Góðu lesendur.
Hann er mættur aftur. Eftir langt hlé. Var þetta nógu langt hlé? Ég er ekki svo viss um það. En gott og vel. Maðurinn með munnræpuna lætur til skarar skríða og lætur ekkert ósnortið. Ég veit að það er erfitt að halda þessum lestri áfram án þess að fá ælubragð í munninn – sem betur fer eru lesendur ekki það margir að ég þurfi að fá samviskubit út af þessu.
Síðan ég lét síðast í mér heyra á þessum úrelta vettvangi hefur ýmislegt gengið á. Ég skrapp til dæmis til Parísar í dagpart eða svo, ásamt lesanda þessarar síðu nr. 1 og þeim Gunnari á Göngustöðum og Karli á Hóli – skuggastjórnendum í Ungmennafélaginu Þorsteini Svörfuði til margra ára. Ég sjálfur á eftir að gera upp og gera upp við mig hvort ég var þarna á vegum bloggsíðu Einars Haf eða Ungmennafélagsins Þorsteins Svörfuðar – sennilega skipti ég kostnaðinum 50/50. Allavega, ferðin var farin og það var farið á Stade de france, þjóðarleikvang Frakka, til að berja íslenska karlaknattspyrnuliðið…..augum. Þeir öttu kappi við heimamenn Frakka. Fljótlega kom á daginn að þessir Frakkar voru númeri of stórir – er þetta ekki spurning um að sníða sér stakk eftir vexti. Eða Frakka eftir vexti. Hvað sem þessum vangaveltum líður fór leikurinn 5-2, Ísland vann seinni hálfleik og íslenskir stuðningsmenn öskruðu úr sér lungu og lifur allan tímann, svo eftir var tekið. Það var gaman að geta tekið þátt í þessu og upplifa þetta ævintýri. Kvennalandsliðið keppir svo í lokakeppni EM í Hollandi á næsta ári – verður það mót sýnt hjá Símanum? Mun Gummi Ben öskra sig inn í hugi og hjörtu heimsbyggðarinnar þá? Tja…ég myndi ekki vera of viss. Konur eru jú stundum Einar.
Síðan ég lét síðast í mér heyra er búið að halda eitt stykki fossarakosningar með tilheyrandi sjónvarpskappræðum, kosningavökum og atkvæðaveiðum. Kosningabaráttan var frekar undarleg leyfi ég mér að segja, frambjóðendur voru níu talsins og voru þeir spurðir út um víðan völl og spurðir út í víðan völl. Svörin voru líka út um víðan völl, þorskastríðin og Icesave voru merkilegustu umræðuefnin. Þrír frambjóðendur settu met í kosningunum, aldrei hefur nokkur nokkru sinni fengið jafn fá atkvæði hlutfallslega séð. Rangur maður á röngum tíma? Veit ekki, en af hverju fæddist ég lúser? Ég bara spyr.
Hneyksli vikunnar að þessu sinni er að sjálfsögðu þetta hér. Þetta er ákveðinn skellur fyrir kvennapönksveitina Randalín og stelpurokksveitina Klassapíur en sem betur fer mun stúlknakór Kársnesskóla fá að koma fram á hátíðinni – og lagfærir það kynjahlutföllin eitthvað. Svo má velta fyrir sér hvort þeir sem fari á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum bara út af hljómsveitunum sem koma fram séu á einhverjum villigötum.
Og nú er lagður ljósleiðari um Svarfaðardal þveran og endilangan – hvern hefði grunað það hér í þá daga þegar afi klifraði upp í símastaur til að ná sambandi við næsta nágrenni. Internetið leggur heiminn að fótum sér og ljósleiðarinn leiðir ýmislegt í ljós – tala nú ekki um nú þegar tekist hefur að koma ljósleiðaranum gegnum Urðaengið. Það er ekkert grín að plægja streng niður í slíkt landsvæði – landareignin heitir ekki „Urðir“ bara út í loftið. Enda enda ég yfirleitt í grjótinu þegar ég reyni eitthvað.
Kerlingar reyna að koma fram
en komast hvorki lönd né strönd
við karlrembusvínin ég segi skamm
skelfing nú bágt eiga kvennabönd.
Þess má geta að ég fékk 0,18% af því verðlaunafé sem ég hefði fengið fyrir þessa bloggfærslu hefði ég skráð mig til leiks sem karlmann. Þvílíkt klúður hjá mér. Það er ekki sama Jón og frú Jón.
Einar kvennamaður.
Tilvitnun dagsins:
Allir: Húh!
Takk fyrir Frakklandsferðina Einar, hún var ógleymanleg.