Orðabrjáli í bundnu máli

Góðir lesendur, skúm- og blesendur.

Úti er rigning, í rjóðrinu þytur. 
Heyri og hugsa í rökkrinu vitur. 
Einar við bloggskrifin rennsveittur situr, 
skömmustulegur og bólginn og bitur. 

Hér í upphafi bið ég lesendur innilegrar afsökunar. Ekki aðeins á inngangsorðunum heldur einnig á því að mér gafst hvorki tími né ráðrúm til að panta þyrlu og drullubrúna reyksprengju sem gefa átti fylgjendum mínum til kynna hvers kyns væri hér á bloggsíðu Einars Haf – og þar af leiðandi veit enginn hvers kyns er. Enginn sómakær og metnaðarfullur áhrifavaldur með sjálfsvirðingu ætti að sætta sig við þessa meðalmennsku. Ég lofa að gera betur þegar næsta barn….blogg kemur undir.

Hann eða hún eða hán, engin(n) veit,
en Birgitta Líf í pakkann leit -
saklausar skepnurnar voru á beit 
er eitraður bláreykur sveif yfir sveit

Ég gæti svo sem beðist afsökunar á öllu því sem kom fram hér á undan og á öllu því sem á eftir kemur en ég ætla ekki að gera það – og biðst ég afsökunar á því.

Ríkisendurskoðun hefur nú gert stjórnsýsluúttekt á Sinfóníuhljómsveit Íslands vegna ófremdarástands sem þar mun hafa ríkt innandyra um langt skeið – en eins og flestir vita er alltaf sama gaulið í þessum listamönnum. Niðurstaða úttektarinnar er afar sláandi, sérstaklega þegar kemur að trommuleikurum og öðrum er leika á ásláttarhljóðfæri. Svo virðist sem margir starfsmenn sinfóníunnar hafi haft horn í síðu hvors annars en það mun hafa verið franskt horn. Upp hafi komið viðkvæm starfsmannamál og jafnvel ásakanir um ofbeldi. Ég get að vísu ekki lesið út úr fréttum af málinu að neinn hafi fengið á lúðurinn, nema þá kannski einstaka blástursleikari.

Í smáatriði sjaldan ég mig hengi
í sinfóníuhljómsveitinni lengi
við ofbeldi og ástand ekki tengi
enda slæ ég bara á létta strengi.

Göngur og réttir hafa nú farið fram fram og aftur í Svarfaðardal og mögulega víðar. Vel smalaðist í þeim tilfellum þar sem þoka byrgði gangnamönnum ekki sýn og í þeim tilfellum þar sem kindurnar voru alveg til í að koma heim. Einhverjar undantekningar voru vissulega á þessu enda misjafn sauður í mörgu fé eins og sést á mér. Nýlega fundust nýir og áður óþekktir sauðalitir hér á landi. Til dæmis fannst úlfagrár hrútur en rannsóknir eiga eftir að skera úr um hvort hér sé á ferðinni alvöru úlfagrár hrútur eða bara dæmigerður úlfur í sauðagæru, sem er vel þekkt fyrirbæri hér á landi. Einnig hafa fundist vinstri-grænbláir sauðir og píratabláir gemsar en stjórnmálafræðingurinn Rútur Hrútsson telur líklegt að nýir sauðalitir muni finnast í öllum helstu stjórnmálaflokkum áður en langt um líður.

Misjafn er sauður í mörgu fé
magnþrungin eru hin helgu vé
koníakspela þú lést mér í té
höfuð og herðar, tær og hné.

Hvers lags rugl er þetta? Svipað rugl og var á bílaleigubíl Teigamanna sem harðneitaði að keyra áfram um gangnahelgina ef fótstigið var drullugt. Þetta var hægara sagt en gert á drullugum malarvegi og lengdi þetta þar af leiðandi alla millitíma og öll pissustopp umtalsvert og setti alla ferðaáætlun úr skorðum. Tungurétt var troðfull af túristum og trallandi gangnamönnum sem tæmdu kaffiskúr kvenfélagsins Tilraunar og borðuðu allt brauð upp til agna. Fé var af skornum skammti en stundum er þetta ekki spurning um magn heldur gæði. Réttarballið fór fram á Höfða að kveldi sunnudags og fór það ekki framhjá neinum. Velunnarar Höfða höfðu veg og vanda að ballinu, réðu Landabandið og Sissa og Berg í dyrnar og réðu sér svo vart fyrir kæti, ekki frekar en aðrir ballgestir sem skemmtu sér vel að því ég best tel. Sjoppusala Umf. Þorsteins Svörfuðar gekk líka vel. Allt bakkelsi ætlað hljómsveitinni var selt ballgestum á uppsprengdu verði og hefði eflaust verið hægt að selja miklu meira. Annars þarf ekki að hafa fleiri orð um ballið, það er nóg að vitna í braginn góða eftir Árna Hjartarson Tjarnarbróðir:

Á Höfðaballi haugfullt stóð
herjar á meyjafansinn.
Undir vegg við fíflum fljóð
og förum svo í dansinn.
Augafullir erum við í kvöld,
augafullir erum við í kvöld,
augafullir erum við í kvöld
og örugglega á morgun!

Æi vá Einar er ekki mál að linni? Jú svona að þessu sinni. Er gamaldags rímnamál inni? Nei en kannski ef ég það betur kynni.

Hvað með hvalveiðibannið, fjárlagafrumvarpið, orkuskiptin, gervigreindina, flóttamannavandann, öfgaveðurfarið og alheimsvánna? Sá tittlingaskítur verður bara að bíða þar til næst. Það er ekki eins og að hörmungarnar séu að fara neitt hvort sem er.

Hörmulegt er ástandið
en ömurðina set á bið
skemmti ég mér frekar við
að fylla út skattaframtalið. 

Hræðilegt er útlitið
og ekkert útlit fyrir frið
huga mínum gef ég grið
og glápi á fótaskammelið.

Af einlægni ég vona og bið
að kærleiksríka mannfólkið
stígi aftur inn á svið
og sátt og elsku leggi lið.

Of mikið?

Alltof oft ég kýli kvið
svo kviðurinn leggst út á hlið
mikið voða rek ég við
enda kláraði ég allt konfektið.

Já þetta var of mikið.

Hafið þið heyrt um veðurfræðinginn sem flutti til útlanda? Hann las nefnilega að það væri enginn spámaður í eigin föðurlandi.

Einar uppgenginn.

Tilvitnun dagsins:

Allir: Nei bara rím!!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *