Orðin rétt stóðu í stóðrétt

Hryssingslegu lesendur.

Nú verður gert stutt hlé á pólitískum stóratburðum, stríðsfréttum og hamfaratíðindum þannig að hægt sé að koma að þessari bráðnauðsynlegu bloggfærslu, í þágu almannahagsmuna. Muna hvað? Alls ekki neitt.

Samkomuhúsið Höfði kemur nokkuð vel undan sumartörn, göngum og réttum. Útleiga var vel viðunandi í sumar og flestar helgar nýttar undir ættarmót, afmæli, brúðkaup og gleðskap ýmiskonar. Töluvert magn af dósum og flöskum safnaðist upp samhliða þessu partýstandi og var svo komið nú í haust að vélaskemman á Urðum var orðin hálf full. Sjálfur var ég orðinn hálf fullur á leið til Akureyrar með hluta dósanna um daginn, enda virðist það vera lögmál að sama hversu tómar dósirnar eru, alltaf skulu dósapokarnir leka. Gamall áfengisilmur fyllti vitin og raunar eymir enn eftir af henni í bílnum. Dósainnleggið nam 13.080 kr. sem ég lagði auðvitað beint inn á mig. Engar áhyggjur. Ef þetta kemst upp mun ég axla ábyrgð, segja af mér sem gjaldkeri og taka að mér að vera meðstjórnandi í staðinn. Engin spilling hér.

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu hefur verið í nokkurri lægð upp á síðkastið en nú horfir það allt til betri vegar þar sem sterkir leikmenn eru komnir aftur eftir lögreglurannsóknir. Umræddir leikmenn hafa að vísu ekki spilað fótbolta lengi en það er samt gott að hafa þá með. Okkar heitasti framherji í Evrópuboltanum um þessar mundir er því miður ekki með vegna lögreglurannsóknar. Ef strákunum okkar mun mistakast gegn Lúxemborg og Lichtenstein er mjög líklegt að liðið allt sæti lögreglurannsókn.

Síðasta helgi var svokölluð stóðréttarhelgi í Svarfaðardal og sjálfsagt víðar. Stóð réttarhelgin lengi? Nei ekki svo. Ég stóð rétt við réttina þegar stóðið mætti en stóð reyndar á sama nema hvað að ég hafði augastað á stóðréttarkaffinu. Stóð réttarkaffið lengi? Nei ekki svo. Stóðið stóð í réttinni rétt á meðan réttað var en steðjaði svo brott, alveg rétt. Um kvöldið var stóðréttardansleikur á Rimum. Stóð réttardansleikurinn lengi? Nei ekki svo. Auðvitað mætti ég á staðinn þrátt fyrir að vera ekki hestamaður og skeiðaði um dansgólfið, allt fyrir málstaðinn. Einar, telur þú þessa umfjöllun hafa heppnast vel? Nei ekki svo.

Sláturtíð hefur staðið yfir undanfarið og því eru eflaust einhverjir sem hafa gripið um slátrið af því tilefni. Fallþungi þykir vel í meðallagi þetta árið, lögun góð og gerð viðunandi. Sjálfur er ég með 4 í bakvöðva og 17,5 í læri en betur má ef duga skal. Svo fæ ég reyndar ekkert sérstaka einkunn fyrir ull, sem er auðvitað bull. Nú er unnið markvisst að því hörðum höndum að rækta upp riðuþolnar kindur á Íslandi. Þó fyrr hefði verið. Æðsti draumur MAST er auðvitað að skera og höggva og slátra því sem slátrað verður í þágu smitvarna en af gefinni reynslu mæli ég ekki með þeirri aðferð. Riðfrýjar kindur og fjárhúsagrindur, það er málið.

Talandi um slátur. Stóðlífi á upptöku á verulega upp á pallborðið og lyklaborðið hjá netnotendum nú sem fyrr. Þeir hinir sömu verða aldeilis svekktir þegar þeir komast að því innan skamms að bloggsíða Einars Haf er bloggsíða en ekki harðsvíruð klámsíða, sem kann reyndar að hljóma lygilega miðað við hvað efnið sem hér er að finna er klúrt og í ljósi þeirrar staðreyndar að ég sit hér hálfnakinn í g-strengsþveng í keng, ritandi þessar hugleiðingar. Bíddu aðeins, ég ætla að skrifa þetta hjá mér. Æi það kemur ekkert úr honum. Sko, pennanum. Dóni. Klámáhorf er mikið, ómálga börn og enskuslettir unglingar eru heltekin af snjallsímum og svalltækjum…meinti snjalltækjum – og dónaskapurinn í þjóðfélaginu ríður manni á slig og ríður ekki við einteyming. Ó hve gröð er vor æska! Stendur mér á sama? Alls ekki. Ein spurning að lokum. Stóð lífið lengi? Nei ekki svo.

Lesendakönnun. Hver er ykkar uppáhalds umboðsmaður?

  • Umboðsmaður skuldara
  • Umboðsmaður Alþingis
  • Umboðsmaður barna
  • Umboðsmaður Íslands (Einar Bárða)

Munið. Það eru engin röng svör. Bara rangar skoðanir.

Reykingar drepa. Það á þó alls ekki við kjötreykingar. Þær eru nú hafnar hér á Urðum og ilmurinn eftir því. Lykillinn er að kveikja í þurrkuðum kindakúk, beina reyknum í átt að kjötinu og vona svo það besta. Þetta er reyndar ekki alveg satt en hljómar skemmtilega. Verði ykkur að góðu.

Einar, hvað með heimsmálin?

Stríð og sturlun hrella heim
streyma tárin niður kinn
sendið mig helst strax út í geim
svo fái ég flúið átökin.

Á árshátíð stjórnarráðsins um komandi helgi verður margt skemmtilegt á boðstólnum. Eins og hvað? Fjölbreytt skemmtiatriði eins og fallinn spýtukall, ráðherrakapall, hlaupast undan í skarðið, minnipokahlaup og svo auðvitað stólaleikurinn sívinsæli.

Einar stóð í tunglsljósi.

Tilvitnun dagsins:

Allir: STÓÓÓÐÐÐÐ!!!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *