Orð í kross

Trúarlegu lesendur.

Þjáningarnar eru miklar. Sársaukinn er áþreifanlegur. Sorgin er alltumlykjandi. Það er við hæfi að sorglegasti og langorðasti bloggarinn Einar Haf í samstarfi við þjóðkirkjuna og Golgata tannkrem birti sorglega og langa bloggfærslu á sorglegasta og lengsta degi ársins. Vá hvað þetta er sorglegt.

Já manni er nú ekki hlátur í hug á þessum degi, enda er þetta dagur sorgar og dagur lyga. Jesús var svikinn, dæmdur og krossfestur af fjandmönnum sínum og höfum við hin fengið að súpa seyðið af þeim gjörningi allar golgötur síðan.

Nútíma útgáfa krossfestingar kallast slaufun og getur verið alveg jafn sársaukafull og hamar og naglar í lófann. Jesús reis á þriðja degi aftur upp frá dauðum en hins vegar eru aðeins örfá dæmi þess að slaufaðir rísi aftur upp frá dauðum. Í þau fáu skipti sem það gerist er það alltaf jafn umdeilt og ótrúlegt, alveg eins og hjá Kristi forðum. Svo getur það reyndar líka gerst að þeim sem slaufa er slaufað , ekki satt Frosti?

Ég ætla auðvitað ekki nánar út í þessa sálma, enda má ég ekki við slaufun. Það er miklu nær og raunar mun meira viðeigandi að fara út í Passíusálmana. Þar fer séra Hallgrímur Pétursson í ramm stuðluðu máli og miklum smáatriðum yfir píslarsöguna og allar þær þjáningar sem Kristur mátti þola. Sálmarnir eru lesnir viða í kirkjum landsins nú um páskahátíðina og ekki vanþörf á. Þeir sem ekki nenna að hlusta á passíusálmana geta auðvitað tekið sorgina upp á næsta stig og hlýtt á upplestur ríkisstjórnarinnar á nýrri fjármálaáætlun en þar eru þjáningarnar einnig í fyrirrúmi. Sérstaklega sorgleg þykja erindin um hækkun tekjuskatts á fyrirtæki og frestun ríkisframkvæmda.

Það næsta sem ég hef komist því að fara á kenderí það sem af er þessum páskum var þegar ég gekk til altaris í Urðakirkju að kveldi Skírdags og teigaði blóð krists úr bikar lífsins. Mæting í messuna var sorgleg eins og flest annað sem talið hefur verið upp hér í þessari bloggfærslu. Eflaust dró það nokkuð úr mætingu þegar spurðist út hver myndi hringja kirkjuklukkunum og eins þegar það fréttist að heimilisfólkið á Urðum myndi ekki opna húsakynni sín að messu lokinni og bjóða gestum og gangandi upp á messukaffi. Þegar metta þarf heilan kirkjukór og tæpan tug kirkjugesta duga ekki fimm brauð og tveir fiskar líkt og í gamla daga, þess vegna var alveg eins gott að sleppa þessu og láta oflátuna duga. Eins sorglegt og það nú er.

Mikið súkkulaði hefur bráðnað til sjávar síðan fyrsta páskaeggið var steypt í mót og ungi settur ofan á. Í dag er hægt að fá allar stærðir og allar gerðir af páskaeggjum, með mismunandi bragði, mismunandi á litinn og mismunandi áferð. Innihaldið er einnig afar mismunandi og þá eru ótaldir sjálfir málshættirnir, sem eru í raun það sem málið snýst um. Ég get alveg tekið það á mig að stúta heilu páskaeggi svo lengi sem ég fæ góðan málshátt. Í fyrra fékk ég málsháttinn ,,enginn verður af einum bita feitur“. Þetta hef ég haft í huga í öllum matartímum síðan og bara tekið einn bita. Svo tekur maður einn bita, síðan einn bita, þá einn bita og þannig koll af kolli. Virkar þetta? Nei alls ekki og auðvitað bita ég mig á það. Já og meðan ég man, ég er ekki eins framstæður og margir halda en hins vegar er ég afar bitastæður.

Tollheimtumenn og farísear mæla eindregið með óverðtryggðum lánum á breytilegum vöxtum. Síðan kemur 10% verðbólga og vaxtahækkun. Þá koma tollheimtumennirnir og farísearnir og hirða af ykkur húsin upp í skuldir. Bankastjóri Jerúsalembanka, Pontíus Pílatus, telur ekkert óeðlilegt við þetta ástand og bendir á að sá yðar er syndlaus er lendir fyrst í vanskilum.

Í öðrum sorglegum fréttum er það helst að aðalfundur Ungmennafélagsins Þorsteins Svörfuðar var haldinn síðastliðið miðvikudagskvöld að viðstöddu fámenni. Fundurinn var í sjálfu sér alls ekki sorglegur en mætingin var frekar sorgleg, ef ekki grátleg. Á fundinum var samþykkt að greiða 5% launahækkun, óbreytta risnu en engan arð. Gjaldkeri félagsins neitar nú sem fyrr að víkja sæti og því lítil von til þess að ástandið skáni eitthvað á næstunni. Til að ná nýju og fersku blóði inn í félagið hefur stjórnin leitast við að skipa fólk í nefndir án vilja og vitundar viðkomandi. Sérstaka athygli vakti skipan í íþróttanefnd félagsins en í nefndina voru kosin þau Guðni Bergsson, Vanda Sigurgeirsdóttir og Arnar Þór Viðarsson. Arnar er að vísu að jafna sig af meiðslum en hann sleit krossband þegar hann var krossfestur af íslenskum fótboltabullum og knattspyrnusambandinu um daginn í kjölfar þess að hafa unnið Lichtenstein aðeins 7-0.

Sorgin yfirtekur sál
af sársauka innra brennur bál.
Píslarsögu hugsa um, 
með páskaegg í maganum. 

Neytendur athugið! Eru þið á bömmer yfir of mörgum utanlandsferðum, taumlausu stóðlífi og guðlasti? Örvæntið eigi. Hinar geysivinsælu syndaaflausnir nú loks fáanlegar aftur eftir langt hlé. Komið og iðrist gjörða ykkar, það er aldrei of seint. Aðeins 9.999 kr., afgreitt bakvið predikunarstólinn í Urðakirkju. Fullum trúnaði heitið. Já einmitt, trúlegt.

Einar Jósepsson

Tilvitnun dagsins:

Allir: DÍSES KRÆST!!!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *