Orðin rasandi bit

Gáttuðu lesendur.

Rosalega er kalt hérna og mikill gustur. Hvernig stendur á þessu? Já ég sé það núna. Félagaskiptaglugginn er opinn. Best að fara og loka honum, bíðið aðeins.

Já þetta var miklu betra. Gott kvöld og velkomin í dagskrárliðinn „Einar er aldeilis hlessa“. Í þætti kvöldsins mega lesendur eiga von á góðu þar sem undirritaðan rekur ítrekað í rogastans í hverju stórmálinu á fætur öðru og kemur loks varla upp orði af undrun. Fylgist endilega spennt með hverju ég verð kjaftstopp yfir fyrst, en áður en það gerist skulum við fara í smáauglýsingar.

Vantar þig tilboð í flutninginn? Hafðu samband við annað hvort okkur hjá Eimskip eða okkur hjá Samskip og við finnum út það hagstæðasta fyrir þig. Það skiptir engu við hvorn þú talar. Það munu allir græða…nema kannski þú! Áratugalöng samvinna, samstarf og samráð – vönduð vinnubrögð. Eimskip og Samskip – flytjum saman!

Farmiði til Íslands fæst gefins – ég er hættur við. Leonardo Di Caprio.

Tapað fylgi. Fylgi sem nóg var af fyrir kosningar er nú týnt og tröllum gefið. Fundarlaunum heitið. Ríkisstjórnarflokkarnir.

Okkur er annt um umhverfið. Viltu fljúga með góðri samvisku? Pantaðu þá far með okkur og við sjáum um að kolefnisjafna ferðina með gróðursetningu trjáa. Icelandair.

Óskum eftir því að ráða tugi skógarhöggsmanna til að fella yfir þrjúþúsund tré í Öskjuhlíðinni, öryggisins vegna. Icelandair.

Ný íslensk hrollvekja/spennumynd, Kuldi, var frumsýnd nú fyrr í kvöld. Myndin fjallar um hóp fólks úr þremur stjórnmálaflokkum sem reynir í sameiningu að stjórna örþjóð úti í ballarhafi með málamiðlunum. Til að byrja með gengur allt vel en þegar á líður tekur að anda köldu á milli foringjanna í hópnum með skelfilegum afleiðingum. Alls ekki við hæfi Bjarna…..barna. Ég er svo aldeilis hlessa.

Matvælaráðherra hefur nú leyft hvalveiðar að nýju, eftir sumarlanga yfirlegu og hugarangist. Leið hún kvalir? Nei. Hvalveiðar eru nú leyfðar með hertum skilyrðum frá því sem áður var, til að koma til móts við mannúðar- og hvalúðarsjónarmið. Samkvæmt nýbirtri reglugerð verða hvalveiðimenn að hafa að minnsta kosti fimm ára reynslu, fimm sentimetra skegghýjung, mynd af Kristjáni Loftssyni á náttborðinu og akkeristattú á upphandleggnum. Samkvæmt sömu reglugerð verður aðeins heimilt að veiða hvali sem náð hafa 15,2 metra lengd, eru með greindarvísitölu undir 140 og eru í kjörþyngd. Upphaflega var til skoðunar hjá ráðherranum að innleiða svokallaða veiða-sleppa aðferð eins og reynd hefur verið við sportveiðar í íslenskum ám með góðum árangri en fallið var frá þeirri hugmynd í ráðuneytinu á lokametrunum þar sem aðferðin var talin of flókin í útfærslu. Ég er svo aldeilis forviða.

Erlendar stórstjörnur og spíssbúbb hafa tekið þessum fregnum afar illa og hóta því nú í umvörpum að sniðganga Ísland haldi þjóðin hvalveiðum sínum til streitu. Að vísu hafa fæstar þessara erlendu stórstjarna látið sjá sig við Íslandsstrendur hvort eð er þannig að trúlega verða áhrif þessara hótana óveruleg. Sjálfur ætla ég að halda áfram að sniðganga Hollywood í mótmælaskyni en ég hef að vísu aldrei komið þangað. Svei mér þá.

Forseti spænska knattspyrnusambandsins rak fyrirliða spænska kvennalandsliðsins…….rembingskoss. Á munninn. Í miðjum fagnaðarlátum eftir sigur Spánverja á HM kvenna í fótbolta. Já ég skil. Ekki. Ekki hefur koss á fótboltavelli valdið jafn miklu fjaðrafoki síðan Ingólfur Hannesson íþróttafréttamaður kyssti Guðjón Þórðarson þjálfara íslenska karlalandsliðsins á kinnina í beinni sjónvarpsútsendingu eftir jafnteflisleik við Frakka á Laugardalsvelli þarna um árið. Ja hérna hér.

Heyskap er nú víðast hvar lokið eða að ljúka. Heyfengur er almennt talinn góður í Svarfaðardal og heygæði í fínu lagi. Á Urðum endaði slátturinn með því að vinkildrifið á sláttuvélinni brotnaði frá sjálfri sláttuvélinni á síðustu fermetrunum á síðasta stykkinu sem slegið var og var því ekki slegið meira í það skiptið. Sölvi verktaki á Hreiðarsstöðum kláraði dæmið. Síðan sá Sölvi verktaki á Hreiðarsstöðum um að garða en Gunnar verktaki í Göngustaðakoti hefur einnig verið til taks í görðun undanfarin ár. Kalli verktaki í Brekku sá svo um að rúlla. Hver sér eiginlega um að greina frá þessu öllu hér á blogginu hans Einars? Nú auðvitað Arnaldur verktaki Indriðason. Af hverju að bagsa við þetta sjálfur þegar hægt er að fá mun hæfari verktaka til að afgreiða málið? Einar, ertu ekki lentur úti í skafli með þetta? Jú en það er allt í lagi, ég fæ bara Sigvalda verktaka í Hofsárkoti til að moka mig upp á núll einni. Dámar mér ekki.

Senn taka haustverk við til sveita og þar á meðal eru göngur og réttir. Stutt er í að gera þurfi ballfært í samkomuhúsinu Höfða en þar hefur hið árlega réttarball verið haldið frá ómunatíð og jafnvel lengur. Einhverjir halda að Sissi og Bergur hafi mætt til dyravörslu jafnvel nokkru áður en dyrnar voru smíðaðar og mun það vera rétt. Mikið líf hefur verið á Höfða nú í júlí og ágúst og hvert samkvæmið rekið annað. Einar aðstoðarkirkjuvörður í Urðakirkju sá sér leik á borði í sumar og bauð mörgum verðandi brúðhjónum tveir fyrir einn pakka sem fólst í því að gifta sig á tilboðsverði í Urðakirkju með því skilyrði að viðkomandi myndu taka Höfða á leigu undir veisluhöld. Þetta virkaði afar vel og því líklegt að pakkatilboðið verði síðar meir útvíkkað og nái þá einnig yfir kirkjugarðinn og erfidrykkjuna. Alveg er ég bit á köttinn.

Karl með krumlu greip um pung
og kyssti konu skæður
Aumt er að líta oflátung
á velli rang var stæður. 

Þess má til gamans geta að það er val að veiða hval.

Einar á sjónum.

Tilvitnun dagsins:

Allir: Er nauðsynlegt að skjóta þá?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *