Orðin átaka(n)leg

Rímuðu lesendur.

Í kápur klæðast börnin ung, vott er úti veður. Í myrkri þoku lund er þung, brátt er skaðinn skeður. Nóttin er víst ennþá ung, ég klæði mig í leður. Á safni sá ég siginn pung, á vegg þar hanga reður. Já það er enginn vandi að villast og þá er varla um að villast; Einar Haf er aftur tekinn til við að viða að sér við og úr efniviðnum verður ein allsherjar bloggþvæla. Vakin er athygli á mögulegum athyglisbresti sem hlotist getur af lestri þessarar færslu.

Sláturtíð stendur nú sem hæst en hún tók við af svokallaðri slaufunartíð sem staðið hafði yfir í nokkra mánuði. Sauðfé sem er slátrað og frægir sviðslistamenn, forstjórar og sjónvarpsstjörnur sem er slaufað eiga það sameiginlegt að eiga ekki afturkvæmt, hvorki í þennan heim né annan. Lömbin þagna en kjötætur fagna þegar þær borða lömbin upp til agna. Eins og margoft hefur komið fram hér á bloggsíðu allra landsmanna er það sauðkindinni að þakka að enn þrífst byggð vítt og breitt um landið og raunar standa Íslendingar í stórri þakkarskuld við sauðkindina vegna alls þess fjölmarga sem hún hefur gert til að halda lífinu í þjóðinni gegnum hallæri og hungur fyrri alda. Mikilvægt er nú sem endranær að bæta á forðann í frystikistunum fyrir veturinn og tryggja með því matvælaöryggi sem mikið hefur verið rætt og ritað um. Þá verður enginn svikinn af taðreyktu hangikjöti sem til stendur að galdra fram á gamla mátann. Æi góði besti hættu þessu jarmi og kveiktu í þurru kindalortunum…ekki reykir kjötið sig sjálft er það?

Nokkuð hefur borið á hneykslunargirni í þjóðfélaginu upp á síðkastið og ég er auðvitað verulega hneykslaður vegna þess. Nýlegar mælingar hafa raunar staðfest að hneykslunargirni er orðið þriðja algengasta girnið á markaðnum, næst á eftir nælongirni og nýjungagirni. Fólk er hneykslað á verðhækkunum, veðrinu, sjónvarpsdagskránni, stjórnmálamönnum, gerendum, þolendum, gagnrýnendum, Gísla Marteini, áhrifavöldum, innflytjendum, ferðamönnum, fyllibyttum, vopnaburði, leirburði, áburði og samanburði svo dæmi séu nefnd. Enginn veit hver hneykslast næst og hvers vegna en mjög líklega verður það einhver á ársþingi Alþýðusambands Íslands. Þar er hver höndin uppi á móti annarri og flestir komnir í hár saman áður en farið er að tala um kjaramál. Innan verkalýðshreyfingarinnar berjast tvær aðskildar fylkingar um að komast til metorða; annars vegar fylking hneykslaðra og hins vegar fylking móðgaðra. Spennandi verður að sjá hver ber sigur úr býtum en eitt er víst og það er að mikil ó-eining mun koma við sögu.

Ef allir sem hlut eiga að máli sleppa lifandi frá ársþingi ASÍ liggur fyrir að setjast við samningaborðið og hefja kjarasamningaviðræður. Engar líkur eru taldar á því fyrirfram að það gangi vel enda ber afar mikið í milli aðila nú þegar. Kröfur verkalýðsins snúast sem fyrr um betri bíla, yngri konur, eldra viskí og meiri pening en atvinnurekendur telja sig með engu móti geta gengið að þeim kröfum. Mögulega verði hægt að semja um betri konur, yngra viskí og eldri pening en það sé þó alls ekkert víst enda eru verðbólguhorfur ískyggilegar og ástand heimsmála voveiflegt. Ef svo ólíklega vill til að það fari ekki allt til andskotans innan fárra vikna mun nýr kjarasamningur klárlega bæta geð og létta lund. Nýr barasamningur mun bæta drykkjumenninguna og þá gæti nýr hjarasamningur opnað dyrnar fyrir einhverjum. Ef allt klikkar verður að vera til vonar og varasamningur.

Snjómokstur er hafinn í Svarfaðardal og það áður en veturinn er formlega genginn í garð. Þetta verður að teljast verulega svekkjandi og jafnvel skúffandi, enda nákvæmlega engin eftirspurn eftir þeim snjó sem nú hefur látið sjá sig. Vegna rauðrar veðurviðvörunar sem þulin var upp í sífellu allan laugardaginn af andstuttum, uppveðruðum útvarpsfréttaþulum og sísveittum, óðamála óveðurskrákum á sjónvarpsskjánum puðuðu og púluðu bændur og vinnuhjú við það langt fram á kvöld að koma búpeningi í skjól, sumarblómum í var og tækjum og tólum undan ísingu og frosti. Það tókst að mestu en sem betur fer var veðrið hér um slóðir ekki alveg eins slæmt og það hefði eflaust geta verið. Veður eða óveður, gott eða vont veður og veður yfir höfuð eða bara ekkert veður. Það er auðvitað best þegar það er ekkert veður og ekkert sem veður yfir mann. Vonandi verður ekkert veður á næstunni en það er algjörlega undir verðandi kjarasamningi veðurfræðinga og Veðurstofunni sjálfri komið. Veður Einar reyk? Já vitaskuld.

Ég hef býsna gaman af því að tefla svona annað slagið og meðal annars spreyti ég mig gegn öðrum skákmönnum á veraldarvefnum þegar sá gállinn er á mér. Árangurinn lætur oft á sér standa og má spyrja sig hvernig geti staðið á því. Mögulega er það eitthvað tengt því að ég reiði nú ekki beint vitið í þverpokum en það getur samt ekki verið eina ástæðan. Ég hef kannað málið og komist að því að lykillinn að árangri býr innra með hverjum góðum skákmanni. Innra? Já, nánar til tekið felst árangurinn í unaðstækjum ástarlífsins sem komið er fyrir innra með fremstu skákmönnum heims. Þar lætur góður nettengdur vinur tækin titra og skjálfa þannig að þjóhnapparnir hristast og biskupinn fer á Einar sex á hárréttum tímapunkti. Skák og mát. Hinn bandaríski Niemann þykir afar sterkur skákmaður þegar kemur að nettengdum unaðstækjum og endatafli og þá einkum og sér í lagi svokölluðu afturendatafli. Þar stenst honum enginn snúning…þó vissulega sé smá skítalykt af þessu máli.

Vetur kaldur kom í gær
með kafaldsbyl og renningi.
Ég tefli oft á hættur tvær
og titra svo af spenningi.

Samkvæmt nýjustu fréttum hefur fylking hneykslaðra dregið framboð sitt til baka á ársþingi ASÍ og gengið út af þinginu í kjölfar þess að hafa móðgast heiftarlega sökum framferðis fylkingar móðgaðra á þessu sama þingi. Sérfræðingum ber ekki saman um hversu lengi þessi tiltekni skrípaleikur getur haldið áfram en það er alveg ljóst að einhverjir munu hneykslast meira og einhverjir munu móðgast meira. Skítt með kjarasamningana. Við fylgjumst áfram hneyksluð með gangi mála….og kannski pínu móðguð líka.

Einar átakanlegur í aftakaveðri.

Tilvitnun dagsins:

Allir: Hneyksli!!!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *