Ágætu kjósendur.
Kannski er það aðeins of seint í rassinn gripið en hér kemur langþráð framboðsræða mín, sem er að mestu endurunnin úr því sem aðrir frambjóðendur hafa nú þegar boðið fram í aðdraganda kosninga.
Nú líður að því að kjörstaðir opni, sem er kannski engin kjörstaða. Þessi kosningabarátta hefur verið stutt en snörp, sem ég get stutt með rökum. Ég hef gegnum tíðina stutt ýmsa flokka og flokksbrot en það hefur yfirleitt staðið stutt enda er stutt á milli hláturs og gráturs. Guði sé lof að þessi efnisgrein er ekki löng heldur stutt.
Þó ég sé ekki á kjörseðlinum get ég engu að síður boðað betri tíð með lægri vöxtum, lægri verðbólgu og lægri siðferðisþröskuldi. Þá lofa ég því að lundin verði léttari, netmöskvarnir verði þéttari og rangindin verði réttari. Bæturnar verða hærri, útgjaldaaukningin verður stærri þannig að lætur nærri….lýðskrumi. Silkihúfurnar verða dýrari, hinsegin samtökin verða hýrari og óskýru línurnar verða skýrari. Ég get hins vegar ekki lofað því að ritstíllinn verði dýrari.
Ég hef starað á svokallaðar kappræður frambjóðenda, eins og naut á nývirki. Eigum við eitthvað að ræða það eða? Í þessum kappræðum talar hver í kapp við annan eins og nafnið bendir til en oft er það bara eitthvað krapp sem kemur út úr þessu. Þá eru þetta kannski krappræður? Hefðu kosningarnar verið nálægt Sjómannadeginum hefðum við getað horft á kappróður frambjóðenda en ekki kappræður. Markmið sumra er auðvitað að tala aðra í kaf þannig að hvorki skiljist upp né niður í því sem fram fer en þá eru þetta reyndar ekki kappræður lengur heldur kafræður. Þessu ræð ég því miður ekki.
Ganga í Evrópusambandið, ganga í sjóinn, ganga í hjónaband, ganga af göflunum, ganga úr sér eða ganga í barndóm. Þetta eru aðeins nokkrir þeirra möguleika sem standa göngufólki til boða á næsta kjörtímabili. Í öllu falli get ég lofað kjósendum því að gangan verður strembin, burtséð frá áfangastaðnum.
Veðurstofa Íslands hefur náð að troða sér inn í kosningabaráttuna á lokasprettinum með því að veifa gulum viðvörunum framan í andlit kjósenda og frambjóðenda. Orðið „kosningabarátta“ fær nýja merkingu vegna veðurútlits, þar sem baráttan mun snúast um það hvort kjósendur komist til að kjósa eða hvort þeir verði undir í baráttunni við veðuröflin. Sumir stunda pólitískan þankagang, aðrir hafa tapað áttum við að feta lífsins stigagang en Veðurstofan boðar pólitískan éljagang. Vá hvað þetta var djúpt, alveg eins og skaflinn sem ég stend í núna.
Eitt fjölmargra baráttumála í kosningunum að þessu sinni eru bættar samgöngur og aukið fé til Vegagerðarinnar. Þar sem stjórnmálaleiðtogum fannst góð hugmynd að boða til kosninga í lok nóvember hefur Vegagerðin nú þurft að ráða viðbótarverktaka til starfa og mun fyrirsjáanlega eyða tugum milljóna næsta sólarhringinn bara svo að fært sé á kjör- og talningastaði. Þetta mun valda því að fjárheimildir Vegagerðarinnar ganga til þurrðar nú um kosningahelgina og því er niðurskurður og samdráttur líklegur á næsta ári, sem mun valda verri samgöngum. Það er eitthvað í þessu dæmi sem gengur ekki upp en ég veit ekki alveg hvað það er. Er fært á bloggsíðu Einars Haf? Já í augnablikinu en hins vegar er bloggarinn sjálfur ófær með öllu, eins og fjölmargir geta vitnað um. Það er því ekki nema von að allt sitji fast.
Góðu kjósendur. Ég veit að mörg ykkar hafa í hyggju að kjósa með hjartanu en ég ráðlegg ykkur hins vegar frekar að kjósa með blýanti, þá eru mun minni líkur á því að atkvæðið verði dæmt ógilt. Ef svo ólíklega vill til að þið komist klakklaust á kjörstað er mikilvægt að muna að ef þið eruð í vafa gæti ykkar atkvæði verið túlkað sem vafaatkvæði og þess vegna er betra að vera viss í sinni sök.
Á kjörstaðinn kýs ég að fara
kankvís og spari til fara.
Atkvæðið umlukið vafa
alldrukkinn tek ég að drafa.
Gætið ykkar á exinu, axinu og öxunum.
X-Einar, aldrei seinar.
Tilvitnun dagsins:
Allir: Ég lofa!