Vel vörðu lesendur.
Veturinn var grimmur og gaf mér fáa kosti, svo ógurlega dimmur með alltof miklu frosti. Í sumarbyrjun samloku ég fæ með smjöri og osti, bloggskrif Einars valdið hafa aðdáendum losti. Að sleppa þessum inngangsorðum, hvað ætli það kosti?
Sumar og vetur frusu ekki saman fyrr en tæpum mánuði eftir að sumarið byrjaði. Boðar það ekki gott? Nei. Það boðar heldur ekki gott að Einar Haf skuli hafa risið upp á afturlappirnar og lagt til atlögu við lesendur. Netnotendur þurftu að sitja undir stöðugum netárásum í tengslum við leiðtogafund Evrópuráðsins þar sem meðal annars var ráðist á vefsíður Alþingis, dómstóla, ráðuneyta og Dalvíkurbyggðar. Alvarlegasta netárásin af þeim öllum er þó klárlega yfirstandandi netárás Einars Haf, sem notar netið til árása á grunlausa lesendur. Það er að vísu ekki fréttnæmt.
Ég er hvorki á nöglum né nálum yfir veðurkortunum, enda kominn á sumardekkin. Ég lét umfelga þegar sumarið gekk í garð og ætlaði að koma mér aftur á sömu dekk og tekin voru undan bílnum í haust (desember reyndar). Bílnum? Já, þið munið. Nissan Quashqai árg. 2016 með leðjubornum undirvagni, sætishita, samanleggjanlegum aftursætum, bakkmyndavél sem aldrei sést neitt í vegna drullu og geisladiskaspilara svo fátt eitt sé nefnt. Frábær bíll en skelfileg dekk? Já. Það kom í ljós að eitt dekkið var ónýtt og ekki á vetur setjandi…í sumar. Ekki gekk að kaupa bara eitt nýtt dekk og ég keypti því tvö ný dekk og hugðist nota tvö minnst ónýtu sumardekkin að aftan. Eftir umhugsun sprenglærðra dekkjasérfræðinga, það er að segja níkótínpúðaðra ávaxtaanganveipandi karlakarla með tattú upp um alla handleggi, var niðurstaðan hins vegar sú að kaupa 4 ný sumardekk. Tvö notuðu dekkin að aftan væru svo ólík nýju óslitnu dekkunum tveimur að framan að það myndi aldrei enda öðruvísi en illa. Ég lagði niður skottið, lokaði skottinu, borgaði tæpar hundrað þúsund krónur og spændi svo í bláa botni út á götu á glænýjum dekkum. Einar úti að aka? Það er ekki fréttnæmt.
Dekkjaþemað hefur teygt sig mun lengra en ég gerði ráð fyrir í upphafi. Skítadreifarar, dráttarvélar og önnur tæki sem ég hef komist í tæri við hafa flest endað á felgunni með ófyrirséðum afleiðingum og verulegum fjárútlátum. Ég var varla byrjaður að hugsa um það að þeyta kúamykju um allar koppagrundir þegar keðjudreifarinn affelgaðist. Þeir hjá Steypustöðinni gátu bjargað því en á sama augnabliki og dekkið fór undir aftur varð gamla Ferguson dráttarvélin loftlaus úti á túni. Þeir hjá Steypustöðinni gátu bjargað því en í síðustu skítkeyrsluferðinni kom gat á dekk keðjudreifarans og aftur varð dreifarinn, sem ég kalla reyndar lortaþeyti við hátíðleg tækifæri, vindlaus – eins og ökumaðurinn. Þeir hjá Steypustöðinni ætla að bjarga því en æru og sjálfsáliti undirritaðs verður hins vegar ekki bjargað, ekki einu sinni af Steypustöðinni. Það er ekki fréttnæmt, bara sorglegt.
Það fór auðvitað mjög illa, jafnvel afleitlega, fyrir okkur Íslendingum í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva nýverið en það er að vísu ekki fréttnæmt. Þrátt fyrir mikla fyrirhöfn og mikinn tilkostnað varð niðurstaðan 11. sæti af 15 í síðari undankeppninni og þar með var draumurinn um Nínu búinn. Sérfræðingar telja að umdeildar hvalveiðar Íslendinga hafi riðið baggamuninn og orðið til þess að góða fólkið í Evrópu kaus okkur ekki áfram. Þá er ljóst að vinsældir Íslands hafa enn ekki náð fyrri hæðum eftir bankahrunið, Icesave klúðrið og Eyjafjallajökulsgosið. Gæði júróvísjónlags og flutningur skipta litlu máli samanborið við hið pólitíska landslag. Hvaða lag var svo best? Pólitískt landslag? Nei reyndar bara sænskt verksmiðjupopplag flutt af marflatri, muldrandi söngkonu íklæddri leðjubrúnni lufsu og gervikrumlum en það er alls ekki fréttnæmt. Og þú færð að sjá það sem enginn sér.
Það var nú alveg meiriháttar fyrir okkur Íslendinga að fá eitt stykki leiðtogafund Evrópuráðsins upp í hendurnar þarna um daginn, nánast á silfurfati. Öll þessi landkynning og allt þetta umtal mun koma okkur vel þegar góða og rétthugsandi fólkið í útlöndum ákveður hvaða land það eigi að heimsækja næst, nema kannski fólkið sem er á móti hvalveiðum og kaus okkur ekki í Júróvísjón. Við kærum okkur hvort eð er ekkert um það fólk hingað. Ísland, fagra Ísland. Landið sem er svo dúllulegt og æðislegt. Nú sér heimurinn allur að það er einfalt og öruggt að heimsækja Ísland. Umstang og öryggisgæsla við leiðtogafundarhöldin kostaði einungis um 2 milljarða króna sem kallast vel sloppið. Þökk sé lögregluliði með alvæpni, þyrlueftirliti og víðtækum götulokunum gátu Ali Baba og ráðamennirnir fjörtíu verið alveg öruggir þar sem þeir sátu innan um glerveggina og gróðurhúsamosann í Hörpu og hlýddu hver á annan ræða um heimsfrið eða skort á heimsfriði. Steðjar vá að heimsbyggðinni? Vá, segi ég nú bara….en það er alls ekki fréttnæmt. Helsta umræðuefni fundarins mun hafa verið hversu góð öryggisgæsla var á fundinum og nauðsyn þess almennt að hafa góða öryggisgæslu fyrir þjóðarleiðtoga. Í lok fundarins sendi fundurinn frá sér ályktun þess efnis að Rússar væru bara leiðinlegir en sem betur fer hafi þjóðarleiðtogunum liðið vel á fundinum vegna góðrar öryggisgæslu og þeir geti vel hugsað sér að koma aftur til Íslands.
Þó það sjáist ekki endilega á þessari bloggfærslu þá fór ég nýverið á námskeið í skapandi skrifum, öðru sinni. Þar var reynt að hrista upp í heilasellunum og virkja sköpunarkraft nemenda við sagnaskrif, uppbyggingu sögu og persónusköpun svo eitthvað sé nefnt. Þetta er spurning um í hvaða persónu maður skrifar, fyrstu eða þriðju? Já það er nú það Einar. Allt saman ljómandi skemmtilegt en hver er svo árangurinn?
Jónas stökk bak við runnann þegar hann varð þess áskynja að Stefanía stóð við gluggann með kaffibolla og horfði út í vorið. Stefanía heilsurúmasölukona, eða það hét hún í huga Jónasar að minnsta kosti. Hann ætlaði sér að koma henni á óvart, hringja dyrabjöllunni og bjóða henni út að borða í eigin persónu, af því hann þorði ekki að gera það í versluninni. Lúmskur eins og grafarræningi að forðast það að lenda í gildru stiklaði hann á milli trjágróðurs og blómabeða í bakgarði Stefaníu. Hann ætlaði sér að spyrja hvort hann mætti ekki bjóða þessari huggulegu konu út að borða og á sinfóníutónleika. Reyndar ætlaði hann sér að selja henni SÁÁ álfinn í fjáröflunarskyni en hitt átti svo að fylgja með. Hann hafði vitað frá því hann keypti af henni Deluxe heilsurúmið og Tempura koddann í Svefn og heilsu að þessari konu yrði hann að selja álfinn….já og svo eitthvað meira. Hann var svo sem bara með vinnusímann hennar en það voru nægar upplýsingar á þessu stigi. Ekki var hún með hring á fingri. Og hún hafði jú hvatt hann til að hafa samband hversu ómerkilegar spurningar hann kynni að hafa um nýja heilsurúmið. Jónas reyndi að réttlæta fyrir sjálfum sér að banka upp á hjá Stefaníu en hann þurfti svo sem ekki réttlætingu til að fara og selja henni álfinn. Verra væri með það sem á eftir kæmi.
Ég skil. Enginn árangur sem sagt. Jæja, það mátti reyna. Sömu sögu er að segja af Niceair; það mátti reyna. Þegar á reyndi reyndist erfitt að reka flugfélag án flugvélar og því fór sem fór….eða fór ekki neitt. Farþegar sitja eftir með sárt ennið og tómt veskið en það er þó huggun harmi gegn að hugurinn ber þá hálfa leið. Eini sénsinn að Íslendingum takist að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið í náinni framtíð er sá að fleiri flugfélög fari á hausinn og hætti starfsemi – og hætti þar með kolefnisútblæstri. Vonum það besta og verum bjartsýn….sem er reyndar fréttnæmt.
Tíðarfar í maí hefur verið nokkuð blautt, eins og ég, en það er ekki fréttnæmt. Það hefur líka verið töluvert hvasst, svona eins og viðmót mitt en það er ekki fréttnæmt. Sólin er einhvers staðar í felum eins og mitt innra sjálf en það er ekki fréttnæmt. Malarvegurinn er holóttur eins og persónuleiki minn en það er ekki fréttnæmt. Ég veit reyndar ekki hvers vegna ég er að segja ykkur þetta þar sem þetta er ekki fréttnæmt en það er reyndar ekki fréttnæmt heldur.
Í Hörpu herrar dagpart dvöldu drottnarar á landi köldu ræddu heims um ból gott var þeirra skjól í sprengjubyrgi margföldu.
Stýrivaxtahækkun, ófremdarástand á húsnæðismarkaði, skuldafangelsi og landflótti? Nei, ekki fréttnæmt heldur.
Einar fréttaónæmur.
Tilvitnun dagsins:
Allir: HVAÐ ER AÐ FRÉTTA???