í þágu þjóðarhags. Og við gerum það með því að selja okkur…og náttúruperlurnar dýrt. Fyrirséð er að ferðamönnum muni fækka á næsta ári og þá er eins gott að við náum að kreista allar mögulegar krónur út úr hverjum og einum. Á að innleiða náttúrupassa til að passa náttúruna? Vonandi. Samkvæmt landkynningarbæklingi sem ég skoðaði nýverið verða heitustu áningarstaðir ferðamanna á komandi ári ósnortnar náttúruperlur á borð við Krummaskuð, Landeyðu, Auðnuleysu, Feigðarós, Skapalón og Upptyppinga. Manni hreinlega rís….hrýs hugur við tilhugsunina. Einar, ertu orðinn fullur strax? Nei, sennilega er ég bara svona fordómafullur.

Undirgefnu landsmenn. Þetta væri ekki áramótahugvekja frá Einari Haf ef ekki væri minnst á sauðkindina. Sama tuggan, já – en góð tugga engu að síður. Sauðkindin, þessi íðilfagra og krúttípúttulega höfuðskepna sem hefur ætíð staðið með okkur Íslendingum og lifað með okkur jafnt í gleði sem sorg. Hún á ekki aðeins stað í hugum okkar og hjörtum heldur einnig í meltingarkerfi okkar, því hvaða hátíðarmatur er betri en lambakjöt? Enginn, það er mitt svar. Að vísu ætlum við hér á Urðum að prófa að vera með fylltan kalkún á hátíðarborðinu í kvöld. Fylltan kalkún? Hvernig fyllir maður kalkún? Við sjáum mynd.

Einar, ertu orðinn fullur strax? Já en samt ekkert í líkingu við kalkúninn.

Uppábúnu landsmenn. Í nóvember síðastliðnum voru liðin 190 ár frá fæðingu Matthíasar Jochumssonar, eins fremsta skálds sem gengið hefur um íslenska grund. Eftir hann liggja margir þekktir og ódauðlegir slagarar á borð við Lofsöng, Fögur er foldin og Hvað boðar nýárs blessuð sól? Já góð spurning. Hvað boðar nýárs blessuð sól? Ég skal svara þessu þegar kalkúninn verður búinn að fylla mig. Einar, ertu orðinn fullur strax? Nei, sennilega er ég bara svona leyndardómsfullur.

Ungæðislegu landsmenn. Munu stafrænir áhrifavaldar, gervigreind, ómæld neysluhyggja, markaðsvæðing, matarsóun, ógætileg framkoma við náttúruperlur, eyðing regnskóga, persónudýrkun samfélagsmiðla, firring nútímamannsins, yfirvofandi kjarnorkustyrjöld, úrkynjun og sundurlyndi á tækniöld stuðla að hnignun og tortímingu nútímamannsins og jarðarinnar eins og við þekkjum hana? Já alveg örugglega. Við skulum samt reyna að hafa gaman meðan við getum. Fyllum kalkúninn og okkur sjálf, horfum á fréttaraupið, áramótastaupið og áramótaskaupið. Rifjum upp öll þau fjölmörgu hneyksli sem áttu sér stað á árinu og reynum að telja hvað Inga Sæland er ráðherra í mörgum ráðuneytum án þess að ruglast. Sénsinn að það sé hægt. Förum svo út og mengum lofthjúpinn rækilega. Því jú, þetta reddast. Seinna. Ég er greinilega ekki orðinn nógu fullur, það þarf að bæta úr því strax. Strax? Liggur þér eitthvað á? Já, sennilega er ég bara svona óþreyjufullur.

Far vel gamla fúna ár
fer úr flösku tappinn.
Glöggt má greina á hvörmum tár
grætur Einar kappinn.

Undirhökulegu landsmenn. Nú fyrir jólin náði ég þeim merka áfanga að hafa lifað 40 ár. Sem sést reyndar ekki á þessari áramótahugvekju, sem var greinilega samin af mjög óþroskuðum einstaklingi. Ég þakka öllum þeim sem glöddu mig í tilefni afmælisins með gjöfum og heillaóskum. Allt er fertugum fært en það er reyndar líka að þakka afar snjóléttum vetri hingað til. Ég færi ykkur óskir um gleðilega hátíð og góð áramót, með þökk fyrir samfylgdina og samlesturinn á árinu sem er að líða. Góðar stundir.

Kústaskápurinn á Bessastöðum, 31. desember 2025.

Einar Okkar Hafliðason

Tilvitnun dagsins:

Allir: BÚÚÚÚMMMMMM!!!!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *