Ágætu lesendur.
Þegar ég var beðinn um að koma með efni í jólablað DB blaðsins lá auðvitað beinast við að koma með eitthvað grín. Jólin eru hugsanlega ekki rétti tíminn til að vera með grín – en öðru máli gegnir um áramótin. Þess vegna ætti kannski að lesa þennan pistil nær gamlársdegi en aðfangadegi. Jæja, við skulum samt gera tilraun. Hér kemur því jólaleg samantekt úr nýútkominni skýrslu Leppalúða, tröllkarls og ríkisendurskoðanda í hjáverkum, þar sem fjallað er á afar hátíðlegan hátt um sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka fyrr á árinu.
En það bar til þá um vorið að boð komu frá ríkisstjórninni um að Bankasýsla ríkisins skyldi selja 22,5% hlut í Íslandsbanka í lokuðu útboði. Var þetta alls ekki fyrsta bankasalan í lokuðu útboði og var gjörð þá er Bjarni Ben var fjármálaráðherra yfir Íslandi. Fóru þá áhugasamir útvaldir kaupendur hver til síns heima og hugsuðu málið.
Þá fór og Jósef úr Garðabæ frá borginni Reykjavík inn á netið og lét skrásetja sig fyrir lokuðum hlut í lokuðu útboði á lokuðu tilboði ásamt Maríu heitkonu sinni sem var mjög heit kona og þar að auki þunguð og þungt hugsi. María vildi koma sér út á land til að fæða og ala upp barnið sem var eingetið og ekki einleikið, enda engin leikskólapláss í boði í borginni. Ástandið í heilbrigðiskerfinu gerði það hins vegar að verkum að hún neyddist að lokum til að leita á náðir bænda og eiga barnið í fjárhúsinu – því eigi var rúm handa þeim í gistihúsi sem var yfirfullt af erlendum ferðamönnum í norðurljósaskoðun.
En í sömu byggð voru fagfjárfestar úti á túni að gæta aura sinna. Og forstjóri Bankasýslunnar stóð hjá þeim og ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir um peningana sína en forstjóri Bankasýslunnar sagði við þá: Verið óhræddir! Því sjá, ég boða yður mikinn gróða sem veitast mun ykkur öllum. Yður er í dag seldur eignarhlutur í ríkiseign á afar hagstæðu verði. Og hafið þetta til marks, þið munuð stórgræða á þessu á aðeins örfáum dögum. Og í sömu svipan var með forstjóra Bankasýslunnar fjöldi himneskra og himinlifandi spákaupmanna sem lofuðu einkavæðinguna og sögðu; Dýrð sé öllum þessum rosalega háu upphæðum og friður á jörðu með mönnum sem Bjarni Ben hefur velþóknun á. Sérstaklega pabba hans. Upp frá þessu lifðu allir fagfjárfestarnir saddir og sælir. Sælir eru þeir sem banka eiga því þeirra er gróðinn.
Það eru ekki allir svo heppnir að eiga hlut í banka og því þarf að semja svokallaða kjarasamninga þar sem samtök atvinnurekenda annars vegar og samtök launþega hins vegar, semja um kaup og kjör hvort sem þeim líkar það betur eða verr. Yfirleitt líkar mönnum það verr því það fá aldrei allir allt sem lagt var upp með. Þetta árið var ákveðið að semja svokallaða skammsýna samninga. Lengi vel áttu þetta að vera skammtímasamningar en vegna skamms tíma við samningsgerðina tók skammsýnin völdin. Í smáa letrinu kemur fram að allir fái þá eitthvað fallegt en hvað það nákvæmlega verður veit nú enginn. Vandi er um slíkt að spá.
Útgáfa stendur í miklum blóma nú á aðventunni, bókaormum, lestrarhestum og blaðasnápum til mikillar ánægju. Bankaskýrsla um bankasýslu, hrútskýranleg hrútaskrá og kindarlegir kjarasamningar eru meðal heitustu bitanna í bókatíðindunum en til að toppa allt hefur forsætisráðherra nú skrifað og gefið út glæpasögu sem heitir Reykjavík. Í bókinni þurfa íbúar Reykjavíkur að glíma við alls kyns uppskálduð vandamál á borð við fyrirhugaða borgarlínu, Evrópumet í svifryki og umferðaröngþveiti, blóðugt næturlífið í miðbænum og önnur glæpsamleg athæfi sem eiga sér stað með reglulegu millibili. Fylgist spennt með, forsætisráðherra mun lesa valda kafla úr bókinni í áramótaávarpi sínu að kvöldi gamlársdags. Alls ekki við hæfi barna….eða Bjarna.
Góðir lesendur, það er ekki góðæri í landinu. Hins vegar eru góðar ær í landinu, sem er mun betra. Hvar værum við ef ekki væri til staðar íslenska sauðkindin? Þjóðargersemin, bjargvætturinn og bjartsýnisvaldurinn sem veitt hefur svo mörgum sólargeislum inn í líf okkar sem landið byggjum. Ég get alveg sagt ykkur það. Við værum í bráðum háska, svöng og skjálfandi af kulda. Þegar hættur steðja að og tregi og sorg fylla hjörtu og hugi er það yfirleitt íslenska sauðkindin sem kemur til bjargar, með brosi sínu og blíðu…já og kannski brúnni sósu. Þetta skulum við muna nú um jól og áramót.
Gleðileg jól.
Einar Hafliðason