Éljuðu lesendur.
Já, nú reynir ekki bara á málvitund lesenda heldur einnig núvitund, meðvitund og siðferðisvitund. Áhrifavaldurinn Einar Haf, að þessu sinni undir töluverðum áhrifum, virðir vilja þjóðarinnar að vettugi eina ferðina enn og birtir opinberlega eina bloggfærslu í viðbót við hinar fyrri – sem allar þóttu mislukkast hrapallega. Útkoman að þessu sinni verður alveg örugglega ekkert skárri, sem eru hræðilegar fréttir en ekki óvæntar fréttir.
Opinber umræða um kyn, fjölda kynja, hvers kyns er og kynhlutleysi er fyrir löngu komin í öngstræti. Það hvort ég bjóði alla velkomna eða öll velkomin hefur ekkert með mínar skoðanir á kynjum að gera – það hefur meira með málfarsreglur íslensku og málvitund að gera. Sömu sögu er að segja um það þegar ég skrifa um menn í staðinn fyrir fólk, gleðikarl í staðinn fyrir gleðikonu, margmenni í staðinn fyrir margháni, kvensjúkdóma í staðinn fyrir kvársjúkdóma og faðirvor í staðinn fyrir þaðervor – svo ég taki örfá galin dæmi. Ég veit ekki hvar öngstrætið endar en það mun pottþétt enda með ósköpum…eða einhverjum hlutlausum sköpum.
Lífið er erfitt og andstyggilegt
og auðvelt að hnjóta um hjall.
Tungan er morkin og málið er tregt
fyrir mig, sem er akfeitur kall.
Lífið er strá sem að hnignar um haust,
því heiðríkju sumars er án.
Ég segi það kynlaust og kinnroðalaust
í kvöld er ég stórbrotið hán.
Lfið er tregafullt tónstigastef
taktfast ég stíg við það dans.
Ég lít inn í kjarnann og kræft tek það skref
að kynsegja mig vera trans.
Lífið er endalaust strembið og streð
stundum ég hrópa á hjálp.
Það lyftir þó anda og upphefur geð
að ég er nú skilgreint sem stálp.
Lífið er jarðskjálftar, eldur og ís
og óveður ár eftir ár.
Fólk fellur í öngvit er kaldur ég kýs
að kom'út úr skápnum sem kvár.
Lífið er uppfullt af sorgum og sút
ég skelfist það hreint alveg helling.
Æði í verkfall, á varir set stút
því víst er ég hreinræktuð kelling.
Í dag er dagur íslenskrar tungu. Það útskýrir þó ekki hvers vegna ég sit hér í myrkrinu með lafandi tungu en það er annað mál. Auðvitað ættu allir dagar að vera dagur íslenskrar tungu, enda á tungumál vort í vök að verjast á mörgum vígstöðvum. Ég lenti í því að fara til Reykjavíkur um daginn og var svo óheppinn að þurfa að ferðast um miðbæinn. Þar er ekki þverfótað fyrir verslunum, veitingastöðum og knæpum sem nánast undantekningarlaust bera ensk heiti. Ég var hneykslaður á ástandinu fyrir ferð mína en eftir að hafa séð ástandið með eigin augum varð ég gjörsamlega hoppandi snælduvitlaus. Er nema von að staðan sé slæm. Nýlega kom fram í fréttum að bóklestur hafi dregist saman. Þá fækkar þeim sem geta lesið sér til gagns. Að hluta til er það bloggsíðu Einars Haf að kenna, þó svo að lesendur bloggsíðunnar séu fluglæsir og fluggáfaðir geta þeir ekki lesið sér til gagns, einfaldlega vegna þess að það er ekkert gagnlegt að finna á bloggsíðunni.
Þessa dagana er keðjureykt á vöktum í reykingakofanum á Urðum og ekki veitir af ef Steindyrabændur eiga að fá kjötið sitt reykt fyrir jólin. Geitalærin skila sér yfirleitt síðust allra af fjalli en þurfa hins vegar mesta reykinn, þannig að staðan er augljóslega snúin. Ég myndi skottast núna og segja ykkur frá stöðunni í reykingakofanum í beinni útsendingu en þar sem ég nenni ekki að vaða reykinn verður það bara að bíða betri tíma. Þið skuluð bara gera það sama og ég sagði kjötinu að gera; hanga.
Íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu mistókst enn eina ferðina að tryggja sér sæti á móti….meira að segja stórmóti. Enn og aftur tapaði liðið fyrir Úkraínu og enn og aftur voru það mannleg mistök, óheppni og æðri máttarvöld sem voru þess valdandi. Sjálfur er ég á móti, meira að segja fúll á móti en það eru engar fréttir.
Enn á ný eru uppi hugmyndir um að færa klukkuna. Hvert á að færa klukkuna? Mögulega úr eldhúsinu og inn í stofu. Ég veit það ekki. Þeir sem hlynntir eru þeirri hugmynd að hræra í klukkunni virðast ekki geta sætt sig við þá staðreynd að yfir háveturinn er dimmt allan sólarhringinn sama hvað klukkan er og yfir hásumarið er bjart allan sólarhringinn sama hvað klukkan er. Ég myndi hugsanlega sýna skólabörnum samúð, þar sem þau eiga mörg hver í miklum vandræðum með að vakna í tæka tíð á morgnana en síðan sá ég gögn um skjánotkun þessara sömu barna og ákvað þá að skipta samúð út fyrir fyrirlitningu.
Kaupmönnum er smám saman að takast það djöfullega og útsmogna ætlunarverk sitt að útvatna hátíðleika jólanna í eitt skipti fyrir öll. Það gera þeir með því að keyra jólaverslun landsmanna í gang mörgum vikum og mánuðum fyrir jól. Þarna er ég vitaskuld að vísa til þeirra fjölmörgu afsláttardaga sem búið er að koma á laggirnar, svo ég tali nú ekki um öll gylliboðin og allt prangið…..eða prangrið? Jólageitin, einn helsti tákngervingur græðgisvæðingar samtímans og firringar nútímamannsins, hefur staðið keik á hvínandi beit innan sinnar rammgirtu IKEA girðingar síðan í byrjun október – og mun þaðan koma að dæma lifendur og neytendur í gegndarlausu neysluflóðinu. Nú nýlega var dagur einhleypra haldinn hátíðlegur og þá gerðu margir afar góð kaup á dóti og drasli sem viðkomandi þurftu alls ekki. Þá hlýtur að styttast í dag einfeldninga, þar sem verður hægt að gera jafnvel enn betri kaup á einhverju sem er enn meiri óþarfi. Kaupæðið nær loks nýjum hæðum þegar við fáum svartan föstudag en þá er einmitt tilvalið að verða alveg svartur og kaupa eitthvað dót á svörtu. Skömmu síðar kemur síðan rúsínan í pylsuendanum; stafrænn mánudagur og fast á hæla honum fylgir harmrænn þriðjudagur. Í öllum tilfellum er neytendum talin trú um að þeir tapi ef þeir ekki kaupi en sjálfur ætla ég ekki að halda áfram þessu raupi og gæða mér á staupi. Hvernig líst þér á það, Gaupi?
Ég rýk til og reyni að kaupa dót
rándýrt, svo ég verði’ ei domm.
Ég fékk þennan fína gervifót
á 5% afslætt' á búst dott komm.
Innan tíðar verður þessi bloggfærsla fáanleg á sérstöku svörtudagatilboði í næstu raftækjaverslun.
Einar hanginn.
Tilvitnun dagsins:
Allir: TUNGA!