Kæru landsmenn.
Það er við hæfi nú um áramót að staldra aðeins við, líta til baka, líta yfir farinn veg, líta fram á veginn, líta til beggja hliða áður en farið er yfir farinn veg, líta aðgerð, líta um öxl, líta læknir, líta á öxl, nudda öxl, reisa sér hurðarás um öxl, huga að öxlunum og smyrja öxlana. Þá er gott að líta í eigin barm, líta í barm annarra og gera barmasamanburð – og barma sér svo í beinu framhaldi. Það er líka við hæfi um áramót að koma alls kyns vafasömum skoðunum og rangfærslum á framfæri með því að dulbúa þær sem áramótahugvekju. Á þessum síðustu og verstu tímum er við hæfi að síðasti og versti bloggarinn komi með síðustu og verstu bloggfærslu ársins. Hvernig var þetta nú aftur með áramótasíðkjólinn minn, var hann ekki síðastur og verstur? Nei ég átti einn sem var enn síðari….. og verri.
Veðurstofa Íslands gaf nú rétt í þessu út appelsínugula viðvörun fyrir næstu efnisgreinar hugvekjunnar. Búist er við mikilli ófærð í kaflanum um sauðkindina.
Skæru landsmenn. Árið sem er hér um bil alveg að renna sitt skeið hefur um margt verið afar sérstakt. Samkomuhömlum var aflétt í eitt skipti fyrir öll og hömlur á viðskipti við Rússland komu í staðinn. Grímuskylda vék fyrir grímulausum áróðri af ýmsu tagi og fjarlægðartakmarkanir urðu fjarlægar takmarkanir þegar leið á árið. Kórónuveiran heldur áfram að hrella grandvaralausa landsmenn nú í hömluleysinu en vonandi fjarar kraftur veirunnar út í Fæser og fyllingu tímans. Ýmsir aðrir vágestir hafa leikið lausum hala í þjóðfélaginu á árinu sem er að líða. Nægir þar að nefna inflúensuna, upp og niður pestina, verðbólguna, bloggarann Einar Haf, mávana í Urðaenginu, föður ríkislögreglustjóra og tryggingasölumenn. Vágestir? Nei meira svona vá….gestir!
Hvar værum við ef við hefðum ekki ærnar? Sjálfa sauðkindina? Það get ég sagt ykkur. Við værum hnípin og skjálfandi úti í horni að drepast úr kulda og hungri. Í árhundruði hefur íslenska sauðkindin haldið lífinu í landanum með því að fórna sjálf sínu eigin lífi, útigengin, belgfull af grænum grösum og södd lífdaga – tilbúin að gefa eftir sitt eigið líf mannkindinni til hagsbóta. Já eða svoleiðis. Sauðkindin gefur okkur svo ótal margt. Má þar nefna hrygg og gæruskinn, frampart og afturpart, teygðan lopa og óteygðan lopa. Fullvíst má telja að sauðkindin mun spila lykilhlutverk þegar kemur að áframhaldandi vexti og vindgangi…nei ég meinti viðgangi þjóðarinnar á komandi ári.
Veðurstofa Íslands hefur gefið út að áður útgefin appelsínugul viðvörun sé nú orðin gul en viðvörunin gæti orðið dul þegar líður á hugvekjuna.
Tæru landsmenn. Ísland er meiriháttar krúttlegt land. Hér eru allir innviðir annað hvort sprungnir eða við það að springa vegna álags en samt fáum við hingað ferðafólk í milljóna vís, dolfallið yfir ósnortinni náttúrufegurð og vályndu veðurfari. Hér er loftið svo ofboðslega tært, ljósið svo yfirgengilega skært og fólkið óaðfinnanlega hært. Hér eru hæstu og bestu stýrivextir á byggðu bóli. Hér eru höfuðstólar lána þeir traustustu og greiðslubyrðin sú hagstæðasta, fyrir lánveitendur. Hér renna hreinustu ár og hreinustu lækir sem fyrirfinnast í víðri veröld og þó víðar væri leitað. Svo lengi sem aurspýjur vegna öfga í veðurfari og bráðnir jöklar af mannavöldum skemma ekki stemmninguna fyrir okkur. Hér eru bestu rútubílstjórar í heimi, sem keyra ferðamannadúllunum um allar koppagrundir í öllum veðrum, þó svo að vegir séu merktir lokaðir og engin vitglóra í að halda áfram akstrinum. Við vitum hvað gjaldeyrir ferðamanna hefur mikla þýðingu fyrir krúttipúttulega hagkerfið okkar. Grænt rafmagn kemur úr öllum innstungum og streymir án afláts og óhindrað inn í hugi og hjörtu fólks, hringrásarhagkerfinu til hagsbóta. Enginn skilur hvernig hin grænu orkuskipti eiga að fara fram ef ekki má virkja fleiri fallvötn og náttúruperlur til að framleiða meira rafmagn fyrir alla rafmagnsbílana, allar tölvurnar, alla er-fræjerana og öll unaðstækin úr blöss. Stefna stjórnvalda er hér eftir sem hingað til sú að bæði sé hægt að sleppa og halda. Eða ég held það allavega.
Áhrifavaldar gerðu sitt besta til að komast til áhrifa og hafa áhrif á okkur á árinu. Gaman er að geta þess að ég er undir áhrifum eins og er, annars gæti ég aldrei klárað hugvekjuna. Hvaða áhrifavaldi er það að þakka? Sennilega Víkingi, man ekki hvers son hann er. Áhrifavaldar voru duglegir að taka af sér myndir á árinu sem er að líða og greina almenningi frá öllu því helsta sem á daga þeirra dreif og öllum þeim styrktaraðilum sem greiddu fyrir herlegheitin. Hvað sést svo á þessum myndum? Til dæmis nýjar stellingar, nýjar húðvörur, nýjar varir, nýr fatnaður, vöðvauppbygging, brúnkustig, gljástig, fituprósenta, vaxtaprósenta, hárvöxtur, líkamsvöxtur, kærastar, kærustur, gleðskapur og glaumur.
Væru landsmenn. Það er ljóst að hættur og ógnir steðja að á flestum sviðum mannlegrar tilveru. Óstöðvandi smitsjúkdómar, styrjaldir og stríðsátök, sóun auðlinda, framboð Trömps, matvælaóöryggi, fjölgun áhrifavalda og eyðing ósonlagsins eru bara nokkur dæmi um þetta. Hvað er hægt að gera? Því verður auðvitað ekki svarað í svona áramótahugvekju, enda ekki við því að búast. Þetta voru bara svona vangaveltur af minni hálfu, ég ætlaði alls ekki að vekja óhug meðal lesenda. Nema þá að ég breyti þessu bara í áramótaóhugvekju. Þá getur svartsýnisrausið haldið áfram eins og ekkert sé.
Víða kreppir skóinn. Gríðarlegar verðhækkanir og verðbólga hafa sett svip sinn á árið sem er hér um bil alveg að fuðra upp – og hafa ófáar krónurnar fuðrað upp á verðbólgubálinu. Ég furða mig á því…eða fuðra. Nánast sama er hvar borið er niður, allt er að hækka nema hvað að ég er ennþá bara 1,76. Ríki og sveitarfélög berjast í bökkum og velta þarf við hverri krónu til að ná endum saman. Útlit er fyrir áframhaldandi sultarólaherðingar á komandi ári og þá er nú gott að hafa varaforða. Ekki viljum við að allt endi sem rústir einar…..Einar?
Færu landsmenn. Leiður er læklaus maður. Samfélagsmiðlar spiluðu stóra rullu á árinu sem er hér um bil alveg að ljúka sér af, samkvæmt samfélagsmiðlum. Fyrirséð er að sú þróun haldi áfram á næstu árum, samkvæmt samfélagsmiðlum. Þjóðfélag nútímans byggir á því að vera í stöðugu sambandi alltaf allsstaðar og snjallsímar og smáforrit geta gert hvern mann geðveikan á afar skömmum tíma ef ekki er varlega farið, samkvæmt samfélagsmiðlum. Úreltasta gerð samfélagsmiðla samkvæmt samfélagsmiðlum eru bloggsíður og því fer vel á því að úreltasti smáhrifavaldurinn noti þann miðil til að koma skoðunum sínum á framfæri. Reiknað er með fjölmörgum deilingum, allnokkrum lækum og slatta af athugasemdum á nýju ári, samkvæmt samfélagsmiðlum.
Veðurstofa Íslands hefur gefið út að gul viðvörun er orðin dul en dregur þó ekki dul á að hún gæti orðið gul aftur ef Einar Haf fer ekki að ljúka þessari hugvekju.
Æru landsmenn. Íslensk þjóð er þrautseig þjóð. Hér við ysta haf hefur þjóðin þraukað hvert hallærið, hverja pláguna og hverja hörmungina á fætur annarri. Horfellir, móðuharðindi, kórónuveirur, frostavetrar og fárviðri hafa dunið á með reglulegu millibili en ævinlega hefur nógu mörgum tekist að lifa af til að hægt sé að halda partýinu gangandi. Von er á frekari hörmungum á komandi ári en ég get þó huggað ykkur með því að sennilega verða hörmungarnar léttvægar í samanburði við þessa áramótahugvekju.
Mikið hefur verið um fólk á flótta á árinu sem er alveg næstum því liðið. Fjölmargir flýja hörmungar í heimalandinu og leita nauðugir að betra og öruggara lífi. Forstjóri bankasýslunnar er á flótta undan fréttamönnum og ég sjálfur er á stöðugum flótta undan sannleikanum en almennt eru Íslendingar á stöðugum og rándýrum flótta frá eigin leiðindum og er þá vinsælast að flýja til Tenerife og annarra suðrænna aflandseyja. Þar hópast Íslendingar nú saman í hundruðatali og halda áfram að eyða gjaldeyrisvaraforðanum í tóma vitleysu. Nýverið gaf veðurstofan út gula viðvörun á Tenerife. Ekki vegna veðurs heldur vegna fjölda Íslendinga sem þar voru staddir með svæsna matareitrun sökum jólaboðs að íslenskum sið. Ekki hefur enn tekist að þrífa þau salerni sem verst urðu úti á Íslendingahótelinu. Lýsandi fyrir árið…..sjitt hægðir.
Þegar öllu er á botninn hvolft og þegar allt kemur til alls skiptir ekki máli hvað gerðist eða gerðist ekki á árinu sem er hér um bil á enda runnið. Það sem skiptir máli er að hægt sé að sprengja árið í burtu með baneitruðum flugeldum og stórhættulegum skottertum án þess að fyllast sótskömm, kolefniskvíða og öðrum loftslagstengdum vandamálum. Nokkuð langt er liðið síðan síðast var haldið upp á áramót í hömluleysi. Ég hvet ykkur ágætu lesendur þó til að viðhalda hæfilegri fjarlægð við logandi ragettur og íkveiktar skottertur, tveggja metra reglan gildir ennþá þar….hið minnsta.
Bálið brennur, svífur sót síðan koma áramót. Ég er bæði mildur, meyr og mjúkur eins og tröllaleir.
Bæru landsmenn. Að síðustu óska ég ykkur öllum farsældar á komandi ári og þakka um leið fyrir samfylgdina, lesturinn, afskiptin og samskiptin á fjárans árans fárinu og árinu sem er við það að veslast upp. Njótið áramótanna sem best þið getið en gætið ykkar þó á hömluleysinu.
Koníakstofan á Bessastöðum, 31. desember 2022.
Einar Okkar Hafliðason.