Orðin trúleg

Guðhræddu lesendur.

Í tilefni af allra heilagra messu er ekki úr vegi að bloggarinn Einar Haf sýni sitt allra heilagasta og láti trúhræðslu sína bitna illilega á sóknarbörnum og öðrum lesendum. Þessi bloggfærsla er að mestu endurunnin upp úr lítið lesnum guðspjöllum enda engin ástæða til að láta spjöllin fara til spillis. Ætlast þú svo til að við trúum þessu? Trúlega. Is it trú? Já heldur betur. Bara aðeins meiri trú og þá hefði Jóhanna unnið Júróvísjón og andsetni norski fiðluflipparinn lent í öðru sæti.

Trúmál eru nú sem fyrr afar áberandi í þjóðlífinu. Samkvæmt nýlegri könnun hafa kaupmenn mikla trú á góðri jólavertíð og neytendur standa að sama skapi í þeirri trú að þeir muni gera góð kaup í kristilegum anda. Í bæklingi sem nú hefur verið dreift í flest hús er fagnaðarerindið boðað og það staðhæft að jólin þín byrji í kirkjunni IKEA. Þessari fullyrðingu til stuðnings hafa stjórnendur IKEA látið reisa gríðarstórt og eldfimt geitarlíkneski við verslunina. Munu trúaðir neytendur geta komið þangað öllum stundum og tilbeðið hina mammonsku og gullslegnu geit. Verði trúarhitinn of mikill er hætt við að geitin fuðri upp á verðbólgubálinu en hún yrði reyndar ekki sú fyrsta til að brenna fyrir málstaðinn.

Þeir sem nú sitja við kjarasamningaborðið hafa litla sem enga trú á því að það takist að semja um kaup og kjör í bráð enda eru bæði himinn, haf og Einar Haf á milli aðila þegar kemur að vonum og væntingum um nýja kjarasamninga. Auðvitað má alltaf vonast eftir kraftaverki og því verður næsta útspil samningsaðila að fá Þjóðkirkjuna með sér í lið. Jesús mettaði fimm þúsund manns með fimm brauðum og tveimur fiskum hér í eina tíð og vonir standa til að hann fáist til að endurtaka leikinn þannig að létta megi undir framfærslu hinna tekjulægstu. Þá myndi það koma ÁTVR og þar með ríkissjóði til góða ef tækist að semja við meistarann um að hefja að nýju að breyta vatni í vín, sérstaklega í ljósi boðaðra hækkana á áfengisgjaldi.

Í þeirri veiku von að bjarga glötuðum sálum og til að öðlast guðsblessun þora sóknarprestar Dalvíkur- og Möðruvallaprestakalls ekki öðru en að messa með reglulegu millibili, þar á meðal í Urðakirkju. Sumir vilja meina að það sé messað full oft en aðrir vilja meina að það sé messað alltof sjaldan. Vegna heimsfaraldurs hefur samkvæmt mínu bókhaldi verið messað um það bil árlega á tveggja ára fresti síðustu misseri og svo má deila um hvort það sé of oft eða of sjaldan. Burtséð frá tíðni messuhalds á kirkjan auðvitað ávallt að standa fólki til boða og þangað á fólk að geta leitað bæði í gleði og sorg, á hamingjustundum sem og í erfiðleikum og neyð. Urðakirkja hefði vissulega staðið fólki opin og breitt út kristilegan faðm sinn ef útidyrnar hefðu ekki staðið á sér á ögurstundu. Seinni partinn í október var boðað til messu en þegar opna átti kirkjuna í aðdraganda messunnar stóðu kirkjudyrnar…eða hurðin á sér vegna notkunarleysis og enginn komst inn um dyrnar…eða hurðina. Þegar loks tókst að sækja trúarlegan styrk í bókstafstrú og dyrastafstrú opnaðist kirkjan og varð eigi aftur lokað með góðu. Varð því kirkjan að standa opin þar til viðgerðarmaður kæmi á staðinn enda engin leið að loka dyrunum…eða hurðinni. Þrátt fyrir að kirkjan stæði opin trekkti það ekki að neina kirkjugesti, öfugt við það þegar fasteignasalar auglýsa opin hús og allt fyllist af fólki. Sennilega voru allir erlendis eða í höfuðborginni að kynda undir verðbólgunni í vetrarfríinu.

Trúarþorsta tæpast vilja svala
en tæta þess í stað um höf og lönd.
Á Tenerife þeir bjórinn drekka úr bala
og busla svo á heitri sólarströnd. 

Fyrir umrædda messu í Urðakirkju hafði það spurst út að hringjari dagsins yrði Einar Haf og að hann myndi notast við nýklassískan Nokia hringitón, H-moll. Fyrirfram taldi ég að þessar fregnir (auk hinna illa lokanlegu kirkjudyra….eða hurðar) myndu hafa jákvæð áhrif á mætingu messugesta en því var öfugt farið og hafa sjaldan mætt eins fáir til guðsþjónustu og nú. Aðeins þeir allra skylduræknustu og guðhræddustu mættu. Til messunnar mættu einn prestur, einn organisti, ellefu kórmeðlimir, sex kirkjugestir (þar af einn hringjari) og fimmtíu og átta kirkjuflugur. Allir sungu saman sálm númer 29 og báðu um betri hurð og smurðari lamir.

Mikli Drottinn, dýrð sé þér,
dásemd þína um aldaraðir
hurðin þrútin orðin er
í andakt utandyra glaðir
dyrastaf þinn föllum á
smurðar lamir allir þrá. 

Að lokinni guðsþjónustu var öllum nema kirkjuflugunum boðið inn í kaffi á Urðum og mæltist það vel fyrir hjá öllum nema kirkjuflugunum.

Kór og klerkur gleði ekki leyna
kætast þegar messað er á ný
sálmasöngur mun á raddbönd reyna
rjómi og súkkulaði bjarga því
ef ég væri orðin kirkjufluga
ég kúkað gæti ljósakúplum hjá
og þó ég ei til annars mætti duga
ég andast gæti gluggakistu á.

Hrekkjavökubúningar fræga, fallega og ríka fólksins voru afar fjölbreyttir, nýstárlegir og jafnvel lygilegir þetta árið. Bjarni Ben klæddi sig í jakkaföt af Guðlaugi Þór og Guðlaugur Þór klæddi sig í jakkaföt af Bjarna Ben. Útkoman var vægast sagt sláandi. Forsætisráðherra dulbjó sig sem rithöfund, Einar Haf klæddi sig eins og Gísli á Uppsölum og pabbi ríkislögreglustjóra fór í gervi vopnasafnara. Ótrúlegt….en satt.

Einar ofsa trúar.

Tilvitnun dagsins:

Allir: AMEN!!!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *