Orðin afar misskilin

Misskildu lesendur.

Ó nei, ég trúi þessu ekki. Hann heldur bara áfram og áfram og áfram. Hversu úrelt sem þetta tjáningarform telst vera þá virðist það ekki stoppa Einar Haf í því að verða sér að atlægi reglulega fyrir allra augum.

Ég hef ákveðið að koma ekki fram á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Nú? Vegna þess að þú ert mótfallinn því að ósamræmi sé í vinnubrögðum lögregluyfirvalda í landinu þegar kemur að upplýsingagjöf um meint kynferðisafbrotamál? Nei, bara vegna þess að mér var ekki boðið að koma fram á þjóðhátíðinni.

Ótal margar fréttir undanfarna daga hafa leitt mann að þeirri niðurstöðu að nú sé allt á leið lóðbeint til andskotans. Kornið sem fyllti mælinn kom svo þegar þessi frétt birtist. Hvar endar þetta eiginlega? Ég er alltaf að verða meira og meira efins um að Ólafur Ragnar sé að gera hið rétta með því að hætta sem forseti nú þegar óvissan í þjóðfélaginu er þrúgandi sem aldrei fyrr. Gangi þér vel Guðni minn.

Sigmundur Davíð er mættur aftur, ferskari en nokkru sinni fyrr. Og hann spyr. Hvenær verða svo þessar þingkosningar? Sem allir voru brjálaðir út af fyrr á árinu? Allt gleymt og grafið. Svo eru allir löngu búnir að gleyma Wintris, er það ekki? Og arðgreiðslu tryggingafélaganna? Kjararáð? Nautabökurnar í Borgarnesi? Iðnaðarsaltið? Jú, steingleymt og grafið – hver einn og einasti skandall. Tær snilld.

Stundum er talað um að hafa allt uppi á borðum. Þetta borð hlýtur því að vera ansi stórt. Annað var það ekki.

Nú um liðna helgi fékk ég símtal þar sem ég var beðinn um að vera sadisti í bíómynd. Ég tók þeirri óvenjulegu beiðni auðvitað vel – lesendur þessarar síðu ættu að geta tengt við einhvers konar sadistatilburði af minni hálfu þegar horft er til baka yfir allar gömlu svínslegu bloggfærslurnar sem birtar hafa verið. Þetta var reyndar einhver misskilningur, því beiðnin fólst í því að vera statisti í bíómyndinni Svanurinn, sem tekin er upp hér í Svarfaðardal um þessar mundir. Gott og vel, ég brást skjótt við og eyddi stærstum hluta laugardags og sunnudags við Tungurétt í Svarfaðardal þar sem upptökur fóru fram. Ég er vitaskuld bundinn trúnaði um það sem þarna fór fram en get þó sagt að ég stóð kjurr, labbaði fram og til baka og var ýmist maður með kaffi eða maður með öl. Nokkurt magn pilsners var haft um hönd. Og ímyndunarfyllerí getur leitt til ímyndaðra timburmanna. Það er annað mál.

Svo er það verslunarmannahelgin. Allar hátíðirnar, allar bjórdósirnar, allir timburmennirnir, allar ákærurnar og allir virkir í athugasemdum. Allir verslast upp. Ég get ekki beðið. Þjórhátíð í Pestmannaeyjum, Inníkúkinn í Reykjavík, ölskylduskemmtun í Búsdýragarðinum og Æludagar í Hörgársveit eru bara brot af því sem verður í boði – og raunar bara brot af útúrsnúningum mínum á nöfnum útihátíða gegnum tíðina – þetta er jú alltaf það sama ár eftir ár eftir ár. Mun ég skemmta mér fallega? Tja….

Lífið leikið getur grátt
gamlar drykkjubullur
ég á orðið býsna bágt
pilsner þamba gervifullur.

Þess má til gamans geta að engar hljómsveitir misskildu innihald þessarar bloggfærslu – og munu þær þar af leiðandi allar koma fram um næstu helgi.

Einar krossfittaður.

Tilvitnun dagsins:
Allir: Pókémon!

2 thoughts on “Orðin afar misskilin”

  1. Á hvaða level ertu kominn í Pokémon Einar? Eru mörg Pokéstop í Svarfaðardalnum?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *