Orðin jóla í jóla DB

Góðir lesendur.

Um jólin hef ég haft þann sið
að hugleiða og biðja um frið
hripa niður örfá orð
og auðmjúkur þau leggja á borð. 

Er það rétt sem ég sé? Jú það passar. JólasvEinar Haf kemur siglandi inn hátíðarmiðin á smjörsprautaða kalkúnaskipinu sínu. Hó hó hó. Já enn eitt árið, enn eitt eldgosið og enn ein jólahugvekjan. Heilabörkurinn gliðnar, sprungan rofnar og upp gýs einhver algjör della ásamt hellingi af óæskilegu gasi. Hverju er ég að lýsa? Þið getið í eyðurnar, til þess er leikurinn gerður.

Jólahugvekjan í ár er ekki bara uppfull af jarðgasi, hátíðleika og heilögum anda. Hún er líka uppfull af rangfærslum og útúrsnúningum í boði mín, Einars Haf; bloggara og pistlahöfundar sem lætur engan ósnortinn. Allra síst lesendur. Þess má geta að það er fyrst og fremst bloggurum og pistlahöfundum eins og mér að kenna að lesskilningur Íslendinga dvínar ár eftir ár samkvæmt Písa könnuninni. Lesendur lesa meira og meira en skilja minna og minna. Og þetta skilur auðvitað ekkert eftir sig. Já ég skil. Ekki.

Sumir vilja gos á jólunum en aðrir vilja það ekki. Persónulega finnst mér ágætt að skola niður hamborgarhryggnum með malti og appelsíni en það eru vissulega skiptar skoðanir um þetta eins og annað. En innviðir, eru þeir í hættu? Innviðir Reynisson fulltrúi almannavarna, hvað segir þú um það? Nei þökk sé vinum og varnargörðum þá er ég bara í þokkalegum málum, þakka þér fyrir að spyrja. Hvað verður svo í jólamatinn þarna í samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð? Tja, ég veit ekki en ég giska á hættumat. 

Eru allir komnir í jólaskap? Tja, ég segi nú bara eins og unglingarnir. JÓLÓ. Ég veit reyndar ekki alveg hvað það þýðir en það er eflaust eitthvað mjög jólalegt. Annað sem er jólalegt er hið árlega ákall hjálparsamtaka um hjálp og auðvitað hjálpar maður samtökunum. Sko, hjálparsamtökunum. Það hjálpar samtökunum að fólk er almennt séð gjafmildara í aðdraganda jóla en á öðrum tímum ársins. Hvort sem það eru Pieta samtökin, Rauði krossinn, SOS barnaþorpin, einhverf börn, samtök um legslímuflakk, Landssamband útgerðarmanna, SÁÁ, þroskahjálp, blindrafélagið, Bændasamtökin, gigtarfélagið eða félag siðblindra. Alls staðar er neyðin sár og lífsbaráttan hörð. Allir þurfa sitt til að láta enda ná saman, allir þurfa aur til að geta unnið að sínu brýna hjálparstarfi og alltaf kemst ég í jafn mikið hátíðarskap þegar fulltrúar þessara hjálparsamtaka hringja í mig og grátbiðja um styrk. Ég vil helst láta ganga lengi á eftir mér áður en ég loks fellst á að styrkja viðkomandi hjálparsamtök um eitthvað lítilræði, enda sé ég oft aumur á hinum og þessum ef ég leita vel. Ég læt þó eingöngu fé af hendi rakna ef röddin á hinum enda línunnar lofar að peningurinn fari ekki eingöngu í það að standa straum af því að hringja í mig til að biðja um pening.

IKEA geitin er óbrunnin enn og það þrátt fyrir að ódýrt eldsneyti og eldfæri sé að finna nánast við hliðina á geitinni. Ég hefði jafnvel haldið að geitin yrði verðbólgubálinu að bráð en þökk sé afar strangri öryggisgæslu kringum mammonslíkneskið hefur tekist að vernda þennan sænskættaða gullkálf. Almennt hefur jólaverslunin gengið vel og einkaneyslan blómstrar sem aldrei fyrr. Verð á helstu vörum og nauðsynjum hefur hækkað mun meira en sem nemur verðbólgu og verður það að teljast afar góður árangur fyrir verslunina. Smávöruverslun mokar inn hagnaðinum sem aldrei fyrr en það gæti aldrei orðið að veruleika nema fyrir tilstuðlan lífstílsbænda sem vinna glaðir og yfirskuldsettir baki brotnu við að tryggja matvælaöryggi og taka lítið sem ekkert fyrir það. Ekki ber síður að þakka íslenskum neytendum sem kalla ekki allt ömmu sína þegar kemur að neyslu og láta sig ekki muna um nokkra tugi prósenta í verðhækkanir. Hvað gerir verslunin svo við allan hagnaðinn? Nú hún styrkir auðvitað hjálparsamtök sem hafa ekki undan við að aðstoða neytendur sem farið hafa á hausinn í viðskiptum sínum við smávöruverslunina. Eitthvað í þessu dæmi gengur ekki upp en það verður bara að hafa það.

Jólasveinar einn og átta hafa undanfarna daga komið til byggða og gefið landsmönnum í skóinn en þess má geta að skórinn kreppir víða. Samkvæmt Gallup könnun hafa um 40% aðspurðra á einhverjum tímapunkti fengið kartöflu í skóinn en auðvitað ætla ég ekki að gera því skóna að svo sé í raun. Samkvæmt sömu könnun hafa 23% pissað í skóinn sinn en það mun vera skammgóður vermir.  Hvað með mig kann einhver að spyrja? Nú ég er bundinn í báða skó og get þar af leiðandi ekki tjáð mig frekar um þetta mál.

Jólasveinarnir hafa þurft að uppfæra sig í takt við tíðarandann. Áður fyrr voru þeir harðsvíraðir og skítugir smákrimmar sem fóru ránshendi um byggð og ból um hver jól og rændu og rupluðu af bændum og búaliði, börnum og gamalmennum. Jól voru skálkaskjól fyrir þessi fól en ég er með könnu upp á stól og jólahjól og allskyns tól þar sem María mey í bláum kjól son guðs ól og fékk fyrir það hól. Rólegur Einar. Í dag eru jólasveinarnir í rauðum einkennisklæðum, með hreinhvít skegg og ilmandi af old spice rakspíra. Ýmislegt hefur auðvitað breyst í persónulegu lífi jólasveinanna svona í gegnum árin og árhundruðin. Stekkjarstaur er til dæmis í mun betri málum í dag eftir að hafa farið í liðskiptaaðgerð. Líf Hurðaskellis breyttist nokkuð með tilkomu hurðapumpanna og þá er Gluggagægir að mestu hættur að gægjast á glugga í kjölfar ýmissa dóma í héraði er tengjast persónuverndarsjónarmiðum. Þá er Giljagaur nánast alveg hættur að gilja í kjölfar þess að svokölluð slaufunarmenning hélt innreið sína í íslenskt samfélag. Hvað mun gerast þegar fram líða stundir? Það veit enginn, vandi er um slíkt að spá.

Hér næst stóð til að fjalla um Grýlu gömlu sem lést í sviplegu slysi þarna um árið þegar hún gafst upp og hengdi sig í rólunum. Sú umfjöllun verður hins vegar að bíða betri tíma, enda alveg að koma jól.

Ég ligg í fleti flötu
og fýsir helst í skötu
sem lyktar út á götu
gaman verður þá.
Ég stúta fimm úr fötu
og finn til lög á plötu
er lúrir barn í jötu
ég segi bara vá.  

Gleðileg jól.

Einar Hafliðason

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *