Orð lýðveldisins

Góðir Íslendingar.

Þar sem ég stend hér á hlaðinu, hagræði mér í skautbúningnum, les uppáhalds greinarnar mínar úr stjórnarskrá íslenska lýðveldisins, helli upp á Braga kaffi, steiki kleinur, tek verðtryggt lán, þamba fjallavatn og horfi yfir fífilbrekku og gróna grund get ég ekki annað en fellt tár. Bæði vegna eigin fegurðar og einnig vegna fegurðar landsins. Ósnortin náttúra lætur engann ósnortinn. Lesendur fella líka tár en það tengist þó ekki ósnortinni náttúru heldur þeirri staðreynd að hátíðarávarp hinnar Svarfdælsku fjallkerlingar er nú komið í loftið. Þess má geta að fjallkonan í ár er greind í þykistunni, sem sagt gervigreind.

Þjóðlegu landsmenn. Það eru erfiðir tímar og jafnvel atvinnuþref. Fjárhagsstaða margra er slæm, vonin dræm, Geiri var Sæm og ég á ekkert Daim. Einkum og sér í lagi er fjárhagsstaða ríkissjóðs döpur og skuldastaðan nöpur. Langlundargeð Íslendinga er sem betur fer endurnýjanleg auðlind. Þessi auðlind hefur verið virkjuð óspart og ítrekað til að halda ríkisfjármálunum á floti gegnum árin og áratugina. Í dag má reyndar ekki virkja neitt nema þá hugsanlega ímyndunaraflið en Íslendingar eru alveg grænir þegar kemur að grænum orkuskiptum. Alltaf þegar gefur á bátinn og vandi steðjar að ríkissjóði eins og nú um stundir kemur þjóðin til bjargar og borgar glöð hærri skatta og hærri gjöld svo hið opinbera geti staðið undir sér og mér. Ég meina, það kostar skildinginn að framfleyta heilli fjallkonu. Það er von ráðamanna að íslenska langlundin gangi ekki til þurrðar í náinni framtíð, því ef svo fer erum við öll í djúpum skít.

Er þetta hóll eða hæð? Nei sérðu ekki að þetta er fjall kona!

Afsakið, smá hökt í útsendingunni og snökt í fjallkonunni. Ekki grunaði mig að það væru alvöru rafskaut á þessum skautbúningi en það er önnur saga.

Þolgóðu landsmenn. Það er ekki nóg með að ríkissjóði sé borgið ef þið borgið. Með sama hætti og af sömu fádæma fórnfýsi borgar þjóðin glöð hærri vexti og hærri verðbætur þannig að hér geti áfram þrifist sómasamlegt bankakerfi með ofurlaunum, arðgreiðslum og hæfilegu magni af siðblindu eins og tíðkast í hinum siðmenntaða heimi. Maður tárast bara yfir eljunni. Já og óspilltu náttúrunni líka. Grenjuskjóða.

Þrautreyndu landsmenn. Ríkið – það er ég. Sagði einhver. Einhverntímann. Ég borga minn fjallkonuskatt með glöðu geði og legg þar með mitt af mörkum til samneyslunnar. Ég læt þó ekki þar við sitja. Ég hef með óhóflegum akstri milli Svarfaðardals og Akureyrar reynt að láta gott af mér leiða gegnum eldsneytisgjöld á liðnum árum. Þá hef ég tekið áfengisgjaldið til kostanna og fagna ég því ákaft í hvert sinn sem ráðamönnum dettur í hug að hækka gjaldið í þágu þjóðarinnar. Auðvitað læt ég það ekki eftir mér að fara reglulega í drykkjarvöruverslun ríkisins, kaupa ríkisdjús á ríkistaxta og detta svo í það í þágu góðs málefnis og með góða samvisku. Er neyslan vandamál? Já pínu en þetta kemur samneyslunni vel þannig að ég er sáttur. Mig er samt aðeins farið að klæja undan skautbúningnum og svo svíður mér í framan vegna allra táranna sem féllu hér áðan. Vælukjói.

Þjökuðu landsmenn. Næst ætla ég að fjalla um fjallavötnin fagurblá, föðurlandið, land míns föður, landið mitt, laugað bláum straumi og þá fjölmörgu kosti og örfáu galla sem Ísland hefur. Full fyrirsjáanlegt? Já ég er full fjallkona og það var fyrirsjáanlegt. Ef til vill þó ekki jafn fyrirsjáanlegt og þegar forsætisráðherra talaði um verðbólgu í sínu hátíðarávarpi. Viltu ekki bara fara að grenja? Jú ég er reyndar löngu byrjaður á því.

Þrælmyndarlegu landsmenn. Íþróttafólkið okkar heldur áfram að gera það gott vítt og breitt um heiminn. Nýjasta dæmið er íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu sem er nú komið með nýjan og ferskan norskan ellilífeyrisþega, Áka Háreyði, sem aðalþjálfara. Liðið hélt upp á það í dag með því að yfirspila Slóvaka og tapa samt bara 2-1. Ha? Já. Mér þótti þetta líka vel sloppið. Slóvakar eru jú margfalt fleiri, margfalt stærri og margfalt heppnari en við. Ef einhvern tímann var rétt ákvörðun að leggjast í grasið og gráta var það í leikslok nú áðan því ef þú vorkennir ekki sjálfum þér, hver á þá að gera það? Sé ég tár á hvarmi? Já, réttið mér vasaklútinn.

Þurrpumpulegu landsmenn. Bráðum kemur ekki betri tíð því betri getur tíðin ekki orðið. Ég meina, 20 gráður og hægviðri. Gerist ekki betra. Þetta vitum við fullvel en samt berjum við höfðinu við steininn og viljum meira enda vel full og það veit ég líka fullvel. Aldrei myndi neinn bláedrú berja höfðinu við stein viljandi en slysin geta gerst. Í tilefni af góðri tíð og vegna fjölda áskoranna hófu Urðabændur heyskap fyrir miðjan júní sem heyrir til tíðinda. Oft höfum við beðið þess að blómstrið eina spretti úr sér áður en látið er til skarar skríða en í ár var ákveðið að reyna nýja og óvænta nálgun. Ólíkt bloggsíðu Einars Haf var að þessu sinni lögð meiri áhersla á gæði heldur en magn þannig að rúllurnar eru það sem af er í færri kantinum en þeim mun gæðalegri. Ósléttu óslegnu túnin eiga vonandi eftir að spretta nokkuð næstu daga og þá verður vonandi hægt að halda baráttunni áfram. Það sem þú gerir í sveitinni á sumrin gengur jú allt út á það að hjálpa þér og bústofninum að lifa næsta vetur af, með einum eða öðrum hætti. Hey grasasni, ertu enn að væla? Já afsakið, er þessi skautbúningur ekki örugglega vatnsheldur?

Ísland er æði, það vitum við öll,
karlar og konur kenndar við fjöll.
Náttúran ósnortin, tárast ég senn
við að hugsa um vindbarða hrafnistumenn.  

Þrútnuðu landsmenn. Þrátt fyrir margbreytilegar hörmungar og hrylling í heiminum hef ég fulla trú á því að þetta verði allt í lagi. Já þetta lagast pottþétt allt saman. Þetta reddast eins og alltaf. En auðvitað get ég leyft mér að halda því fram, komandi af fjöllum þegar öll erfiðu málin ber á góma. Hvað er best að bera á góma? Örugglega bara tannkrem.

Bletturinn við samkomuhúsið Höfða í Svarfaðardal, 17. júní 2023.

Einar fjallkonur.

Tilvitnun dagsins:

Allir: Áfram Ísland!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *