Orðin lang langdregnust

Verkföllnu lesendur.

Ég gæti eflaust þreytt ykkur lesendur með vanhugsuðum og illa samsoðnum inngangsorðum en það ætla ég ekki að gera að þessu sinni. Bara grín. Auðvitað ætla ég að þreyta ykkur lesendur með vanhugsuðum og illa samsoðnum inngangsorðum. Í inngangi ég slæ á létta strengi, skælbrosandi línur saman tengi. Í fatabúð ég fer og kaupi þvengi og starfsfólkið með bolluvendi flengi.

Vá, þessi inngangur klúðraðist gjörsamlega. Já sennilega…en bíðið þið bara. Lengi getur vont versnað eins og nú verður sýnt fram á. Þó skammt sé liðið af árinu hafa mun fleiri lægðir, mun fleiri hægðir og mun fleiri appelsínugular viðvaranir dunið á landinu en góðu hófu gegnir í meðalári. Eða er það ekki svo? Þar sem ég lifi afar spennuþrungnu og oft á tíðum sprenghlægilegu lífi ákvað ég að glugga aðeins í dagbókina og deila því með ykkur hvernig árið hefur farið af stað. Einhverja dagana gleymdi ég að vísu að skrá í dagbókina og þar af leiðandi eru þeir skrásettir hér eftir minni. Það getur ekki verið svo nauið, það er að segja spaugið.

Nýársdagur. Lægð var yfir landinu en það var bara út af gamlárspartíinu. Timburmenn á annesjum og tremmi á stöku stað. Forseti Íslands hélt kynhlutlaust nýársávarp og enginn vissi hvers kyns var.

2. janúar. Lægð var yfir landinu, enda fyrsti mánudagurinn af fimm í janúar. Svifryksmengun í Reykjavík fór yfir hættumörk í þrítugasta sinn frá áramótum, þó það væri bara 2. janúar.

5. janúar. Annar janúar búinn og kominn allt annar janúar. Lægð var á leið til landsins og bloggarinn Einar Haf var í töluverðri lægð. Hægðirnar voru frekar linar þennan daginn, enda verið að vinna upp afganga frá jólunum.

6. janúar. Vel tókst til þegar kveikt var í stærstu þrettándabrennu Umf. Þorsteins Svörfuðar í manna minnum. Björgunarsveitin á Dalvík bauð upp á þriggja ára uppsafnaða flugeldaskothríð. Íslenska knattspyrnulandsliðið karlamegin var í mikilli lægð en það kom reyndar hvergi fram á veðurkortinu.

8. janúar. Ekkert var eftir af þrettándabrennunni nema aska, hurðalamir, naglar og bjórdósir sem ekki brunnu. Verðbólgubálið logaði glatt þrátt fyrir að ekkert brennuleyfi hafi verið gefið út. Veðurfræðingar komu auga á enn eina lægðina….í landslaginu. Það er nú bara eðlilegt.

10. janúar. Ekki ríkti sátt um ríkissáttasemjara, sem breyttist í ríkisekkisáttasemjara. Íslenska handboltalandsliðið undirbjó sig af kappi fyrir komandi stórmót. Nokkrir í liðinu köstuðu eins og kelling, það er að segja Kristian Kjelling, norsk stórskytta. Ekki leiðum að líkjast.

12. janúar. Norðanátt, slydda og gul viðvörun. Veðurfræðingar töldu þó ekki ástæðu til að gera veður út af því, enda alveg nægt veður fyrir. Eflingu og SA tókst hvorki að semja þorrablótsannál, kjarasamning eða júróvísíjónlag en ég aftur á móti reyndi.

13. janúar. Ekki nóg með fimm mánudaga í janúar heldur fengum við líka föstudaginn þrettánda. Hvaða við? Bara við og við. Ég var frekar óheppinn þennan dag eins og marga aðra daga, en þó ekki fyrr en ég fattaði að þetta væri lögbundinn óhappadagur. Ég nýtti tækifærið til að taka út alla mögulega óheppni. Gekk ég því undir stiga þar sem ég mætti svörtum ketti og heyrði um leið í kráku sem var trúlega óheillakráka.

15. janúar. Eindagi staðgreiðslu og tryggingagjalds fyrir desember. Eindagi sálarangistar og trega yfir brotthvarfi jólanna, sérstaklega þegar ég komst að því að næsti rauði dagur á almannakinu er í apríl. Engir kjarasamningar voru undirritaðir og heldur ekki varasamningar sem gott er að eiga til vara.

17. janúar. Lægð fór yfir landið. Fjölmiðlamenn töluðu um snjóstorm og við það fékk ég sár á sálina. Í kjölfarið skrifaði ég harðort bréf stílað á alla helstu málfarsráðunauta og sagði þeim að taka þennan snjóstorm og troða honum upp í kafaldsbylinn á sér. Þriðjudagur og miður janúar, sem mér þótti miður.

19. janúar. Lægðin var gengin yfir, enda yfirgengileg. Bloggarinn Einar Haf hélt áfram að skrifa þorrablótsannál og skemmti sér ágætlega, því heimskur hlær að sjálfs síns fyndni.

20. janúar. Lægð var yfir landinu vegna handboltalandsliðsins. Íslendingar töpuðu fyrir Svíum á heimsmeistaramótinu, stemmningin var hræðileg og strákarnir okkar voru ekki lengur strákarnir okkar. Landsliðinu var þó vorkunn, enda hvorki með nóga breidd eða lengd miðað við önnur lið. Herjaði umgangspesti á heimilið, sú þriðja af átján í röðinni. Kom asnahláka…nei ég meinti asahláka. Margir voru duglegir að bonda, enda bondadagurinn.

21. janúar. Bloggarinn Einar Haf fór ekki á djammið þennan laugardaginn sem er auðvitað ótrúlegt. Honum var ekki boðið í nein partí sem er vissulega ekki fréttnæmt gefið hversu leiðinlegur hann er, en hins vegar las hann allar fréttir sem birtar höfðu verið á Smartlandi það sem af var ári og naut þess í botn að lifa góða lífinu gegnum aðra. Þorrablótsannállinn var settur í súr fram að þorrablóti.

23. janúar. Það var ekki lægð yfir landinu en það lægði yfir landinu. Eflingu og SA tókst ekki að semja enda samdi samningamönnum ekki. Ég vissi ekki hvort ég ætti að tala um mig í fyrstu persónu eða bloggarann Einar Haf í þriðju persónu í næstu bloggfærslu. Það eina sem ég vissi var að þetta yrði hryllilega löng bloggfærsla.

25. janúar. Bloggarinn Einar gerði hosur sínar grænar en það voru mistök, þær áttu auðvitað að vera rauðar. Veikluleg skil fóru yfir landið. Skil? Nei ég skil ekki alveg. Alþingi kom aftur saman eftir jólaleyfi og lenti þingmönnum saman strax í upphafi. Gefin var úr gul viðvörun. Ekki vegna veðurs heldur vegna gulra svitabletta í fötunum mínum en þvottavélin á Urðum bilaði og engin leið að vita hvenær næsti hurðarrofi í Electroloux Timecare 500 kæmi til landsins.

26. janúar. Ríkissáttasemjari nennti ekki lengur að hlusta á deiluaðila kýta og baknaga hvorn annan og lagði því fram miðlunartillögu til að sprengja viðræðurnar endanlega í loft upp.

28. janúar. Éljabakki gekk yfir Norðurland og um hríð var hríð. Síðan blotnaði í snjónum og Svarfdælingum einnig, enda þorrablót og þorrabloti á Rimum um kvöldið. Ekki var gerður aðsúgur að mér fyrir annálsskrif, enda allt persónulegt níð í skjóli nafnleyndar.

30. janúar. Smálægð gekk yfir karphúsið og olli það nokkrum loftþrýstingi, votti af háþrýstingi og almennum þrýstingi hjá samninganefndum SA og Eflingar.

2. febrúar. Gefin var út viðvarandi svitagul viðvörun vegna þess að þvottavélin á Urðum var enn biluð. Einar brynnti músum enda voru þær orðnar mjög þyrstar.

4. febrúar. Það slitnaði ekki upp úr kjaraviðræðum SA og Eflingar enda engar viðræður í gangi. Sjúklingum með slæma hálsbólgu fækkaði nokkuð á Landspítalanum en hins vegar fjölgaði þeim sem lagðir voru inn vegna svæsnar verðbólgu í liðum. Mjög mörgum liðum.

6. febrúar. Lesendum var strax farið að kvíða fyrir Konudeginum, enda miklar líkur taldar á bloggfærslu frá Einari Haf þann dag. Gefin var út gul viðvörun fyrir Vesturland, Suðurland og Tenerife en á þessum tíma var Tenerife einmitt fjölmennasta kjördæmi Íslands.

8. febrúar. Fimm fílar lögðu af stað í leiðangur, lipur var ei þeirra fótgangur. Takturinn fannst þeim heldur tómlegur, svo þeir tóku sér einn til viðbótar. Það gerðist einmitt þann 8. febrúar samkvæmt mínum heimildum.

10. febrúar. Lægð við Hvarf hvarf og kom því ekki til landsins. Seðlabankastjóri setti upp á sig stýri og stýrivexti sem héldu áfram í örum vexti.

13. febrúar. Lægð í kvenmannsfötum fór framhjá landinu, svokallað lægðardrag. Uppskafningur í innsveitum en heiðríkja á heiðum. Eflingu og Samtökum atvinnulífsins samdi ekki og því var ekki samið. Ríkissáttasemjari steig til hliðar, fór svo í hliðar saman hliðar, snéri sér í hring og hnerraði.

15. febrúar. Vegna verkfalla greip um sig skelfing og óðagot hjá mörgum. Varað var við svokölluðum bensínhamstri. Ég fletti upp í dýrabókinni minni en fann engan bensínhamstur þar. Telst málið enn óupplýst.

18. febrúar. Lægð nálgaðist landið með hægð. Bloggarinn Einar Haf fattaði að hann yrði að fara að skrifa eitthvað ef hann ætlaði sér að birta bloggfærslu í Konudagsgjöf. Samningaviðræður í karphúsinu stóðu yfir allan daginn en settur sáttasemjari sá að eina leiðin til að halda viðræðum gangandi væri sú að láta fylkingar Eflingar og SA funda sitt í hvoru herberginu.

19. febrúar. Þorrinn fór og Góan kom. Konudagurinn tók við af Þorraþrælnum og voru það ágæt skipti. Einar Haf er það sem konur vilja ekki vera….einar. Upp úr slitnaði í karphúsinu, verkföll og vöruskortur eru því framundan. Gul viðvörun á Suðausturlandi en óvissustig almannavarna vegna stóra þvottavélamálsins á Urðum. Einari finnst það góð hugmynd að birta lengstu bloggfærslu Svarfdælskrar bloggsögu á veraldarvefnum í tilefni konudagsins.

Engin vísa, ekkert grín
Sólveig seint mun skammast sín
úfinn er Halldór Benjamín
þjóðin ben mun hamstra sín.

23. febrúar. Einar Haf er talinn standa þjóðfélagsskipaninni fyrir þrifum vegna nýjustu bloggfærslu sinnar og er þar af leiðandi sett lögbann á bloggsíðuna, enda eru þrif lögvernduð starfsgrein og engum heimilt að standa fyrir þrifum nema starfsfólki sem starfar undir kjarasamningi Eflingar.

Einar langur dreginn.

Tilvitnun dagsins:

Allir: LAAAAANNNNNGGGGGGDDDDDRRRREEEEGGGGIIIIIÐÐÐÐÐ!!!!!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *