Akureyri.net kynnir til sögunnar nýjan pistlahöfund Einar Hafliðason.
Góðir lesendur.
Nú loksins, í fyrsta skipti á íslensku, erindi frá erindrekanum Einari Haf. Ég á að vísu ekkert erindi við almenna lesendur þessa vefmiðils, en það verður bara að hafa það. Lögmálið um framboð og eftirspurn gildir ekki alltaf. Varúð, þeir sem lesa einarhaf.labratorian.net í áskrift hafa eflaust lesið allt það sem fram kemur hér á eftir.
Gífurleg fjölgun ferðamanna hér á landi heldur áfram að koma ferðamannaparadísinni Íslandi í klípu. Nú er svo komið að í óefni stefnir verði ekkert að gert. Hingað flykkjast túristarnir tugþúsundum saman og sveima um alla þá staði sem mögulega gætu talist áhugaverðir og þar sem mögulega er eitthvað áhugavert að finna, vítt og breitt um landið. Gildir einu hvort um ræðir fallvötn, fjöll, þúfur, mosa, huldufólk, norðurljós, verðtryggð lán eða eitthvað annað séríslenskt. Alltaf eru ferðamennirnir mættir. Vandamálið er að þegar þessir sömu ferðamenn þurfa á klósettið að gera númer 1, númer 2 eða bæði grípa þeir oftar en ekki í tómt. Víða eru engin klósett og sums staðar eru ekki einu sinni hólar, tré, runnar, eldri borgarar eða eitthvað annað sem hægt er að skýla sér á bak við. Fyrir vikið verður upplifun ferðamannanna ekki eins góð og hún annars hefði orðið og margir hverjir þurfa að ganga í keng burt frá náttúruperlunni og aka rakleiðis að þeirri næstu í þeirri von að þar séu salerni. Sumir ferðamenn eru alls ekki á bíl heldur fara á milli staða fótgangandi í hægðum sínum. Þeir hafa því þurft að ganga örna sinna hringinn í kringum Ísland, en við skulum ekkert fara nánar út í það skítamál. Hvernig snúum við þessari þróun við? Uninspired by Iceland.
Góðærið hefur að nýju hafið innreið sína í íslenskt þjóðfélag, Dabba kóngi sé lof. Millistjórnendur eru loksins komnir á verulegt launaskrið og stjórnendur maka krókinn í eitt skipti fyrir öll, ekki bara stjórnendur Krókamökunar ehf. heldur margir fleiri stjórnendur. Auðlegðarskatturinn heyrir sögunni til þannig að vonir standa til að hægt verði að maka krókinn enn frekar á komandi misserum. Eina vesenið er kvabbið í verkalýðnum nú þegar enn og aftur styttist í að semja þurfi að nýju um kaup og kjör á almennum vinnumarkaði og nokkurra þúsundkalla launahækkun fyrir þá sem hafa margra ára háskólanám á bakinu og skulda milljónir í námslán. En hverjum er ekki sama um það þegar millistjórnendur nálgast margir hverjir 3 kúlur á mánuði? Bráðum fæ ég kúlu á hausinn og ég veit hvers vegna.
Nú nýverið átti að taka af dagskrá Rásar eitt hina sívinsælu þætti Morgunandakt, Bæn og Orð kvöldsins. Alveg gat það nú verið. Heiðingjarnir og trúarslóðarnir í dagskrárstjórn og útvarpsráði láta þjóðkirkju og þjóðtrú lönd og leið og hyggjast skipta út nokkurra mínútna andlegu næringarefni fyrir eitthvað bévítans óperurúnk og dægurþras. Ó nei, biskupinn kom snarlega í veg fyrir þetta, að áeggjan umsjónarmanns lóðarinnar við Urðakirkju og fleiri máttarstólpa íslensku þjóðkirkjunnar. Ekki náðist í þennan trúarofstækisfulla umsjónarmann við gerð þessarar efnisgreinar þar sem hann var upptekinn við að tefla við páfann.
Nú nýverið kynnti Alþingi Íslendinga vetrardagskrá sína með pompi og prakt. Á dagskrá þingsins í vetur verða margir áhugaverðir þættir, bæði nýir og gamlir. Má þar meðal annars nefna spjallþáttinn Maður er uppnefndur, spurningaþáttinn Útsvarshækkun, skemmtiþáttinn Klúrt orðbragð, tónlistarþáttinn Bjölluglamur, fréttaskýringaþáttinn Þrasað og þrefað og loks íslenska glæpaþáttinn Hraunið, þar sem hraunað verður yfir hina og þessa þingmenn sem eiga það skilið. Til stóð að setja á dagskrá barnaþáttinn hjartnæma um Kærleiksbangsana en því miður náðist ekki þverpólitísk samstaða um það. Krakkarnir verða því bara að ná sér í eitthvað gott barnaefni á netinu í staðinn í boði Pírata og pirate bay.
Hvað með stóra lekamálið? Nei þetta sleppur, það er ekki ennþá byrjað að leka málið. Skál.
Höfundur sleit barnsskónum meðan á gerð þessa pistils stóð. Skórnir eru því miður taldir ónýtir.