Gosglöðu lesendur.
Þegar gýs þá þarf að skoða gosið, þó vissulega hefðu sumir kosið að finna íshelli hvar allt er frosið og fest á filmu jökulkalda brosið. Eruð þið alveg í spreng? Losið. Ef þið eruð föst, þá tosið.
Það hefur orðið vart við töluverðan óróa á Reykjanesi undanfarið. Um ræðir svokallaðan gosóróa sem nær bæði til jarðskorpunnar og eins til ferðamanna sem eru afar gosórólegir og ekki í rónni fyrr en þeir komast upp að eldgosinu…og helst ofan í gíginn. Hraunjaðarinn kallar fólkið til sín og sumir hafa raunar gengið svo langt að ganga of langt, alla leið inn á nýja hraunið og leggja sig þar með í stórkostlega hættu. Hættu. Sumum er ekki viðbjargandi og það mun væntanlega raungerast ef fólk passar sig ekki. Í Vestmannaeyjum halda menn upp á goslok en ferðamannaiðnaðurinn þráir ekkert heitar en að gosið muni malla áfram næstu mánuðina. Ef að líkum lætur verður fjölmennsta útihátíðin um verslunarmannahelgina Gosi 23 – Gosgleðin við Litla-Hrút. Þessa dagana er verið að leggja drög að bílastæðum, salernisaðstöðu, malbikuðum vegi, veitingasölu og uppsetningu útisviðs við gosjaðarinn. Það verður margt í boði á Gosa 23. Slökkviliðið í Grindavík mun sýna tækjabúnað sinn, börnin fá hraun, gos og sinubrennt kandífloss og hápunkturinn verður auðvitað hinn klassíski mannvitsbrekkusöngur við gígbarminn á sunnudagskvöldinu þar sem Brunaliðið stígur á stokk, Pálmi Gunnars tekur Af litlum neista og Eivör flytur singalong útgáfu af Nú brennur þú í mér. Eini gallinn er hversu erfitt er að syngja þegar þú ert með lífsnauðsynlega gasgrímu á andlitinu en það verður víst ekki á allt gosið…kosið.
Til fróðleiks; fimm misheitir eða kaldir ferðamannastaðir á Íslandi, mældir á celsius:
- Eldgosið við Litla-Hrút, 1.100 gráður.
- Vegurinn yfir Hellisheiði, 100 gráður.
- Geysir, 80 gráður.
- Bláa lónið, 37 gráður.
- Bloggsíða Einars Haf, vitsmunalegt alkul.
Í þessa upptalningu vantar reyndar býsna heitan áningarstað ferðamanna; Urðakirkju í Svarfaðardal. Þangað hefur á þriðja tug ferðamanna lagt leið sína það sem af er sumri og orðið agndofa yfir fegurð staðarins sem og fegurð ábúenda á Urðum. Hingað til hafa hús og híbýli hér á jörðinni, þar á meðal kirkjan, verið upphituð með rafmagni þar sem engin hitaveita er á staðnum. Nú er rafmagnið hins vegar orðið svo dýrt að sóknarnefnd hefur séð sig knúna til að snúa sókn í vörn og skrúfa niður í rafmagnsofnunum í kirkjunni í sparnaðarskyni. Dýrð sé Guði í rosalega háum upphæðum á reikningum frá Rarik og Orkusölunni. Amen. Héðan í frá mun þurfa að treysta eingöngu á trúarhitann til að kirkjan haldist frostfrí. Hólí mólí.
Hvernig var þetta með djöfulinn? Stóð’ann eða sat’ann? Man þetta aldrei.
Það er víða hiti í kirkjum og sóknarbörnum landsins, hvort sem hann stafar af hitaveitu, raforku eða trúarhita. Á Biskupsstofu er mjög heitt og einhverjir sveittir á efri vörinni en það er vegna þess að þar logar allt stafnanna á milli. Mikil ringulreið ríkir innan Þjóðkirkjunnar eftir að því var slegið upp í fréttum að það væri ekki Guð Almáttugur sem skipar biskup í embætti eins og flestir héldu, heldur sjá forseti kirkjuþings og ritari biskupsstofu um það á svokölluðu gráu svæði. Þetta kom mörgum í opna skjöldu. Hver skipar þá eiginlega forseta kirkjuþings og ritara biskupsstofu í embætti? Nú auðvitað Páfinn. Samkvæmt fréttum ríkir lagaleg óvissa um stöðu biskups en ég er lagalega óviss um hvað það þýðir. Ég gæti þurft að glugga í Biblíuna til að átta mig á þessu en eins og allir vita er svörin að finna í hinni helgu bók.
Til stóð að biskup fengi að halda embætti sínu þar til tækist að vígja nýja Miðgarðakirkju í Grímsey. Þar hefur framkvæmdatími hins vegar riðlast og framkvæmdakostnaður rokið upp úr öllu valdi. Fyrir smiðum og arkitektum er einn dagur sem þúsund ár og framvinda verksins öll í samræmi við það. Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri mun kostnaðurinn verða orðinn allt að því himneskur þegar verkinu loksins lýkur, einhvern tímann milli jóla og páska. Þá er eins gott að fara að biðja Guð að hjálpa sér.
Heyr kirkjusmiður Grímseyingur biður guðshús um að fá þó það kosti smá. Senn þeir gerast gramir óhamingjusamir ennþá kirkju án með yfirdráttarlán.
Ég er ekki viss um að það sé góð hugmynd að hætta sér út í þessa sálma. Er ekki miklu skemmtilegra að tala um hlýnun andrúmsloftsins, brotthvarf hafstrauma og yfirvofandi tortímingu hins byggilega heims? Æi ég nenni því ekki. Hvað þurfa Íslendingar annars að gróðursetja mörg tré til að kolefnisjafna þetta eldgos?
Þegar ég heyri fréttir og les blöð og netmiðla verð ég ekki bara hvumsa, gáttaður og hneykslaður heldur einnig steinhissa og rasandi bit. Til dæmis kemur það mér auðvitað rosalega á óvart að við Íslendingar skulum enn vera að bæta í útblástur gróðurhúsalofttegunda, þvert á öll markmið og allar samþykktir alls staðar. Bíðið andartak meðan ég næ hökunni upp úr gólfinu. Ég meina, fólki fjölgar, ferðamönnum fjölgar, bílum fjölgar, skemmtiferðaskipum fjölgar, eldgosum fjölgar, utanlandsferðum fjölgar og ástæðum til að breiða upp fyrir höfuð og gefast upp fjölgar. Þess vegna kemur þetta svakalega á óvart. Það má reyndar geta þess að bloggsíða Einars Haf stefnir á orkuskipti fljótlega, enda er Einar Haf alveg grænn í flestum málum.
Svört, svört, svört er lifrin mín um helgar svört, svört, svört er loftslagsskýrslan mín ekkert er bjart, bjart, allt er bara svart, svart svart er útlitið og bókhaldið.
Þess má geta að samkvæmt nýjustu útreikningum er vonlaust að kolefnisjafna eldgosið með gróðursetningu trjáa þar sem þau munu fyrr en síðar verða skógareldum að bráð – og auka þar með enn á vanda okkar.
Einar heitur og líka pínu feitur.
Tilvitnun dagsins:
Allir: HEEEIIIITTTTT!!!!